Færsluflokkur: Evrópumál
9.6.2009 | 12:51
Fá 5 milljónir punda frá ESB til að útbreiða boðskapinn
Um helförina;
"Mér er fullljóst að réttatrúnaðarkenningin er að sex milljónir Gyðinga hafi verið gasaðar, brenndar eða breytt í ljósaskerma. Rétttrúarkenningin var líka eitt sinn að jörðin væri flöt." Nick Griffin
Mikla athygli hefur vakið, að í ný afstöðnum kosningum til Evrópuþingsins komu BNP (Breski þjóðarflokkurinn) að tveimur þingmönnum. Fyrir utan ummæli leiðtoga flokksins, þykir stefnuskrá þeirra sýna að þar fer stjórnmálflokkur sem boðar svipaða stefnu og leiddi heiminn út í heimsstyrjöld á síðustu öld. Fyrir utan að þingmennirnir fá 446.000 pund fyrir að sækja Evrópuþingið, fær flokkurinn framlög frá ESB sem nemur 147.000 árlega til starfsemi flokksins.
Á Stefnuskrá flokksins er að;
Bretland dragi sig úr ESB.
Vinna náið með ný-fasistahópum í öðrum löndum.
Stöðva óheft og ótakmarkað flæði innflytjenda til Bretlands og minka glæpi og hryðjuverk.
Bretland, ekki ESB, ákveði hver býr í landinu.
Vísa úr landi öllum sem ekki eru fæddir í Bretlandi og fremja þar afbrot.
Halda pundinu og allri stjórn yfir efnahag þjóðarinnar.
Hætta að greiða 9 milljarða punda framlag Bretlands til ESB.
Bresk störf séu fyrir breska verkamenn.
Taka upp aftur vog og mál kerfi breska heimsveldisins.
Stöðva afskipti ESB af breska þinginu og dómstólum landsins.
Stöðva lokanir pósthúsa.
Taka aftur upp dauðarefsingu fyrir dráp á börnum, raðmorð og hryðjuverk.
Leyfa húsráðendum að verja heimili sín fyrir innbrotsþjófum.
Leiðtogi flokksins sem er annar þeirra sem náði kjöri heitir Nick Griffin. Eftir honum er þetta haft um hin ýmsu málefni;
Um Adolf Hitler;
Já, Adolf gekk aðeins of langt.
Um Mein Kampf;
Þrettán ára las ég Mein Kampf og gerði glósur. Kaflinn sem mér líkað best var um áróður og skipulag. Í honum er að finna mjög gagnlegar hugmyndir.
Um helförina;
Mér er fullljóst að réttatrúnaðarkenningin er að sex milljónir Gyðinga hafi verið gasaðar, brenndar eða breytt í ljósaskerma. Rétttrúarkenningin var líka eitt sinn að jörðin væri flöt.
Um Íslam;
Illgjörn, mjög illgjörn trú sem brjálaðir klikkhausar iðka.
Um Bretland;
Fjölmenningarlegt helvíti.
Um hvíta kynstofninn;
Án hvíta kynstofnsins skiptir ekkert máli.
Um líkurnar á að ná kjöri;
Fram að þessu höfum við bara sent einhvern í framboð því við vissum að við mundum ekki vinna. Nú þurfum við að fá einhvern sem getur..."
Um fjölmenninguna;
Tilraunaverkefni sem neitt er upp á okkur af 10.000 stjórnmálamönnum og fjölmiðlafólki.
Um fasistaforingjann Oswald Mosley;
Það eru sterk og bein tengsl milli mín og Oswald Mosley.
Um sprengjutilræðið í Soho 1999;
Sjónvarpsútsendingin sem sýndi tólf samkynhneigða mótmælendur sem flöksuðu óeðli sínu fyrir framan blaðamenn heimsins, sýndi hvers vegna svo fjöldi venjulegs fólks finnst þessar verur ógeðslegar.
6.6.2009 | 17:07
Icesave samningurinn frá sjónarhóli Breta
Ísland hefur samþykkt að endurgreiða breska og hollenska ríkinu þá fjarmuni sem þeir greiddu innlánshöfum í kjölfarið á hruni Icesave sjóðsins.
Bretland lánaði Íslandi £2.3 miljarða á síðasta ári til að endurgreiða breskum Icesave sparfjáreigendum, eftir að allt íslenska bankakerfið var þjóðnýtt.
Þannig hefst stutt grein BBC um nýgerða samninga Íslands, Bretlands og Hollands um Icesave málið. Niðurlagið fer hér á eftir, en það er augljóst að ekki er gefið mikið fyrir þau sjónarmið sem þar koma fram almennri umræðu hér á blogginu.
Sparifé 300,000 almennra breskra innlánenda var þannig í hættu.
Atburðarásin ollu spennu milli London og Reykjavík á þeim tíma.
Bretland notað lögin gegn hryðjuverkastarfsemi til að frysta eignir íslensku bankanna í Bretlandi sem höfðu hrunið í kjölfarið á efnahagsþrengingunum.
Breskir sparifjáreigendur fengu greitt að fullu af Breska ríkissjóðnum.
Góðar fréttir
Eftir langdregnar samningaviðræður, féllst Ísland á að endurgreiða £2.3 miljarða plús vexti.
Talsmenn Breska ríkissjóðsins segja að samningarnir séu mjög jákvætt skref til að bæta samskipti þjóðanna.
"Þetta eru góð tíðindi fyrir breska skattgreiðendur og góð tíðindi fyrir Ísland" sagði talsmaður ríkissjóðs.
"Ríkisstjórnin fagnar skuldbindingu Íslands til að viðurkenna skyldur sínar samkvæmt öryggisreglum ESB um innlánastarfsemi banka og endurgreiða þeim sem lögðu fé inn á Icesave.
Bresk bæjarfélög verða samt að bíða eitthvað eftir sínum peningum, því samkomulagið nær aðeins til almennra innlána.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2009 | 19:54
Ísland, eini ljósi punkturinn
"Við fórum til Íslands til að kynna okkur það sem er álitið af mörgum friðunarsinnum besta viðmiðunin (gold standard) í nútíma fiskveiði-aðferðum."
Þannig komast framleiðendur nýrrar heimildakvikmyndar um fiskveiðar í heiminum að orði. Sýningar á myndinni sem heitir The End of the line hefjast í næstu viku en hún dregur upp ansi dökka mynd af ofveiðum víðast hvar í heiminum.
Í henni kemur m.a. fram að 90% fiskjar sé ofveiddur í ESB löndunum og að þau geti lært sitthvað af Íslendingum hvað varðar verndun fiskistofnanna, sérstaklega þegar kemur að því að framfylgja lögum gegn brottkasti. Segja má að Íslandshluti myndarinnar sé eini ljósi punkturinn i henni.
Heimildarmyndin er byggð á samnefndri bók blaðamannsins Charles Clover. Charles segir í viðtali við BBC að; "Þessar miklu auðlindir sem trúðum eitt sinn að væru endurnýjanlegar, sem allt mannkynið stóð í þeirri trú að væru óþrjótandi, eru ekki lengur endurnýjanlegar vegna gjörða okkar. Þess vegna þarf að nálgast málið á algjörlega nýjan heimspekilegan hátt. Framtíðin verður ekki eins og fortíð okkar"
BBC fjallar um þessa merku kvikmynd og þá umfjöllun er hægt að nálgast hér
Við þetta lof sem borið er á fiskveiðistjórn Íslendinga í myndinni rifjaðist upp frétt sem ég bloggaði um fyrir stuttu þar sem sagt er frá að sjávarútvegmálaráðherrar landa Evrópusambandsins hafi ákveðið á sameiginlegum fundi í Brussel fyrir stuttu, að best sé að hætta að nota kvótakerfið sem ESB löndin notast við í dag og færa fiskveiðistjórnina aftur heim til landa og fyrirtækja sem veiðarnar stunda. Hér er sú grein.
10.5.2009 | 20:55
Næstu 100 dagar / Nýtt upphaf eða Waterloo
Íslenska ríkisstjórnin nýja boðar 100 daga aðgerðaráætlun. Hún fetar þannig í fótspor Franklins Delano Roosevelt sem varð forseti Bandaríkjanna 4. mars 1933. Roosevelt einsetti sér að leggja drögin að því sem hann kallaði "The new deal" á fyrstu hundrað dögum sínum sem forseti.
Fyrstu aðgerðir Roosevelt til að endurreisa efnahag Bandaríkjanna fólu í sér að fá þingið til að samþykkja 15 meiriháttar lagabreytingar, sem var fylgt eftir af 15 ávörpum , 10 útvarpsræðum, fréttafundum sem haldnir voru tvisvar í viku, þ.e. eftir hvern ríkisstjórnarfund. Hann kallaði einnig saman alþjóðlega ráðstefnu um efnahag heimsins, og setti fram stefnu sína í utarríkismálum sem innanlands.
Þegar kemur að stjórnmálsögu heimsins, koma samt aðrir 100 dagar frekar upp í hugann en 100 fyrstu valdadagar Roosevelts forseta.
Dagarnir sem liðu frá því að Napóleon snéri aftur frá útlegðinni á Elbu 20. mars 1815 og þangað til Lúðvík fjórtándi settist aftur í valdstól í Frakklandi, 8. júlí sama ár, voru nákvæmlega 100 dagar og eru oft kallaðir 100 dagar Napóleons.
Þeir dagar voru ölagaríkustu dagar Napóleons og að segja má allrar Evrópu á þeim tíma. Á þessu tímabili tók ein orrustan við af annarri hjá Napóleon og herjum hans sem enduðu við Waterloo þar sem endir var loks bundinn á valdaferil hans að fullu og öllu.
Mér segir svo hugur að íslenska ríkisstjórninni leiki hugur á að vekja með landmönnum svipaðar tilfinningar og bæði Napóleon og Roosevelt gerðu í brjóstum sinna landa þótt endirinn á 100 daga aðgerðaráætlunum þeirra geti varla verið ólíkari.
En það á eftir að koma í ljós hvort Jóhönnu og Steingrími tekst að gefa íslendingum sitt "nýja upphaf" eða hvort þau stýra þjóðinni til sér-íslensks Waterloo.
29.4.2009 | 16:14
Auðmýking Íslendinga
Engin þjóð í heiminum sem náð hefur þeim árangri að halda þjóðareinkennum sínum og menningu, hefur sloppið við auðmýkingu. Stór lönd sem smá hafa þurft að sætta sig við að fara halloka í stríðum og pólitískum átökum. Auðmýkingin hefur kennt þjóðunum að þeirra eigingjarni hugsunarháttur er ekki alltaf farsælastur og þeirra sértæku viðmið halda ekki alltaf vatni. Hún hefur neytt þjóðirnar til að taka mið af hugmyndum, straumum og stefnum hvor annarrar. Hún hefur þjappað saman þjóðunum í þjóðabandalög sem margir spá að sé aðeins millistig að alheimslegu samveldi.
Íslendingar eru illa í stak búnir til að takast á við slíka auðmýkingu.
Um stund héldu þeir jafnvel að þeir væru undanþegnir þeirri reglu að þurfa nokkru sinni að verða fyrir henni. Eftir að þjóðin varð sjálfstæð fylgdi hún þeim ásetningi í samskiptum sínum við önnur lönd að "eiga kökuna og borða hana líka." Kannski var það af minnimáttarkennd tilkomin vegna smæðar þjóðarinnar og að í mörg hundruð ár var hún fátækasta þjóð Evrópu. Kannski var það vegna þess að hún hélt að sinn tími væri loks kominn.
Í milliríkjadeilum, jafnvel við stórveldi, höfðu Íslendingar jafnan sigur. Þeir höguðu sér eins og þeir sem aldrei geta klikkað. Þeir voru fegurstir, sterkastir, gáfaðastir og alveg að verða ríkastir líka. Þeir fóru mikinn hvar sem þeir komu og keyptu sér fjölda rótgróinna erlendra verslana, fótboltafélög, fjarskiptasamsteypur og lyfjafyrirtæki. Sjálfsmynd þeirra einkenndist af stolti, nánast þjóðarrembingi.
Síðan þegar skellurinn kom, hitti hann þá fyrir þar sem þeir héldu að þeir væru hvað sterkastir. Auðmýkinguna sem einstaklingar, samfélög og þjóðir þurfa að fara í gegn um til að þroskast og læra að umgangast hvor aðra af háttvísi, upplifðu þeir fyrst sem höfnun. Næstu viðbrögð voru afneitun og síðan reiði. Þar eru þeir staddir í dag.
Ný afstaðnar kosningar munu ekki ná að sefa þessa reiði því þær eru hluti af afneitun þjóðarinnar. Margir íslendingar héldu að með það að kjósa nýja stjórn gætu þeir komist hjá að takast á af alvöru við afleiðingar auðmýkingarinnar og að við gætum haldið áfram á sömu braut og notið alls þess sem aðrar Evrópuþjóðir hafa að bjóða án þess að ganga í bandalag við þær og deila með þeim auðlindum okkar.
Íslendingar vita flestir innst inni að efnahagshrunið mun fyrr eða síðar knýja okkur til nýs hugsunarháttar og víðtækari ábyrgðar. Við munum hætta að hugsa eins og unglingur sem sér fátt mikilvægara en "sjálfstæði" sitt, þegar allir aðrir sem á horfa sjá, að allt það sem hann heldur að geri sig svo sérstakan, er það sem gerir hann mest líkan öðrum unglingum.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.3.2009 | 22:46
"Hér skal borg mín standa"
Strandlengjan við ósa árinnar Neva sem Pétur l keisari í Rússlandi, tók herskildi af óvinum sínum Svíum árið 1703, leit ekki út fyrir að vera mikilvægur landvinningur. Hún var í raun lítið annað en þokuklædd mýri, gaddfrosin hálft árið og samfeldur fenjapyttur hina sex mánuðina. Í augum Péturs hafði hún samt einstæðan og ómótstæðilegan eiginleika. Árósinn opnaðist út í Finnlandsflóa og bauð upp á þann aðgang að hafi til vesturs sem Rússland hafði lengi sóst eftir. Á eyju í árminninu ákvað keisarinn að byggja virki sem búið skyldi öllum helstu nýungum þeirra tíma, sinnt gæti viðskiptum við þróaðri lönd Evrópu og í tímanna rás mundi það einnig þjóna sem flotastöð fyrir rússneska flotann. Sagan hermir að Pétur hafi gripið byssusting af hermanni einum og strikað með honum ferhyrning í blauta mýrina og sagt "Hér skal borg mín standa."
Jarðvinna við virkið hófst 16. maí sama ár. Það skyldi heita í höfuðið á heilögum Pétri og heilögum Páli. Fyrsta stigið var að byggja upp eyjuna þannig að hún væri öll fyrir ofan sjólínu. Síðan þurfti að sökkva þúsundum staura í jarðveginn til að hann gæti borið byggingar. Þeir sem unnu við jarðvegsflutninganna höfðu sumir hverjir hvorki skóflur eða hjólbörur og urðu því að skrapa saman moldinni og bera hana í skyrtulafinu.
Hernaðarlega séð var bygging virkisins réttlætt skömmu seinna þegar að sænski herinn mætti á vettvang á norðurbakka árinnar í júlí mánuði 1703. Pétur réðist á þá og fór sjálfur fyrir sex herdeildum sem hröktu Svíana til baka. Næstu 18 árin gekk hvorki né rak í herbrölti þjóðanna gegn hvor annarri. En jafnvel þegar verst gekk gegn Svíum, féllst Pétur aldrei á að láta þeim eftir virkið sem átti eftir að verða að borginni Pétursborg.
Þá þegar, stóð hugur Péturs til meira en að byggja þarna virki. Staðurinn skyldi verða dvalarstaður hans og þar mundi rísa hin nýja höfuðborg hans, nálægt hafi og Evrópu en fjarri Mosku sem honum líkað aldrei við. Pétur hafði áður ferðast víða um Evrópu og þegar hann snéri aftur til Rússlands var hann uppfullur af hugmyndum um hvernig mætti fleyta Rússlandi í átt til iðnvæðingar og nútímalegri hátta.
Að breyta virkinu í borg tók mörg ár. Pétur reiddi sig mjög á ráðleggingar ítalska arkitektsins Domenico Trezzini sem hrifinn var af Barokk stílnum, og á feiknafjölda af leiguliðum og vinnuföngum. Um langan tíma var borgarsvæðið eitt risastórt byggingarsvæði. Múrsteina og steinlímsverksmiðjur voru settar upp, heilu skógarnir höggnir niður og sögunarmillur knúnar vatni og vindi voru fjölmargar. Grjót í byggingarnar var svo torfengið að Pétur setti það í lög að hvert skip sem lagði upp við höfnina yrði að koma með a.m.k. 30 steinblokkir og að hver hestvagn sem til borgarinnar kæmi skyldi flytja með sér a.m.k. þrjár steinhellur. En jafnvel þetta dugði ekki til. Um tíma gerði hann það ólöglegt að byggja hús úr steini annars staðar en í Pétursborg að viðlagðri eignaupptöku og útlegð.
Stöplar voru settir niður, skógar felldir, hæðir flattar út, skurðir og díki grafin af sveltum verkamönnum sem lifði við hræðilegar aðstæður, hrjáðir af malaríu og niðurgangi. Hnútasvipa með járnhöglum var óspart notuð við minnsta brot og þeir sem reyndu að flýja var hegnt með því að skera af þeim nefið við beinið. Að minnsta kosti 30.000 manns létu lífið við byggingu borgarinnar. Ef virki heilags Péturs og heilags Páls var byggt á mýri þá var Pétursborg byggð á mannabeinum.
Flestar evrópskar bogir hafa vaxið smá saman með auknum viðskiptum, iðnaði og fólki sem fluttist til þeirra úr sveitunum. Vöxtur Pétursborgar var knúinn áfram af einum manni. Þeir sem tilheyrðu hirð hans og fjölskyldu voru þvingaðir til að byggja sér hús í Pétursborg. Byggingarlagið var ákvarðað í lögum og það varð að vera samkvæmt "enska stílnum". Seinna var hinum efnameiri gert að bæta við hæð á húsin sín og þeir fengu engu um það ráðið. Bæði aðallinn og búaliðið kveinaði undan járnvilja Péturs.
Þótt Pétur gerðist stundum skáldlegur um borgina sína sem hann gerði að höfuðborg Rússlands árið 1712 var hún enn óhrjálegur staður. Kuldalega regluleg fraus hún á vetrum en varð að heitu pestarbæli á sumrum. Hún var girt skógum og fenjum á alla vegu og sem dæmi þá drukknuðu átta hestar franska ambassadorsins á leiðinni við að komast að borginni. Jafnvel árið 1714 þegar Tezzini hóf byggingu Péturs og Páls barrokk kirkjunnar, voru tveir hermenn drepnir af úlfum þar sem þeir gættu byggingarstaðarins. Á hverju hausti flóði Neva yfir bakka sína og hreyf með sér nokkur timburhús borgarinnar.
En ekkert fékk stöðvað Pétur. Árið 1709 sigraði hann Svíana endanlega í orrustunni við Poltava og eftir það var borgin hans og gáttin í vestur örugg. Árið 1710 lauk byggingu Alexander Nevsky kirkjunnar og vetur og sumarhallir fylgdu á eftir. Brátt voru byggð bókasöfn, listsýninga-salir, söfn, dýragarður og vísindaakademía.
Það var Menshikov, ráðherra Péturs, sem sagði réttilega fyrir um framtíð Pétursborgar, að hún mundu verða Feneyjar norðursins sem gestir mundu heimsækja til að dást að fegurð hennar. Eftir dauða Péturs árið 1725 kepptust keisarar og keisaraynjur Rússlands við að skreyta borgina með höllum og kirkjum, breiðstrætum, höfnum og opinberum byggingum. Borgin jafnast fyllilega á við Feneyjar og Versali hvað byggingarlist varðar og framlag sitt til menningar og lista. Hún er tákn fyrir einarðan ásetning Rússlands til að verða hluti af Evrópu.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)