Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
16.9.2008 | 20:17
Rapa Nui, lexía fyrir heiminn
Allt frá því að Hollendingar komu fyrst til Rapa Nui á páskasunnudag 1722, eyjanna sem nú eru þekktar undir nafninu Páskaeyjar, hefur hróður þeirra sem jarðnesk paradís farið um heiminn. Þeir sem heimsótt haf eyjarnar standa dolfallnir yfir steinstyttunum stóru á ströndinni við Moais flóa og spyrja; hvers vegna voru þær höggnar, hvernig voru þær fluttar, hversvegna standa þær þar sem þær standa, o.s.f.r. Svörin eru ekki flókin og svipar til um það sem virðist hafa gerst um heim allan á mismunandi tímum, hvort sem um er að ræða Stonehenge í Bretlandi eða Píramída í Egyptalandi. Fæstir spyrja mikilvægustu spurningarinnar, hvers vegna eru stytturnar allar eins? Þær standa þarna og horfa til himins tómum augnatóftum án skilnings þegar tungl og sól renna um himinhvolfið fyrir ofan þær.
En jarðnesk paradís er ekki gerð úr tómum endurtekningum. Þessi steinandlit eru merki um samfélag manna sem mistókst að stíga fyrstu skrefin í átt að þróun vitsmunalegrar þekkingar og þar með til stighækkandi siðmenningar.
Páskaeyjar eru meira en 1700 km frá næstu byggðu eyjum í vesturátt sem eru Pictcairn eyjar. Til Juan Fernandez eyja í austri eru um 2500 km, en það eru eyjarnar þar sem Alexander Selkirk, hinn upprunalegi Robinson Crusoe varð strandaglópur á 1704.
Slíkar fjarlægðir verða ekki sigldar nema að til komi þekking á gangi himintunglanna og stöðu stjarnanna sem geta vísað þér leið. En hvernig komust frumbyggjarnir til eyjanna spyrja þá einhverjir. Því er auðsvarað, af slysni. Það er óumdeilt. Spurningin ætti miklu fremur að vera, hvers vegna sigldu þeir ekki burtu? Þeir komust hvergi vegna þess að þeir höfðu ekki þekkingu á gangi himintungla sem gátu vísað þeim leiðina. Og hversvegna ekki? Á suðurhimni sést pólstjarnan ekki. Við vitm að hún er mikilvæg vegna þess að jafnvel fuglar nota hana í förum. Þess vegna eru farfuglar miklu algengari á norðurhveli jarðar en suðurhvelinu.
Frumbyggjar Rapa Nui, Páskaeyja, voru sem sagt strandaglópar. Eyjarnar voru jarðnesk Paradís að því leiti að nóg var að bíta og brenna sem hægt var að safna með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. En þá skorti þekkingu og þá skorti það sem kveikir og er eðlilegur farvegur nýrrar þekkingar, samneyti við annað fólk af öðrum toga en það er sjálft.
Af Rapa Nui fólkinu, ekki bara stöðnun þeirra listrænt og andlega séð, heldur einnig hvernig frumbyggjarnir voru langt komnir með að eyðileggja umhverfi sitt af vanþekkingu, er hægt að læra ákveðna lexíu. Sérstaklega ættu þeir sem hafa einangrað sig hugmyndafræðilega frá meginstraumi þekkingaröflunar í heiminum í dag, þ.e. vísindunum, að huga að örlögum Rapa Nui. Annars er hætt við að þeir verði að andlegum styttum líkt og stara upp í himinn á Páskaeyjum, allir eins, allir blindir og allir steinrunnir.
15.9.2008 | 10:37
Sköpunarsinnar í USA eru hættulegir öðrum jarðarbúum.
Þróun er margslungin. Aðeins lítill hluti Þeirra sem fjalla um þróun hvort sem þeir eru með eða á móti, hafa lagt vinnu í að skilja í smáatriðum hvað þróun er. Ef þú kallar þróun feril frá einföldum lífverum til flókinna, geta líffræðingar bent þér á að það sé ekki allskostar rétt. Ef þú kallar þróun kenninguna um að hinir hæfustu komist af, munu líffræðingar segja þér að það sé aðeins hluti af mörgum þáttum sem stjórna þróun. Fullyrtu að að þróun sé staðreynd og líffræðingar munu segja þér að hún sé líka kenning. Segði að hún sé kenning og líffræðingar munu segja þér að hún sé líka staðreynd. Það er ekki að furða þótt margir hristi hausinn yfir þessu og spyrji af hverju sé ekki til einfalt svar við spurningunni hvað er þróun.
Svarið er auðvitað að vísindalegar staðreyndir eru jafn einfaldar eða flóknar og náttúran leyfir og náttúran tekur ekki tillit til þeirrar þarfar margra okkar að fá allt skýrt í fimm sekúndna löngum setningum. Það gilda sömu lögmál hvað þetta varðar; um vísindi og heimsspeki. Eðli viðfangsefnisins krefst nákvæmni og þolinmæði.
Sköpunarkenning Biblíunnar er ómótstæðilega aðlaðandi (fyrir þá sem ekki vilja leggja á sig að skilja) og einföld. "Guð gerði það." Heimspekilega forsendan sem gengið er út frá er svo einföld að börn geta skilið hana. "Þú getur ekki sannað að Guð sé ekki til". Framhaldið er auðvelt. Þú þarft engar skýringar því þú hefur allt sem til þarft í hnotskurn í sköpunarsögu Biblíunnar. Og það er satt, vegna þess að efnislega er sköpunarsagan svo einföld að hún rýmast auðveldlega í hnotskurn.
Í flestum löndum hins vestræna heims er sköpunarsagan sem betur fer ekki kennd í skólum sem möguleg skýring á tilurð alheimsins. Þessu er því miður ekki eins farið í Bandaríkjunum. Þetta skýrir að hluta þá gjá sem er að myndast milli heimsmyndar Bandaríkjamanna og Evrópumanna.
Í Bandaríkjunum hafa sköpunarsinnar svokallaðir (ég á við þá sem trúa á bókstaflega túlkun sköpunarsögu gamla testamentisins) reynt að spyrna gegn þróunarkenningunni á öllum sviðum mannlegs samfélags. Fræðileg og vísindaleg deila þeirra var stutt og snörp og þeir töpuðu þeirri umræðu skiljanlega snemma á 20 öldinni. Í dag reyna fáir sköpunarsinna að nota vísindi að einhverju ráði til að verja þá fásinnu að jörðin sé aðeins 6000 ára gömul og að allar lífverur jarðarinnar fyrr og síðar hafi myndast í því formi sem þær eru fyrir skipun Guðs og þær hafi síðan siglt með Nóa í syndaflóðinu.
Eftir að málefnalega umræðan var töpuð reyndu sköpunarsinnar að taka málstað sinn fyrir dómstólanna. Kirkjufeðrunum til forna hafði gagnast sú aðferð ágætlega á þeim tíma þegar lög og biblíubókstafur fóru saman. En ekki í þetta sinn. Sköpunarkenningin stóðst ekki fyrir dómsstólum.
Sköpunarsinnar voru ekki á því að gefast upp og tóku baráttu sína inn á það svið sem fæstum reglum lýtur þ.e. stjórnmálanna. Þar loks náðu þeir árangri. Talið er að 45% Bandaríkjamanna trúi því að Guð hafi skapað manninn í núverandi mynd fyrir 6000 árum.
Nú er svo komið að vinsælustu stjórnmálmenn Bandaríkjanna eru dyggir stuðningsmenn hinnar biblíulegu sköpunarkenningu. Þar með vísa þeir á bug niðurstöðum sem byggja á fjölda mismunandi vísindagreina og sanna að þróun er hluti af náttúrunni.
Þeir draga þar með í efa fjölda vísindalegra staðreynda sem eru undirstöðuatriði í líffræði, læknisfræði, efnafræði og jafnvel stærðfræði. Þeirra skoðun er að Guð hafi skapað heiminn eins og honum er lýst í Biblíunni og láti hann bara líta út eins og Vísindin lýsa honum til þess að reyna á trú okkar. Þannig virkar t.d. geislafræðin ekki í þeirra augum því hún sannar að til eru hlutir í alheiminum og á jörðinni sem eru meira 6000 ára gamlir.
Allt í efnafræðinni og lífræðinni sem sanna að sumir hlutir geti ekki verið til nema af því að þeir hafa fengið hundruð þúsundir ára til að myndast, eru falsvísindi í þeirra augum.
Nú reyna pólitíkusar sem aðhyllast sköpunarsöguna meira að segja að fá skóla til að breyta gildi Pi til samræmis við þá tölu (slétta 3) sem grunnflötur musteri Salómons í Biblíunni var reiknaður út frá.
Fáfræði er skaðleg og sköpunarkenningin sem hluti af pólitískri sannfæringu stjórnmálamanna í Bandaríkjunum gerir þá hættulega öðrum jarðarbúum. Ef heldur fram sem horfir verður litið á afleiðingu bókstafstrúar Votta Jehóva sem ekki vilja þiggja blóð þegar þeir þurfa á blóðgjöf að halda, sem smá sérvisku, miðað við afleiðingarnar af afneitun vísinda í þeim mæli sem sköpunarsinnar gera.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (303)
9.9.2008 | 17:17
Blásokkur
Í kring um 1750 varð til kvennahreyfing á Bretlandi sem kenndi sig við bláa hásokka og var kölluð blásokku-hreyfingin. Að mörgu leiti var um að ræða stælingu á franskri hreyfingu með áþekku nafni en áherslur þeirrar ensku voru öðruvísi þar sem þær lögðu meiri áherslu á menntun og samvinnu frekar en einstaklingshyggjuna sem einkenndi frönsku hreyfinguna.
Stofnandi ensku blásokku-hreyfingarinnar hét Elizabeth Montagu.Hún kallaði saman nokkrar aðalskonur í einskonar bókaklúbb. Til sín buðu konurnar ýmsum fyrirlesurum þar á meðal hin fræga útgefanda og þýðanda Benjamín Stillingfleet. Segir sagan að hann hafi verið svo fátækur að hann hafi ekki haft efni á að klæðast hinum svörtu silkisokkum sem tilheyrðu viðhafnarklæðnaði þess tíma og í staðinn komið í hversdaglegum bláum sokkum. Þannig fékk hugtakið blásokkahreyfing þá merkingu að hugsa meira um menningarlegar samræður heldur en tískuna sem fram að því þótti eina sæmilega umræðuefni kvenna.
Hreyfingin varð að lauslega samanhnýttum samtökum forréttinda kvenna sem höfðu áhuga á menntun og komu saman til að ræða bókmenntir. Konurnar áttu það sameiginlegt að vera ekki eins barnmargar og flestar stöllur þeirra á Bretlandi á þeim tímum. Menntun kvenna afmarkaðist öllu jöfnu við saumaskap og bandprjón og aðeins karlmenn fengu aðgang að háskólum. Það var talið afar "óaðlaðandi" fyrir konur að kunna latínu eða grísku og sérstaklega framhleypnilegt ef þær vildu verða rithöfundar. Það þótti sjálfsagt mál að fertug kona væri fáfróðari en tólf ára drengur. Blásokkurnar héldu enga meðlimaskrá og fundir þeirra voru óformlegir, sumir fámennir aðrir fjölmennir. Yfirleitt voru þeir í formi fyrirlestra um stjórnmál og bókmenntir þar sem boðið var upp á samræður á eftir ásamt te og kökubita.
Margar af blásokkunum styrktu hvor aðra í viðleitni þeirra til að mennta sig frekar með lestri, listgerð og skrifum. Meðal þeirra sem mest bar á eru Elisabeth Carter(1717-1806) sem gaf út fjölda ritgerða, ljóðabækur og þýddi Epictetus á ensku. Þá ber að geta Önnu Miegon sem samdi samtímalýsingar á konum og gaf út á bók sem ber heitið Biographical Sketches of Principal Bluestocking Women.
Þótt að blásokku-hreyfingin yrði ekki langlíf og yrði á meðan hún lifði fyrir barðinu á hæðni karla og þeirra kvenna sem ekki sáu tilgang í menntun, hafa margir seinni tíma rithöfundar orðið til að benda á að í henni megi finna neistann sem seinna varð að báli kveinréttindabarátunnar á vesturlöndum
8.9.2008 | 20:53
Hjúkka
Sjúkrahús eins og aðrar mannlegar stofnanir hafa ekki ætíð verið til. Í byrjun níttjándu aldar voru aðeins tvö sjúkrahús starfrækt í Bandaríkjunum og árið 1973 voru þau aðeins 178. Ástæðan fyrir því að sjúkrahús voru ekki stofnsett almennt í ríkjum heims fyrr en í byrjun tuttugustu aldar, var að umönnun sjúkra var álitið í verkahring fjölskyldunnar. Hræðsla við sjúkleika ókunnugra, smit og hvers kyns líkamslýti áttu sinn þátt í að koma í veg fyrir þróun líknarstarfa á samfélagslegum grundvelli.
Assýríumenn og nánast allar siðmenningar í kjölfar þeirra, breiddu út þann boðskap að sjúkleiki væri refsing fyrir syndir manna sem aðeins gæti læknast með iðrun eða með göldrum. Þar af leiðandi var lítil virðing borin fyrir þeim sem reyndu að veita sjúkum líkamlega aðhlynningu og það féll venjulega í hlut ekkna, skækja eða atvinnulauss sveitafólks. Hjúkrun var oftast ekki launað starf og þeir sem hana lögðu fyrir sig gátu í besta falli búist við húsaskjóli að mat að launum og voru ávallt skilgreindir sem þjónar. Í lögum Theodusar Keisara (438 EK) var hjúkrunarkonum bannað að sækja leikhús vegna "óskammfeilni þeirra, grófleika og ofbeldishneigðar".
Stundum voru líknarstörf stunduð af þeim sem sögðu líkn vera dyggð og vildu mótmæla grimmd heimsins. Rómverska konan Fabíóla var eins slík. Hún var tvískilin og náði að sefa óhamingju sína með því að gerast kristin og setja á stofn sjúkrahús þar sem hún vann sjálf myrkrana á milli við að hjúkra hverjum þeim sem að garði bar. Annar var Basil Hinn Mikli, biskup í Caesarea (300-79 EK) sem lét byggja heilt úthverfi þar sem hann gat líknað sjúkum og hrjáðum, kysst holdsveika til að sýna þeim stuðning og sinnt þörfum þeirra. Öðru fólki þótti þetta líknarstarf vera tilraun til að snúa öllu við á annan endann. Þannig varð til þriðja ástæðan fyrir því að líkn næði að verða samfélagsleg ábyrgð, því flesta langaði alls ekki að verða píslarvottar, munkar eða nunnur, hvers sál skipti meira máli en líkaminn.
Árið 1633 var Líknarsystra-reglan stofnuð í Frakklandi sem varð að fyrirmynd góðhjartaðra kvenna sem stunduðu mannúðarstörf í Evrópu og Ameríku. - Þær bjuggu ekki í klaustrum né sóttust þær eftir heilagleika með íhugun og bænum. Þær ferðuðust um Frakkland og seinna til annarra landa og aðstoðuðu sjúka og hugguðu bæði sorgmædda og fátæka. Samt nálguðust þær starf sitt eins og af yfirbót eða sem píslarvætti.
Stofnendur þessarar líknarreglu voru undraverðir einstaklingar sem sameinuðu krafta sína í sönnum kærleika. Vincent de Paul (1581-1660) var fátækur bóndasonur sem var rænt af sjóræningjum og hnepptur í þrældóm í Túnis í a.m.k. ár þangað til honum tókst að flýja. Louise de Marillac (1591-1660) var ósligetið barn aðalsmanns sem var alin upp sem "bæði kona og maður". Hún hlaut nokkra menntun í heimsspeki og málaralist, giftist konunglegum ritara og þjáðist af þeirri hugsun að hún ætti að skilja við mann sinn og gera eitthvað þarflegra við líf sitt. - Þau trúðu bæði að hver betlari væri Kristur á jörðu og hver sjúklingur væri að upplifa krossfestingu hans. Þess vegna ætti að líkna þeim og þjóna í mikilli auðmýkt. Til að ná sannri auðmýkt ætti hjúkrunarkonan að vinna á ókunnum slóðum. "Það er nauðsynlegt að líkna ókunnugum" sögðu þau. Hamingja til handa þeim sjálfum var ekki markmið heldur að miðla hamingju og ánægju þrátt fyrir erfiðleika og mótlæti. Haft er eftir Louise að ekki hafi dagur liðið á ævi hennar án sársauka.
Allar þær væringar sem urðu á seinni tímum meðal stétta í umönnunarstörfum voru fyrir séðar af þessum tveimur dýrlingum.- Þau voru staðráðin í að koma í veg fyrir valdastreitu meðal reglusystkina sinna með því að láta þær skiptast á um að sjá um skipulagningu og neita öllum um sérréttindi og yfirráð. Fyrirmyndin að sjálflausu hjúkrunarkonunni varð þar með til.
En þessi fyrirmynd var ekki gallalaus. Hjúkrunarstörf voru unnin bæði af bæði körlum og konum sem önnuðust sjúklinga hvert af sínu kyni. Á sautjándu og átjándu öld varð hjúkrun að kvennastarfi eingöngu. Þetta opnaði mikla möguleika fyrir konur en með ófyrirsegjanlegum og hörmulegum tilfinningalegum afleiðingum. Fólk fór að trúa því að að konur einar gætu sinnt hjúkrunarstörfum og að slík störf væru sambærileg við húsmóðurstörf sem auðvitað voru á endanum háð yfirvaldi karlmannsins.
Yfirmaður skurðdeildarinnar við Sjúkrahúsið í New York lét fara frá sér þá yfirlýsingu árið 1860 að; "karlmenn, þótt þeir séu öllum kostum gæddir, geta ekki komið á móts við þarfir hinna sjúku. Þeir hafa ekki tilfinningu fyrir því sem með þarf". Álitið var að konur einar réðu yfir þeirri næmni sem þurfti til að hjúkra sjúkum á fullnægjandi hátt.
Á liðnum öldum heyrði það til undantekninga að læknar störfuðu við sjúkrahús, enda voru þau að mestu geymslur fyrir fátæklinga. Starf hjúkrunarkvenna var að mestu fólgið í að gefa sjúklingunum að borða, enda var það hungrið sem hrjáði fátæklingana mest. Seint á átjándu öld mótmæltu læknar því að besta leiðin til að lækna sjúka væri alltaf að gefa þeim sem mest að borða og hófu að taka stjórn sjúkrahúsa í sínar hendur. Þeir umbreyttu sjúkrahúsunum smám saman í rannsóknastofnanir þar sem beitt var tæknilegum lausnum til lækninga sjúkdóma í stað þess að einblína á andlega heilsu sjúklingsins. Loks fór svo að sjúkrahús urðu að vísindastofnunum sem hægt var að reka á fjárhagslegum grundvelli og þar með náði tæknin og virðingarsessinn yfirhöndinni. Líknin hvarf ekki en varð að undirsáta framleiðninnar.
Florence Nightingale sagði eitt sinn; "Ég hlakka til þegar öll sjúkrahús verða aflögð". Hún var talsmaður þess að hjúkrun færi fram á heimilum og varaði við því að hjúkrunarkonur myndu verða harðbrjósta af of mikilli læknisfræði. "Þú getur ekki orðið góð hjúkrunarkona án þess að vera góð kona" sagði hún.
Í dag, þegar heimurinn dáist að hjúkrunarfólki hvar sem það er að störfum í heiminum er það undarvert að þeim er gert erfiðara fyrir en nokkru sinni fyrr að stunda starf sitt með ánægju. Óánægja hjúkrunarfólks er meira en sambærilegar menntastétta. Ástæðan er ekki endilega lágt kaup, sem er samt staðreynd, heldur að því finnst það vera hindrað í að gefa sjúklingum þá umönnun sem það telur sæmilega og sá mikli ágreiningur sem er á milli gilda heilbrigðikerfisins og þeirra. Samhliða þessum ágreiningi þarf fólk í umönnunarstörfum að takast á við streituna sem skapast af því að halda stöðugt utan við umræðuna því sem viðkemur kynlífi, úrgangi og dauða sjúklinga, allt mál sem enn eru tabú meðal almennings.
Heimildir;
An Intimate history of Humanity Theodore Zeldin
A History of Civilizations Fernand Braudel
Society Sketches in the XVlllth Century Norman Pearson
Trúmál og siðferði | Breytt 9.9.2008 kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.8.2008 | 19:35
Glastonbury þyrnir
Arfsögn sem fyrst er skráð á sextándu öld af ókunnum skrásetjara, segir frá ferð Jósefs af Arimaþeu, auðugum frænda Jesú, til Bretlands eftir krossfestingu frelsarans. Förin var farin í þeim erindum að boða hina nýju trú. Jósef átti göngustaf einn góðan, gerðan af þyrnitré, af sömu tegund viðar og kóróna Krists var ofin úr þá hann var krýndur af hæðnum ítölskum hermönnum fyrir krossfestinguna.
Þreyttur af langri göngu á refilstigum Bretlands, lagðist Jósef til svefns þar sem nú rís Glastonbury hæð. (Á þeim tímum var hæðin umleikin vatni á alla vegu) Hann stakk staf sínum í mjúkan svörðinn og sofnaði. Þegar hann vaknaði, hafði stafurinn tekið rætur og óx af honum mikill þyrnimeiður.
Í tímanna rás hefur þessi þyrnir vaxið við og í nágrenni Glastonbury og greinir sig frá öllum öðrum þyrnum af svipuðum ættum með að blómgast tvisvar á ári; um jól og um páska. Þyrnirinn er af algengri ætt þyrnirunna (Crataegus monogyna) sem finna má um alla Evrópu og Austurlöndum nær, en þær bera blóm aðeins einu sinni á ári.
Samkvæmt arfsögninni endurnýjaði hið upphaflega tré sig á hundrað ára fresti þar til það var höggvið af hermönnum Cromwells í bresku borgarastyrjöldinni, vegna gruns um að tréð stuðlaði að hjátrú meðal íbúa Glastonbury og Somerset-sýslu.
Einhvern veginn tókst að bjarga kvislingi af trénu og hann gróðursettur aftur í bakgarði biskupsins og þar stóð þyrnirunni af þessum sérstaka meið allt fram til ársins 1991. Það tré hafði staðið í áttatíu ár þegar það visnaði. Aftur var kviðlingum plantað af því tré og er þá nú víða að finna í Glastonbury-bæ.
Snemma varð að hefð að senda afskurð af "hinum blómstrandi heilaga þyrni" til Buckingham hallar á jólum og er þeim sið en fram haldið. Er það elsti nemandi St Johns Infants School í Glastonbury sem fær þann heiður að færa þjóðhöfðingjanum afskurðinn.
Allar tilraunir til að endursá fræjum þyrnisins hafa endað í venjulegum þyrni, (Crataegus oxyacantha praecox) þ.e. þeim sem aðeins blómstrar einu sinni á ári; að vori.
18.8.2008 | 17:30
Svínin hans Bladuds
Út um allar grundir í borginni Bath getur að líta svín sem hafa verið máluð og skreytt listilega af hagleiksmönnum borgarinnar. Þau eru eitt hundrað að tölu og voru gerð til þess að minnast stofnunar Bath-borgar af konunginum Bladud sem þjóðsagan segir að hafi verið fyrstur til að reisa þar mannvirki. Hvernig svínin koma þar við sögu, getið þið lesið um hér að neðan, þar sem ég hef tekið saman helstu atriðin úr þjóðsögunni um Bladud.
Bath er sögufræg borg og þar hafa fundist mynjar um mannvistir langt aftur úr steinöld. Líklegast er þó talið að það hafi verið Rómverjar sem fyrstir ákváðu að nýta sér heitavatnslindirnar sem þar eru að finna en þeir nefndu staðinn Aquae Sulis (Vatn Sulis) . Þeir byggðu þar rómverskt bað um miðja fyrstu öld E.K. og er hluti þess enn í notkun. Þetta ku vera eini staðurinn á Bretlandseyjum þar sem heitt vatn (ca 46 gráðu heitt) seytlar upp úr jörðinni. Bretar hafa um aldir haft mikla trú á lækningarmætti vatnsins og við lindirnar var reist sjúkrahús fyrir holdsveika snemma á elleftu öld og stendur það enn. Seinna á átjándu og nítjándu öld varð Bath að helstu slæpingjaborg breska aðalsins og vinsæll dvalarstaður hóstandi skálda.
Sagan af Bladud
Eitt sinn ríkti konungur yfir Bretlandi sem hét Rud Hud Hudibras. Þetta var á þeim tímum sem konungur og ríkið voru eitt og svo lengi sem konungurinn var sterkur og heilbrigður, farnaðist landinu og íbúum þess vel. Hann átti son einn fríðan sem hét Bladud og skyldi hann erfa ríkið að föður sínum gengnum. Hudibras sendi Bladud til mennta alla leið til Grikklands þar sem hann lærði öll þau vísindi sem lærðustu menn þess tíma kunnu. Þegar hann snéri heim hafði hann í för með sér fjóra heimspekinga sem stofnuðu háskóla í Stamford í Lincolnsýslu. Á ferð sinni til baka frá Aþenu smitaðist Bladud af holdveiki. Hudibras þótti ekki tilhlýðilegt að holdsveikur maður tæki við völdum af sér og rak því Bladud í burtu og gerði hann útlægan frá hirð sinni. Niðurlægður og vafinn sóttarbindum hélt Bladud í burtu frá Lundúnum. Hann eigraði um landið en settist að lokum að í þorpinu Swainswick og gerðist svínahirðir. Swainswick er í nágrenni þeirrar borgar sem nú nefnist Bath.
Dag einn sat Baldud og gætti svínanna. Allt í einu tóku þau á rás og héldu í átt að skóglendi einu þar sem eymyrju mikla lagði upp af jörðinni. Bladud vissi að bændurnir í kring höfðu illan bifur á þessum stað og töldu illa anda vera þar á sveimi. Svínin hlupu eins óð væru beint inn í skóginn og Bladud átti þess einan kost að fylgja þeim eða tapa þeim öllum ella. Inn í skóginum lá eymyrjan yfir öllu og mikill óþefur var í loftinu. Bladud hafði samt ekki farið langt þegar hann kom að rjóðri þar sem svínahjörðin veltist um í daunillri eðju. Bladud óð út í eðjuna og streittist við að toga svínin upp úr henni og reka þau til baka.
Loks þegar öll svínin voru kominn upp úr foraðinu, var Bladud orðin svo þreyttur að hann skreið á fjórum fótum upp úr eðjunni og steinsofnaði. Þegar hann opnaði augun aftur sá hann geislandi hvítklædda veru standandi yfir sér. Bladud vissi að þetta var engin önnur en Minerva Sulis sú sem Grikkir kölluðu Aþenu. "Mundu mig þegar þú tekur við riki þínu" mælti gyðjan. Svo leystist hún upp og sameinaðist gufunni sem lagði upp af eðjunni.
Bladud sá að svaðið hafði myndast við að heitt vatn streymdi upp úr jörðinni. Bladud týndi nú af sér leppana og hugðist þvo af þeim mesta leirinn í heita vatninu en sér þá að hold hans var hvergi opið og að hann er orðinn alheill sára sinna.
Bladud vissi að nú gæti faðir sinn ekki snúið sér burtu og því héllt hann til baka til Lundúna og var þar fagnað vel. Tók Bladud við ríki föður síns eftir andlát hans og ríkti í 20 ár. Minnugur orða gyðjunnar lét hann byggja hof yfir heitavatnsuppsprettuna og tileinkaði það Mínervu Súlis. Varð hofið strax fjölsótt af þeim sem sjúkir voru og læknuðust allir við að taka inn vatnið eða baða sig í leirnum sem það rann ofaní.
Þegar að Bladud tók að eldast, fékk hann mikinn áhuga á öllu sem viðkom flugi. Taldi hann líklegt að maðurinn gæti flogið eins og fuglinn svo fremi sem það tækist að smíða vængi úr nógu léttu efni. Lét hann gera sér vængi úr ýmsum efnum og gerði nokkrar misheppnaðar tilraunir til flugs. Loks fékk hann gerða vængi úr stráum og vaxi sem hann taldi að mundu duga. Hann lét boð út ganga að hann mundi reyna vængina sjálfur á ákveðnum degi og mundi flugið hefjast á hæð einni nálægt hofinu sem hann hafði byggt fyrir Súlis. Á þessum tiltekna degi safnaðist aragrúi af fólki saman fyrir neðan hæðina og fylgdist þar með konungi sínum hlaupa af stað og baða út vængjunum sem hann hafði látið reyra við handleggi sína. Og viti menn, nákvæmlega á því augnabliki sem allir önduðu frá sér eftir að hafa haldið niður í sér andanum af eftirvæntingu, tókst Bladud á loft. Hann flaug í hringi yfir mannfjöldanum og svo tók hann stóran sveig inn yfir skóginn. Hann lét sig svífa niður að hofinu og hvarf ásjónum fólksins inn í heita gufuna sem lagði upp af því. Þegar hann kom ekki aftur út úr gufunni var farið að athuga hvort hann hefði hugsanlega lent í skóginum. Skömmu seinna fannst Bladud með bráðnaða og brotna vængi liggjandi á altarinu fyrir utan hofið með svöðusár á höfði og voru dagar hans þar með allir.
Sonur hans tók við völdum en hann hét Lér og var gerður ódauðlegur í einu verki ónefnds rithöfundar, löngu, löngu seinna.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.8.2008 | 10:41
Ensk þjóðasaga
Kevan Manwaring, sögumaður og rithöfundur segir gamla þjóðsögu af tilurð eins af mörgum steinhringjum sem finna má í suðvestur Englandi.
13.8.2008 | 23:56
Kom, synti og sigraði og sigraði og sigraði og ...
Það eru allar líkur á að hinn 23 ára Michael Phelps frá Baltimore í Marylandfylki vinni 8 eða 9 Ólympíugull á þessum leikum og verði krýndur af heimspressunni Ólympíumeistari allra tíma. Hann vann fimmta gullið í dag og hefur þá unnið samtals 11 gull, sex þeirra á síðustu leikum í Aþenu. 36 gull eru í boði fyrir sund af um 300 á öllum leikunum. Það er hlutfallslega óeðlilega há tala miðað við aðrar íþróttagreinar finnst mér.
Michael Phelps er sundkappi mikill sem var lagður í einelti í skóla og borðar nú 12000 hitaeiningar á dag. Hann keppir í þeirri íþróttgrein á Ólympíuleikunum sem flesta undirflokkar hefur og er þar af leiðandi hægt að vinna flest gullin í. Þar að auki keppir hann í einni að fáum greinum þar sem þú keppir ekki uppréttur heldur þarft að liggja flatur á maganum eða á bakinu mestan tímann og í frekar framandi umhverfi. Geimfarar t.d. æfa sig fyrir ferðir út í geiminn í vatni.
10.8.2008 | 16:32
Bahá'íar vísa á bug staðhæfingum um niðurrifsstarfsemi í Íran
Alþjóðlega bahá'í samfélagið vísar eindregið á bug yfirlýsingum íransks saksóknara þess efnis að sjö bahá'íar sem hafa verið settir í varðhald í Teheran í Íran hafi játað" starfrækslu ólöglegra" samtaka með tengsl við Ísrael og önnur ríki.
Við höfnum alfarið og eindregið þeim getgátum að bahá'íar í Íran hafi tekið þátt í einhvers konar niðurrifsstarfsemi", segir frú Bani Dugal, aðalfulltrúi Alþjóðlega bahá'í samfélagsins hjá Sameinuðu þjóðunum, og hún bætir við: Bahá'í samfélagið blandar sér ekki í stjórnmál. Eini 'glæpurinn' sem þessir sjö einstaklingar hafa framið er að iðka sína trú."
Ásakanirnar eru hins vegar alvarlegar og því óttumst við um líf og afdrif þessara sjö einstaklinga," segir frú Bani Dugal enn fremur.
Frú Bani Dugal er með þessum yfirlýsingum að svara skýrslu í dagblaði í Íran með yfirlýsingum Hasan Haddad, aðstoðarsaksóknara öryggismála við íslamska byltingardómstólinn í Teheran.
Frú Bani Dugal segir að þeir sjö bahá'íar sem voru hnepptir í varðhald fyrr á þessu ári hafi verið fulltrúar í nefnd sem ætlað var að sjá fyrir þörfum þeirra 300.000 bahá'ía sem eru í Íran.
Og það hvílir engin leynd yfir því stjórnvöld vissu fullkomlega um tilurð þessarar nefndar löngu áður en fulltrúar hennar voru fangelsaðir, alveg eins og að stjórnvöld vita mjög vel að þetta fólk tekur ekki þátt í neinni leynistarfsemi," segir frú Bani Dugal enn fremur.
Frú Bani Dugal segir að fangelsanirnar séu hluti af mjög vel skjalfestri og margra áratuga langri herferð til þess að uppræta Bahá'í samfélagið í Íran, og að þessar ásakanir nú fyrir skömmu séu sömu gerðar og aðrar tilhæfulausar ákærur þar á undan.
Getgátur um leynimakk með Ísraelsríki eru óyggjandi rangar og misvísandi. Írönsk yfirvöld eru að vísa til þess að alþjóðleg stjórnsýslumiðstöð bahá'ía er staðsett í Haifa í Ísrael," segir frú Bani Dugal enn fremur.
Írönsk stjórnvöld líta algjörlega framhjá þeirri velþekktu sögulegu staðreynd að bahá'í trúin var með höfuðstöðvar sínar í Íran fram til ársins 1853, þegar yfirvöld vísuðu boðbera og stofnanda bahá'í trúarinnar úr landi og neyddu hann í útlegð og að endingu í fangelsi í borginni 'Akká við strendur Miðjarðarhafsins, sem þá heyrði undir tyrknesku stjórnina. Svo vill til að 'Akká er á því svæði sem nú er nefnt Ísrael."
Frú Bani Dugal segir einnig að margir bahá'íar í Íran þar á meðal fulltrúar samhæfingarnefndarinnar áður en þeir voru hnepptir í varðhald sæti stöðugt fangelsunum og séu þá spurðir um hvers konar starfsemi þeir taki þátt í. Hún segir einnig að bahá'íarnir hafi ekkert að fela og reyni að svara og segja satt og rétt frá í öllum yfirheyrslum
New York, 3. ágúst 2008 (BWNS)
9.8.2008 | 00:41
Það sem ég held um hamingjuna; heimatilbúin heimspeki.
Hver sem við erum, hvað sem við gerum , eigum við eitt sameiginlegt; við erum öll að eltast við hamingjuna. Ég geng að því sem gefnu að mismunandi skilningur sé lagður í hugtakið "hamingja" en ég geng líka að því sem gefnu að við þráum öll hugaró, velværð og góða heilsu. Það er vissulega hluti af hamingjunni.
Ég held að hamingja allra standi á þremur stöplum. Þeir eru þessir; sköpun, þjónusta og þekking. Með þessu er ég ekki að meina bara eitthvað, heldur nákvæmlega það sem orðin þýða.
Ég held að enginn geti verið hamingjusamur án þess að skapa eitthvað. Flestir eru sí skapandi, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því. Auðvitað er listræn sköpun hluti af jöfnunni en ég á fyrst og fremst við hversdagslega hluti eins og matseld, sem er afar skapandi og getur verið afar listræn. Að þvo og strauja þvotta er líka list og mikil sköpun æi því ferli fólgið. Jafnvel að þrífa sjálfan sig og umhverfi sitt heyrir undir sköpun.
Ég held lík að enginn geti orðið hamingjusamur án þess að þjóna einhverju eða einhverjum. (Ég gæti alveg eins notað orðið að elska í staðinn fyrir að þjóna) Margir finna hamingju í að þjóna ástvinum sínum, fjölskyldu sinni eða jafn vel samfélaginu. Sumir setja markið enn hærra og þjóna heiminum. Ef þeim tekst það verða þeir hamingjusamastir allra. Svo eru aðrir sem þjóna bara sjálfum sér og eignum sínum. Þeir eru óhamingjusamastir allar.
Ég held að engin geti verið hamingjusamur án þess að þekkja, sig, umhverfi sitt, fjölskyldu sína og umheiminn. Þekkingarþörfin gerir okkar að mönnum og virkar eins og óseðjandi fíkn. Við þurfum stöðugt að vita, jafnvel það sem ekki er hægt að vita. En þekkingaröflunin gerir okkur samt hæfari, betri og hamingjusamari persónur. Þetta er það sem ég held um hamingjuna.