Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
28.6.2008 | 00:03
Tiffany, litla föla andlitið á bak við gardínudruslurnar.
Af og til heyrir maður í fréttum um svo hræðilega hluti að það fer um mann ískaldur hrollur. Slíkar voru fréttirnar af Austurríkismanninum Fritz sem hélt dóttur sinni fanginni í mörg ár og gat með henni börn. Í kvöld voru rifjaðir upp í fréttum hræðilegir atburðir sem áttu sér stað í Scarborough Arms kránni, í Upperthorpe, Sheffield í September á síðast liðnu ári. Tilefni fréttaupprifjunarinnar var að dómur er genginn í málinu.
Sabrina Hirst var 22 ára móðir þriggja ára stúlku sem hét Tiffany. Sabrina rak krá með fósturföður Tiffany litlu, Róbert Hirst að nafni.
Í skítugu rottugreni fyrir ofan krána geymdu þau Tiffany litlu. Engar myndir eru til að Tiffany og þeir fáu sem vissu af tilvist hennar lýstu henni sem fölu andliti á baki við rifnar gardínudruslur í glugga einum fyrir ofan krána. Þessi þrjú ár sem hún lifði var þetta herbergi heimur hennar. Þegar að lík hennar fannst fyrir tilviljun nokkru eftir dauða hennar vó líkami hennar minna en venjulegs eins árs barns. Hún hafði dáið úr sulti og vannæringu og lá samanhnipruð í horni herbergis sem var lýst af lögreglunni sem "greni fullt af mannasaur, pöddum og rottum." Beint fyrir neðan herbergið á kránni skemmti fólk sér á hverju kvöldi við neyslu á mat og vínföngum.
Í réttinum kom fram að sama dag og Tiffany dó hafði móðir hennar átt langt símtal við vinkonu sína um erfiðleika við að koma mat ofaní hundinn sem hún átti.
Dómarinn sagði í dómsorði að hann hefði aldrei orðið vitni að slíku hirðuleysi foreldris gagnvart barni sínu og þetta væri versta manndráps mál sem hann hafi meðhöndlað.
Sabrína (sjá mynd) var dæmd í 12 ára fangelsi eftir að hafa viðurkennt manndráp. Róbert Hirst (sjá mynd) hinn 44 ára fósturfaðir Tiffany fékk 5 ára fangelsisdóm fyrir níðingshátt sinn.
Hér er að finna nákvæmari frétt af þessu máli. Einnig er fjöldi annarra greina vítt og breitt um netið um þetta mál.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
21.6.2008 | 15:08
Flökkusögur, kannt þú eina slíka eða fleiri?
Allir kannast núorðið við flökkusögur sem er þýðing á orðunum "urban legends". Þær eru svo margar og mismunandi en hafa samt allar eitt sameiginlegt, þær eru tilbúningur. Í grein sem ég rakst um flökkusögur á Múrnum er þeim lýst svona;
"Líklega er það einmitt fjöldi þessara frásagna sem gerir það að verkum að þær rata svo sjaldan í fréttatíma. Jafnvel trúgjarnasti sumarstarfsmaður getur borið kennsl á þær sem flökkusögur ýktar eða upplognar frásagnir sem skjóta aftur og aftur upp kollinum. Og þótt fréttamönnum finnist gaman að segja krassandi sögur þá vilja þeir fæstir fara með algjört fleipur, þrátt fyrir allt."
Allt frá unglingsárum safnaði ég slíkum sögum og hafði gaman af að bera mismunandi útgáfur af sömu sögunni saman. Þegar að Aðalstöðin sáluga var upp á sitt besta, bauð Helgi Pé Ríó maður mér eitt sinn að koma til sín í síðdegisþátt sinn til að spjalla um fyrirbærið og fá fólk til að hringja inn og segja flökkusögur, sér í lagi íslenskar.
Undirtektirnar voru slíkar að þessi eini þáttur varð að þremur. Nokkrum árum seinna var gefin út bók um flökkusögur sem byggði á rannsókn sem gerðar voru fyrir BA ritgerð og mig minnir að hafi heitið Kötturinn í örbylgjuofninum. Þegar ég sá í bókinni saman komnar margar af þeim sögum sem ég átti í fórum mínum, dvínaði söfnunargleðin dálítið. Málið var afgreitt að mér fannst þá. En það er víst eðli flökkusagna að stöðugt verða nýjar til og þær gömlu breytast í meðförum.
Ekki alls fyrir löngu heyrði ég nýja útgáfu af kattarsögunni og það vakti áhuga minn að nýju. hef því ákveðið að sjá hvort ekki er að finna nýjar sögur manna á meðal og nota til þess þetta blogg.
Mig langar til að skora á alla sem hafa heyrt nýlegar (eða gamlar í nýjum búningi) að deila þeim hér og nú með mér og þeim sem þetta blogg kunna að lesa.
Útgáfan af kattarsögunni sem ég heyrði síðast er eitthvað á þessa leið; Sagt er að gömul kona hafi vanið sig á að þurrka köttinn sinn í bakaraofninn sínum eftir að hún hafi baðað hann. Sonur hennar gaf henni örbylgjuofn á níunda áratugnum sem hún reyndi að nota til sama brúks og bakaraofninn. Hún á svo að hafa farið í mál við framleiðandann og unnið því að ekki stóð ,,setjið ekki kött í örbylgjuofninn á umbúðunum.
Vinir og fjölskylda | Breytt 22.6.2008 kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
16.6.2008 | 14:36
17. Júní, ekki dagur ofur-vantrúaðra?
17. Júní, fána og blöðrudagur, þjóðsöngurinn og fjallkonan, andlitsmálning og stúdentahúfur, lúðrasveitir, skátar og blómsveigar. Dagurinn sem Jón Sig. og Íslenska lýðveldið eiga afmæli. Bærilegur dagur fyrir flesta skyldi maður halda. En hvað um þá sem við getum kallað ofur-vantrúaða. Þeir hljóta að vera pirraðir á að sitja undir blaktandi fánum með krosstákninu, tákni sem þeir líta helst á sem rómverskt pyntingartæki. Auk þess eru litir fánans, litir elds, íss, hafs og himins líka aðallitir kristinnar trúar. Hinn hvíti litur himnaríkis, sá rauði fyrir ást og fórn og sá blái litur hreinleika.
Það er ekki nóg með að ofur-vantrúaðir verði að láta sér lynda fánana, heldur verða þeir að taka sér í munn orð sem eru þeim tóm vitleysa, þ.e. ef og þegar þeir syngja Þjóðsönginn. Þá tilbiðja þeir Guð vors lands og hafa yfir að eigin mati allskyns bábiljur um heilaga herskara og þess háttar í ofaná lag.
Fjallkonan sem gæti verið eina heimsbarns-tákn þjóðarinnar og hafið yfir trúarkenningar, lumar samt í frumteikningu á heiðnum táknum og jafnvel kristnum. (Sjá hrafn á öxl og krossa á skjölum) Þetta Þjóðfélag er líkast til svo mengað trú og trúartáknum að það getur verið ómögulegt fyrir ofur-vantrúaða að aka þátt í hátíðarhöldum eins og 17. Júní án þess að vera málstaðnum ótrúir.
Kannski verður þetta til að ofur-vantrúaðir flýja í auknum mæli inn í svarthöfða-búningana sína við þessi tækifæri. Jedakirkjan boðar nefnilega ákaflega sambærilegan boðskap og ég hef rekið mig á í máli ofur-vantrúaða. Þeir álíta m.a. að það sé manninum meðfætt að geta greint gott frá illu. Það eina sem þurfi til að vera góður, sé að hlusta á samviskuna. Eins og ofur-vantrúaðir láta þeir sér í léttu rúmi liggja hvernig samviskan mótast. Kristin eða önnur trúarleg gildi þurfa þar ekkert að koma að.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
15.6.2008 | 11:17
Hverjir stjórna netheimum?
Netheimar eru notaðir af lang-flestum þjóðum heimsins. En hvernig skiptast netheimar á milli landa, landasvæða og Álfa. Þetta er nýlegt kort sem sýnir einmitt þá skiptingu með tilliti til netsamfélaga og hvar er best að vera í hverju landi til að ná til sem flestra.
13.6.2008 | 01:33
Mic Mac Indjánar
Fyrir allt of löngu síðan dvaldist ég um hríð meðal Mic Mac Indíána á sérlendu þeirra í Eskasoni í norðaustur hluta Nova Skotia Kanada. Ég rifjaði þessa dvöl upp í huganum þegar ég sá í fréttum að ríkisstjórnin í Kanada hefði beðið Indíánaþjóðirnar þar í landi (þ.e. þær sem eftir eru) afsökunar á yfirgangi og óréttlátu framferði yfirvalda gagnvart þeim.
Mic Mac Indíánar eru forn þjóð sem hefur átt sér aðsetur í Nova Scotia og meðfram ströndum norður Kanada síðan "manneskjan var sköpuð" eins arfsögn þeirra segir. Þeir eru sagðir hafa fundið upp Íshokkí sem þeir segja sama leikinn og ísknattleik norrænna manna til forna. Segja þeir leikinn svo svipaðan að norrænir menn (Íslendingar) hljóti að hafa lært hann af Mic Mac indíánum á ferðum sínum vestur um haf fyrr á öldum. Það verður að segjast að rökin fyrir þessu, sem er að finna á tenglinum hér á síðunni merktur "Knattleikur" helg íþrótt, eru afar sannfærandi.
Í Eskasoni dvaldist ég hjá þáverandi höfðingja sérlendunnar og var hann eini Mic Mac Indíáninn sem vitað var um að hefði náð að mennta sig að ráði og hafði hann náð í mastersgráðu frá háskóla í Halifax. Á sérlendunni bjuggu um 1500 manns og voru þeir flestir illa haldnir af alkóhólisma og öðrum kvillum sem þeirri sýki getur fylgt. Ég man að fyrstu dagana sá ég aldrei edrú mann eða konu á götum bæjarins. Allir nema höfðinginn og kona hans voru á stöðugu fylliríi. - Höfðinginn sagði mér að allir væru á bótum frá ríkinu og allar bætur færu í að kaupa bjór. Börn og unglingar voru ekki undantekningar og allir reyktu.
Þegar ég hafði dvalist í rétt rúma viku meðal Mic Maccanna bárust mér þær fréttir frá Íslandi að faðir minn hefði látist á sjúkrabeði. Ég sagði konu höfðingjans fréttirnar sem ekki beið boðanna en hóf að elda súpu mikla í stórum potti. Ekki leið á löngu fyrr en fólk fór að drífa að. Ég hef ekki hugmynd um hvernig fréttirnar af láti föður míns bárust svona fljótt út á meðal fólksins, en það var allt komið til að sýna mér samúð sína og dveljast með mér í smá tíma. Stofa höfðingjahjónanna var stór og þegar best lét voru rúmlega 50 manns að sötra súpu á milli þess sem þau fullvissuðu mig um að faðir minn væri nú á betri stað í andaheimum þar sem ég mundi hitta hann þegar sá tími kæmi. Næstu þrjá daga hélt þessu fram frá hádegi og fram á kvöld. Ég er viss um að meira en helmingur þorpsbúa kom að heimsækja mig á þeim tíma. Og það ótrúlega var að það sást ekki vín á nokkrum manni.
Saga Indíána norður Ameríku eftir landnám hvíta mannsins er þyrnum stráð. Ég ætla ekki að tíunda hana hér enda hvorki efni né aðstæður til. En ég get ekki annað en fyllst samúð með málstað þeirra þegar þeir reyna að skýra hversvegna svo margir þeirra hafa ekki náð að samlaga sig háttum hvíta mannsins og látið menningu sína og mannlega reisn í skiptum fyrir deyfilyfið góða alkóhól.
11.6.2008 | 16:53
Af naflalausa manninum og gáfuðu konunni hans.
Ég held að maður þurfi ekki að vera neinn guðfræðingur eða sérlega vel lesinn í Biblíunni til að geta haft skoðanir á sumu því sem þar kemur fram. Það er sumt í Biblíunni sem allir kannast við hvort sem þeir hafa lesið hana eða ekki.
Til dæmis sagan af Adam og Evu. Sagan er auðvitað svona vel þekkt af því að enn deila menn um hvort hún er bókstaflega sönn eða bara bull. Inn í þá umræðu er engum hleypt sem kann að hafa einhverja millileið eða málamiðlun.
Það er svo vinsælt að hafa allt í svart hvítu.
Í sögunni er sagt frá því þegar maðurinn öðlast skilning á góðu og illu. Þetta kallar sumir kristnir syndafallið. Syndafallið var lengst af talið Evu að kenna og því var kúgun konunnar réttlætanleg.
Fyrir mína parta sé ég ekki hvernig maðurinn á að geta þroskast ef hann þekkir ekki muninn á góðu og illu. Og ef hann átti ekki að þroskast þá hefði hann ætíð lifað eins og dýr merkurinnar, sem að sönnu eru ómeðvituð um muninn á góðu og illu og þess vegna ekki "ábyrg" gjörða sinna.
Þess vegna get ég ekki tekið þessa sögu bókstaflega. Það hefði átt að þakka Evu fyrir að fleyta mannkyninu áfram frekar hitt. Mér finnst sagan vera þroskasaga. Þroskasaga mannkynsins og ekki lýsa einhverjum skelfilegum svikum við Guð.
Einhvern tíman þegar heilinn í okkur var orðin nógu stór og rófan var að hverfa, varð til þessi vitund í okkur að eitthvað væri gott og eitthvað væri illt. Fyrirbærið samviska byrjaði að mótast.
Auðvitað gerðist þetta á einhverjum árum en að öllum líkindum nokkuð fljótt. Það þarf nefnilega að hafa samvisku til að hirða um sjúka og sýna hinum dauðu virðingu eins og frummennirnir gerðu.
Þessi skýring sættir sjónarmið þeirra sem halda því fram að sagan af Adam og Evu sé dæmisaga sem hefur að geyma mikilsverð andleg sannindi (þroskasöguna) og sjónarmið þeirra sem vita að maðurinn hefur þróast frá því að vera einfrumungur í drullupolli í að vera uppréttur sjálfsmeðvitaður hugsuður.
5.6.2008 | 15:25
Afríka er kona heimsins.
Flestar styrjaldir eftir 1990 hafa verið háðar í fátækum löndum, of fátækum til að kaupa vopn. Þrátt fyrir það skortir ekki vopnin. Milljónir handskotvopna er gefin af herjum sem eru að uppfæra sín eigin vopn og ótölulegur fjöldi vopna er fluttur á milli ófriðarsvæða og endurnýttur. Það er mun ódýrara en að geyma vopnin eða eyðileggja þau. Í sumum löndum Afríku eru Kalashnikov rifflar seldir fyrir sex dollara stykkið eða að hægt er að fá þá í skiptum fyrir geit, hænu eða fatapoka.
Síðan seinni heimstyrjöldinni lauk árið 1945 er áætlað að yfir 50. milljónir manna hafi týnt lífinu fyrir kúlum úr ódýrum fjöldaframleiddum handvopnum.
Þessi vopn eru svona vinsæl vegna þess hve endingargóð þau eru. En eru í notkun AK-47 og MI 6 rifflar sem notaðir voru í Viet Nam stríðinu og í suður Afríku má finna byssur allt frá fyrri heimsstyrjöldinni í höndum smádrengja. Að auki eru auðvelt að flytja vopnin. Nokkrir klyfjaðir hestar nægja til að vopna lítinn her.
á vesturlöndum hefur þetta vopnaflóð ekki mikil áhrif á daglegt líf fólks nema þar sem hryðjuverk og eiturlyf koma við sögu. Almenningur í ríku löndunum hefur algjörlega leitt fram hjá sér þjáningarnar og skelfinguna sem þessi vopn flytja með sér í vanþróuðu löndunum, sérstaklega Afríku. Talið er að 500 milljónir her-handvopna séu í umferð í heiminum í dag.
Fyrir utan hversu ódýr vopnin eru og hversu framboðið er mikið af þessum vopnum eru aðrar ástæður fyrir vinsældum þeirra. Þau eru afar banvæn og hraðvirk. Hægt er að kenna barni á örskammri stundu hvernig á að nota þau og viðhalda þeim.
Vopnasala heimsins er afar flókin. Miklar byrgðir af vopnum fara löglega á milli landa á hverjum degi. Eftir að kalda stríðinu lauk seldu stórveldin vinum og samherjum þau vopn sem fallist hafði verið á að eyða. En ólögleg vopnasala er miklu umfangsmeiri. Í Afríku er orðið alvanalegt að greiða fyrir vopnasendingar í demöntum. Það er kaldhæðnislegt að demantarnir sem skreyta háls og fingur auðugra vesturlandabúa og eru í margra hugum tákn um eilífa ást, kunna vel að hafa verið fengnir í skiptum fyrir hríðskotabyssur. Í sumum Afríkulöndum eru hópar af uppflosnuðum ungum mönnum sem hafast við á vergangi. Kalashnikov riffillinn er atvinnutæki þeirra. Þeir ræna, rupla, drepa og meiða hvern dag og tilgangurinn er oft ekki annar en sá að hafa ofaní sig og á. Stundum eru þetta leifar af einhverjum uppreisnarhernum eða landflótta skæruliðum og stundum eru þetta það sem við mundum kalla venjulegir ræningjaflokka. Hvort sem er, stendur vesturlöndum á sama.
Viðhorf okkar vesturlandabúa til Afríku og vanda hennar er ekki ósvipað og viðhorf karla voru til kvenna allt fram í byrjun síðustu aldar. Hún er réttlaus og óþarfi að taka nokkuð tillit til hennar nema þegar eitthvað þarf að nota hana.
Svona (sjá kort) skiptu Evrópulönd Afríku upp á milli sín á síðustu öld.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2008 | 18:35
Af hverju snerti drápið á bjarndýrinu við þjóðarsálinni?
Bloggarar keppast við að skrifa sig frá bjarndýrsdrápinu í Skagafirðinum. Þeir eru reiðir og pirraðir, annað hvort yfir því að björninn var drepinn eða yfir því að aðrir skulu vera pirraðir og reiðir yfir því að björninn var drepinn.
Drápið fór fram á slóðum íslenska Villta Vestursins enda mynnti drápið dálítið á kúrekasiðinn að skjóta fyrst og spyrja svo. Alla vega snerti drápið við þjóðarsálinni sem greinilega var varla byrjuð að hafa skoðun á málinu þegar Björninn var dauður og öll umfjöllun (fyrir hann allavega) orðin akademísk.
Við hverju í þjóasálinni drápið snerti, er ekki gott að segja. Var það kannski of lítill aðdragandi til að segja sína skoðun, laga sig að því sem í vændum var, sem kallaði á þessi viðbrögð?
Eða kom drápið kannski of nærri þeirri vitund sem ætíð hefur verið grunnt á þótt við reynum að fela hana, að við íslendingar erum enn heimóttalegir sveitamenn, hræddir við allt sem er okkur framandi. Óþægileg endurspeglun fyrir þá sem héldu að við værum "siðmentuð".
Kannski er það tilviljun, en ég held ekki, að raddirnar sem töluðu á móti viðtöku flóttafólksins frá Írak, eru þær sömu og nú hrópa hæst til að réttlæta drápið á hvítabirninum og rökin eru meira að segja þau sömu. - Við áttum ekki lyf til að vera mannúðleg og svæfa hann, þetta er ekki hans rétta umhverfi, kostnaðurinn við að bjarga honum yrði of mikill, hann er of hættulegur, það munar ekkert um einn bangsa o.s.f.r. Tilviljun???
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
3.6.2008 | 22:18
Einstein um afstæðiskenninguna og fyrstu ástina
Það er nokkuð móðins um þessar mundir, fyrir bæði trúaða og trúlausa, að vitna í orð Alberts heitins Einstein málum sínum til stuðnings um að Guð sé til og að hann sé ekki til.
Hér er mynd af Albert sem tekin var á strönd árið 1945. (flottir skór Albert)
Mín uppáhalds tilvitnun í Einstein er þegar hann útskýrir afstæðiskenninguna á þann hátt að allir, já allir, hljóta að skilja hana. Einstein tekur svona til orða.
"Það er ekki aðdráttaraflinu að kenna að fólk veður ástfangið. Hvernig er hægt að skýra á máli efnafræði og eðlisfræði þetta mikilvæga lífræna fyrirbrygði sem fyrsta ástin er. Legðu höndina á heita hellu eina mínútu og hún mun virðast sem klukkustund. Sittu með stúlkunni þinni í klukkustund og hún mun virðast sem 1 mínúta. Það er afstæði."
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.6.2008 | 00:53
Tvær spurningar til Kristinna.
Hversu margir kristnir menn trúa því að bókstafleg túlkun á sögunni af Adam og Evu og syndafallinu sé grundvöllurinn að trú þeirra?
Hversu margir kristnir menn trúa á "erfðasyndina" og að ef Eva hefði ekki látið plata sig þá væri engin þörf fyrir lausnara eða Krist?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)