Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Gamlárs-getraunin

Hér koma 10 spurningar sem þarfnast svara. Þeir sem telja sig vita svörin við einhverjum þeirra mega gjarnan setja þau niður í athugasemd hér að neðan. 

Rétt svör verða birt 1. Jan. 2011.

1. Prumpa fiskar?

2. Hvers vegna er hor stundum grænt?

3. Hverjar eru tvær útbreiddustu farandsögur heimsins, sem fólk tekur trúanlegar?

4. Hvers vegna er himininn blár?

5. Hvort frýs fljótar í frysti, glas af sjóðandi heitu vatni eða glas af köldu vatni?

6.Hvaðan kemur aflið sem fær þig til að hendast þvert yfir herbergið þegar þú færð í þig sterkan straum?

7. Hvers vegna límist ofurlím (súperglue) ekki við túpuna að innanverðu?

8. Hvaða tengsl eru milli þess að vera kalt og að fá kvef?

9. Hvorir eru fleiri, hinir dauðu eða þeir sem lifa? (Hér er átt við mannfólkið)

10. Hvað er vitlaust við þetta skilti?paris-in-the-spring


Ljósin í bænum

Musteris -MenóraEitt af elstu trúartáknum Gyðingdóms er sjö arma ljósastika. Í annarri Mósebók er sagt frá því hvernig Guð fyrirskipar gerð hennar og lögun. Eftir gerð stikunar var henni komið fyrir í helgidómi þjóðarinnar, fyrst í tjaldbúðinni og síðar musterinu í Jerúsalem.

"31Enn fremur skalt þú ljósastiku gjöra af skíru gulli. Með drifnu smíði skal ljósastikan gjör, stétt hennar og leggur. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, skulu vera samfastir henni. 32Og sex álmur skulu liggja út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar. 33Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo skal vera á öllum sex álmunum, sem út ganga frá ljósastikunni. 34Og á sjálfri ljósastikunni skulu vera fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm: 35einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo undir sex álmunum, er út ganga frá ljósastikunni. 36Knapparnir og álmurnar skulu vera samfastar henni. Allt skal það gjört með drifnu smíði af skíru gulli.

37Þú skalt gjöra lampa hennar sjö og skalt svo upp setja lampana, að þeir beri birtu yfir svæðið fyrir framan hana. 38Ljósasöx og skarpönnur, sem ljósastikunni fylgja, skulu vera af skíru gulli. 39Af einni talentu skíragulls skal hana gjöra með öllum þessum áhöldum. 40Og sjá svo til, að þú gjörir þessa hluti eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu."

Á hebresku er stikan kölluð Menóra sem einfaldlega þýðir lampi eða ljósastika. Á hverjum degi voru bikarar stikunnar fylltar af ólívur-olíu og síðdegis kveiktu prestarnir á þeim. Andleg merking stikunnar kemur fram í lokasetningu tilvitnunarinnar. Hún á að minna á opinberun Móses á fjallinu þar sem Drottinn birtist honum sem logandi runni. Stikan er sem sagt listræn eftirlíking af trjárunna.

Fram undir árið 200 F.K. heyrði Júdea undir Egyptaland. Þá réðist Antiochus III  Sýrlandskonungur inn í Egyptaland og yfirtók lendur þess. Um hríð bjuggu Gyðingar við einskonar heimastjórn. Árið 175 F.K. réðist Antiochus IV inn í  Jerúsalem og hertók borgina. Hann spillti helgidómi musterisins og bannaði hinar daglegu fórnir sem þar voru færðar og aðrar helgiathafnir sem fóru fram. Bannið varði í þrjú ár og sex mánuði, eða þar til allsherjar uppreisn var gerð í borginni, leidd af Matthíasi yfirpresti og sonum hans. Einn þeirra Judah, sem varð þekktur undir nafninu  Yehuda HaMakabi, (hamarinn) tók síðar við embætti föður síns.  Árið 165 F.K. tókst gyðingum að reka sýrlendinga af höndum sér og frelsa helgidóm sinn.

Sagan segir að þegar endurhelga átti musterið og kveikja skyldi aftur á hinum helga ljósastjaka, kom í ljós að sýrlendingar höfðu eyðilagt allt ljósmetið fyrir utan litla krukku sem bar innsigli yfirprestsins. Átta daga og nætur tók að útbúa nýja olíu og á meðan loguðu ljósin á stikunni af olíunni úr krukku prestsins sem dugði allan þann tíma.

Menorah 2Til að minnast þessa atburða lét Judah efna til hátíðarhalda, ljósahátíðarinnar Hanukkah sem festi sig í sessi og er haldin hátíðleg hvar sem Gyðingar búa enn í dag. Hún hefst  25. dag Kislev mánaðar hebreska dagatalsins sem fellur á seinni hluta nóvember til seinni hluta desember mánaðar samkvæmt Gregoríska tímatalinu. Hátíðin stendur í átta daga og átta nætur og með með henni varð til níu arma ljósastikan sem gjarnan logar fyrir utan hús Gyðinga yfir hátíðna.

Níu arma ljósastikan er táknræn fyrir dagana og næturnar átta en ljósið í miðjunni er kallað shamash (hjálpari), og er því einu ætlað að lýsa fólki. Hin átta eru tendruð til minningar um kraftaverkið með olíuna og til að lofa Guð.

AðventuljósVíkur þá sögunni til Svíþjóðar. Í kring um jólin 1964, (á þeim tíma sem flest öll hús á Íslandi voru komin með rafmagn), var kaupsýslumaðurinn Gunnar Ásgeirsson á ferð í Stokkhólmi. Gunnar átti mikil skipti við sænsk fyrirtæki og flutti til að mynda bæði inn Volvo og Husquarna. Á þessari ferð rakst hann á einfalda trépíramíta með sjö ljósum og ýmislega í laginu. Hér var um að ræða nýjung í Svíþjóð; lítt þekktir smáframleiðendur voru að reyna að koma föndri sínu á framfæri í jólavertíðinni. Um þetta segir ágætisgrein um uppruna "gyðingaljósanna" á Íslandi á vísindavefnum. 

"Þessi framleiðsla hafði þá ekki slegið í gegn í Svíþjóð og mun ekki hafa gert fyrr en um 1980. Gunnari datt hinsvegar í hug að þetta gæti verið sniðugt að gefa gömlum frænkum sínum, handa hverjum menn eru oft í vandræðum með að finna gjafir. Hann keypti held ég þrjú lítil ljós, og þau gerðu mikla lukku hjá frænkunum og vinkonum þeirra. Gunnar keypti því fleiri ljós næsta ár til gjafa sem hlutu sömu viðtökur. Þá fyrst fór hann að flytja þetta inn sem verslunarvöru, og smám saman þótti það naumast hús með húsi ef ekki er slíkt glingur í gluggum."

Menóra í KirkjuÞessi tegund af ljósum eru stundum kölluð "gyðingaljós" af því þau minna um margt á ljósahátíðar ljósastikur Gyðinga. En myndir af slíku stikum er einnig að finna í sumum kirkjum og er líklegra að sænsku hagleiksmennirnir hafi fengið hugmyndina þaðan, frekar en úr musteri gyðinga til forna.  


Kattahatur á Íslandi

Heilagir kettirEina húsdýrið sem hvergi er minnst á í Biblíunni er kötturinn. Talið er að kettir hafi fyrst orðið að húsdýrum á eyjunni Kýpur fyrir rúmlega 9000 árum, þannig að líklegt er að þeir hafi verið til staðar á sögusviði Biblíunnar, þótt ekkert sé á þá minnst í bókinni góðu. Reyndar er talið að Ísraelar hafi ekki haft mikið dálæti á köttum, þar sem mikil helgi var á þá lögð í Egyptalandi. Kannski er það ástæðan.

Í fornum keltneskum þjóðsögum, bæði írskum og skoskum er kötturinn jafnan sögð mikil voðavera. Langlífust þeirra sagna er sagan af Cat Sith, stórum svörtum ketti sem var dýrbítur mikill og lagðist jafnvel á fólk. Reyndar hefur því verið haldið fram að þær sögur eigi við staðreyndir að styðjast og hér hafi verið á ferð svo kallaður Kellas köttur sem nú er útdauður en var til í Skotlandi í margar aldir. Kellas kötturinn var blanda af evrópskum villiketti og heimilisketti og var því óvenju stór og kraftmikill.

SkrattakötturÁ miðöldum var sú trú útbreidd í norður Evrópu að nornir gætu breytt sér í ketti, einkum svarta með glóandi glyrnur.  Svartir kettir sjást illa í myrkri og geta því læðst með veggjum óséðir, eins og þeirra er háttur. Játuðu ófáar konur því að vera slíkir hamskiptingar, áður en þeim var kastað á bálköst og þær brenndar fyrir galdra. Þá innihéldu margar uppskriftir að nornaseyðum ketti eða einhvern hluta þeirra.

Svo stæk var þessi hjátrú að á páskum og hvítasunnu voru skipulagðar kattaveiðar í mörgum bæjum Þýskalands.  Almenningur trúði því að sjálfur Lúsífer hefði tekið sér ból í köttunum og voru þeir sem veiddust umsvifalaust brenndir á báli.

Miðað við hversu lítið er minnst á ketti í íslenskum heimildum og sögum og sé það gert, er ímynd þeirra frekar neikvæð, mætti halda að við Frónbúar hafi forðum lagt á þá fæð fremur en haft á þeim dálæti líkt og nú er algengast.

VíkingakötturElsta íslenska heimildin um ketti er úr Vatnsdælasögu og segir  "frá óspektarmanni og þjófi, Þórólfi sleggju, sem átti tuttugu ketti svarta, stóra og tryllta, og hafði þá til að verja híbýli sín. Hann var þó yfirunninn, en þar sem hann hafði búið „sást jafnan kettir, og illt þótti þar oftliga síðan.“ Þetta á að hafa gerst í heiðni og er auðvitað aðeins sögn." 1.

Þá er getið um verð á kattarbelgjum og kattarskinnum á miðöldum, líklega á 12. öld. Í öðru aðalhandriti lögbókarinnar Grágásar, Konungsbók er talið upp í verðskrá: „Kattbelgir af fressum gömlum tveir fyrir eyri. Af sumrungum þrír fyrir eyri.“ Í kristnum lögum Grágásar er einnig tekið fram að óheimilt sé að hafa ketti til matar, eins og önnur klódýr enda öll slík dýr forboðin samkvæmt lögum Mósebóka. 

SkoffínÍ þjóðsögunum er talað um kattarblendingana Skoffín og Skuggabaldur. Skoffín afkvæmi refs og kattar, þar sem kötturinn er móðirin. Skuggabaldur er afkvæmi sömu dýra en kemur úr móðurkviði refsins.

Jón Árnason 'segir að lítil hætta stafi af skoffínum þar sem þau séu ætíð drepin áður en þau komast upp, enda hægt um heimatök þar sem móðirin er heimilisköttur. Skuggabaldurinn er hins vegar öllu viðsjárverðara dýr og samkvæmt þjóðsögum gerast þeir dýrbítar og verða ekki skotnir með byssum.

Samkvæmt einni sögn náðu Húnvetningar að króa skuggabaldur af og drepa. Áður en hann var stunginn mælti hann áhrínisorð. Banamaðurinn hermdi orð skuggabaldurs í baðstofu um kvöld og stökk þá gamall fressköttur á manninn:

Hljóp kötturinn á hann og læsti hann í hálsinn með klóm og kjafti, og náðist kötturinn ekki fyrr en höfuðið var stýft af honum, en þá var maðurinn dauður." 2.

JólakötturEinhvern tíman á 19 öld verður til þjóðsagan um íslenska jólaköttinn, skelfilega ófreskju sem situr um ódæl börn og etur þau eftir að hafa gleypt í sig matinn þeirra, eins og Jóhannes úr Kötlum segir svo listilega frá í kvæði sínu um ófétið. 

Jólakötturinn slóst fljótlega í för með Grýlu, Leppalúða og jólasveinahyskinu öllu saman. Reyndar hlýtur  að vera mikil samkeppni milli hans og  Grýlu sem einnig hafur þann leiða sið að eta óþæg börn eins og Jóhannes gerði einnig góð skil í óð sínum til flagðsins.

Það er athyglisvert að einu húsdýrin sem djöfulinn hefur verið kenndur við og sagður taka sér bólfestu í, eru kötturinn og geithafurinn. Geithafurinn geldur þess að gríski skógar og frjósemisguðinn Pan, var hálfur hafur og kötturinn þess að vera eina húsdýrið sem ekki er nefnt í hinni helgu bók og einnig þess að vera meðal hinna óhreinu "klódýra".

Samt koma einmitt þessi dýr, geithafurinn á Norðurlöndum og kötturinn á Íslandi, við sögu á fæðingarhátíð Frelsarans og skýtur það dullítið skökku við að þegar helgin er sem mest, er börnum hættast við að verða óvættum að bráð. 

Þór og hafrarnirÞví hefur verið haldið fram að íslenski jólakötturinn sé eftirherma af jólahafrinum og þeim siðum sem honum tengjast á Norðurlöndunum. Þá hefur verið reynt að rekja Jólahafurinn til sögunnar af Þór og höfrunum hans tveimur Tanngrisnir og Tanngnjóstr sem guðinn gat óhræddur etið að kvöldi því þeir  höfðu endurnýjað sig að morgni. 

Í Noregi og Svíþjóð eru jólahafrarnir einskonar jólalöggur sem fylgjast með því hvernig undirbúningurinn gengur, en í Finnlandi var Joulupukki öllu skuggalegri karakter og líkari íslenska jólakettinum, þótt hann sé nú orðinn venjulegur jólasveinn.

Til gamans má geta þess að í sögunum af finnsku hetjunni Lemminkainen er ketti beitt fyrir sleða, sem hann dregur drekkhlaðinn af mönnum langt norður í Lappland og þýtur yfir snjóinn þar sem hvorki hestar eða hafrar geta farið.

Hvernig norræni jólahafurinn varð að ketti hér á landi er ekki alveg ljóst. Bæði var/er sagan af þrumuguðinum Þór jafn þekkt á Íslandi og á hinum norðurlöndunum og geitur hafa vissulega verið til á landinu síðan á landnámsöld.

Freyja og kettirnir hennar

 Var það hugsanlega vegna þess að þeir vildu gera frjósemisgyðjunni Freyju jafn hátt undir höfði og þór, en vagn hennar var einmitt dreginn af tveimur svörtum köttum.

Eða var það vegna þess að í landi "stóra og tryllta" katta, hvæsandi skoffína og skuggabaldra, var kattarkynið miklu ógnvænlegri en jarmandi geitargrey.

Heimildir;

1-2 Háskólavefurinn


þúsundkallinn sem hvarf

Þrír sölumenn komu samtímis á Hótel Húsavík. Til að spara dagpeningana sína ákváðu þeir að deila saman einu herbergi. Herbergið kostaði 30.000 krónur sem þeir staðgreiddu. Rétt í þann mund sem sölumennirnir komu upp á herbergið, uppgötvaði stúlkan í afgreiðslunni að hún hafði gert mistök. Sumarverðin voru runnin úr gildi og vetrarverð tekin við.

Herbergið kostaði í raun 25.000 krónur en ekki 30.000.

Stúlkan kallaði þegar í stað á einn þjóninn úr matsalnum og bað hann að taka strax 5000 krónur upp á herbergi til sölumannanna. Þjónninn tók við fimm þúsund króna seðlum og hélt með þá upp á herbergið til sölumannanna.

ÞúsundkallÁ leiðinni varð honum hugsað til þess að það mundi verða erfitt fyrir hann að skipta 5000 krónunum jafnt á milli manna þriggja. Hann ákvað því að stinga tveimur þúsundum í vasann og láta sölumennina hafa aðeins 3000 krónur, eða 1000 krónur hvern.

Þetta gerði svo kauði. -

En við þetta kom upp óvænt staða. Það lítur út fyrir að 1000 krónur (þúsundkall) hafi einfaldlega horfið.

Förum aðeins yfir dæmið;

Sölumennirnir greiddu fyrir herbergið 30.000 krónur, 10.000 hver.

Stúlkan sendi þjóninn með 5000 krónur af þessum 30.000 sem sölumennirnir greiddu með, sem hann átti að færa þeim. Þjónninn stakk tveimur þúsundum í vasann og lét sölumennina aðeins hafa 3000 krónur, eða eitt þúsund hvern.

Hver sölumaður greiddi upphaflega 10.000 (3 X 10.000= 30.000), og hver fékk eitt þúsund til baka sem þýðir að hver sölumaður greiddi í raun 9.000 krónur fyrir herbergið.

3 X 9000 gera 27.000. Tvö þúsund enduðu uppi í vasa þjónsins, eins og áður segir. Það gera samtals 29.000 krónur.

Getur einhver sagt mér, hvar er þúsundkallinn sem upp á vantar?


Sam Hashimi og Samantha og Charles Kane

sam-hashimiÁrið 1977 kom sautján ára stráklingur til London frá Írak til að leggja þar stund á nám í verkfræði. Hann hét Sam Hashimi. Á níunda áratugnum vegnaði honum mjög vel og græddist nokkurt fé á fasteignabraski. Hann gifti sig árið 1985 og eignaðist fljótlega með konu sinni Trudi, tvö börn. 

Árið 1990 var orðin svo stöndugur að hann reyndi að festa kaup á fótboltafélaginu Sheffield United. Áhangendur Sheffield voru ósáttir við Sam og kaupin gengu aldrei í gegn. Skömmu síðar hrundi fasteignaverð á Bretlandi og fyrirtæki Sams fór á hausinn. Í kjölfarið á tapinu fór 10 ára hjónaband Sams í vaskinn.

Árið 1997 var svo komið að hann hafði hvorki samband við fyrrverandi konu sína eða börnin sín tvö, stúlku og dreng. Sam einangraðist mjög félagslega eftir skilnaðinn. Hann sagðist hafa fundið fyrir mikilli örvæntingu og fannst hann til einskis nýtur. Sam lýsir þessum tíma á eftirfarandi hátt;

Sam og Trudi"Ég fann fyrir miklu vonleysi. Ég hafði tapað fótboltafélaginu mínu, fyrirtækinu, konunni, börnunum og heimili mínu  Ég var misheppnaður karlmaður. Ég var ekki karlmaður. "

Sam leitaði til sálfræðings og tjáði honum að hann vildi ekki lengur vera karlmaður og dreymdi um að verð kvenmaður. Sjö mánuðum seinna var hann skráður inn á skurðdeild á einkasjúkrahúsi og í Desember 1997 varð Sam Hashimi að Samönthu Kane.

Kynskiptiaðgerðin heppnaðist vel. Ekki leið á löngu uns Samantha hóf að endurreisa fyrirtækið sem Sam hafði tapað.  Á örfáum árum var Samantha orðin milljónamæringur sem gat leyft sér það sem hugur hennar girntist. Hún fór í lýtaaðgerðir og lét m.a. gera nef sitt kvenlegra,  leysigeislaaðgerð á augum gerðu gleraugun óþörf, tennurnar voru skjannaðar og réttar og skeggrótin var fjarlægð. Þeir sem kynntust Samönthu eftir aðgerðina áttu bágt með að trúa því að hún hefði verið karlmaður. Hún lét minka barkakýlið og strekkja á raddböndunum og gekkst undir brjóstastækkanir.

SamanthaÁrið 2004, eftir að hafa lifað sjö ár sem kona fóru að renna tvær grímur á Samönthu. Hún fann fyrir æ ríkari hvöt til þess að haga sér eins og karlmaður og velti því fyrir sér hvort hún væri ekki frekar að leika konu en að vera það raunverulega.  Blaðamaður einn spurði hana hvort hún væri ekki hommi, því hvernig gæti hann/hún sofið hjá karlmönnum ef svo væri ekki. Samantha svaraði; Ég reyndi það nokkrum sinnum (að sofa hjá karlmönnum) en það var frekar vélrænt. Ég hætti fljótlega við karlmenn og fór að hitta konur sem lesbía.

Svo fór að Samantha lét breyta sér aftur í karlmann sem nú kallar sig Charles Kane. Fyrsta skrefið var að láta fjarlægja brjóstin.  Öllu flóknari er aðgerðin sem á að endurskapa henni ný karlmannskynfæri.  Fyrst þurfti að fjarlægja allan hárvöxt af skinninu sem notað var í að endurhanna reður á Charles. Inn í nýja tippinu er túpa sem hægt er að pumpa upp til að líkja eftir stinningu. Ný gervi-eistu eru hengd í pung fyrir neðan tippið og þarf að kreista þau til að blása það upp.Charles verður að taka inn stóra skammta af  karlmannhormónum á hverju degi því líkami hans framleiðir þá ekki. Í fimm ár hefur hann verið á ströngum hormónakúr til að fá líkama sinn til að líkjast aftur karlmannslíkama en enn má sjá í honum leifar af Samönthu.

Í viðtali sem nýlega var tekið við Charles lýsir hann muninum á því að vera kona. 

"Til að byrja með var það mjög ánægjulegt að vera kona, sérstaklega fögur kona sem stundaði viðskipti. Fólk tekur eftir þér og það er mun auðveldara að ná athyglinni á fundum. Ég var oft mjög upp með mér af athyglinni. - Ég var miklu meira skapandi sem persóna. Áður tók það mig nokkrar sekúndur að taka ákvörðun, en sem kona hugsaði ég hlutina til enda, tók allt með í reikninginn áður en ég tók ákvörðun. -

Fólk vanmetur áhrif kven- og karl hormóna. Miðað við mína reynslu hafa þeir áhrif á allt líf þitt, líkamlega og tilfinningalega.- Og svo er það kynlífið. Fyrir karlmann er kynlífið mjög líkamlegt og mun ánægjulegra. Sem kona velta gæði þess mjög á skapinu og tilfinningum.-

Sem karlmaður hugsaði ég um kynlíf á hverjum degi, en sem kona var mér sama þótt ég stundaði ekki kynlíf í nokkra mánuði. - Kynlíf sem kona, var gott á marga vegu, en það var ekki sérlega lostakennt.- Það versta við að vera kona var að karlmenn komu stöðugt fram við mig sem kynveru. Ég varð frekar pirraður á því að hluta á karlmenn sem hafði ekki minnsta áhuga á, reyna við mig með fáránlegum húkklínum. -

Þótt ég væri kona á marga lund, fannst mér eins og heili minn starfaði enn sem karlmaður. Ég hafði áfram mikinn áhuga á umheiminum, fréttum, viðskiptum og íþróttum. En konurnar sem ég átti mest samneyti við höfðu ekki áhuga á þessu að sama skapi. -

Að vera kona fannst mér í raun frekar grunnt og takmarkandi. Allt virtist velta á hvernig maður leit út á kostnað alls annars. Ég hafði því miður lítinn áhuga á að versla.- Ég hafði heldur ekki áhuga á glansblöðum en ef ég reyndi að tala við karlmenn um hluti sem ég hafði áhuga á, tóku þeir mig ekki alvarlega.- 

Og vegna þess að ég hafði áður verið karlmaður, vissi ég alveg hvernig þeir hugsuðu og mundu bregðast við. Fyrir mér var það enginn leyndardómur. Það varð allt frekar leiðinlegt á endanum. - Svo fannst mér afar erfitt að fást við skapsveiflurnar og depurðina sem ég held að fylgi því að taka inn kvenhormóna. -

Sem karlmaður fann ég aldrei fyrir depurð. Ef eitthvað angraði mig, hristi ég það ef mér og hélt áfram. Sem kona var þetta stöðugur rússíbani tilfinninga. - Rifrildi við vinkonu eða vin hafði áhrif á mig í marga daga." -

"Trudi var í mínum augum hin fullkomna kona, hún var ástin í lífi mínu, en ég var týpískur karlmaður sem einbeitti mér of mikið að vinnunni og sinnti ekki fjölskyldunni. -

Ég hélt að ef ég skaffaði henni gott hús og nóg af peningum til að spandera í Harrods, yrði hún hamingjusöm. En það var hún ekki. - Þegar hún fór frá mér vegna annars manns fór ég allur í klessu og skilnaðurinn breytti öllu.- Ég fékk ekki að hitta börnin mín, sem fór alveg með mig. "

"Sem unglingur var ég dálítið skotinn í strák og  ruglaði smá um tíma. Ég fór á homma bari og kynntist klæða og kynskiptingum. Ég fór í gengum tímabil og gerði tilraunir. Mér fannst kynhneigð mín alltaf vera á floti, þótt ég laðaðist ekki að karlmönnum eftir að ég giftist Trudi."

Ég hitti kynskiptinga og klæðaskiptinga sem voru að undirbúa kynskiptingu, sem lofuðu það í hástert að vera kona, hversu gott kynlífið væri, hversu hamingjusamar þær væru og mig langaði að verða eins. - En ég sé það nú að ég var aldrei raunverulega kynskiptingur. Sannur kynskiptingur er einhver sem er staðráðin í að verða kona jafnvel þótt hún líti út eins 200 kg vörubílsstjóri. Mig langaði að verða fullkomin kona. Líf mitt var ímyndun ein.

Í einum kynskiptingaklúbbinum heyrði Sam minnst á Dr. Russell Reid og fékk tíma hjá honum. - 

"þetta gekk allt svo fljótt fyrir sig. Við ræddum um fantssíur mínar um að verða kona og hann greindi mig sem kynhverfing og gaf mér kvenhormóna. Þetta gerðist allt og fljótt en ég ólst upp við að treysta læknum. Að auki var ég ringlaður og þjáðist ég af depurð. Ég samþykkti greiningu læknisins án þess að spyrja.  

Sam gekkst undir kynskiptiaðgerð aðeins sex mánuðum eftir að hann fór í fyrsta sinn til Dr. Reid. Samkvæmt leiðbeiningunum, sem þó eru ekki löglega bindandi, er fólki gert að vera í hormónameðferð a.m.k. 12 mánuði fyrir aðgerð.

Eftir aðgerðina var Samantha afar ánægð. Hún náði miklu árangir á skömmum tíma í viðskiptalífinu, blandaði geði við hina ríku, saup kampavín og lifði hátt í Cannes og  Monte Carlo.

Samantha varð smá saman aftur döpur, sérstaklega eftir misheppnað ástarævintýri með breskum auðjöfri sem þó vissi að hún var kynskiptingur. Það var eftir þau vonbrigði að Samantha tók þá ákvörðun að láta breyta sér aftur í karlmann.

Charles"Til að byrja með virtist það ekki trufla hann að ég hafði eitt sinn verið karlmaður. En því lengur sem við vorum saman, kom það oftar upp. Hann sagði að ég hugsaði svona eða hinsegin vegna þess að ég væri ekki raunveruleg kona. Mér varð ljóst að ég mundi aldrei verða viðurkennd að fullu sem kona."

En stærsta ástæðan fyrir því að breyta sér aftur í mann segir Charles vera að hann vonaðist eftir að fá að umgangast börnin sín aftur sem hann hefur ekki séð í 13 ár.

"Eftir aðgerðina sem breytti mér aftur í karlmann reyndi ég að hafa samband við börnin en þau aftóku með öllu að hitta mig. Það var mikið áfall. Þannig hefur eiginlega ekkert af því sem ég hef reynt gengið upp. Stundum er ég mjög einmanna. ég hélt að ef ég yrði aftur karlmaður mundu hlutirnir ganga upp. En það hefur bara gert hlutina enn erfiðar" segir Charles.

"Eftir það sem ég hef gengið í gegn um finnst mér að það eigi að banna kynskiptiaðgerðir. Við lifum í neytandasamfélagi þar sem trúum öll að við getum fengið allt sem við viljum. En of mikið valfrelsi getur verið hættulegt."

 


mbl.is Skipti tvisvar um kyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þróaði fyrstu pentium fartölvuna

Herra Vickram Bedi, sá sami og ásakaður er ásamt íslenskri konu fyrir að hafa svikið fé út úr bandarískum auðjöfri, er eigandi fyrirtækissins Datalink Computer. Datalink Computer Products Inc. og  the D.N. Bedi Property group eru bæði félög í eigu herra Vickram Bedi.

Vickram þessi ku heita fullu nafni Baba Vickram A. Bedi og er fæddur árið 1974. Hann er sagður sonur Baba Shib Dayal Bedi og komin af hinni fornfrægu Bedi ætt, (Veda) auðugra stórkaupmanna og heldrimanna frá Indlandi.

Þá er því haldið fram í Wikipedia grein um Bedi fjölskylduna (sem reyndar notast við vafasamar og órekjanlegar heimildir) að Vickram hafi þróað fyrstu pentium fartölvuna árið 1994 þrátt fyrir að fyrstu pentium örgjafarnir fyrir fartölvur hafi ekki komið á markaðinn fyrr en 1997.

Til að fá nánari upplýsingar um það sló ég á þráðinn til Datalink í New York en fékk þær upplýsingar að Herra Bedi væri vant við látinn og ekki við fyrr en einhvern tíman í næstu viku.

Þá má geta þess að í þessari frétt mbl.is er sagt frá fjárgjöfum Bedi til Demókrata, en hann er einnig á lista yfir þá sem gáfu fé til Repúblikana.


mbl.is Segir að auðmaðurinn hafi gefið sér peningana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

C-3PO ♫♫♪♫

C3POAugljóst er að stór hluti bloggara skilur ekki Jón Gnarr. Líka er augljóst að meirihluti þeirra sem ekki skilja Jón Gnarr eru í "gamla Sjálfstæðisflokknum" og halda að allt sé eins og áður var.

Þeir skilja ekki að þegar þeir kalla Jón Gnarr "trúð" er það mikið hól fyrir Jón Gnarr og allir fylgjendur Jóns klappa saman hreifunum fyrir því.

Þegar Jón hagar sér eins og hann viti ekki neitt um pólitík, finnst gamla flokks meðlimunum það vera hneisa. Jón telur sér það hins vegar til tekna og þeir sem kusu hann segja sjúkk, sem betur fer.

Með öðrum orðum, "gamli Sjálfstæðisflokkurinn" skilur ekki geimverumálið hans Jóns.

Ég ráðlegg þeim öllum að festa sem fyrst kaup á einum C-3PO vélmenni sem skilur öll mál alheimsins, stilla hann á "íslensk pólitík í dag", og láta hann þýða það sem haft er eftir Jóni Gnarr.

Megi mátturinn vera með yður.


mbl.is Geimvera í íslenskum stjórnmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cliffhanger

Þeir félagar Hilmir Snær og Jörundur komust greinilega í hann krappan og þetta hefði vel getað farið illa. Algjör Cliffhanger ll  má segja, Jörundur í hlutverki Stallones. Annars finnst mér merkilegast við þessa frétt, nafnið á gígnum Lúdent og þetta með fítonskraftinn. Þarna er komið enn eitt gígsnafnið sem vafi leikur á hvaðan og hvernig er tilkomið. Ég fjallaði fyrir nokkru um Tintron, en það nafn er einnig umdeilt. Vísindavefurinn segir þetta um um nafnið Lúdent.

Lúdent er gígur austan við Mývatn í Suður-Þingeyjarsýslu. Þórhallur Vilmundarson telur nafnið vera dregið af tilbúna orðinu Lútandi sem orðið hafi að Lútendi og svo Lúdent. Síðan hafi orðið stúdent haft áhrif á nafnmyndina (Grímnir 2:109-110). 

Ekki er gefið að þessi skýring sé einhlít. Ólíklegt er að -t- á harðmælissvæði verði -d- í þessari stöðu. Hugsanlegt er að nafnið sé samsett, af lút og dent, þannig að tilbúna orðið Lút-dent hafi orðið Lúdent. Orðið dentur merkir ‘kvenhöfuðfat’ og merkingin væri þá ‘slútandi höfuðfat’.

Beyging nafnsins er Lúdentar- í samsetningum, til dæmis Lúdentarhæðirí sóknarlýsingu sr. Jóns Þorsteinssonar frá um 1840 (Þingeyjarsýslur, 118). Björn Gunnlaugsson setti myndina Lúðentarhæðirá Íslandskort sitt 1844. Lúdentarhæðir eru einnig í örnefnaskrá Voga. Þorvaldur Thoroddsen skrifar hinsvegar Lúdents-borgir 1913 (FerðabókI:283) og sömuleiðis Steindór Steindórsson í Árbók FÍ 1934 (bls. 29).

Fyrirsögnin talar um "fítonskraft" sem þó er hvergi komið meira inn á í fréttinni, sem er undarlegt, kannski jafn undarlegt og að þeir tveir, Hilmir og Jörundur, hafi "skipt liði". Alla vega segir Vísindavefurinn þetta um kraftinn;

Í orðabók Guðmundar Andréssonar frá 1683 er gefið orðið fitungs ande og skýringin við er 'pithon'. Í orðabók Björns Halldórssonar er Fítúns-andi skýrt á latínu sem ‘phyton, python’ en á dönsku sem 'Raseri', það er 'æðisgangur'. Af þessu sést að um tökuorð er að ræða úr latínu sem aftur hefur fengið orðið úr grísku. Pŷthōnvar stór slanga við Delfí sem guðinn Appolló vann sigur á en orðið var einnig í klassískum málum notað um spásagnaranda og þann sem hafði slíkan anda.


mbl.is Fékk einhvern fítonskraft og bjargaði sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tintron

TintronÉg hef verið að velta fyrir mér nafninu á hraunstrýtunni sunnan við Gjábakka í Þingvallasveit nærri veginum að Laugarvatni sem ýmist er sögð gervigígur eða hraunketill og nefnd Tintron. Tilefni þessa vangavelta er auðvitað að Sæmundur Bjarnason hefur verið að monta sig af því að hafa sigið niður um strýtuhálsinn og niður í hellinn fyrir neðan hann.

Ég hef ekki hugmynd um hversu gömul nafngiftin er, en hef á tilfinningunni að hún geti ekki verið mjög gömul. Því síður veit ég hver það var sem gaf strýtunni þetta forvitnilega nafn.

Donjon Jeanne_D'ArcHáskólavefurinn svarar því til í fyrirspurn um um nafnið að Helgi Guðmundsson telji nafnið á Tintron vera komið af frönsku donjon' dýflisa, svarthol'. Orðið er komið úr latínu. (dominio , að drottna)

Sú skýring finnst mér, eins og Svavari Sigmundssyni fyrrv. forstöðumanni Örnefnastofnunar, dálítið langsótt. Merkingin getur samt alveg staðist því af donjon er komið orðið dyngja (dungeon á ensku og reyndar oft notað sem sérheiti yfir allt annað fyrirbrigði í jarðfræði) en í Frakklandi voru og eru donjon oftast turnar með dýflissum sem lögun Tintron getur auðveldlega minnt á. (sjá myndir)

Þá segir háskólavefurinn þetta ennfremur um  strýtuna;

Í færeysku merkir orðið tint 'mælikanna, -staukur' en erfitt er að finna seinni hluta nafnsins skýringu. Ef til vill er það dregið af sagnorðinu tróna 'hreykja sér; gnæfa yfir', og trón'hásæti', og nafnið þá hugsanlega dregið af tilbúna orðinu Tint-trón. Merkingarlega er erfiðara að koma því heim og saman en fyrrnefndri skýringu. Enn annar kostur er að það sé dregið af tilbúna orðinu Tind-trón.

Þetta eru ágætar pælingar en hafa ekki við mikið að styðjast.

En hvaða aðrir möguleikar koma þá til greina?

Trona turnar 4Í Kaliforníu eyðimörkinni er að finna lítt kunn náttúrufyrirbæri sem kallast Trona. Þetta eru strýtur eða turnar, ekki ólíkir gervigígum á að líta og jafnvel viðkomu.

Orðið trona er upphaflega komið úr egypsku (ntry) eftir talverðum krókaleiðum inn í enskuna. Bæði á spænsku og sænsku þýðir orðið það sama og á ensku. Víst er að spánskan fékk orðið úr arabísku (tron) sem er samstofna arabíska orðinu natron og hebreska orðinu natruna sem aftur  kemur úr forngrísku og þaðan úr forn egypsku og merkir;  Natrín . (natríum eða sódi).

Tintron 2Trona turnarnir eru gerðir úr frekar óvenjulegri gerð tufa sem er samheiti yfir ákveðnar tegundir kalksteins. Sú tegund tufa sem trona turnar eru gerðir úr, verður einkum til við heita hveri og ölkeldur og kallast travertine.  

 Travertine Trona er því réttnefni á þessu fyrirbæri í Kaliforníu. 

Trona turnar 2Tintron getur hæglega verið íslensk stytting og samruni á þessum tveimur orðum og þess vegna gefið gervigígs- turn sem ekki er ólíkur í sjón og viðkomu og "trona-turnarnir"  í Kaliforníu. Það er alla vega mín tilgáta.


Glíma

Glíman er elsta íþróttagreinin mannkynsins. Margt bendir til að fyrstu fangabrögðin hafi verið hluti af trúariðkun og hermigaldri.  

Í fornum helgisögnum mannkynsins, frá öllum álfum,  er að finna frásagnir af glímubrögðum trúarhetja og má yfirleitt lesa frásagnirnar á táknrænan hátt og sem lýsingu á hinni stöðugu baráttu milli góðs og ills sem mannkynið hefur háð bæði ytra sem innra með sér, frá upphafi.

Stundum er glíman háð við einhverjar óvættir, fulltrúa hins dýrslega í manninum og stundum við fulltrúa guðdómsins sjálfs eða tákngerving æðra eðlis mannsins.

Gilgames og EnkiduÞannig háði hinn súmerski Gilagames mikla glímu við villimanninn Enkidu sem hann náði að yfirbuga og gera síðan að miklum vini sínum. Í þeirri sögu nær maðurinn sátt við sitt lægra eðli.

Í hinu forna indverska trúarriti  Mahabharata sem ritað er á sanskrít, koma glímur nokkuð við sögu. Þeirra frægust er glíma tveggja þrautreyndra glímukappa, þeirra Bhima og  Jarasandha Glíman varði í 27 daga og  Bhima vann ekki sigur fyrr en Krishna sjálfur gaf honum til kynna hvernig granda mætti Jarasandha með því að slíta hann í sundur í tvo hluta.  Jarasandha var einmitt upphaflega búinn til úr tveimur líflausum búkshlutum.

Þá kannast flestir Ísendingar við söguna um heimsókn Þórs til Útgarða-Loka sem villir Þór sýn og fær hann til að glíma við Elli kellingu. Elli kom Þór á annað hnéð og var glíman þá úti.

Jakob glímir við GuðKunnastur glímukappa úr Biblíunni er Jakob Ísaks og Rebekkuson sem glímdi næturlangt við sjálft almættið sem tekið hafði á sig mannsmynd. Guð náði ekki að fella Jakob og grípur meira að segja til þess ráðs að beita belli brögðum með því að lemja Jakob á mjöðmina með þeim afleiðingum að lærleggurinn gekk úr liðnum. Sagan skýrir einnig hvaðan nafnið á Ísrael er komið og hvað það þýðir (Sá er glímir við Guð)

Og Jakob lagði af stað um nóttina og tók báðar konur sínar og báðar ambáttir sínar og ellefu sonu sína og fór yfir Jabbok á vaðinu. 23Og hann tók þau og fór með þau yfir ána. Og hann fór yfir um með allt, sem hann átti.

24Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp. 25Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann. 26Þá mælti hinn: "Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún." En hann svaraði: "Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig." 27Þá sagði hann við hann: "Hvað heitir þú?" Hann svaraði: "Jakob." 28Þá mælti hann: "Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur."

Í Hadíðunum, arfsögnum múslíma, er að finna frásögn af glímu spámannsins Múhameðs við einn af hinum vantrúuðu. Glíman á að hafa farið fram í Mekka en andstæðingur Múhameðs var Rukaanah Ibn ’Abd-Yazeed al-Qurayshee sem er sagður haf verið af hraustustu ætt Araba. Fyrir glímuna á Rukaanah að hafa lofað því að viðurkenna Múhameð ef honum takist að sigra. Múhameð náði að fella andstæðinginn þrisvar sem þá lýsti því yfir að Múhameð væri galdramaður. Seinna, segir arfsögnin, gekk hann Íslam á hönd. 

Kóresk glímaElstu  (2697 F.K.) heimildirnar um glímu eru kínverskar og segja frá mannati sem kallast  jǐao dǐ. (hornastang)  Í bjǐao dǐ binda keppendur á sig höfuðbúnað búinn hornum og reyna svo að stanga hvern annan.  Þeir líkja þannig eftir hegðun hrúta, nauta og annarra hyrndra dýra. Talið er að allar helstu tegundir austurlenskra fangbragða hafi þróast út frá  bjǐao dǐ og aftur út frá þeim hinar ýmsu tegundir austurlenskra bardagalista.

Sumum austurlenskum fangbrögðum svipar mjög til íslensku glímunnar. Næst henni að formi kemur án efa kóreska glíman hin svo kallaða  Ssireum sem enn er stunduð í Norður Kóreu sem bændaglíma.

Þá eru til mjög gamlar heimildir um glímu meðal Egypta. Þær elstu frá 2300 fk. eru steinristur í grafhýsi heimspekingsins Ptahhotep sem m.a ritaði bók um hvernig ungir menn ættu að hegða sér í lífinu.

Glímumenn í Súdan (Núbíu)Glíma mun hafa verið afar vinsæl íþrótt meðal Egypta og sýna sum veggmálverkin fangbrögð milli Egypta og Núbíu-manna. Ljóst er að egypsku fangbrögðin hafa varðveist meðal Núbíu-manna því enn glíma karlmenn í Súdan á svipaðan hátt. Meðal egypsku fangbragðanna er að finna flest öll tök sem tíðkast í nútíma frjálsri glímu.

Grísk-rómverska glíman sem ásamt frjálsu glímunni er Oliympíu íþrótt, er lýst í forn-grískum heimildum, þar á meðal bæði í Illions og Ódiseifskviðu.

Heimspekingurinn Platon er sagður hafa keppt í glímu á Isthmíu-leikunum.  Meðal Grikkja og seinna Rómverja var mjög vinsælt að skreyta muni, slegna minnt með glímuköppum og gera af þeim höggmyndir.

Solidus-Basil_I_with_Constantine_and_Eudoxia-sb1703Á miðöldum berst glíman norður eftir Evrópu og var hún stunduð af leikmönnum jafnt sem konungum og keisurum. Fræg er sagan af Basil l, armenska bóndasyninum sem varð að keisara yfir Austur-Rómverska keisaraveldinu og Mikael lll keisari gerði að lífverði sínum og skjólstæðing eftir að hann sigraði glímukappa frá Búlgaríu á miklu glímumóti sem haldið var árlega þar um slóðir.

Á heimasíðu Glímusambands Íslands er þennan fróðleik að finna um íslensku glímuna.

 

Íslensk GlímaGlíman, þjóðaríþrótt Íslendinga, hefur lifað með þjóðinni allt frá Þjóðveldisöld. Talið er að landnámsmenn hafi flutt með sér hingað hin bragðasnauðu fangbrögð Norðurlanda og einnig bragðafang Bretlandseyja. Hér á Íslandi runnu þessi fangbrögð saman í fjölbreytt fang með tökum í föt og fjölda bragða. Það hlaut nafnið Glíma.

 

Íslendingasögur segja víða frá því að menn reyndu með sér í glímu og lesa má í heimildum að meira reyndi á krafta en tækni á þeim tíma. Á þeim öldum sem liðið hafa hefur glíman þróast frá frumstæðu fangi til íþróttar sem gerir miklar kröfur til iðkenda sinna um tækni og snerpu.

 

Á fyrri öldum þótti enginn maður með mönnum nema hann væri hlutgengur í glímu. Smalamenn tóku eina bröndótta sér til hita og glímt var eftir kirkjuferðir og í landlegum vermanna. Í þjóðsögum grípa afreksmenn oft til glímunnar í viðureign við tröll og útilegumenn og hafa betur með leikni sinni og íþrótt gegn hamremi og ofurafli andstæðinganna. Enn í dag þykir mikið koma til góðra glímumanna og sú stæling og þjálfun sem glímumenn öðlast hefur oft komið sér vel í lífsbaráttunni.

 

Íslensk Glíma 1Glíman telst til þjóðlegra fangbragða en af þeim eru þekktar um 150 tegundir um víða veröld. Þekktastar þeirra eru hið japanska súmó, sem er þó öllu heldur lífsstíll en íþrótt, svissneska sveiflan, (schwingen) og skoska backhold fangið að ógleymdu gouren í Frakklandi. Á seinni árum hafa glímumenn spreytt sig í þrem þeim síðastnefndu með góðum árangri.

 

Glíman sker sig úr öllum öðrum fangbrögðum á þrennan hátt:

1.Upprétt staða. Í glímunni skulu menn uppréttir standa. Staða margra fangbragða minnir helst á vinkil en í glímu heitir slíkt bol og er bannað.

2. Stígandinn. Í glímunni er stigið sem felst í því að menn stíga fram og aftur líkt og í dansi og berast í hring sólarsinnis. Stígandinn er eitt helsta einkenni glímunnar og er til þess fallinn að skapa færi til sóknar og varnar og að ekki verði kyrrstaða. Glímumenn skulu stöðugt stíga, bregða og verjast.

3. Níð. Í glímu er bannað að fylgja andstæðing eftir í gólfið eða ýta honum niður með afli og þjösnaskap. Slíkt er talið ódrengilegt og í andstöðu við eðli glímunnar sem drengskaparíþróttar. Glímumaður skal leggja andstæðing sinn á glímubragði svo vel útfærðu að dugi til byltu án frekari atbeina. Hugtakið níð er tæpast til í öðrum fangbrögðum.

Ár hvert keppa bestu glímumenn landsins um sigur í Íslandsglímunni. Þar er keppt um Grettisbeltið sem er elsti og veglegasti verðlaunagripur á Íslandi. Íslandsglíman fór fyrst fram á Akureyri árið 1906. Sigurvegari Íslandsglímunnar hlýtur Grettisbeltið og sæmdarheitið Glímukóngur Íslands.

Síðasta áratuginn hafa konur einnig tekið þátt í glímu með góðum árangri. Stórmót þeirra heitir Freyjuglíman og sigurvegarinn er krýnd glímudrottning.

Glíman er eina íþróttin sem hefur orðið til á Íslandi og hún er einstæð í veröldinni. Útlendingar sem kynnast glímu undrast mjög þessa háþróuðu og tæknilegu íþrótt og þykir mjög til hennar koma.

Á tímum hnattvæðingar reyna þjóðir mjög að halda fram sínum þjóðlegu

sérkennum. Slíkt er smáþjóð eins og Íslendingum nauðsyn til að undirstrika sérstöðu sína og þar liggur beinast við að efla glímuna, hina fornu, sérstæðu og glæsilegu þjóðaríþrótt okkar.

 

Frægust glíma úr íslendingasögunum er glíma Grettis Ásmundasonar og draugsins Gláms. Henni er lýst svona í Grettissögu;

glamur2Grettir reið á Þórhallsstaði og fagnaði bóndi honum vel. Hann spurði hvert Grettir ætlaði að fara en hann sagðist þar vilja vera um nóttina en bónda líkaði að svo væri.

Þórhallur kvaðst þökk fyrir kunna að hann væri. "En fáum þykir slægur til að gista hér um tíma. Muntu hafa heyrt getið um hvað hér er að véla en eg vildi gjarna að þú hlytir engi vandræði af mér. En þó að þú komist heill á brott þá veit eg fyrir víst að þú missir hests þíns því engi heldur hér heilum sínum fararskjóta sá er kemur."

Grettir kvað gott til hesta hvað sem af þessum yrði.

Þórhallur varð glaður við er Grettir vildi þar vera og tók við honum báðum höndum. Var hestur Grettis læstur í húsi sterklega. Þeir fóru til svefns og leið svo af nóttin að ekki kom Glámur heim.

Þá mælti Þórhallur: "Vel hefir brugðið við þína komu því að hverja nótt er Glámur vanur að rísa, ríða húsum eða brjóta upp hurðir sem þú mátt merki sjá."

Grettir mælti: "Þá mun vera annaðhvort, að hann mun ekki lengi á sér sitja eða mun af venjast meir en eina nótt. Skal eg vera nótt aðra og sjá hversu fer."

[ ... ]

Grettir og Glámur 1Og er af mundi þriðjungur af nótt heyrði Grettir út dynur miklar. Var þá farið upp á húsin og riðið skálanum og barið hælunum svo að brakaði í hverju tré. Það gekk lengi. Þá var farið ofan af húsunum og til dyra gengið. Og er upp var lokið hurðunni sá Grettir að þrællinn rétti inn höfuðið og sýndist honum afskræmilega mikið og undarlega stórskorið. Glámur fór seint og réttist upp er hann kom inn í dyrnar. Hann gnæfaði ofarlega við rjáfrinu, snýr að skálanum og lagði handlegginn upp á þvertréið og gnapti innar yfir skálann. Ekki lét bóndi heyra til sín því að honum þótti ærið um er hann heyrði hvað um var úti. Grettir lá kyrr og hrærði sig hvergi. Glámur sá að hrúga nokkur lá í setinu og ræður nú innar eftir skálanum og þreif í feldinn stundar fast. Grettir spyrnti í stokkinn og gekk því hvergi. Glámur hnykkti annað sinn miklu fastara og bifaðist hvergi feldurinn. Í þriðja sinn þreif hann í með báðum höndum svo fast að hann rétti Gretti upp úr setinu, kipptu nú í sundur feldinum í millum sín. Glámur leit á slitrið er hann hélt á og undraðist mjög hver svo fast mundi togast við hann. Og í því hljóp Grettir undir hendur honum og þreif um hann miðjan og spennti á honum hrygginn sem fastast gat hann og ætlaði hann að Glámur skyldi kikna við. En þrællinn lagði að handleggjum Grettis svo fast að hann hörfaði allur fyrir orku sakir. Fór Grettir þá undan í ýmis setin. Gengu þá frá stokkarnir og allt brotnaði það sem fyrir varð. Vildi Glámur leita út en Grettir færði við fætur hvar sem hann mátti en þó gat Glámur dregið hann fram úr skálanum. Áttu þeir þá allharða sókn því að þrællinn ætlaði að koma honum út úr bænum.

Grettir og Glámur 3En svo illt sem að eiga var við Glám inni þá sá Grettir að þó var verra að fást við hann úti og því braust hann í móti af öllu afli að fara út. Glámur færðist í aukana og hneppti hann að sér er þeir komu í anddyrið. Og er Grettir sér að hann fékk eigi við spornað hefir hann allt eitt atriðið, að hann hleypur sem harðast í fang þrælnum og spyrnir báðum fótum í jarðfastan stein er stóð í dyrunum. Við þessu bjóst þrællinn eigi. Hann hafði þá togast við að draga Gretti að sér og því kiknaði Glámur á bak aftur og rauk öfugur út á dyrnar svo að herðarnar námu af dyrið og rjáfrið gekk í sundur, bæði viðirnir og þekjan frerin, féll svo opinn og öfugur út úr húsunum en Grettir á hann ofan. Tunglskin var mikið úti og gluggaþykkn. Hratt stundum fyrir en stundum dró frá.

Nú í því er Glámur féll rak skýið frá tunglinu en Glámur hvessti augun upp í móti. Og svo hefir Grettir sagt sjálfur að þá eina sýn hafi hann séð svo að honum brygði við. Þá sigaði svo að honum af öllu saman, mæði og því er hann sá að Glámur gaut sínum sjónum harðlega, að hann gat eigi brugðið saxinu og lá nálega í milli heims og heljar.

En því var meiri ófagnaðarkraftur með Glámi en flestum öðrum afturgöngumönnum að hann mælti þá á þessa leið: "Mikið kapp hefir þú á lagið Grettir," sagði hann, "að finna mig en það mun eigi undarlegt þykja þó að þú hljótir ekki mikið happ af mér. En það má eg segja þér að þú hefir nú fengið helming afls þess og þroska er þér var ætlaður ef þú hefðir mig ekki fundið. Nú fæ eg það afl eigi af þér tekið er þú hefir áður hreppt, en því má eg ráða að þú verður aldrei sterkari en nú ertu og ertu þó nógu sterkur og að því mun mörgum verða. Þú hefir frægur orðið hér til af verkum þínum en héðan af munu falla til þín sektir og vígaferli en flestöll verk þín snúast þér til ógæfu og hamingjuleysis. Þú munt verða útlægur ger og hljóta jafnan úti að búa einn samt. Þá legg eg það á við þig að þessi augu séu þér jafnan fyrir sjónum sem eg ber eftir og mun þér þá erfitt þykja einum að vera. Og það mun þér til dauða draga."

Og sem þrællinn hafði þetta mælt þá rann af Gretti ómegin það sem á honum hafði verið. Brá hann þá saxinu og hjó höfuð af Glámi og setti þá við þjó honum. Bóndi kom þá út og hafði klæðst á meðan Glámur lét ganga töluna en hvergi þorði hann nær að koma fyrr en Glámur var fallinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband