Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Stóra málið

Það er eins og einhver gúrka sæki að bloggurum almennt þessa dagana. Hver færslan á eftir annarri er naflablogg, blogg um blogg, bloggvini og ást og hatur á blogginu. Ég veit ekki hvað veldur, því út í heimi gerast stórtíðindin; stríð að hefjast í austur Evrópu, 10.000 íþróttamenn samankomnir í Bejiing og Obama á leið í sumarfrí til Hawaii. En kannski er það bara hollt að líta í egin barm af og til og sjá svona svart á hvítu hver staðan er. 

Ég eins og mörg önnur "skúffuskáld" sem eru að spreyta sig á bloggi, leita stundum í skúffurnar til að setja á bloggið, þegar lítið er um að vera í kollinum á mér. Þetta getur þó verið erfitt því ekki gagnar að setja neitt "of langt" á bloggsíðu, þá nennir enginn að lesa það. Ég ætla samt að brjóta þá gullnu reglu einu sinni enn og birta hér einþáttung sem mér er reyndar svolítið annt um. Hann var fluttur fyrir nokkrum árum Iðnó, en það voru fáar sýningar, enda um tilraunastarfsemi að ræða. Það tekur ekki nema svona 15 mínútur að lesa hann í gegn, en ég verð ekkert móðgaður þótt þið gefist upp. En þeir sem lesa mega alveg segja sína meiningusvanur1.

Stóra málið

PERSÓNUR 

HANN, karlmaður á þrítugsaldri

BARBARA, kona á fimmtugsaldri

 SVIÐIРLátlaus bekkur í almenningsgarði. Á hann fellur gult ljós frá lágu götuljósi.  BÚNINGAR Hann er berfættur.Hún er klædd í rauða kápu og hefur ljósblátt sjal um herðarnar og í rauðum háhæluðum skóm.   (Hvíslandi raddir fortíðar hefjast um leið og BARBARA gengur inn á sviðið og um stund fylgjast áhorfendur með viðbrögðum hennar við þeim þar sem hún gengur um)Hversvegna. Komdu, komdu með mér. Ekkert mál. Mikið ertu snotur. Hversvegna greiðir þú þér ekki. Drusla. Þetta verður okkar leyndarmál. Komdu. Tækifærin eru alls staðar. Það sem svíkur mig, svíkur einnig þig. Ég elska þig. Lifðu lífinu lifandi. Komdu með. Nokkuð gott, á að fara í háskóla. Lofar þú ... Vilt þú ganga að eiga ... þetta viðundur ... Góða vertu ekki að pæla í þessu. Er þetta allt og sumt. Börn, já ég elska börn. Þurrkaðu framan úr þér. Lítið mál. Ég fékk þetta í London. Fer í rauðu skóna. Elskar þú mig. Þú flytur bara inn. Hver borgar reikningana á þessu heimili. Vertu bara þú sjálf. Ég vil verða gamall með þér. Þegiðu. Vinna, þetta er ekki að vinna. Góða reyndu að hafa þig svolítið betur til. Þú sofnar strax af þessu.Veit ekki. Rauða varalitinn já svona ... Má ekki vera að því ... Ertu að fitna. Snúðu þér við druslan þín. Stundum verður maður að hugsa um sjálfan sig. Hver er ég. Hver ert þú. Lítið mál. Það sem svíkur mig, svíkur einnig þig. Ég drep þig. Þvoðu framan úr þér. Ég elska Róm. Rauðu kápuna, hún passar. Ég veit það ekki. Þú ert og verður alltaf hóra. Komdu með. Vertu ekki að pæla í þessu, það skilur þetta enginn hvort sem er. Ég elska þig ekki. Ég elska þig. Blátt er litur sannleikans. Reyndu að nota höfuðið kona. Það sem svíkur mig, svíkur einnig þig. (Hvíslið þagnar. Hún sest á bekkinn, tekur upp fullt pilluglas og gerir sig hikandi líklega til að sturta úr því upp í sig en hættir við, stingur því í vasann, stingur höndunum í vasana og lokar augunum)    

HANN

(Gengur inn á sviðið, blístrandi eins og maður á kvöldgöngu og þefar af óútsprunginni rós. Staldrar við og virðir BARBÖRU fyrir sér. Gengur síðan til hennar) Gott kvöld. Er þér ekki sama þótt ég setjist hérna?

 

BARBARA

(Opnar augun) Æ...Mín vegna. Þetta er víst fyrir almenning.

 

HANN

(Lítur í kringum sig) Reyndar á ég ekki um annað að velja, ég verð að setjast hérna niður, nákvæmlega hérna. Þannig lagað var spurningin óþörf. (Brosir)

 

BARBARA

Auðvitað áttu um annað velja. Til dæmis getur þú sest á bekkinn þarna.

 

HANN

Nei, á hann get ég ekki sest.

 

BARBARA

Nú, hvers vegna?

 

HANN

Vegna þess að þú ert hér en ekki þar.

 

BARBARA

Hvað hef ég með það að gera hvar þú sest niður og hvar ekki.

 

Hann

Ég á erindi við þig.

 

BARBARA

Erindi? Hvaða erindi áttu við mig.

 

Hann

Ja til að byrja með ætla ég að færa þér þetta. (Réttir henni rósina)

 

BARBARA

(Tekur við blóminu dálítið óörugg) Hver ert þú?

 

Hann

Nákvæmlega núna er ég kannski bara rósberi.

 

BARBARA

Æ ég er bara ekki í skapi fyrir neitt rósamál. Segðu mér hver þú ert eða hafðu þig á burt.

 

HANN

Ég er bara sendisveinn.

  

BARBARA

Sendisveinn? Sendisveinn hvers? Sendi fávitinn hann Einar þig kannski? (Leggur rósina á bekkinn á milli þeirra)

 

HANN

Einar? Nei nei. Hann heitir ekki Einar.

 

BARBARA

Segðu honum að láta mig í friði.

 

HANN

Það var ekki Einar sem sendi mig

 

BARBARA

Nú hver þá?

 

HANN

Ég held að svo komnu að það sé best að láta það liggja á milli hluta. Þú myndir ekki trúa því hvort eð er.

 

BARBARA

Vertu ekki svo viss um það. Þú ert nú ekki fyrsti furðufuglinn sem á leið minni verður. Hvað heitirðu?

 

HANN

Ekki neitt. En þú mátt gefa mér nafn ef þú vilt.

 

BARBARA

Ég, hvers vegna ætti ég að gefa þér nafn?

 

HANN

Svo að þú getir kallað mig eitthvað.

 

BARBARA

Ég get alveg kallað þig „ekki neitt“ því þessa stundina ertu nákvæmlega það í mínum augum.

 

HANN

Einmitt.

 

BARBARA

Jæja „Ekkineitt“, ætlarðu að koma þér að erindinu?

 

HANN

Tja, ég veit að þetta hljómar dálítið einkennilega svona upp úr þurru, en eiginlega langaði mig til að ræða við þig svona almennt um lífið og tilveruna.

    

BARBARA

Ég er alls ekki viss um að þetta sé algjörlega upp úr þurru hjá þér, en er það eitthvað sérstakt sem þér liggur á hjarta? Til dæmis hvar sé hægt að gera bestu skókaupin í borginni þessa stundina? (Lítur á fætur hans)

 

HANN

(Lítur einnig niður á fæturna) Æ, ég vissi að það var eitthvað sem ég gleymdi.

 

BARBARA

Og hvað hefur berfættur maður, sem ekki vill segja til sín eða á hvers vegum hann er, að segja um lífið og tilveruna út í almenningsgarði um hánótt.

 

HANN

Reyndar hefur skóleysið aldrei háð mér fram að þessu, en ég sé hvað þú meinar. Skór, ekki hvað síst réttir skór, eru afar mikilvægir. Þeir eru vissulega hluti af stóra málinu. Einmitt það sem ég ætlaði að ræða við þig um.

 

BARBARA

(Hæðin) Stóra málinu já. Og það er aftur?

 

HANN

Tilgangur lífsins.

 

BARBARA

Noh, ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Jæja, er ekki nóg komið af þessari vitleysu. Ég hef nóg annað við tímann að gera en að ræða við einhvern ókunnugan rugludall hér úti í garði um hánótt. (Tekur rósina, stendur upp og gerir sig líklega til að fara) 

HANN

Ókunnugan já, þú heldur það. En eins og hvað?

 

BARBARA

En eins og hvað, hvað?

 

HANN

Hvað annað hefur þú við tímann að gera?

 

BARBARA

Ég hef um nóg annað að hugsa. Hluti sem koma þér ekkert við.

 

HANN

Já, auðvitað. Eins og hvaða hluti?

 

BARBARA

Skólaus og heyrnarlaus líka. Ég sagði að þeir kæmu þér ekkert við.

 

HANN

En það bíður ekkert eftir þér. Hvergi, nema hérna. Áttu þetta ekki að vera leiðarlok?

 

BARBARA

(Snýr til baka með þjósti)Hvað þykist þú vita um mig herra „ekki neitt“. Þú veist nákvæmlega ekki neitt. Kemur hér aðvífandi veifandi óútsprunginni rós og reynir að tjatta mig upp í einhverjar umræður um lífið og tilveruna sem þú hefur augljóslega ekkert um að segja sem skiptir máli, eins og reyndin er um alla nafnlausa, heyrnarlausa og skólausa sendisveina þessa heims.

 

HANN

Ég veit til hvers þú komst hingað. En það breytist ekkert við að gera það sem þú ætlar að gera.

 

BARBARA

Hver ertu?

 

HANN

(Stendur upp og gengur um) Ég veit að þú veist ekki hvað þú átt að halda um mig þessa stundina. Þú heldur ef til vill að ég sé einhver rugludallur með alvarlegar geðraskanir. Eða kannski er ég einhver sem er bara að reyna að komast í bólið hjá þér á þennan undarlega hátt. Það er alltaf líkleg skýring þegar karlmaður fer að haga sér undarlega, er það ekki?

  

BARBARA

Þú fyrirgefur, en mér finnast þessar samræður næsta fáránlegar. Ég skil ekki hvað ég er að gera hérna enn þá. (Stendur upp og býst til að fara)

 

HANN

Þú ert hér enn vegna þess að þú ályktar sem svo að þú hafir engu að tapa eins og komið er. Þú heldur uppi þessum „hvað er ég enn að gera hér“ vörnum aðeins ef vera kynni að enn verr sé komið fyrir mér en þér.

 

BARBARA

Það er ekki eins og þú sért eitthvað voðalega traustvekjandi.

 

HANN

Já ég sé núna að það voru hræðileg misstök að gleyma að fara í skó. En þú valdir þó alltént rétta skó til að fara í við þetta tækifæri, var það ekki?

 

BARBARA

Þeir eru reyndar orðnir svolítið jaskaðir, en ég ætlaði ekki langt.

 

HANN

Þeir hafa einhvern tímann verið virkilega fallegir og gætu orðið það aftur ef þú hugsaðir dálítið um þá.

 

BARBARA

Þú ert skrambi leikinn í þessu. Ertu gluggagægir líka?

   

HANN

Staðreyndin er auðvitað sú að ef þú treystir mér ekki hljómar allt sem ég segi, hvort sem það er lygi eða sannleikur, eins og hlægilegur þvættingur.

 

BARBARA

(Sest aftur niður)Orð og aftur orð. Við erum ekki það sem við segjum, heldur það sem við gerum.

 

HANN

Í upphafi var orðið eitt.

 

BARBARA

Og orðið er orðið ekki neitt.

 

HANN

(Brosir) Já ég mátti svo sem búast við því að ég kæmi ekki að tómum kofunum, en ég er ekki staddur hér fyrir tóma tilviljun.

 

BARBARA

Þú hefur það allavega fram yfir mig. Mér finnst að ég sé hérna fyrir tilviljun. Undantekning frá reglu hlýtur að vera tilviljun ekki satt, eða ertu ef til vill vanur að leggja leið þína hingað á þessum tíma?

 

HANN

Ha, nei ég var sendur hingað sérstaklega.

 

BARBARA

Já, alveg rétt. Til að færa mér þessa óútsprungnu rós og ræða um tilgang lífsins. Af hverju settirðu rósina ekki í vatn?

 

HANN

Það er vissulega líka hluti af stóra málinu.

 

BARBARA

Einmitt stóra málið. Skór og rósir, var það ekki?

 

HANN

Jú jú, en ekki bara skór og rósir.

 

BARBARA

Þú ert kannski tilbúinn að segja mér núna hver sendi þig.

 

HANN

Jæja þá. Málalengingalaust er ég svarið.

 

BARBARA

Svarið? Auðvitað. Við hvað spurningu og hver spurði?

  

HANN

Ekki við spurningu, heldur bæn.

 

BARBARA

Bæn? (Hæðin) Að sjálfsögðu. Hvernig læt ég. Þetta er svo augljóst. Tími til kominn að blanda æðri máttarvöldum í málið. Þú ert auðvitað himnasendingin mín, bjargvætturin, sendur með öll svörin á örlagastundu. Kanntu annan betri.

(Hlær hæðnislega) Þú ert sem sagt hvað, einhverskonar engill þá. Fallinn engill kannski?

 

HANN

Ekki beint fallinn. Allavega ekki í þeirri merkingu sem þú leggur í það orð.

 

BARBARA

En ég sé enga vængi, varstu vængstýfður áður en þú varst sendur af stað?

 

HANN

Vængir engla eru bara listræn útfærsla. Soldið gamaldags en virkar samt ágætlega. Heilagur Tómas Aquinas taldi að englar væru hreinar vitsmunaverur og því ætti að sýna þá sem vængjuð höfuð eingöngu. En það er jú önnur saga.

 

BARBARA

Verst hvað vafist hefur fyrir mörgum að finna þessi svör. Allavega mér. Eða kannski eru spurningarnar rangar?

 

HANN

Það er rétt að mörgum gengur illa, ekki að finna svörin, heldur að sætta sig við þau. Flestir vilja að sannleikurinn sé einhver annar en hann í raun og veru er.

 

BARBARA

(Lítur á hann full efasemda) Og kraftaverk maður. Þú hlýtur að geta framkvæmt þau að vild. Enginn loddaraskapur eða ódýr trikk. Engar hálfkaraðar útvarpsmiðils-skyggnilýsingar. Allir eru jú í uppnámi út af einhverju, allir hafa áhyggjur og alla verkjar einhvers staðar. Þú getur látið verkin tala er það ekki?

 

HANN

Það er nefnilega málið að þau duga heldur ekki til. Hvað til dæmis gætir þú hugsað þér að taka sem óræka sönnun fyrir því að ég sé sá sem ég segist vera?

 

BARBARA

Ef þú værir það raunverulega, þá þyrfti ég ekki að segja það.

 

HANN

Ég var samt að vona að þú kveiktir á strax og við hófum samtal okkar.

  

BARBARA

Mér fannst nú þetta svona frekar almennt orðað hjá þér áðan. Lífið og tilveran, skór og rósir, stóra málið.

 

HANN

Það var ekki hægt að orða þetta á nákvæmari hátt svona til að byrja með.

 

BARBARA

Að sjálfsögðu ekki. Annars áttirðu á hættu að þurfa útskýra annað en það sem sést á yfirborðinu. Að staðhæfa hið augljósa er svo auðvelt. En það fer lítið fyrir alvöru svörum hjá þér.

 

HANN

Svörin veitast þeim sem eru einlægir.

 

BARBARA

En það vill bara þannig til að ég hef ekki verið að biðja um nein svör.

 

HANN

(Hikandi) Það var ekki að bænheyra þig.

 

BARBARA

Nú jæja, þá einhvern sem ég þekki þó ég geti ekki ímyndað mér hver það ætti að vera.

 

HANN

Nei, það er varla hægt að segja það.

 

BARBARA

Nú, hvern þá?

 

HANN

Son þinn.

 

BARBARA

Þarna ókstu langt út af loddarinn þinn. Ég á engan son. Og nú held ég að nóg sé komið, vertu sæll hver sem þú ert og gangi þér betur með næsta fórnarlamb. (Stendur upp og skundar burtu) 

HANN

Þú áttir son þótt þú hafir ákveðið að fæða hann ekki.

 

BARBARA

(Snarstansar og snýr við) Hver ertu eiginlega?

 

HANN

Þú veist hver ég er. „Ekki neitt“ er það ekki? Annars er ég best skilgreindur sem sendisveinn þótt það hljómi hátíðlega.

  

BARBARA

Þú ætlast sem sagt til að ég trúi þeirri vitleysu?

  

HANN

En hvað er ég þá?

 

BARBARA

Þú ert allavega eitthvað verulega skrýtinn. Engir skór og engir vængir.

Þú segir að það hafi verið drengur?

 

HANN

Já.

 

BARBARA

Á ég þá eftir að brenna í einhverju helvíti fyrir það líka?

 

HANN

Ekki öðru en því sem þú brennur í núna.

 

BARBARA

(Verður klökk) Hvað vissi ég, nítján ára. Hann sagðist elska mig.

 

HANN

Þú treystir honum. Trúðir honum.

 

BARBARA

Hann sagði að þetta væri ekki neitt og það var satt. Aðgerðin var lítið mál.

 

HANN

Einmitt, ekki neitt.

  (Þögn) (Þau setjast bæði á bekkinn aftur. BARBARA leggur rósina aftur á milli þeirra og þurrkar tár úr augunum) 

BARBARA

Gott og vel. Mér líður akkúrat núna eins og ég sé á fyrsta stefnumótinu þegar maður verður að staldra nægilega lengi við til að átta sig á því hvort maður geti hugsað sér að hitta náungann aftur.

 

HANN

Þú getur verið viss um að við eigum eftir að hittast aftur.

 

BARBARA

Ha, þú þykist sem sagt vita lengra en nef þitt nær.

  

HANN

Einmitt. Það er stóra málið.

 

BARBARA

Jæja komdu þá með það, hvað er þetta stóra mál sem þú kliðar stöðugt á.

 

HANN

Að þekkja tilgang sinn. Sjáðu nú til. Tilgangur allra hluta býr í eðli þeirra. Ef þú þekkir eðli þeirra þekkir þú tilganginn.

 

BARBARA

(Örg) Hvert ertu tengdur eiginlega? Í einhverja guðfræðilega orðsifjabók?

 

HANN

Vertu bara róleg. Þetta er ekki svo erfitt að skilja. Eðli hluta er ákvarðað af eiginleikum þeirra. Tökum sem dæmi þennan bekk sem við sitjum á. Svo að hægt sé að skilgreina hann sem bekk þarf hann að hafa alla eiginleika bekkjar og sem slíkur er eðli hans að vera þannig að hægt sé fyrir fólk að sitja á honum. Ef þessi bekkur hefði vitsmuni mundi hann vera hamingjusamur núna því hann væri að uppfylla tilgang sinn samkvæmt eðli sínu.

 

BARBARA

Já ég sé, við sitjum sem sagt á hamingjusömum bekk.

 

HANN

Það má segja það. En þú ert ekki bekkur.

 

BARBARA

Þakka þér fyrir að taka eftir því. Oftast líður mér nú samt þannig.

 

HANN

Já vegna þess að þú hefur ekki eins og margir náð að uppfylla tilgang þinn. Í raun og veru ertu sál sem hefur líkama, um stundarsakir allavega. Í sálinni búa frumhvatir sem allir menn finna til en vita flestir ekki til hvers á að nota. Þegar allt kemur til alls má segja að þessar andlegu frumhvatir séu aðeins tvær. Að þekkja og tilbiðja.

 

BARBARA

Reyndar hef ég aldrei tilbeðið neitt eða neinn um ævina.

 

HANN

Ekki það nei. Manstu hvað þú vildir líkjast mömmu þinni þegar þú varst lítil? Manstu hvað þú dáðir kvikmyndaleikarana, og popp- og íþróttastjörnurnar þegar þú varst unglingur? Seinna reyndir þú að helga þig manninum þínum, eða öllu heldur mönnunum þínum. Einbýlishúsunum og bílunum, allt þetta sem þú eyddir tíma þínum ósínkt í að halda hreinu og fáguðu. Meira segja á hnjánum.

 

BARBARA

Þú getur nú varla kallað svona hversdagsverk tilbeiðslu.

 

HANN

Hvað var það annað en tilbeiðsla? Sönn tilbeiðsla er ekki bara falin í orðum sem beint er til einhvers sem fólk dýrkar, heldur í gjörðum og þjónustu við það.

 

BARBARA

Ég þekki fullt af fólki sem aldrei hugsar neitt um þessa hluti. Það bara vaknar á morgnana, fer í vinnuna, græðir peninga, borðar, hlær, elur upp börnin sín og deyr, reyndar sumt löngu áður en það gefur upp andann.

 

HANN

Það má líka nota skiptilykil fyrir hamar með ágætum árangri. Og það er satt að sumir reyna að fullnægja sínum andlegu frumþörfum með því að tilbiðja efnið, helga sig því og tileinka sér það. Þeir eyða ævinni í að raða saman ánægjustundum í lífinu og kalla það hamingju. Þú hefur reynsluna af því ekki satt.

 

BARBARA

Hinir dauðu grafa hina dauðu, var það ekki einhvernvegin svoleiðis?

  

HANN

Og núna þrátt fyrir allt, finnurðu enn fyrir þörfinni að tilheyra og að tileinka þig einhverju. Þörfin að tilheyra, líkjast og tileinka sig, er ekkert annað en birting þarfarinnar til að tilbiðja. Henni er ekki alltaf beint á réttar brautir, en hún er þarna.

 (Þögn) 

BARBARA

(Leggur frá sér rósina aftur á bekkinn) En hvað með ástina? Þú hefur ekkert minnst á hana. Hvar kemur hún inn í myndina?

 

HANN

(Tekur upp rósina og lætur BARBÖRU hafa hana aftur) Að elska er að þekkja. Að þekkja er að helga sig því og tileinka sér það sem maður þekkir. Þannig er ástin hluti af tilbeiðslunni. Þetta er snákurinn sem bítur í halann á sér.

 

BARBARA

„Ekki neitt“! Ég held mig langi til að gefa þér nafn eftir allt saman. Ég ætla að kalla þig Guttorm.

 

(Þögn)

 

HANN

Er Myndin eitthvað að skýrast?

   

BARBARA

Satt að segja er ég enn að reyna að átta mig á hvar ég er stödd í veraldarsnák sem gleypir sjálfan sig.

 

HANN

(Stendur upp og gerir sig líklegan til að hverfa á braut). Þú ert samt að átta þig á stóra málinu. Hver eiginleg staða þín er í alheiminum.

 

BARBARA

Staða? Er ég ekki bara miðaldra kona á hamingjusömum bekk í almenningsgarði á spjalli við engil um miðja nótt?

 

HANN

Stundum er stóra málið falið í einu orði.

 

BARBARA

Eitt galdraorð og allt fellur í rétta stafi. Bara að það væri svona einfalt. En lát heyra, endilega, lausnarorðið. Mig grunar samt að það eigi eftir að geta af sér fleiri.

 

Hann

Þjónn.

  

BARBARA

Þjónn?

 

HANN

Staða þín er staða þjónsins. Þú ert sköpuð og sérstaklega hönnuð ef svo má að orði komast, til að vera þjónn og ekkert annað. Mennirnir eru haldnir þeirri firru að þér séu skapaðir til að ríkja, ríkja yfir umhverfi sínu og meðbræðrum sínum. Algjörlega andstætt tilgangi sínum reynir maðurinn að brjóta undir sig það sem ekki tilheyrir honum og getur aldrei tilheyrt honum, mannshjartað. Í því býr hið sanna vald og vald tilheyrir ekki manninum.

 

BARBARA

Þjónn?

 

HANN

Staða þjónsins er æðsta staða sem manninum getur nokkurn tíma hlotnast. Svo einfalt er það nú. Hlær og skellir saman höndunum)

 

BARBARA

Svo ég hef þá alla tíð verið nokkuð nálægt þessu. Ég man ekki eftir tíma í lífi mínu þar sem ég hef verið í öðru hlutverki en hlutverki þjónsins.

 

HANN

Það skiptir máli hverjum þú þjónar og hvernig.

 (Þögn) 

BARBARA

Og hvað gerist svo?

 

HANN

Það breytist ekki margt alveg strax, nema kannski skilningur þinn. Hann hefur breyst ekki satt.

 

BARBARA

(Hlægjandi)Nýr himinn og ný jörð.

 

HANN

Það sem þú gerir, gerir þú í ljósi þess sem þú veist. Nýr skilningur kallar fram breytingar smám saman. Þær byrja með því að þú gerir það sem gera þarf næst, fullviss í huga og hjarta að þér er ekki ætlað að gera neitt annað.

 

BARBARA

Heyrðu, er þetta kannski það sem kallað er að fá köllun? Næst, hvað kemur næst?

 

HANN

Fékkstu þér að borða í kvöld?

 

BARBARA

Reyndar, hvað kemur það málinu við?

 

HANN

Ertu búin að þvo upp?

 

BARBARA

Nei, ég var alls ekki í formi til þess.

 

HANN

Næst er að þvo upp og ganga frá eftir kvöldmatinn heima hjá þér.

 

BARBARA

Þvo upp?

 

HANN

Já, ef allir myndu þvo upp eftir að þeir eru búnir að borða væri heimurinn miklu betri. Þó að hamingjan sé reist á andlegri hegðun verður þú að feta hinn andlega stíg með praktískum fótum. Andleg hegðun felur í sér sjálfsnægju hvert sem hlutverk okkar er í lífinu.

 

BARBARA

Og eftir allt þetta er niðurstaðan að ég á eftir að vaska upp.

 

HANN

(Gengur út af sviðinu) Já, reyndar og koma rósinni í vatn. (Hlær með sjálfum sér) Guttormur!

 

BARBARA

(Lokar augunum og stingur höndunum í vasana á kápu sinni. Stutt stund líður þar til hún opnar augun aftur. Á meðan heyrast raddir fortíðarinnar sem smámsaman dofna og nýjar raddir yfirgnæfa þær en þagna síðan)

  

NÝJAR RADDIR

Bergmál af tali HANS.

 (Hún opnar augun og stendur upp, tekur hendur úr vösum og tómt pilluglas dettur á gólfið. Hún tekur upp pilluglasið, horfir á það undrandi og svo í kringum sig. Gengur síðan burtu.) Endir

María Magdalena, hin sanna kvennhetja Kristindómsins

Yavlenie2Margt hefur verið ritað um dagana um Maríu Magdalenu, helsta kvenlærisvein Krists. En þótt að hún sé skrifuð fyrir Guðspjalli sjálf og það sé um margt merkilegt, hlaut það ekki náð fyrri augum valnefndarinnar forðum og var úthýst úr safnritinu sem við  þekkjum sem Biblíuna.

Til skamms tíma, eða allt frá því að Gregoríus páfi hélt því fram í frægri ræðu sinni árið 591 að hún væri "Sú sem Lúkas kallar hina syndugu konu og Jóhannes kallar Maríu úr Betaníu, trúum vér að sé sú María sem sjö djöflum var kastað úr, samkvæmt Markúsi", hefur það verið viðtekin venja að segja Maríurnar þrjár, sem talað er um í guðsspjöllunum, einu og sömu konuna. Þessi ímynd hennar varð til þess að um aldir var hún útmáluð sem vændiskona og ásamt Evu , holdgerfingur losta og lasta konunnar.

Í raun er hvergi minnst á í guðspjöllunum að María Madgalena (frá Magdölum) og hinar Maríurnar séu ein og sama persónan. Hún var ein þeirra kvenna sem fylgdu Jesús til Jerúsalem eftir að hann hafði rekið úr þeim illa anda og var viðstödd krossfestingu hans.

Maria%20Magdalena%20FoixEftir krossfestinguna var Kristur lagður grafhelli Jósefs frá Armaþíu og það var María Magdalena  ásamt móður Krists, sem koma að  gröf hans og uppgötvað að lík hans var horfið. Hún fer og segir Símoni Pétri og Jóhannesi lærisveinum Krists frá þessu og saman fara þau að gröfinni til að fullvissa sig um að hún sé tóm. Greinilega yfirbuguð af sorg situr hún eftir við gröfina og verður fyrsta manneskjan til að uppgötva að Kristur er upprisinn. Kristur bannar henni að snerta sig en biður hana að fara og segja fylgjendum sínum að hann muni hverfa til Föður síns og þeirra og Guðs síns og þeirra.

Nú eru margir sem trúa því að upprisa Krists skipti miklu máli fyrir hinn kristna mann og ekki vill ég draga neitt úr því. En að sá atburður sé hápunkturinn í sögu kristninnar finnst mér villandi söguskýring. Kristur var ekki fyrstur til að stíga upp frá dauðum. Sjálfur reisti hann Lasarus frá dauðum og ekki var hann fyrstur til að vera numinn upp til himna, því það var Jónas líka. Mikilvægi þessa atburða verða meiri þegar hugað er að því sem á eftir fer.

Það var María Magdalena sem Kristur greinilega kaus að veita fyrstri allra þá sýn að Kristni væri ætlað annað og meira en að lognast út af eftir dauða sinn. Fyrir það eitt ætti staða hennar innan kristni að vera mikilvæg. Henni er falið það hlutverk að endurreisa kristindóminn sjálfan upp frá dauðum. Eftir að hafa grátið við dyr grafarinnar birtist henni sýn. Hún fer frá gröfinni fullviss þess að dauði Krists marki ekki endalok eins og hann gerði í hugum annarra lærisveina Krists sem ráfuðu um ráðvilltir eftir krossfestinguna, heldur nýtt upphaf.

mary_penitent_titianEftir að boð Maríu Magdalenu um að Kristur sé ekki dáinn breiðast út, koma lærisveinarnir saman og ákveða að hefja útbreiðslu kristinnar með því að kenna hanna vítt og breitt um heiminn. Undur og stórmerki gerast á þeim fundi, m.a. uppgötva þeir að þeir geta talað framandi mállýskur til að koma boðskapnum til skila jafnvel í  framandi löndum. Upprisa kristinnar varð að staðreynd og það var Maríu Magdalenu að þakka. Hún var valin af Kristi til þessa hlutverks og er vel að nafnbótinni Postuli postulanna komin.

Einkennilegt að síðan hefur verið reynt að gera lítið úr og mannorð hennar svert á marga lund, sérstakelga úr predikunarstólum patríarkanna. Þegar að loks gangskör var gerð að því að hreinsa mannorð Maríu Magdalenu og veita henni verðugan sess á meðal dyggra lærisveina Krist, hafa sprottið upp tilhæfulausar getgátur um að hún hafi verið lagskona Krists eða jafnvel eiginkona.

Ég veit ekki hvaða árátta þetta er að vilja gera Maríu Magdalenu að einhverju öðru en hún var, en mig grunar að enn ráði hugmyndafræði patríarkanna ferðinni, þar sem konan getur ekki ein og sjálf staðið jafnfætis eða hvað þá framar karlmanninum.

 


Trúir þú á skrímsli.....eða villisvín?

Af og til, sérstaklega um sumarmánuðina þegar svo kölluð gúrkutíð hjá fréttamönnum gengur í garð, berast fréttir af skrímslum. Íslendingar eru auðvitað löngu hættir að trúa á tilvist ómennskra óvætta en hafa samt gaman að því að velta fyrir sér þessum fyrirbærum. Allavega eru fjölmiðlarnir okkar ekki alveg ónæmir fyrir þessum fréttum s.b. frétt um skrímsli sem fannst á Montauk ströndinni í Bandaríkjunum fyrir skömmu. Óskar Þorkels. bloggvinur minn benti mér á fyrstu myndina af þessu hræi löngu áður en byrjað var að blogga um hana. En hér koma nýjar myndir af því og það fer ekki milli mála að hvað sem skepnan heitir, er hún karlkyns.

4135926441359272

Það sem gerir margar af þessum fréttamyndum svo "áhugaverðar" er hversu óskýrar flestar þeirra  eru og fólk getur því gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn. Samt eru alltaf einhverjir sem taka þessum "fréttum" alvarlega, þrátt fyrir að oftast nær komi í ljós að um falsanir og gabb hafi verið að ræða. Ég fann myndir af nokkrum af frægustu "skrímslunum" og við skulum byrja á "Stórfót" sem býr í Bandaríkjunum og heill iðnaður hefur sprottið upp í kring um. Ekki ber að ruglast á honum og Jetti, snjómanninum ógurlega sem býr í Himalajafjöllum. Þessi fræga kvikmynd af Stórfót var tekin  af P. Patterson nokkrum árið 1967 og enn hefur ekki verið sannað að sé fölsuð ;)

 

Frægasta skrímsli allra tíma er samt Nessi, Lagarfljótsormur þeirra í Skotlandi. Nokkrar ljósmyndir hafa náðst hefur af henni í Loch Ness vatni, enda þarf nokkuð til svo að ferðamannastraumurinn þangað haldist og goðgögnin deyi ekki út. Hér eru tvær bestu myndirnar af Nessí.nessieloch_ness_1_lg

MONSTER_1_Auðvitað reka á land víðs vegar um heiminn leifar af hvölum og það þarf ekki mikið til að þau verði af ógnvænlegum skrímslum eins og þetta ferlíki sem rak á fjörur í Fortune Flóa á Nýfundnalandi 2001.

 

 

augustineSæskrímsli hverskonar hafa verið vinsælt söguefni frá örófi og það hefur ekki skemmt fyrir þeim þegar myndir eins og þessar birtast í heimspressunni. Hér ku vera á ferð risastór kolkrabbi sem rak á land í St. Augustine, Florida, árið 1896.

 

four_mile_globsterÞá varð til nýtt heiti á sæskrímsli þegar þetta ferlíki rak á land í Tasmaníu árið 1997. Það var kallað "Globster" eða "Leðjan". Hér reyndust þó aðeins um rotnandi hvalsleifar vera að ræða.

Á netinu úir og grúir af skrímslasögum og óvættum. Í Mexíkó hræðist fólk ekkert meir en hið ógurlega Chupacabras sem er einskonar  Skolli eða jafnvel Skuggabaldur. Í suðurríkjum Bandaríkjanna eru margir sannfærðir um að svokallaður Lirfumaður (Mothman) sé á sveimi.

Íslendingar voru hér áður fyrr litlu betri og Suggabaldur og Skolli, Finngálkn og Fjörulalli, nykur og sækýr, eru allt sér-íslensk heiti á sér íslenskum skrímslum.

 Víttt og breitt um heiminn búa skrímslin og það væri til þess að æra óstöðugan að telja þau upp hér. Málið er náttúrulega að flest reynast þó, þegar upp er staðið, öllu skaðlausari en sjálfur maðurinn.

 


Íslenska heims-Íkonið

Bjork-Homogenic-FrontalEf þú flettir upp í lexíkonum um tísku eða tónlist, popp-kúltúr og nútímamenningu er næsta víst að þú rekst á þessa mynd. Fáar eða engar myndir af íslendingi hafa öðlast slíkan sess í menningu heimsins eins og myndin af Björk Guðmundsdóttur utan á hljómdisk hennar Homogenic. Myndin er listaverk þar sem margir mismunandi menningarstraumar eru bræddir saman í eina heild og virka eins og hefðbundin útfærsla á fornu útliti asískra kvenna. Björk sækir þessa strauma til fimm landa; Kóreu, Kína, Japan,Thailands og Burma.

486349405_b9153cfcc3_bEf við förum frá toppi til táar og byrjum á hárinu, þá er útfærslan á því fengin frá Kóreu og á rætur sínar að rekja til þess kunnuglega siðar hefðarfólks að ganga með hárkollu. 

Á meðan alþýðan (bæði karlar og konur) lét sér nægja að flétta hár sitt og setja í hnút í hnakkanum eða við banakringluna, báru efnaðar hefðarmeyjar íburðarmiklar hárkollur (gache). Ein og tíðkaðist líka á Vesturlöndum, þóttu hárkollurnar flottari eftir því sem þær voru stærri og íburðarmeiri. Margar litu út eins og hárskúlptúrar sem festir voru á höfuð konum til að hafa þar til sýnis.  Hárkolluæðið náði hámarki á ofanverðri átjándu öld í Kóreu en nokkuð slóg á það með tilskipun Jeongjo Konungs 1788 þegar hann bannaði notkun hárkolla þar sem þær gengu gegn gildum Konfúsíusar um hógværð og auðmýkt.

user756_1170401570Til Burmma og Thailands sækir Björk hálshringina. Þótt slíkar fegrunaraðgerðir séu ekki óþekktar í suður-Afríku, eru það konur Kayan (Karen-Padung) ættbálksins í Thailandi og Burma sem  frægastar eru fyrir hálshringina sem byrjað er að setja um háls stúlkna í æsku eða þegar þær eru 5-6 ára. Hringirnir aflaga axlar og viðbein svo að hálsinn sýnist lengri. Fullvaxin kona gengur með um 20 hringi.

long21Að auki ber þær hringi um um handleggi og fótleggi sem ekki eru taldir síður mikilvægir sem fegurðartákn. Gifta konur bera líka fílabein í eyrnasneplunum. Þungi fílbeinsins verður til þess að eyrnasneplarnir síga og verða stundum svo langir að þeir sveiflast til. Þessi siður er afar forn, eða allt frá þeim tíma er eyrun voru talin helgasti hluti líkamans og hann bæri því að skreyta. Ílöng eyru voru talin merki um fegurð hjá konum og styrk hjá körlum. - Flest Padung fólksins iðkar andatrú, en um 10% eru Buddha-trúar og einhverjir eru kristnir.

geishaÁ myndinni klæðist Björk Kimonosem er þjóðabúningur Japana og honum klæðast bæði karlar og konur. Orðið Kimono er samsett úr orðunum ki (að klæðast) og mono (hlutur).  Kimono er T-laga kufl beinsniðinn og nær alla leið niður að öklum. Hann er vafinn um líkaman frá vinstri til hægri, nema sem líkklæði,  þá er hann vafinn frá hægri til vinstri. Honum er haldið saman með breiðu belti (obi) sem er venjulega bundið saman að aftanverðu. Í dag er Kimono yfirleitt viðhafnarbúningur en var áður fyrir afar algengur sem hversdagsklæði kvenna. Ógefnar konur klæðast Kimono sem hefur dragsíðar ermar.

Annað nafn fyrir Kimono er Gofuku sem þýðir "klæði Wu." Fyrstu kimonoarnir urðu fyrir miklum áhrifum af kínverskum hefðum og rekja má kínversk áhrif í japanskri fatagerð allt aftur til fimmtu aldar.

geisha-kyoto-n-071_3Farði Bjarkar minnir um margt á hinar japönsku Geishur eða  Geiko eins og þær eru líka kallaðar. Geishur eru japanskir skemmtikraftar sem stunda hinar mismunandi japönsku listgreinar af mikilli snilld, þ.á.m. sígilda tónlist og dans. Þrátt fyrir þrálátan orðróm eru Geishur ekki vændiskonur.

Uppruni farðahefðarinnar er umdeildur og segja sumir að hvíta litinn og smáan rauðan munninn megi rekja til aðdáunar Japana á vesturlenskri fegurð, fyrst eftir að þeir kynntust Evrópubúum.

Hvíti farðinn á að þekja andlitið, hálsinn og brjóstið en skilja eftir tvö W eða V laga svæði aftan á hálsinum sem undirstrikuðu þetta svæði sem samkvæmt hefð Japana er afar kynæsandi. Þá er skilinn eftir þunn lína á milli andlitsfarðans og hárlínunnar sem gefa til kynna að um grímu sé að ræða frekar en farða.  

Augnasteinar Bjarkar eru eins holur, tækni sem notuð var til að gefa augum líkneskja dýpt og neglur hennar eru langar og minna á drekaklær, en drekinn er þekkt landvætt í öllum Asíulöndum.


Fyrsta útvarpsviðtalið við The Beatles

Samkvæmt hinum virta Bítla skrifara Mark Lewisohn er eftirfarandi fyrsta útvarps-viðtal beatlesBítlanna.

Þegar að viðtalið fór fram voru Bítlarnir í förum á milli Liverpool og Hamborgar og Ringó Starr var svo nýr í bandinu að hann telur vist sína þar í vikum. Viðtalið er tekið skömmu efir að fyrsta lagið þeirra  'Love Me Do,' er sett í spilun og áður en 'Please Please Me' er fullgert.

Bítlarnir höfðu sem sagt aldrei upplifað að eiga lag í fyrsta sæti vesældarlistans þegar þetta viðtal er tekið en það var gert 28. Október 1962 í Hulme Hall í Port Sunlight, Wirral í Englandi.

Viðtalið er tekið fyrir Radio Clatterbridge, af  Monty Lister þáttastjórnanda og svo koma aukaspurningar frá  Malcolm Threadgill og Peter Smethurst. 

                                  
MONTY:Það er afar ánægjulegt að heilsa hér og nú rísandi Merseyside hljómsveit sem kallar sig Yhe Beatles. Ég þekki nöfn þeirra og bú ætla ég að gera mitt besta við að láta andlitin passa við þau. Þú ert John Lennon, er það ekki? 

JOHN: "Já , það er rétt."

MONTY:"Hvað gerir þú í hljómsveitinni, John?"

JOHN:"Ég spila á munnhörpu, ritma gítar og raddir. kalla þeir það ekki raddir?"

MONTY:"Svo er það Paul McCartney. Það ert þú?"

PAUL:"Jeh, það er ég, Jeh."

MONTY: "Og hvað gerir þú?"

PAUL:"Spila á bassagítar og uh... syng? ...Held ég! Svo segja þeir."

MONTY: "Það er fyrir utan röddun?"

PAUL: "Hérna...já , já."

MONTY:"Þá er það George Harrison."

GEORGE: "Komdu sæll"

MONTY: "Komdu sæll. Hvað gerir þú?"

GEORGE:"Uh, aðal gítaristi og svona söngur"

MONTY:"Sem aðalgítaristi ertu þá líka einskonar leiðtogi bandsins eða..?"

GEORGE:"Nei, nei, bara....Sjáðu til...hinn gítarinn spilar rithma, Ching, ching, ching, sjáðu til."

PAUL:"Hann spilar sólóin, sjáðu til.  John er reyndar talsmaður bandsins."

MONTY:"Og þarna einhversstaðar fyrir aftan, hér, eins og í hljómsveitinni þar sem hann gerir mikinn hávaða, Ringo Starr."

RINGO: "Halló."

MONTY: "Þú ert nýr í hópnum ekki svo  Ringo?"

RINGO:"Já, umm, níu vikna núna."

MONTY:"Varst með þegar 'Love Me Do' var hljóðritað?"

RINGO:"Já, ég er á plötunni. Ég er á skífunni".

(Hljómsveitin hlær)

RINGO: (Í skoplegum tón) "það er niðurritað, skaltu vita"

MONTY:"Hérna hmmm"

RINGO: "Ég er trommuleikarinn!"

(Hlátur)

MONTY: "Hvaða árásarvopn hefur þú þarna? Eru þetta trommukjuðar?"

RINGO: "Hérna. þetta eru....tvo prik sem ég fann. Ég er nýbúin að kaupa þau, því við erum, sjáðu til, að fara burt."

MONTY: "Þegar þú segist vera að fara burtu, leiðir það að annarri spurningu,. Hvert eruð þið að fara? "

RINGO:"Þýskalands. Hamborgar. Í tvær vikur."

MONTY: "Þið eruð þekktir þarna og búið að bóka ykkur ekki satt?"

RINGO: "Ja, strákarnir hafa verið þarna svo lítið, sjáðu til. Ég hef komið þarna með öðrum hljómsveitum, en þetta er í fyrsta sinn með Bítlunum."

MONTY:"Paul, segðu okkur.  Hvernig komust þið að í Þýskalandi"

PAUL: " Ja, það var gert í gegnum gamla umbann okkar."

(Hlátur)

PAUL:(hlær) "Við fórum þarna fyrst á vegum náunga sem var umbinn okkar. Hann heitir Hr. Allan Williams og sá líka um Jacaranda klúbbinn í Liverpool. Hann kom þessu sambandi á og við bara mættum á okkar..."

JOHN: "Gasi."

PAUL: "Gasi... (hlær)

JOHN: "...eins og þeir segja."

PAUL: "Eins og þeir segja, eftirá, veistu. Og við höfum bara verið að fara fram og til baka, fram og til baka."

MONTY: (undrandi) "Þið eruð sem sagt ekkert uppteknir?"

PAUL: "Ja, jú, eiginlega. Já. við höfum verið örfættir í öllu þessu stríði ."

(hlátur)

MONTY:"George, varstu alinn upp í Liverpool?"

GEORGE:"Já, hingað til."

MONTY: "Hvar?"

GEORGE:"Ja, borinn í  Wavertree og barnfæddur í Wavertree og Speke-- Þar sem flugvélarnar eru, þú veist."

MONTY: "Eruð þið þá allir 'Liverpool týpur?"

RINGO: "Já"

JOHN:"Uh... týpur, já."

PAUL:"Oh Jeh."

RINGO:"Liverpool-týpaðir Paul, þar."

MONTY:"Hérna, mér var sagt að þið hefðu verið í sama skóla og  Ron Wycherley..."

RINGO:"Ronald. Já."

MONTY:"...núna Billy Fury."

RINGO:"Í Saint Sylus."

MONTY: "Hvar?"

RINGO:"Saint Sylus."

JOHN: "Er það?"

RINGO:"Ekki var það Dingle Bay eins og þú sagðir í  Musical Express."

PAUL:"Nei, það var rangt. Saint Sylus skólinn."

MONTY:"Mig langar núna að kynna fyrir ykkur ungan plötusnúð. Hann heitir  Malcolm Threadgill og er sextán ára gamall. Ég er viss um að hann hefur áhuga á að spyrja spurninga frá sjónarhóli  táninganna.  

MALCOLM: "Mér skilst að þið hafið gert aðra hljóðritanir á undan þeim  þýsku?"

PAUL:"Jeh."

MALCOLM: "Hverjar voru þær?"

PAUL:"Ja, við gerðum ekki...Fyrsta var hljóðritun með náunga sem heitir Tony Sheridan. Við vorum allir að vinna í klúbb sem heitir Top Ten Club í Hamborg. Við hljóðrituðum með honum lag sem heitir 'My Bonnie,' sem náði fimmta sæti á þýska listanum.  

JOHN:"Ach tung!"

PAUL:(hlær) "En það náði ekki langt hér um slóðir, eins og þú veist. Þetta var ekki góð plata, en Þjóðverjunum líkaði svolítið við hana. Svo hljóðrituðum við ósungið lag sem var sett á markað í Frakklandi á plötu hjá Tony Sheridan sem  George og John sömdu sjálfir. það lag var ekki sett á markað hér. Ég fékk eitt eintak. það var allt og sumt. Það náði ekki langt.

MALCOLM:"Þið sömduð  'P.S. I Love You' og 'Love Me Do' sjálfir, ekki satt? Hver ykkar semur lögin?"

PAUL:"JA, ég og John. Við semjum lögin saman. Þetta er ...svona..Við skrifuðum undir samninga og hvað ætti að segja, sem mundi ....

JOHN: "Öllu er jafnt skipt."

PAUL:"jeh, -öllu jafnt skipt, höfundarréttur og svoleiðis, þannig að við semjum mest efnið saman.  George samdi ósungna lagið, eins og það er kallað. En aðallega eru það  John og ég. Við höfum samið yfir hundrað lög og við notum ekki helminginn af þeim, veistu. Það bara vildi þannig til að við útsettum 'Love Me Do' og spiluðum það fyrir hljóðritunargengið, ...og  'P.S. I Love You,' og uhh, Þeim virtist líka lögin, svo við hljóðrituðum þau."

MALCOLM:"Ætlið þið að hljóðrita meira af eigin efni?"

JOHN:"Ja, við hljóðrituðum annað lag eftir okkur á meðan við vorum þarna niðfrá, en því er ekki lokið enn. Svo, við munum taka það með okkur í næsta sinn og sjá hvernig þeim líkar við það þá. "

(löng þögn)

JOHN: (í gríni) "Jæja...Þetta er allt og sumt!"

(hlátur)

MONTY:"Mig langar að spyrja ykkur að því....og við erum að taka þetta upp hér í  Hume Hall, Port Sunlight-- Komuð þið nokkru sinni hingað áður enn þið urðuð frægir. Ég á við, þekkið þið þetta hverfi?

PAUL:"Ja, við spiluðum hérna,  uhh... Ég veit ekki hvað þú átt við með frægir,veistu?"

(hlátur)

PAUL:"Ef það er að vera frægur að komast á þýska vinsældarlistann, höfum við verið þar, við vorum hér fyrir tveimur mánuðum. Við höfum verið hér tvisvar, er það ekki."

JOHN:"Ég á ættingja hérna. Rock Ferry."

MONTY: "Er það?"

JOHN:"Já. Oh, beggja megin hafs, veistu."

PAUL:"Jeh, ég á ættingja í  Claughton Village-- Upton Road."

RINGO: (í gríni) "Ég á vin í  Birkenhead!"

(hlátur)

MONTY: "Ég vildi að ég ætti það."

GEORGE: (í gríni) "Ég þekki mann í  Chester!"

(hlátur)

MONTY:"Jæja, það er mjög hættulegt að segja svona. Það er geðveikrahæli hérna félagi.  Peter Smethurst er héðan og lýtur út fyrir að vera að springa af spurningum."

PETER:"Aðeins ein spurning sem mig langar að spyrja. Ég er viss um að allir eru að pæla í henni. Hvernig fannst ykkur að koma fram í fyrsta sinn í sjónvarpinu?

PAUL:"Ja, eins og það kann að hljóma undarlega, þá héldum við allir að við mundum verða skít nervusir. Allir sögðu, þið allt í einu, þegar þið sjáið myndavélarnar, gerið þið ykkur grein fyrir að tvær milljónir manna eru að horfa á ykkur, því tvær milljónir horfðu á þáttinn 'People And Places' sem við tókum þátt í ... heyrðum við seinna. En, svo skrýtið sem það er nú, föttuðum við það ekki. Við hugsuðum ekki um það einu sinni. Og það var miklu auðveldara að gera þennan sjónvarpsþátt en það er að spila í útvarpsþætti.  Það tekur samt á taugarnar, en það var mun auðveldara en útvarpið, vegna þess að í útvarpinu var fullur salur af áheyrendum. "

MONTY: "Finnst ykkur það taka á taugarnar það sem þið eruð að gera núna?"

(hlátur)

PAUL:(í gríni ) "jeh, Jeh."

MONTY:"Á  Cleaver Sjúkrahúsinu, viss plata í  Parlophone-- beðið er um aðalhliðina . Kannski að sjálfir Bítlarnir vilji segja okkur hvað kemur næst? "

PAUL:"Jeh. Jæja ég held að það verði 'Love Me Do.'"

JOHN:"Parlophone R4949."

(hlátur)

PAUL:"'Love Me Do.'"

MONTY:"Ég er viss um að svarið sem þeir vilja er  P.S. I love you!"

PAUL:"Jeh."

beatles-tittenhurst-last-photo-shoot-cowboy-hats-a

Þetta viðtal var umritað af audio flexi-diski og má finna á frummálinu í 1986 bók Mark Lewisohn' The Beatles Live'

Hið undarlega mál varðandi morðin á albínóum í Tansaníu

albino Í Tansaníu var tilkynnt  í gærkveldi um eitt  morðið enn á einum af albínóum landsins. Að þessu sinni réðist hópur manna inn á heimili mannsins og hjó af honum fætur og kynfæri  með sveðju.  Á þessu ári hafa 26 albínóar horfið eða verið drepnir í Afríkulandinu Tansananíu. Albínóar saka nú stjórnvöld um að gera ekkert í málinu þótt augljóst sé að þeir séu í bráðri hættu en í landinu eru meira en 8000 albínóar skráðir.

Eftir því sem næst verður komist tengjast þessi hvörf og morð hjátrú alþýðufólks sem trúir því að albínóar séu einskonar andaverur. Seiðmenn ala sumir hverjir á þessum hindurvitnum og eru grunaðir um að eiga þátt í hvarfi þeirra.

Þeir telja fólki trú um að með líkmashlutum úr albínóa sé hægt að gera fólk ríkt og auka velgengi þess á allan hátt. - Kennari einn í borginni Arusha var handtekinn fyrir skömmu fyrir að drepa eigið barn sem var albínói. Nýlega hafa fundist fjögur lík af albínóum og eitt þeirra hafði verið sundurlimað. -

Gamlar rauðeygðar konur hafa verið drepnar í þessum hluta Tansaníu grunaðar um galdra en þetta er í fyrsta sinn sem albínóar hafa verið notaðir til fórna, að sögn talsmanns albínóa.

witch_crafts

Albínóar í  Tansaníu eiga við mikil heilbrigðisvandmál að stríða og húðkrabbamein er afar algengt meðal þeirra.

Við höfum gert ýmislegt til að vernda albínóana segir inniríkisráðherra landsins Lawrence Marsha.

"Við höfum gengið svo langt að skrá alla sem stunda lækningar í landinu og vinsa úr þeim skottulæknana og greina þá frá þeim sem stunda raunverulegar lækningar. " sagði hann.

"Við höfum gert okkar besta til að mennta alþýðuna um hætturnar sem leynast hvarvetna og við höfum reynt að kenna albínóunum að verja sig. "

 



Þeldökkur forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum á síðustu öld

Dizzy-Gillespie-and-Ella-Fitzgerald-at-Paradise-Detroit-1947-Print-C12158443 Mikið er látið með þá staðreynd að Barack Obama sé fyrsti svarti maðurinn sem nær að tryggja sér útnefningu sem forsetaefni í Bandaríkjunum. Í öllu fjölmiðlafárinu gleymist að hann er alls ekki fyrsti þeldökki maðurinn til að gefa kost á sér til embættisins þótt ekki hafi fylgt útnefning annars af stærstu stjórnmálaflokkunum. Fyrsti þeldökki maðurinn sem það gerði og eitthvað kvað að, var vafalaust djass-snillingurinn Dizzy Gillespie.

Fyrri hluti sjöunda ártugarins voru miklir róstur tímar í sögu Bandaríkjanna. Svartir menn og konur reyndu að varpa af sér oki aldanna og ná fram almennu jafnrétti. Árið 1964 boðaði Dizzy Gillespie, sem þegar var orðinn heimsfrægur sem upphafsmaður Bebops Jass, að hann gæfi kost á sér til forsetaembættisins. Framboðið var vitaskuld sjálfstætt en vakti samt mikla athygli, umtalvert meiri en þau hundruðin fá, sem jafnan bjóða sig fram við hverjar forsetakosningar.

Megin andstæðingar Dizzy voru  Lyndon Johnson fyrir Demókrata og Barry Goldwater fyrir Repúblikana.

Dizzy lofaði því að ef hann næði kosningu mundi hann endurnefna "Hvíta húsið" "Blues-Húsið", hann mundi útnefna Ray Charles Yfirbókasafnsvörð Þingsins, Miles Davis að yfirmanni CIA og gera sjálfan Malcom X að dómsmálaráðherra. Varaforsetaefni hans yrði Phyllis Diller grínisti og forsetaritari sjálfur Duke Ellington.  Eins og sjá má var framboðið hálfgert grín, en öllu gríni fylgir nokkur alvara. Dizzy gaf út plötu í tilefni framboðsins og breytti einu af sínu kunnasta lagi  "Salt Peanuts" í kosningasöng.

Dizzy var ótvírætt einn af merkustu tónlistarmönnum Bandaríkjanna á síðustu öld. Hann var eins og fyrr er getið upphafsmaður Bebop-djassins og mótandi nútíma djass í félagi við Charly Parker, Jelly Roll Morton og Roy Eldridge.  DizzyDizzy spilaði á trompet og var auðþekktur fyrir íkonískt 45 gráðu beygjuna á því, þannig að hornið stóð beint út í loftið. Sagan segir að trompetið hans hafi orðið fyrir hnjaski á tónleikaferðalagi 1953 og upp frá því hafi Dzzy heillast af hljóminum og ekki viljað sjá annað eftir það.

 

dizzy1Dizzy Gillespie gerðist Bahá'í árið 1970 og var einn þekktasti áhangandi þeirrar trúar. Ég var svo heppinn að kynnast Dizzy aðeins þegar hann kom til Íslands og hélt tónleika fyrir fullu húsi í Háskólabíó 1984 að mig minnir. Ég kunni aldrei að meta djass og langt fram eftir æfi þoldi ég ekki nema léttustu útgáfur hans. Að hitta Dizzy breytti þar litlu um, en það var samt skemmtilegt að hitta þennan mikla tónlistarmann og sjá hann þenja út gúlinn eins og blöðruselur, nokkuð sem engin hefur leikið eftir honum fyrr eða síðar.

Síðustu tónleikar Dizzy voru áætlaðir í Carnegie Hall í New York 1992. Um sama leiti komu Bahaiar hvaðanæva að úr heiminum saman í borginni til að minnast þess að hundrað ár voru liðin frá andláti stofnanda trúarinnar Bahá´u´lláh. Tónleikarnir voru í tilefni 75 ára afmælis Dizzy og framlag hans til minningarhátíðarinnar. Meðal þeirra sem prýddu hljómsveit hans voru Jon Faddis, Marvin "Doc" Holladay, James Moody, Paquito D´Rivera, Mike Longo Tríóið, Ben Brown og Mickey Roker. Því  miður tókst Dizzy ekki að taka þátt í tónleikunum þar sem hann lá fyrir dauðanum af völdum Krabbameins. Í gagnrýni um tónleikana var m.a þetta sagt;

"En hver tónlistarmannanna lék af hjartans list fyrir hann, vitandi að hann mundi aldrei leika aftur. Hver þeirra minntist vinar síns, þessarar stóru sálar og mikla frömuðar á svið djass tónlistarinnar"

 


Tillögur til umbóta fyrir Alþingi og úrelt flokkakerfi landsmanna

CommunityConsultationOft hef ég velt fyrir mér gagnsleysi flokkapólitíkur og þessari endalausu vitleysu sem skapast af því að stjórnmálflokkar skiptast á um að vera með eða á móti hvor öðrum, eftir því hverjum tekst að komast í stjórn og hverjum ekki. Stjórn og stjórnarandstaða er ríkjandi stjórnarform í flestum lýðræðislöndum heims og mér finnast slíkir  stjórnarhættir vera úreltir og sóun á kröftum þeirra sem vilja vinna samfélaginu heilt en eru hindraðir í því vegna flokkadrátta og pólitísks rígs.

Það væri miklu heilladrýgra fyrir samfélagið að taka upp almennt samráð. Því miður hefur orðið samráð fengið á sig nokkuð slæma merkingu upp á síðkastið hér á landi og er einkum notað um ólöglegt athæfi olíufélaga og gírugra verðbréfabraskara. Það samráð sem ég á við er ákveðin leið eða aðferð til að meðhöndla mál, ná niðurstöðu um þau og sátt um framkvæmd þeirra. 2007-537-consultation-process-24Aug

Ef að til dæmis að  einstaklingar væru kosnir til þings hér á landi, frekar en flokkar,  mundu þingmenn geta tileinkað sér þessa aðferð sem ég er viss um að yrði samfélaginu til mikilla bóta. Þess má geta að hægt er að nota þessar meginreglur samráðs á öllum sviðum þjóðfélagsins, í hjónaböndum og fjölskyldum, félögum og félagasamböndum hverskonar. Allstaðar þar sem tvær eða fleiri skoðanir kunna að koma fram. Kjarninn í samráði er að stuðla að samkomulagi á þann hátt að sameina sjónarmið í stað þess að láta þau valda sundrungu. Það hvetur til ólíkra skoðana, en vinnur gegn valdabrölti sem er svo algengt í þeim kerfum sem annast ákvarðanatöku og við þekkjum best. Reyndar má líta svo á að þar sem skoðununum lýstur saman myndast  oft neisti sannleikans. Grundvallarmarkmið samráðs er einmitt að finna sannleikan, í stað stöðugra málmiðlanna eða hrossakaupa.

Hér kemur samráðsleiðin brotin niður í fjóra megin punkta;

  • Upplýsingum skal safna eins víða og framast er unnt og leita eftir ólíkum sjónarmiðum. Þetta getur falið í sér að leita álits sérfræðinga - svo sem lögfræðinga, lækna eða vísindamanna. En líka getur þetta þýtt að leitað sé upplýsinga utan hefðbundinna sérgreina, eða að reynt sé að gaumgæfa skoðanir einstaklinga í samfélaginu sem eiga sér ólíkan bakgrunn. Mikilvægt er að málsaðilar samþykki að allar fáanlegar upplýsingar liggi fyrir áður en lengra er haldið.

  • Meðan á umræðum stendur, verða þátttakendur að leitast við að vera eins opinskáir og hreinskilnir og mögulegt er, en sýna samtímis fullan áhuga á skoðunum annarra. Persónulegar árásir, úrslitakostir eða fordómafullar staðhæfingar skal forðast.

  • Þegar hugmynd er fram komin,verður hún með það sama eign hópsins. Þó að þessi staðhæfing virðist einföld, þá er þetta þó ef til vill djúptækasta regla samráðs, því að með þessari reglu hætta allar hugmyndir að vera eign einstaklings, hóps eða stuðningsflokks. Þegar þessari reglu er fylgt, eru þær hugmyndir, sem fram koma, af einlægri löngun til að þjóna í mótsögn við hugmyndir sem fram eru bornar af persónulegri metorðagirnd eða flokkadráttum.

  • Hópurinn leitar eftir samhljóða samþykki, en hægt er að taka meiri hluta ákvörðun til þess að fá fram niðurstöðu og taka ákvörðun. Mikilvægt viðhorf til þessarar grunnreglu er sá skilningur að þegar ákvörðun hefur verið tekin, þá er öllum í hópnum skylt að standa í einingu um þá ákvörðun - án tillits til hverjir studdu hana.

CommunityConsultationÍ þessum skilningi getur ekki verið um að ræða neitt „minnihluta“ álit eða viðhorf „andstöðunnar.“  Ef ákvörðun er röng kemur það í ljós í framkvæmdinni - en þó því aðeins að hópurinn, sem ákvörðunina tók, og reyndar samfélagið í heild, standi heilshugar að baki henni.

Fylgið við eininguna tryggir að ef ákvörðun eða áætlun gengur ekki upp, þá er vandinn fólginn í hugmyndinni sjálfri,en ekki í skorti á stuðningi frá samfélaginu eða þrákelnislegu andófi andstæðinga.


Farinn í gönguferð með didgeridú og búmerang að veiða Kengúrur

aboAð fara í gönguferð (walkabout) hefur ekki sömu merkingu meðal okkar flestra og það hefur á meðal frumbyggja í Ástralíu. Menning þeirra og tungumál sem töldu allt að 750 mismunandi mállýskur áður en hvíti maðurinn kom til skjalanna seint á átjándu öld, hafa átt í vök að verjast. Enn eimir samt eftir af þjóðháttum þeirra  og orð eins didgeridú, búmerang og Kengúra ( Kangooroo) sem eru komin úr málum frumbyggjanna, eru þekkt víðast hvar í heiminum. Þegar landnám hvítra mann hófst í Ástralíu er talið að tala frumbyggja hafi verið nálægt 750.000 manns. Í dag telja þeir um 410.000.

Saga frumbyggjanna er um margt afar merkileg, ekki hvað síst fyrir þær sakir að enn hefur ekki verið skýrt hvernig þeim tókst að komast frá Afríku yfir til Ástralíu fyrir allt að 125.000 árum eins og sumir fræðimenn halda fram en fundist hafa staðfestar mannvistarleifar í Ástralíu sem eru 40.000 ára gamlar.

Sjálfir tala frumbyggjar um forsögulega tíman sem Altjeringa eða"draumaskeiðið" (dreamtime). Draumaskeiðið á við um þann tíma þegar forfeður þeirra og skaparar sem þeir kalla "fyrsta fólkið" ferðuðust um suðurhluta álfunnar og nefndu alla hluti um leið og þeir sköpuðu þá.

Draumaskeið hefur einnig ákveðna merkingu í daglegu lífi frumbyggja. Það er einskonar samheiti yfir afstöðu þeirra til náttúrunnar og samskiptin við anda forfeðranna. Þeirra á meðal eru Regnbogaslangan, Baiame og Bunjil svo einhverjir séu nefndir. Hér kemur ein sagan úr digrum sjóði arfsanga sem tilheyra draumaskeiðinu. 070507-aborigines-dna_big

Öll veröldin svaf. Allt var hljótt, ekkert hreyfðist, ekkert gréri. Dýrin sváfu neðanjarðar. Dag einn vaknaði Regnbogaslangan og skreið upp á yfirborðið. Hún ruddi sér leið um jörðina. Eftir að hafa farið um landið varð hún þreytt og hringaði sig upp og sofnaði. Þannig skildi hún eftir slóð sína. Þegar hún hafði farið um allt, snéri hún til baka og kallaði á froskana. Þegar þeir komu voru magar þeirra fullir af vatni. Regnbogaslangan kitlaði þá og þeir fóru að hlægja. Vatnið gusaðist upp úr þeim og fylltu slóða Regnbogaslöngunnar. Þannig urðu til ár og vötn. Gras og tré uxu í kjölfarið og jörðin fylltist af lífi.

aborig

Manndómsvígsla frumbyggjana nefnist  gönguferð (walkabout). Þrettán ára að aldri halda ungir menn einir út í óbyggðirnar til að fylgja svo kölluðum Yiri eða söngvarákum sem eru slóðir forfeðranna sem farnar voru á draumaskeiðinu. Þeim er ætlaða að endurtaka hetjudáðir áanna, finna sjálfa sig og spjara sig sjálfir á þessari þrautagöngu. Hver ganga tekur ekki minna en sex mánuði og mun lengur ef hugur þeirra og hjarta býður þeim svo. Frumbyggjar fara líka í gönguferð seinna á ævinni eða þegar andinn kallar á þá. Án þess að gera neinum viðvart halda þeir út í buskann, oft frá konu börnum og ferð þeirra verður ein samfelld pílagrímsferð um landið þvers og kruss. Samneyti við andanna og draumalíf er megin tilgangur gönguferðanna.

 

 

 


Að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum

Í tilefni af talverðri umræðu á blog.is þessa dagana um stöðu kvenna, vændissölu og jafnréttismál, ákvað ég að birta hér greinargerð til Sameinuðu þjóðanna frá Bahai samfélaginu um þessi mál.

Myndirnar sem fylgja eru ekki úr greinargerðinni.  

Lagabætur einar nægja ekki: Hlutverk menningar og hæfni við að uppræta ofbeldi gagnvart konum og stúlkum

women1. Staða kvenna hefur að mörgu leyti batnað umtalsvert undanfarin fimmtíu ár. Lestrarkunnátta og menntun kvenna hafa aukist, meðaltekjur þeirra hafa hækkað og þær hafa áunnið sér frama bæði í starfi og stjórnmálum. Enn fremur hefur með víðtæku samstarfsneti kvenna í svæða-, lands- og alþjóðasamtökum tekist að koma hagsmunamálum þeirra á dagskrá á heimsvísu, og ýta undir lagalegar og opinberar aðgerðir þessum hagsmunamálum til framdráttar. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun, heldur miskunnarlaust ofbeldi gegn konum og stúlkum áfram að geysa sem faraldur í öllum hlutum heims; ofbeldið birtist – og er raunar viðhaldið – í félagslegum venjum og hefðum, öfgum af trúarlegum toga og efnahags- og stjórnmálalegri kúgun. Um leið og alþjóðasamfélagið leitast við að setja lög til verndar konum og stúlkum er augljóst að djúp gjá skilur enn að lagalegar ráðstafanir og menninguna – sem felst í gildismati okkar, hegðun og stofnunum – sem þarf til að stemma stigu við þessum faraldri.

violence2. Hið skelfilega ofbeldi gegn konum og stúlkum á sér stað í heimsástandi sem einkennist af tvenns konar en þó samstíga þróun. Annars vegar er ferli upplausnar, sem hefur afhjúpað getuleysi úr sér genginna stofnana, úreltra kennisetninga og ósæmilegra hefða um víða veröld og á öllum sviðum lífsins, ferli sem veldur glundroða og þjóðfélagshnignun. Raddir öfgamanna og lífsskilningur efnishyggjunnar, sem afneita mannlegri reisn, hafa fyllt upp í það siðferðilega tómarúm sem trúarbrögðin hafa skilið eftir sig þegar dregið hefur úr hæfni þeirra til að hafa siðræn áhrif. Arðránshagkerfi sem kyndir undir öfgum auðs og fátæktar, hefur hneppt milljónir kvenna í efnahagslegan þrældóm og svift þær réttindum á borð við eignarétt, erfðarétt, líkamlegt öryggi og jafnan rétt til þátttöku í almennri verðmætasköpun. Kynþáttaátök og vanhæfni stjórnvalda, hafa leitt til mikillar fjölgunar kvenna sem hafa flosnað upp og jafnvel orðið landflótta. Þetta ástand hefur aukið enn frekar líkamlegt og efnahagslegt óöryggi þeirra. Niðurlægjandi meðferð á konum og börnum sem og útbreiðsla kynferðislegrar misnotkunar, hafa aukist innan sem utan heimilisins og hafa, ásamt miklu heimilisofbeldi, hraðað þessu ferli upplausnar.

0013. Samhliða fyrra ferlinu má greina annars konar ferli; ferli uppbyggingar og sameiningar. Það á sér rætur í siðfræði Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og sækir kraft í vaxandi samstöðu um aðgerðir kvenna á heimsvísu en með þeim hefur á síðastliðnum fimmtán árum tekist að koma málefnum sem snerta ofbeldi gegn konum og stúlkum á dagskrá um allan heim. Sá viðamikli og samræmdi lagarammi sem var mótaður á þessum árum hefur beint athygli alþjóðasamfélagins, sem ekki hafði verið með á nótunum, að því menningarviðhorfi að svona misnotkun væri meinlaus og væri því liðin og jafnvel afsökuð. Þáttaskil urðu hins vegar árið 1993 með Yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um að uppræta ofbeldi gegn konum,1 þar sem sett var fram eftirfarandi skilgreining á hugtakinu „ofbeldi gagnvart konum“: [Ofbeldi gagnvart konum er allt] ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi. 2 Í þessari skilgreiningu var véfengd sú ranga afstaða að ofbeldi gegn konum og stúlkum væri einkamál. Þar með voru heimilið, fjölskyldan, menning okkar og hefðir ekki lengur hinn eini og endanlegi dómari um gerðir er varða ofbeldi gegn konum og stúlkum. Stofnun embættis sérlegs skýrslugjafa [Sameinuðu þjóðanna] um ofbeldi gegn konum nokkru síðar, var enn eitt úrræðið til þess að rannsaka og fá fram í dagsljósið hinar mörgu hliðar á þessu hættulega ástandi, og til þess að beina athygli alþjóðasamfélagsins að því.

2311849706_9f3133f15d_o4. Þrátt fyrir mjög miklar framfarir undanfarin fimmtán ár, hefur vangeta þjóða heims til þess að draga úr ofbeldi, sýnt fram á augljósa annmarka á þeim aðferðum sem fyrst og fremst bregðast við eftir á. Smám saman hefur þróast víðari sýn þar sem forvarnir gegn ofbeldi eru orðnar að markmiði. Með öðrum orðum þá er meginverkefni alþjóðasamfélagsins nú að átta sig á hvernig hægt verði að skapa samfélagsgerð þar sem félagslegar og efnislegar aðstæður eru til þess fallnar að konur og stúlkur geti þroskað hæfileika sína til fulls. Þær nýju aðstæður munu ekki aðeins byggja á yfirveguðum tilraunum til að breyta hinu lagalega, stjórnmálalega og efnahagslega umhverfi samfélagsins, heldur munu einnig þurfa að byggja á öðru sem er jafn mikilvægt, það er á umbreytingu einstaklingsins — umbreytingu karla og kvenna, drengja og stúlkna — þar sem núverandi gildismat þeirra viðheldur á einn eða annan hátt hegðunarmynstri misnotkunar. Sjónarmið bahá’í trúarinnar er að forsenda allra samfélagsumbóta sé sá grundvallarskilningur að einstaklingurinn búi yfir andlegum eða siðferðilegum eðlisþáttum. Þær víddir móta skilning hans á tilgangi eigin lífs, og á ábyrgð sinni gagnvart fjölskyldunni, samfélaginu og umheiminum. Meðfram mikilvægum breytingum á hinu lagalega, pólitíska og efnahagslega umhverfi sem er hægt og sígandi að taka á sig mynd er þroski siðferðilegra og andlegra hæfileika einnig nauðsynlegur og grundvallandi þáttur í þeirri erfiðu viðleitni að hindra ofbeldi gegn konum og stúlkum alls staðar í heiminum.

5. Hugmyndin um að efla tiltekin siðferðileg gildi kann að vera umdeild þar sem slík viðleitni hefur í fortíðinni of oft tengst þvingandi trúariðkun, kúgun vegna pólitískrar hugmyndafræði og þröngri sýn á almannaheill. Engu að síður er það siðræn færni, sem samræmist almennu mannréttindayfirlýsingunni og ætlað er að hlúa að.

 1 Auðkenni yfirlýsingarinnar á ensku er: United Nations General Assembly resolution 48/104 of 20 December 1993. Declaration on the Elimination of Violence Against Women, Article 2. UN Document A/RES/48/104.

2 Þýðing Mannréttindaskrifstofu Íslands á 1. gr. yfirlýsingar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 20. desember 1993 „um afnám ofbeldis gagnvart konum,“ vefslóð: http://www.humanrights.is/log-og- samningar/mannrettindasamningar/sameinudu-tjodirnar/yfirl-afnam-ofbeldis-konur/ andlegum, félagslegum og vitsmunalegum þroska allra manna, sem nauðsynleg er til að móta ofbeldislaust þjóðfélag. Þar að auki þurfa slík gildi að eiga rætur í þeim félagslegu og andlegu meginreglum samtímans, að allir menn eru innbyrðis háðir og mannkynið innbyrðis tengt. Þungamiðja siðrænna framfara færist þá frá einstaklingsmiðuðum hugmyndum um ,,frelsun” einstaklingsins yfir á siðrænar framfarir mannkynsins í heild. Rétt eins og okkur hefur nú tekist að þroska með okkur skilning á félagslegu og efnislegu skipulagi samfélagins, sem felur í sér þetta grundvallarmarkmið, verðum við einnig að leggja rækt við og þroska með okkur siðferðisgetu til að takast á við nútímalíf.

women_rights_16. En hvernig kennum við þetta? Allmargir skólar og æðri menntastofnanir á vegum bahá’ía hafa skilgreint ákveðna siðræna getu til að búa börn og ungmenni undir að þroska með sér siðræna rökhugsun og ábyrgð á að leggja sitt af mörkum til að bæta samfélag sitt. Undirstaða slíkrar námsskrár er vissan um að sérhver manneskja sé andleg vera með takmarkalausa hæfni til göfugra gerða en til þess að slík hæfni birtist í verki verður að rækta hana meðvitað og kerfisbundið með námsefni sem miðast við þessar grundvallareigindir mannsins. Meðal þeirra siðrænu hæfileika sem bahá’í menntastofnanir tilgreina eru (1) að geta tekið virkan þátt í sameiginlegri ákvarðanatöku án þess að líta á þátttakendur sem andstæðinga (í þessu felst að umbreyta skaðandi hegðunarmunstri sem byggir á valdbeitingu og þeim misskilningi að átök séu hornsteinn mannlegra samskipta); (2) að geta komið fram af heiðarleika á grundvelli siðrænna gilda; (3) að rækta með sér tilfinningu fyrir reisn og sjálfsvirðingu; (4) að geta haft skapandi en agað frumkvæði (5) að vera tilbúinn til að taka þátt í styrkjandi fræðslustarfsemi, (6) að geta skapað framtíðarsýn sem byggir á sameiginlegum siðrænum gildum og meginreglum og vakið með öðrum hugsjón til að vinna að slíkum árangri, (7) að geta greint samskipti sem byggjast á yfirgangi og breytt þeim í samskipti byggð á gagnkvæmni og þjónustu. Þannig leitar námsefnið eftir því að ná fram heildrænum þroska einstaklingsins með því að samþætta hið andlega og efnislega, hið fræðilega og hagnýta og tilfinninguna fyrir því að framfarir hvers og eins tengist þjónustu við samfélagið.

WomenFlee~cmp30~capt_1000565819pakistan_afghanistan7. Þótt slík gildi sé hægt að kenna í skóla þá er það í faðmi fjölskyldunnar sem börn vaxa úr grasi og mynda sér skoðanir um sig sjálf, heiminn og tilgang lífsins. Að því marki sem fjölskyldunni mistekst að uppfylla grundvallar þarfir barnanna, mun samfélagið bera afleiðingar vanrækslu og misnotkunar og líða sárlega fyrir sinnuleysi og ofbeldi sem af því leiðir. Það er innan fjölskyldunnar sem barnið lærir um eðli valds og hvernig því er beitt í persónulegum samskiptum; það er hér sem það lærir fyrst að samþykkja eða hafna ráðríki og ofbeldi sem tjáningarleið og leið til þess að leysa ágreining. Í þessu umhverfi verður útbreitt ofbeldi, sem framið er af körlum gagnvart konum og stúlkum, árás á grunneiningu samfélags og þjóðar.

8. Jafnræði innan fjölskyldu og hjónabands gerir kröfur til sífellt meiri hæfni til þess að samræma og sameina í stað þess að sundra eða einblína á einstaklingsþarfir. Í heimi örra breytinga þar sem fjölskyldur standa frammi fyrir óbærilegu álagi sem fylgir umbrotum í umhverfis- , efnahags- og stjórnmálum, þá er getan til að treysta og vernda fjölskylduböndin og búa börnin undir samfélagsskyldur í flóknum og síminnkandi heimi mikilvægust. Í þessum aðstæðum er brýnt að hjálpa karlmönnum til þess að skilja þá ábyrgð sem þeir bera í fjölskyldunni sem feður, auk ábyrgðar á fjárhagslegri velferð hennar, þannig að í sjálfri fjölskyldunni verði til fyrirmynd að sjálfsaga, heilbrigðum samskiptum og jafnri virðingu beggja kynja. Þetta er viðbót og stuðningur við móðurhlutverkið, en móðirin er fyrsti fræðari barnanna og hamingja hennar, öryggistilfinning og sjálfsvirðing eru forsenda þess að hún nái árangri í hlutverki sínu.

children9. Það sem börn læra innan fjölskyldunnar er ýmist í samræmi eða í mótsögn við þau félagslegu samskipti og gildi sem móta samfélagslíf þeirra. Allt fullorðið fólk í samfélaginu — kennarar, heilbrigðisstarfsfólk, atvinnurekendur, stjórnmálamenn, trúarleiðtogar, lögregla, fjölmiðlafólk og aðrir — ber sameiginlega ábyrgð á að vernda börn. Þó virðist öryggisnet samfélagsins víða svo illa farið að það verði ekki bætt: miljónir kvenna og stúlkna eru seldar mansali á hverju ári og neyddar til vændis eða ofurseldar aðstæðum sem jafnast á við þrælkun. Farandverkakonur hafna utangarðs með tvennum hætti, bæði fyrir að vera konur og fyrir að vera uppflosnaðar, og líða fyrir andlega, líkamlega og fjárhagslega misbeitingu vinnuveitenda sinna í svörtum hagkerfum. Ofbeldi gegn vaxandi fjölda eldri kvenna, sem geta oft ekki borið hönd fyrir höfuð sér, hefur aukist mjög mikið. Barnaklám breiðist út eins og veira á óseðjandi, stjórnlausum markaði sem ekki lýtur neinum landamærum; og jafnvel það að sækja skóla setur stúlkur í mikla hættu á að sæta líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi í eða á leið í skóla. Ástandið sem skapast af linku ríkisstjórna og skorti á lögum verður enn verra vegna djúpstæðrar siðferðiskreppu knýr samfélagið til að spyrja: „Hvað kemur fólki til þess að misnota líf og sæmd annarrar manneskju? Hvaða siðrænu grunngildi hefur fjölskyldu og samfélagi mistekist að rækta?”

squad210. Í gegnum tíðina hafa trúabrögð sinnt afgerandi hlutverki um heim allan í að rækta gildi samfélagsins. Margar þær raddir sem í dag tala í nafni trúar verða þó að teljast mesta hindrunin við að uppræta ofbeldi gagnvart konum og stúlkum. Málsvarar öfgafullra trúar-túlkana sem nota trúarlegt ákall til að bera uppi vald sitt, leitast við að ,,temja” konur og stúlkur með því að hefta ferðafrelsi þeirra utan heimilisins, takmarka aðgang þeirra að menntun, láta þær sæta líkamlega skaðlegum venjum, stjórna klæðaburði þeirra og jafnvel taka þær af lífi fyrir gerðir sem sagðar eru vanvirða heiður fjölskyldunnar. Það eru trúabrögðin sjálf sem þarfnast sárlega endurnýjunar. Lykilatriði slíkrar endurnýjunar er að trúarleiðtogar lýsi yfir með ótvíræðum hætti og verði í fararbroddi fyrir meginreglu jafnréttis karla og kvenna – meginreglu sem hefur siðrænt og hagnýtt gildi og brýn þörf er á til að framfarir verði á pólitískum, félagslegum og efnahagslegum sviðum samfélagsins. Nú verður að grandskoða þær trúarlegu athafnir, kenningar og kreddur sem fara svo svívirðilega í bága við alþjóðlega mannréttindastaðla og muna að í öllum trúarbrögðum eru raddir kvenna sem að mestu leyti hafa verið fjarri skilgreiningunni, sem sífellt er í mótun, um hvað trúabrögð séu og hvers þau krefjist.

11. Einstaklingurinn, fjölskyldan og samfélagsumhverfið eru þegar allt kemur til alls undir verndarvæng ríkisins; það er á þessu stigi sem svo sár þörf er á upplýstri og ábyrgri forystu. Flest stjórnvöld halda engu að síður uppteknum hætti og varpa frá sér ábyrgðinni á þeim alþjóðlegu skuldbindingum sínum að vinna gegn og refsa fyrir misnotkun og ofbeldi gegn konum og stúlkum. Fjöldi þeirra skortir pólitískan vilja, sum veita ekki nægu fjármagni til að framkvæma lögin, víða eru ekki til sérhæfðar stofnanir til að takast á við ofbeldi gagnvart konum og stúlkum og forvarnarstarf hefur í nánast öllum tilfellum verið staðbundnar skammtímaaðgerðir.3 Í rauninni geta fá ríki státað af því að hafa dregið hið minnsta úr heildartíðni ofbeldistilfella4. Mörg ríki halda áfram að fela sig á bak við menningarlega og trúarlega fyrirvara þegar kemur að alþjóðlegum sáttmálum sem fordæma slíkt ofbeldi. Þannig varðveita þau enn frekar andrúmsloft lagalegs og siðferðilegs refsileysis og gera um leið bæði ofbeldið og fórnalömb þess að mestu ósýnileg.

untitled412. Vinnunni við að þróa lagaramma þarf nú að fylgja eftir með áherslu á framkvæmd þessarra laga og fyrirbyggjandi aðgerðum. Grundvöllur slíkra aðgerða er áætlun sem byggir á að veita börnum menntun og þjálfun sem gerir þeim kleift að þroskast jafnt vitsmunalega sem siðferðilega, að rækta með sér tilfinningu fyrir reisn og ábyrgðartilfinningu fyrir velferð fjölskyldu sinnar, samfélags síns og heimsins alls. Með tilliti til fjárlaga krefjast fyrirbyggjandi ráðstafanir þess að kynbundnar aðgerðir séu teknar upp með markvissum hætti til að tryggja að hlutfallslega sé nægu fjármagni ráðstafað til aðgengilegri félagsþjónustu og lagalegra úrræða. Slíkar aðgerðir þarf að styrkja með því að ofbeldi sé skýrt skilgreint, með skilvirkri gagnasöfnun til að geta metið viðleitni landsins á þessu sviði, og með því að auka skilning karla og kvenna á alvarleika og útbreiðslu ofbeldisins sem á sér stað í samfélagi þeirra.

13. Alþjóðasamfélagið hefur gegnt mikilvægu hlutverki í þessu málefni með yfirlýsingu sinni árið 1993 og með að viðurkenna að ofbeldi gagnvart konum og stúlkum „hindri jafnrétti, þróun og frið“ og eins með vinnu hins sérstaka skýrslugjafa. En engu að síður hefur það verið klofið og atkvæðalítið hvað varðar að koma orðum sínum í framkvæmd. Árið 2003 var vangeta þess til að framkvæma undirstrikuð á 47. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem, í fyrsta skipti sögu nefndarinnar, náði ekki að koma sér saman um samþykktir varðandi ofbeldi gagnvart konum. Í því tilviki voru menningar- og trúarleg rök notuð til að reyna að sniðganga skyldur ríkja eins og þær voru settar fram í yfirlýsingunni 1993. Það er því mjög áríðandi að á fundum nefndarinnar verði í framtíðinni komist skýrt og ákveðið að orði í samþykktum varðandi það að uppræta ofbeldi gagnvart konum og stúlkum og fram komi ekki aðeins lagalegur heldur einnig siðferðilegur andi sem hæfi þessum hnattræna faraldri.

14. Til þess að geta staðið við hinar mörgu skuldbindingar sínar þarf alþjóðasamfélagið að auka til muna völd, yfirráð og fjárráð tileinkuð mannréttindum kvenna, kynjajafnrétti og eflingu kvenna. Alþjóðlega bahá’í samfélagið er aðili að umræðum 3 . Deild Sameinuðu þjóðanna fyrir framgöngu kvenna (2005). Skýrsla fundar sérfræðihópsins: Góðar venjur í eyðingu ofbeldis gagnvart konum.17-20 maí 2005, Vín - Austuríki. http://www.un.org/womenwatch/daw/egm/vaw-gp-2005/docs/FINALREPORT.goodpractices.pdf 4 Ibid. þar sem lagt er til að stofnuð verði sjálfstæð stofnun innan Sameinuðu þjóðanna með víðtækt umboð tileinkað öllu sviði réttinda og málefna kvenna. Þessar hugmyndir eiga rætur að rekja til Beijing aðgerðaáætlunarinnar, vinnuáætlunarinnar frá Kaíró og sáttmálans um afnám allrar mismununar gagnvart konum, og tryggja það að mannréttindasjónarmið séu samþætt til fulls í öllu starfi Sameinuðu þjóðanna. Til að tryggja konum rödd á hæstu stigum ákvarðanatöku innan Sameinuðu þjóðanna þyrfti slíkri stofnun að vera stýrt af framkvæmdastjóra sem hefði stöðu aðstoðar- framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Til þess að geta sinnt umboði sínu með áhrifaríkum hætti þarf stofnunin að hafa næg áhrif gagnvart þjóðríkjum jafnframt því sem hún þarf á að halda sjálfstæðum sérfræðingum í málefnum kvenréttinda sem ættu sæti í stjórn.

women_1315. Vinna við að uppræta þennan ofbeldisfaraldur gagnvart konum og stúlkum verður að halda áfram og eflast á öllum sviðum mannlegs samfélags – allt frá einstaklingum til alþjóðamfélagsins. Þó mega aðgerðirnar ekki einskorðast við að bæta lög og stofnanir, því slíkar umbætur taka einungis á hinum augljósa glæp en megna ekki að koma á hinni djúpstæðu breytingu sem þarf til að skapa menningu þar sem réttlæti og jafnrétti ríkja yfir hvatvísi gerræðislegs valds og líkamlegs afls. Innri og ytri víddir mannlegs lífs eru vissulega gagnverkandi – ekki er hægt að breyta öðru án þess að breyta hinu. Það er þessi innri, siðferðilega vídd sem nú þarfnast umbreytingar og myndar þegar allt kemur til alls traustasta grunninn að gildum og hegðun sem efla konur og stúlkur og veldur þannig framförum alls mannkyns.

Lagabætur einar nægja ekki: Hlutverk menningar og hæfni við að uppræta ofbeldi gagnvart konum og stúlkum Yfirlýsing Alþjóðlega bahá’í samfélagsins júlí 2006 Skrifstofa Alþjóðlega bahá’í samfélagsins hjá Sameinuðu þjóðunum 866 United Nations Plaza Suite 120 New York, NY 10017 oaw-nyc@bic.org (212) 803-2500 BIC skjal nr. 06-0702


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband