Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
14.11.2008 | 13:12
Íslensk gengi og glæpaklíkur
Gengi og glæpaklíkur eru ekki ný fyrirbrigði í mannkynssögunni. Þegar gengi og glæpaklíkur ber almennt á góma, er oftast átt við fræg nútíma glæpafélög eins og ítölsku Mafíufjölskyldurnar, suður amerísku eiturlyfjahringina, götugengi stórborganna eða mótorhjólagengi eins og Vítisenglanna.
Ef við lítum aftar í söguna má finna alveg jafn illræmd glæpaklíkur eins og launmorðingjaklíku múslíma þá er kölluðu sig Assassina, Indversku Fautana, (Thugs) hina kínversku Triad klíku og hin japönsku Yakuza samtök.
Sem betur fer hefur lítið kveðið af skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi fram að þessu og kemur þar líklega til smæð þjóðarinnar. Glæpaleynifélög þrífast illa þar sem allir eru með nefið ofaní hvers manns koppi, eða hvað?
Nú hefur greinilega grafið um sig í þjóðfélaginu ein gerð að gengi, kannski sú sem verst er að eiga við, vegna þess að hún skýlir sér á bak við það sem á yfirborðinu sýnist vera nauðsynleg og lögleg starfsemi. Þetta gengi flokkast undir þá gerð gengja sem nefnast "viðskiptagengi" (Corporate gangs) og er best þekkt undir nafninu "Útrásarvíkingarnir".
Eftir að þjóðin hafði horft á auð sinn busla í kringum landið í 1000 ár og ekki átt nógu stóra báta til að nálgast hann eða fanga, fékk íslenski draumurinn loks tækifæri. Á undraverðum tíma og með mikilli harðýðgi komst íslenska þjóðin sem lengi var talin fátækasta þjóð í Evrópu í tölu ríkustu og mestu velferðarþjóða heimsins. Samtímis varð fólk hennar það fegursta, sterkasta og gáfaðasta og hamingjusamasta í heiminum.
Á enn skjótari tíma náðu "Útrásarvíkingarnir" að kippa undan þjóðinni fótunum þannig að nú sýnist íslenski draumurinn tálsýn ein.
Gengið byrjaði að myndast snemma á tíunda áratug síðustu aldar og var grundvallað á afnámi reglna um fjármálastofnanir hérlendis sem rímuðu vel við hina svo kölluðu frjálshyggju-stefnu stjórnvalda.
Aðferðin sem þeir notuðu var ekki sérlega frumleg eða sú sama og peningaþvættisstjórar stóru glæpaklíknanna í heiminum nota til þess að koma illa fengnum peningum í umferð. Munurinn á "Útrásarvíkingunum" og eiturlyfja-barónunum er sá að í stað þess að selja eiturlyf svindluðu þeir fyrrnefndu féð út úr saklausum borgurum í útlöndum með loforðum um háa vexti.
Þeir keyptu sér þrjá banka og mynduðu um þá eignarhaldsfélög. Þeir létu bankana stofna innlánssjóði og tóku síðan það fé sem í þá streymdi "að láni" og létu síðan renna í gegnum svikamillu sem þeir byggðu upp samhliða. Þeir komust fljótt í þá stöðu sem óneitanlega minnir um margt á þá aðstöðu sem bandaríska Mafían var í þann mund að komast í á Kúpu rétt fyrir byltinguna þar og lýst er svo vel í bók Mario Puzo um Guðföðurinn. Draumur þeirra var að ná undir sig heilu landi þar sem þeir gátu starfað óáreittir og notað fjármálstofnanir þess til að láta illa fenginn auð sinn streyma eftir.
Eigendur (Útrásarvíkingarnir) eignarhaldsfélaga bankanna stofnuðu önnur félög sem síðan stofnuðu enn önnur rekstrarfélög sem síðan keyptu eignir og fyrirtæki víðs vegar um heiminn. Þannig kom gengið sér upp svikamillu með bankana á öðrum endanum sem saug til sín sparifé ógrandvarra viðskiptavina og sem gat um leið ávaxtað peningana sem komu inn frá fyrirtækjunum sem keypt höfðu verið á hinum endanum fyrir innlánsféð. Allt gekk þetta eins og smurð vél enda í samræmi við stefnu stjórnvalda. Að auki þáðu margir sem tengdir voru stórvöldum lífviðurværi sitt og bitlinga af bönkunum og systurfélögum þeirra.
Þegar allt komst upp í haust um leið og lausaféþurrð varð í bönkunum enda búið að "lána" allt fé þeirra á fyrrgreindan hátt, lýstu Útrásarvíkingarnir bankana sína og eignarhaldsfélögin einfaldlega gjaldþrota en héldu að sjálfsögðu öllum öðrum eignum sínum og fyrirtækjum sem þeir höfðu keypt sig inn í með "lánsfénu."
Þá kom í ljós að saman við féð sem gengið hafði í gegn um svikamilluna var blandað svo til allt rekstrarfé íslenska ríkisins. Það hafði verið látið streyma í gegn um bankana og notað á svipaðan hátt og annað innlánsfé þeirra.
Um þessar mundir leitar ríkisstjórnin logandi ljósi að einhverjum sem vill lána þeim aura til að borga aftur þeim sem fé var svindlað út úr og til að ekki komi til rekstrarstöðvunar þeirra sjálfra. Hún segir að það sé mikilvægast fyrir þjóðina að halda ró sinni og standa saman og vera ekki að eyða orku í að leita að einhverjum sökudólgum núna. -
En hvað gekk þessari fámennu klíku til. Flestir þeirra voru búnir að koma ár sinni fjárhagslega ágætlega fyrir borð, áður en þeir rottuðu sig saman til þessara óhæfuverka. -
Þegar litið er til rannsókna sem gerðar hafa verið á meðlimum annarra glæpagengja kemur í ljós að það sem raunverulega knýr meðlimi þeirra er eftirfarandi:
Leit að ást, lífsstoðum og aga.
Þörf til að tilheyra og helga sig einhverju.
Þörfin fyrir viðurkenningu og vald
Félagsskapur, þjálfun, spenna og athafnasemi.
Leit að sjálfsvirðingu og aðdáun
Leit að viðurkenningu
Þörfin fyrir öryggi og vernd
Fjölskylduhefðir
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.11.2008 | 17:05
Sex spurningar
Það er sama hvar ég ber niður, spurningarnar sem ég mundi vilja fá svör við verða ætíð fleiri. Mér finnast þessar spurningar ekki stórar og unni því illa að finna ekki svörin. Spurningar sem ég vildi gjarnan fá svar við um þessar mundir eru þessar;
1. Hvað varð um innlánsféð á Icesave reikningi Landsbankans?
2. Fara nýjar lántökur Íslands nú í að greiða fólki sem átti inni hjá Icesave? (Þeir eru byrjaðir að borga út)
3. Er fólk að mótmæla aðeins til að fá útrás fyrir reiði sína eða hafa mótmælin annað markmið?
4. Eru mótmælin vatn á millu þeirra sem vilja efla til muna öryggisgæslusveitir á Íslandi?
5. Hvers vegna er Geir Haarde svona vinsæll eins og fram kemur í nýlegri skoðannakönnun?
6. Hvers vegna versla Íslendingar enn mest við Bónus?
7. Til hvers þarf erlend lán til að fá ´hjól hagkerfissins´ til að snúast á ný?
Ég vil taka það fram að ÖLL svör eru þegin með þökkum.
4.11.2008 | 17:07
Landið bláa
Af fréttum, bloggi og fáeinum símtölum er ljóst að vargöld ríkir á Íslandi. 300.000 manns æða um í hamslausri bræði yfir því að blekkingavefurinn (matrixið þeirra) hefur verið rofinn.
Samsæriskenningar um "Falið vald" og "Zeitgeist" kynda undir gremjunni og fólk talar fullum fetum með krepta hnefa um byltingu og uppreisn.
Kannski er fólk enn of reitt til þess að hugleiðing af þessu tagi komi að nokkru gagni.
Í hverri viku koma eftir undarlegum leiðum fram upplýsingar sem auka enn á reiðina og staðfesta það sem allir vita innst inni að það er sama hversu oft fatan er látin síga í bruninn, alltaf kemur upp sama fúla vatnið.
Einhverjir líta í kring um sig og vonast eftir því að lausnarinn komið stígandi niður á skýjum himins, bjargvætturinn sem öllu reddar og vissulega eru margir til kallaðir. Vonabíar og jaðar-spámennirnir stíga fram hver af öðrum og heimta hárri röddu hver í kapp við annan að blekkingarmeistararnir verði dregnir fyrir rétt og vonast sjálfsagt eftir því að einhver muni eftir háreysti þeirra þegar frá líður og velji þá til að stjórna skútunni ef og þegar hún losnar af strandstað.
Spurningarnar hrannast upp en þeir sem hafa svörin gefa ekki viðtöl. Og ef fyrir tilviljun næst í skottið á einum þeirra, vefst þeim ekki tunga um tönn við að útskýra hvernig allt sé í eins góðum höndum og hægt er að búast við undir svona kringumstæðum og að þeir séu í óða önn að búa til nýjan vef sem komist í gagnið innan skamms. Þeir haga sér eins og sannir blekkingarmeistarar og fyllast sjálfsvorkunn og særðri réttlætiskennd til skiptis en passa sig á því að láta samtryggingakerfið, sem er þeirra á meðal, ekki klikka.
Allar fögru falskenningarnar um "sjálfstætt líf" auðmagnsins eru allt í einu afsannaðar og í ljós hefur komið að á bak við tjöldin hafa það alltaf verið "bara menn" sem réðu ferðinni. Bankar og fjármálstofnanir eru mannlegar stofnanir, gerðar til að þjóna manninum og stjórnað af mönnum. Samt lætur fólk enn eins og þessi Mammonsmusteri séu fjöregg þjóðarinnar. Þegar allt kemur til alls er tilgangur Banka aðeins að halda bókhald. Þeir framleiða sjálfir ekki neitt nema tölur.
Á meðan pólitíkusarnir vinna ósvinnuna sína, reyna fyrir sér hér og hvar með að fá lán til að allir geti látið um sinn að lífið geti haldið áfram eins og það var, koma sigurvegararnir, þeir sem voru búnir að koma eignum sínum fyrir í útlandinu, sterkir til leiks. Þeir hafa nú tíma til að taka sér formlega sæti í stjórn fyrirtækja sinna í útlöndum því Landið Bláa, nú blátt af heift og blóðleysi, gnægtabrunnurinn sem ól þá og gaf þeim allt, er þurrausin og draumalandið orðið að martraðarskeri.
Allar góðar góðar sjálfshjálparbækur benda fólki á að þegar að erfiðleikar steðja að sé best að mæta því með því að byggja á styrkleikunum. Eins og stendur, velta Íslendingar sér aðallega upp úr veikleikum sínum.
En hverjir eru styrkleikar þjóðarinnar? Það hefur alla tíð verið ljóst að fái íslendingar til þess tækifæri, er þeim fátt auðveldara en að afla peninga. Veikleikin er m.a. að þeir eru fljótir að eyða þeim.
En þessi styrkleiki er enn fyrir hendi og tækifærin eru enn til staðar.
Enn er varmi í jörðinni, orka í fallvötnunum, fiskur í sjónum, vit í kollum og ferðamenn sem vilja heimsækja landið. Efnislega eru tækifærin enn sannarlega öll til staðar.
Og andlega er þjóðin alveg á sama stigi og fyrir hrunið. Það er vandamálið. Hún heldur enn að hamingjan sé fólgin í því sem Bankarnir áttu að varðveita og er þess vegna afar annt um að hamingjuræningjarnir verði látnir gjalda fyrir rán sitt.
Hinir eiginlegu styrkleikar þjóðarinnar ættu að felast í karakter hennar. Til að endurreisa efnahagslíf þjóðarinnar á öðrum grunni en þeim gamla sem pólitíkusarnir eru nú í óða önn að reyna, þarf að koma til ný sýn á tilgang þessa alls. Það er greinilegt að þau siðferðilegu viðmið sem þjóðin reyndi að notast við, koma ekki lengur að gagni, ef þau hafa þá nokkru sinni gert það. Við erum að tala um að venda okkar kvæði í kross.
Þeir eiginleikar sem ekki eru mikils metnir í "heimi fjármagnsins" verður nú að setja á oddinn í samskiptum fólks. Það er ekki eins og okkur séu þeir alls ókunnugir, því vel flestum okkar voru þeir innrættir í æsku. Einhvern veginn virtust þessir eiginleikar samt hverfa þegar komið var inn á samskipti fólks á sviði stjórn- og fjármála.
Þessir eiginleikar eru m.a. hjálpsemi, miskunnsemi, samkennd, auðmýkt, ósérhlífni, fórnfýsi, virðing, traust, þolinmæði og fordómaleysi. Taki hver og einn upp með sjálfum sér meðvitaða rækt á þessum eiginleikum munu samskipti fólks breytast á stuttum tíma.
Bankar og ríkisstofnanir ættu að ganga á undan með góðu fordæmi og hafa þessa eiginleika að leiðarljósi í störfum sínum um ókomna framtíð. Við sjálf ættum að tileinka okkur þá og innleiða í öll samskipti okkar á milli.
Eiginleikar "gamla Íslands", græðgi, samkeppni, öfund, óbilgirni, lævísi, flokkadrættir, klíkuskapur og miskunnarleysi, verða upprættir að sjálfu sér með upptöku hinna nýju sjónarmiða.
Eflaust munu einhverjir sakna eiginleikans "réttlætis" úr þessari upptalningu. Staðan er sú að til að skapa réttlæti þarf að vera sameiginleg sýn á hvað réttlæti er. Hún er ekki til staðar nú, en hún mun myndast eftir því sem okkur tekst betur að móta með okkur nýtt siðferði byggt á hinum jákvæðu eignleikum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
3.11.2008 | 23:11
A banker’s life is the finest life
Það hlýtur að vera merki þess að málin eru komin á alvarlegt stig þegar að útlendingar setjast niður til að yrkja um ástandið á Íslandi. Ég fann þessar vísur á reki en þær eru eftir Elinóru Arnason sem ég kann ekki frekari skil á, en hún segist m.a. skrifa vísindaskáldsögur. Reyndar bendir eftirnafnið til að hún geti verið af íslenskum ættum en eins og af kveðskapnum má sjá, er vafasamt að hún hafi nokkru sinni komið til landsins.
A bankers life is the finest life
Thats known to man or God.
You sit inside, and you dont get wet
Hauling up haddock and cod.
You stay inside, and you dont get wet,
And you hardly ever drown;
Though you might be seen with brennivin
Wandering through the town.
But Id rather drown in brennivin
Than sink in the salty brine,
And handle lines of credit
Instead of a fishing line.
When I was young I went to sea,
And I thought I was a fool
To spend my day in the icy spray
Instead of in business school.
So I flew away to the USA
And got myself a degree
And settled down at the Landisbank,
And scorned the rolling sea.
Youd never think that a bank could sink
Like a fishing boat in a storm,
And the crew go down to an ugly fate
Under the churning foam.
Nothing is sure, the High One said
A thousand years ago.
Even wearing a business suit,
You can find yourself below
Where the fishes swim in the salty dim,
And the old seafarers sleep;
And so I curse, though it could be worse.
I could be herding sheep.
A bankers life is the finest life
Thats known to man or God.
Im going back to Isafjord
To haul up haddock and cod.
30.10.2008 | 19:19
Gremja Íslendinga
Það þarf ekki annað en að líta aðeins yfir skrif bloggara síðustu vikurnar til þess að sjá að þjóðin er að fara á límingunum. Mótmælafundir og fréttir af skoðanakönnunum, sem sýna að íslendingar eru fullir af gremju, staðfesta þetta líka.
Á meðan allar þjóðir heimsins með Bandaríkin og Bretland í fararbroddi reyna hvað þær geta til að lækka vexti með það fyrir augum að koma hjólum efnahagslífsins aftur í gang og til að mæta árhrifum alheimslegrar peningakreppu, hækka Íslendingar sína stýrivexti þannig að þeir eru nú hæstir á Íslandi af öllum löndum heimsins. Íslendingar eru sem sagt þegar byrjaðir að borga það sem útherjar þeirra töpuðu í útlöndum.
Hinum almenna borgara líður eins og manni í umferðarhnút. Hann veit að hann er hluti af vandamálinu en getur ekkert aðhafst til að greiða úr því. Sumir heimta nýja löggu til að stjórna umferðinni, aðrir heimta ný umferðarlög, enn aðrir vilja láta skipa nýjan umferðarstjóra. En allar kröfur um nýja löggu, lög og umferðarstjóra eru virtar að vettugi og það eina sem þjóðin getur er að liggja á flautunni. Stjórnvöld eru vissulega ekki öfundsverð af því að reyna að bjarga þjóðinni frá gjaldþroti en þau virðast neita að horfast í augu við þá einföldu staðreynd að þeir eru að starfa í umboði þjóðarinnar, ekki bankakerfisins eða verðbréfamarkaðarins.
Það hefur lengi loðað við óhefta auðhyggju að þar dregur hver til sín eins mikið og eins ört og hægt er. Hjá langflestum auðmönnum eru peningarnir ekki aðalmálið, heldur leikurinn. Þeir eiga miklu meiri peninga enn þeir fá nokkru sinni komið í lóg á sinni æfi með persónulegri neyslu. Því nota þeir peninga til að halda skor í keppninni við hvern annan.
Auðhyggjumenn virka eins og blóðtappar í líkama heimsins. Fjármagnið er blóðið sem á að flytja næringu og súrefni til allra hluta líkamans og allir hlutar þessa alheimslega líkama þurfa að vera heilbrygðir og starfandi, annars mun allur líkaminn þola fyrir það fyrr eða síðar.
Lengi vel hafa auðhyggjumenn komist upp með að sanka að sér auði og haft að engu alvarlegar afleiðingar öfga þeirrar auðsöfnunar og öfga fátæktarinnar sem verður til umleið á stórum hluta heimsins. Afríka, Asía og suður Ameríka hafa lengst af verið þau svæði heimsins sem minnst af lífsblóði heimsins hefur flætt um. Íslendingar kærðu sig lengi vel kollótta um afkomu þessara landsvæða, eins og aðrir.
Nú fær Ísland aftur eftir næstum því aldar langt hlé að finna fyrir blóðleysinu. Þeir sem mergsugu landið, en þar er einmitt blóðið framleitt, gera hvað þeir geta til að bjarga eigin rassi, svo þeir geti haldið áfram leiknum, þegar úr rætist.
En áður en gripið er til aðgerða til að þetta komi ekki fyrir aftur þarf að grípa til ákveðinna neyðaraðgerða.
Ef íslendingar ætluðu sér að bregðast við eins og aðrar þjóðir þar sem að kreppir og þær eru fáar þar sem svo er ekki, mundu eftirfarandi aðgerðir vera í fullu samræmi.
Hér koma sex tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum til næstu sex mánaða eru þessar;
1. Lækka stýrivexti strax niður í 4.5% og eftir tvo mánuði niðir í 4.0%
2. Neita að borga Icesave skuldir umfram 16.000 pund eins og tryggingarsjóðurinn gerði ráð fyrir og láta reyna á það fyrir dómsstólum ef Bretar gera kröfur um annað.
3. Ekki þiggja neitt lán sem veitt er með skilyrðum um íhlutun í efnahagsstjórn landsins eða er með hærri vöxtum en 4.5%
4. Hætta að flytja inn allar vörur sem ekki eru nauðsynlegar til afkomu fólksins í landinu.
5. Kaupa aðeins íslenska vöru.
6. Taka upp Evru sem gjaldmiðil eftir sex mánuði.
26.10.2008 | 12:08
The capital of Iceland
Klukkan var færð aftur um klukkustund í nótt. Ég er því aftur kominn á sama tímaról og Ísland. Ég veit samt ekki nákvæmlega hvenær þetta gerðist, þ.e. hvort að klukkan eitt í nótt hafi hún verið færð aftur til 24:00 eða klukkan 24:00 í nótt; hafi hún verið færð aftur til baka til 23:00.
Með þessu fyrirkomulagi var sem sagt gærdagurinn einni stundu lengri eða að dagurinn í dag verður einni stundu lengri.
Ég held að ég hafi verið spurður þessarar spurningar þrisvar í gærkveldi af náungum sem allir ætluðu að vera svolítið fyndnir á minn kostnað.
Spurningin er sem sagt, What is the capital of Iceland?
Svar; Four and a half pounds.
22.10.2008 | 14:47
Bestu vinir....
22.10.2008 | 01:15
Rógur og skrum
Fjölmiðlar landa beggja vegna Atlantshafsins hafa síðustu daga reynt að gera efnahagsástandinu á Íslandi einhver skil og oft gripið í því sambandi til orða og hugtaka sem eru afar röng og villandi. Að segja að Ísland sé núna "þróunarland", vegna þess að efnahagur þess var svo samtvinnaður bönkum sem urðu illa úti í efnahagshruninu sem allur heimurinn er að fara í gegn um, er fáránleg fréttamennska, skrum og rógur.
Þróunarlönd eru þau lönd sem ekki hafa náð langt í þróun lýðræðis, frjáls markaðar, iðnvæðingar, velferðakerfis og mannréttinda fyrir þegna sína. Þróun landa er mæld eftir ákveðnum stöðlum sem taka tillit þjóðarframleiðslu og almennra launa í landinu, lífslíka og læsi þegna þess. Ekkert af þessu hefur hnignað á Íslandi á síðustu vikum.
Það er líka fáránlegt að heyra Íslendinga sjálfa, jafnvel þótt þeir séu skelkaðir eða/og reiðir, líkja landinu við "bananalýðveldi". Orðið bananalýðveldi er orð sem var fundið upp til að lýsa á niðrandi hátt smáþjóðum sem voru/eru afar óstöðugar pólitískt séð og urðu auk þess að reiða afkomu sína á afmörkuðum landbúnaðarvörum eins og banönum. Þeim er venjulega stjórnað af fáum sjálfkjörnum, ríkum og spilltum klíkum eins og voru lengi af við völd í löndum mið-Ameríku eins og El Salvador, Belize, Nicaragua, Honduras, og Guatemala.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
18.10.2008 | 19:37
Músin sem öskraði
Atburðir síðustu vikna gefa ærna ástæðu til að líta til baka yfir samskipti Íslendinga og Breta í gegnum tíðina. Hvernig hefur Íslandi farnast í þeim samskiptum? Bretar telja núna yfir 60.000.000 og ráða yfir fimmta stærsta efnahagskerfi heimsins. Bretaveldi var voldugasta heimsveldi veraldar þegar að Ísland var eitt fámennasta og fátækasta ríki heimsins.
Tilraunir Gordons Browns til að gera úr Íslandi það sem Falklandseyjar gerðu fyrir Margréti Thatcher á sínum tíma þegar pólitískum ferli hennar virtist vera lokið, eru núna að koma aftan að honum og eftir að hafa beitt fyrirtæki landsins ákvæðum hryðjuverkalaga, hefur hann þurft að lýsa yfir stuðningi við Ísland sem einn af leiðtogum Esb.
Nokkri punktar úr sögunni.
Allt frá landnámi Íslands hafa samskipti þjóðanna verið hálfgerður leikur kattarins að músinni þar sem Bretar hafa gert sitt besta til að fanga þjóðina með gylliboðum um hagnað og verslun í bland við valdsbeitingu þegar annað hefur ekki dugað. Stundum hafa þeir komið færandi hendi en ætíð gætt þess að taka til baka í það minnsta ekki minna en þeir komu með.
Samskipti þjóðanna á 15. öld sem við köllum stundum Ensku öldina,bera þessu glöggt vitni. Bretar blönduðu sér þá óspart í innanríkismál Íslands og reyndu eftir föngum að ná hér varanlegum yfirráðum, enda girntust þeir auðug fiskimiðin, fálkann og brennisteininn. Þeir sáu samtímis ekkert athugavert við að ræna íslenskum börnum og hneppa þau í ánauð á Englandi eins og gerðist árið 1429 þegar fimm íslenskir drengir og fjórar stúlkur voru seldar í þrældóm til Bristol og áttu aldrei afturkvæmt til landsins. Sama ár voru 11 íslensk börn flutt nauðug til Lynn á Englandi sem þá var nokkuð stór markaðsbær. Svo vildi til að Jón Gerreksson, þá biskup í Skálholti, var staddur í Lynn og þegar hann komst á snoðir um þjóðerni barnanna lét hann senda þau aftur heim.
Ásókn Englendinga á íslandsmið á þessum tíma lauk í raun ekki fyrr en Ítalinn Giovanni Caboto, betur þekktur sem John Cabot, tókst, með viðkomu á Íslandi, að finna hin auðugu fiskimið Nýfundnalands árið 1497 og varð síðan fyrsti Evrópubúinn til að stíga fæti á meginland Ameríku eftir að Íslendingarnir höfðu hætt við að nema landið nokkrum öldum áður.
Davíð Oddson segir um framhaldið í ræðu einni er hann flutti við opnun nýs fiskimarkaðar í Hull 2001;
"Enska öldin var okkur Íslendingum um margt hagstæð því verslun með fisk og vistir við Englendinga þótti ábatasöm. Englendingar sátu reyndar ekki einir að fiskveiðunum við Ísland, þeir kepptu við hina þýsku Hansakaupmenn og Dani og fullyrða má að þessi samkeppni hafi komið Íslendingum mjög til góða. Þá jafnt sem nú gilti að heiðarleg samkeppni bætir allan hag. En með tilkomu einokunarverslunar Dana á Íslandi við upphaf sautjándu aldar voru Íslendingar sviptir ávinningnum af þessum viðskiptum, þótt vitað sé að margur maðurinn hafi stolist til að eiga viðskipti við Englendingana í trássi við einokunina og þannig létt sér lífsbaráttuna.
En þrátt fyrir verslunarbann héldu veiðar Englendinga við Íslandsstrendur áfram og fiskur veiddur þar var áfram á boðstólunum hér í Englandi. Það var því eðlilegt þegar við Íslendingar hófum sjálfir fiskveiðar í stórum stíl að Bretland yrði okkar helsta markaðssvæði, bæði fyrir frystan fisk og ferskan. Á stríðsárunum nam útflutningur á ferskum fiski til Bretlands allt að 140 þúsund tonnum á ári og höfðu báðar þjóðirnar mikinn hag af þeim viðskipum. Úr þessum viðskiptum dró þegar þjóðirnar áttu í deilum um fiskveiðiréttindi við Ísland og tók nærri fyrir þau bæði á sjötta og áttunda áratugnum."
Íslendingar og Bretar áttu umtalsverð samskipti á öldunum fram undir fyrra stríð. Íslendingar stunduðu verslun við breska sjómenn í blóra við einokunarlögin og seinna var á tímabili t.d. talvert selt af fé á fæti til Bretlands. Þegar að farið er yfir söguna kemur í ljós að Íslendingar eiga ýmislegt smálegt Bretum að þakka.
Íslenska hundinum bjargað.
Þegar að íslenski hundurinn var að verða útdauður á landinu var kyninu bjargað frá aldauða af breskum náunga sem hét Mark Watson. Hann ferðaðist mikið um landið um 1930 og sá þá allnokkuð af íslenskum hundum út um sveitir. Í kringum 1950 voru íslenskir hundar svo að segja horfnir nema á afskekktum stöðum, s.s. í Breiðdal á Austurlandi þar sem 90% hundanna sýndu enn öll einkenni kynsins. Ljóst er að á þessum tíma var kynið í mikilli útrýmingarhættu. Watson ákvað að flytja nokkra hunda og tíkur til Kaliforníu og rækta kynið svo það yrði ekki aldauða. Yfirdýralæknir, Páll A. Pálsson, aðstoðaði hann við útflutninginn. Fljótlega eftir að hundarnir komu til Kaliforníu kom upp hundapest og drápust sumir hundanna. Þeir sem lifðu eignuðust afkvæmi og virtust ekki hafa blandast öðrum kynjum. Watson fluttist seinna til Englands og tók hundana með sér og lét halda ræktuninni áfram.
Ísland hersetið af Bretum
Föstudaginn 10. maí 1940 vöknuðu Íslendingar við vondan draum, það var verið að hertaka Ísland. Herskip sigldu að höfninni, flugvélar sveimuðu yfir landinu og 2000 breskir landgönguliðar stigu á land.
Árið 1940 voru Íslendingar um 120 þúsund talsins, þar af bjuggu um 40 þúsund manns í Reykjavík. Talið er að um 25 þúsund breskir hermenn hafi verið í landinu þegar mest var árið 1941 og hafði stærsti hluti liðsins bækistöðvar í Reykjavík og nágrenni. Með komu hersins tók bæjarlífið stakkaskiptum. Bretar stóðu fyrir ýmsum framkvæmdum; þeir lögðu meðal annars flugvöll í Vatnsmýrinni og braggahverfi risu af grunni. Veitti Bretavinnan" fjölmörgum Íslendingum atvinnu, en mikið atvinnuleysi hafði ríkt í landinu. Yfirleitt var sambúð hermanna og landsmanna friðsamleg, þótt af og til kæmi til árekstra. Einna helst þótti mönnum skemmtanalíf bæjarins breytast til verri vegar og átti lögreglan í Reykjavík stundum fullt í fangi með að halda uppi lögum og reglu.
Tjallinn fer
Hinn 7. júlí 1941 tóku Bandaríkin að sér hervernd Íslands samkvæmt samningi Bandaríkjamanna og Breta við ríkistjórn landsins. Í kjölfar komu bandarískra herdeilda tóku Bretar að flytja landher á brott, þar sem hermanna var þörf í baráttunni við Öxulveldin annars staðar. Bandaríkin voru hins vegar enn ekki orðin aðilar að styrjöldinni, en tóku upp frá þessu vaxandi þátt í átökunum á Atlantshafi við hlið Breta.
Þorskastríðin
Íslendingar háðu þrjú "þorskastríð" við Breta á síðustu öld og unnu þau öll. Þegar að mest greindi á milli þjóðanna varð deilan svo alvarleg að íslensk stjórnvöld ákváðu að slíta stjórnmálasambandi við Breta og kölluðu sendiherra sinn í London heim og vísuðu breska sendiherranum í Reykjavík úr landi. Eins og áður hótuðu Íslendingar einnig því að segja sig úr Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO). Sögðu menn það til lítils að vera í varnarbandalagi sem kæmi ekki til aðstoðar þegar landið væri undir erlendri árás.
Um þorskastríðin og útfærslu landhelginnar er frábæra samantekt að finna á síðu Landhelgisgæslunnar.
Ég læt þessa stuttu samantekt nægja að sinni þótt stiklað sé á stóru en vona að hún færi okkur heim sanninn um að það dugar ekki alltaf að vera stóri og sterki aðilinn þegar að samskiptum þjóða kemur, til að fá vilja sínum framgengt. Ég var því hissa á viðbrögðum forsætisráðherra Breta á dögunum, því hann hlýtur að hafa verið ljóst eins og öðrum sem eru komnir til vits og ára, að Bretland hefur jafnan farið halloka þegar kemur að ágreiningi við Ísland.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
17.10.2008 | 18:13
Hverju tapaði Ísland?
Það sem útilendingar dá í fari íslendinga og það sem erlendir gestir, sem eru svo lánsamir að hafa heimsótt Ísland elska mest, er enn til staðar. Ekkert af því sem gerir okkur að þjóð hefur farið forgörðum í þessu fjármálaroki sem nú gengur yfir, þótt fáeinar skrautfjaðrir hafi fokið. Landið er enn fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar, þjóðin gestrisin, hjálpfús, menntuð og framsækin.
Ekkert af því sem gerir okkur að okkur hvarf, þótt einhverjum óhróðri hafi verið dreift um okkur í útlandinu, til að auka tímabundið hróður pólitíkusar sem stendur höllum fæti í heimalandi sínu. Það er satt að Þjóðin er knésett fjárhagslega en það gildir hér sem annarsstaðar þar sem hildir eru háðir að ekki er spurt að því hversu oft við féllum við heldur hversu oft við stóðum upp aftur.
Við Íslendingar erum og verðum þjóð vegna þess að við eigum okkur sér afar sérstæða menningu, sérstakt tungumál og sérstaka siði, en það sem gefur þessum þáttum raunverulegt gildi er að þeir eiga sér rætur í upphafi búsetu á Íslandi og teygjast óslitið aftur til uppruna þjóðarinnar. Þessi hugmynd myndaði kjarnann í málflutningi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni og til hennar er getum við enn sótt fulltingi þegar að okkur er sótt.
Fyrir einni öld voru Íslendingar fátækasta þjóð Evrópu. Með réttri blöndu af harðfylgi og málamiðlunum náðum við fullu sjálfstæði og komumst eftir það á undarverðum tíma í tölu auðugustu þjóða heimsins. Það sem byggði þann auð er enn í landinu og á því kapítali, mannauðnum, er hægt að byggja aftur.
Ég hafna því að íslendingar "hafi sett ofan" þótt því sé haldið fram af þeim hvers gildismat er eingöngu bundið hagfræðitölum, og ég hafna því að íslendingar eigi að fara með veggjum á erlendri grund þótt ókurteisi og fram að þessu dulin öfund sumra útlendinga, gefi til þess ástæðu.
Ég fagna því að neikvæð umfjöllun erlendra fjölmiðla um ísland er í rénum og í stað hennar spyrja þeir að því hvers græðgi var meiri, þeirra sem buðu svo háa ávöxtun að hún hlaut að vera áhættuspil, eða þeirra sem sóttust eftir henni og voru tilbúnir til að taka áhættuna.
Heimurinn er á leið inn í efnahagskreppu. Bankahrunið er aðeins upphafið og í kjölfarið mun fylgja atvinnuleysi og allsherjar samdráttur. Þessi alheimslega kreppa mun krefjast svara við þeirri spurningu hvort óheft auðhyggja sé rétta leiðin fram á veg. Ísland kann að vera betur í stakk búið til að takast á við þá spurningu en flest önnur lönd, vegna þess að nú þekkjum við styrkleika og veikleika þeirrar leiðar, betur en flestir aðrir.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)