Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Kalkúnn - Kalkúni

Viltur kalkúniÞegar að fyrstu Evrópubúarnir settust að í Norður Ameríku trúðu þeir almennt að landið væri hluti af Asíu.

Þessi trú birtist á margan hátt, m.a. í nafngift fuglsins sem á Íslandi er nefndur kalkúnn. Kalkúnn er uppruninn í Norður Ameríku og var snemma gerður að þjóðafugli Bandaríkjanna.

Fuglinn var afar algengur á austurströnd norður Ameríku og landnemarnir kölluðu fuglinn Turkey og héldu að þarna væri á ferðinni Gíneufugl (Numididae) sem einnig var kallaður Tyrkjafugl, Tyrkjahæna eða Tyrkjahani í mörgum Evrópulöndum.  Tegundin sem er annars útbreidd í Asíu var einmitt flutt til mið-Evrópu í gegnum Tyrkland.

Í Frakklandi er fuglinn samt nefndur poule d´Indes eða  Indlandshæna,  en Hollendingar öllu nákvæmari, kalla hann kalkoen eftir borginni Kalkútta á Indlandi og eftir þeim herma Íslendingar sína nafngift. Svo virðist sem tvær útgáfur af nafninu í nefnifalli og þolfalli séu notaðar jöfnum höndum á landinu, þ.e. Kalkúnn, kalkún og Kalkúni, kalkúna og kann ég ekkiskýringu á því.

Eins og margir eflaust vita  er kalkúninn vinsæll Þakkargjörðardags- og jólamatur hjá Bandaríkjamönnum og jólamatur hjá Bretum.

Einhver brögð munu vera að því í seinni tíð að Íslendingar borði kalkúna á jólum en í könnun sem MMR gerði í fyrra, kemur í ljós að landinn er ekki eins ginkeyptur fyrir kalkúna í jólamatinn og halda mætti. 

Steiktur Kalkúnn"Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 52,9% líklegast hafa hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld, 9,8% töldu líklegast að þeir myndu borða rjúpu og 8,3% ætluðu að borða kalkún á aðfangadag. Á jóladag sögðust 72,7% landsmanna líklegast myndu borða hangikjöt og 8% hamborgarhrygg. Svo virðist sem breytileiki í jólamatnum sé aðeins meiri hjá landanum á aðfangadagskvöld en hefðir og venjur ráði ríkjum á jóladag.

Áhugavert var að skoða niðurstöðurnar fyrir Ísland í samanburði við sambærilega könnun YouGov í Bretlandi dagana 2. – 3. desember 2010. Þar á bæ virðast breskar matarhefðir hafa vikið nær alfarið fyrir bandarískum áhrifum því 56% Breta segjast ætla að hafa kalkún í matinn á jóladag í ár. Kalkúnninn bandaríski kemur því í staðin fyrir hina hefðbundnu jólagæs sem Bretar neyttu áður fyrr á jólum en 2% bresku þjóðarinnar sögðust ætla að borða gæs á jóladag í ár."

Tuga uppskrifta af kalúna er að finna á netinu. Ég læt hér að lokum fylgja krækju á eina mjög hefðbundna.


Hindurvitnin og Vantrú

"Tilgangur Vantrúar er að berjast gegn boðun hindurvitna í samfélaginu, s.s. skipulögðum trúarbrögðum, skottulækningum og gervivísindum", eins og þeir orða það.  - Til að engin velkist í vafa um hvað meint er með "hindurvitnum" er orðið útskýrt á heimsíðu félagsins;

Til hindurvitna hljóta að teljast allar þær hugmyndir sem sprottnar eru af fáfræði og ekki er hægt að bakka upp með rökum. Með öðrum orðum fullvissa um það sem eigi er auðið að sjá.  Við lifum í rannsakanlegri veröld og getum byggt þekkingu okkar á því sem búið er að skoða með viðurkenndum rannsóknaraðferðum.

Þetta er skrifað af manni sem veit að ýmislegt sem búið er að skoða með "viðurkenndum rannsóknaraðferðum" og vísindamenn og almenningur í kjölfarið,  trúði að væri sönn þekking, er það ekki endilega. 

Við vitum ekki fyrir víst að það sem búið er að sanna vísindalega, sé sannleikur? 

Vísindalegar aðferðir eru vissulega besta leiðin sem við þekkjum til að uppgötva lögmál alheimsins en þær eru alls ekki óskeikular. Eins og það er mikilvægt að taka mið af vísindunum er jafn nauðsynlegt að hafa í huga að þau eru ekki eina leiðin til að öðlast þekkingu. Rökhugsun og íhugun eru líka þekkingarleiðir og vísindaleg vinnubrögð njóta meira að segja góðs af þessum þekkingarleiðum. 

En hver er ástæðan fyrir því að ekki er hægt að treysta vísindunum 100%. Svarið er að mistök eru gerð í rannsóknunum,  fyrir fáfræði.

Og allar hugmyndir sprottnar af fáfræði samkvæmt útskýringum Vantrúar eru hindurvitni sem félagsskapurinn berst gegn.  -

Mér finnst þetta ansi þröngur stakkur sem Vantrúarmenn sníða sér og götóttur að auki.

Einu rökin sem þeir vilja taka gild eru svo kölluð vísindaleg rök og vísindaleg rök eru að þeirra mati þekking sem búið er að grundvalla með viðurkenndum rannsóknaraðferðum, eingöngu.

Saga vísindanna geymir mýmörg dæmi um hvernig vísindaleg þekking sem fólk trúði að væri sannleikur, er það ekki.  Líkurnar á að við aðhyllumst einhverjar vísindalega sannaðar hugmyndir í dag sem í framtíðinni verða afsannaðar, eru mjög miklar. -

Jafnvel undirstöðu-kenning eins og  afstæðiskenning Einsteins, er í dag dregin í efa. Ef hún verður afsönnuð, eins og margt bendir til að verði, munu fjöldi annarra eðlisfræði og alheims kenninga falla með henni.

Er það mögulegt að átrúnaðragoð vantrúaðra eins og Einstein, Hawking og Dawkins hafi byggt heimsmynd sína á kenningu sem  miklar líkur eru á að sé ósönn. Hvað verður þá um hugtök eins og svart efni, svarta orku og svart flæði, allt vísindaleg hugtök,  sem þeir slá um sig með til að útskýra tilvisst og mekaník alheimsins, en enginn hefur samt minnstu hugmynd um hvað er

En útskýring Vantrúar á orðinu hindurvitni heldur áfram;

Samt sem áður kjósa margir að byggja heimsmynd sína á gömlum fullyrðingum um yfirnáttúrlegar verur, þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að þær séu nokkuð meira en hugarburður.

Þar til þeir sem þessu halda fram geta sýnt og sannað að þetta sé annað og meira en órar hlýtur að vera réttmætt að afgreiða þetta sem hindurvitni.

Hugtakið hindurvitni nær auðvitað yfir margt fleira en yfirnáttúru, en öll yfirnáttúra verður að flokkast undir hindurvitni.

Sem sagt, þrátt fyrir að niðurstöður vísindalegar aðferða séu ekki alltaf réttar, þegar þeim er beitt að fyrirbærum sem þó eru mælanleg,  gera Vantrúarmenn þá kröfu til þeirra sem t.d trúa á tilvisst Guðdóms að þeir sanni tilveru hans á vísindalegan hátt. 

Geti hinir trúuðu það ekki, skulu trúarbrögð þeirra stimplast hindurvitni og hugarburður. Þetta gera þeir vitandi að ekki er einu sinni hægt að framkvæma vísindalegar tilraunir á sjálfum Guðdóminum. Vísindin ná aðeins til náttúrlegra hluta, ekki yfirnáttúrlegra.

Guðdómurinn er samkvæmt skilgreiningu í eðli sinu órannsakanlegur. Hugmyndir manna um tilvist hans styðjast samt við sterk innri rök sem ekki hafa verið hrakin og fyrir trúaða er hverskonar endanleg sameiningarkenning ómöguleg án hans. 

Vantrúarmenn afneita öllu slíkum rökum og kalla allar slíkar hugmyndir hindurvitni og berjast gegn þeim. Þeir vilja aðeins hlusta á ákveðna gerð að rökum, þá gerð sem útilokar fyrirfram Guðdóminn.


Kanadísk Nessí

li-dinosaur-oilsandsRisaeðlubeinin sem fundust í Alberta í Kanada (sjá mynd) eru af Plesiosaur  risaeðlu samkvæmt því sem Donald Henderson, yfirmaður Alberta's Royal Tyrrell Museum segir.  

Plesiosaur (skriðdýrslíki) voru lagarskriðdýr og  kjötætur sem lifðu á júra tímabilinu eða miðlífsöld.

Plesiosaurus2Svæðið þar sem beinin fundust er ævaforn sjávarbotn en sumar tegundir "skriðdýrslíkja"  lifðu einnig í ferskvatni.

Því hefur t.d. verið haldið fram að Loc Ness skrmímslið, Nessie, sé af slíkri tegund og er þá stuðst m.a. við ljósmyndina sem hér fyrir neðan.

LochnessmonsterHún var tekin árið 1934 og er eina góða ljósmyndin sem náðst hefur af fyribærinu sem sýnir haus og háls. Þeir sem hafa rýnt í myndina telja hana ekki falsaða.

Fréttaritari mbl.is heldur greinilega Maggy Horvath, sú er kom niður á beinin sé karlmaður. Það rétta er að hún er kona.  Hún er heldur ekki "verkstjóri" eins og fram kemur, heldur gröfustjóri.someoneiswrong


mbl.is Fundu risaeðlu í olíusandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Soðið og steikt kynlíf

Í eina tíð þótti það mikill leyndardómur, aðeins finnanlegur í gömlum og oftast forboðnum skræðum, hvaða eðalfæða og sjaldgæf efni, höfðu þá náttúru að geta bætt og kætt kynlíf fólks. Nú á tímum eru þær fáar vörutegundirnar sem ekki eru sagðar koma þar við sögu.

Á snöggri gandreið um netið getur þú fundið næringarfræðinga, kynfræðinga og auðvitað matvælafræðinga sem mæla með fjölda tegunda af matvöru sem eiga að örva og bæta kynlífið og flestar eru líklega til í eldhússkápnum þínum.  Hér er sýnishorn;

Lakkrís, hvítlaukur, tómatar (soðnir) , ostrur, Chili pipar, bananar, gulrætur, rækja, súkkulaði, engifer, ólífur, tómatar, epli, aspas, ostar, mjólk, rjómaís, hnetur (ristaðar), hvalkjöt, snákakjöt, avakadó, bláber, jarðarber, poppkorn og söl.

E.t.v. er auðveldara að telja upp þær tegundir fæðu sem vitað er að virka ekki við fyrrnefnda iðju.

 


mbl.is Þetta eru matvælin sem bæta kynlífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirlíkingar Árna Johnsen

Hvað er þetta með Árna Johnsen og áhuga hans á smíði eftirlíkinga af gömlum húsum. Kannski hann hafi kviknað fyrir alvöru við setu hans í byggingarnefnd Þjóðleikhússins upp úr 1996. Víst er að hann hlaut talverða reynslu af almennu byggingarferli við þá setu.

Kirkja Þjóðhildar í Bröttuhlíð á Grænlandi Árni sá um að reisa eftirlíkingu af kirkju Þjóðhildar og bæjar Eiríks rauða í Bröttuhlíð á Grænlandi.

Á árinu 1997 ákvað Vestnorræna ráðið og Grænlenska Landsráðið að setja á fót byggingarnefnd, sem hefði það verkefni að byggja kirkju og bæ í Brattahlíð á Grænlandi. Formaður byggingarnefndar var skipaður Árni Johnsen.

Þegar að Norsk stjórnvöld ákváðu í tilefni af 1000 ára afmæli Kristnitöku á Íslandi að gefa íslensku þjóðinni stafkirkju og var henni valinn staður í Vestmannaeyjum.

Stafkirkjan á Skansinum í VestmannaeyjumSkipuð nefnd til að hafa stjórn og yfirumsjón með framkvæmdum og öðru er laut að móttöku gjafarinnar. Árni Johnsen var skipaður formaður nefndarinnar.

Kirkjan reis á Skansinum árið 2000 til minningar, er sagt, um svipaða kirkju sem reist var í fyrndinni af Hjalta Skeggjasyni hinum megin hafnarinnar á Hörgaeyri, líklega fyrst kirkna á Íslandi.

Bær Herjólfs í Herjólfsdal í VestmannaeyjumÞá stóð Árni Johnsen fyrir því 2005 (ásamt öðrum Eyjamönnum) að eftirlíking af landnámsbæ, e.t.v. Herjólfs Bárðarsonar sem talinn er hafa fyrstur numið eyjarnar, reis inn í Herjólfsdal.  Húsið er byggt sem langhús og gripahús.

Nú er Árni Johnsen kominn aftur af stað við að reisa eftirlíkingu.  - Svonefnt Þorláksbúðarfélag er undir forystu Árna Johnsen, en það ætlar að reisa eftirlíkingu af kirkju sem er kennd við Þorlák helga Þórhallsson, verndardýrling Íslands, sem var biskup í Skálholti undir lok 12. aldar. Alls óvíst er hvenær kirkjan sem höfð er að fyrirmynd var fyrst byggð en það setur Árni ekki fyrir sig.

ÞorláksbúðSamkvæmt fundargerð Kirkjuráðs frá því haustið 2010 var áætlaður kostnaður við Þorláksbúð um 38 milljónir króna. Í fjölmiðlum hefur komið fram að kostnaðurinn sé greiddur af opinberu fé og með framlögum einkafyrirtækja.

Gerð, staðsetning, tilgangur og fjármögnun allra þessara verkefna hafa verið umdeild. Einnig að það skuli hafa verið Árni Johnsen sem veiti framkvæmd þeirra forystu.

Spurningin sem ég velti fyrir mér er hvers vegna Árni sýnir svona verkefnum mikinn áhuga og er tilbúin að leggja frekar viðkvæmt orðspor sitt að veði í hvert sinn sem hann kemur nálægt þeim. -

Eftirlíkingar koma aldrei í stað þess sem raunverulega var og stundum er betra að láta sér nægja ímyndunaraflið frekar en að reiða sig á umdeildar eftirlíkingar. - Þessi árátta að gera eftirlíkingar af fornum mannvirkjum, af því engin raunveruleg hafa varðveist, sver sig dálítið í ætt við amerísku leikgarðamenninguna. Sá buisness byggist upp á því að fólk kæri sig kollótt um að það sem það sér og upplifir sé ekki ekta og e.t.v. ekki neitt í líkingu við það sem bestu heimildir segja til um.  -

Viking_VillageÉg held að hvorki Íslendingar eða erlendir ferðamenn sem til landsins koma, hafi mikinn áhuga á slíku í tengslum við mikilvægar söguslóðir og raunverulega náttúru. Viðbrögð gesta í Þjóveldisbæinn í Þjórsárdal og í eftirlíkinguna af bæ Eiríks rauða í Haukadal, bera vitni um það. Góðlátlegt grín bjargar oftast málunum, en er það markmiðið?

Ef til vill er samt markaður fyrir víkinga-skemmtigarð með eftirlíkingum af húsakynnum víkinga,  leikurum og leikmunum. Eitt slíkt var um tíma fyrirhugað í Reykjanesbæ en er víst ekki lengur á kortinu.


mbl.is Skálholt skyndifriðað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Santa versus Stekkjastaur

santa_claus_3.gifAmerísk menning og þjóðhættir eiga greiðan aðgang að Íslandi og Íslendingar upp til hópa virðast afar ginkeyptir fyrir henni. Í hönd fara nú þeir mánuðir þegar mest ber á því hversu andsvaralítið íslenskir siðir og þjóðhættir hafa smá saman látið í minni pokann, eða upplitast af þeim amerísku og tínt sérkennum sínum.

stekkjastaur1.jpgÞótt reynt hafi verið t.d. að halda við, og endurvekja, íslensku jólasveinana, sjást þeir yfirleitt á ferli rauðklæddir og í búningi að hætti Coca Cola-sveinsins og haga sér svo til eins og hann,  - 

Aðeins nöfn hinna rammíslensku tröllasona hafa nokkurn veginn haldið sér. Grýla, Leppalúði og jólakötturinn eru yfirleitt hvergi sjánleg nema á Þjóðmynjasafninu.

Valentínusardagurinn er smá saman að ýta alveg út hinum íslenska konudegi sem þýðir að bóndadagurinn og það jafnræði sem þessir tveir dagar báru með sér, er ekki lengur í heiðri haft eða minnst á þeim dögum.

halloween-party-ideas.jpgÍ stað þess að árétta og þakka hinni góðu búkonu störf hennar og lofa hagsýni hennar, er tilhugalífið með tilheyrandi rósrauðri rómantík, blómum og súkkulaði orðið að aðalatriðum.

Þá skal ekki rugla bónda og konudegi saman við mæðra og feðradagana sem einnig eru amerísk uppfinning og blómasalar og konfekt framleiðendur hafa gert sér mat úr hér á landi allt frá árinu 1934.

_lfar.jpgNýafstaðin er Hrekkjavakan (Halloween) sem er smá saman að færa sig upp á skaftið hér á landi, þrátt fyrir að Íslendingar hafi haft talvert fyrir því á sínum tíma að koma sér upp þjóðlegum hátíðahöldum í svipuðum dúr og sem haldin voru upphaflega á gamlárskvöld.

Form þeirra hátíðahalda hefur reyndar sumsstaðar færst yfir á þrettándann. Í stað álfa, huldufólks og trölla, koma uppvakningar, blóðsugur og raðmorðingar í bland við amerísk ofurmenni ættuð úr þarlendum hasarblöðum og kvikmyndum.

_skupokar.jpgAð sama skapi og þessir amerísku þjóðhættir riðja sér hér til rúms, viðspyrnulítið, verður hlutur þeirra íslensku minni og máttlausari.

Sprengidagur og öskudagur koma og fara án þess að elduð sé baunasúpa á heimilum landsins eða saumaðir öskupokar.

Bolludegi er reyndar enn haldið uppi af bökurum en vendirnir eru horfnir ásamt tilheyrandi flengingum.

Að mörgu leiti hefur okkur íslendingum mistekist að heimfæra menningararf bændasamfélagsins yfir  á bæja og borgarsamfélagið. Jónsmessan er aflögð, sumardagurinn fyrsti á útleið eins og fyrsti vetrardagur. Það eru helst matarvenjurnar sem lifa. Skata er víða elduð á þorláksmessu og þorrablót lifa ágætu lífi með sínu súrmeti og hangiketi.

Ferðamenn (túristar)  hafa oft orð á því að þeim finnist íslensk menning vera mjög amerísk. Það sem dregur þá til landsins er sérstæði íslenskrar náttúru og þeir búast einhvern veginn við því að menning okkar sé jafn sérstök og landið. Til að upplifa ameríska menningu mundu þeir fara til Ameríku, er viðkvæðið.

Kannski er það gamla eylands-minnimáttarkenndin sem þarna birtist enn á ný, og aftur að ástæðulausu. Hún felst í því að halda að allt hljóti að vera merkilegra og betra meðal annarra þjóða. Oft er reynt að fela hana með innistæðulausum þjóðarrembingi og mikilmennsku-stælum eins og við þekkjum svo vel úr sögu síðustu ára.

Íslenskir þjóðhættir eru hins vegar menningararfur sem vert er að halda í. Þeir skilgreina okkur betur sem þjóð og gerir landið og íbúa þess mun áhugaverðari um leið.


Þegar hornsteinninn molnar

Ekkert fer hraðar en ljósið. Rétt? Á því byggist mesta vísindalega kenning allra tíma, hin almenna afstæðiskennig  Einsteins,  sem er hornsteinn eðlisfræðinnar. - Kenningin er í flestra hugum ekki aðeins kenning, heldur staðreynd og hefur átt stóran þátt í styrkja vísindahyggju í heiminum þar sem höfundur hennar, Albert Einstein,  er að sjálfsögðu eitt helsta helsta átrúnaðargoðið.

Hún er fastinn sem skilur að raunveruleika efnisheimsins og fjörugs ímyndunarafls mannahugans. Vegna hennar er það t.d. talið ólíklegt að hægt sé að ferðast fram eða aftur í tíma eins og margar vinsælar vísindaskáldsögur gera ráð fyrir.

Afstæðiskenningin er líka oft tekin sem dæmi um hvernig fegurð og einfaldleiki koma saman í vísindunum svo úr verður meistaraverk. Jafnan sjálf er sögð ekki síðra listaverk en þau sem öllu jöfnu hafa aðeins fagurfræðileg gildi, eins og t.d. Móna Lisa.

Þess vegna mega fáir vísindamenn til þess hugsa að hún geti verið röng. -  Það mundi kollvarpa svo mörgum öðrum kenningum í eðlisfræðinni og breyta heimsmyndinni algjörlega.

Þess vegna er nú beðið eftir því í mikilli eftirvæntingu, að tilraun vísindamanna við CERN-öreindahraðalinn í Sviss, þar sem þeir sendu fiseindir frá einum stað í annan, á meiri hraða en ljóshraða,  verði endurtekinn af öðrum vísindamönnum, við aðrar aðstæður.

Fréttin  um þessar óvæntu niðurstöður CERN manna, vöktu vissulega heimsathygli á dögunum, og fjöldi þekktra vísindamanna lýstu í kjölfar hennar yfir efasemdum sínum um að mælingar þeirra gætu verið réttar.

En eftir á setti menn hljóða. Það tekur tíma að melta slík tíðindi. Mörgum er eflaust hugsað til allra hinna vísindalegu kenninganna sem vísindin sjálf hafa afsannað í gegnum tíðina og féllu fljótlega undir yfirborð þess sem talist getur nálgun við sannleikann. En einmitt sú lýsing á betur við vísindalegar kenningar frekar en að þær opinberi sannleikann sjálfan.

Ef að niðurstöður CERN manna reynast réttar, verða fyrstu viðbrögð eflaust að reyna að stoppa eitthvað upp í afstæðiskenninguna þótt það kunni að reynast erfitt, vegna þess hve einföld hún er. Takist það ekki hefst ferlið við að endurskoða allar þær kenningar sem byggja á afstæðiskenningunni. -

Endurskoða þarf t.d stóra hvells kenninguna frá upphafi sem er reyndar þegar svo götótt að í henni  stendur varla steinn yfir steini. Til að hún gangi upp þarf að finna svarta efnið, svörtu orkuna og svarta flæðið, allt hugartök vísindamanna sem þeir hafa búð til í þeim tilgangi að útskýra ýmis heimsfræðileg fyrirbrigði sem þeir í raun skilja ekki. Fram að þessu hafa vísindamenn ekki einu sinni tekist að koma með líklega tilgátu um hvað eða hvernig þessi efni og kraftar eru samsettir.


Hvað er satt um tippastærðina?

Eitt sinn var það mál manna að stærð einkabíla karla væri ætíð í öfugu hlutfalli við tippastærð þeirra. Sem sagt, eftir því sem bifreiðin var stærri, því minni limurinn. - Þetta var auðvitað tóm vitleysa og öfund í bland.

Meðal stelpna voru stórir strákar á stórum drossíum vinsælir,( og eru það eflaust enn)  og ekkert er líklegra en að þeir hafi stór tippi líka.

african-penis-gourdTippastærð karla, gallar og kostir,  hefur ætíð verið dularfull umræða. Allar fræðibækur og greinar sem fjalla um málið, segja venjulega að stærð og þykkleiki lima skipti ekki miklu máli fyrir virkni þeirra í kynlífinu, nema að um óeðlilega smæð sé að ræða. - Konur taka yfirleitt undir þetta,  þótt þær vilji sjálfsagt líka að menn þeirra séu vel vaxnir niður, jafnt sem annarsstaðar. Aðalatriðið er að maðurinn samsvari sér, segja margar.

Klámmyndaframleiðendur virðast hins vegar vera á öðru máli. Þeir keppast við að fá karlmenn með sem stærstu tippin til að koma fram í myndum sínum og mestu klámstjörnurnar eru jafnan afar tippastórir karlmenn. -

Hverju sem veldur, hafa karlmenn í auknum mæli notað sér framfarirnar í læknisfræðinni og gengist undir aðgerðir til að lengja á sér liminn. - Spurningin er hvort ákveðin viðhorfsbreyting hafi orðið meðal kvenna, og  karla í kjölfarið auðvitað, sem kallar á  þessa aukningu. -

Eða getur verið að klámvæðing heimsins eigi þarna stærstan hlut að máli? -

Í nokkrum vinsælum (ekki bláum) kvikmyndum sem ég hef séð upp á siðkastið er augljóst að viðhorf klámkvikmyndagerðarmannanna eru að verða viðtekin í venjulegum bíómyndum. - Konur viðurkenna þar fúslega eftir tvö eða þrjú rauðvínsglös að limastærð skipti þær máli í kynlífinu.

Aðrar kvikmyndir gefa þetta sama í skyn með því að láta konur gapa af undrun og rymja af ánægju við að sjá hjásvæfurnar sínar berar, svona eins og Amanda í Sex in the city gerði alltaf.

Hver er sannleikurinn um tippastærðina? Kannski einhverjar konur vilji tjá sig um það.

 


mbl.is Ræður mönnum frá limlengingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Indíánasumar

IndíánasumarIndíánasumar kalla fjölmiðlar góða veðrið sem leikið hefur við íbúa Bretlands og stórs hluta Norður-Evrópu nú á hautsdögum.

Orðatiltækið ku ættað frá Norður-Ameríku þar sem herskáir indíánaflokkar notuðu forðum slíka sumarauka til ránsferða.

Framan af öldum í Evrópu voru óvenju sólríkir og heitir góðviðrisdagar að hausti kenndir við heilagan Martein og kallaðir Marteinssumar en 11. Nóvember var og er helgaður honum.

Blíðan undanfarna daga hefur haft mikil áhrif á verslun og viðskipti hér í Englandi. Biðraðir mynduðust víða við bensíndælur á þjóðvegum úti um helgina og sumir kráreigendur urðu uppiskroppa með bjór. Ferðamannastaðir vítt og breitt um landið, sérstaklega þeir sem standa út við strendur landsins, voru fullir af sólelskandi og fáklæddu fólki.

Nú spá veðurfræðingar að í vikunni framundan muni kólna aftur í veðri og haustgolan með tilheyrandi regni verða aftur köld og svalandi. -


mbl.is Hitabylgja í Norður Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjólkuróþol skrælingja

Fyrr í sumar kom ég við á Eiríksstöðum í Haukadal  og hlustaði á sögumann staðarins segja enskum ferðamönnum m.a. frá siglingum norræna manna til vesturheims fyrir 1000 árum.

Karlsefni og RauðbuxiÁ honum mátti skilja að hann teldi ástæðuna  fyrir því að landnám norrænna manna  fór út um þúfur í N- Ameríku vera; að þeir gáfu "skrælingjunum" skyr að borða. Vegna erfðabundins mjólkuróþols flestra N-amerískra frumbyggja, hafi þeir orðið fárveikir af velgjörðunum og héldu auðvitað að verið væri að byrla þeim eitur.

Mjólkuróþol er kvilli sem hrjáir sumt fólk sökum þess að líkami þeirra framleiðir of lítið eða ekkert af laktasa, sem er prótín sem brýtur niður mjólkursykur og meðal amerískra indíána er mjólkuróþols-tíðnin hátt í 100% hjá fullorðnum einstaklingum. 

Það er staðreynd að Grænlendinga saga segir að Karlsefni hafi látið gefa skrælingjunum "búnyt"  sem vel kann að hafa verið skyr, í kaupum fyrir skinnavöru. 

LeifsbúðEn það sem skýtur skökku við er að sama heimild segir að skrælingjarnir hafi ekki viljað sjá annað eftir að þeir brögðuðu búnytina og þrátt fyrr að óþolið hafi hugsanlega valdið þeim uppþembu, magaverkjum, vindverkjum og jafnvel magakrömpum og niðurgangi, hafi þeir seinna, snúið aftur, eftir meiru af því sama.  

Hér kemur frásögnin úr Grænlendinga sögu:

Eftir þann vetur hinn fyrsta kom sumar. Þá urðu þeir varir við Skrælingja og fór þar úr skógi fram mikill flokkur manna. Þar var nær nautfé þeirra en graðungur tók að belja og gjalla ákaflega hátt. En það hræddust Skrælingjar og lögðu undan með byrðar sínar en það var grávara og safali og alls konar skinnavara og snúa til bæjar Karlsefnis og vildu þar inn í húsin en Karlsefni lét verja dyrnar. Hvorigir skildu annars mál.

Þá tóku Skrælingjar ofan bagga sína og leystu og buðu þeim og vildu vopn helst fyrir en Karlsefni bannaði þeim að selja vopnin.

Og nú leitar hann ráðs með þeim hætti að hann bað konur bera út búnyt að þeim og þegar er þeir sáu búnyt þá vildu þeir kaupa það en ekki annað. Nú var sú kaupför Skrælingja að þeir báru sinn varning í brott í mögum sínum en Karlsefni og förunautar hans höfðu eftir bagga þeirra og skinnavöru. Fóru þeir við svo búið í burt.

Nú er frá því að segja að Karlsefni lætur gera skíðgarð rammlegan um bæ sinn og bjuggust þar um. Í þann tíma fæddi Guðríður sveinbarn, kona Karlsefnis, og hét sá sveinn Snorri.

Á öndverðum öðrum vetri þá komu Skrælingjar til móts við þá og voru miklu fleiri en fyrr og höfðu slíkan varnað sem fyrr.

Þá mælti Karlsefni við konur: "Nú skuluð þér bera út slíkan mat sem fyrr var rífastur en ekki annað."

Og er þeir sáu það þá köstuðu þeir böggunum sínum inn yfir skíðgarðinn. En Guðríður sat í dyrum inni með vöggu Snorra sonar síns. Þá bar skugga í dyrin og gekk þar inn kona í svörtum námkyrtli, heldur lág, og hafði dregil um höfuð, og ljósjörp á hár, fölleit og mjög eygð svo að eigi hafði jafnmikil augu séð í einum mannshausi.

Hún gekk þar er Guðríður sat og mælti: "Hvað heitir þú?" segir hún.

"Ég heiti Guðríður eða hvert er þitt heiti?"

"Ég heiti Guðríður," segir hún.

Þá rétti Guðríður húsfreyja hönd sína til hennar að hún sæti hjá henni en það bar allt saman að þá heyrði Guðríður brest mikinn og var þá konan horfin og í því var og veginn einn Skrælingi af einum húskarli Karlsefnis því að hann hafði viljað taka vopn þeirra og fóru nú í brott sem tíðast en klæði þeirra lágu þar eftir og varningur. Engi maður hafði konu þessa séð utan Guðríður ein.

"Nú munum vér þurfa til ráða að taka," segir Karlsefni, "því að eg hygg að þeir muni vitja vor hið þriðja sinni með ófriði og fjölmenni. Nú skulum vér taka það ráð að tíu menn fari fram á nes þetta og sýni sig þar en annað lið vort skal fara í skóg og höggva þar rjóður fyrir nautfé vort þá er liðið kemur framúr skóginum. Vér skulum og taka griðung vorn og láta hann fara fyrir oss."

En þar var svo háttað er fundur þeirra var ætlaður að vatn var öðru megin en skógur á annan veg. Nú voru þessi ráð höfð er Karlsefni lagði til.

Nú komu Skrælingjar í þann stað er Karlsefni hafði ætlað til bardaga. Nú var þar bardagi og féll fjöldi af liði Skrælingja. Einn maður var mikill og vænn í liði Skrælingja og þótti Karlsefni sem hann mundi vera höfðingi þeirra. Nú hafði einn þeirra Skrælingja tekið upp öxi eina og leit á um stund og reiddi að félaga sínum og hjó til hans. Sá féll þegar dauður. Þá tók sá hinn mikli maður við öxinni og leit á um stund og varp henni síðan á sjóinn sem lengst mátti hann. En síðan flýja þeir á skóginn svo hver sem fara mátti og lýkur þar nú þeirra viðskiptum.

Það er greinilegt að Karlsefni telur sig hafa sloppið ódýrt frá viðskiptum sínum við skrælingjanna sem aðeins höfðu magafylli af "búnyt"  upp úr krafsinu. E.t.v. fékk hann slæma samvisku því hann lætur víggirða bæ sinn eftir þessi viðskipti.

Spurningin sem eftir situr er hvort skrælingjarnir hafi snúið aftur til að ná sér niðri á landnemunum eða hvort þeir komu bara til að verða sér út um meira skyr.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband