Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
16.7.2008 | 11:16
"I have been a bad boy"
Í gær hitti ég heimsfrægan hljóðfæraleikara og átti við hann orðastað. Hann heitir Ronnie Wood og spilar á gítar með félögum sínum í sveitinni Rolling Stones. Þannig var mál með vexti að ég tefli skák einu sinni í viku á einu á kaffihúsinu hér í Bath.
Sá sem ég tefli við var eitt sinn "suð-vesturlands" meistari hér í Englandi. En það segir í sjálfu sér ekkert um styrkleika hans því Englendingar hafa aldrei haft orð á sér fyrir að vera snjallir skákmenn frekar enn að þeir geti spilað handbolta. Eiginlega eru þeir ekki góðir í íþróttum nema þeim sem þeir hafa fundið upp sjálfir, eins og fótbolta, Krikket og Rugby:
Við næsta borð á kaffihúsinu sátu tveir menn að spjalla. Ég kannaðist við annan þeirra, írskan skartgripasala sem stundar þetta kaffihús mikið. Hinn var lítill og pervisinn eldri maður með svart litað hár sem var klippt eins og Rod Stewart hafði það í gamla daga. Hann var klæddur eins og unglingur, í þröngar svartar gallabuxur, í eldrauðum bol, svörtum jakka og í rauðum strigaskóm. Fötin vor greinilega ný. Andlitið var rúnum rist og leðurbrúnt og minnti mig á andlit gamalla indíána frá norður Ameríku.
Ég vissi að ég átti að þekkja þennan mann en ég kom honum ekki strax fyrir mig. Þegar hann stóð upp og skrapp á salernið, notaði ég tækifærið til að spyrja skartgripasalan hver hann væri. Jú, þetta er Ronnie Wood sagði hann.
Hér hafa blöðin verið uppfull af fréttum um að Ronnie væri týndur og hefði stungið af eftir að myndir náðust af honum í félagi við unga stúlku.
Þar sem félagi minn var ókominn færði ég mig yfir á borðið hjá Íranum og þegar Ronnie kom til baka tókum við að spjalla.
Hann sagðist vera nýkominn frá Írlandi, hefði flogið til Bristol þá fyrr um morguninn. Hann sagðist eiga litla íbúð í grenndinni og hann væri á leiðinni þangað.
Hann spurði mig hvort ég væri Hollenskur. - Nei Íslenskur.
Vá, svalt (Cool) svo hló hann eins og hann væri fyrsti maðurinn sem hafði sagt þennan brandara.
Hvað ertu að gera hér, spurði hann. Búa til tónlistarvideo, svaraði ég. Hefurðu búið til video fyrir einhverja fræga? - Já Frans Ferdinand, svaraði ég.
Hefurðu komið til Íslands spurði ég.- Já það held ég, flott land.
Þekkirðu einhvern á Íslandi.
Já, ég hef hitt Björk.
Hvað varstu að gera á Írlandi?
Hann brosti. "Ég er búinn að vera slæmur strákur".
Fyrir framan hann á borðinu hafði hann raðað smámunum upp úr vösum sínum. Ipot, sími, tóbaksumslag, pappírshylki. Hann byrjaði að vefja sér sígarettu, þrælvanur greinilega.
Viltu reykja, spurði hann.
Nei, takk ég er nýhættur. Annars reykti ég bara vindla. -
Þú getur alveg fengið vindil sagði hann. Nei takk.
Ég virti hann fyrir mér. Undarlegt hvernig frægt fólk sem maður er margbúinn að sjá á myndum og í sjónvarpi, virkar þar miklu stærra en það er í raunveruleikanum. Írinn var að tala í síma á meðan ég spjallaði við Ronnie.
Síminn á borðinu hringdi. Rionnie leit á númerið og ákvað að svara. Þetta var einhver nákominn að spyrja hvort allt væri í lagi með hann og hvar hann væri.
Nú birtist skákfélagi minn svo ég stóð upp. Ronnie stóð upp líka, setti dóttið sitt í jakkavasana, tók í höndin á Íranum og mér og skundaði á braut.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
15.7.2008 | 09:56
Hversu skarpskyggn ertu?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
12.7.2008 | 01:09
Ólafsvíkur-Kalli og ástin
Fyrir margt löngu dvaldist ég í nokkra mánuði á Neskaupstað. Ég fékk vinnu í SÚN og var svo "heppinn" að fá pláss í aðgerðar-genginu eins og það var kallað. Aðgerðar-gengið var saman sett (fyrir utan mig) af almestu harðjöxlum sem ég hef nokkru sinni fyrir hitt á ævinni. Þeir gátu staðið við og slægt fisk í 12-16 tíma hvern dag og aðeins nærst þann tíma á svörtu kaffi og matarkexi sem þeir skelltu í sig í reykpásunum.
Ég var á hrakólum með húsnæði og einn úr gengnu bauð mér að leigja með sér herbergi ekki langt frá skemmunum þar sem gert var að. Ég þáði það og þannig atvikaðist að ég gerðist herbergisfélagi Karls Guðmundssonar eða Ólfasvíkur-Kalla eins og hann var oft kallaður. Karl var án efa einn þekktasti slarkari sem Ísland hefur af sér alið og um svaðilfarir hans er að nokkru fjallað í bók Jónasar Árnasonar um Kristófer kadet í hernum "Syndin er lævís og lipur".
Nú vildi þannig til að ég hafði lesið bókina en samt kom ég Karli ekki fyrir mig til að byrja með og þekkti ekki manninn sem hafði blásið lífið í hálfdrukknaða völsku-rottu eftir að hafa bjargað henni úr ísilagðri höfninni í Helsingi í Finnlandi eða bjargað lífi arabísks auðkýfings og þegið að launum fulla höll af Gini. Okkur kom ágætlega saman mér og Kalla, ekki hvað síst eftir að hann frétti að að faðir minn væri líka Ólsari. Karl sem var að rembast við að vera edrú þótt hann væri afar illa haldinn af langvarandi Alkóhólisma, sá um matargerðina. en ég um þvotta og þrif. Hann eldaði slatta af sveskjugraut og plokkfiski sem síðan var haft í alla mata á meðan entist. Þegar þraut, eldaði Kalli nýjan skammt. Þetta gekk í nær þrjá mánuði, allt haustið 1971 og fram á aðventuna.
Um miðjan Desember kom ónefnd fleyta úr siglingu frá Bretlandi hlaðin varningi. Brátt flaut allt í víni og bjór og aðgerðargengið leystist upp. Kalli sem hafði þá verið þurr í fjóra mánuði kolféll og varð fljótt svo veikur að hann gat ekki staðið í fæturna. Hann lagðist því í fleti sitt og drakk þar. Ég hjálpaði honum af og til á salernið og bar honum mat en þess á milli var hann oftast í einskonar deleríum móki. Við hliðina á rúmi hans var kassi af Vodka sem hratt gekk á. Stundum um nætur vaknað Karl upp og vildi þá ræða trúmál og heimsspeki. Hann var ágætlega lesinn en hafði komið sér upp heimatilbúnum frösum um öll mál sem hann mælti fram og þá voru málin afgreidd að hann hálfu.
Eina nóttina lá ég í rúmi mínu og las. Allt í einu reis Karl upp við dogg og sagði fyrirvaralaust og ákveðið;" Ástin er skítalykt". Ég var aðeins sautján ára og ekki í stöðu til að andmæla þessari speki mikið. "heldurðu það" svaraði ég en hugsaði jafnframt með mér að líklega hefði Kalli farið illa út úr samskiptum sínum við konur um ævina. "Nei ég veit það," hélt Kalli áfram. "Það er ekki fyrr en þú þolir skítalyktina af konu að þú getur sagt að þú elskir hana." bætti hann svo við og teygði sig eftir flösku, tók af henni gúlsopa, lagðist svo niður aftur og var brátt farinn að hrjóta. Hann skildi mig eftir með þessa lífsspeki sem hefur verið að pirra mig síðan.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
10.7.2008 | 22:34
Enn um fimm merkustu konur sögunnar
Vinir og fjölskylda | Breytt 11.7.2008 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2008 | 12:44
Fimm merkustu konur allra tíma
Umræðan um jafnrétti heldur áfram sem betur fer því margir segjast sjá þess merki að enn hafi ekki náðst fullt jafnrétti kynja á Íslandi þrátt fyrir löggjöf og reglugerðir sem áttu að tryggja það. Hvað veldur? Er t.d. möguleiki að konum skorti fyrirmyndir?
Þegar spurt er; hverja þú mundir telja fimm merkustu karlmenn heims, fyrr og síðar, skortir ekki svörin hvorki hjá körlum eða konum.
Kristur og Napóleon, Gandhi og Alexander Mikli, Sókrates og Shakespeare eru meðal þeirra sem títt eru nefndir. Af nægu er að taka, stórmennin eru mörg og skoðanir manna fjölbreyttar.
En ef fólk er beðið að nefna fimm merkustu konur allra tíma, vefst mörgum tunga um tönn. Þegar búið er að nefna mömmu og eiginkonuna koma yfirleitt þekktar leikkonur eða stjórnmálakonur síðustu aldar helst upp í hugann.
Til að sanna eða afsanna þessa kenningu langar mig að efna til smá könnunar meðal lesenda þessa pistils. Ég skora á ykkur að nefna í réttri röð þær sem ykkur finnst vera fimm merkustu konur allra tíma. Ekki er nauðsynlegt að rökstyðja svarið sérstaklega en ef konurnar eru ekki kunnar er vel við hæfi að birta stutta skýringu. Fróðlegt verður einnig að sjá, ef þátttakan verður góð, muninn á þeim sem karlar velja og þeim sem konur velja. Ef ástæða er til mun ég vinna úr svörunum og birta þær niðurstöður fljótlega.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
3.7.2008 | 23:37
Yngsta móðir heims
Stundum heyrir maður sögur sem eru svo ótrúlegar að maður afskrifar þær sem flökkusögur án umhugsunar. Þannig var um söguna af Linu Medinu, ungu stúlkunni frá Perú sem sögð er yngsta móðir heimsins. En hún reyndist sönn. Hér er ágrip af sögunni.
Nafn hennar var Lina Medina og hún átti heima í Andesfjöllum í Perú, nánar tiltekið þorpi sem heitir Tiktapó. Foreldrar hennar héldu til að byrja með að hún hefði stórt innvortis æxli og var hún um síðir lögð inn á sjúkrahús í Líma. Þar ól hún þriggja kg. sveinbarn sem tekið var með keisaraskurði. Lina átti barn sitt þann 14. Maí árið 1939 og var þá sjálf aðeins fimm ára gömul.
Ekki hægt segja flestir í vantrú. Hvernig getur fimm ára stúlka haft það sem nauðsynlegt telst líkamlega til að ala barn.
Faðir Linu var handtekin og haldið um tíma grunaður um sifjaspell en var fljótlega sleppt vegna skort á sönnunum. Yfirvöldum tókst aldrei að feðra barnið og Lina sagði aldrei frá því hver hafði gert henni barnið. Margir gerðu ráð fyrir að faðir hennar væri sökudólgurinn án þess að taka til þess tillit að margir aðrir karlmenn sem bjuggu í grennd við hana gátu hafa átt við hana mök.
Við læknisrannsóknina sem Lina undirgekkst eftir fæðinguna kom í ljós að hún hafði haft tíðir frá því að hún var þriggja ára. Læknirinn sem annaðist hana, Escomel að nafni, sagði að hún væri haldin sjaldgæfum hormónasjúkdómi sem gerði hana líkamlega kynferðislega bráðþroska. Að öðru leiti var hún eins og aðrar stúlkur og vildi t.d. frekar leika sér að dúkkunni sinni en við eigið barn.
Geardo sonur Linu var alinn upp í þeirri trú að hann væri bróðir hennar og var orðin tíu ára þegar hann komst að sannleikanum eftir að hafa verið strítt í skólanum á því að systir hans væri mamma hans. Fertugur að aldri dó Gerardo úr beinmergsjúkdómi. Lina gifti sig mörgum árum seinna og eignaðist þá annan son 38 átta ára að aldri.
Í læknaskýrslu Linu er til þess tekið að hún var að fullu kynþroska og með fullþroskuð brjóst. Þótt hún hafi verið að öðru leiti bæði líkamlega og andlega fimm ára. Læknarnir sögðu að ekki væri útilokað að kynþroski hennar gæti hafa stuðlað að "misnotkun" hennar og að hún hafi sýnt merki kynlöngunar sjálf.
Fyrri myndin sýnir Linu þegar hún var sjö og hálfan mánuð á leið og hin myndir er tekin þegar Gerado var ellefu mánaða.
2.7.2008 | 16:21
Hippar
Í sumar eru fjörutíu ár liðin frá því að hipparnir urðu að alþjóðalegu fyrirbæri og ´68 kynslóðin varð til. Hippar voru hluti af menningarlegri byltingu sem átti sér stað fyrst í Bandaríkjunum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. "Fyrirbærið" var getið af vaxandi óánægju ungs fólks í Bandaríkjunum með Viet Nam stríðið.
Hippar voru aðallega hvítir táningar og ungt fólk sem átti það sameiginlegt að vera illa við og vantreysta hefðbundnum miðstéttargildum. Þeir höfnuðu viðteknum aðferðum stjórnmála og samfélagsins en leituðu þess í stað á vit hugmynda frá austrænum trúarbrögðum, sérstaklega Búddisma.
Margir hippar litu á ofskynjunarlyf eins og Marijúana og LSD (lysergic acid diethylamide),sem leið til að flýja það samfélag sem þeir sættu sig ekki við og til að útvíkka þeirra eigin vitund. Forverar hippana voru hin svo kallaða Beat kynslóð sem kvað sér hljóðs upp úr 1955 með skáldið Allen Ginsberg í fararbroddi sem hipparnir tóku upp á sína arma og gerðu að hetju. Hin uber cool svartklædda Beat kynslóð hélt sig til hlés og var andsnúin þátttöku í stjórnmálum en hipparnir voru aftur á móti háværir og litskrúðugir. Berfættir með sítt hárið og í flagsandi mussum andmæltu þeir ríkjandi skipulagi fullum hálsi. -
Andstaðan við Viet Nam stríðið var málstaðurinn sem sameinaði þá til að byrja með. Ásamt mótmælagöngum og setum, notuðu hipparnir listgreinar, útileikhús, tónlist og myndlist til að koma óræðum skilaboðum sínum á framfæri. Þjóðlagatónlist og ekki hvað síst rokk eins og hljómaði af Bítlaplötunni Sergeant Pepper's Lonely Hearts Club Band voru afar áhrifaríkir þættir hippamenningarinnar.
Í Bandaríkjunum náði hippamenningin flugi strax árið 1967 með miklum tónleikum sem haldnir voru í Gate Park og þar með hófst hið svo kallað "sumar ástarinnar". Sá atburður átti hvað stærstan þátt í að kynna hippalífstílinn og varð til þess að þúsundir ungs fólks hvaðanæva úr Bandaríkjunum flykktust til San Francisco, með blóm í hárinu eins og Scott McKenzie's söng um í lagi John Phillips "San Francisco," sem varð að einskonar þjóðsöng hippanna. Árið 1969, komu meira en 500,000 manns saman á Woodstock tónlistar og lista hátíðinni í Bethel, New York, sem í margra augum er hátindur hippamenningarinnar.
Hippamenningin átti sér sínar dökku hliðar sem náðu talvert lengra en vanþóknun "almennings" á frjálsum ástum hippanna. Neysla eiturlyfja var algeng á meðal þeirra og lífsmáti þeirra bauð ekki upp á venjubundið öryggi heimilislífsins sem margir töldu að væri börnum nauðsynlegt.
Upp úr 1975 var hippahreyfingin í rénum þótt margir af þáttum hennar, sérstaklega klæðaburðurinn og tónlistin væru væru almennt meðteknir.
Rót sjötta áratugarins sem skapaði hippa-jaðarmenninguna var afstaðið og eftir að Viet Nam stríðinu lauk fjaraði fljótt undan henni. Þegar að Punkið og Diskóið hélt innreið sína voru hippar oft álitnir gamaldags uppdagaðir furðufuglar. Arfleyfð þeirra, hugmyndirnar um ást, frið og frjálst samfélag áttu samt eftir að lifa og hafa fundið sér farveg í svokallaðri Ný-hippa hreyfingu sem finna má í menntaskólum og háskólum víða um heim í dag.
Táknið sem varð að skjaldarmerki hippana var "friðarmerkið" svo kallaða. Það var upphaflega hannað af Gerald Holtom árið 1958 fyrir bresku friðarhreyfinguna Direct Action Committee Against Nuclear War sem eins og nafnið bendir til beytti sér fyrir afvopnun kjarnorkuvopna. Táknið myndar stafina N og D sem stendur fyrir Nuclear Disarmament.
Andstæðingar hippahreyfingarinnar fundu henni allt til foráttu og sögðu meira að segja táknið sem hún notaði "andkristið". Bent var á að þar væri á ferð gamalt galdratákn sem kallað var Nornarkló. Væri þá krossinn tekinn og armar hans brotnir upp á við og honum síðan snúið á hvolf.
Orð í belg frá hippum á öllum aldri vel þegin, sérstaklega ef þau eru um hippaárin hér á Íslandi.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
2.7.2008 | 00:30
Af miðaldaviðhorfum til Apa
Mennirnir hafa gengið þessa jörð í einu eða öðru formi í tvær milljónir ára. Með fornleyfafræðinni getum við séð inn í heim fornmanna en lítið er vitað um hvernig þeir hugsuðu. Það eru aðeins rétt fimm þúsund ár síðan að við loks fórum að skrifa niður hvernig við sjáum umheiminn. Það er jafnframt ljóst að hugmyndir okkar um heiminn og hvernig hann er samansettur hafa breyst meira á síðustu 200 árum en þær hafa gert frá því að söguritun hófst.
Þegar við sjáum apa í dag sjá flestir líffræðilega fjarskyldan ættingja. Þróunarkenningin sem reyndar á birtingarafmæli um þessar mundir, kennir að annað hvort séu menn komnir af öpum eða að apar og menn eigi sér sameiginlegan forföður.
En hvað vissu menn um apa fyrir okkar tíma áður en við lærðum að beita vísindalegum aðferðum til að rannsaka þá og hegðun þeirra. Hvernig litum við á apa fyrir 2000 árum. Samkvæmt þeim heimildum sem mér eru kunnar var myndin eitthvað á þessa leið:Aapaynja elur ætíð tvíbura. Annan tvíburann elskar hún en hinn hatar hún . Þegar hún fer um, ber hún þann sem hún ann á örmum sínum, hinn verður að hanga á henni eftir bestu getu. Þegar að apaynjan er elt af veiðimanni, verður hún fljótt móð á hlaupunum með tvíburana báða á sér. Þegar húná á hættu að verða fönguð, sleppur hún unganum sem hún ann og bar á örum sér til að sleppa, en sá sem hún ekki hirti um heldur áfram að hanga á henni og verður hólpinn.
Til eru fimm tegundir apa. Hin fyrsta er kölluð cericopithicus og hefur sú rófu. Önnur hefur gróft hár og er kölluð sphinx. Hárið er óstrítt og ekki villt. Þriðja tegundin er cynocephalus, sem hefur höfuð eins og hundur og langa rófu. Fjórða tegundin er satyrus, sem er fjörug og hefur vingjarnlegt andlit. Fimmta tegundin er nefnd callitrix og hefur sú langt skegg á ílöngu fésinu og er með breiða rófu. Apar eru hamingjusamir þegar máninn er fullur en verða daprir þegar mánann þverr. Á jafndægri pissa þeir sjö sinnum. Apar eru sagðir vera skítugar og ljótar verur með hrukkótt fés. Sérstaklega er afturhluti þeirra hræðilegur.
Apinn er lagður að jöfnu við skrattann. Sagt er að hann sé eins og eins rófulaus api, að hann hafi höfuð en enga rófu og hafi fyrirgert henni að eilífu.
Heimildarmenn mínir eru þessir; Dæmisögur Esóps, Pliny Eldri, Ísadóra frá Seville og Richard de Fournival
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
1.7.2008 | 18:32
Saga af barnum
Tveir menn sátu hlið við hlið á O´Murphys pubbanum í London.
Eftir nokkurn tíma lítur annar þeirra á hinn og segir; Þegar ég heyri þig tala get ég ekki annað en ályktað að þú sért frá Írlandi.
Það er ég svo sannarlega, svaraði hinn hreykinn.
Ég líka, hrópar sá fyrri. Og hvaðan af Írlandi gætir þú verið, héllt hann áfram.
Ég er frá Dublin, svo sannarlega, svarar hinn.
Detti af mér allar dauðar lýs, ég er frá Dublín líka. Við hvaða götu bjóstu?
Hinn svarar; Í Yndislega friðsömu hverfi. Ég bjó skal ég segja þér við McCleary stræti, í gamla miðbænum.
Móðir María og allir hennar englar, svarar sá fyrri, Þetta er lítill heimur. Þarna bjó ég líka. Í hvaða skóla gekkstu?
Skóla, sjáum nú til, Heilagrar Maríu auðvitað, svarar hinn.
Sá fyrri verður nú verulega upprifinn og segir með ákafa; Og , og hvenær útskrifaðist þú?
Sá seinni svarar; Sjáum nú til, ég útskrifaðist.... árið 1964.
Sá fyrri hrópar nú yfir sig; Drottinn hlýtur að brosa við okkur núna, ég get varla trúað hversu heppnir við erum að enda uppi saman hér í kvöld. Ég útskrifaðist líka frá skóla Heilagrar Maríu árið 1964.
Inn gengur Vicky og fær sér sæti við barinn og pantar sér drykk.
Barþjóninn Brian, gengur yfir til hennar hristir höfðið og tuldrar; Þetta verður langt langt kvöld í kvöld.
Afhverju segirðu það, Brian spyr Vicky
Murphy tvíburarnir eru aftur fullir.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.6.2008 | 00:19
Ein nótt með þér
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)