Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
Kristin hjúkrunarkona hér í Englandi hefur verið leyst frá störfum eftir að hafa boðist til að biðja fyrir bata roskins sjúklings.
Caroline Petrie, 45, var ásökuð um að hafa ekki í heiðri jafnréttis og fjölmenningar-reglur opinberarar sjúkraþjónustu og býður nú eftir að úrskurðað verði í máli hennar.
Caroline sem vinnur við heimahjúkrun í Norður Somerset, er gift og tveggja barna móðir, finnst hún ekki vera að neyða trú sinni upp á sjúklinga með að bjóðast til að biðja fyrir þeim og að hún hafi oft gert þetta áður. Það eina sem hún óskaði væri að þeir næðu heilsu.
Sjúklingurinn sem sagði frá þessu boði Caroline kvartaði ekki undan hegðun hennar enda sjálfur kristin, en uppljóstaði þessu þegar hann var beðin um að lýsa starfsháttum hennar í venjubundnu eftirliti.
"Ég er ekki reið og ég veit að sumir trúa ekki því sama og ég, en ég er í uppnámi vegna þess að ég nýt þessa starfs og bænin er mikilvægur hluti umönnunarinnar sem ég gef." Sagði Caroline í stuttu viðtali sem ég heyrði við hana í morgun.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
30.1.2009 | 22:45
Rumpelstiltskin stjórnar
Ég hef á stuttum tíma lesið ekki færri þrjár færslur um draumfarir bloggara sem allar fjalla um ástandið á landinu. Það kannski ekki nema von því raunheimur rúmar ekki lengur þessa vitleysu sem er í gangi á Íslandi í dag.
Potta og pönnu byltingin þar sem alþýðan var að sjálfsögðu potturinn og pannan fagnar árangri á meðan gömlu sótugu seiðkarlarnir koma sér fyrir til að lepja dreggjarnar úr kjötkötlunum.
Draumar Austurvallarindíánanna sem kröfðust þess að náhirðin viki, er orðin að þrefi um tæknilega útfærslu á hvernig má fróa litla græna dvergnum sem hefur hreðjatak á þjóðinni í krafti flokkskerfissins.
Er það að furða að fólk sé að fara á límingunum og þá sæki illir draumar um dimmmynta og glottandi menn og konur sem aftur sjá sér færi til að toga í spottana sem liggja beint inn í hjarta frama-Gosa litla.
Einhver sagði að hann sæi eftir því að hafa eitt fimmtán undanförnum vikum í það að mótmæla.
Það hlýtur að vera sársaukafullt fyrir þreyttan potther með rámar raddir að horfa upp á sömu gömlu flokkadrættina gera "nýja Ísland" þannig að fólk vilji nú helst "flýja Ísland".
Allt fer enn fram fyrir jafn luktum tjöldum og fyrr, sama loðna tungutakið er notað til að skaffa eitthvað í fyrirsagnirnar og sama gamla póli-tíkur pissufílan rís upp af hrossakaupssvæðinu og fyrr.
það versta er að fólk trúir því raunverulega að þetta sé það besta sem við eigum völ á og þess vegna virka draumfaralýsingarnar eins fjarlægt andvarp. Ísland er besta baksvið í heimi fyrir líf, það vitum við öll. En leikritið sem er á fjölunum stinks.Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.1.2009 | 10:22
10 ára og skilin
Hún heitir Nujood Ali og hún er aðeins tíu ára. Faðir hennar er götusópari sem á tvær konur og 17 börn. Þau búa í Jemen þar sem lög landsins eru blanda af Sharia lögum Íslam og fornum ættbálkahefðum. Sjálf stjórnarskrá landsins er ein málamiðlun út í gegn til að friða afturhaldsama norðurlandsbúa og framfarasinnaða íbúa suður hlutans. Kveinréttindunum er eins og venjulega fórnað á altari þjóðareiningar.
Martröð hennar hófst morgun einn í febrúar á síðasta ári. Með tveggja daga fyrirvara tilkynnti faðir Nujood að hann hugðist gifta hana manni sem væri tuttugu árum eldri en hún. Hún hafði ekkert um málið að segja, hún var aðeins barn og að auki stúlkubarn.
Rödd hennar er mjúk og hrein en augu hennar ákveðin þegar hún talar; "Maðurinn minn sór í viðurvist föður míns að hann mundi ekki snerta mig í mörg ár. En það loforð gleymdist fyrstu nóttina eftir giftinguna. Þegar ég kom inn í svefnherbergið sá ég að það var bara eitt rúm. Ég reyndi að hlaupa í burtu. En hann náði mér, slökkti ljósin og klæddi mig úr öllum fötunum. Síðan sló hann mig og tók mig með valdi. Þetta gerðist á hverri nóttu í einn mánuð þangað til að frænka mín gaf mér smá peninga fyrir rútufari. Ég keypti miða og fór rakleiðis til dómshússins í næstu borg."
Nujood var heppin. Í dómshúsinu hitti hún Mohammed al-Qhadí, trúlega eina dómarann í landinu sem var tilbúin til að hlusta á hana án þess að kalla fyrst til eiginmann hennar og fjölskyldu.
Mohammed al-Qhadí var hneykslaður á meðferðinni á Nujood litlu og ákvað að skjóta yfir hana skjólshúsi á meðan að dómsmálið var tekið fyrir sem endaði með að hann veitti Nujood skilnað.
Eiginmaður hennar heimtaði sem nemur 30.000 krónum í skaðbætur, upphæð sem faðir Najood hafði ekki efni á að borga. Lögfræðingur Najood, Rashida al-Hamdani, eini kvenn-lögfræðingurinn í Jemen, greiddi sjálf skaðabæturnar.
Barnagiftingar eru algengar í Jemen. Fátækt í bland við forna siði og trúarkreddur eru helsta ástæðan. Samkvæmt skoðanakönnun er meira en tuttugu ára aldursmunur á hjónum í fjórða hverju hjónabandi í landinu.
Mál Najood vakti verðskuldaða athygli í landinu. Myndir birtust af henni í sjónvarpinu sem varð til þess að fleiri barnungar stúlkur sem gefnar hafa verið eldi karlmönnum hafa gefið sig fram við yfirvöld og óskað aðstoðar.
Eftir skilnaðinn fór Najood aftur til foreldra sinna og gengur nú í skóla. Hún segist aldrei ætla að gifta sig aftur og hún ætli sér að verða lögfræðingur eins og Rashida al-Hamdani.
28.1.2009 | 22:05
Trú Gandhi
Gandhi trúði því að til þess að öðlast umburðarlyndi þyrfti hinn venjulegi maður að öðlast persónulegan styrk og þar með óttaleysi. Sem drengur lifði hann í stöðugum ótta við myrkrið, þjófa, drauga og snáka. Sem unglingur heimsótti hann eitt sinn ásamt kunningja sínum hóruhús og varð orðlaus og lamaður af hræðslu. Allt hugrekki hans var afleiðing ásetnings hans að sigrast á þessum veikleikum sínum sem ollu honum stöðugum áhyggjum.
Friður hið innra var takmark hans; og hann var þeirrar skoðunar að með því að gera öðrum mögulegt að finna frið mundi hann sjálfur ná takmarki sínu. Að stuðla að einingu milli einstaklinga og samfélaga var honum lækning við eigin kvíða. Lausn hans fól í sér að umbreyta stjórnmálum í einskonar sálrænt ferðalag þar sem fólk reiddi sig ekki á sterka leiðtoga heldur á viðleitni hvers og eins; og að hver og einn breytti eigin hegðun í stað þess að kenna öðrum um aðstæður sínar; og að lokum; að gott fordæmi væri besta aðferðin til að hafa áhrif á samfélagið almennt.
Gandhi talaði opinskátt um sitt eigið líf og viðurkenndi að hann ætti sjálfur í erfiðleikum. Hann ræddi um óánægju konu sinnar yfir því að hann afneitaði venjulegum heimilis þægindum og yfir því að hann upp á stóð að allir peningar sem honum áskotnuðust og ekki fóru til beinna heimilisnota, væri sjóður sem nota ætti til almannaheilla. Synir hans sýndu honum vanþóknun sína vegna þess að hann sinnti þeim ekki og hann neitaði því ekki því hann var þeirrar skoðunar að maður ætti ekki takmarka ást sína við venslafólk sitt, heldur við alla sem yfirleitt er hægt að þróa samhygð með.
Persónulega taldi hann upp 150 einstaklinga sem féllu undir þá "ættmenna" skilgreiningu. Honum fannst að með því að breiða út "náungakærleik" og persónulega vináttu væri hægt að yfirstíga alla þröskuldi trúarbragða, þjóðernis og stéttaskiptingar. Kærleikinn ætti að tjá fyrst og fremst með sjálfs-lausri þjónustu í þágu annarra.
Hann stofnaði tilrauna-samfélag þar sem hann reyndi að hrinda þessum kenningum í framkvæmd. Margir af hindúunum sem með honum voru urðu skelfingu lostnir þegar þeir sáu að sumir þorpsbúanna tilheyrðu stétt "hinna óhreinu", þá sem allir forðuðust að eiga samskipti við. Sjálfur hafði Gandhi verið alinn upp við að halda þeim í ákveðinni fjarlægð og láta þeim eftir skítverkin. Nú tók hann tók sjálfur fullan þátt í þeim og hjálpaði t.d. til í eina klukkustund á dag við að halda sjúkrahúsi staðarins hreinu. Með þessu fordæmi trúði hann að gamlar kreddur mundu hverfa.
Gandhi var ekki mannblendinn persóna í hefðbundinni merkingu þess orðs. Þess vegna fannst honum erfitt að vingast við alla þá sem hann umgekkst. Hann átti ekki vini sem voru jafningjar hans. Nehru var eins og sonur hans og Gokhale eins og faðir. Það var miklu frekar á meðal þeirra fullorðinu kvenna sem hjálpuðu honum í starfi hans að hann fann þá tilfinningalegu næringu sem hann þarfnaðist.
Þrátt fyrir að afstaða hans til kvenna væri frekar gamaldags og honum fyndist hin fullkomna kona einfaldlega vera "trú eiginkona", uppgötvaði hann með vinskap sínum við samverkakonur sínar að þær bjuggu yfir miklu meiri getu en hann hafi áður eignað þeim. Samt gerði hann sér ekki grein fyrir því að slíkur vinskapur milli kynjanna bæti verið mikilvæg viðbót í hinu nýja samfélagi. Hann kallaði eina vinkinu sína "bjána" og húna kallaði hann "harðstjóra". Hann hlustaði en heyrði aðeins hluta af því sem sagt var.
Gandhi reyndi ekki að má út allar hefðbundnar sérgreiningar. Það var ekki ósk hans að bæði kristnir og múslímar mundu viðurkenna að lokum Hindúisma sem æðri trúarbrögð. Fyrir honum voru öll trúarbrögð dyggðug og líka gölluð. Að predika trúarbrögð dugði ekki vegna þess að flestir fóru hvort eð er ekki eftir þeim almennilega.
Í stað þess að hvetja alla til að skipta um trúarbrögð hvatti hann alla til að fara betur eftir þeirri trú sem þeir höfðu þegar. Sannleikurinn hafði margar hliðar og engin leið að einfalda hann í einni trú. En það hafði þau áhrif að hann gerði ekkert til að koma á móts við ofsatrúarmenn sem álitu sína eigin sannfæringu allan sannleikann.
Gandhi sýndi að einn einstaklingur gat breytt hegðun 600 milljón manns tímabundið, og að eitthvað sem nálgast það að vera kraftaverk getur gerst. þegar að múslímar sem voru að flýja til Pakistan árið 1947 voru brytjaðir niður af hindúum voru ummæli Gandhis "Við höfum nánast breyst í skepnur".
Þegar múslímar hefndu sín og Kalkútta logaði í óeirðum sem aftur kölluðu á hefndaraðgerðir hindúa, tók Gandhi sér bólstað í hverfi múslíma og í húsi múslíma, án lögregluverndar. Þetta var táknræn gjörð fyrir hugrekki og sáttavilja. Innan nokkurra klukkustunda voru múslímar og hindúar byrjaðir að faðma hvern annan og biðjast fyrir í bænahúsum og moskum hvers annars. Síðan héldu óeirðirnar áfram. Gandhi hóf föstu og sór þess að neyta ekki matar fyrr en brjálæðinu linnti. Aftur hættu átökin og menn lögðu niður vopn sín.
Mountbatten landsstjóri sagði um Gandhi við þetta tækifæri. "Hann hefur með siðferðilegri sannfæringu áunnið meira en fjórar herdeildir hefðu getað með því að beita valdi". En árangurinn var skammvinnur. Allir urðu fyrir djúpum áhrifum af vilja Gandhi til að fórna sjálfum sér fyrir friðinn. Samt sem áður leið ekki á löngu uns hatrið sauð upp úr aftur.
Þannig má segja að Gandhi hafi bæði tekist og mistekist ætlunarverk sitt í senn. Hann sýndi að hægt er að yfirstíga ósamlyndi og óeiningu. En honum mistókst að gera árangurinn varanlegan. Eitt sinn sagði Gandhi að "allir menn væru eins, hluti af sömu allsherjar sálinni". samt sýndi tilraun hans að "góðum vilja" gagnvart öllu mannkyni er hægt að drekkja á augnabliki í öldum andúðar.
Gandhi var að mörgu leiti líkamsgerfingur þess besta og mesta sem maðurinn einn getur áorkað. Hann var einlægur, staðfastur, sannleikselskandi og auðmjúkur þjónn. Honum hefur verið líkt við persónur eins og Krist og Múhameð, Krisnha og Buddha. Samt gerði hann engar kröfur um að tala fyrir munn Guðs eða einhverskonar almætti. Þrátt fyrir marga dygga fylgjendur og nokkuð vel skráðar heimildir um líf hans og starf, og þótt eftir hann liggi mikið af spakmælum og vísdómsorðum, sumum hverjum ég hef gert skil á þessari bloggsíðu, hafa allar tilraunir til að setja hann í sama sæti og opinberendur trúarbragðanna, mistekist. Það er hægt að eigna Gandhi umbætur, vísdóm, kærleika og áhrifamikið fordæmi. En hann náði ekki að koma á varanlegum breytingum eða stofna til sjálfstæðrar og framsækinnar siðmenningar líkt og guðsmennirnir sem honum er stundum líkt saman við gerðu.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.1.2009 | 03:09
Áttburar fæddir
Kona í Bandaríkjunum hefur fætt átta börn og er önnur konan í heiminum sem elur áttbura sem allir lifa fæðinguna.
Sex drengir og tvær stúlkur komu í heiminn fyrir stundu og voru öll tekin með keisaraskurði á sjúkrahúsi í Los Angeles í Kaliforníu.
Börnun vógu á bilinu 820-1640 grömm og heilsast öllum vel.
Nafn móðurinnar hefur ekki enn verið gert opinbert. Þá kom fram að búist hafði verið við aðeins sjö börnum og að það áttaunda hafi því komið á óvart. Móðurinn hyggist brjóstfæða öll börnin sem einn fæðingarlæknanna segir "sparka og öskra af hreysti".
Fyrstu áttburnair í heiminum fæddust í Huston Í Texas fylki í USA árið 1998.
Einn þeirra dó viku seinna en sjö þeirra héldu upp á tíu ára afmælið sitt 10. des s.l.
Nkem Chukwu móðir þeirra segir að móðir hinna nýfæddu áttbura verði að njóta þessarar blessunar sem átta börn í einu séu.
Ég man ekki betur en að fyrir margt löngu hafi verið gerð kvikmynd með Jerry Lewis þar sem hann eignaðist átta börn á einu ári.
Gott ef þessi mynd hét ekki einmitt " Átta börn á einu ári" á Íslensku?
En hann átti þau ekki öll í einu, svo mikið man ég.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 04:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2009 | 14:16
Tveggja ára snáði í fangelsi
Athygli á örlögum Nigles var vakin fyrst af bloggara sem heitir Denford Magora og skrifar frá Zimbabwe. Hann lýsti eftir drengnum 8. janúar en nú er hann fundinn og hefur verið látinn laus.
25.1.2009 | 19:45
Gunnar í Krossinum sagður hugsjúkur
Á bloggi Margrétar St Hafsteinsdóttur lýsir Svanur Sigurbjörnsson læknir því yfir í að Gunnar Þorsteinsson oft kallaður Gunnar í Krossinum sé hugsjúkur. Hugsýki (neurosis) er samkvæmt skilgreiningu vísindavefs Háskóla Íslands tegund af vægum geðsjúkdómi. Svanur Læknir greinir líka eðli geðsjúkdómsins og segir hann stafa af "bókstafstrú í bland við mikilmennskuóra".
Nú veit ég ekki hvort Gunnar er skjólstæðingur (sjúklingur) Svans en ef svo er efast ég ekki um hæfni læknisins til að sjúkdómsgreina Gunnar. En þá skýtur upp spurningunni hvort rétt sé að Svanur læknir tjái sig um geðheilsu sjúklings síns á opinberum vettvangi. Sé Gunnar aftur á móti ekki skjólstæðingur Svans, er erfitt að sjá hvaða læknisfræðilegar forsendur liggja að baki þessari greiningu.
Á umgetinni síðu Margrétar hafa margir tjáð sig um persónu Gunnars og að mínu viti jaðra mörg ummælin við brot á meiðyrðalöggjöfinni, hvort sem hún er túlkuð vítt eða þröngt. En það má virða það sumum til vorkunnar að þeir telja sig nokkuð örugga þegar þeir eru aðeins að enduróma skoðun læknis.
Nú kann vel að vera að athugasemd (49) Svans Sigurbjörnssonar hafi verið skrifuð af kappi frekar en forsjá. Og e.t.v. var hann ekki að nota orðið hugsýki sem læknisfræðilega skilgreiningu.
Þegar verkfræðingur tjáir sig um styrkleika byggingar er á hann hlustað. Í krafti þekkingar verkfræðinga standa hús eða falla. Þegar að læknar tjá sig um heilbrygði eða veikindi, er tekið mark á orðum þeirra. Það geri ég alla vega.
Ég hefi oft á mínu bloggi talað gegn "bókstafstrú" og talið hana undirrót margra af heimsins meinum. Ég hef líka talað á móti persónuníði í athugasemdum mínum, þótt ég sé alls ekki sammála þeim sem fyrir því verður á neinn hátt, líkt og er í þessu tilfelli.
En af því ég er "trúaður" og af því að það gæti hæglega einhverjum dottið í hug að kalla trú mína "bókstafstrú" leiði ég hugann að því hvenær ég verð kallaður hugsjúkur af því tilefni.
Ég heimsótti einu sinni gamla konu sem hét Júlía og átti heima í Prag. Þetta var á þeim tímum þegar kalda stríðið var upp á sitt besta og Tékkóslavía var öllu jöfnu lokað land. Ástæða heimsóknarinnar var að Júlía hafði verið leyst úr haldi eftir 15 ára vist á geðveikrahæli sem í sjálfu sér var ekkert annað en fangelsisvist. Hennar geðveila var að hún hafði tekið Bahai trú.
Ég gleymi aldrei æðruleysi hennar og ánægjunni sem skein úr gráum augum hennar yfir að sjá einhvern sem hugsaði svipað og hún. Hún ræddi við mig á slæmri ensku en mest brosti hún bara og sýndi mér gamlar myndir frá því að hún var ung kona.
Ég mátti aðeins vera í þrjá daga í Prag og hvar sem ég fór um var ég stöðvaður af lögreglu og beðin um skilríki og skýringu á veru minni í landinu. Skömmu eftir að ég var kominn heim aftur bárust þær fregnir að Júlía hafði verið aftur flutt á geðveikrahælið aftur þar sem síðan lést þremur árum seinna,nokkrum mánuðum áður en kalda stríðinu síðan lauk og Sovétríkin hrundu.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
20.1.2009 | 17:31
Hvað kalla Íslendingar stúlkur sem........
Hvað mundi maður kalla stúlku á Íslandi sem hefði það helst fyrir áhugamál að; drekka sig hauga-fulla af bjór um helgar (eða eins oft og kostur er og helst æla) , öskra, dansa, aka um í hraðskreiðum bílum, segja og hlusta á kjaftasögur, senda skilaboð í síma og láta sér í léttu rúmi liggja hvar hún eyðir nóttunum og í félagsskap við hvern.
Hvað kalla Íslendingar stúlku sem hagar sér, ja, eins og illa upp alinn strákur? Illa upp alda stelpu eða eitthvað annað?
Sín á milli kalla þær hver aðra það sama og strákarnir kalla þær, þ.e. druslur, dræsur, tíkur og tussur. Hér í Bretlandi kallar almenningur þær Ladettes.
Það ber meira á slíkum stúlkum hér enn nokkru sinni fyrr og þær eru að finna í hverju einasta bæjarfélagi. Þær halda ekkert sérstaklega félag við drengina en þær haga sér nákvæmlega eins.
Fjöldi unglinga sem eyðir mestum tíma kvöldsins drekkandi á götum úti hefur aukist svo um munar og mórallinn á meðal þeirra er miklu harðari og metnaðarlausari enn sést hefur. -
Ný yfirriðin kreppa, atvinnuleysi og lánaþurrð, komu eins og staðfestingar fyrir þessa krakka á því að það sem réði framapoti þeirra sem ólust upp á níunda og tíunda áratugnum, sé ekki meira virði en fyllirí og flans.
Strákarnir eru búnir að vera í uppreisn við hugmyndina um "mjúka manninn" all-lengi og stelpurnar nenna ekki lengur að halda einar uppi því sem var eftir af siðmenntaðri hegðun í hópnum.
Strákarnir eru kallaðir Lads (sveina) og stelpurnar Ladettes(sveinkur?) Afar siðmenntuð nöfn yfir frekar lágkúrulega lífsstefnu.
Þeir sem vinna að kynja-jafnréttismálum sjá mikla afturför í hegðun þessara krakka. Dræsutískan er alsráðandi meðal stelpnanna og grín strákanna gengur aðallega út á klúran sexisma. Markmið stelpnanna er ekki miklu hærra en að verða óléttar, komast á bætur og barnabætur og fá bæjaríbúð til umráða, án vinnandi maka til að missa ekki bæturnar.
19.1.2009 | 16:40
Hallelujah
Að leiða hugann að því sem virkilega gleður mann getur verið afar gagnleg sjálfsskoðun. Ég ákvað fyrir skömmu að gera skrá yfir þá hluti sem eru flestum aðgengilegir og hafa glatt mig í gegnum tíðina. Meðal tveggja laga sem ég setti á listann var lagið Halleluhja sem samið var af kanadíska ljóðskáldinu Leonard Cohen og gefið fyrst út á plötu með honum sjálfum árið 1984. Síðan þá hafa meira en 180 listamenn get laginu skil en af þeim sem ég hef heyrt, er ég enn hrifnastur af frumútgáfunni.
Cohen er sagður hafa gert áttatíu útgáfur af ljóðinu áður en hann varð sáttur við það og eitthvað mun hann síðar hafa reynt að krukka í textann því árið 1994 söng hann lagið á plötunni "Cohen live" og þar er textinn mikið breyttur.
Margt hefur verið ritað um merkingu upphaflega ljóðsins en það þykir augljóst að það er í stórum dráttum skírskotunin til ákveðinna texta úr Gamla testamentinu. Með þessum skýrskotunum skýrir ljóðmælandi afstöðu sína til Guðs og hvernig maðurinn, hann sjálfur, nálgast Guðdóminn. Titill lagsins og viðlag er lofgjörð og ákall til Guðs. Ljóðið er bæði heimspekilegt og Guðfræðilegt, en fyrst og fremst talar það til okkar í einfaldri fegurð sem hrífur sálina, hver sem skilningur okkar er.
Fyrsta erindið hljóðar svona;
Now I've heard there was a secret chord
That David played, and it pleased the Lord
But you don't really care for music, do you?
It goes like this
The fourth, the fifth
The minor fall, the major lift
The baffled king composing Hallelujah
Hallelujah
Hallelujah
Hallelujah
Hallelujah
Í fyrri Samúelsbók 16:23 er þessa tilvitnun að finna:
Og jafnan þegar hinn illi andi frá Guði kom yfir Sál, þá tók Davíð hörpuna og lék hana hendi sinni. Þá bráði af Sál og honum batnaði, og hinn illi andi vék frá honum.
Í niðurlagi erindisins er hljómagangur lagsins og tónfræði þess rakinn en það er jafnframt árétting stöðu mannsins (minor fall) sem fallinnar veru og guðdómsins (major lift) sem lyftir.
Annað erindið er svona;
Your faith was strong but you needed proof
You saw her bathing on the roof
Her beauty and the moonlight overthrew her
She tied you
To a kitchen chair
She broke your throne, and she cut your hair
And from your lips she drew the Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Það er einnig greinileg skírskotun til Samúelsbókar síðari 11:2, þar sem segir frá því er Sál fellur fyrir Batsebu.
Nú vildi svo til eitt kvöld, að Davíð reis upp úr hvílu sinni og fór að ganga um gólf uppi á þaki konungshallarinnar. Sá hann þá ofan af þakinu konu vera að lauga sig. En konan var forkunnar fögur. 3 Þá sendi Davíð og spurðist fyrir um konuna, og var honum sagt: "Það er Batseba Elíamsdóttir, kona Úría Hetíta." 4 Og Davíð sendi menn og lét sækja hana. Og hún kom til hans, og hann lagðist með henni, því að hún hafði hreinsað sig af óhreinleika sínum. Síðan fór hún aftur heim til sín.
Niðurlagið beinir huga okkar að örlögum Samsons sem greinir frá í Dómarabókinni 13-16. Breyskleiki allra, jafnvel þeirra sem eru Guði þóknanlegir er megin þemað í þessu erindi. Og það er breyskleikinn og freystingain (táknmyndir hans eru Batseba og Dalíla) sem draga lofgjörðina fram á varir okkar.
Í þriðja erindinu er fjallað um annað boðorðið
"Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.
You say I took the name in vain
I don't even know the name
But if I did, well really, what's it to you?
There's a blaze of light
In every word
It doesn't matter which you heard
The holy or the broken Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Ljóðmælandi, sem mín skoðun er að sé Cohen sjálfur, segir að hann þekki ekki nafn Guðs og spyr hvaða máli það skipti þegar hann sjái hvert orð sem ljósaslóð,hvort sem þau eru tilbeiðsla mannsins sjálfs eða tilbeiðsla (Hallelujah) sem manninum er lögð í munn af Guði.
Fjórða og síðasta erindið hljóðar svona;
I did my best, it wasn't much
I couldn't feel, so I tried to touch
I've told the truth, I didn't come to fool you
And even though
It all went wrong
I'll stand before the Lord of Song
With nothing on my tongue but Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah
Sumir hafa reynt að setja þetta erindi í munn Krists en ég er því ósammála. Þetta er Cohen sjálfur sem talar til síns Guðs og segist koma til dyranna eins og hann er klæddur og þrátt fyrir breyskleika sína hafi hann reynt að gera líf sitt að lofgjörð.
Á myndabandinu hér fyrir neðan flytur Cohen lagið í Þýska sjónvarpinu. Hann er dálítið vandræðalegur með alla þessa "engla" fyrir ofan sig, en styrkur lagsins blívur samt.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.1.2009 | 20:16
Ljóshnettir á ljósmyndum
Í heimsókn hjá vini mínum fyrir skömmu, tók hann mynd af mér þar sem ég var "að vega mann og annan". Hann sendi mér myndina nokkru seinna og sagði að þetta hefði verið versta myndin sem hann tók allt kvöldið og hann skildi ekkert í öllum þessum deplum á henni.
Hann tók sama kvöld fjölda mynda af fólkinu sem þarna var statt og engin þeirra var eins meingölluð og af mér. Gallinn er eins og auðsætt er að það er fullt af einhverskonar deplum á myndinni sem ég hefði haldið að kæmu frá skítugri linsu eða einhverju álíka. En af því að á hinum myndunum var enga depla að sjá, getur það varla verið.
Ég hef lesið um þetta fyrirbæri og trúi ekki einu orði af því sem fólk segir um svona hnetti eða "orbs" eins og fyrirbærið er kallað upp á enskuna, en fann samt frásögn ljósmyndara sem reyndi að afsanna að þetta væri yfirnáttúrulegt fyrirbæri eins og margir halda fram. Frásögn hans er að finna hérna.
Ég er enn á því að þetta séu algjörlega náttúruleg fyrirbæri en kann ekki að skýra málið frekar en Dave Juliano.
Trúmál og siðferði | Breytt 17.1.2009 kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)