Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Himnafestingin

MjólkurvegurinnÍ gærkvöldi var stjörnubjart hér um slóðir og ég eyddi dágóðum tíma í að góna upp á himnafestinguna og reyndi að rifja upp og átta mig á hvaða nöfn hafa verið gefin staka ljósdepli í gegnum tíðina.

Vetrarbrautin sem vel var sýnileg eins og slæða eftir há-himninum fékk mig til að hugleiða þetta íslenska nafn stjörnuþokunnar sem sólkerfið okkar tilheyrir; VETRARBRAUT. 

Það heiti ku vera komið úr sænsku (Vintergatan) en gæti hæglega hafa verið samnorrænt hér áður fyrr. Skýringin á nafninu er sögð sú að Skandinavíubúar hafi reiknað út komu vetrar frá stöðu stjarnanna sem kann vel að vera satt.

Mér finnst samt líklegra að nafnið komi af því að stjörnuþokan er einfaldlega miklu sýnilegri á vetrarnóttum en um bjartar sumarnætur norðurslóða.

Hera og HerakleasÁ ensku heitir stjörnuþokan "The milky Way" (bókstaflega þýtt Mjólkurvegurinn) sem er þýðing á gríska hugtakinu Galaxias eða Galaxy (Mjólkurhringurinn) en það tengist grískri goðsögn. Seifur átti Herakles með Alkmene, mennskri konu. Seifur lætur Herakles sjúga brjóst Heru konu sinnar á nóttum þá hún svaf til að sveininn fengi guðlega eiginleika. Hera vaknar og ýtir Heraklesi af brjóstinu. Við það flæddi brjóstamjólk hennar út í alheiminn og úr varð Mjólkurvegurinn. 

Það var rithöfundurinn og fjölfræðingurinn  Geoffrey Chaucerninn (1343-1400) sem fyrstur notar enska heitið á prenti.

800px-Mostra_Olearie_-_sistro_1010384Það voru reyndar fleiri þjóðir en Grikkir sem settu himnafestinguna í samband við mjólk því Egyptar trúðu því að hún væri mjólkurpollur úr kýrgyðjunni Bat sem seinna rann saman við gyðjuna Hathor sem sögð var dóttir Ra og Nut.

Bat átti hljóðfæri sem nefnt var "sistrum" og þegar að hún rann saman Haf-þóru (Hwt-Hor) fékk Haf-Þóra hlutverk tónlistargyðju einnig. Sistrum  (sjá mynd) varð í tímanna rás að hálsmeni og verndargrip sem ég hef oft séð um hálsinn á íslenskum ungmennum heima á Fróni. Líkt og þegar Loki stal Brísingameni Freyju  var sistrum rænt af gyðjunni Haf-Þóru sem hún og endurheimti að lokum.

254px-Hathor_svgÞá segir í norrænni goðafræði frá kúnni Auðhumlu sem ís og eldar, auðn og gnótt Niflheims og Múspelsheims skópu.  Auðhumla var móðir fyrsta guðsins Búra og frá henni runnu 4 mjólkurár. Hún nærði einnig þursinn Ými en úr höfði hans var himnahvelfingin gerð.

Á öllum tungumálum þar sem nafn stjörnuþokunnar er ekki þýtt beint úr latínu (Via Lactea=Mjólkurvegurinn) á heiti hennar rætur sínar að rekja til fornra goðsagna. Sumar þeirra eru afar skemmtilegar og ég læt hér fylgja með nokkur sýnishorn.

Ungverjar kalla himnafestinguna "Veg stríðsmannsins" eða Hadak Útja. Eftir honum átti Ksaba, hinn goðsagnakenndi sonur Atla Húnakonungs að kom ríðandi væri Ungverjum ógnað.

Finnar voru svo glöggir, að löngu áður en vísindamönnum tókst að sanna það, vissu þeir að farfuglar nota himintunglin til að rata milli hvela jarðarinnar. Þeir kalla stjörnuþokuna Linnunrata sem þýðir "Stígur fuglanna".

Cherokee Indíánar í Norður Ameríku kalla Vetrarbrautina Gili Ulisvsdanvyi. Sagan segir að hundur einn hafi stolið maís korni og verið hrakinn með það á braut. Hann hljóp í norður og missti niður allt kornið smá saman á leiðinni. Úr varð hið tilkomumikla nafn fyrir himnafestinguna "Leiðin sem hundurinn hljóp í burtu".

Satt að segja minnir nafngift Cherokee indíánanna á goðsögnina frá  Armeníu. Í henni er það guðinn Vahag sem stelur, einn kaldan vetur, stráum frá Barsham konungi Assýríu og flytur það til Armeníu. Hann flýði með stráin um himnaveginn og tapaði nokkru af stráunum á leiðinni. Nafnið á stjörnuþokunni okkar er því "Stráþjófsleiðin".


Mánatré

roosaportraitÉg veit að þetta kann að hljóma eins og hver önnur flökkudsaga en þetta er dagsatt og margstaðfest þótt ótrúlegt kunni að virðast.

31. janúar 1971 þegar að Alan Shepard og Edgar Mitchell lentu á tunglinu á tunglferju Appolo 14. sat Stuart Roosa þriðji geimfarinn í þessari sögulegu ferð um borð í geimfarinu sjálfu á sporbraut um mánann með 500 tréfræ í vasanum.

Roosa hafði áður unnið sem "reykstökkvari" fyrir bandarísku Skógaþjónustuna og þegar geimförunum var gefið leyfi til þess að taka með sér nokkra persónulega muni í ferðina, ákvað hann að taka með sér fræ af algengum trjátegundum sem vaxa í Norður Ameríku. (Þeir sem kunna betur skil á heiti trjáa á íslensku mega gjarnan þýða þessi trjáheiti fyrir  mig. Loblolly pine, sycamore, sweetgum, redwood, og Douglas fir.)

CyprusTreeLargeViewEftir heimkomuna fól Roosa Skógaþjónustunni að gróðursetja fræin víðs vegar um Bandaríkin sem þeir og gerðu og tókst að koma á legg a.m.k. 450 græðlingum. Þau voru nefnd Mánatré.

Sumum þeirra var plantað á vel þektum stöðum eins og Washington Square í Philadelphíu, Valley Forge og einnig við allmarga háskóla og NASA útibú. En saga þeirra féll fljótt í gleymsku.

 Allt fram að árinu 2000 þekktu afar fáir sögu Mánatrjánna. En loks rankað einhver hjá umræddri Skógaþjónustu við sér með að ekki var til nein skrá yfir staðsetningu þessara trjáa. Hafist var handa við að leita að þeim og merkja þau sérstaklega.

Mörg trjáana voru þá dauð en önnur fundust ekki. Alls tókst samt að finna 20 af þessum  trjám sem lifðu góðu lífi vítt, breytt um Bandaríkin.


Víngarður Guðs í Ísrael

Karmel-1894Í norður Ísrael teygir sig eftir ströndinni fjallgarður sem nefndur er Karmelfjall. Í norðurhlíðum þess rís borgin Haífa sem er þriðja stærsta borg Ísraelríkis. Borgin er oft sögð sú dýrasta í Ísrael þar sem margir af auðugustu borgurum landsins búa í henni. Eða eins og leigubílstjórinn sem ók mér eitt sinn frá Tel Aviv til Haifa orðaði það; "Borgin er ein af Pé-borgunum. Í Jerúsalem biður þú (Pray), í Tel Aviv leikur þú þér (Play) en í Haifa borgar þú (pay)."

Í Haífa búa bæði Arabar og Gyðingar eða um 270.000 manns og henni hafa ráðið yfir tíðina fyrir utan Gyðinga og forfeður þeirra, Byzantíumveldið, Arabar,Krossfarar, Ottómansveldið, Egyptar og Bretar.

Fjallgarðurinn sem er um 40 km langur er ekki ýkja hár eða rúmlega fimm hundruð metrar þar sem hann er hæstur. Víða við rætur fjallsins hafa fundist minjar um forn þorp og í þeim leifar af frumstæðum þrúgupressum. Heiti fjallsins Karmel þýðir reyndar á hebresku "Víngarður Guðs".

Í fjallinu eru  margir hellar sem einnig bera þess merki að hafa verið notaðir í langan tíma sem íverustaðir manna og húsdýra.

NEANDERReyndar fullyrða fornleyfafræðingar að á fjallinu sé að finna mannvistarleifar sem beri vitni um að þar hafi verið elsta og lengsta samfellda byggð manna í heiminum.

Árið 1931 fann Prófessor Dorothy Annie Elizabeth Garrod bein Neanderdals-konu sem nefnd var Tabun I og er talin meðal merkustu fornleyfafunda á síðustu öld. Bein hennar þóttu sanna að Neanderdals-menn og nútímamaðurinn hafi búið samtímis á sama stað um nokkur þúsund ára bil. Elstu minjarnar í fjallinu eru taldar allt að 600.000 ára gamlar.

Fjallinu tengjast fjölmargir sögulegir atburðir og trúarlegt mikilvægi þess er slíkt að haft er eftir sjálfum Pýþagórusi að "fjallið sé helgast allra fjalla og mörgum sé að því meinaður aðgangur."

YeshuaMountSamkvæmt annarri Konungabók Gamla Testamentisins átti  Elísa (hinn sköllótti) að hafa hraðað sér til Karmelfjalls eftir að hann hafði valdið dauða 42 ungra drengja sem gert höfðu grín að hárleysi hans.

Margar heimildir geta þess að fjallið hafi í aldanna rás verið vinsæll felustaður fyrir flóttamenn, einsetumenn og trúarhópa sem sóttust eftir einangrun. Eru í því sambandi nefndir bæði Essenar og Nazarear (ekki samt hinir frumkristnu).

Í Gyðingdómi, Kristni og Íslam er spámaðurinn Elía sagður hafa haft aðsetur í helli á fjallinu. Þótt ekkert sé að finna í helgiritunum sjálfum um hvar sá hellir er nákvæmlega staðsettur, hefur honum verð fundin staður sem er kyrfilega merktur í dag og kallaður hellir Elía. (Sjá mynd)  

Hellir ElíaElía á að hafa reist Guði altari og árið 1958 fannst á þessum slóðum einskonar altari sem núna er kallað altari Elía þar sem Guð brenndi upp til agna fórn Elía og sannaði þannig fyrir 450 Baal dýrkendum að Guð  hans væri máttugri en þeirra. Íslamískar hefðir staðsetja þennan stað þar sem heitir El-Maharrakah sem þýðir brennan.

Á tólftu öld var stofnuð á fjallinu kaþólsk trúarregla sem nefndi sig Karmelíta. Sofnandi hennar sem nefndur er Berthold var annað hvort pílagrímur eða krossfari og lést árið 1185. Reglan var stofnuð á þeim stað þar sem hellir Elía var sagður vera og er staðsettur (kannski ekki fyrir tilviljun) þar sem hæst ber og best er útsýnið yfir fjallið og nærliggjandi héruð.

Í arfsögnum Karmelíta er getið um einsetumenn sem voru Gyðingar og hafi búið á fjallinu frá tímum Elísa og Elía. Í stofnskrá reglunnar sem er dagsett 1281 er talað um "presta og spámenn, Gyðinga og Kristna sem lifðu lofsamlegu lífi í heilagri afneitun við lind Elísa."

400px-Pietro_Novelli_Our_Lady_of_Carmel_and_SaintsSkömmu eftir stofnun reglunnar var sett á fót klaustur á fjallinu og það helgað Maríu Kristsmóður í ímynd stella maris eða "hafstjörnunnar". Klaustrið var byggt á þeim stað sem áður er getið og kallað El-Maharrakah af múslímum.

Á meðan krossferðunum stóð skipti byggingin oft um hæstráðendur og varð að mosku þegar múslímar réðu, en klaustri eða kirkju þegar kristnir menn réðu henni. Árið 1799 var henni breytt í sjúkrahús fyrir laskaða hermenn úr röðum hers Napóleons sem reyndi að leggja undir sig svæðið. Hún var að lokum jöfnuð við jörðu 1821 af landstjóra Ottómans-veldissins í Damaskus.

Karmelítareglan safnaði fyrir nýrri byggingu og reisti hana við hellinn sem nú er þekktur sem Hellir Elía.

Árið 1861 voru stofnuð í Þýskalandi samtök sem tóku sér nafnið Tempelgesellschaft. Meðlimir þeirra voru kallaðir Templarar og samkvæmt kenningum forkólfanna Christoph Hoffman og Georg David Hardegg var æðsta þrá þeirra að þjóna konungsríki Guðs á Jörðu. Þeir álitu Krist ekki vera eiginlegan son Guðs en miklu frekar fyrirmynd. Þeir voru sannfærðir að endurkoma Krists væri í nánd og drógu þær ályktanir eftir vísbendingum og spádómum Biblíunnar að hann mundi birtast á eða í námunda við Karmelfjall.HaifaColony

1886 kom til Haifa allstór hópur þýskra Templara og settist þar í einskonar nýlendu. Enn má sjá hús þeirra og við Ben Gurion breiðstræti í Haífa þar sem þau standa með sín rauðu þök og byggð úr steini samkvæmt Evrópskri byggingarhefð. Yfir gluggum og dyrum margra þeirra eru yfirskriftir á þýsku; Þ.á.m. "Herrann er nálægur".

Haifa_GermanTemplararnir reyndu að breiða úr sér í Landinu Helga og stofnuðu nýlendur við Jaffa og í Jerúsalem. Eftir að heimstyrjöldin síðari skall á voru Templararnir  allir reknir úr landi eða fluttir til Ástralíu af Bretum sem þá réðu Palestínu. Árið 1962 greiddu Ísraelstjórn þeim 54 miljónir þýskra marka í skaðabætur fyrir þær eignir og landsvæði sem höfðu áður tilheyrt þeim og nú voru þjóðnýttar.

Í fyrri heimstyrjöldinni var háð orrusta í hlíðum Karmelfjalls sem átti eftir að skipta sköpum í stríðinu. Hún er nefnd  "Orrustan við Megiddo" en þar áttust við Bretar undir stjórn Allenby Hershöfðingja og hermenn Ottómans veldisins sem ráðið höfðu landsvæðinu í nokkrar aldir. 320px-Light_horse_walers

Jezreel dalurinnsem gengur inn í fjallið þar sem orrustan var háð, hafði oft áður verið vettvangur átaka og frægust þeirra var upprunalega Megiddo orrustan sem var háð milli herja Egypta og Kananíta á 15. öld fyrir Krist. Þá hafði einnig herjum Júdeu og Egyptum lostið þarna saman árið 609 FK.

armage1Dalurinn er einnig sagður  í Opinberunarbókinni vera sá staður þar sem herir "dýrsins" safnast saman fyrir orrustuna sem nefnd er Armageddon.

 

 

Heimsmiðstöð bahá'í trúarinnar er einnig staðsett á Karmelfjalli. Kemur það til af sögulegum ástæðum. Heimsmiðstöðin bæði stjórnfarsleg og andleg miðstöð bahá'í heimsins og einnig eru tveir helgustu staðir bahá'í trúarinnar, grafhýsi Bábsins og Bahá'u'lláh, staðsettir í grenndinni. Í heimsmiðstöð bahá'ía starfa að jafnaði um 700 sjálfboðaliðar á hverjum tíma sem allir koma víðsvegar að úr heiminum.

Í stuttu máli eru sögulegu forsendurnar fyrir veru heimsmiðstöðvarinnar á Karmelfjalli þessar;

y140aÞann 23. maí árið 1844 í borginni Shíráz í Persíu tilkynnti ungur maður, þekktur sem Bábinn, að boðberi Guðs, sem allar þjóðir jarðarinnar höfðu vænst, kæmi innan skamms. Titillinn Bábinn merkir „Hliðið“. Þó að hann væri sjálfur flytjandi sjálfstæðrar opinberunar frá Guði, lýsti Bábinn því yfir að tilgangur hans væri að undirbúa mannkynið fyrir þennan mikla atburð.

Skjótar og villimannlegar ofsóknir, sem voru runnar undan rifjum hinnar valdamiklu múslimsku klerkastéttar, fylgdu í kjölfar þessarar yfirlýsingar. Bábinn var handtekinn, húðstrýktur, fangelsaður og loks tekinn af lífi 9. júlí árið 1850 á almenningstorgi í Tabrízborg. Um það bil 20.000 fylgjendur hans týndu lífinu í hverju blóðbaðinu á fætur öðru um alla Persíu.

Líkamsleifar Bábsins voru jarðsettar í hlíðum Karmelfjalls samkvæmt fyrirskipunum Bahá’u’lláh, Helgidómurinn er umlukinn fallegum görðum og þaðan sér út á Haífaflóann.

y220Bahá’u’lláh var fæddur árið 1817 inn í aðalsfjölskyldu í Persíu. Fjölskylda hans gat rakið ættir sínar aftur til konunga frá stórveldistímum Persíu. Hún var mjög auðug og átti miklar eignir. Bahá’u’lláh var þess vegna boðin staða við hirðina, en hann hafnaði henni. Hann varð kunnur fyrir örlæti sitt og manngæsku, sem ávann honum mikillar hylli meðal landsmanna sinna.

Bahá’u’lláh glataði fljótlega þessari forréttindastöðu, eftir að hann lýsti yfir stuðningi sínum við boðskap Bábsins. Bahá’u’lláh lenti inn í holskeflu ofbeldis, sem hvolfdist yfir Bábíana eftir aftöku Bábsins. Hann missti ekki einungis öll sín veraldlegu auðæfi, heldur var hann fangelsaður, pyntaður og rekinn í útlegð hvað eftir annað. Hann var fyrst gerður útlægur til Bagdad, þar sem hann lýsti því yfir, árið 1863, að hann væri hinn fyrirheitni sem Bábinn hafði gefið fyrirheit um. Frá Bagdað var Bahá’u’lláh sendur til Konstantínópel, til Adríanópel og að lokum til ‘Akká í Landinu helga, en þangað kom hann sem fangi árið 1868.

shrine-bahaullah-entranceFrá Adríanópel, og síðar frá ‘Akká, skrifaði Bahá’u’lláh fjöld bréfa til þjóðhöfðingja heimsins á þeim tíma. Þessi bréf eru meðal merkustu heimilda í trúarbragðasögunni. Í þeim er kunngert að eining mannkyns muni komast á innan tíðar og alheimssiðmenning líta dagsins ljós.

Konungar, keisarar og forsetar nítjándu aldar voru kvaddir saman til að jafna ágreiningsmál sín, minnka vopnabúnað sinn og helga krafta sína málefnum alheimsfriðar.

Bahá’u’lláh andaðist í Bahjí, rétt fyrir norðan ‘Akká og við rætur Karmelfjalls og er grafinn þar. Kenningar hans höfðu þá þegar breiðst út fyrir Mið-Austurlönd og helgidómur hans er núna miðdepill þess heimssamfélags sem þessar kenningar hafa fætt af sér.

 


"Won't somebody please think of the children?"

börn í stjórnmálumÞað hlýtur að orka tvímælis að bjóða börnum virka þátttöku í mótmælafundum, jafnvel þeim sem ætlað er að vera friðsamlegir.

Engin veit hvenær átök kunna að brjótast út eins og nýleg dæmi sanna.

Þrátt fyrir augljósan ávinning þess að geta sýnt í "verki" að málið varði börnin líka, (sem er þekkt fyrirbæri til samúðar-öflunar í Bandaríkjunum og mörgum ríkjum Evrópu og ein þekktasta klysjan  úr þáttunum um Simpson fjölskylduna er einmitt "Won't somebody please think of the children?" ) hefur notkun barna og ungmenna í pólitískum tilgangi á sér afar neikvætt yfirbragð enda hefur það einkum verið stundað í ráðstjórnar og einræðisríkjum.

Meðal þjóða þar sem þjóðfélagslegt róstur hefur orðið að vopnuðum átökum hafa börn, einkum á seinni tímum, verið óspart notuð til átaka.

börn í átökumEnska orðið yfir fótgönguliða "Infantry" er dregið af franska orðinu yfir barn. Tengining varð til vegna þess að yfirmenn vildu að fótgönguliðar þeirra væru undirgefnir og hlýddu boðum yfirmanna líkt og börn.  Börn eru vissulega óvanari sjálfstæði og því tilleiðanlegri en fullorðið fólk.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að rúmlega 200.000 börn undir fimmtán ára að aldri séu undir vopnum í heiminum í dag. Flest þeirra tilheyra uppreisnarhópum og vígasveitum líkum þeim sem finna má í Eþíópíu, Afganistan og Burma.

Víst er að þrettán ára drengur eða stúlka hefur ekki líkamakrafta á við fullorðin einstakling en þau hafa fullt vald á AK-47 og M-16 léttavopnum.

Það eru sem betur fer engar horfur á því um þessar mundir að þjóðfélagsólgan á Íslandi leiði til svipaðs ástands og gert hefur börn að hermönnum í öðrum löndum heimsins og því hægt að segja að ég máli þessa tengingu við notkun barns á friðsamlegum mótmælafundi, sterkum litum.

En því má svara á móti að í upphafi skyldi endirinn skoða.

 

 


Ljósið frá Palestínu

baby Mohammed al-BoraiÁ sama tíma og kristnir menn einbeina sér að ljósinu sem kviknaði í  Betlehem fyrir 2000 árum, reyna Gyðingar enn og aftur að láta 3000 ára gamalt fyrirheit um endurreisn og endurheimtingu landa sinna, verða að veruleika.

Ljósið sem skín frá Landinu helga um þessar mundir, kemur eins og oft áður af leiftrunum frá sprengiflaugunum þegar þær springa beggja vegna uppsteyptrar víglínunnar á milli systurþjóðanna sem Palestínu byggja.    

Hermenn Ísrael svara árásum borgaralegra hermanna Palestínuaraba sem búa við þröngan kost á Gaza ströndinni, "sjálfstæðri" sérlendu sem samt er enn algjörlega háð Ísrael með helstu lífsnauðsynjar og aðgengi að landinu yfirleitt. 

Af öllum þeim átökum sem eiga sér stað í heiminum, eru þessi átök þau fáránlegustu og ekkert magn af gulli, reykelsi eða mirru á jólum fær breitt yfir það.  Í hlut eiga tvær siðmenntaðar þjóðir sem eiga afar vel menntaða einstaklinga og búa auk þess báðar að fornri frægð. Það er næsta víst að þessi ófriður er ekki hefðbundinni vanþekkingu og villimennsku að kenna.

Allir fremstu stjórnvitringar heimsins frá miðbiki síðustu aldar til okkar tíma, hafa reynt að skakka þann ljóta leik sem þjóðirnar stunda og sem oftast er nefndur "Palestínudeilan",  án árangurs. Það rennir sterkum rökum undir þá skoðun að vandinn sé ekki stjórnfarslegur eða pólitískur.

Í margar aldir bjuggu Palestínu-Gyðingar í ágætri sambúð við Palestínu-múslíma og þrátt fyrir augljósan mismun í trúarbrögðum þeirra nefna þeir Guð sinn sama nafni og eigna honum sömu eiginleika. Deilurnar eru því ekki af trúarlegum orsökum.

En ef það er ekki vanþekking, ekki pólitík og ekki trúarbrögð sem valda því að flest börn, átta ára og yngri á Gaza svæðinu eru svo taugaveikluð að þau pissa stöðugt undir á nóttum, hvað er það þá?

Hvað er það sem fær Palestínumenn til að vilja helst granda Ísraelsríki og Ísraela til að vilja helst ýta Palestínumönnum út í sjó í eitt skipti fyrir öll?

Hvað er það sem fær báðar þjóðir til að viðurkenna að hvorutveggja er óhugsandi um leið og þeir umla "Já, en..." við öllum samþykktum alþjóðasamfélagsins um þeirra mál.

Börn á GazaÞað er aðeins einn möguleiki eftir.

Ekkert afl getur fengið fólk til að berast á banaspjótum í jafn tilgangslausu stríði og Palestínudeilan er, nema ein; FORDÓMAR.

Ég er ekki að meina einhverja fyrirfram úthugsaða niðurstöðu, heldur brennandi tilfinningu sem þú finnur fyrir í maganum í hvert sinn sem einhver minnist á óvinin, hvoru megin veggjanna sem þú býrð. 

Þessi tilfinning eitrar alla  hugsun og mettar allar aðrar tilfinningar gremju og reiði. Þessi tegund fordóma er fyrst og fremst tilfinningalegur rússíbani sem endar í gjörðum sem engin maður sem stendur utan við vítahringinn skilur.

Ástæðan fyrir því að engin lausn hefur fundist á þessari deilu er að enginn vill horfast í augu við þennan tilfinningalega harðstjóra sem krefst blóðs fyrir blóð og lífs fyrir líf. Enginn vill viðurkenna að sálir beggja þessara þjóða eru sjúkar og þær þarf að lækna til að einkenni þessa andlega sjúkdóms hverfi. Að uppræta fordóma af þessu tagi er afar erfitt, en það er hreinlega ekki hægt á meðan enginn viðurkennir tilvisst þeirra.

Og á meðan við það stendur,  munu jól og áramót koma og fara,  Íranar munu halda áfram að senda borgaralegum hermönnum Palestínu flaugar og Ísraelar munu halda áfram að gera stjórnstöðvar þeirra að dufti. Almenningur mun halda áfram að bölva, biðjast fyrir og deyja, börnin munu halda áfram að pissa undir og deyja og hermennirnir munu halda áfram að vera geðþekkir herramenn á góðri stundu eða borgaralega klæddir hermenn með andlitsgrímur og þannig munu þeir halda áfram að drepa og deyja.


Hjátrú eða skynsemi

Undir stiganum Að ganga undir stiga hefur lengi þótt ógæfumerki. Mér var kennt þetta ungum að árum, en án viðhlítandi skýringa.

Auðvitað má segja að það sé á vissan hátt skynsamlegt að forðast allar undirstigagöngur því verið getur að eitthvað falli óvart ofan úr stiganum, eins og málningardós eða tól sem sá sem er í stiganum er að nota. Þess vegna hika margir við þegar þeir koma að stiga sem stendur upp við vegg.

En hjátrúin er samt ekki komin til af þessum hversdagslegu ástæðum heldur trúarlegum. Sú var tíðin að þríhyrningur var í hinum kristna heimi ávalt talin tákn hinnar heilögu þrenningar, föður, sonar og heilags anda. Stigi sem stendur upp við vegg myndar augljóslega þríhyrning. Að rjúfa þríhyrningin með því að ganga í gegn um hann þótti mikil vanvirðing við þrenninguna og boðaði því viðkomandi ógæfu.

Það sem mér var ekki kennt var hvernig hægt var að komast undan óláninu ef svo illa tókst til að þú gekkst undir uppreistan stiga. En til þess eru ráð og hér koma þau.

1. Hræktu þrisvar sinnum í gegnum eitthvert þrepa stigans.

Krosslagðir fingur2. Hræktu á skó þinn og haltu áfram að ganga en þú mátt ekki líta á skóinn fyrr en hrákinn hefur þornað á honum.

3. Gakktu aftur á bak í gegn um stigann aftur og óskaðu þér um leið að engin ólukka megi henda þig.

4. Krosslegðu fingurna (löngutöng yfir vísifingur) þangað til að þú sérð hund.

Ef einhver undrast mátt hrákans í þessum mótgaldri, þá ber að minnast þess að Kristur sjálfur notaði hráka til að gera hræru sem hann notaði til að lækna blindu.

Að lokum, speki dagsins:

Ég get staðist allt nema freistingarnar

Oscar Wilde

 


Skókast í Írak

arabic2bMeðal Araba er skókast tákn um mikla vanvirðu. Á sínum tíma þegar að styttan af Saddam Hussein var rifinn af stalli árið 2003 í Bagdad, sýndu Írakar vanvirðingu sína og vanþóknun með því að kasta skónum sínum í fallna styttuna.

Skókast er forn leið til að sýna vanþóknun sína í mið-austurlöndum og kann að eiga rætur sínar að rekja til Gamla testamentisins þar sem segir frá óvinum Júda í Sálmunum 60:10 ; Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

Skórinn er auðvitað tákn fyrir lægst setta hluta líkamans (fætur) og þegar skó er kastað að einhverjum á arabískum menningarsvæðum táknar táknar það að sá sem að er kastað sé auvirðilegur. Á þeim svæðum er einnig mikil vanvirða að sýna sólana á skó sínum, eins og með því að setja fæturna upp á borð.

bush shoeÍ dag var skó kastað að George W. Bush forseta bandaríkjanna þar sem hann var á blaðamannafundi ásamt forsætisráðherra Íraks. Bush sýndi hversu liðugur hann er við að bregða sér undan skeytum og skórnir sem hann sagði að hefðu verið númer 10 snertu hann ekki.

Í afgreiðslugólfinu á  Aal-Rashid Hótelinu í Badgdad hefur verið lögð stór mósaík andlitsmynd af George Bush og þar neyðast allir gestir til að ganga á ásjónu hans. Þetta var auðvitað gert í háðungarskini við forsetann.


Fjögur spakmæli

Í hvert sinn sem ég heyri spakmæli af einhverju tagi, velti ég því fyrir mér í hvaða samhengi það var fyrst sagt og hvernig það varð síðan fleygt. Það fylgir nefnilega ekki alltaf sögunni en getur jafnvel breytt merkingunni algjörlega. Í enskri tungu eru flest spakmæli eftir rithöfunda og fer William Shakespeare þar fremstur í flokki.

Sum spakmæla hans og orðatiltæki eru orðin svo rótgróin tungunni að margir gera sér ekki grein fyrir að um "spakmæli" er að ræða þegar þeir nota það.  Mark Twain er líklega fremsti spakmælahöfundur Bandaríkjanna en spakmæli hans eru nánast auðþekkjanleg á húmornum. Eins er um breska rithöfundinn Oscar Wilde sem skipar annað sæti spakmælahöfunda af bresku bergi. 

Hér að neðan eru fjögur spakmæli og lesendur geta spreytt sig á, ef þeir vilja, að giska á hverjir séu höfundar þeirra;

"Hugsunin verður að orðum. Orðin verða að verkum. Verkin verða að vana. Vanin mótar manngerð þína. Gættu því vel að hugsun þinni. Láttu hana spretta af ást sem er fædd af umhyggju fyrir öllum verum." 

"Hvert okkar er einvængja engill. Við getum ekki flogið án þess að umfaðma einhvern."

"Ást fær ekki jörðina til að ferðast um geiminn. Ást er það sem gerir ferðlagið þess virði að fara í það." 

"Ástin líkt og fljótið mun finna sér nýjan farveg í hvert sinn sem hún mætir fyrirstöðu."


Smá aðventu-jólablogg

Musteri SaturnusarEins og allir vita eru jólin haldin til að minnast fæðingar Jesú Krists. Flestir vita líka að ekki er vitað hvenær ársins nákvæmlega Kristur fæddist. Þess er hvergi getið í Nýja testamentinu né í öðrum heimildum. Talið er að frumkristnir hafi ekki haldið upp á fæðingardag frelsarans með nokkrum hætti. Hinsvegar voru í ýmsum löndum á þeim tíma er Kristni var að breiðast út, haldnar hátíðir í desember og í janúar sem áttu uppruna sinn að rekja til ýmissa fornra trúarbragða austurlanda. Þeirra stærst og útbreiddust var án efa sólstöðuhátíðin 25. des. sem Rómverjar héldu upp á og kölluðu Saturnalíu og var haldin til heiðurs Satúrnusi, landbúnaðarguði þeirra.

Reyndar bera sólstöður á vetri að meðaltali upp á 21. des, en samt sem áður náðu hátíðarhöldin í sambandi við daginn hápunkti sínum þann 25 des. Sólstöður eru þegar sól er lengst í norður eða suður frá miðbaug og dagurinn þá annaðhvort stystur eða lengstur. Á vetrarsólstöðum er dagurinn stystur á norðurhveli. Rómverjar til forna, gerðu 25. des að þjóðhátíðardegi sínum og kölluðu hann fæðingardag hinnar ósigrandi sólar. Var þá mikið um dýrðir, sungið dansað og drukkið, ekki ósvipað og við gerum nú á jólum.

Á sama tíma var líka haldin hátíð í bæ sem var kölluð Juvenalaía. Hún var fyrst og fremst tileinkuð ungviði Rómverja, börnunum. Þriðja hátíðin sem einkum efri stéttar Rómverjar héldu upp á á þessari mestu hátíðaönn ársins, var afmælisdagur guðsins Mithra sem var sólguð og barnguð, var fæddur af steini þann 25. des.

Júlíus l PáfiEkki er ólíklegt að kirkjufeðurnir hafi á fjórðu öld komið sér saman um að yfirtaka hin fornu blót og gera þau að kristilegum hátíðum og auka þannig líkurnar á að fólk tæki kristna trú. Alla vega var það Júlíus páfi fyrsti sem ákvað að þann 25. des skyldi haldinn hátíðlegur fæðingardagur frelsarans. Þetta reyndist snjallræði fyrir kirkjuna því Kristur hafði þá hvort eð er tekið á sig nokkuð svipaða mynd og þeir Guðir höfðu, sem hinir heiðnu tilbáðu. Fyrst voru jólin kölluð "fæðingarhátíð" en ekki Kristsmessa og sem slík bárust þau skjótt um álfur. Árið 432 var fæðingarhátíðin upptekin í Egyptalandi og til Englands barst hún í lok sjöttu aldar.

Norrænir menn héldu einnig sína vetrarsólstöðuhátíð og blótuðu þá bæði Þór og Óðin og héldu miklar veislur sem kenndar voru við jólagleði. Á tímabili var hátíðin bönnuð af hinu kirkjulega valdi vegna óspekta og ofáts sem á henni viðgekkst. Í lok áttundu aldar var farið að kenna hina fornu blótahátíð Jólanna á Norðurlöndum við Kristsmessu en gamla nafnið Jól fékk að halda sér.

jolahafurMargir þeirra siða sem enn eru í heiðri hafðir í jólahaldi norrænna manna má rekja beint til blótanna til forna. Nægir í því sambandi að nefna jólahafurinn sem útbúin er úr stráum bæði í Svíþjóð og Noregi sem sérstakt jólatákn. Þá er í raun verið að gera eftirmynd af hafri Þórs. Í meðförum geitarfárra Íslendinga varð hafurinn að ketti, eða hinum íslenska jólavargi, jólakettinum.

Segja má að jólin hafi í þau rétt 1500 ár sem um þau getur í heimildum verið í stöðugri þróun. Á stundum lagðist hið kirkjulega vald gegn þeim og reyndi að banna þau, en á öðrum tímum hafa þau notið fylgis þess jafnt sem allrar alþýðu. Jólum er fagnað á mismunandi vegu í hverju landi og jólasiðir margir og mismunandi.

Bæði gríska og rússneska rétttrúnaðarkirkjan halda upp á fæðingarhátíð Krists 13 dögum eftir 25. desember eða 7. Janúar og halda sig þannig við gamla Júlíanska dagatalið.

jolakotturÍslendingar halda einir þjóða upp á jól í 13 daga og fara þannig beggja bil og halda í heiðri að hluta til siðum þeirra sem fara eftir gamla Júlíansaka dagatalinu og því sem flestar vestrænar þjóðir nota, hinu Gregoríska. En eins og fólk rekur eflaust minni til var það Gregoríus Páfi þrettándi, sem bjó til þrettándann okkar með því að gera leiðréttingu á Júlíanska dagtalinu þann 24. febrúar árið 1582 og færði árið fram um 13 daga.

Jólasveinninn

Eitt helstamerki þess nú til dags um að jólin séu að nálgast, er að sjá jólasveina á stjái. Margt hefur verið um jólasveininn sagt og fjallað síðustu áratugina, en fæst af því sannleikanum samkvæmt.  Heilu kvikmyndirnar hafa verið framleiddar og sýningar uppfærðar þar sem persóna hans hefur verið notuð á frekar óprúttinn hátt. Fyrirtæki sem eygja sér gróðamöguleika með því að bendla nafn sitt við hans, gera það óhikað og eigna mér þá ýmissa eiginleika sem í raun eru honum framandi og alls-óskildir.Gríla með Leppalúða og Jólakötturinn

Segja má að Íslendingar sjálfir hafi gengið hvað lengst í því að rugla fólk í ríminu, því hér á landi er Jólasveinninn ekki einn heldur fjöldi ómennskra óknyttadrengja sem hafast við á fjöllum og eru getnir af tröllum.

(Tröll hafa ætíð í mínum huga verið tákn hins lægra eðlis og hins dýrslega í fari mannsins, þó það sé nánast orðið hól að segja manninn dýrslegan á þessum síðustu og verstu tímum þegar maðurinn hagar sér oft miklu ver en dýr mundi nokkru sinni haga sér.)

En svo við byrjum á byrjuninni þá var hinn eini sanni jólasveinn, eða öllu heldur upphaflega fyrirmynd hans, fæddur 6. desember í gríska þorpinu Patra í litlu Asíu, snemma á fjórðu öld og nefndur Nikulás. Foreldrar hans voru Kristnir og faðirinn efnaður kaupmaður þar um slóðir. Allt frá fæðingu er sagt að hann hafi borið af öðrum börnum í kristilegu hátterni og sú saga sögð af honum að þegar hann var skilinn frá móður sinni eftir fæðingu hans, hafi hann staðið upp í vöggunni og lofað Guð. 

Boyana_AngelSem ungabarn er sagt að hann hafi  neitað að sjúga brjóst móður minnar á föstudögum þegar öllum sannkristnum mönnum var ætlað að fasta. Strax sem unglingi þótti honum miður að sjá fátækt meðbræðra sinna og bera það saman við ríkidæmi föður síns. Hann tók að gefa fátækum af auði og erfðafé sínu eins og ég mátti. Langfrægast þessara góðverka var þegar honum var sagt frá manni einum sem bjó ekki langt frá borginni og var svo fátækur að sýnt þótti að dætur hans þrjár sem orðnar voru gjafvaxta, myndu fljótlega neyðast til að vinna fyrir sér á götum borgarinnar, þar sem honum mundi aldrei verða mögulegt að reyða fram það fé sem nauðsynlegt var í þá tíð að gefa í heimamund með dætrum sínum, til að gifta þær og tryggja þeim þannig heiðvirða framtíð. Faðir Nikulásar hafði skilið eftir sig talsvert fé sem Nikulás reyndi eftir megni að ráðstafa til fátækra. Meðal muna í fórum hans voru þrír afar verðmætir gullknettir.Hann tók því til ráðs að laumast að húsi fátæka mannsins og dætra hans þriggja, þrjár nætur í röð og skildi í hvert sinn eftir einn gullknattanna. Hann gerði þetta á laun til að særa ekki stolt mannsins né gera dætur hans skuldbundnar sér. Þannig varð fátæka manninum kleift að gefa dætur sínar ásamt góðum heimamundi í sæmandi hjónaband.

Þrátt fyrir launungina komst samt þessi saga í hámæli og löngu seinna eftir að Nikulás hafði verið sæmdur nafnbótinni dýrlingur, gerðu veðlánarar hann að verndardýrlingi sínum og hnettina þrjá að merki sínu. Þess vegna má sjá enn í dag þrjá knetti hanga fyrir utan búðir veðlánara í flestum löndum heims, þar sem þeir þrífast á annað borð.

596px-Gentile_da_Fabriano_063Snemma á ævinni ákvað Nikulás að gerast þjónn Guðs og helga sig útbreiðslu trúar hans. Hann var m.a.  viðstaddur  í Níkeu árið 325 þegar Konstantínus keisari safnaði saman öllum helstu kennimönnum kristinnar trúar til að samræma kenningar kirkjunnar.

Konstantín átti kristna móður, sem hét Helena en sjálfur var hann ekki viss hvoru megin hann stóð, Krists eða heiðinna goða. Það var hann sem gerði sunnudag að hvíldardegi kristinna manna árið 321 en þeir höfðu haldið laugardaginn helgan fram að því.

Seinna átti Nikulás við hann nokkur samskipti því hann fór stundum með ofríki gegn þegnum sínum.

 Einu sinni hneppti hann í fangelsi þrjá unga prinsa sem ekkert höfðu sér til sakar unnið annað enn að vera af tignum ættum. Gekk Nikulás þá fram fyrir skjöldu og fékk þá með fortölum lausa. Reyndar hélt Konstantín því fram seinna að Nikulás hefði komið til hans í draumi og beðið drengjunum vægðar og aðeins eftir það, hefði hann ákveðið að láta þá lausa.  Vegna þessa atviks og annarra var Nikulás þegar fram liðu stundir gerður að verndardýrlingi barna og kórdrengja. 

Heilagur Nikulás BiskupNikulás gekk undir biskups-vígslu og skömmu eftir þann atburð varð uppskerubrestur í umdæmi hans. Hann fékk þá því framgengt að kaupskip nokkur sem voru á leið til Alexandríu hlaðin matvælum, lönduðu þeim í Myru heimaborg sinni. Hann lofaði  skipstjórum skipanna því að þeim yrði endurgoldið þegar þeir kæmu til Alexandríu af biskupinum þar. Allt gekk þetta eftir eins og Nikulás hafði fyrir sagt. Af þessum sökum varð ankerið eitt af táknum hans, því sjómenn urðu einnig til að ákalla nafn hans þegar erfiðleikar steðjuðu að þeim.

Sjómenn í hafnarborginni Bari á Ítalíu voru svo sannfærðir um mátt hans til að halda yfir þeim hlífðarskildi í stormi og stórsjó að þeir létu færa jarðneskar leifar líkama hans frá Myru, heimabæ hans, þar sem þær höfðu verið jarðsettar, til borgarinnar Bari. Þetta gerðist árið 1089. Um leið og þeir fluttu beinin, létu þeir smyrja þau með ilmolíum. Þannig gerðist það að þegar þau voru flutt í land í Bari fann fólk af þeim góða lykt. Af þessum sökum var hann nokkru seinna gerður að verndardýrlingi þeirra sem fást við ilmvatna og ilmefna gerð.

Í margar aldir var Heilagur Nikulás í hugum flestra Evrópubúa aðeins einn af fjölmörgum dýrlingum sem  ákallaðir voru í neyð. Hollendingar sem voru miklir sjófarar og kaupmenn voru hvað duglegastir við að halda nafni Nikulásar á lofti.

Faðir KristmessaEnglendingar urðu samt fyrstir til að farið var að tengja Nikulás fæðingarhátíð Jesús Krists. Kom það til af því hversu nálægt fæðingardagur hans, sem gjarnan var mynnst af börnum og sjófarandi kaupmönnum, var upphafi aðventunnar að kristmessu. Þar var farið að kalla hann faðir Kristsmessu snemma á 19. öld.

Með Hollenskum innflytjendum barst Nikulásar dýrkunin til Bandaríkjanna og í upphafi þessarar aldar var farið að teikna hann á kort og auglýsingar í þeirri mynd sem flesti Þekka hann í dag. Í dag er hann þekktur undir nokkrum nöfnum eins og Santa Claus,  Saint Nicholas, Father Christmas. Kris Kringle eða bara "Santa".

Rauði liturinn á Kápunni hans er auðvitað litur fórnarinnar en klæðnaðurinn, rauð hvít brydduð húfan, rauður stakkur stakkurinn með giltum hnöppum og hvítum skinnbryddingum, svart leður belti með gylltri sylgju,  rauðar buxur og svört stígvéli,  hefur þróast smá saman.st-claus

(þó hef ég óljósan grun um að hann hafi einnig verið valin af því að fyrirtækið sem fyrst varð til þess að nota ímynd hans í áróðri sínum, hafði einmitt valið þennan lit í vörumerki sitt.)

Fljótlega spunnust upp sögur í Bandaríkjunum um allt annan uppruna Nikulásar en raunin var á. Það er alls ekki víst a hinum upprunalega Nikulási hefði geðjast  að hugmyndinni um að búa í stórri smíðaskemmu á norðurpólnum við að smíða gjafir með aðstoð fjölda álfættaðra hjálparsveina. Eða þá að eitt af hlutverkum hans væri að rækta hreindýrategund sem getur flogið.

Jólatré

JólatréUm uppruna jólatrésins er flest á huldu, en talið er að rætur þess liggi í einhverskonar trjádýrkun djúpt í mannkynssögunni. Í Róm og víðar skreyttu menn til dæmis í fornöld hús sín um nýárið með grænum trjágreinum eða gáfu þær hver öðrum, og átti það að boða gæfu. Mistilteinninn í Englandi var afsprengi sömu hugsunar.

Einnig er til fjöldinn allur af goðsögum og sögnum, þar sem alheimstré er látið tákna heiminn. Það ber ýmis nöfn, eftir því hvaðan vitneskjan er runnin, en alltaf er það sama uppi á teningnum: kenningin um „miðjuna“. Eitt þessara trjáa er Askur Yggdrasils, úr trúarbrögðum norrænna manna, og annað er Lífsins tré í Eden.


Í jólaskapi eftir Árna Björnsson eru eftirfarandi upplýsingar um jólatréð að finna.

Jólatréð eins og við þekkjum það er ekki mjög gamalt í  heiminum.
Elstu heimildir um skreytt tré í heimahúsum á jólum er frá Suður Þýskalandi á 16. Öld en ekki eru nema tvö hundruð ár síðan síðan farið var að festa kerti á þessi grenitré. Allra fyrstu jólatré munu hafa sést á íslandi í kringum 1850, en þó helst hjá dönskum eða danskmenntuðum fjölskyldum. Algeng urðu þau ekki , fyrr en komið var fram yfir síðustu aldamót.Það er mjög skiljanlegt, af hverju siðurinn festi ekki fyrr rætur á Íslandi. Hér var víðast hvar engin grenitré að hafa, og flestar aðrar vörutegundir hefur þótt nauðsynlegra að flytja inn. Auk þess tók sigling  oft svo langan tíma , að örðugt hefði  reynst að halda þeim lifandi. Þetta gerðu þó sum félög til þess að halda jótrésskemmtanir fyrir börn , og milli 1890 – 1900 má sjá auglýst bæði jólatré og jólatrésskraut. Fyrir meira en hundrað árum hafa menn sumstaðar byrjað á því að búa til gervijólatré.

Gamalt íslensk JólatréVar þá tekinn mjór staur , sívalur eða strendur, og festur á stöðugan fót. Á staurinn voru negldar  álmur eða boraðar holur í hann og álmunum stungið í. Þær voru lengstar neðst, en styttust upp eftir og stóðu á misvíxl. Þær voru hafðar flatar í endann, og á honum stóðu kertin. Venjulega var staurinn málaður grænn eða hvítur og vafið um hann sígrænu lyngi. Síðan voru mislitir pokar hengdir á álmurnar og eitthvert sælgæti sett í þá. Þessi heimatilbúnu jólatré voru mest notuð , þar til fyrir nokkrum áratugum, þegar farið var að flytja grenitré inn í stórum stíl. Á síðustu árum hafa svo íslensk  jólatré komið á markaðinn í æ ríkari mæli 

Jólatréð hefur í heila öld verið eitt helsta tákn jólanna um heim allan. Það er þó tiltölulega nýtt af nálinni í núverandi mynd. Talið er að jólatré hafi borist til norðurlanda skömmu eftir 1800. Árið 1862 nefnir Jón Árnason sögu um reynitré og brunnu ljós á greinum þess alla jólanótt sem slokknuðu ekki hversu mjög sem vindur blés.

Venjulegt jólatréÁrið 1952 fékk Reykjavík í fyrsta sinn stórt jólatré að gjöf frá Ósló. Var það sett upp á Austurvelli, og hefur sú venja haldist síðan. Í fyrstu var jafnan kveikt á trénu síðasta sunnudag fyrir jól, en sú dagsetning færðist framar eftir því sem almennur jólaundirbúningur hófst fyrr. Síðan hafa margar erlendar borgir sent vinabæjum sínum á Íslandi jólatré.

Fyrstu auglýsingar um innflutt jólatré birtust þegar árið 1896 en þau tóku samt ekki að seljast í stórum stíl fyrr en eftir 1940.

 


Fleira smálegt

links

"Það sem gerir þig ánægða(n), það er fjársjóður þinn. Þar sem fjársjóður þinn er þar er hjarta þitt. Þar sem hjarta þitt er þar er hamingja þín."  

Heilagur Ágústínus (354-430)

The naked Icelanders

"Þegar þú öðlast persónuleika, þarftu ekki á nektinni að halda".

Mae West, (1892-1980 Bandarísk leikkona)

149syllabus9crystal2

Sveitin er staður sálarinnar, borgin er staður líkamans.

(Bahai ritningargrein)

yogazo0

Aleinn með sjálfum mér

Trén beygja sig til að gæla við mig

Skugginn faðmar hjarta mitt

Candy Polgar

a279_Hallgrimur

Trúarbrögð mín eru einföld. Það er engin þörf á hofum, engin þörf fyrir flókna heimsspeki. Hugur okkar og hjarta er hofið; heimspekin er velvilji. Dalai Lama


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband