Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.5.2012 | 00:38
Halldór og Huang nudda salti í sárin
Talsmaður Huang Nubo á Íslandi, Halldór Jóhannsson getur ekki stillt sig um að senda Ögmundi tóninn og ulla svolítið á hann í leiðinni og fetar þar í fótspor húsbónda síns sem sendi Ögmundi langt nef í gegnum kínverska fjölmiðla um helgina.
Ögmundur hefur hvað eftir annað bent á þá augljósu staðreynd að það getur ekki verið farsælt veganesti í ferðaþjónustu, að leggja upp í óþökk þeirra sem landið byggja og eiga von á andúð þeirra sem ætlað er að starfa við fyrirtækið eða greiða veg þess í gegnum kerfið.
Varla verður flugvöllur byggður á Grímsstöðum nema í góðu samstarfi við íslensk yfirvöld og varla verður eins umsvifamikil ferðaþjónusta og herra Huang hyggur á, að veruleika nema að við hana vinni fjöldi Íslendinga.
En kannski er þetta allt saman hluti af fléttunni sem Huang hefur í huga. Þessi hroki og skeytingarleysi gagnvart íslenskum stjórnvöldum, kemur alveg heim og saman ef Huang hyggist ekki ráða Íslendinga til þeirra verka sem hann vill láta vinna á Grímsstöðum, hver sem þau eru.
Og e.t.v. er allt þetta tal um flug- og golfvelli aðeins til að slá ryki og dollaramerkjum í augu viðsemjanda hans. E.t.v. hyggist Huang halda sig við kínverskt vinnuafl og stóla á að dollararnir greiði götu hans með annað. Þannig hefur háttur hans verið fram að þessu og engin ástæða til að ætla að hann fari nú að breyta um stíl.
![]() |
Ögmundur á eftir að gleðjast líka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.5.2012 | 12:10
Það sem Kína girnist, fær Kína á endanum
Enn og aftur sanna Kínverjar að þeir eru manna slungnastir við að ná því fram sem þeir vilja. Digurbarkaleg orð innanríkisráðherra breyta þar engu um. En þetta er gömul saga glæný. Það sem Kína girnist, fær Kína.
Kínverjar komast upp með að selja allra þjóða mest af vopnum til þjóða sem eiga að sæta banni við vopnakaupum, þeir halda hlífðarskildi yfir þjóðum sem ógna öryggi heimsins með því að þróa kjarna vopn í blóra við alþjóðasamþykktir, eins og Íran og Kóreu. Kínverjar komast upp með að halda aftur af þjóða-samfélaginu sem koma vill skikki á á málefni landa þar sem einvaldar halda gjörvallri þjóð sinni í herkví, líkt og í Sýrlandi.
Þetta gera þeir einfaldlega í krafti handstýrðs gjaldeyris og mikillar framleiðslugetu sem heldur uppi vestrænum neysluvenjum. Ef þú hentir út af heimili þínu öllu því sem búið er til í Kína yrði fátt eftir. Þeir hafa tögl og efnahagslegt hreðjatak á heiminum.
Það útheimtir af þeirra hálfu linnulausa ásókn í auðlindir jarðarinnar.
Stjórnvöld í Kína gera engan greinarmun á "Kínverskum einkafyrirtækjum" og fyrirtækjum sem rekin eru beint af ríkinu. Öll fyrirtæki í Kína þjóna kínverskri nýlendustefnu og þar við situr. - Um þetta vitnar framganga kínverskra fyrirtækja í Afríku þar sem mörg fyrirtæki sem reiddu sig á aðstoð eða samvinu við Kína, fóru af stað sem fyrirtæki í þjóðar eða einkaeign, en enduðu uppi sem eign kínverskra fjárfesta. Oft var það kínverska ríkið sjálft.
Það sama er upp á teningnum í sumum löndum suður Ameríku og Asíu.
Ef íslenskir bændur halda að það sé einhverra milljóna virði að rétta Kínverskri samsteypu litla fingurinn, ættu þeir að staldra við og horfa aðeins til þeirra sem slíkt hafa gert í öðrum löndum og standa núna uppi handleggja lausir.
![]() |
Huang segir samkomulag í höfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.5.2012 | 16:42
Feitar konur eru svo.......
Kynjamisrétti tekur á sig margar myndir. Ef taka á mark á feministum í nýrri ályktun þess ágæta félagsskapar, er langt í land að kynjajafnrétti ríki í landinu. Og líkalega er það rétt sem þessi könnun sýnir að feitar konur verða meira fyrir barðinu á misrétti á atvinnumarkaðinum, á meðan feitir karlar gera það bara gott. Og trúlega eru það einmitt feitu karlarnir sem standa fyrir þessu, eða hvað?
Að þetta sé satt um ástandið í landi þar sem í stefnir að konur verði í öllum æðstu þjóðarembættunum, fyrir utan að vera mjög fyrirferðamiklar í stærstu fyritækjunum, virðist dálítið mótsagnakennt. Forsætisráðherra er auðvita kona, Biskup er kona, Háskólarektor er kona og nú stefnir í að aftur vermi kona forsetastólinn á Bessastöðum. -
Engin þessara kvenna getur talist feit og því spyr maður sig hvort það sé virkilegt að frami þeirra sé virkilega tengdur vaxtarlagi þeirra. - Mundu þær hafa náð þessum árangri ef þær væru feitar?
En hvað er það sem gerir feitar konur svona misheppnaðar í atvinnulífinu? Setja yfirmenn fyrtækja, bæði karlar og konur, vaxtarlag kvenna í samband við einhver óæskuleg persónueinkenni? Eru feitar konur e.t.v. álitnar kærulausari, óáræðanlegri, latari eða ekki eins gáfaðar og grannar konur?
![]() |
Feitum konum mismunað á vinnumarkaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.5.2012 | 10:25
Lýðræði, meira lýðræði!
Þeim fjölgar enn forseta frambjóðendunum og það hlýtur að vera gott fyrir lýðræðið að hafa sem flesta til að velja úr. Best væri auðvitað samkvæmt þeirri hugsun, að allt kosningabært fólk væri í framboði og það skyldað til að gefa kost á sér og til að gegna þessu embætti yrði það kosið.
Því ber auðvitað fagna hversu margir hjartahreinir og óeigingjarnir Íslendingar hafa þegar tilkynt að þeir séu tilbúnir að fórna sér fyrir land og þjóð í þessu embætti. Og hversu margir eru sannfærðir um að vígi sitjandi forseta svona langt frá því að vera öruggt, að þeir telja sig eiga góða möguleika á að hljóta kosningu.
Lýðræðið er í miklum vexti á Íslandi því sem stendur slagar fjöldi forseta frambjóðenda hátt upp í þann fjölda stjórnmálaflokka og hreyfinga sem hyggjast bjóða fram í næstu Alþingiskosningum. Úrvalið er sem sagt mikið, þótt kannski ekki sé hægt að segja að það sé fjölbreytilegt.
Hvað forsetaframbjóðendur snertir á eftir að koma í ljós hvað greinir helst á milli þeirra en líklegast er að meðal þeirra komi fram jafnvel enn minni áherslumunur en á meðal stjórnmála aflana. - Frambjóðendur munu auðvitað halda sig við klisjurnar og stikkorðin, það er öruggast, nema Ástþór sem hefur komið sér upp salveg sérstakri stefnu um hvernig hann hyggist nýta embættið. Hann er einnig sá frambjóðenanna sem gerir sér minnstar vonir um að ná kosningu.
![]() |
Andrea tilkynnir um forsetaframboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.4.2012 | 21:47
Er slagnum lokið áður en hann hófst?
Yfirburðir Þóru Arórsdóttur nýlegri skoðanakönnun um fylgi forseta frambjóðenda eru vissulega ánægjuleg tíðindi fyrir hana og stuðningsfólk hennar. Helstu spunameistarar Ólafs Ragnars, þeir sem studdu hann með ráðum og dáðum forðum daga, eru flestir komnir í lið með Þóru og þessar tölur vitna um að þeir kunna svo sannarlega til verka.
Kosningaslagurinn virðist samkvæmt þessu vera á enda, áður enn hann var raunverulega hafinn, því ÓRG, eini frambjóðandinn sem talinn var hafa einhvern möguleika að vinna Þóru, hefur ekki enn hafið sína kosningabaráttu og spurning því hvort ekki um seinan fyrir hann yfirleitt að leggja út í hana.
E.t.v. er enn mögulegt fyrir forsetann að ganga frá þessu með reisn og sæmd og draga framboð sitt til baka, eitthvað sem ÓRG hlýtur að hugleiða um leið og fylgi Þóru eykst og hans eigið fylgi minkar dag frá degi. - Greinilegt að fylgi Ara Trausta er einkum tekið frá forsetanum en ekki á kostnað Þóru svo ekki eru horfur á að þessar tölur lagist nokkuð ÓRG í hag þegar fram líða stundir því Ari Trausti er líklegri til að bæta í frekar en hitt.
![]() |
Ég er bara full þakklætis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.4.2012 | 12:49
Ólafur Ragnar og kvíslir vinstri manna
Mikið er Styrmir Gunnarsson glöggur að koma auga á að á meðal vinstri manna sé miklu meira val fyrir fólk um áherslur og málefni, en á meðal hægri manna. Greinilegt að vetrardagar hans eru kaldir.
Í hans huga hafa hugtökin hægri & vinstri enn mikla þýðingu í íslenskri pólitík, svona rétt eins og þau gerðu á dögum kalda stríðsins þegar hann sjálfur var í eldlínunni og hélt uppi skýrum línum með röggsamri ritstjórn á málgagni íhaldsins -
En mikið rétt hjá Styrmi að á "vinstri" vængnum er ekki að finna sama aga og foringjahollusta og á þeim hægri. Flokkssvipur íhaldsins, sem refsa fyrir óhlýðni og umbuna fyrir hollustu vinstri hægri, sjá til þess að hópurinn helst þéttur og stór, jafnvel þegar stefnan býður skipbrot.
En það liggur svo sem í eðli þeirra hugsjóna sem þessi afdankaða pólitíska greining byggir á. Þær kristallast í öfgum þeirra, þ.e. lengst til vinstri finnurðu stjórnleysi og lengst til hægri alræðisstjórn.
Óánægjan með störf ríkisstjórnarinnar meðal fólks með hjartað vinstra megin, hefur margar birtingarmyndir.
Ein þeirra er að það sumt hvert, sameinast íhaldinu af fullum krafti í stuðningi við Ólaf Ragnar Grímsson, sem íhaldið er farið að líta á sem þeirra eina mótvægi við frekjuna í Jóhönnu og Steingrími.
Þessir samvisku-liðhlaupar segjast segjast m.a. vilja standa vörð um sjálfstæði Íslands og gera pólitískar þrætur hluta af embættinu.
Jafnvel þótt það kosti að þar sitji áfram maðurinn sem á svo margan hátt er tákngerfingur hrunsins og hins "gamla Íslands". - ÓRG heldur kannski að hann sé teflon húðaður, en í komandi kosningabaráttu mun þjóðinni verða að fullu ljós þáttur hans í því gönuhlaupi sem kallað er íslenska útrásin.
Ólafi tókst vissulega á sínum tíma að lengja verulega í Icesave-hengingarólinni. Þau kurl eru því miður ekki enn komin til grafar og enn, satt að sega, ótímabært að fagna sigri í þeirri deilu. -
Samt ber að þakka Ólafi þá höfuðlausn, jafnvel þótt tímabundin kunni að vera.
Ólafur Ragnar einn og sér, myndar því enn eina vinstri kvíslina sem Styrmir er að reyna að henda reiður á.
![]() |
Sjö kvíslir vinstrimanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.4.2012 | 00:02
Þóra Arnórs sígur fram úr ÓRG
Í nýjustu skoðanakönnuninni er Þóra Arnórsdóttir forsetaframbjóðandi svo gott sem komin fram úr herra Ólafi Ragnari. Samt hefur hún lítið gert annað en að lýsa yfir þátttöku sinni. Kosningaherferð hennar er ekki hafin. -
Hægri menn eru að fara á límingunum yfir þessu mikla fylgi hennar. Ergelsi þeirra er reyndar skiljalegt. Fyrst urðu þeir að taka vinstrimanninn Ólaf Ragnar í sátt, manninn sem sagði helsta foringja þeirra í seinni tíð hafa skítlegt eðli og styðja hann í komandi forsetakosningum. Og svo er hann núna, eftir allt saman, líklegur til að tapa kosningunum. -
Ergelsi íhaldsins birtist líka í því hvernig þeir reyna eins og rjúpan við staurinn að klína pólitískum stimpli á Þóru. - Hræðsluáróður þeirra og raus verður lágkúrulegri á hverjum degi og nú reyna að gera að því skóna að ætlunin sé að koma Þóru á Bessastaði í þeim eina tilgangi að láta ekki ESB umsóknina fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.
En Ólafur Ragnar hefur heldur ekki hafið sína baráttu formlega til að sitja á Bessastöðum eitt kjörtímabilið enn. Hann veit sem er, að því minna sem hann segir því betra.
Fólk er fljótt að fá leið á þunglamalegum og óþarflega formlegum stíl hans sem ræðumanni. Að auki kunna flestir klisjurnar hans utanbókar.
Öfugt á við Þóru á hann lítið inni en Þóra er rétt að byrja.
11.4.2012 | 11:39
ÓRG ætti að draga sig í hlé
Margir þeir sem lögðu hvað harðast að Ólafi Ragnari að gefa kost á sér til forsetakjörs, eina ferðina enn, eftir að hann virtist vera ákveðin í að draga sig í hlé, bjuggust við því að fyrirstaðan mundi ekki verða mikil.
ÓRG mundi verða sjálfskjörinn héldu þeir, ef Ástþór Magnússon væri ekki alltaf að þvælast fyrir. -
Annað hefur komið á daginn. - Einhugurinn sem stuðningsmennirnir töldu að ríkti um ÓRG, sem þeir sjá hann sem pólitíska bjargvætt þjóðarinnar, er greinilega ekki til staðar. -
Þess í stað hafa risið upp dágóður fjöldi frambærilegra og landsþekktra frambjóðenda og eftir því sem þeim fjölgar minkar fylgi ÓRG. - Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður hefur nú tilkynnt að hann muni tilkynna sig til leiks fljótlega og ef þeir sem þegar hafa verið orðaðir við framboð láta til skarar skríða, er hörð og snörp kosningabarátta fyrirsjáanleg.
Hætt er við að fylgi sigurvegarans þegar upp er staðið, verði miklu minna fyrir bragðið og varla hægt að segja að meiri hluti þjóðarinnar komi til með að standa að baki honum.
Það er e.t.v. ásættanlegt og viðbúið ef einhver af nýju kandídötunum verður fyrir valinu, en ansi súrt epli fyrir ÓRG að bíta í, hann sem er svo stoltur af landsföðurlegri ímynd sinni.
Og hvernig mun það koma við sálartetur Ólafs ef hann verður fyrstur sitjandi íslenskra forseta til að bíða ósigur í forsetakjöri?
Væri ekki heppilegra fyrir þjóðina alla og ÓRG að hann dragi sig nú í hlé svo hann geti gengið frá embættinu með sæmd og haldið áfram að rækta landsföðurímyndina í viðtölum og fyrirlestrum eins og hann ætlaði að gera um áramótin síðustu.
![]() |
Ari Trausti boðar blaðamannafund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.4.2012 | 11:31
Svo gott og ódýrt að vera dáð
Mikið hlýtur það að vera þægilegt að vera með fullt af fólki í kringum sig sem er tilbúið að leggja allt sitt af mörkum til að vegsemd og frami manns sjálfs verði sem mestur. - Og yndislegt hlýtur að vera að finna fyrir elsku fólks af öllum stéttum í sinn garð, bæði úr "atvinnulífinu sem fræðasamfélaginu" eins Kristín Ingólfsdóttir rektor gerir, fólks sem þráir heitt að hún verði næsti forseti lýðveldisins. "Atvinnulífið og fræðasamfélagið" er eins og allir vita, tveir mikilvægir hópar, sem forsetaframbjóðendur þurfa að geta höfðað til, því þeir skarast lítið sem ekkert.
En Kristín rektor fer sér að engu óðslega. Hún ætlar ekki að flana út í kosningabaráttu ef hún á ekki neina möguleika á að bera sigur úr býtum, eiginlega, ef hún er ekki örugg með að bera sigur úr býtum.
þrátt fyrir alla elskuna og stuðninginn frá Rúnu Hauksdóttur lyfjafræðingi og örlæti vina hennar, er Kristín ekki viss um hvernig landið liggur. - Þess vegna þarf að kanna rækilega hverjir möguleikarnir eru. Það verður ekki gert nema á vísindalegan hátt. Og það er þægilegt að vita til þess að aðdáendur manns og velunnarar eru tilbúnir til að leggja út fyrir slíkum könnunum, því þær koma jú ekki ókeypis kannanirnar.
Og ef allt sýnist gulltryggt, þá og aðeins þá, mun Kristín látast til leiðast.
![]() |
Kanna fylgi Kristínar til forseta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.4.2012 | 04:21
Óttinn um framtíð Bessastaða
Ólafur Ragnar hefur látið loka fyrir aðgengi að Bessastaðanesi. Hann vill ekki að hver sem er geti farið um svæðið óhindrað eins og mögulegt hefur verið fram til þessa. - Hvað óttast Ólafur Ragnar?
Þessar aðgerðir forsetans eru óneitanlega afar táknrænar þegar þær eru settar í samhengi við mögulega framtíð ÓRG og embættisins sem hann gegnir og í ljósi þess hvernig hægri menn á Íslandi slá nú skjaldborg um hann og embættið.
Enginn skal í gegn sem ekki er þeim þóknanlegur og tilbúinn til að synja hinum og þessum lögum sem ekki eiga upp á pallborðið hjá þeim.
Og ÓRG hefur sýnt og sannað að hann er ansi sveigjanlegur þegar kemur að hverskonar pólitísku makki.
Í ræðu og riti öfgasinnaðra hægrimanna síðustu daga, eftir að það fréttist að Þóra Arnórsdóttir hugðist bjóða sig fram, kemur skýrt fram að aðeins ákveðið fólk er æskilegt að Bessastöðum.
Samkvæmt þeirra skýringum þarf næsti forseti að vera rammpólitískur harðjaxl sem staðið getur á móti aðgerðum stjórnvalda, ef svo ber undir. -
Þess vegna hentar ekki, að þeirra mati, að ópólitísk manneskja eins Þóra Arnórsdóttir setjist að á Bessastöðum.
Og til vara, og í einkennilegri mótsögn við sjálfa sig, keppast þeir líka við að níða af henni skóinn, segja hana útsendara pólitískra afla, að henni sé vinstri slagsíða í blóð borin og allt hennar framboð eitt allsherjar samsæri til að koma þjóðinni í ESB án þess að til þjóðaratkvæðagreiðslu komið. -
Þessum fyrrum er haldið blákalt fram af málsmetnandi mönnum, öllum helstu lúðurþeyturum íhaldsins og þær eru vitiði til, aðeins upphafið á hatursáróðrinum gegn henni.
Þeir vita sem er að Þóra er sú sem enn hefur komið fram sem getur veitt ÓRG, verulega samkeppni og e.t.v. orðið fyrst til að sigra sitjandi forseta í kosningum á Íslandi.
![]() |
Lokað og læst við Bessastaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)