Færsluflokkur: Spaugilegt
26.8.2009 | 02:35
Öðruvísi Hitler
25.8.2009 | 02:22
Mundir þú vilja lúmskan rass?
Þegar ég sá þessa auglýsingu á netinu, vissi ég að ég gat ekki látið hjá líða að segja ykkur frá henni. Fyrirtækið The Pond Inc. hefur hafið framleiðslu á vöru sem það kallar "Subtle Butt", eða "lúmskur rass" sem hefur þá eiginleika að geta komið í veg fyrir að prump lykti illa.
Það þekkja flestir hið vandræðalega andrúmsloft sem getur skapast þegar einhverjum, að ekki sé talað um þegar það kemur fyrir þig sjálfan, verður á að leysa vind svo mikill fnykur verður af.
Nú er þetta vandmál úr sögunni með tilkomu Carbon-innleggsins frá The Pond Inc. sem líma má innan í nærbuxur eða vefja utan um g-strengi. Þegar að þú rekur við, dregur þessi carbon-rassbót í sig allan óþefinn. Nú getur þú sem sagt borðað hvað sem er án þess að eiga það á hættu að verða þér til skammar og öðrum til óþæginda vegna óþefsins af fretunum frá þér.
PS. Tilvalin tækifærisgjöf eða bara leið til að segja við maka þinn; "ég elska þig".
En sjón er sögu ríkari. Hér kemur auglýsingin.
17.8.2009 | 20:56
Keppni um bestu þýðinguna á "brain drain".
Mér stendur ekki ógn af atgervisflótta frá landinu enda margir sem hafa eða eru að fara meðaljónar eins og ég sjálfur. En ég er drulluhræddur við orðið spekileki. Það er nýja orðið yfir atgervisflótta sem þykir ekki nógu fínt lengur til að nota í fyrirsagnir.
Kannski er ég svona hræddur við þetta orð af því að það er svo líkt orðinu spikleki sem er eitt það hræðilegasta sem miðaldra karlmaður getur lent í með sjálfan sig og með öðrum.
En fyrst farið var að gera tilraunir til að endurþýða enska hugtakið "brain drain" á annað borð, hljóta margir aðrir möguleikar að koma til greina.
Til dæmis heilaniðurfall, gáfuráf, vitsog, menntaflutningar eða þekkingarþot.
Nú er um að gera lesendur góðir að hleypa sellunum á flug og koma með fleiri tillögur. MBL.IS hefur gefið boltann og hann er hjá ykkur.
Saman getum við svo valið bestu tillöguna sem við sendum svo til MBL.IS svo þeir þurfi ekki að notast lengur við orðskrípi eins og spekileki.
10.6.2009 | 19:16
La Tomatina
Fjölmennasti matarbardagi í heimi
Í Buñol á Valensíu á Spáni er á hverju ári efnt til fjölmennasta matarkasts í heimi. Tugir þúsunada Þátttakenda koma víða að til þessa smábæjar til að taka þátt í hinu fræga tómatakasti sem fer farið hefur fram í þessum síðasta miðvikudag í ágúst mánuði s.l. sextíu ár.
Hvernig hófst La Tomatina
La Tomatina er ekki trúarhátíð. Trúlega varð tómatakastið að sið vegna atviks sem átti sér stað á bændahátíð sem haldin var á miðvikudegi í ágúst árið 1945. Á sýningunni var skrúðganga (Gigantes y Cabezudos) risa og stórhöfða. Krakkahópur sem tók þátt í skrúðgöngunni velti einum risanna um koll sem varð við það eitthvað hvumpinn og byrjaði að slá til allra sem komu nálægt honum eftir að hann komst aftur á lappirnar. Krakkarnir gripu þá tómata af nálægu söluborði og köstuðu í risann.
Tómatabardaginn stendur yfir í eina klukkustund. Á meðan að honum stendur er meira en 100 tonnum af tómötum kastað en í bardaganum eru allir á móti öllum. Vörubílar aka tómötunum að torginu þar sem aðal-bardaginn fer fram og brátt flýtur allt í rauðum tómatsafa. Allir eru skotmörk og allir geta tekið þátt.
Bardagareglurnar
- Ekki koma með flöskur eða aðra hluti sem geta valdið slysi.
- Bannað er að rífa boli annarra
- Kreista verður tómatana áður en þeim er kastað svo þeir meiði engan.
- Passið ykkur á vörubílunum sem koma með tómatana
- Hættið að kasta tómötum um leið og sírenan heyrist í annað.
- Ráðlegt er að vera í reimuðum skóm, gömlum fötum og með sundgleraugu til að vernda augun.
Vefsíða Tomatina Festival : www.tomatina.es
8.6.2009 | 01:02
Sterkar konur skilja eftir stóra sogbletti.
Þessi setning er höfð eftir Madonnu.
Hér á eftir fara nokkur fleyg ummæli sem frægt fólk hefur haft um ástina og kynlífið og samskipti kynjanna.
Konur geta gert sér upp fullnægingu en karlmenn geta gert sér upp heilu samböndin. Sharon Stone
Ég vildi að ég fengi jafn mikla athygli í rúminu og ég fæ í blöðunum. Linda Ronstadt.
Kærastan mín hlær alltaf þegar við elskumst, alveg sama hvað hún er að lesa. Steve Jobs.
Einmitt, orðið skilnaður kemur úr Latínu og merkir þar að slíta af manni kynfærin í gegnum seðlaveskið. Robin Williams
Ég hef enn ekki heyrt karlmann kvarta yfir að þurfa að sameina starfsferil og hjónaband. Gloria Steinem
Ég veit að það hljómar einkennilega komandi úr mínum munni, en ég er orðin þeirrar skoðunar að kynlíf sé aðeins til þess að fjölga mannkyninu. Eric Clapton
Það er tími til að vinna og tími til að njóta ásta. Til annars er engin tími. Coco Chanel
Allt sem er á annað borð þess virði að gera það, á að gera hægt. Mae West
Ást er ómótstæðileg þrá eftir að vera ómótstæðilega þráður. Mark Twain
Konur þurfa ástæðu til að hafa kynmök, karlmenn þurfa stað. Billy Crystal
Í stað þess að gifta mig aftur ætla ég að finna konu sem mér líkar ekki við og kaupa handa henni hús. Rod Stuart
Ég er svona góður elskhugi af því að ég æfi mig mikið einn. Woody Allen
Að vera sexý er 50% það sem þú hefur og 50% það sem fólk heldur að þú hafir. Sophia Loren
Kannski að þetta marki tímamót á starfsferli mínum. Paris Hilton á hinu fræga sex videoi sínu.
Er þetta byssa sem þú ert með í vasanum eða ertu bara svona glaður að sjá mig? Mae West
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.4.2009 | 21:42
Karl Bretaprins neitar að biðjast afsökunar á ummælum sínum!
Þrátt fyrir áköf mótmæli mín og þar af leiðandi umtalverða aukningu á umferð Íslendinga á heimasíðu Karls Bretprins í dag, sem taka vildu þátt í að andmæla umælum hans þar sem hann hæddi mig og aðra Íslendinga svo til opinberlega, bólar ekkert á afsökunarbeiðni frá honum.
Fyrir mína parta skil ég tilvonandi þjóðhöfðingjann vel, því ummælin áttu sér aldrei stað, né gerðist neitt af því sem tengdist frásögn minni í pistlinum hér næst á undan.
Um var að ræða 1. apríl gabb.
Ég verð að viðurkenna að mér hefur sjaldan verið eins skemmt hér í bloggheimum og í dag/gær. Allan daginn var ég að vakta athugasemdir til að reyna forða því að upp kæmist við lestur athugasemdanna að þetta væri allt saman tilbúningur.
Ég greip til þess ráðs að fjarlægja nokkrar athugasemdir sem komu fljótlega frá glöggum lesendum og sem hefðu komið upp um gabbið. En nú hef ég birt þær aftur eins og sjá má í athugasemdahala pistilsins.
Rétt um 2000 manns lásu greinina og margir létu greinlega blekkjast af þessum græskulausa grikk og ég vona að hann eigi ekki eftir að draga neinn dilk á eftir sér, sem gæti samt vel gerst, einkum ef það kemur í ljós að einhver hafi í raun og veru sent prinsinum harðorð skilaboð. Það er vissulega hægt að koma til hans skilaboðum í gegn um heimsíðu hans, þótt ég efist um að þau fari beint í pósthólfið hans. Ég verð því að biðja Karl Bretaprins afsökunnar á að hafa notfært mér nafn hans og heiður á þennan vafasama hátt, og geri það hér með.
Ég birti hér fyrir neðan þær athugasemdir sem gerðar voru við "yfirlýsinguna", þ.e. undirsíðuna þar sem gabbinu var uppljóstrað og er vitnisburður þeirra sem létu blekkjast.
Ólafur Kr. Ólafsson (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 01:13
So sorrrrry Ólafur. Takk fyrir að taka þátt :)
Sólveig, alveg niður í stórutá
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.4.2009 kl. 02:02
fyrirgefðu Svanur ekki vildi ég eyðileggja skúbbið, en auðvitað tókstu út athugasemdina, enda var ég ekki búin að kíkja.
Ég er bara nokkuð sperrt yfir að hafa fattað 1sta apríl, venjulega hleyp ég af göflunum þennan dag, bláeyg og saklaus!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.4.2009 kl. 07:02
fíbl ;-) náðir mér gersamlega ;-) manni bregður ekki við neitt núorðið ! en flott ég hljóp .......... á vegginn
Grétar Eir, 1.4.2009 kl. 08:17
Jæja..alveg hljóp ég í hring ha,ha...þú náðir mér alveg þarna.
Þórey (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 08:30
Mér fannst þessi viðbrögð frekar ólik þér. Þannig að mig grunaði 1 apríl.
Ingo (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 09:33
Þette er í góðu lagi Jenný. Ég læt allra athugasemdir koma fram í lok dags . Þá sjá allir hvernig þetta gekk fyrir sig :)
Æ Grétar minn. Vonandi nærðu mér seinna í staðinn.
Þórey; Takk fyrir að taka þátt.
Ingó; Já þú segir nokkuð :) Ég hef nú velt því fyrir mér hvernig ég mundi bregðast við ef svona nokkuð gerðist í raun og veru. Hvað heldur þú?
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.4.2009 kl. 09:48
Góður þessi. En ég hefði alveg trúað þessu, enda ekki í fyrsta sinn sem meðlimur í bresku konungsfjölskyldunni hefur móðgað fólk. Prince Philip maður Elísabetar hefur átt nokkur góð móment:
t.d. þessi:
During a state visit to China in 1986, he famously told a group of British students: "If you stay here much longer, you'll all be slitty-eyed".
Og fleiri hér:
Kristján Úlfsson (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 10:50
Ég var farinn að leita að athgasemdadálkinum á heimasíðu prinsins. Fann hann hvergi og fór þá á "þjónustutakkann" sem þú hafðir útbúið. Ég tel mig nokkuð heppinn að hafa hvergi fundið athugasemdadálkinn. Þetta var glæsilegt aprílgabb.
Jakob S Jónsson, 1.4.2009 kl. 12:54
Góður, loksins eitthvað á íslensku netmiðlunum sem fékk mann til að brosa
ASE (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 12:55
Takk fyrir það Kristján, Jakob og ASE að taka þátt í gríninu.
Philip er nú alveg kapítuli út af fyrir sig Kristjánog það væri verðugt verkefni að taka saman alla skandalanna sem hann hefur látið út úr sér.
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.4.2009 kl. 13:09
Þetta var eitthvert besta aprílgabb sem ég hef hlaupið! ég gerði dauðaleit á siðunni og var byrjaður á bréfi til Clarence House og allt það. Af því ég vinn í Bretlandi hef ég heyrt þessa brandara alla og var ekki skemmt. Takk fyrir - frábært.
Árni Helgason (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 14:29
Hahahahahaha!!! Þetta var gott gabb :D Ég var orðin mjög æst yfir þessum dónaskap í prinsinum... Hahahaha! :D
Sunneva Lind (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 14:35
Góður Árni
Ég er næstum farinn að trúa þessu sjálfur Sunneva Lind.
Takk Jenný mín.
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.4.2009 kl. 14:48
Ég held að þú hefðir verið fljótur að svar Karli og notað húmorinn að vopni.
Ingo (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 14:59
Aaa. Auðvitað maður.
Mér fannst þetta eitthvað reifarakennt en frásögnin að öðru leiti svo sannfærandi. Þ.e það reifarakenda var að prinsinn hefði gefið sig á tal við þig si sona með þessum hætti. Hálf ævintýralegt.
En þú náðir mér.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.4.2009 kl. 15:46
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.2.2009 | 16:55
Af tilraunum til fjallaflutninga og fleira
Mörg orðatiltæki sem við notum í daglegu tali eiga rætur sínar að rekja til trúarbragðanna. Sum hafa kaupmenn og þjónustufyrirtæki tekið upp á sína arma og gert að slagorðum sínum í auglýsingum.
Þá eru frægar skírskotanirnar fyirtækja til trúarstefja eins og t.d. naglagerðin sem birti mynd af Kristi á krossinum og undir henni stóð; "Þeir halda naglarnir frá Vírneti."
"Af ávöxtunum þekkirðu þá" auglýstu nýlenduvöruverslunin Silli og Valdi lengi vel og vitnuðu þar til Biblíuversins úr Mattheusarguðspjalli. (Skemmtilegt og gildishlaðið orð; NÝLENDUVÖURUVERSLUN)
Fyrri hluti tilvitnunarinnar gæti samt vel átt við ákveðna tegund kaupahéðna sem margir hafa kvartað yfir á síðasta misseri.
15 Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. 16 Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? 17 Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. 18 Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. 19 Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. 20 Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.
Sendibílastöðin sem auglýsti hér áður fyrr; Trúin flytur fjöl, við flytum allt annað, og vitnaði í annað Mattheusarvers;
14 Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum 15 og sagði: "Herra, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn. 16 Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann."
17 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín." 18 Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu.
19 Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: "Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út?"
20 Hann svaraði þeim: "Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. [21 En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.]"
Þessi saga er um margt merkileg og það væri gaman að fara einhvern tímann í góðu tómi yfir allt það sem hún segir frá og gefur til kynna. Mustarðskornið er einkar áhugaverð líking enda notað aftur í afar svipaðu dæmi þegar Kristur segir Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður." Þetta minnir dálítið á íslensku öfugmælavísurnar en það er víst önnur saga.
Svo skemmtilega vill að annar Guðsmaður, ákvað tæpum 600 árum seinna að láta reyna á þau orð Krists að trú geti fengi fjöll til að færast úr stað og frá þeirri tilraun er komið annað orðatiltæki sem fólk á Íslandi notar nokkuð mikið í seinni tíð.
Sagan og orðatiltækið sem henni tengist, berst trúlega til Íslands frá Englandi þar sem það kemur fyrst fyrir í ritgerð eftir Francis Bacon; "Of boldness", árið 1625. Bacon notar reyndar útgáfu sem alþekkt var um sama leiti sem máltæki á Spáni og hljómar svona; "Ef hæðin vill ekki koma til Múhameðs mun Múhameð fara til hæðarinnar." Enska orðið "hill" breyttist einhvern tíman í "mount" og þar með varð hæðin/hóllinn að fjalli.
Orðatiltækið á upphaflega rætur sínar að rekja til íslamískrar arfsagnar þar sem sagt er frá því þegar að Múhameð er beðinn að gera eitthvert kraftaverk sem ótvírætt mundi sanna guðdómleika kenninga hans. Hann bað Guð um að flytja til sín hæð nokkra sem heitir SOFA og rís skammt frá Mekka.
Þegar að hæðin haggaðist ekki sagði Múhameð það ótvírætt bera miskunn Guðs vitni því ef hún hefði tekist á loft og flogið til þeirra, mundu allir hafa grafist undir henni. Múhameð gekk því til hæðarinnar til að flytja þar Guði lofgjörð fyrir náð hans og miskunn.
30.1.2009 | 20:17
Bestu brandararnir
Bretar eru mikið fyrir skoðanakannanir. Margir háskólar hafa deildir sem sérhæfa sig í ákveðnum tegundum skoðanakannana. Háskólinn í Hertfordshire gerði skemmtilega og kannski hlægilega könnun fyrir skömmu. þeir könnuðu hvaða brandarar væru bestu brandarar í heimi. Hér eru niðurstöðurnar, ögn stílfærðar.
Fyndnasti brandari í heimi.
Tveir Hafnfirðingar voru á rjúpnaveiðum. Annar þeirra féll allt í einu máttlaus niður. Hann virtist ekki anda og augun runnu aftur í höfði hans. Hinum leist ekki á blikuna, reif upp farsímann og hringir í almannavarnir.
"Félagi minn er dáinn" hrópaði hann í síman þegar honum var svarað. "hvað á ég að gera?"
Sá sem svaraði var hinn rólegasti. "Vertu alveg rólegur, ég get hjálpað þér. Til að byrja með verður þú að fullvissa þig um að hann sé dáinn".
Í smá stund varð þögn og svo heyrðist skothljóð. Að svo búnu kom Hafnfirðingurinn aftur í símann og sagði. "Já, hvað svo?"
Í öðru sæti.
Sherlock Holmes og Dr Watson fóru í útilegu. Eftir að hafa gætt sér á góðum mat og drukkið flösku af víni, bjuggu þeir um sig og fóru að sofa.
Fáeinum tímum seinna vaknar Hólmes og stuggar við hinum trygga vini sínum. Watson, líttu upp í himininn og segðu mér hvað þú sérð?
"Ég sé milljón miljónir af stjörnum, Holmes" svaraði Watson.
"Og hvað ályktar þú af því?"
Watson hugsaði málið um stund.
" Nú stjarnfræðilega segir það mér að til eru milljónir af stjörnuþokum og mögulega biljónir af plánetum."
"Stjörnuspekilega sé ég að Satúrnus er í ljóninu."
"Tímafræðilega dreg ég þá ályktun að klukkan sé korter yfir þrjú."
"Veðursfræðilega, er líklegt að dagurinn á morgunn verði falllegur."
"Guðfræðilega get ég séð að Guð er almáttugur og að við erum smá og lítilfjörleg í alheiminum.
En hvaða ályktanir dregur þú Holmes?"
Holmes var þögull um stund.
"Watson, kjáni getur þú verið" sagði hann svo. "Það hefur einhver stolið tjaldinu okkar."
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.1.2009 | 22:09
Af hremmingum íslensks sendiherra
Eitt sinn var ungum manni boðin sendiherrastaða í Frakklandi. Hann þáði þá upphefð með þökkum og flutti með fjölskyldu sína til Parísar og tók upp aðsetur í stóru og flottu einbýlishúsi sem utanríkisráðuneytið átti.
Ungi maðurinn átti konu og tvær litlar stúlkur. Fljótlega eftir að hann tók við embættinu byrjuðu Íslendingar í allskonar "mikilvægum" erindagjörðum að heimsækja hann og oftar en ekki drógust þeir fundir á langinn og enduðu oftar en ekki með að dregin var fram einhver tegund af frönsku víni sem þarna voru svo ódýr og góð og skálað var fyrri landinu og þjóðinni sem kúrði heima á klakanum.
Eftir nokkra mánuði af stöðugum gestakomum og löngum kvöldum þar sem smakkað var á wiskey og líkjörum þegar að franska vínið þraut, var fjölskylda unga sendiherrans orðin dauðuppgefin á ástandinu.
Hann hafði lofað dætrum sínum að fljótlega eftir komuna til Frakklands mundi hann taka þær í ökuferð og fara með þær í stærsta og frægasta dýragarð í Evrópu, þar sem dýr víða úr heiminum gengu um frjáls á gríðarstóru afgirtu landsvæði sem hægt var að aka um og skoða dýrin.
Vegna veisluhaldanna hafði lítið orðið af efndum.
Snemma einn Laugardag komu dæturnar að máli við föður sinn og tóku af honum eindregið loforð um að morguninn eftir mundu þau stíga upp í flotta svarta sendiráðsbílinn sem reyndar enn hafði ekki gefist tími til að merkja sendiráðinu og aka út fyrir París og heimsækja dýragarðinn.
Það sama kvöld komu nokkrir digrir íslendingar í heimsókn og fyrr en varði var slegið upp veislu. Seint um nóttina gekk ungi sendiherrann til hvílu og fannst hann rétt hafa lagt höfuðið á koddann þegar tvær litlar dömur byrjuðu að toga hann út úr rúminu. Pabbi, pabbi, komdu, þú lofaðir manstu...
Hann vissi að honum var engrar undankomu auðið, dreif sig því í sturtu og innan klukkustundar voru þau öll lögð af stað, hann með frúnna í framsætinu og dæturnar tvær í aftursætinu. Af og til hnusaði eiginkonan út í loftið, opnaði gluggann og veiddi loks tyggigúmmí upp úr handtöskunni sem hún lét bónda sinn hafa.
Eftir einnar klukkustundar akstur komu þau að dýragarðinum. Þau óku inn í hann eftir að hafa greitt aðgangsgjaldið og lituðust um. Við veginn stóðu skilti sem lýstu þeim dýrum sem helst var að vænta að sjá á hverjum stað og á öllum þeirra stóðu varnaðarorð um að ekki mætti að stöðva bílinn nema í stuttan tíma í senn, ávalt bæri að vera með bílrúðurnar uppskrúfaðar og stranglega væri bannað að gefa dýrunum einhverja fæðu.
Fyrst sáu þau strút hlaupa með ofsahraða yfir veginn fyrir framan bílinn og það varð til þess að ákveðið var að aka löturhægt. Stúlkurnar komu þvínæst auga á hlébarða en hann var of langt í burtu til að hann sæist vel. Allt í einu óku þau fram á þrjá gíraffa sem stóðu þétt upp við veginn og hreyfðu sig ekki þótt bifreiðinni væri ekið alveg upp af þeim. Ungi sendiherrann stöðvaði bifreiðina og öll virtu þau fyrir sér tignarleg dýrin nokkra stund sem stundum teigðu hálsa sína í átt að rúðum bílsins eins og þeir byggjust við að fá eitthvað góðgæti úr þeirri átt. -
Rafmagnsvindur voru á bílrúðunum og áður en sendiherrahjónin fengu nokkuð við gert, hafði önnur stúlknanna rennt niður rúðunni á annarri afturhurðinni. Samstundis skaut einn gíraffinn höfðinu inn um gluggann. Litlu stúlkurnar æptu af hræðslu þegar að löng tunga Gíraffans leitaði fyrir sér að einhverju matarkyns inn í bílnum. Um leið og telpurnar æptu eins og himinn og jörð væru á enda komin, greip skelfing um sig í framsætunum líka.
Móðurinn fann takkann sem stýrði rúðunum fram í bílnum og ýtti á hann þannig að rúðan halaðist upp til hálfs og herti þannig að hálsi gíraffans. Um leið ók sendiherrann af stað og neyddi þannig gíraffagreyið til að hlaupa meðfram bílnum þar sem hann sat fastur í glugganum. Brátt tók grænt slý að renna frá vitum gíraffans sem lyktaði eins og blanda af súrheyi og hænsnaskít.
Ópunum í aftursætinu linnti síst þegar stór gusa af slýinu gekk upp úr gíraffanum og yfir telpurnar. Sendiherrann snarstansaði bílinn en aðeins þá gerði hann sér gein fyrir að gíraffinn var enn fastur við bifreiðina. Hann ýtti aftur á rúðuhnappinn og gíraffinn tók á stökk tafsandi og frísandi á braut.
Ástandið í bílnum var vægast sagt skelfilegt. Telpurnar voluðu í aftursætu útbíaðar í grænu slýi sem ferlegan fnyk lagði af. Frúin reyndi hvað hún gat til að þurrka framan úr þeim með klút sem hún hafði fundið í hanskahólfinu og nú heltist þynnkan af fullum krafti yfir sendiherrann.
Sendiherrann ákvað að það væri ekki stemming fyrir frekari dvöl í dýragarðinum og hraðaði sér út úr honum. Þegar út á hraðbrautina kom var ljóst að það þurfti að stoppa sem fyrst og reyna að hreinsa stúlkurnar betur og bílsætin því bíllinn lyktaði eins og flór. Brátt komu þau að bensínstöð þar sem þau stönsuðu og tóku til óspilltra málanna við að hreinsa það sem hreinsast gat. En lyktin var svo megn að á endanum ákváðu þau að fækka fötum og setja þau í ruslapoka sem síðan fór í skottið.
Þegar þau héldu af stað aftur, sátu telpurnar á gammósíunum og undirbolum, frúin á brjóstahaldinu einu að ofan og sendiherrann sjálfur á nærbuxunum.
Þau höfðu ekki ekið nema stuttan spöl þegar að sendiherrann sér í bakspeglinum hvar lögreglubíll með blikkandi ljósum er kominn upp að honum. Hann vék bílnum út í vegkantinn og beið rólegur eftir að lögregluþjónarnir stigu út. Annar þeirra gekk beint að bílnum og benti sendiherranum að stíga út úr sínum bíl. Sendiherrann talaði ágætlega frönsku og taldi víst að hann mundi getað spjarað sig gagnvart lögreglumönnunum. En hann hafði áhyggjur af því að hann kynni að vera undir áhrifum ennþá.
Hvað get ég gert fyrir ykkur, spurði hann hæverskur og sté út úr bílnum og reyndi að brosa.
Við sáum að þegar þér ókuð út frá Bensínstöðinni þá gáfuð þér ekki stefnuljós, svaraði sá sem nær var.
Það kann vel að vera, ég var eitthvað stressaður að komast heim, svaraði sendiherrann.
Lögreglumaðurinn fitjaði upp á nefið. Hm, það er mjög sterk lykt af yður. Hafið þér verið að drekka, spurði hann svo.
Ha, nei, ekki drekka, sko, nei, ekki síðan í gærkveldi.
Lögreglumennirnir litu hvor á annan. Já einmitt það, svaraði svo annar þeirra. Væri þér sama þótt þú kæmir með okkur snöggvast inn í lögreglubílinn.
Ja, ég er nú með fjölskylduna með mér og svo er ég sko sendiherra og nýt ákveðinnar friðhelgi sem slíkur,svaraði sendiherrann og lagði höndina á brjóst sér eins og hann væri að þreifa eftir veski sínu sem hann bar venjulega í jakkavasanaum. Æ, sagði hann svo, ég setti jakkann í skottið, sko í plastpokann skiljiði.
Lögreglumennirnir skimuðu inn í bílinn þar sem telpurnar sátu skjálfandi og sendiherrafrúin reyndi að halda veskinu fyrir brjóstum sér.
En það er alveg satt að ég er sendiherra frá Íslandi hélt sendiherrann áfram, og, og þetta með lyktina, ég get alveg skýrt hana. Það var sko þannig að við stoppuðum bílinn og þá rak Gíraffi inn hausinn og ældi yfir okkur öll, sko og þaðan er lyktin komin. Svo fórum við öll úr fötunum á bensínstöðinni.
Lögreglumennirnir litu aftur hvor á annan og virtust allt í einu taka ákvörðun. Gjörið svo vel að stíga frá bílnum sagði annar þeirra skipandi röddu og lagði um leið hönd á skammbyssuna sem hann bar við mitti sér. Leggist á hnén og setjið hendurnar fyrir aftan bak.
Sendiherrann rak upp hláturroku...sko, ég er að segja sannleikann, það var gíraffi sem ældi á okkur og þess vegna er passinn minn í skottinu..
Ekkert múður, niður á hnén.........Um leið og hann lagðist á hnén fann hann handjárnin smellast um úlnliði hans.
Viku síðar fékk ungi sendiherrann ákærubréf frá lögreglunni. Hann var sakaður um ölvun við akstur.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.1.2009 | 03:53
Mjólk
Þegar að ungabörn með exem og ofnæmi sjúga í sig móðurmjólkina eftir að móðirin hefur hlegið hressilega, sýna þau miklu minni ofnæmis-viðbrögð við rykmaurum og latexi.
Þetta eru niðurstöður rannsókna lækna við Moriguchi-Keijinai sjúkrahúsið í Osaka, Japan.
Til að framkalla hlátur hjá mæðrunum notuðu læknarnir kvikmyndina "Nútíminn" (Modern Times,) með Charlie Chaplin. Mæður í samanburðahópnum horfðu á veðurfréttirnar.
Brjóstamjólk þeirra sem horfðu á Chaplin hafði talsvert meira af melatonin, sem virðist draga úr ofnæmiseinkennum ungbarna.
Í hverjum hópi voru 24 mæður og 24 ungbörn. Sumum spurningum er þó enn ósvarað og sú mikilvægasta er hvort japönskum mæðrum þykji Charlie Chaplin virkilega fyndinn?
Kannski var það alls ekki skop Chaplíns sem olli þessum áhrifum heldur hvernig myndin lýsir á áhrifaríkan hátt streði almennings gegn afmennsku áhrifum og stofnunum fyrstu tíma vélvæðingar....bla bla bla
Árið 1931 var Albert Einstein ásamt eiginkonu sinni í heimsókn í Hollywood. Þá bauð Charlie Chaplin honum til einkasýningar á nýrri kvikmynd sinni Borgarljós (City Lights.)Þegar þeir óku um götur borgarinnar stoppaði fólk og veifaði til þeirra og hrópaði húrra fyrir þeim. Chaplin snéri sér að gesti sínum og sagði; "Fólkið fagnar þér vegna þess að ekkert þeirra skilur þig og það fagnar mér vegna þess að allir, sama hversu heimskir þeir eru, skilja mig".
Eitt sinn var Albert Einstein staddur í fínu boði. Gestgjafinn bað hann að skýra í stuttu máli afstæðiskenningu sína. Einstein svaraði;
Frú, eitt sinn var ég í gönguferð út í guðsgrænni náttúrunni á heitum degi og fylgd með vini mínum sem er blindur.
Ég sagði við hann að mig langaði í mjólk að drekka.
Mjólk, svarði vinur minn, ég veit hvað það er að drekka en hvað er mjólk.
Hvítur vökvi svaraði ég.
Vökva þekki ég en hvað er hvítt?
"Liturinn á fjöðrum álftarinnar"
"Fjaðrir þekki ég, en hvað er álft?"
"Fugl með boginn háls"
"Háls þekki ég en hvað er bogið"
Við þessa spurningu missti ég þolinmæðina. Ég tók í handlegg vinar míns og rétti úr honum. "Þetta er beint" sagði ég og beygði síðan á honum höndina "og Þetta er bogið."
"Ah," sagði hann þá, "nú veit ég hvað þú meinar með mjólk."
Árið 1930 héllt Einstein ræðu í Sorbonne háskólanum í París. Einstein sagði meðal annars við það tækifæri; Ef afstæðiskenning mín verður sönnuð mun Þýskaland tilkynna að ég sé þýskur og Frakkland mun segja að ég sé borgari þessa heims. Ef hún reynist ósönn mun Frakkland leggja áherslu á að ég sé þjóðverji og Þýskaland að ég sé Gyðingur."
Ýmsir hafa orðið til þess að gagnrýna gerilsneyðingu á mjólk og segja að hún rýri gæði mjólkurinnar. Auðvitað má færa rök fyrir því að neysla ógerilsneyddrar mjólkur geti stuðlað að fjölbreyttari gerlaflóru í þörmum með tilheyrandi heilsusamlegum áhrifum, en á móti kemur að sýkingarhætta eykst til mikilla muna, auk þess sem geymsluþol er mun styttra í ógerilsneyddri en gerilsneyddri mjólk. Þar sem ógerilsneydd mjólk er mjög viðkvæm vara og mundi þurfa mjög vandaða meðhöndlun í vinnslu og geymslu má búast við að hún yrði mun dýrari en sú mjólk sem fyrir er.
Á ensku er gerilsneyðing nefnd Pasteurization og er kennd við hin fræga franska efnafræðing Louis Pasteur. Hann starfaði lengi við Sorbonne háskólann, eða frá 1867 til 1889. Hann var Pasteur stofnunarinnar sem sett var á laggirnar honum til heiðurs.
Að lokum, við höfum drukkið mjólk kýrinnar í 11.000 ár og mér til mikillar furðu er mjólkurneysla mest miðað við íbúafjölda, í Finnlandi, eða 183,9 lítrar á hvert mannsbarn á ári.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 03:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Urrrrrrrrrr... You had me gjörsamlega going there... Mér var rétt forðað frá því að gera þetta að milliríkjamáli... Þú ert heimsklassa hrekkjalómur, það get ég svarið :)