Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
30.9.2008 | 14:12
Blekpennar senda frá sér ruslpóst
Eitthvað er ekki að virka þarna hjá Blekpennum.Com. Nú eru þeir farnir að senda bloggin sín beint til fólks á þær tölvupósta addressur sem þeir hafa komist yfir. Ég hef ekki skráð mig á Blekpennar.com eða óskað eftir svona ruslpósti, en það virðist ekki skipta neinu máli.
Í morgun var ruslpóstur frá Skúla Skúlasyni í tölvu póstinum mínum; enn eitt framlag hans í anda hrydjuverka. Hann er að hallmæla Bandaríkjastjórn fyrir að gera ekkert í málum Saudí Araba, eins og t.d. að hætta að kaupa af þeim olíu, vegna þess að þeir styðja hryðjuverkasamtök. - Hræsni Bandaríkjamanna er löngu kunn hvað þetta varðar, en Skúli var greinilega að fatta þetta fyrst núna.
En aftur að Blekpennum.com þá eru þeir greinilega orðnir úrkula vonar um að nokkur komi til að lesa þá, fyrst þeir verða að grípa til svona "direct marketing" bragða. En slíkt virkar bara einu sinni. Hér eftir getur maður eitt póstinum um leið og ljóst er hvaðan hann er. Meðal bloggara hefur friðhelgi tölvipósta heimilisfanga verið virt og þær aðeins notaðar fyrir persónuleg samskipti og athugasemdakerfin látin duga öðru leiti.
Ég hef líka orðið var við að orðsendingakerfið hér á blog.is er notað í auknum mæli til að vekja athygli á færslum bloggara. Satt að segja finnst mér það líka óviðeigandi. Það er allt í lagi þegar mikið liggur við, en ekki svona almennt finnst mér.
-----------------------------------------------------------------------
Ég vil aftur vekja athygli á skoðunarkönnuninni hér til hliðar þar sem spurt er um hvort jafnrétti ríki á Íslandi.
30.9.2008 | 11:04
Er jafnrétti á Íslandi?
Í framhaldi af fjörugum umræðum um kvenréttindi í Íslam, vaknaði spurningin um hversu margir telja að á framfara og mennta-landinu Íslandi, ríki fullt jafnrétti milli kynja í þjóðfélaginu.
Til að kanna þetta meðal blogglesara setti ég upp einfalda skoðanakönnun um þetta efni. Hún er hér til vinstri á síðunni. Hún verður ekki lengi uppi svo endilega dragið ekki að láta skoðun ykkar í ljós.
Skoðanir fólks á hvað jafnrétti er geta örugglega verið mismunandi. Ef að þið kjósið að gera grein fyrir atkvæði ykkar með athugasemd, þá er það velkomið.
29.9.2008 | 00:00
Orð sem öllu breyta
Eins og komið hefur fram í fréttum kom til rósturs á fundi málvísindamanna í gær þegar þeir kynntu niðurstöður sínar úr árlöngum rannsóknum á Galaxíu, hinu heilaga riti 90% jarðarbúa. Málvísindamenn hafa unnið hörðum höndum í 12 ár að flokka og endurþýða hin nýju Galaxíu gögn sem fundust fyrir 15 árum á Tunglinu. Nú hafa niðurstöður þeirra verið gerar opinberar og þær eru líklegar til að valda miklum usla, sérstaklega í röðum einlægra Galaxíu átrúenda sem telja að allt í Galaxíu bókinni sé heilagt orð Guðs almáttugs og það beri að skilja nákvæmlega eins og það er skrifað.
Víst er að margar af niðurstöðum málvísindamananna munu valda umtali og talverðum breytingum á lífi fólks, en engin eins og sú fullyrðing að hin alkunna setning "Bíll er þvottavél" sem á sínum tím gjörbylti gerð bíla í heiminum, sé ekki rétt. Þessi setning úr Galaxíu "Bíll er þvottavél" er auðvitað orsökin að því að fólk hefur í aldir reynt að nota bíla sína sem þvottavélar og jafnvel gert misheppnaðar tilraunir til að hanna bifreiðar sem eru líka þvottavélar. Þær tilraunir hafa aftur á móti leitt til enn flóknari umræðu og deilna því margir benda á að slíkt samræmist ekki anda ritningargreinarinnar.
Sú aðferð, að setja óhreint tau inn í bílinn, fylla hann upp með vatni og þvottaefni og fá svo fjölskylduna í lið með sér til að hrista bílinn og skekja, er enn sú eina sem er almennt viðurkennd sem rétta leiðin til að uppfylla öll skilyrði ritningargreinarinnar hvað bókstaf og anda varðar. Í ljósi þessa eru hinar nýju upplýsingar málvísindamannanna en meira sláandi og eftirmáli hennar enn algjörlega ófyrirsjáanlegur.
Á sögulegum fundi þar sem niðurstöðurnar voru kynntar í gærdag kom fram að í upprunalegum texta Galaxíu er setningin "Bíll er þvottavél" í fjórum orðum þótt í flestum þýðingum telji setningin aðeins þrjú orð.
Í upprunalega textanum eru það orðin, "bíll" sem er augljóst og auðskilið. Orðið "er" kemur næst en það getur einnig þýtt "að eiga" eða "skal vera". Þar næst er orðið "þvo" og að lokum orðið "vél". Snemma á sjöttu öld E.G. komu fræðimenn sér saman um að orðin "þvo" og "vél" gætu aðeins átt við og þýtt "þvottavél".
Það sem olli öllu fjaðrafokinu á fundinum var þegar vísindamennirnir tilkynntu að orðið vél hafi í raun átt að vera; orðið "vel".
Þeir sögu ennfremur að það hefði komið í ljós að blekið í kommunni yfir E-inu sé af allt örðum uppruna enn það sem notuð var til að skrifa allt annað í bókinni með. Ekki er vitað hvernig þessi mistök urðu en helst menn að því að "komman" sé kaffisletta. Setningin í sinni upphaflegri merkingu á því að hljóma svona; "Bíl skal þvo vel."
27.9.2008 | 17:41
Jafnrétti kynjanna og Íslam
Það er alls ekki ætlun mín í þessum pistli að bera á einn eða annan hátt í bætifláka fyrir kúgun kvenna hvar sem hún finnst eða hvaða myndir sem hún tekur á sig. -
Eitt helsta ámæli sem Íslam verður að þola af hendi gagnrýnenda sinna, er hvernig staða jafnréttis kvenna hefur dregist aftur úr miðað við vesturlönd og þau gildi sem þar ráða. - Hið sjálfsagða en nýfundna frelsi kvenna á vesturlöndum til að ráða sjálfar lífi sínu og limum kallar ósjálfrátt á samanburð við stöðu kvenna annarsstaðar í heiminum og oft án tillits til mismunandi menningarheima sem samt sem áður ættu að vera öllum ljóst að eru til staðar.
Í nánast öllum íslömskum ríkjum þola konur almennt gróft misrétti, miðað við þær hugmyndir um jafnrétti kynjanna sem við vesturlandabúar höfum reynt að tileinka okkur á síðastliðinni öld. Þær hugmyndir sem endurspeglast í löggjöf flestra vesturlanda og í menningu þeirra urðu ekki til af sjálfu sér. Að baki þeirra liggur aldalöng barátta við gamla heimsmynd sem haldið var við m.a. af þeim karllægum trúarskoðunum sem vesturlönd voru og eru enn undir áhrifum af. Með aukinni menntun og þekkingu, sem eins og ætíð er eina ganglega vopnið í baráttunni við fáfræðina og hjátrúna, hefur margt áunnist. En enn í dag, þótt almennt sé talað um að fullt jafnrétti ríki, hafa margir hafi orðið til að benda á að enn loði við samfélögin gömul viðhorf og gildismat sem séu meira í ætt við fortíð okkar en hina nýju tíma.
Eitt af einkennum þessara "nýju tíma" er að þeir menningarheimar sem áður virtust hafa rúm á jarðarkringlunni til þess að fara sínar eigin leiðir, þrátt fyrir að rekast stundum illþyrmilega á, eru að breiða úr sér bæði landfræðilega og samfélagslega inn á hefðbundin svæði hvors annars. Til dæmis hefði bygging Mosku á Íslandi fyrir 50 árum hefði verið óhugsandi og óþörf. Í dag eru 500 íslendingar múslímar og þeir vilja byggja sitt tilbeiðsluhús. Sem annarsstaðar í Evrópu hefur gripið um sig sá ótti á Íslandi að Múslímum takist að skyggja á eða jafnvel hafa áhrif á íslensk menningargildi ef þeir fái til þess svigrúm. Algengasta dæmið er; afstaða þeirra til jafnréttismála.
Minnug þess hverju til þurfti að kosta til að koma jafnrétti í lög á Íslandi (og það er ekki langt síðan) skulum við aðeins staldra við og skoða stöðu kvenna undir Íslam í ljósi sögunnar.
Þegar að Múhameð kom fram á Arabíuskaganum á sjöundu öld tókst hann á við að sameina sundraða ættbálka landsins undir einni trú. Trúarboðun hans var komið fyrir í bók sem heitir Kóran. Hún ein hefur að geyma það sem múslímar líta á sem heilagt orð Guðs.
Munnmæli Múhameðs og arfsagnir er að finna í sérstökum samantektum sem kallast Haddíður. Þau eru mannanna verk og hafa ekki sama gildi og Kóraninn, nema fyrir þá sem sjá sér akk í því að skilgreina þau sem slík, öfgamenn, bæði múslímar og andstæðingar þeirra. - Í Kóraninum er að finna lagaákvæði sem urðu að rammalögum fyrri mjög stóran lagbálk sem kallaður er Saría lög. Sum þeirra laga sem í Saría lagbálknum er að finna, eru hreinar túlkanir manna á lögum Kóransins, önnur viðaukar, aftur mannanna verk. Þetta ber að hafa í huga þegar vitnað er í forsendur múslíma fyrir afstöðu þeirra til margra mála sem orðið hafa að ásteytingasteini milli þeirra og nútíma vesturlandabúa.
Á sínum tíma voru lög Múhameðs mikil réttarbót fyrir þorra kvenna í Arabíu, sérstaklega hvað varðaði hjúskaparstöðu og eignarétt. Konur höfðu þar lítinn eða engan rétt. Þær voru undirgefnar karlmönnum, feðrum, bræðrum og eiginmönnum. Í sumum tilfellum voru þær eins "búgripir", eign karlmannanna. Þær áttu engan rétt til erfða og voru álitnar algjörlega óhæfar til að fara með mannaforráð eða eignir. Þær voru réttdræpar fyrir fjölda saka og alls óhugsandi sem frumburðir. Þess vegna voru meybörn grafin lifandi í sandinn strax eftir fæðingu ef svo bar undir. Þegar að svarf í búi, sérstaklega meðal fátækra fjölskyldna, voru stúlkurnar drepnar til að karlmennirnir fengju að borða. Þrátt fyrir lög Kóransins, einkum í seinni tíð, hefur þessi slæmi "menningararfur" náð að loða við menningu Íslam.
Þótt að það sé sýnt að bæði Haddíðurnar og Saría lagabálkurinn hafi haldið konum og reyndar flestum íslömskum þjóðfélögum í fornaldargreipum og þau séu á engan hátt til þess fallin að stýra nútíma samfélagi, verður að gera greinamun á þeim og boðun Múhameðs á sínum tíma. En jafnvel hrein lög Kóransins mundu aldrei ná að sinna þörfum nútíma alheimslegs samfélags frekar en lagabálkar Biblíunnar eða Zend Avesta (Zóroasterstrú) svo eitthvað sé nefnt til samanburðar.
Búrkuklæðnaður kvenna, sérstaklega blæjan, er ótvírætt tákn þessara gömlu úreltu viðhorfa. Ég ritaði fyrir löngu grein um fyrstu kvennaréttindakonu Austurlanda, skáldkonuna Tahirih, sem að lokum var hengd fyrir skoðanir sínar. Saga hennar finnst mér lýsa betur enn flest annað þeirri áþján sem konur undir járnaga Saría laga, kreddufullra Haddíða og ofstopafullra klerka sem halda fáfróðum þjóðum í heljargreip vankunnáttu, líða. Sjá hér.
En það er fráleitt engu að síður að nálgast Íslam eða múslíma sem eitthvert glæpahyski eins og gerð hefur verið tilraun til að segja fólki að sé réttlætanlegt. Heimurinn á Íslam að þakka, þrátt fyrir hnignun trúarbragðanna á seinni öldum, fjölda mikilvægra framfara og stuðlaði m.a. að þeirri upplýsingu sem við vesturlandabúar stærum okkur af á góðri stundu.
Nauðsyn fræðslu um það sem að baki liggur viðhorfum framandi menninga, hefur aldrei verið augljósari. Viðhorf breytast ekki án hennar, hvorki okkar sjálfra, né þeirra sem við álítum að okkur stafi ógn af. Íslenskar konur (og karlar) hafa margt fram að bjóða undirokuðum systrum sínum og ættu frekar að líta á það sem tækifæri að hér á meðal okkar skuli búa fólk sem þurfa á reynslu þeirra að halda, heldur en að það sé ógn við öryggi okkar.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (181)
25.9.2008 | 10:45
Óskar Arnórsson læsir bloggsíðu sinni
Fyrir fáeinum dögum fékk ég sérstök skilaboð frá Óskari Arnórssyni bloggara um að mikilvægar upplýsingar um ástand mála hvað varðaði stöðu Íslam í vestrænum heimi hefðu verið birtar á síðu hans. Greinin gaf það í skin að múslímar væru ógn við þjóðaröryggi okkar. Þótt ég sé ekki hlynntur því að skilaboðakerfið á blog.is sé notað til að auglýsa bloggsíður kíkti ég á þessa "mikilvægu" grein hjá Óskari. Mér satt að segja snar brá því það var ekki annað að sjá en að hryðjuverkasíðan sem á sínum tíma var úthýst hér á blog.is fyrir slælegan áróður, væri upprisin.
Ég átti á síðunni nokkur orðaskipti við aðila sem kallaði sig Kaspar og virtist sá vera hallur undir þær skoðanir sem í grein óskars voru tíundaðar og fólu m.a. í sér að réttast væri að fangelsa eða setja í einhvers konar fangabúðir, alla múslíma á Íslandi. - Langflestir sem settu inn athugasemdir lýstu samt innihald greinarinnar og þeirra athugasemda sem studdu hana, óráð eitt.
Í morgun þegar ég ætlaði að athuga með athugasemdirnar, enda kerfið þannig stillt ð ég gæti það, bregður svo við að Óskar er búinn að læsa síðunni. Hann hefur enn ekki sent út um það neinar tilkynningar hvað þá skýringar á þessu athæfi sínu, sem hefði þó verið upplögð nýting á tilkynningakerfinu. Mér þótti það dálítið skrýtið að Óskar tók ekki þátt í umræðunni á síðu hans, nema rétt í byrjun. Kann einhver skýringar á þessu einkennilega athæfi Óskars?
Trúmál og siðferði | Breytt 27.9.2008 kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (160)
23.9.2008 | 23:39
Að hata mannkynið og drepa það
Hvernig verður sú tilfinning til? Hvernig ákveður ungur maður að drepa eins marga og hann getur áður enn hann drepur sjálfan sig? Hver svarar svona spurningum? Er ég kannski ekki að spyrja réttra spurninga? Á ég kannski að spyrja; Hm af hverju ekki? Hvaða ástæðu hefur ungt fólk svo sem til að elska mannkynið?
Ég þekki ekki sögu þessa unga manns Matti Juhani Saari sem drap 10 skólasytkini sín í gær. Ég veit að sjálfsagt er hún jafn einstök og saga drengsins sem gerði það sama í Finnlandi fyrir nokkrum misserum. Og hún er jafn einstök og saga piltanna allra sem gert hafa það sama vítt og breytt um Bandaríkin og í fjölmörgum öðrum löndum heimsins. Allir eiga þeir sína sérstöku sögu, sitt sérstaka uppeldi, sína sérstöku ástvini og sínar sérstöku tilfinningar. Þeir eiga aðeins það sameiginlegt að hafa viljað enda líf sitt og gera það á þann hátt að þeir tækju eins marga af meðbræðrum sínum með sér og þeir gátu.
Eða er það eitthvað annað sem þeir eiga sameiginlegt?
Að hata eitthvað svo mikið að þú sért tilbúin að fórna eigin lífi til að lýsa yfir þessu hatri er auðvitað ákveðin geðveila, ekki satt. Ég er ekki sammála. Mér finnst, eftir að hafa lesið talsvert um æfi þessara óhamingjusömu drengja, sérstaklega þeirra sem gert hafa háskólafjöldamorð fræg að endemum í Bandaríkjunum, að þeir hafi alveg getað dregið þær ályktanir sem þeir gerðu, án þess að vera veilir á geðheilsu. Alla vega ekkert geðveikari en stjórnvöld marga þjóða heimsins. Aðferðin að drepa fólk "to make a point" er vel viðurkennd aðferð notuð af öllum helstu ríkjum heims. Kína, Rússland, Bretland, Frakkland, Bandaríkin, ásamt flestum þjóðum Asíu, Afríku og Suður Ameríku nota þessa aðferð. Hvervegna ættu þegnar þessara landa ekki að draga sömu ályktanir. Óvinir þeirra er heimurinn, mannkyni allt eins og þeir sjá það. Drepum það.
Vegna þessa heyrist lítið um niðurstöður rannsókna sem leita að svörum um hvers vegna þessi borgarlegu fjöldamorð eiga sér stað. Niðurstöður þeirra eru að einstaklingarnir nota sömu rök til að réttlæta gjörðir sínar og stjórnvöld nota til að halda sínum óvinum í skefjum. Stjórnvöld eru meira en fús til þess að fórna ungum lífum borgara sinna við þá iðju. Hver er geðveilan? Og hver er munurinn?
Trúmál og siðferði | Breytt 24.9.2008 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
21.9.2008 | 14:57
Sköpun, þróun eða hvort tveggja?
Fyrir stuttu skrifaði ég greinarstúf um hættuna sem ég tel að stafi af bókstafstrú og öfgafullum birtingarmyndum hennar í samfélaginu. Við greinina voru gerðar vel yfir 300 athugasemdir og tóku þær fljótt á sig svip þess karps sem við þekkjum svo vel af bloggsíðum sem gerðar eru út á það eitt, að því er virðist, að færa sönnur á að sköpunarsaga Biblíunnar standist vísindalega skoðun.
Ég dró mig fljótlega til hlés í þeirri umræðu og svaraði m.a. ekki a.m.k. tveimur fyrirspurnum sem beint var til mín um afstöðu mína til þróunarkenningarinnar út frá persónulegum trúarlegum skoðunum mínum.
Um sama leiti skrifaði ágætur bloggari Kristinn Theódórsson góða gein sem hann nefnir Sköpunarverk Guðs og þar í athugasemd geri ég einmitt grein fyrir því sem um var spurt í umræðunum á minni síðu.
Um leið og ég vil vekja athygli á grein Kristins endurbirti ég hér athugasemd mína við hana sem mér finnst alveg geta staðið sem grein út af fyrir sig. Ég feta þannig í fótspor Arnars Pálssonar sem einnig gerði athugasemd við grein Kristins og birti hana síðan sem sér bloggfærslu sem hann nefnir Dýr skynja dauðan.
Athugasemd mín er svar við spurningu Kristins; "Ertu þú, Svanur, sannfærður um að gögnin bendi til þess að samviskan, kærleikurinn, "sálin" og fleira séu frá einhverju vitrænu afli komin, en geti ekki verið lífræn afleiðing greindar?"
Sem betur fer hefur mannkyninu fleygt áfram í vísindalegi þekkingu og jafnvel þótt erfðafræðin sé enn ung erum við að byrja að fá svör við ýmislegu sem okkur var áður hulin ráðgáta.
Hvaða ályktanir er hægt að draga af þeirri staðreynd að maðurinn hefur eitt síðustu 50.000 árum (og kannski miklu lengur) í að koma sér upp hegðunarmunstri, lagabálkum og öðrum þáttum siðmenningar sem beinast að stórum hluta að því að stjórna og jafnvel bæla niður hvatir sem eru honum erfðafræðilega eiginlegar?
Tökum sem dæmi kynhvöt mannsins. Um daginn kom frétt um það (hún olli talverðu umtali hér á blogginu og var um margt misskilin) að karlmönnum væri eðlilegt samkvæmt erfðafræðinni að breiða gen sín út sem víðast. Þess vegna væri eðlileg svörun við þessu að konur drægjust að þeim karlmönnum (hinum ótryggu) vegna þess að afkomu-gen þeirra væru virkari. Einkvæni stangast sem sagt á við þessar lífrænu hvatir. - Hvaða vitleysis hugmyndir eru þá í gangi um einkvæni og hjónabönd? -
Þróun hugmynda manna um eignarrétt er annað dæmi. Hverskonar lífríki gerir ráð fyrir því að tegundinni sé best borgið með því að 2% af heildinni ráði yfir og eigi 95% af lífsviðurværi hennar? NB að við erum ekki maurar eða býflugur þar sem líffræðilegar forsendur forsjár af þessu tagi eru augljósar. Hvaða óyndisaukalimur þróunarinnar getur orsakað þessa hegðun?
Allt sem ég hef lesið um trúarbrögð og mankynssögu í bland við það litla sem ég þekki til vísinda leggst á eitt með að álykta að maðurinn sé tvíeðla. Hann er dýr og í honum býr dýrseðlið og hann er vitsmunavera sem gerir dýrseðli hans hræðilegt láti hann undan því og hann er vitsmunavera af því hann er meira en afurð lífrænnar þróunar. Þessi sérstaka lífræna þróun hans, þurfti að vera all-sérstæð eins og Óskar kemur inn á, (munurinn á okkur og dýrunum (við erum líka dýr) er þumallinn.. án hans hefðum við enn verið að flýja hýenur í afríku upp í tré ;) til þess að andlegir kraftar hans gætu komið í ljós. Þumallinn hjálpar okkur að ná gripi á áhöldum sem urðu til þess á undarverðum tíma að við sendum apa út í geiminn langt áður en við voguðum okkur sjálfir þangað.
Trú og trúarbrögð eru enn ein erfðafræðilega "mótsögnin". Tilraunir til að skýra fyrirbrigðið með eðlislægri hræðslu við líffræðilegan dauðann eða sem tilraun okkar til að gera áætlanir um framtíðina standast ekki.
Neanderdalsmaðurinn gerði sér altör í hellum sínum og gerði hinum dauðu grafir án þess að hafa ástæðu til að sýna neina fyrirhyggju um framtíð sína frekar en aðrar tegundir mannapa. Hann var veiðimaður og safnari. Samt átti hann greinilega sér átrúnað. Óttinn við dauðann er að mínu mati menningarlegt fyrirbæri. Líffræðilega verður líkaminn með aldrinum stöðugt óhæfari til lífs og erfðafræðilega erum við eins og dýrin hvað það varðar að ef ekki væri fyrir menningarlega þætti, mundum við skríða afsíðis án nokkurrar hræðslu og deyja. Við deyjum meira að segja á hverjum degi án þess að hræðast meðvitundarleysið.
Meðvitundin um sjálf okkur, án tillits til greindar, er annað.
Stundum er sagt að einhver api hafi greind á við sjö ára barn. Samt mundum við aldrei líta svo á að lítil börn hafi ekki sjálfsmeðvitund eða að hún sé í réttu hlutfalli við greind þess. Heili mannsins virðist afar flókið tæki. Við vitum ekki einu sinni til hvers megnið af honum er. Hann getur t.d. skipt um svæði eða tekið í notkun fyrir skemmd svæði önnur heil, fyrir starfsemi sína. Þetta bendir til að hugurinn sé ekki háður heilanum að öllu leiti.
Hugurinn sem reyndar vinnur eftir því sem við best vitum aðeins í gegnum heilann, er svo sterkur að hann fær yfirstigið lögmál líffræðinnar. Með jákvæðu hugarfari styrkist ónæmiskerfið og veikist að sama skapi við depurð og neikvæðni. Það eru sem sagt hugmyndafræðilegar ástæður frekar en líffræðilegar, fyrir ákveðinni hegðun líkamans. Frægt er dæmið um manninn sem lokaðist inn í frystigám í New York á sjöunda áratugnum og fraus í hel. Lík hans sýndi öll einkenni þess að hann hafði króknað úr kulda. Það sem vakti undrun lækna var að frystigámurinn var ekki í gangi og hitastigið inn í honum var um 11 stig.
Persónulega er ég því sannfærður um að maðurinn sé sál (andleg vera og óefnisleg orkueining.Gott dæmi er eins og sólargeisli sem er frá sólinni en ekki hluti af henni lengur) í dýrslegum líkama. Grunnhvatir hennar birtast í manninum í þörfinni til að þekkja og elska. Þessar grunnþarfir kontrasta stöðugt við dýrseðli okkar og er nauðsynlega forsenda fyrir það sem við getum kallað þroska og sá sameiginlegi þroski er það sem við köllum siðmenningu.
Hvort tilvist sálar leiði endilega af sér tilvist Guðdóms er svo annað mál en ég er einnig sannfærður um að svo sé.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (98)
19.9.2008 | 16:20
Falsað silfurmen og ráðagóðir munkar
Fyrir all-nokkrum árum fannst lítið silfurmen í grafreit nokkrum, þegar tekið var fyrir húsgrunni nálægt fornrómversku þorpi sem heitir Shepton Mallet og er hér í Somerset á Bretlandi.
Menið þótti minna um margt á annað men sem grafið var upp í Sussex fyrir meira en 100 árum og er geymt á þjóðminjasafninu í London. Menið frá Shepton Mallet er með áletruninni ´ChiRho' sem er forn kristið tákn fyrir nafn Krists og er samsett úr fyrstu tveimur stöfum nafnsins hans á grísku sem eru svipaðir X og P í okkar stafrófi.
Eftir nokkrar rannsóknir Breska Safnsins (The Bristish Museum) á meninu var það lýst elsti "kristni" munurinn sem fundist hefur á Bretlandseyjum og gröfin elsta kristna gröfin sem fundist hefur í Evrópu. Erkibiskupinn af Canterbury; Lord Carey lét smíða eftirlíkingu af meninu (nema að hún var tvöfalt stærri) og skartaði því við öll tækifæri í skrúða sínum. Hann gerði síðan menið að tákni embættis síns.
Þorpsbúar létu ekki á sér standa og auglýstu þennan fund hvað þeir gátu og brátt fóru að streyma pílagrímar til staðarins.
Nú hefur komið í ljós eftir nákvæmari rannsóknir á meninu að silfrið, sem það er gert úr, er frá 19. öld.
Menið er sem sagt falsað.
Ekkert er vitað um hver falsarinn er eða hvað fyrir honum vakti en ágiskanir hafa heyrst um að hann hafi e.t.v. viljað koma í veg fyrir að verksmiðjuhúsnæði það sem nú stendur á staðnum, yrði byggt.
Auðvitað er Biskupinn miður sín yfir þessum tíðindum og íbúar Shepton Mallet segja að "töfrar staðarins hafi horfið".
Satt að segja minnir þetta atvik um margt á fund munkanna í Glastonbury árið 1190. Svo illa vildi til að klaustur þeirra brann til kaldra kola árið 1184 ásamt öllum helgimunum og safni líkamahluta af dýrlingum sem þar voru varðveittir. Tekjur klaustursins komu að stórum hluta frá pílagrímum sem greiddu vel fyrir blessun þeirra og fyrir að fá að berja herlegheit þeirra augum. Þegar að munkarnir tóku grunninn að nýju klaustri vildi svo vel til að þeir fundu gröf Arthúrs konungs og drottningu hans Guinevere. Þetta vissu þeir af því að undir hellunni sem lá á gröfinni fundu þeir silfurkross með áletrunni Hic iacet supultus inclitus rex Arturius in insula Avallonis sem merkir "Hér liggur grafinn hinn frægi Atrhúr konungur, grafin á Avalon eyju."
Kross þessi var samt fljótur að hverfa og eftir stóð þessi teikning sem gerð var af honum.
Það er auðvitað óþarfi að taka það fram að Glastonbury varð strax og er enn, vinsælasti ákvörðunarstaður pílagríma í Bretlandi.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.9.2008 | 02:00
Hvenær deyrð þú?
Viltu vita hvenær þú munt deyja? Ef ekki, þá skaltu ekki fara á þennan link og svara nokkrum laufléttum spurningum, því ef þú svarar þeim eftir bestu vitund mun "lífreiknirinn" segja þér nákvæmt dánardægur þitt.
Samkvæmt honum mun ég deyja í júlí 2031 og á því um 8300 daga eftir ólifaða svo fremi sem ég verði ekki fyrir slysi. Ef þið hugrökku sálir, viljið vita, og láta svo aðra vita hvenær klukkan glymur ykkur, gjörið svo vel.
Spurningin sem brennur á mér er hvort tryggingarfélögin hafi aðgang að svona reiknum :) og e.t.v. það sem mikilvægara er; hvort þau taki mark á þeim
17.9.2008 | 16:55
Talibanar eru að breytast
"Hin nýja kynslóð stríðsmanna Talibana, drekkur wiskey, dansar og berst fyrir peninga frekar en að vera trúarlegir uppreisnarmenn."
Alex Thomson heitir maður einn og er fréttaritari fyrir ITN Channel 4 fréttastofuna. Í Blaðinu Daily Telegraph sem gefið er út á Bretlandi er grein eftir hann í dag, þar sem hann fjallar um þróun stríðsins í Afganistan. Alex hefur dvalist með Talibana í Afganistan og Pakistan síðasta misserið og mun afrakstur dvalarinnar verða sýndur á Cannel 4 í kvöld. Margt í greininni kemur talvert á óvart og ég tek mér það bessaleyfi að endursegja sumt af því hér.
Í stað þess að vera miðstýrður her uppreisnarmanna eru Talibanarnir lauslega tengdir hópar sem einungis eru sameinaðir af barátunni við útlent setulið í landi þeirra.
Hamidullah Khan, reyndur stríðsmaður á fimmtugsaldri er einn af viðmælendum Alexar. "Tölur fallina Talibana sem Afganska stjórnin lætur frá sér fara, eru merkingarlausar. Talibanr berjast eins og hákarlatennur. Þetta er heimili Mullah Dabullah sem var drepinn af hermönnum Nato á síðasta ári. Hann lét lífið fyrir vilja Guðs. Í stað hans hafa risð upp 20.000 í hans nafni. Þetta er Tailbans aðferðin. Þegar einn er drepinn, kemur annar í hans stað, svo annar og svo annar. Jörðin er aldrei skilin eftir mannlaus."
Talibanarnir tala ekki lengur um Mullah Omar stofnanda Talibananna eða Osama Bin Laden og al-Qaeda. Þeir berjast í staðin bæði á hefðbundinn og nýjan hátt. - Þeir sjá landið sitt morandi í spillingu. Þeir vita að það er einhverskonar stjórn í Kabúl en hún hefur ekkert gildi fyrir þá.
Haji Hyatullah er rúmlega tvítugur stríðsmaður. Hann segist berjast fyrir Talibana einfaldlega vegna þess að honum var boðið hærra kaup við það en önnur störf í boði. "Fólk er orðið þreytt á lygum stjórnarinnar" segir hann. "Hér er enga vinnu fyrir fólk að fá. Það berst til að fá brauð að borða." "Við sjáum enga þörf til þess að ræða við þessa stjórn. Þetta er engin stjórn hvort eð er. Málið hér eru erlendu ríkin og við eigum við þau með að berjast við þau. Baráttan er eina leiðin fyrir okkur."
Ef þú talar við Talibana um baráttu þeirra við Breta, eru þeir líklegir til að taka þig í nærliggjandi grafreit. "Hér liggja líkamar Afgana sem börðust við breska herinn fyrir meira en öld."
Það er engin skortur á utanaðkomandi stuðningi. Hamidullah Khan útskýrir hvernig vopn og skotfæri flæða yfir landamærin frá bæði Pakistan og Íran. "Peningarnir koma frá öllum Íslömskum löndunum. En við fáum sérstaklega mikil framlög frá Pakistan, Íran og Saudi Arabíu".
Á kvöldin dreypa þessir stríðsmenn gjarnan á Wiskey. Á daginn hvetja þeir bændur til að veðja á hrúta-atið sem þeir standa fyrir. Talibanarnir sem réðu Afganistan í fimm ár eftir 1996 mundu fyllast hryllingi við líferni þessara Talibana. Þessir nýju Talibanar syngja sín Pashtun lög og dansa í brúðkaupum sem var algjörlega bannað meðal hinna gömlu.
Þessir sveitastríðsmenn í Afganistan virðast njóta hylli almennings. Þeir eru að breytast í hefðbundna Mujahidín stríðsmenn líka þeim sem börðust gegn sovétríkjunum níunda áratugnum. Flestir Afgana segja Nato herina eins óvinsæla nú og sovét herinn var þá.