Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
1.6.2010 | 23:26
Sarah Fergsuson lætur plata sig
Eins og sést á þessu myndandi hér, sem sýnir Söru Ferguson hertogaynju bjóða kaupsýslumanni aðgang að Andrew Bretaprinsi fyrrum bónda sínum og viðskiptatengslum hans fyrir hálfa milljón punda, er konan ekki með sjálfri sér. Sjálf segist húnn hafa verið drukkin en það er eitthvað afar einkennilegt við hegðun hennar. Hún drafar og nýr saman höndunum og lætur eins og hún sé að leika hlutverk í lélegri kvikmynd. Hinsvegar leikur leyniþjónustumaðurinn hlutverk sitt mjög vel.
Kennir eigin heimsku og skuldum um | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.5.2010 | 20:31
Allir stóðu á fætur
Tvisvar hefur allt fólkið í salnum í Osló staðið á fætur til að fagna flutningi. Fyrst þegar írska dívan flutti lagið fyrir Írland og svo þegar að Hera Björk lauk sínu lagi.
Góð vísbending um framhaldið það.
Allt gekk eins og í sögu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.5.2010 | 09:46
Hera Björk í fyrstu setningu!
Bretar ætla greinilega að standa við sitt og styðja Ísland. Útsendingin á öðrum hluta undanúrslitana var varla hafin þegar að þulur BBC hóf að hæla Heru Björk sem hvergi kom þó beint við sögu í þeirri útsendingu.
Annars eru Bretar almennt merkilega súrir út í Júróvisjón. Ég held að ég þekki ekki hræðu sem sýnir keppninni einhvern áhuga. Bresku sjónvarpsþulirnir vita greinilega af þessu óþoli almennings og tala um allt og alla (nema Heru Björk) eins og þeim finnist þetta allt hálf hallærislegt.
Þeir lesa jafnóðum upp tölvupósta sem þeir fá frá áhorfendum og þeir eru allir á sömu leið, tómar blammeringar.
Einn þeirra sagði að hundurinn hefði hlaupið ýlfrandi út úr stofunni þegar að sá ísraelski hóf upp raust sína.
Um danska lagið varð þulnum tíðrætt um vindvélina sem sett var í gang í seinni hluta lagsins, hve söngvarinn væri "stór í Rússlandi" og að hann liti út eins og markmaður.
Trúmál og siðferði | Breytt 27.5.2010 kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2010 | 16:03
Hermenn skynseminnar
Í samskiptum mínum við trúlausa síðustu daga, einkum þá sem tilheyra félagskapnum Vantrú, hef ég orðið margs vísari. Rökræður og orðaleikfimi eru þeirra ær og kýr sem eftir nokkra snúninga reynast öllu magrari en þeir vilja vera láta. Sumir líta greinilega á sig sem hermenn skynseminnar og virka því dálítið árásargjarnir og stífir. Kannski er það lærfeðrunum Dawkins og Hitchens að kenna sem frægir hafa orðið fyrir þennan háttinn.
Þeir vilja ólmir fá að teikna skopmyndir af guðsmönnum. Þegar þeim er bent á að slíkt athæfi feli í sér háð og spott sem lög landsins vernda fólk fyrir, kalla þeir það gagnrýni. Þeim er fyrirmunað að skilja hvernig hægt er að taka tillit til þess að eitthvað getur sært fólk sem ekki veldur því beinum líkamlegum skaða. Lífsleikni hlýtur að vera þeim framandi hugtak.
Samt eru þeir sjálfir afar hörundsárir og bregðast ókvæða við með miklum greinarskrifum og persónuárásum ef þeim er sjálfum strítt, hvort sem er með gagnrýni eða háði, eins og viðbrögð við grein minni "Vantrú á Vantrú" ber vitni um.
Þeim virðist fæstum vera það ljóst að stærsti hluti trúaðra hefur ekki tileinkað sér trúarleg viðhorf sín af ást til Guðs eða mannkynsins, heldur af ótta sem á sér djúpar rætur í mannlegu eðli. Ekki af ótta við Guð, heldur dauðann, hið óþekkta, að finna sig einan í alheiminum og að lífið sé tilgangslaust. Sá ótti er fylgifiskur vitmunanna og getur þegar best lætur, verið kveikjan að viðleitni sem snýr óttanum upp í andhverfu sína, þ.e. þekkingar og ástar til Guðs og mannkynsins.
Óttanum tekst trúuðum oft að bægja frá með trú á æðri máttarvöld sem gæta þeirra, hlusta á bænir þeirra og gefur þeim eilíft líf að jarðvist lokinni.
Margir trúlausir segjast hafa lært að lifa með sínum ótta. Þeir hafa enga trú og enga þekkingu sem kemur í stað hennar. Er það kannski það sem hefur forhert huga þeirra og hjörtu? Hvers vegna virðast þeir líta svo á að bein árás á það sem trúaðir álíta grunnstefin í lífi sínu, allt það sem þeir álíta satt og gott, sé besta aðferðin til að koma trúleysis-málstað sínum á framfæri?
Fyrir það fyrsta er skynseminni og rökhyggju manna takmörk sett. Hún leysir ekki allar gátur lífsins, ekki einu sinni gátur sem ætlast er til að hún geti leyst eins og t.d. mótsögn Russells.
Í öðru lagi kallar bein árás oftast á varnarviðbrögð. Fólki finnst sér ógnað og algengustu viðbrögðin eru að það hættir að hlusta (lesa). Því meira sem trúlausir hamast, því minna heyrir viðmælandinn.
Í þriðja lagi réttlæta ekki ofsafengin viðbrögð sumra trúaðra við háði og spotti, háð og spott. Að beita fyrir sig skýrskotunum til mikilvægi tjáningarfrelsins er að afvegaleiða umræðuna. Háð og spott er aldrei til góðs, það er hluti af vandmálinu, ekki lausninni. Tjáningarfrelsinu, eins og öllu öðru frelsi, fylgir sú ábyrgð að nota ekki frelsi sitt til að gera öðrum viljandi miska.
19.5.2010 | 13:34
Vantrú mín á Vantrú
Félagsskapurinn vantrú er skrýtin klíka. Reyndar er ærin ástæða til að efast um að félagskapurinn sé félagsskapur. Alla vega virðist sem einhver einn feitur pjakkur hafi umboð til þess að skrifa athugasemdir á bloggi í nafni "félagskaparins" á þann hátt að ekki er hægt að greina hvort einhver munur sé á stefnu samtakana og hans persónulegu túlkun.
Ég hef eins og margir aðrir haft frá upphafi mikla vantrú á Vantrú, enda kannski til þess ætlast miðað við nafngiftina. Það hefur líka komið í ljós að sú vantrú er réttlætanleg því "samtökin" hafa litlu komið í verk af yfirlýstum markmiðum sínum. Þau (eða sá feiti) sprikla dálítið á netsíðunni sinni og gera athugasemdir á bloggsíðum, meira er það ekki. Alla vega hafa þeir ekki náð að vekja mikla athygli á þeim málum sem þeim eru kær, það er sú trú að trú annarra en þeirra sjálfra sé ótrúleg.
Það er svo sem ágætt að þeim hefur ekki verið veitt meiri athygli, enda hafa þeir sem taka málstað félagsskaparins, þá sjaldan það gerist, reynst vera athyglissjúkir kverulantar.
Í örvæntingu sinni hefur Vantrú nú ákveðið að reyna að slá sér upp á umdeildu máli sem hlaut á sínum tíma heimsathygli, þ.e. teikningar Jótlandspósts af Múhameð spámanni Íslam. -
Nú vill Vantrú efna til sérstaks dags sem tileinkaður verði teiknimyndum af Múhameð og í hlægilegri tilraun til að gæta jafnræðis, af örum boðberum Guðs.
Þeir bjóða jafnvel upp á að grín sé gert að manninum sem þeir sjálfir hafa valið sér fyrir spámann, Mr. Dawkins, manni sem hefur skrifað nokkrar lélegar og marghraktar bækur og sem er frægur fyrir að ráðast yfirleitt á garðinn þar sem hann er lægstur í gagnrýni sinni á trú og hjátrú.
Það sem er aulalegast við þetta allt er að Vantrú segist gera þetta í þágu mannréttinda. Það sem Vantrú virðist ekki fatta er að samfélagið hefur komið sér upp lögum og siðum til að vernda einstaklingana frá því að eiga á hættu að vera hæddur og spottaður fyrir skoðanir sínar eða trú. Þessi lög og þessa siði vill Vantrú afnema og undirstrika það með því að hvetja landsmenn til að hæða múslíma og spámann þeirra.
Ég veit að þeir í Vantrú hafa áhyggjur af þessu, enda jaðrar margt af því sem þeir láta frá sér fara við brot á landslögum og háð og spott hefur verið þeirra helsta vopn í stríði þeirra fyrir betri trúlausari heimi.
Sumt af því sem komið hefur frá Vantrú hefur sannarlega verið meiðandi háð, en þetta er bara kjánalegt.
13.5.2010 | 12:35
Bacha bazi - Hinir dansandi drengir í Afganistan
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.5.2010 | 21:43
Hver tekur við formennskunni af Brown?
Brown kallin hefur sagt af sér og þá er orðið ljóst að Cameron hefur gengið að skilyrðum Frjálslyndra um umbætur á kosningakerfinu í Bretlandi og hlýtur að launum forsætisráðherraembættið.
Hann segist vilja setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu og ef það verður samþykkt mun Íhaldsflokkurinn og reyndar Verkamannflokkurinn líka, missa fjölda þingmanna í næstu kosningum. Eftirleiðis er líklegt að það verði aðeins samsteypustjórnir í landinu. Það eru mikil tíðindi.
Verkamannaflokksmenn leita sér nú að nýjum formanni. David Miliband utanríkisráðherra í stjórn Browns mun koma sterklega til greina enda svipar honum mikið til þeirrar týpu stjórnmálamanna sem er í tísku í Bretlandi. (Tiltölulega ungur, magur, vel greiddur jakkafatasnáði)
Aðrir sem til greina koma eru Ed Balls, ritari skólamála, Ed Miliband, orku og umhverfisráðherra og bróðir Davids, Andy Burnham, heilbrigðisráðherra, Alistair Darling , fjámálaráðherra, Harriet Harman varaformaður verkamannaflokksins og Alan Johnson.
Eins og staðan er má telja öruggt að David Miliband gefi kost á sér. Mesta athygli mundi vekja ef bróðir hans Ed muni gera það líka. Þeir tveir mundu fá alla umfjöllunina og skilja hina kandídatana eftir.
11.5.2010 | 11:38
Bretar kunna ekki til verka
Almenningur í Bretlandi veit ekki hvaðan á hann stendur veðrið þessa dagana. Segja má að yfir landið gangi pólitískt gjörningaveður.
Fjaðrafokið í tengslum við stjórnarmyndunarviðræður Cleggs og Frjálslyndra við Íhaldið og Verkalýðsflokkinn sýnir greinilega hversu gamaldags og staðnaðar hugmyndir Breta um lýðræði eru. Flestar Evrópuþjóðir búa við samsteypustjórnir og flokkar hafa lært að ganga til stjórnamyndunarviðræðna við aðra flokka eftir kosningar og taka til þess þann tíma sem þarf. Þetta kunna Bretar einfaldlega ekki.
Clegg sem er í oddastöðu, byrjaði vel og sagðist vilja gefa íhaldinu, "sigurvegurum" kosninganna, tækifæri til að mynda stjórn. Án þess að klára þær viðræður, hóf hann viðræður við Verkalýðsflokkinn sem tölfræðilega getur aðeins myndað stjórn ef það fengi alla með sér fyrir utan Íhaldið. - Brown forsætisráðherra lýsti því síðan yfir að hann ætli að hætta í pólitík, til að liðka fyrir hugsanlegum samningum við Frjálslynda en Clegg hafði lýst því yfir að hann mundi ekki vilja vinna með Brown.
Almenningur er alveg ruglaður. Hann er vanur því að einn sigurvegari standi eftir hverjar kosningar sem síðan tekur við stjórn landsins. Hann skilur einfaldlega ekki hugtakið "samsteypustjórn".
Spjótin beinast einkum að Clegg sem er sagður reyna að notfæra sér oddastöðu sína og vilja ekki gefa eftir helsta baráttumál sitt, þ.e. umbreytingar á kosningakerfinu. Þær breytingar mundu hins vegar hafa þær afleiðingar að þingmenn mundu deilast jafnara á flokkana og breyta pólitísku landslagi Bretlands til frambúðar.
22.2.2010 | 18:56
Óður Akhenatons
Akhenaton var fyrstu fimm ár sutján ára valdaferils síns sem Faró í Egyptalandi þekktur undir nafninu Amenhotep IV. Hann lést 1334 f.k. en er kunnastur fyrir að hafa reynt að koma á eingyðistrú í Egyptalandi þrátt fyrir að slíkt væri landsmönnum hans afar framandi. - Tilraun hans mistókst, því eftir andlát hans tóku landsmenn upp fyrri trúarsiði. Eina ritið sem varðveist hefur um trúarvakningu Amenhoteps IV er þessi óður til sólguðsins Atons, hér í lauslegri þýðingu úr ensku.
Hve fögur er dögun þín á sjóndeildarhring himins, Ó lifandi Aton, uppruni lífsins! Þegar þú ríst á sjóndeildarhringnum í austri, fyllir þú hvert land af fegurð þinni. Þú ert fagur, mikill og skínandi hátt yfir hverju landi, geislar þínir umlykja löndin og alla sem þú hefur skapað. Þú ert Ra og þú alla með þér, fangna og bundna af ást þinni. Þótt þú sért fjarlægur falla geislar þínir á jörðina; þótt þú sért í hæstum hæðum, er dagurinn fótspor þitt.
Þegar þú hefur sest við sjóndeildarhring himinsins í vestri, er jörðin í myrkri eins hinir dauðu; Þeir sofa í sínum hýsum, höfuð þeirra eru vafin, nasir þeirra eru troðnar og engin þeirra sér hvorn annan, á meðan öllum eigum þeirra undir höfðalagi þeirra þeirra er stolið og þeir vita ekki af því. Hvert ljón kemur úr híði sínu, allir spordrekarnir stinga, myrkur...Veröldin er í þögn, því hann endar hvern dag, aftur og aftur út við sjóndeildarhringnum.
Björt er jörðin þegar þú ríst aftur út við sjóndeildarhringinn. Þegar þú lýsir sem Aton að degi, rekur þú myrkrið á brott. Þegar þú sendir frá þér geisla þína, er daglega haldin hátíð í löndunum tveimur, vakandi og komnir á fætur því þú reisir þá upp, limir þeirra baðaðir og þeir klæðast, hendur þeirra reistar upp í aðdáun á dögun þinni. Þá munu allir í heiminum vinna sína vinnu.
Allur nautpeningurinn hvílir sig í högum sínum, tré og plöntur blómstra, fuglar svífa yfir mýrum, vængir þeirra bifast í aðdáun á þér. Allt sauðféð dansar fimum fótum og allt sem hefur vængi flýgur. Það lifir þá þú hefur baðað það í geislum þínum. Reyrbátarnir sigla upp og niður fljótið. Hver þjóðvegur er opinn þegar þú hefur risið. Fiskar árinnar stökkva upp til að mæta þér. Geislar þínir glampa á hinum mikla græna hafi.
Skapari frjós konunnar, sá sem bjóst til sæði mannsins, gefur syninum líf í líkama móðurinnar, huggar hann svo hann gráti ekki, elur hann í móðurlífinu, sá sem gefur andardráttinn sem lífgar allt sem þú hefur skapað! Þegar hann stígur fram í líkamanum á fæðingadegi sínum, opnar þú munn hans svo mann megi mæla og sérð honum fyrir öllum nauðsynjum.
Þegar að unginn tístir í eggjaskurnunum, gefur þú honum andardrátt svo hann megi lifa. Þegar þú hefur framfleytt honum, þar til hann brýst út úr eggi sínu, stígur hann fram úr eggi sínu og tístir af öllum mætti. Hann gengur um á tveimur fótum, þegar hann hefur stigið fram úr því.
Hversu mörg eru verk þín! Þau eru hulin fyrir okkur, Ó þú eini Guð, hvers krafta enginn annar hefur. Þegar þú varst einn, skapaðir þú jörðina eftir hjarta þínu, manninn, alla nautgripina smáa og stóra, allt sem er á jörðinni og gengur um á fótum sínum. Allt sem er á hæðum, allt sem flýgur um á vængjum, útlöndin Sýrland, Kush, og Egyptaland. Þú ákvarðar hverjum manni stað, hverjum sínar eignir og telur ævidaga allra. Menn tala ýmsum tungum, útlit þeirra og hörundslitur er mismunandi, því þú gerir hina ókunnugu öðruvísi.
Þú skapaðir Níl í neðri heimum og ræður henni sem þér sýnist, til að vernda líf fólksins. Því það hefur þú búið til handa sjálfum þér, drottinn þess alls, hvílandi á meðal þeirra; Þú drottin allra landa, sem ríst fyrir öllum mönnum, þú sól dagsins í mikilli tign. Öllum fjarlægu löndum gefur þú einnig líf, þú hefur sett Níl á himininn svo hún falli yfir þau, skapi öldur upp á fjöllum, líkt og mikið haf, sem veitt er á akrana í bæjum manna.
Hversu ágæt er hönnun þín, Ó drottin eilífðarinnar! Á himnum er Níl fyrir hina ókunnugu og fyrir nautpeninginn í hverju landi sem gengur um á fótum sínum. En Níl kemur úr neðri heimi Egyptalands.
Geislar þínir næra hvern garð; Þegar þú ríst lifir hann og vex vegna þín. Þú gerðir árstíðirnar til að öll verk þín verði unnin, Veturinn færir þeim svala og hitinn er til að þeir fái bragðað á þér. Þú lést hinn fjarlæga himinn rísa yfir svo þú gætir séða allt sem þú hefur skapað, Þú einn, skínandi í líki hins lifandi Atons, í dögun, glitrandi ferðu í burtu og kemur svo aftur. Þú skapar milljónir af formum, einn af sjálfum þér, borgir, bæi og ættflokka, þjóðvegi og ár. Öll augu sjá þig fyrri sér, því þú ert Aton dagsins yfir nótunni.
Þú býrð í hjarta mínu og enginn þekkir þig utan sonur þinn Akhnaton. Þú hefur gert hann vitran með áformum þínum og mætti. Veröldin er í hendi þinni, jafnvel þótt þú hafir skapað hana og þegar þú ríst lifir hún og þegar þú sest, deyr hún. Því þú ert lífsferillin sjálfur, menn lifa vegna þín, á meðan augu þeirra beinast að fegurð þinni, þar til þú sest. Öll vinna er sett til hliðar þegar þú sest í vestri.
Þú skapaðir heiminn með hendi þinni og reisir hann upp fyrir son þinn, sem er staðfesting þín, Konungur efri og neðri Egyptalands, sá er lifir í sannleika, drottinn hinna tveggja landa, Nefer-khrpuru-Ra, Van-Ra, sonur Ra, sem lifir í sannleika, drottinn kórónanna, Akhnaton sem er langlífur og hans heittelskaða, sú er ræður löndunum tveimur; Nefer-nefru-Aton, Nofretete sem lifir og blómstrar að eilífu.
31.10.2009 | 13:17
Nóg komið
Ágætu lesendur.
Ég hef tekið þá ákvörðun að hætta að blogga hér á blog.is.
Ég þakka bloggvinum mínum skemmtilega samleið í þessi tvö ár sem ég hef verið að og þeim fjölda sem skrifað hafa athugasemdir við bloggið mitt.
Umhverfi og viðmót blog.is er að mínu viti afar gott og ekkert út á það að setja. Ég er hins vegar ósáttur við ýmsa aðra þróun mála á mbl.is sem ekki er nauðsynlegt að tíunda hér.
Bestu kveðjur,