Færsluflokkur: Tónlist
16.8.2008 | 17:12
Götu-tónlistin í Bath
Bath er fögur og litrík borg, ekki hvað síst hvað mannlífið varðar. Fyrr í sumar var haldin hin árlega tónlistarhátíð (The Bath music Festival) og þar komu saman margir frægir og góðir listamenn. Í tilefni af sextíu ára afmæli hátíðarinnar voru gerðar nokkrar 60 sekúnda langar kvikmyndir um hátíðina en ég kaus að fara aðra leið og gera kvikmynd um þá sem ekki komu þar fram en eru engu síður hluti af tónlistarlífinu hér í borg. Hér kemur einnar mínútu tónlistar-póstkort frá Bath.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.8.2008 | 17:35
Íslenska heims-Íkonið
Ef þú flettir upp í lexíkonum um tísku eða tónlist, popp-kúltúr og nútímamenningu er næsta víst að þú rekst á þessa mynd. Fáar eða engar myndir af íslendingi hafa öðlast slíkan sess í menningu heimsins eins og myndin af Björk Guðmundsdóttur utan á hljómdisk hennar Homogenic. Myndin er listaverk þar sem margir mismunandi menningarstraumar eru bræddir saman í eina heild og virka eins og hefðbundin útfærsla á fornu útliti asískra kvenna. Björk sækir þessa strauma til fimm landa; Kóreu, Kína, Japan,Thailands og Burma.
Ef við förum frá toppi til táar og byrjum á hárinu, þá er útfærslan á því fengin frá Kóreu og á rætur sínar að rekja til þess kunnuglega siðar hefðarfólks að ganga með hárkollu.
Á meðan alþýðan (bæði karlar og konur) lét sér nægja að flétta hár sitt og setja í hnút í hnakkanum eða við banakringluna, báru efnaðar hefðarmeyjar íburðarmiklar hárkollur (gache). Ein og tíðkaðist líka á Vesturlöndum, þóttu hárkollurnar flottari eftir því sem þær voru stærri og íburðarmeiri. Margar litu út eins og hárskúlptúrar sem festir voru á höfuð konum til að hafa þar til sýnis. Hárkolluæðið náði hámarki á ofanverðri átjándu öld í Kóreu en nokkuð slóg á það með tilskipun Jeongjo Konungs 1788 þegar hann bannaði notkun hárkolla þar sem þær gengu gegn gildum Konfúsíusar um hógværð og auðmýkt.
Til Burmma og Thailands sækir Björk hálshringina. Þótt slíkar fegrunaraðgerðir séu ekki óþekktar í suður-Afríku, eru það konur Kayan (Karen-Padung) ættbálksins í Thailandi og Burma sem frægastar eru fyrir hálshringina sem byrjað er að setja um háls stúlkna í æsku eða þegar þær eru 5-6 ára. Hringirnir aflaga axlar og viðbein svo að hálsinn sýnist lengri. Fullvaxin kona gengur með um 20 hringi.
Að auki ber þær hringi um um handleggi og fótleggi sem ekki eru taldir síður mikilvægir sem fegurðartákn. Gifta konur bera líka fílabein í eyrnasneplunum. Þungi fílbeinsins verður til þess að eyrnasneplarnir síga og verða stundum svo langir að þeir sveiflast til. Þessi siður er afar forn, eða allt frá þeim tíma er eyrun voru talin helgasti hluti líkamans og hann bæri því að skreyta. Ílöng eyru voru talin merki um fegurð hjá konum og styrk hjá körlum. - Flest Padung fólksins iðkar andatrú, en um 10% eru Buddha-trúar og einhverjir eru kristnir.
Á myndinni klæðist Björk Kimonosem er þjóðabúningur Japana og honum klæðast bæði karlar og konur. Orðið Kimono er samsett úr orðunum ki (að klæðast) og mono (hlutur). Kimono er T-laga kufl beinsniðinn og nær alla leið niður að öklum. Hann er vafinn um líkaman frá vinstri til hægri, nema sem líkklæði, þá er hann vafinn frá hægri til vinstri. Honum er haldið saman með breiðu belti (obi) sem er venjulega bundið saman að aftanverðu. Í dag er Kimono yfirleitt viðhafnarbúningur en var áður fyrir afar algengur sem hversdagsklæði kvenna. Ógefnar konur klæðast Kimono sem hefur dragsíðar ermar.
Annað nafn fyrir Kimono er Gofuku sem þýðir "klæði Wu." Fyrstu kimonoarnir urðu fyrir miklum áhrifum af kínverskum hefðum og rekja má kínversk áhrif í japanskri fatagerð allt aftur til fimmtu aldar.
Farði Bjarkar minnir um margt á hinar japönsku Geishur eða Geiko eins og þær eru líka kallaðar. Geishur eru japanskir skemmtikraftar sem stunda hinar mismunandi japönsku listgreinar af mikilli snilld, þ.á.m. sígilda tónlist og dans. Þrátt fyrir þrálátan orðróm eru Geishur ekki vændiskonur.
Uppruni farðahefðarinnar er umdeildur og segja sumir að hvíta litinn og smáan rauðan munninn megi rekja til aðdáunar Japana á vesturlenskri fegurð, fyrst eftir að þeir kynntust Evrópubúum.
Hvíti farðinn á að þekja andlitið, hálsinn og brjóstið en skilja eftir tvö W eða V laga svæði aftan á hálsinum sem undirstrikuðu þetta svæði sem samkvæmt hefð Japana er afar kynæsandi. Þá er skilinn eftir þunn lína á milli andlitsfarðans og hárlínunnar sem gefa til kynna að um grímu sé að ræða frekar en farða.
Augnasteinar Bjarkar eru eins holur, tækni sem notuð var til að gefa augum líkneskja dýpt og neglur hennar eru langar og minna á drekaklær, en drekinn er þekkt landvætt í öllum Asíulöndum.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.7.2008 | 12:16
Á Þjóðhátíð í Eyjum
Verlunarmannahelgin á næsta leiti og margir eflaust farnir af stað þangað sem þeir ætla. Þjóðhátíð í Eyjum að hefjast, húkkaraball í kvöld og allt það.
Fyrir næstum 20 árum var heimsfrægum plötusnúð boðið að taka þátt í Þjóðhátíð í Eyjum. Sá hafði getið sér gott orð, fyrst á útvarpsstöðvunum sem starfræktar voru á öllum amerísku herstöðunum um allan heim og seinna í kvikmyndinni American Graffiti.
Hann hét Wolfmann Jack(Lést 1995) og var strigakjaftur mikill og stuðbolti með allt útvarps-lingóið á hreinu og mikill rokk-aðdáandi. Hann var nokkuð digur um sig og það tóku allir eftir honum þar sem hann fór, svartklæddur og með sitt grásprengda úlfsskegg og síða hár.
Eftir að hann var búinn með prógrammið sitt á laugardagskvöldinu í Dalnum, kom hann örþreyttur, þrælkvefaður og hóstandi inn á hótelið þar sem hann dvaldist og hlammaði sér niður í leðursófann í lobbíinu. - Ég var að vinna þarna á Hótelinu og því vék hann sér að mér og spurði; "Geturðu nokkuð reddað mér tisjú". Ég fór að leita, en var því miður ekki öllum hnútum kunnugur og fann ekkert nema klósettrúllu sem ég svo færði honum. Á meðan karlinn var að snýta sér í rúlluna, og ég meina það, hann notaði alla rúlluna, lét hann dæluna ganga og býsnaðist mikið yfir okkur Íslendingum og skemmtanagleði okkar. "Ég var á Woodstock, Isle of Wight og öllum stærstu rokkhátíðum sem haldnar hafa verið" sagði hann. "En ég hef aldrei nokkurn tíman lent í öðru eins og þessu. Þið..þið Íslendingar kunnið svo sannarlega að skemmta ykkur" (You sure know how to party) .
Svo bað hann um aðra klósettrúllu og fór með hana upp á herbergið sitt.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.7.2008 | 00:09
Pólitísk innræting og skandall í Bakarabrekkunni
Sumarið 1969 líður mér seint úr minni. Þetta var sumarið áður en ég fór að Núpi í Dýrafirði, þegar ég var enn fullur af hugmyndum (sumir mundu segja ranghugmyndum) um heiminn og hvernig hann ætti ekki að vera, enda bara 15 ára. Hugmyndirnar voru mest á vinstri vængnum viðurkenni ég, jafnvel svolítið til vinstri við hann, svona eftir á að líta. Alla vega var ég fljótur að þefa uppi félagsskap þar sem slíkar hugmyndir voru taldar til fyrirmyndar.
Í félagi við Jóhann Geirdal, fór ég að taka rútuna frá Keflavík til Reykjavíkur, eins oft og ég gat til að fara á fundi í bakhúsi á Laugarveginum þar sem Æskulýðsfylkingin (Fylkingin) var til húsa. Þarna kynntist ég fólki sem mér var sagt að væru helstu boðberar frelsis og réttlætis á Íslandi, Þ.á.m. Rósku, Ragnari (seinna skjálfta) og að sjálfsögðu Birnu Þórðar.
Það fór vel á með okkur og ég var sendur heim með lesefni eftir hvern fund. Ég paufaðist í gegn um Hegel, Marx og Engels og las þess á milli Lilju sem allir vildu kveðið hafa.
Það voru miklar aðgerðir í vændum því stórmenni á vegum Bandaríkjastórnar var að koma til landsins í tengslum við varnarsamning þeirra og Íslendinga. Í Bakarabrekkunni átti að efna til mótmæla og æfingar á leikþáttum sem þar stóð til að sýna voru í fullum gangi.
Mér var falið mikilvægt hlutverk í þessum aðgerðum. Strax og ákveðnum leikþætti sem Birna lék í og leikstýrði, var lokið, átti ég að setja plötuspilara í gang. Á spilaranum var plata þar sem kínverskur alþýðukór flutti Internationalinn að sjálfsögðu á kínversku.
Allt gekk þetta snurðulaust fyrir sig, þar til komið var fram í mitt lag. Þá sé ég hvar bæði Róska og Birna koma hlaupandi í átt til mín þar sem ég stóð keikur yfir grammófóninum með allt í botni. Á svip þeirra og látbragði mátti ráða að eitthvað væri ekki í lagi.
Róska þreif í arminn á fóninum og hvessti á mig glyrnurnar. Helvítis fíflið þitt...gastu ekki sett hana á réttan hraða....Svo komu fleiri blótsyrði sem ég ætla ekki að hafa eftir hér. Mér varð nú ljóst hvar mér hafði orðið á.
Ég talaði vitaskuld ekki kínversku þá, frekar enn í dag og í eyrum mínum hljómaði lagið ósköp áþekkt eða jafnvel eins á 78 snúnings hraða og það gerði á 45 snúnings hraða. Platan var sem sagt gerð fyrir 45 en ég hafði fóninn stilltan á 78.
Ég segi það enn, að Róska hefði bara átt að leyfa laginu að spila út. Það hefði enginn fattað mistökin ef hún hefði bara verið róleg. Kínverskur alþýðukór að syngja á kínversku internationalinn eða "Njallann" eins og við kölluðum hann, hljómar eiginlega bara betur á 78 snúningum en 45. Takturinn er hraðari og kínverskan hljómar bara kínverskari ef eitthvað er.
Eftirmálar þessa atviks urðu þeir að ég var "rekinn" úr Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins næsta dag og hætti að taka rútuna frá Keflavík til Reykjavíkur í tíma og ótíma til að mæta á einhverja fundi.
Ég vona að ykkur lesendum góðum sé sama þótt ég laumi að, af og til, þessum smásögum úr eigin ranni. Þessi minningabrot koma svona eitt og eitt upp í hugann af og til við leitina að góðu bloggefni.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
27.7.2008 | 21:52
Ebony Venus
Löngu áður en Sydney Poitier og kvikmyndin Liljuakurinn (1963) sem skaut honum upp á stjörnuhimininn náði hilli heimsins eða Bill Cosby og Ég Njósnari (1965),varð að fyrirmynd blökkumana í USA, kom fram þeldökk ofur-stjarna sem gerði meira fyrir réttindabaráttu blökkumanna í vesturheimi en þeir báðir til samans að mínu mati, þótt hún hafi síðan fallið í skugga þeirra. Sá fjöldi sem nú er til af þeldökkum kvikmyndastjörnum, tónlistarfólki og ofur-fyrirsætum á þessari konu mikið að þakka, því hún var sannur brautryðjandi og lagði réttindabarrátu þeldökkra óspart lið á sínum tíma.
Faðerni hennar er umdeilt, en hún fæddist 3. Júní árið 1906 í borginni St. Louis í Alabama fylki í Bandaríkjunum. Henni var gefið nafnið Freda Josephine McDonald. Eftirnanfnið fékk hún frá móður sinni Carrie McDonald. Carrie hafði verið ættleidd af Richard og Elvira McDonald sem bæði voru fyrrverandi þrælar.
Seinna á ferli sínum varð Josephine þekkt undir nöfnunum "Svarta perlan", Kreóla-Gyðjan" "Ebony Venus" eða einfaldlega "La Baker" þar sem hún starfaði mest í frönskumælandi löndum. Hún varð fyrsta konan af afrísk-amerískum ættum til að fá aðalhlutverk í kvikmynd. En frægust varð hún fyrir söng og danssýningar sínar og fólk kepptist um að sjá og heyra í París og hvar sem hún fór um heiminn.
Josephine hætti í skóla þegar hún var 12 ára og fór þess í stað að vinna fyrir sér með dansi á götum úti. Leið hennar lá með sýningarhópi til New York og þar komst hún að sem aukamanneskja í helstu svörtu söngleikjum þeirra tíma.
Árið 1925 hélt hún til Parísar og varð þar strax fræg fyrir að koma fram í Théatre des Champs-Élysées þar sem hún dansaði erótískan dans að mestu nakin. Þetta var á sama tíma og Exposition des Arts Décoratifs sýningin var haldin í París sú er gaf okkur sérheitið Art Deco og í kjölfar hennar vaknaði mikill áhugi fyrir frumbyggjalist hverskonar, þ.á.m. afrískri. Að þessum áhuga féllu sýningar Josephine fullkomlega.
Á sýningum sínum hafði Josephine oft með sér demantaskreytt Blettatígur sem hún kallaði Chiquita. Fyrir kom að dýrið slapp frá henni og olli miklum usla meðal hljómsveitarmeðlimanna fyrir neðan sviðið.
Það leið ekki á löngu þangað til hún var langvinsælasti erlendi skemmtikrafturinn í París þótt heima fyrir hefði hún ætíð þurft að líða fyrir hörundslit sinn og ætterni.
Skáldið og kvennamaðurinn Ernest Hemingway kallaði hana " ...frábærasta kvenmann sem nokkru sinni verður augum litinn" .Hún lék í þremur kvikmyndum hinni þöglu Siren of the Tropics (1927), Zouzou (1934) og Princesse Tamtam (1935).
Lag hennar "J'ai deux amours" (1931) varð feykivinsælt og hún varð eftirsótt fyriræta af listamönnum á borð við Langston Hughes, Ernest Hemingway, F. Scott Fitzgerald, Pablo Picasso, og Christian Dior.
Hún var svo vinsæl að jafnvelþegar a Nasistar tóku Frakkland hikuðu þeir við að vinna henni mein. Hún notaði tækifærið og aðstoðaði neðanjarðarhreyfinguna við að smygla skjölum yfir til Portúgals. Hún var seinna heiðruð með Croix de Guerre og Légion d'Honneur orðunum af Charles de Gaulle, yfirhershöfðingja.
Þrátt fyrir vinsældir hennar í Frakklandi náði hún aldrei sömu hæðum í Bandaríkjunum. Þegar hún heimsótti föðurland sitt 1936 til að leika Ziegfeld Follies kolféll sýningin. Eitt sinn var hún stödd í matarboði og talaði þar jöfnum höndum frönsku og ensku með frönskum hreim. Þeldökk þjónustustúlka snéri sér að henni og sagði. "Honey, you is full of shit. Speak the way yo' mouth was born." Josephine lét reka hana.
Hún fékk slæma dóma fyrir sýningar sínar í Bandaríkjunum og New York Times gekk svo langt að kalla hana "negrakellingu". 1937 fór Baker til baka til Parísar, gifti sig þar Frakka að nafni Jean Lion, og sótti um franskan ríkisborgararétt sem hún fékk.
Hún neitaði að sýna hvar þar sem svartir og hvítir áhorfendur voru aðskildir eða svartir voru bannaðir eins og tíðkaðist víða í "fínni" klúbbum. Mótmæli hennar urðu til m.a. að reglum um aðskilnað í Las Vegas í Nevada var breytt.
Árið 1951, sakað Baker, Sherman Billingsley í Stork Clúbbinum í New York um kynþáttafordóma eftir að henni var neitað þar um þjónustu. Hin virta leikkona Grace Kelly sem var þar viðstödd hraðaði sér til hennar, tók í hendi hennar og sagðist aldrei mundu koma þar aftur, sem hún og efndi. Upp frá þessu atviki urðu þær góðar vinkonur og seinna þegar Baker var nær því gjaldþrota, kom Grace sem þá hafði gift sig Rainer Prins af Mónakó.
Baker starfaði talvert með og fyrir samtök blökkumanna í Bandaríkjunum. Hún hélt m.a. ræðu á frægri útisamkomu í Washington árið 1963 þar sem hún, íklædd "Frjálst Frakkland" einkennisbúningi sínum með orðurnar sínar á brjóstinu, var eini kvenkyns ræðumaður mótmælafundarins. Eftir morðið á Martin Luther King bað ekkja hans Coretta Scott, Baker um að taka að sér formennsku í hreyfingunni. Hún hafnað því boði eftir nokkra umhugsun á þeirri forsendu að börnin hennar væru of ung til að missa móður sína.
Árið 1966 var henni boðið af Fidel Castro að halda sýningu á Teatro Musical de La Habana í Havana á Kúbu. Sýning hennar þar setti aðsóknarmet sem enn hefur ekki verið slegið.
Árið 1973, fékk Josephine Baker loks verðugar móttökur í Bandaríkjunum þegar hún opnaði sýningu sína í Carnegie Hall.
Allar götur eftir að jafnréttisbaráttan hófst fyrir alvöru í Bandaríkjunum, studdi Josephine málstað svartra. Hún mótmælti á sinn hátt með því að ættleiða tólf börn af mismunandi kynþáttum og kallaði fjölskyldu sína Regnboga ættbálkinn.
Börn hennar voru Akio (sonur frá Kóreu), Janot (sonur frá Japan), Luis (sonur frá Kólumbíu), Jarry (sonur frá Finnlandi), Jean-Claude (sonur frá Kanada), Moïse (sonur af ættum franskra gyðinga), Brahim (sonur frá Alsýr), Marianne (dóttir frá Frakklandi ), Koffi (sonur frá Fílabeinsströndinni), Mara (sonur frá Venesúela), Noël (sonur frá Frakklandi ) og Stellina (dóttir frá Morkakó)
Um tíma bjó öll fjölskyldan saman í stórum kastala, Chateau de Milandes í Dordogne í Frakklandi. Baker fæddi sjálf aðeins eitt barn, sem þó fæddist andvana árið 1941.
Eiginmenn hennar voru fjórir en vafi leikur hvort hún giftist þeim öllu á löglegan hátt.
- Willie Wells (1919)
- William Howard Baker (1920-23)
- Jean Lion (1937-38)
- Jo Bouillon (hljómsveitarstjóri, 1947-57)
Þann 9. Apríl árið 1975 var haldin í París mikil hátíð þar sem Josephine Baker hélt upp á 50 ára starfsafmæli sitt. Meðal gesta á opnunarsýningin sem var kostuð af Rainier Prins, Grace Kelly og Jacqueline Kennedy Onassis, í yfirfullum sal í Bobino í París, voru fyrir utan kostendurnar, Sophia Loren, Mick Jagger, Shirley Bassey, Diana Ross og LIza Minnelli.
Tveimur dögum seinna fannst Josephine meðvitundarlaus liggjandi á sófa sínum í dagstofu heimilis síns í París með Dagblað í kjöltunni sem var fullt af lofsamlegum greinum um sýningu hennar. Hún hafði fallið í dá eftir heilablóðfall og lést á sjúkrahúsi 12. Apríl 1975, sextíu og átta ára að aldri
Í þessari grein er stiklað á stóru um feril og ævi Josaphine Baker. Heimildir eru m.a. fengnar af ýmsum vefsíðum sem finna má um hana ekki hvað síst héðan og héðan
Tónlist | Breytt 28.7.2008 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.7.2008 | 11:28
Þeldökkur forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum á síðustu öld
Mikið er látið með þá staðreynd að Barack Obama sé fyrsti svarti maðurinn sem nær að tryggja sér útnefningu sem forsetaefni í Bandaríkjunum. Í öllu fjölmiðlafárinu gleymist að hann er alls ekki fyrsti þeldökki maðurinn til að gefa kost á sér til embættisins þótt ekki hafi fylgt útnefning annars af stærstu stjórnmálaflokkunum. Fyrsti þeldökki maðurinn sem það gerði og eitthvað kvað að, var vafalaust djass-snillingurinn Dizzy Gillespie.
Fyrri hluti sjöunda ártugarins voru miklir róstur tímar í sögu Bandaríkjanna. Svartir menn og konur reyndu að varpa af sér oki aldanna og ná fram almennu jafnrétti. Árið 1964 boðaði Dizzy Gillespie, sem þegar var orðinn heimsfrægur sem upphafsmaður Bebops Jass, að hann gæfi kost á sér til forsetaembættisins. Framboðið var vitaskuld sjálfstætt en vakti samt mikla athygli, umtalvert meiri en þau hundruðin fá, sem jafnan bjóða sig fram við hverjar forsetakosningar.
Megin andstæðingar Dizzy voru Lyndon Johnson fyrir Demókrata og Barry Goldwater fyrir Repúblikana.
Dizzy lofaði því að ef hann næði kosningu mundi hann endurnefna "Hvíta húsið" "Blues-Húsið", hann mundi útnefna Ray Charles Yfirbókasafnsvörð Þingsins, Miles Davis að yfirmanni CIA og gera sjálfan Malcom X að dómsmálaráðherra. Varaforsetaefni hans yrði Phyllis Diller grínisti og forsetaritari sjálfur Duke Ellington. Eins og sjá má var framboðið hálfgert grín, en öllu gríni fylgir nokkur alvara. Dizzy gaf út plötu í tilefni framboðsins og breytti einu af sínu kunnasta lagi "Salt Peanuts" í kosningasöng.
Dizzy var ótvírætt einn af merkustu tónlistarmönnum Bandaríkjanna á síðustu öld. Hann var eins og fyrr er getið upphafsmaður Bebop-djassins og mótandi nútíma djass í félagi við Charly Parker, Jelly Roll Morton og Roy Eldridge. Dizzy spilaði á trompet og var auðþekktur fyrir íkonískt 45 gráðu beygjuna á því, þannig að hornið stóð beint út í loftið. Sagan segir að trompetið hans hafi orðið fyrir hnjaski á tónleikaferðalagi 1953 og upp frá því hafi Dzzy heillast af hljóminum og ekki viljað sjá annað eftir það.
Dizzy Gillespie gerðist Bahá'í árið 1970 og var einn þekktasti áhangandi þeirrar trúar. Ég var svo heppinn að kynnast Dizzy aðeins þegar hann kom til Íslands og hélt tónleika fyrir fullu húsi í Háskólabíó 1984 að mig minnir. Ég kunni aldrei að meta djass og langt fram eftir æfi þoldi ég ekki nema léttustu útgáfur hans. Að hitta Dizzy breytti þar litlu um, en það var samt skemmtilegt að hitta þennan mikla tónlistarmann og sjá hann þenja út gúlinn eins og blöðruselur, nokkuð sem engin hefur leikið eftir honum fyrr eða síðar.
Síðustu tónleikar Dizzy voru áætlaðir í Carnegie Hall í New York 1992. Um sama leiti komu Bahaiar hvaðanæva að úr heiminum saman í borginni til að minnast þess að hundrað ár voru liðin frá andláti stofnanda trúarinnar Bahá´u´lláh. Tónleikarnir voru í tilefni 75 ára afmælis Dizzy og framlag hans til minningarhátíðarinnar. Meðal þeirra sem prýddu hljómsveit hans voru Jon Faddis, Marvin "Doc" Holladay, James Moody, Paquito D´Rivera, Mike Longo Tríóið, Ben Brown og Mickey Roker. Því miður tókst Dizzy ekki að taka þátt í tónleikunum þar sem hann lá fyrir dauðanum af völdum Krabbameins. Í gagnrýni um tónleikana var m.a þetta sagt;
"En hver tónlistarmannanna lék af hjartans list fyrir hann, vitandi að hann mundi aldrei leika aftur. Hver þeirra minntist vinar síns, þessarar stóru sálar og mikla frömuðar á svið djass tónlistarinnar"
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.7.2008 | 08:57
Nöldur og fordómar kynslóðanna
Vandamálið við brandara um gamalt fólk er að þeir ýta undir og styðja klisjuna að gamalt fólk geri lítið annað en að bíða eftir því að deyja. Unglingum t.d. þykir afar óþægilegt að tala um gamalt fólk og leiða það hjá sér að ef allt gengur að óskum endum við öll einmitt þannig.
Í sjálfu sér finnst mér ekkert að því að segja brandara um gamlingja, svo fremi sem við sjáum þá ekki sjálfa sem brandara. Á því er mikill munur.
Tveir gamlir öldungar sátu á bekk og ræddust við.
Ég er orðin svo gamall, sagði annar þeirra, að ég get ekki lengur pissað í einni bunu. Þetta kemur í rykkjum og skrykkjum og það tekur mig venjulega 10 mínútur að klára.
Vildi ég að ég væri svona heppinn, svaraði hinn. Á hverjum morgni klukkan sjö, stendur úr mér bunan, kraftmikil eins og úr stóðhesti.
Hvað er að því?, spurði sá fyrri.
Ég vakna ekki fyrr en klukkan hálf átta.
Það er hjákátlegt að horfa á náföla og búlemíu-granna semi-rokkara stramma hrátt sama gripið út í gegn á gítarinn og væla með sundurlausar setningar um tímarit og sígarettur í míkrófóninn. Undan hvaða hlandvotu tímaskekkju rekkju skriðu þessir gæjar? Lögin eru flatliners sem ekki krefjast neins til að flytja annars en óréttlætanlegs og óforskammaðs sjálfsálits. Hálflukt augun og klesst hárið eru ímynd drug-indúseraðs meðvitundarleysis sem greinilega er nauðsynlegt til að þrauka í gegn um þessa reynslu. Og þegar hryllingnum loks líkur má merkja á töktunum að þessir herrar telja sig hafa farið með ódauðlegt listaverk.
Sama listræna illgresið kemur úr barka svörtu drengjanna úr slömmum stórborga Ameríku. Þeir hópast enn saman til að ryðja úr sér óskiljanlegri orðasúpu í takt við trommuheila og vilja meina að það sé tónlist. Þeir láta mynda sig í þröngum húsasundum, skúmaskotum eða stigagöngum klæddir í hólkvíðar treyjur til að fela hamborgara-mittis-skvapið, með buxurnar á hælunum samkvæmt þreyttri tísku sem varð til í fangelsum Bandaríkjanna fyrir margt löngu, þar sem beltisólar og reimar eru fjarlægðar til að viðkomandi hengi sig ekki í þeim. Allt í kring um þá dilla ungar druslulega klæddar stúlkur lendunum sínum og nudda þeim upp að piltunum eins og breima kettir. Þær haga sér raunar í fullu samræmi við textann sem drengirnir fara með, (sem þó er ekki hægt að skilja nema þú fáir hann á prenti) en hann er fullur af niðurlægjandi kenningum um kvenfólk. Jó bró handahreyfingarnar og stöðugt kynfærakáf drengjanna eru eflaust í þeirra huga nauðsynleg kultúrísk auðkenni, en eru í raun hallærislegir og afdankaðir götustælar sem tjá vanmátt og pirring hins óupplýsta og kúgaða manns.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.7.2008 | 18:51
Krissy Wood - Smá eftirmáli við skúbbið
Í gær brá ég mér af bæ og heimsótti hjón sem ég þekki lítillega og búa í nærliggjandi smábæ. (Bradford on Avon) Þar voru samankomnir á heimili hjónanna nokkrir af vinum þeirra sem ég hafði aldrei hitt áður.
Þegar líða tók á kvöldið kom að tali við við maður sem kynnti sig sem Tom. Kvaðst Tom þessi hafa starfað mikið með þekktum hljómsveitum hér í Bretlandi, aðallega sem sviðsmaður og m.a. tekið þátt í að setja saman hið fræga svið sem Pink Floyd notaði í hljómleikaferð sinni The Wall. Mér varð á að minnast á að ég hefði hitt fyrir tilviljun Ronnie Wood á dögunum og við það viðraðist Tom allur upp og sagðist hafa þekkt vel fyrri konu Ronnies, Kryssy Wood sem lést 2005 langt um aldur fram. Hann lét gamminn geysa langt fram eftir kvöldi og hafði frá mörgu að segja.
Þegar hann loks kvaddi og fór, kom húsfreyjan til mín og sagðist hafa heyrt ávæning af samræðum okkar. Hún sagði jafnframt að Tom þessi hefði verið grunaður um að vera sá sem "skaffaði" Krissy Wood valíum töflurnar sem drógu hana til dauða eftir að hún hafði tekið þær inn í ómældu magni. - Þetta varð til þess að ég fór að leita mér frekari upplýsinga um Krissy og það sem ég komst að er svo furðulegt og lærdómsríkt að ég má til með að deila því með ykkur.
Fyrirsætan Krissy Wood var heimsfræg hljómsveitafylgja (groupía) og eiginkona Ronnie Wood gítarleikara Rolling Stone, dó í skugga fremur villtrar fortíðar sinnar. Hún er ekki eina konan sem skilin hefur verið eftir drukknandi í kjölfari hljómsveitarinnar.
Krissy byrjaði á toppnum; hún sagðist hafa tapað meydóminum á sófa mömmu sinnar í Ealing með Eric Clapton. Þá hét hún Krissy Findley og kom úr strangtrúaðri Rómversk-kaþólskri fjölskyldu, gekk í skóla sem heitir Gregg Grammar og þótti gaman að dansa og hlusta á hljómsveitir.
Munmælasagan segir að hún hafi verið ábyrg fyrir því að Ronnie fór að spila með Stones. Kvöld eitt kom hún heim úr klúbbi í London með Keith Richard í eftirdragi. Hún kynnti hann fyrir Ronnie og þeir byrjuðu að semja saman. 1974 fóru Stones í hljómleikaferð og þá tóku þeir Ronnie með sér.
Ári 1975 var Krissy ákærð í Kingston Crown Court fyrir að neyta kókaíns. Eftir það hélt hún með George Harrison til villu hans í Portúgal.
Ronnie virtist afar ánægður með það, sem ekki ber að undrast, því hann var á leiðinni til Barbados eyja með konu Harrisons, fyrirsætunni Patti Boyd. (Hún skildi seinna við Harrison og giftist Clapton.) Krissy og Harrison urðu elskendur og þegar þau komu til baka frá Portúgal tóku þau á móti mökum sínum á heimili Harrisons í Friar Park í Oxfordskýri.
Hvernig þeim fundi reiddi af fer ekki sögum af hér, en fljótlega eftir þann fund hélt Krissy til Los Angeles og hóf þar samband við John Lennon, sem þá var giftur Yoko Ono. Það var Krissy sem var með Lennon þegar að plötuframleiðandi einn miðaði á hann byssu sinni. Lennon kastaði sér yfir Krissy til að vernda hana. Hvorugt meiddist. Í annað skipti voru þau bæði borin út úr partýi hjá Díönu Ross eftir að ólyfjan hafði verið blandað í drykki þeirra.
Daginn fyrir andlát sitt hringdi hún í vin sinn og sagði að allt væri í lagi en 24 tímum seinna lá hún andvana á sófa hans. 150 manns sóttu útför hennar sem gerð var frá Mortlake Crematorium og Ronnie, sem var viðstaddur með Jo, var sagður yfirbugaður af sorg.
Saga Krissy eftir að hún skildi við Ronnie er dæmigerð fyrir örlög margra grúpía sjötta áratugarins. Jo Jo Laine sem missti meydóminn með Jimi Hendrix og átti elskhuga á borð við Rod Stewart og Jim Morrison, giftist síðan Denny Laine, gítarleikara the Moody Blues og síðan Wings, varð alkóhóli og heróíni að bráð. Hún var loks lokuð inni á þunglyndislyfjum eftir að hún komst að því að Denny hafði sofið hjá bestu vinkonu hennar. Þá mætti nefna Marianne Faithfull, Marsha Hunt, Mandy Smith, Anitu Pallenberg sem dæmi um konur sem steinarnir frægu rúlluðu yfir og skildu eftir misjafnlega á sig komnar um aldur og ævi.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
18.7.2008 | 15:28
Pete Doherty, villingur og snillingur
Pete Doherty er stundum kallaður síðasti rómantíski rokkarinn, drengurinn sem lítur út eins og bróðir ákveðinnar kvennkyns teiknimyndarfígúru frá upphafi síðustu aldar og síðast en ekki síst, dóparinn sem allir elska að hneykslast á. Mér er nokkuð sama hvað fólk segir um piltinn því eitt verður ekki af honum skafið að mínu mati; hann er frábært ljóðskáld. Ég valdi eitt af ljóðum hans til að snara á íslensku. Það er án titils og fjallar um það sem Pete er kærast, vímuna.
Vakna upp á lífi á aurugum járnfylltum ströndum Lundúna
sjóðandi undir
pollum regns
votu sápuvatni
Fitzrovia sullar í holunum
á gangstéttarbrúnum hennar
um leið og ég renni fimmara
í þvalan hanska
og renn af gangstéttinni
við "Kebabish Borgina"
Sleiki sleiki steiktan kjúlla spjall
rotna tennurnar við að sprauta upp?
Hvað um mínar.
Í hinum sæta draumi
segir hið skælda bros mitt
af of mörgum sorglegum kveðjustundum,
ekki lengur halló.
(Vesturbærinn er hrúga að riðgandi laufum og tómum augnagotum járns)
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.7.2008 | 16:15
Demi-guðir á Íslandi fyrir 38 árum. Varst þú þar?
1970 þegar hippamenningin stóð sem hæst hér á Íslandi, komu demi-guðirnir í Led Zeppelin til landsins og léku fyrir 2.5% af þjóðinni, (meðal hans undirritaðan) sem var ekki minna en 5000 manns í Laugardagshöll. Ferðin til Íslands hafði varanleg áhrif á sveitina því á meðan dvöl hennar stóð á landinu samdi Robert Plant textan við eitt þeirra frægasta lag Immigrant song.
Úr Söngleiknum "ÉG elska alla"
Robert sagði í viðtali um tilurð textans; We went to Iceland, and it made you think of Vikings and big ships... and John Bonham's stomach... and bang, there it was - Immigrant Song!
Textinn fjallar að sjálfsögðu um Ísland og Leif Eiríksson og var frumflutt á tónleikum Í Bath á Englandi, aðeins sex dögum eftir tónleikana á Íslandi. Lagið kom út á plötu þeirra Led Zeppilin III og var yfirleitt opnunarlag þeirra á tónleikum eftir það. Hér kemur þessi frægi texti sem sýruhausarnir brutu svo mikið heilann yfir "hvað þýddi í raun og veru".
Ah, ah,
We come from the land of the ice and snow,
from the midnight sun where the hot springs blow.
The hammer of the gods
Will drive our ships to new lands,
To fight the horde, singing and crying:
Valhalla, I am coming!
On we sweep with threshing oar,
Our only goal will be the western shore.
Ah, ah,
We come from the land of the ice and snow,
from the midnight sun where the hot springs blow.
How soft your fields so green,
Can whisper tales of gore,
Of how we calmed the tides of war.
We are your overlords.
On we sweep with threshing oar,
Our only goal will be the western shore.
So now youd better stop and rebuild all your ruins,
For peace and trust can win the day
Despite of all your losing.
Hér er sjónvarpsfréttin af komu þeirra til landsins og viðtal við Robert Plant.
Tónlist | Breytt 7.7.2008 kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)