Smáhestarnir á Dartheiði

800px-Dartmoor_PoniesÍslendingum finnst heldur óviðeigandi þegar þeir heyra enskumælandi fólk kalla íslenska hestinn "pony." Hér í suðvesturhluta Englands er að finna smáhesta-kyn á stærð við það íslenska og er það kennt við Dartmoor. Ekki  dettur nokkrum manni í hug að kalla þá "hesta" og eru flestir hreyknir af því að geta enn kallað þá "Ponies". 

Í grennd við Dartmoor (heiðlendi) voru  fyrrum miklar tinnámur og voru Dartmoor smáhestarnir sérstaklega ræktaðir á miðöldum til að bera þungar klyfjar úr námunum. Námurnar voru pyttir og það þurfti smá og um leið harðger burðadýr til að komast upp úr pyttunum með þungar byrðar. Á árunum 1789 - 1832 reyndu menn að gera kynið enn smávaxnara með því að blanda kynið smáhestum frá Shettlandi með það fyrir augum að búa til hinn fullkomna pytthest.

Eftir að námurnar lögðust af voru hestarnir nokkuð notaðir við bústörf en flestum var sleppt lausum á heiðina. Á síðustu öld blönduðust Dartmoor smáhestarnir allmikið öðru kyni, þar á meðal Fell-smáhestum sem eru frá Norður Englandi og jafnvel arabísku og welsku blóði.

800px-Dartmoor_pony_1Eftir að heimstyrjöldinni síðari lauk jókst áhuginn á þessu sérstaka smáhestakyni en þá var svo komið að afar fáir hestar fundust sem talist gætu óblandaðir. Upp úr 1950 fór þeim samt aftur að fjölga og eru nú taldir vera um 5000 talsins.

Dartmoor smáhestarnir eru svipaðir á hæð og þeir íslensku (11.1-12.2 hh) og eru bleikir, brúnir, svartir eða gráir á lit.

Taminn er hann einkum notaður sem æfingahestur fyrir börn en einnig af fullorðnum til veiða og útreiða.


Svínin hans Bladuds

2625067240_faf4927a46Út um allar grundir í borginni Bath getur að líta svín sem hafa verið máluð og skreytt listilega af hagleiksmönnum borgarinnar. Þau eru eitt hundrað að tölu og voru gerð til þess að minnast stofnunar Bath-borgar af konunginum Bladud sem þjóðsagan segir að hafi verið fyrstur til að reisa þar mannvirki. Hvernig svínin koma þar við sögu, getið þið lesið um hér að neðan, þar sem ég hef tekið saman helstu atriðin úr þjóðsögunni  um Bladud.

Bath er sögufræg borg og þar hafa fundist mynjar um mannvistir langt aftur úr steinöld. Líklegast er þó talið að það hafi verið Rómverjar sem fyrstir ákváðu að nýta sér heitavatnslindirnar sem þar eru að finna en þeir nefndu staðinn Aquae Sulis (Vatn Sulis) . Þeir byggðu þar rómverskt bað um miðja fyrstu öld  E.K. og er hluti þess enn í notkun. Þetta ku vera eini staðurinn á Bretlandseyjum þar sem heitt vatn (ca 46 gráðu heitt)  seytlar upp úr jörðinni. Bretar hafa um aldir haft mikla trú á lækningarmætti vatnsins og við lindirnar var reist sjúkrahús fyrir holdsveika snemma á elleftu öld og stendur það enn. Seinna á átjándu og nítjándu öld varð Bath að helstu slæpingjaborg breska aðalsins og vinsæll dvalarstaður hóstandi skálda.

Sagan af Bladud  

_44679865_pigs_pa466Eitt sinn ríkti konungur yfir Bretlandi sem hét Rud Hud Hudibras. Þetta var á þeim tímum sem konungur og ríkið voru eitt og svo lengi sem konungurinn var sterkur og heilbrigður, farnaðist landinu og íbúum þess vel. Hann átti son einn fríðan sem hét Bladud og skyldi hann erfa ríkið að föður sínum gengnum. Hudibras sendi Bladud til mennta alla leið til Grikklands þar sem hann lærði öll þau vísindi sem lærðustu menn þess tíma kunnu. Þegar hann snéri heim hafði hann í för með sér fjóra heimspekinga sem stofnuðu háskóla í Stamford í Lincolnsýslu. Á ferð sinni til baka frá Aþenu smitaðist Bladud af holdveiki. Hudibras þótti ekki tilhlýðilegt að holdsveikur maður tæki við völdum af sér og rak því Bladud í burtu og gerði hann útlægan frá hirð sinni. Niðurlægður og vafinn sóttarbindum hélt Bladud í burtu frá Lundúnum. Hann eigraði um landið en settist að lokum að í þorpinu Swainswick og gerðist svínahirðir. Swainswick er í nágrenni þeirrar borgar sem nú nefnist Bath.

BladudDag einn sat Baldud og gætti svínanna. Allt í einu tóku þau á rás og héldu í átt að skóglendi einu þar sem eymyrju mikla lagði upp af jörðinni. Bladud vissi að bændurnir í kring höfðu illan bifur á þessum stað og töldu illa anda vera þar á sveimi. Svínin hlupu eins óð væru beint inn í skóginn og Bladud átti þess einan kost að fylgja þeim eða tapa þeim öllum ella. Inn í skóginum lá eymyrjan yfir öllu og mikill óþefur var í loftinu. Bladud hafði samt ekki farið langt þegar hann kom að rjóðri þar sem svínahjörðin veltist um í daunillri eðju. Bladud óð út í eðjuna og streittist við að toga svínin upp úr henni og reka þau til baka.

Loks þegar öll svínin voru kominn upp úr foraðinu, var Bladud orðin svo þreyttur að hann skreið á fjórum fótum upp úr eðjunni og steinsofnaði. Þegar hann opnaði augun aftur sá hann geislandi hvítklædda veru standandi yfir sér. Bladud vissi að þetta var engin önnur en Minerva Sulis sú sem Grikkir kölluðu Aþenu. "Mundu mig þegar þú tekur við riki þínu" mælti gyðjan. Svo leystist hún upp og sameinaðist gufunni sem lagði upp af eðjunni.

Bladud sá að svaðið hafði myndast við að heitt vatn streymdi upp úr jörðinni. Bladud týndi nú af sér leppana og hugðist þvo af þeim mesta leirinn í heita vatninu en sér þá að hold hans var hvergi opið og að hann er orðinn alheill sára sinna.

Bladud vissi að nú gæti faðir sinn ekki snúið sér burtu og því héllt hann til baka til Lundúna og var þar fagnað vel. Tók Bladud við ríki föður síns eftir andlát hans og ríkti í 20 ár. Minnugur orða gyðjunnar  lét hann byggja hof yfir heitavatnsuppsprettuna og tileinkaði það Mínervu Súlis. Varð hofið strax  fjölsótt af þeim sem sjúkir voru og læknuðust allir við að taka inn vatnið eða baða sig í leirnum sem það rann ofaní.

689px-Roman_Baths_in_Bath_Spa%2C_England_-_July_2006Þegar að Bladud tók að eldast, fékk hann mikinn áhuga á öllu sem viðkom flugi. Taldi hann líklegt að maðurinn gæti flogið eins og fuglinn svo fremi sem það tækist að smíða vængi úr nógu léttu efni. Lét hann gera sér vængi úr ýmsum efnum og gerði nokkrar misheppnaðar tilraunir til flugs.  Loks fékk hann gerða vængi úr stráum og vaxi sem hann taldi að mundu duga. Hann lét boð út ganga að hann mundi reyna vængina sjálfur á ákveðnum degi og mundi flugið hefjast á hæð einni nálægt hofinu sem hann hafði byggt fyrir Súlis. Á þessum tiltekna degi safnaðist aragrúi af fólki saman fyrir neðan hæðina og fylgdist þar með konungi sínum hlaupa af stað og baða út vængjunum sem hann hafði látið reyra við handleggi sína. Og viti menn, nákvæmlega á því augnabliki sem allir önduðu frá sér eftir að hafa haldið niður í sér andanum af eftirvæntingu, tókst Bladud á loft. Hann flaug í hringi yfir mannfjöldanum og svo tók hann stóran sveig inn yfir skóginn. Hann lét sig svífa niður að hofinu og hvarf ásjónum fólksins inn í heita gufuna sem lagði upp af því. Þegar hann kom ekki aftur út úr gufunni var farið að athuga hvort hann hefði hugsanlega lent í skóginum. Skömmu seinna fannst Bladud með bráðnaða og brotna vængi liggjandi á altarinu fyrir utan hofið með svöðusár á höfði og voru dagar hans þar með allir.

Sonur hans tók við völdum en hann hét Lér og var gerður ódauðlegur í einu verki ónefnds rithöfundar, löngu, löngu seinna.

 


Æskan í einum hnút

_40680730_knots_ap203bodyInkar tileinkuðu sér þá tækni að geyma sögu sína í hnútum. Þetta hnútaletur er afar torráðið og enginn skilur það í dag. Til eru mörg hnútaknippi sem geyma sögu Inkanna og bíða þess tíma að einhver snillingur höggvi á gátuna eða finni Rósettastein hnútanna. 

Æska mín er eins og hnútur. Um leið og ég losa um hann rennur sá tími upp fyrir mér eins og þræðir sem liggja í allar áttir og lokast jafn hraðan um leið og ég herði aftur að.

 

bat1bÆskan var alheimur sem stjórnað var af órjúfanlegum lögmálum og konstöntum. Lífið var hrikalega spennandi þrátt fyrir konstantanna því það var verið að þýða rit sem fundust við dauðahafið sem mundu varpa nýju ljósi á allt og þegar höfðu fundist 2000 ára leirker í Bagdad sem voru reyndar rafhlöður sem notaðar voru til að gull og silfurhúða aðra minna verðmætari málma. Að auki var svo til 1500 ára gömul risastór járnsúla í Indlandi sem ekki ryðgaði.

139365169_45a6cc4a7dÍ alheimi æskunnar hafði allt sinn tíma og allir sinn stað. Afi vann í efnalauginni, Amma í Apótekinu (aldrei skorti apótekara eða saltpillur), Mamma van heima og Pabbi í frystihúsinu. Höfnin iðaði af fiski og fólki sem var á leiðinni í Litlu eða Stóru milljón, Jökul, Atlandor, eða HF.  Eyfi var í íþróttahúsinu og heimtaði alltaf að allir tækju kalda, Búkki í musterinu sem kallað var bókasafn, Hermann var skólastjóri sem þú sást bara tvisvar á ári, við setningu og þegar hann kom í stofuna á litlu jólunum til að líta á töfluskreytinguna. Kristján skalli var kennari og Jósafat rak Kyndil þar sem leikarabúntin voru seld og grímurnar fyrir gammárskvöld.

Bubbi rak Nonna og Bubba, Hafsteinn sá um UMFK, Siggi Steindórs um KFK og Helgi S. um skátana. (Því var hvíslað að hann hefði verið Nasisti og við lágum oft í leyni að reyna sjá hann gegnum gluggana heima hjá honum marsera um gólf í Nasista-búninginum en tókst það aldrei)  

Svínó og Mánavöllur voru alltaf uppteknir, á vetrum var skautað upp á vötnum, Kiddi seldi fisk, Sölvi og Kæja í Sölvabúð, Þórður á Dorró og Bjössa og Félagsbíó voru bæði opin á hverjum degi.Heima hjá kanastrákum mátti horfa á sjónvarpið og þar var Vic Morrow úr Combat með beygluðu sígarettuna  svalastur. Næstur á eftir honum var Popeye.

Alþýðubrauðgerðin seldi maltbrauð, Amma Jóns bakaði flatkökur og Diddi bíló var almesti töffarinn. Eitt sinn kom hann inn á Dorra, klæddur rauðum gallajakka og í þröngum hvítum gallabuxum, tók upp litla skammbyssu og miðaði henni á afgreiðslustúlkuna. Einn Palmal, sagði hann skipandi. Stelpan var að míga á sig af hræðslu. Hún setti pakkann á borðið. Diddi , tók hann með annarri hendi, reif hann upp með tönnunum án þess að sleppa miðinu af stelpunni, slóg eina sígarettu upp úr pakkanum og greip hanna með öðru munvikinu. Svo hleypti hann af skammbyssunni og fram úr hlaupinu stóð loginn, sem hann notaði til að kveikja sér í sígarettunni. Hvað er það mikið spurði hann svo.

Roy-Rogers-Trigger-Photograph-C12148201

Pollarnir í bænum voru djúpir og cupachino brúnir, allstaðar risu stillansar upp við við nýbyggingar og allir voru með einhverskonar dellu. Það var leikaradellan, þar sem Bonansa serían var lengst og verðmætust og Logi Þormóðs átti hana alla , hasarblaða della, þar sem Combat blöðin ofan af velli voru vínsælust og Andrés Önd var fyrirlitin, Parísardella þar sem flugbeittum skátadálkum var kastað í stóra-parís, yfir, (stjórnað af stelpum) servéttudella sem bara stelpur höfðu, Cowboy della ala Roy, og skylmingardella ala Prins Valíant og sunddella ala Guðmundur Harðar. Hjóladella,  kassabíladella, kastaladella, trukkadella og brennudella, (saltpétur og sykur). Síðan mátti á milli áhugamálanna stelast upp á flugvélahauga eða völl til að kaupa sugardaddy sleikjóa í sjálfsölunum sem voru náttúrulega toppurinn. Grjótharður karamelluhlunkur sem sem var á við 20 haltu kjafti karamelur.

head4671d72e596e2Fótbolti var ekki della, heldur lífsmáti, þess vegna telst hann ekki með. Á sumrum var spilað frá 10 til 10. Á vetrum var teikað og farið upp á vötn að skauta. Gísli Torfa teikaði víst einu sinni Sandgerðishringinn.

En almesta dellan var hljómsveitardellan. Hún greip um sig eftir að Hljómar urðu frægir. Ég spilað lengi (a.m.k. í tvær vikur) í hljómsveit með Sigga svarta, Jóni bæjó og Bjössa á Sunnubrautinni. Við fengu að æfa, a.m.k. einu sinni á græjurnar hjá Óðmönnum niðrí Ungó og við spiluðum tvisvar opinberlega. Í fyrra sinnið í pásu hjá Bendix á balli upp í Æskulýðsheimili, og seinna hjá Ómönnum sem spiluðu á árshátíð skólans. Í hvorugt skipti tókst okkur að halda lagi en það var í góðu lagi því við vorum í hljómsveit.

Veröldin var í föstum skorðum og allt sem gat, endaði á ó.

 


Götu-tónlistin í Bath

Bath er fögur og litrík borg, ekki hvað síst hvað mannlífið varðar. Fyrr í sumar var haldin hin árlega tónlistarhátíð (The Bath music Festival) og þar komu saman margir frægir og góðir listamenn. Í tilefni af sextíu ára afmæli hátíðarinnar voru gerðar nokkrar 60 sekúnda langar kvikmyndir um hátíðina en ég kaus að fara aðra leið og gera kvikmynd um þá sem ekki komu þar fram en eru engu síður hluti af tónlistarlífinu hér í borg. Hér kemur einnar mínútu tónlistar-póstkort  frá Bath. 


Ensk þjóðasaga

Kevan Manwaring, sögumaður og rithöfundur segir gamla þjóðsögu af tilurð eins af mörgum steinhringjum sem finna má í suðvestur Englandi.

drew1

Kom, synti og sigraði og sigraði og sigraði og ...

home_swimmer

Það eru allar líkur á að hinn  23 ára Michael Phelps frá Baltimore í Marylandfylki vinni 8 eða 9 Ólympíugull á þessum leikum og verði krýndur af heimspressunni Ólympíumeistari allra tíma. Hann vann fimmta gullið í dag og hefur þá unnið samtals 11 gull, sex þeirra á síðustu leikum í Aþenu. 36 gull eru í boði fyrir sund af um 300  á öllum leikunum. Það er hlutfallslega óeðlilega há tala miðað við aðrar íþróttagreinar finnst mér.

Michael Phelps er sundkappi mikill sem var lagður í einelti í skóla og borðar nú 12000 hitaeiningar á dag. Hann keppir í þeirri íþróttgrein á Ólympíuleikunum sem flesta undirflokkar hefur og er þar af leiðandi hægt að vinna flest gullin í. Þar að auki keppir hann í einni að fáum greinum þar sem þú keppir ekki uppréttur heldur þarft að liggja flatur á maganum eða á bakinu mestan tímann og í frekar framandi umhverfi. Geimfarar t.d. æfa sig fyrir ferðir út í geiminn í vatni.

 


Kraftaverkið hveiti.

Í  færslu fyrir stuttu fjallaði ég stuttlega um hirðingja og hvernig sá lífsmáti býður ekki upp á miklar framfarir í mannlegu samfélagi. Til að menning mannkyns tæki verulegum framförum, þurfti að koma til varanleg búseta og aðgangur að endurnýjanlegu lífsviðurværi.

wheat%20ears7_jpg154f1984-559c-435c-aca6-8a08d9457300LargeJarðyrkja var svarið. En það lá ekki beint við að rækta korn sem gaf af sér nægjanlegt hveiti, þótt svo kunni að virðast í fljótu bragði. Til þess að svo yrði kom til furðuleg framvinda sem hægt er að kalla "náttúrulegt kraftaverk" ef það er ekki mótsögn í sjálfu sér. Hveiti eins og við þekkjum að í dag er langur vegur frá hinni upprunalega kornaxi sem menn byrjuðu að nýta sér.

Einhvern tíman eftir að Ísöld lauk náði ákveðin kornaxartegund að ryðja sér til rúms þar sem nú eru mið-austurlönd. Fundist hafa sigðar til kornskurðar gerðar úr gaselluhorni og tinnusteini allt að 10.000 ára gamlar. Þær voru notaðar til að fella þetta villta kornax (Triticum dicoccoides) en uppskeran var rýr og kornið sjálfsáð. En þá gerðist merkilegur atburður, kannski mörgum sinnum á mörgum stöðum í einu. Fjórtán litninga kornax blandaðist jurt (geitagrasi Aegilops searsii ) sem líka var með fjórtán litninga og úr varð tuttugu og átta litninga jurt, Emmer öx. (Triticum dicoccon) Emmer öxin eru mikil um sig og geta dreift sér sjálf með vindinum og eru frjó. Slíkur sambræðingur tveggja tegunda er afar óalgengur meðal planta. En saga hveitisins verður fyrst virkilega vísindaskáldsöguleg þegar að önnur tilviljun á sviði þessarar litningasambræðslu á sér stað. Emmer jurtin blandaðist annarri tegund geitargrass (Aegilops tauschii) og úr varð enn stærra krosskyn með fjörutíu og tvo litninga.

traditional-farming-methods-inAð þetta skuli hafa gerst  var afar ólíklegt í sjálfu sér og  nú vitum við að brauðhveitisaxið sem varð til hefði ekki verið frjótt nema af því að til kom stökkbreyting eins litningsins í jurtinni. Sagan gerist samt enn ótrúlegri því þótt nú væri komið fallegt og stórt eyra fullt af öxum, var það of lokað og þétt til að berast með vindinumog ná að fjölga sér og breiða úr sér. Öxin féllu nákvæmlega niður á þann stað sem þau uxu á, ólíkt forverum sínum sem gátu dreift sér með vindinum. Brauðhveitið hafði misst þá eiginleika. Þess í stað þurfti það að reiða sig á manninn.

Þannig gerðist það fyrir 8000 árum að til varð samvinna milli jurtar og manns, sem fleytti honum af hjarðmannsstiginu yfir á akuryrkjustigið sem gerði borgmenningu mögulega og tryggði jurtinni um leið afkomu og leið til að fjölga sér.


Kjólar

untitledÍ gær fór ég að skoða kjólasýningu. Ég hitti líka náungan sem stóð fyrir sýningunni á kjólunum en hann heitir Andrew Hansford. Hann var fjallhress og hýr og hafði frá mörgu að segja. Flestar af sögum hans gefðu sómt sér vel í  slúðurblöðunum fyrir 50 árum.  

Þessir kjólar áttu það sameiginlegt að vera hannaðir af einum frægasta kjólameistaranum í Hollywood William Travilla,en Andrew hafði kynnst honum og fengið hann til að lána sér kjólana til að sýna vítt og breytt um heiminn til styrktar Alzheimer sjúklingum.  Kjólarnir höfðu á sínum tíma klætt nokkrar helstu kvikmyndastjörnur síðustu aldar. Þeirra frægust var á efa Marilyn Monroe. En þarna var líka að sjá kjóla sem hannaðir voru fyrir Judy Garland, sem Susan Hayward síðar klæddist í frægri kvikmynd Valley of the Dolls og en aðrir voru gerðir fyrir Betty Grable.


Marilyn-Monroe-BIG_e_c669a705d6a0c94ec5a249bd70b6f28fHvíti kjóllinn úr kvikmyndinni "Sjö ára kláðinn"  7 Year Itch 1955) er sjálfsagt frægastur allra kvikmynda-kjóla gerður fyrir Marilyn Monroe. Þar var reyndar um eina þrá kjóla, mismunandi stutta, að ræða, en á sýningunni var að sjá "eftirlíkingu" af honum þar sem  Debbie Reynolds eigandi kjólsins leyfði ekki sýningu á honum utan Bandaríkjanna.

Allir aðrir kjólar voru "ekta" og sumir hverjir svo gamlir að þeir héngu varla saman. Þarna voru kjólarnir úr kvikmyndinni  Gentlemen Prefer Blondes (1953) þar á meðal Gullkjóllinn sem er gerður úr einum efnisbút, handgiltur og einn af uppáhalds kjólum Marilynar.  Bleiki satín kjóllinn úr frægri danssennu kvikmyndarinnar Diamonds are a girl’s best friend’ var þarna svo og rauði sequin kjóllinn sem hún klæddist í opnunaratriðinu með Jane Russell.

Fjólublái kjóllinn úr  How to Marry a Millionaire (1953),er úr satini og með sequin undirkjól, sem kemur fyrir í fantasíusenunni frægu úr sömu kvikmynd. Þá voru þarna kjólar sem Marilyn hafði klæðst utan kvikmyndaveranna, sumir með vínslettunum enn í sér.

Peaches_and_Marilyn_Pink_DressÞað var varla til stjarna á sjötta áratugnum sem Travilla sá ekki einhvern tíman um að klæða. Jane Russell, Joan Crawford og  Marlene Dietrice voru meðal þeirra.  Hann vann Óskarsverðlaun fyrir fatnað Errols Flynn í Don Juan. Þegar að "gullöldinni" í Hollywood lauk vann hann mikið fyrir sjónvarp, þ.á.m. sá hann um klæðnað stór-stjarnanna í sjónvarpsþættinum Dallas.

Á sýningunni mátti einnig sjá snið og teikningar frá Travilla. Sniðin voru úr gulnuðum pappír og minntu mig á saumaherbergi móður-ömmu minnar Sigurborgar sem var afar góð saumakona og saumaði m.a. á mig öll fyrstu fötin sem ég gekk í.

 


Bakhitara, lífið eins og það var fyrir 10.000 árum

bactiari_heardersFyrir tíu þúsund árum var fremsta menningarstig þjóða heimsins hirðingjastigið. Það sem kom þeim á það stig var tilkoma taminna húsdýra þ.e. kinda og geita. Hundurinn sem gerst hafði félagi mannsins löngu áður, kom nú í góðar þarfir við smalamennsku og gæslu hjarðarinnar. Hvernig það nákvæmlega gerðist að fólk hætti að reiða sig á það sem hægt var að veiða eða finna sér til matar og rækta þess í stað mataruppsprettuna, fer ekki sögum af. Í dag eru samt enn til fáeinir ættbálkar sem aldrei hafa yfirgefið hirðingjastigið og líf þess fólks hefur lítið breyst í  þúsundir ára. Einn slíkur ættbálkur; Bakhitara, byggir Khuzestan í norðvestur Íran. Mannfræðirannsóknir á þessum hópi fólks hefur gefið okkur innsýn inn í líf forfeðra okkar eins og það var áður en þeir hófu að yrkja jörðina og byggja borgarsamfélög.

bakhtiari4Konum er þröngur stakkur sniðinn meðal Bakhitara. Fyrst og fremst er hlutverk þeirra að ala af sér karlafkvæmi. Fæðist of margar stúlkur stefnir í vandræði. Fyrir utan að ala börn er hlutverk þeirra að tilhafa mat og klæði. Þær matast eftir að hafa gefið körlunum mat sinn en að öðru leiti snúast störf þeirra eins og karlmannanna um hjörðina. Þær mjólka, baka á hituðum steinum, gera jókúrt í geitarbelg og notast að öllu leiti við tækni sem hægt er að flytja úr einum stað í annan á hverjum degi. Líf þeirra byggir aðeins á því sem er nauðsynlegt til lífsafkomu ættbálksins. Þegar þær spinna ull með sínum einföldu og fornu aðferðum, er það til að bæta föt eða gera ný sem eru þeim nauðsynleg til fararinnar.

Ekki er hægt að flytja með sér neitt sem ekki á að nota þegar í stað og Bakhitara fólkið kann ekki einu sinni að búa til slíka hluti. Ef það þarf nýjan járnpott, fá þau hann í skiptum fyrir mjólkurafurðir, eins er með flesta aðra hluti sem það notar, frá ístöðum til leikfanga. Líf þeirra er of einhæft til að rúm sé fyrir nýungar, hvað þá þá sérhæfingu sem þarf til að framleiða hluti. Þeir hafa ekki tíma til þess heldur. Frá morgni til kvölds er hópurinn á hreyfingu, frá haga til haga, að koma og fara alla lífsins daga. Það er ekki tími til neins annars, ekki einu sinni til að setja saman lagstúf. Einu siðirnir sem fólk hefur eru gamlir siðir og metnaður hvers sonar er að verða eins og faðir sinn.

bakhtiari-women-on-horsesLíf þeirra er tilbreytingasnautt. Hvert kvöld er endir dags eins og gærdagurinn og þegar morgnar er aðeins ein spurning sem kemst að í hugum þeirra; komum þeir hjörðinni yfir næsta skarð. Á hverju ári taka þeir hjarðir sínar um 6 fjallgarða sem sumir eru í 4 km. hæð yfir sjávarmáli. Lágar grjóthrúgur sem varða leið kvennanna um skörðin er það eina sem þeir byggja. Aðeins að einu leiti hefur líf þeirra breyst frá því fyrir tíu þúsund árum. Á þeim tíma báru þeir allar sínar pjönkur sjálfir á bakinu. Í dag nota þeir burðardýr, hesta, asna og múlasna. Ekkert merkilegt gerist, engin minnismerki eru reist, ekki  einu sinni um  hina dauðu. Þeir sem eru of gamlir eða veikir til að halda ferðinni áfram eru skildir eftir til að deyja. 

Bakhtiari-Man-with-sheep

 


Bahá'íar vísa á bug staðhæfingum um niðurrifsstarfsemi í Íran

11-2Alþjóðlega bahá'í samfélagið vísar eindregið á bug yfirlýsingum íransks saksóknara þess efnis að sjö bahá'íar sem hafa verið settir í varðhald í Teheran í Íran hafi „játað" starfrækslu „ólöglegra" samtaka með tengsl við Ísrael og önnur ríki.


„Við höfnum alfarið og eindregið þeim getgátum að bahá'íar í Íran hafi tekið þátt í einhvers konar niðurrifsstarfsemi", segir frú Bani Dugal, aðalfulltrúi Alþjóðlega bahá'í samfélagsins hjá Sameinuðu þjóðunum, og hún bætir við: „Bahá'í samfélagið blandar sér ekki í stjórnmál. Eini 'glæpurinn' sem þessir sjö einstaklingar hafa framið er að iðka sína trú."


„Ásakanirnar eru hins vegar alvarlegar og því óttumst við um líf og afdrif þessara sjö einstaklinga," segir frú Bani Dugal enn fremur.


Frú Bani Dugal er með þessum yfirlýsingum að svara skýrslu í dagblaði í Íran með yfirlýsingum Hasan Haddad, aðstoðarsaksóknara öryggismála við íslamska byltingardómstólinn í Teheran.
Frú Bani Dugal segir að þeir sjö bahá'íar sem voru hnepptir í varðhald fyrr á þessu ári hafi verið fulltrúar í nefnd sem ætlað var að sjá fyrir þörfum þeirra 300.000 bahá'ía sem eru í Íran.


„Og það hvílir engin leynd yfir því — stjórnvöld vissu fullkomlega um tilurð þessarar nefndar löngu áður en fulltrúar hennar voru fangelsaðir, alveg eins og að stjórnvöld vita mjög vel að þetta fólk tekur ekki þátt í neinni leynistarfsemi," segir frú Bani Dugal enn fremur.


y210Frú Bani Dugal segir að fangelsanirnar séu hluti af mjög vel skjalfestri og margra áratuga langri herferð til þess að uppræta Bahá'í samfélagið í Íran, og að þessar ásakanir nú fyrir skömmu séu sömu gerðar og aðrar tilhæfulausar ákærur þar á undan.
„Getgátur um leynimakk með Ísraelsríki eru óyggjandi rangar og misvísandi. Írönsk yfirvöld  eru að vísa til þess að alþjóðleg stjórnsýslumiðstöð bahá'ía er staðsett í Haifa í Ísrael," segir frú Bani Dugal enn fremur.

„Írönsk stjórnvöld líta algjörlega framhjá þeirri velþekktu sögulegu staðreynd að bahá'í trúin var með höfuðstöðvar sínar í Íran fram til ársins 1853, þegar yfirvöld vísuðu boðbera og stofnanda bahá'í trúarinnar úr landi og neyddu hann í útlegð og að endingu í fangelsi í borginni 'Akká við strendur Miðjarðarhafsins, sem þá heyrði undir tyrknesku stjórnina. Svo vill til að 'Akká er á því svæði sem nú er nefnt Ísrael."


Frú Bani Dugal segir einnig að margir bahá'íar í Íran — þar á meðal fulltrúar samhæfingarnefndarinnar áður en þeir voru hnepptir í varðhald — sæti stöðugt fangelsunum og séu þá spurðir um hvers konar starfsemi þeir taki þátt í. Hún segir einnig að bahá'íarnir hafi ekkert að fela og reyni að svara og segja satt og rétt frá í öllum yfirheyrslum

New York, 3. ágúst 2008 (BWNS) —


Ólympíuleikarnir í Aþenu 1896

ii8zbpIk_Panathenaean%20StadiumFyrstu endurreistu Ólympíuleikararnir  voru eins og kunnugt er haldnir í Panaþeníu leikvanginum í Aþenu árið 1896. Þá voru liðin 1503 ár frá því að síðustu Ólympíuleikar voru haldnir. 80.000 áhorfendur sóttu leikana sem voru settir á mánudagsmorgun eftir páska þann 6. Apríl.  Á nýju leikunum var aðeins keppt í níu greinaflokkum en fjöldi keppenda var 311 frá 13 löndum. Grikkir voru lang-fjölmennastir eða 230.

Allir keppendur voru  karlar því konum var ekki leyft að taka þátt í Ólympíuleikum fyrr en á öðrum leikunum í París árið 1900. Á fyrstu leikunum var enginn ólympíukindill og það var ekki fyrr en í Amsterdam 1928 að hann notaður og ekki tíðkaðist að hlaupa með hann um götur fyrr en 1936 í Berlín.  

Leonidas_PyrgosFyrsti Ólympíumeistarinn sem var krýndur á leikunum í Aþenu var grikkinn Leonidas Pyrgos og hlaut hann gullverðlaun fyrir skylmingar. Hann var borinn um götur Aþenu á háhesti og hylltur af fjöldanum.

Í Aþenu var í fyrsta sinn keppt í maraþonhlaupi. Sigurstranglegastur var talinn frakkinn Albin Lermusiaux sem digurbarkalega hafði lýst því yfir að enginn af hinum 12 þátttakendunum mundi hafa roð í sig. Einn þátttakendana var grískur bóndi sem hét Louis Spyridon.Viðurnefni hans var "vatnsberinn" þar sem hann hafði vatnsburð að aukastarfi og af því að hann þjálfaði sig með því að hlaupa um með fötur fullar af vatni. Hlaupið lá m.a um þorpið Pikermi og þar staldraði Lois við og fékk sæer vínsopa. Hann kvaðst engar áhyggjur hafa af hinum hlaupurunum því hann mundi fara fram ú þeim öllum áður en yfir lyki.  Eftir 32 km. gafst Albin hinn franski upp, örmagna af þreytu. Um tíma leiddi Ástralinn Teddy Flack hlaupið, en svo fór á endanum að hann gafst upp líka og Louis tók forystuna.

Þegar að það fréttist að Louis hafði tekið forystu í  hlaupinu, byrjaði áhorefndaskarinn að hrópa Hellene, Hellene. Hann kom lang-fyrstur í mark (tími hans var 2:58:50) og grísku prinsarnir; Konstantín og Georg þustu inn á leikvanginn og hlupu með honum síðasta hringinn.

Louis hafði á meðan hlaupinu stóð innbyrt, vín, mjólk, bjór, egg og appelsínusafa. Við sigur hans brutust út mikil fagnaðarlæti og hann var hylltur á marga lund. Sagt er að konungur hafði boðið Louis að þiggja af sér hvað sem hann ósakaði sér og að Louis hafi beðið hann asna og kerru til að auðvelda sér vatnsburðinn.

fEx3G725_100_metre_start_1896_gamesFagnaðarlætin urðu ekki minni þegar að tveir næstu hluparar til að koma í mark,  voru líka grikkir. Reyndar var sá þriðji dæmdur úr leik þegar í ljós kom að hann hafði tekið sér far með hestvagni hluta leiðarinnar og þriðja sætið var dæmt ungverjanum Gyula Kellner.

Louis var verðlaunaður í bak og fyrir af löndum sínum. Hann fékk að gjöf skartgripi og frýja klippingu ævilangt hjá rakara einum. Hvort hann nýtti sér það er ekki vitað en hann snéri aftur í þorpið sitt með nýja kerru og keppti aldrei aftur í hlaupi af nokkurri tegund.  Hann hélt áfram að vinna fyrir sér sem bóndi og vatnsberi og seinna sem lögreglumaður þorpsins.

Árið 1926 var hann samt handtekinn og sakaður um að hafa falsað gögn um herþjónustu sína. Hann sat í fangelsi eitt ár en var síðan sýknaður af öllum sakargiftum. Sú uppákoma olli miklu fjaðrafoki í Grikklandi á sínum tíma, eins og von var.

Spiridon_louisLouis kom síðast fram opinberlega á sumarleikjunum í Berlin 1936. Honum var boðið þangað sem fánabera fyrir gríska liðið og tók við ólívugrein frá Ólympíufjalli úr hendi Adólfs Hitlers sem friðartákni.

Spiridon1Louis lést nokkrum mánuðum áður en Ítalir réðust inn í Grikkland. Fjölmargir leikvangar í Grikklandi og öðrum löndum eru nefndir eftir honum, þ.á. m. Ólympíuleikvangurinn í Aþenu þar sem leikarnir voru haldnir 2004.

Á Grikklandi er til orðatiltækið Yinome Louis, (að verða Louseraður) sem merkir að "hverfa á harða hlaupum."

 

 


Elsti Ólympíu-verðalaunahafinn strákar, enn er von!

121Á Ólympíuleikunum í Andverpen í Belgíu 1920 var skoska skyttan Óskar Swahn næstu búinn að næla sér í gullverðlaun en endaði með silfrið. Það sem geri það afrek enn merkilegra er að Óskar var þá sjötíu og tveggja ára gamall.

Greinin var; Dádýr á hlaupum, tvímenningur. Já, þið lásuð rétt, dádýr á hlaupum, tvímenningur,  var skotkeppni þar sem fjórar riffilskyttur reyndu að hitta skotmark á hreyfingu sem leit út eins og dádýr. Keppt var í slíkri skotkeppni á ólympíuleikunum frá 1908 - 1924 og aftur 1936 og 1948.  

Óskar var sérfræðingur í dádýrum á hlaupum. Hann hafði unnið til gulls á Ólympíuleikum þegar hann var sextíu og fjögurra ára, þá elsti ólympíumeistari allra tíma, met sem enn stendur. Og á Ólympíuleikunum þar áður, þá sextugur, hafði hann einnig unnið til verðlauna, í sömu grein að sjálfsögðu. Sonur hans Alfreð, var einnig skytta mikil og deildi verðlaununum með föður sínum í bæði skiptin auk þess sem hann vann til margra verðlauna sjálfur

 


Það sem ég held um hamingjuna; heimatilbúin heimspeki.

Hver sem við erum, hvað sem við gerum , eigum við eitt sameiginlegt; við erum öll að eltast við hamingjuna. Ég geng að því sem gefnu að mismunandi skilningur sé lagður í hugtakið "hamingja" en ég geng líka að því sem gefnu að við þráum öll hugaró, velværð og góða heilsu. Það er vissulega hluti af hamingjunni.  

Japönsk stelpaÉg held að hamingja allra standi á þremur stöplum. Þeir eru þessir; sköpun, þjónusta og þekking. Með þessu er ég ekki að meina bara eitthvað, heldur nákvæmlega það sem orðin þýða.

Ég held að enginn geti verið hamingjusamur án þess að skapa eitthvað. Flestir eru sí skapandi, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því. Auðvitað er listræn sköpun hluti af jöfnunni en ég á fyrst og fremst við hversdagslega hluti eins og matseld, sem er afar skapandi og getur verið afar listræn. Að þvo og strauja þvotta er líka list og mikil sköpun æi því ferli fólgið. Jafnvel að þrífa sjálfan sig og umhverfi sitt heyrir undir sköpun.

Ég held lík að enginn geti orðið hamingjusamur án þess að þjóna einhverju eða einhverjum. (Ég gæti alveg eins notað orðið að elska í staðinn fyrir að þjóna) Margir finna hamingju í að þjóna ástvinum sínum, fjölskyldu sinni eða jafn vel samfélaginu. Sumir setja markið enn hærra og þjóna heiminum. Ef þeim tekst það verða þeir hamingjusamastir allra. Svo eru aðrir sem þjóna bara sjálfum sér og eignum sínum. Þeir eru óhamingjusamastir allar.

Ég held að engin geti verið hamingjusamur án þess að þekkja, sig, umhverfi sitt, fjölskyldu sína og umheiminn. Þekkingarþörfin gerir okkar að mönnum og virkar eins og óseðjandi fíkn. Við þurfum stöðugt að vita, jafnvel það sem ekki er hægt að vita. En þekkingaröflunin gerir okkur samt hæfari, betri og hamingjusamari persónur. Þetta er það sem ég held um hamingjuna.

 


Stóra málið

Það er eins og einhver gúrka sæki að bloggurum almennt þessa dagana. Hver færslan á eftir annarri er naflablogg, blogg um blogg, bloggvini og ást og hatur á blogginu. Ég veit ekki hvað veldur, því út í heimi gerast stórtíðindin; stríð að hefjast í austur Evrópu, 10.000 íþróttamenn samankomnir í Bejiing og Obama á leið í sumarfrí til Hawaii. En kannski er það bara hollt að líta í egin barm af og til og sjá svona svart á hvítu hver staðan er. 

Ég eins og mörg önnur "skúffuskáld" sem eru að spreyta sig á bloggi, leita stundum í skúffurnar til að setja á bloggið, þegar lítið er um að vera í kollinum á mér. Þetta getur þó verið erfitt því ekki gagnar að setja neitt "of langt" á bloggsíðu, þá nennir enginn að lesa það. Ég ætla samt að brjóta þá gullnu reglu einu sinni enn og birta hér einþáttung sem mér er reyndar svolítið annt um. Hann var fluttur fyrir nokkrum árum Iðnó, en það voru fáar sýningar, enda um tilraunastarfsemi að ræða. Það tekur ekki nema svona 15 mínútur að lesa hann í gegn, en ég verð ekkert móðgaður þótt þið gefist upp. En þeir sem lesa mega alveg segja sína meiningusvanur1.

Stóra málið

PERSÓNUR 

HANN, karlmaður á þrítugsaldri

BARBARA, kona á fimmtugsaldri

 SVIÐIРLátlaus bekkur í almenningsgarði. Á hann fellur gult ljós frá lágu götuljósi.  BÚNINGAR Hann er berfættur.Hún er klædd í rauða kápu og hefur ljósblátt sjal um herðarnar og í rauðum háhæluðum skóm.   (Hvíslandi raddir fortíðar hefjast um leið og BARBARA gengur inn á sviðið og um stund fylgjast áhorfendur með viðbrögðum hennar við þeim þar sem hún gengur um)Hversvegna. Komdu, komdu með mér. Ekkert mál. Mikið ertu snotur. Hversvegna greiðir þú þér ekki. Drusla. Þetta verður okkar leyndarmál. Komdu. Tækifærin eru alls staðar. Það sem svíkur mig, svíkur einnig þig. Ég elska þig. Lifðu lífinu lifandi. Komdu með. Nokkuð gott, á að fara í háskóla. Lofar þú ... Vilt þú ganga að eiga ... þetta viðundur ... Góða vertu ekki að pæla í þessu. Er þetta allt og sumt. Börn, já ég elska börn. Þurrkaðu framan úr þér. Lítið mál. Ég fékk þetta í London. Fer í rauðu skóna. Elskar þú mig. Þú flytur bara inn. Hver borgar reikningana á þessu heimili. Vertu bara þú sjálf. Ég vil verða gamall með þér. Þegiðu. Vinna, þetta er ekki að vinna. Góða reyndu að hafa þig svolítið betur til. Þú sofnar strax af þessu.Veit ekki. Rauða varalitinn já svona ... Má ekki vera að því ... Ertu að fitna. Snúðu þér við druslan þín. Stundum verður maður að hugsa um sjálfan sig. Hver er ég. Hver ert þú. Lítið mál. Það sem svíkur mig, svíkur einnig þig. Ég drep þig. Þvoðu framan úr þér. Ég elska Róm. Rauðu kápuna, hún passar. Ég veit það ekki. Þú ert og verður alltaf hóra. Komdu með. Vertu ekki að pæla í þessu, það skilur þetta enginn hvort sem er. Ég elska þig ekki. Ég elska þig. Blátt er litur sannleikans. Reyndu að nota höfuðið kona. Það sem svíkur mig, svíkur einnig þig. (Hvíslið þagnar. Hún sest á bekkinn, tekur upp fullt pilluglas og gerir sig hikandi líklega til að sturta úr því upp í sig en hættir við, stingur því í vasann, stingur höndunum í vasana og lokar augunum)    

HANN

(Gengur inn á sviðið, blístrandi eins og maður á kvöldgöngu og þefar af óútsprunginni rós. Staldrar við og virðir BARBÖRU fyrir sér. Gengur síðan til hennar) Gott kvöld. Er þér ekki sama þótt ég setjist hérna?

 

BARBARA

(Opnar augun) Æ...Mín vegna. Þetta er víst fyrir almenning.

 

HANN

(Lítur í kringum sig) Reyndar á ég ekki um annað að velja, ég verð að setjast hérna niður, nákvæmlega hérna. Þannig lagað var spurningin óþörf. (Brosir)

 

BARBARA

Auðvitað áttu um annað velja. Til dæmis getur þú sest á bekkinn þarna.

 

HANN

Nei, á hann get ég ekki sest.

 

BARBARA

Nú, hvers vegna?

 

HANN

Vegna þess að þú ert hér en ekki þar.

 

BARBARA

Hvað hef ég með það að gera hvar þú sest niður og hvar ekki.

 

Hann

Ég á erindi við þig.

 

BARBARA

Erindi? Hvaða erindi áttu við mig.

 

Hann

Ja til að byrja með ætla ég að færa þér þetta. (Réttir henni rósina)

 

BARBARA

(Tekur við blóminu dálítið óörugg) Hver ert þú?

 

Hann

Nákvæmlega núna er ég kannski bara rósberi.

 

BARBARA

Æ ég er bara ekki í skapi fyrir neitt rósamál. Segðu mér hver þú ert eða hafðu þig á burt.

 

HANN

Ég er bara sendisveinn.

  

BARBARA

Sendisveinn? Sendisveinn hvers? Sendi fávitinn hann Einar þig kannski? (Leggur rósina á bekkinn á milli þeirra)

 

HANN

Einar? Nei nei. Hann heitir ekki Einar.

 

BARBARA

Segðu honum að láta mig í friði.

 

HANN

Það var ekki Einar sem sendi mig

 

BARBARA

Nú hver þá?

 

HANN

Ég held að svo komnu að það sé best að láta það liggja á milli hluta. Þú myndir ekki trúa því hvort eð er.

 

BARBARA

Vertu ekki svo viss um það. Þú ert nú ekki fyrsti furðufuglinn sem á leið minni verður. Hvað heitirðu?

 

HANN

Ekki neitt. En þú mátt gefa mér nafn ef þú vilt.

 

BARBARA

Ég, hvers vegna ætti ég að gefa þér nafn?

 

HANN

Svo að þú getir kallað mig eitthvað.

 

BARBARA

Ég get alveg kallað þig „ekki neitt“ því þessa stundina ertu nákvæmlega það í mínum augum.

 

HANN

Einmitt.

 

BARBARA

Jæja „Ekkineitt“, ætlarðu að koma þér að erindinu?

 

HANN

Tja, ég veit að þetta hljómar dálítið einkennilega svona upp úr þurru, en eiginlega langaði mig til að ræða við þig svona almennt um lífið og tilveruna.

    

BARBARA

Ég er alls ekki viss um að þetta sé algjörlega upp úr þurru hjá þér, en er það eitthvað sérstakt sem þér liggur á hjarta? Til dæmis hvar sé hægt að gera bestu skókaupin í borginni þessa stundina? (Lítur á fætur hans)

 

HANN

(Lítur einnig niður á fæturna) Æ, ég vissi að það var eitthvað sem ég gleymdi.

 

BARBARA

Og hvað hefur berfættur maður, sem ekki vill segja til sín eða á hvers vegum hann er, að segja um lífið og tilveruna út í almenningsgarði um hánótt.

 

HANN

Reyndar hefur skóleysið aldrei háð mér fram að þessu, en ég sé hvað þú meinar. Skór, ekki hvað síst réttir skór, eru afar mikilvægir. Þeir eru vissulega hluti af stóra málinu. Einmitt það sem ég ætlaði að ræða við þig um.

 

BARBARA

(Hæðin) Stóra málinu já. Og það er aftur?

 

HANN

Tilgangur lífsins.

 

BARBARA

Noh, ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Jæja, er ekki nóg komið af þessari vitleysu. Ég hef nóg annað við tímann að gera en að ræða við einhvern ókunnugan rugludall hér úti í garði um hánótt. (Tekur rósina, stendur upp og gerir sig líklega til að fara) 

HANN

Ókunnugan já, þú heldur það. En eins og hvað?

 

BARBARA

En eins og hvað, hvað?

 

HANN

Hvað annað hefur þú við tímann að gera?

 

BARBARA

Ég hef um nóg annað að hugsa. Hluti sem koma þér ekkert við.

 

HANN

Já, auðvitað. Eins og hvaða hluti?

 

BARBARA

Skólaus og heyrnarlaus líka. Ég sagði að þeir kæmu þér ekkert við.

 

HANN

En það bíður ekkert eftir þér. Hvergi, nema hérna. Áttu þetta ekki að vera leiðarlok?

 

BARBARA

(Snýr til baka með þjósti)Hvað þykist þú vita um mig herra „ekki neitt“. Þú veist nákvæmlega ekki neitt. Kemur hér aðvífandi veifandi óútsprunginni rós og reynir að tjatta mig upp í einhverjar umræður um lífið og tilveruna sem þú hefur augljóslega ekkert um að segja sem skiptir máli, eins og reyndin er um alla nafnlausa, heyrnarlausa og skólausa sendisveina þessa heims.

 

HANN

Ég veit til hvers þú komst hingað. En það breytist ekkert við að gera það sem þú ætlar að gera.

 

BARBARA

Hver ertu?

 

HANN

(Stendur upp og gengur um) Ég veit að þú veist ekki hvað þú átt að halda um mig þessa stundina. Þú heldur ef til vill að ég sé einhver rugludallur með alvarlegar geðraskanir. Eða kannski er ég einhver sem er bara að reyna að komast í bólið hjá þér á þennan undarlega hátt. Það er alltaf líkleg skýring þegar karlmaður fer að haga sér undarlega, er það ekki?

  

BARBARA

Þú fyrirgefur, en mér finnast þessar samræður næsta fáránlegar. Ég skil ekki hvað ég er að gera hérna enn þá. (Stendur upp og býst til að fara)

 

HANN

Þú ert hér enn vegna þess að þú ályktar sem svo að þú hafir engu að tapa eins og komið er. Þú heldur uppi þessum „hvað er ég enn að gera hér“ vörnum aðeins ef vera kynni að enn verr sé komið fyrir mér en þér.

 

BARBARA

Það er ekki eins og þú sért eitthvað voðalega traustvekjandi.

 

HANN

Já ég sé núna að það voru hræðileg misstök að gleyma að fara í skó. En þú valdir þó alltént rétta skó til að fara í við þetta tækifæri, var það ekki?

 

BARBARA

Þeir eru reyndar orðnir svolítið jaskaðir, en ég ætlaði ekki langt.

 

HANN

Þeir hafa einhvern tímann verið virkilega fallegir og gætu orðið það aftur ef þú hugsaðir dálítið um þá.

 

BARBARA

Þú ert skrambi leikinn í þessu. Ertu gluggagægir líka?

   

HANN

Staðreyndin er auðvitað sú að ef þú treystir mér ekki hljómar allt sem ég segi, hvort sem það er lygi eða sannleikur, eins og hlægilegur þvættingur.

 

BARBARA

(Sest aftur niður)Orð og aftur orð. Við erum ekki það sem við segjum, heldur það sem við gerum.

 

HANN

Í upphafi var orðið eitt.

 

BARBARA

Og orðið er orðið ekki neitt.

 

HANN

(Brosir) Já ég mátti svo sem búast við því að ég kæmi ekki að tómum kofunum, en ég er ekki staddur hér fyrir tóma tilviljun.

 

BARBARA

Þú hefur það allavega fram yfir mig. Mér finnst að ég sé hérna fyrir tilviljun. Undantekning frá reglu hlýtur að vera tilviljun ekki satt, eða ertu ef til vill vanur að leggja leið þína hingað á þessum tíma?

 

HANN

Ha, nei ég var sendur hingað sérstaklega.

 

BARBARA

Já, alveg rétt. Til að færa mér þessa óútsprungnu rós og ræða um tilgang lífsins. Af hverju settirðu rósina ekki í vatn?

 

HANN

Það er vissulega líka hluti af stóra málinu.

 

BARBARA

Einmitt stóra málið. Skór og rósir, var það ekki?

 

HANN

Jú jú, en ekki bara skór og rósir.

 

BARBARA

Þú ert kannski tilbúinn að segja mér núna hver sendi þig.

 

HANN

Jæja þá. Málalengingalaust er ég svarið.

 

BARBARA

Svarið? Auðvitað. Við hvað spurningu og hver spurði?

  

HANN

Ekki við spurningu, heldur bæn.

 

BARBARA

Bæn? (Hæðin) Að sjálfsögðu. Hvernig læt ég. Þetta er svo augljóst. Tími til kominn að blanda æðri máttarvöldum í málið. Þú ert auðvitað himnasendingin mín, bjargvætturin, sendur með öll svörin á örlagastundu. Kanntu annan betri.

(Hlær hæðnislega) Þú ert sem sagt hvað, einhverskonar engill þá. Fallinn engill kannski?

 

HANN

Ekki beint fallinn. Allavega ekki í þeirri merkingu sem þú leggur í það orð.

 

BARBARA

En ég sé enga vængi, varstu vængstýfður áður en þú varst sendur af stað?

 

HANN

Vængir engla eru bara listræn útfærsla. Soldið gamaldags en virkar samt ágætlega. Heilagur Tómas Aquinas taldi að englar væru hreinar vitsmunaverur og því ætti að sýna þá sem vængjuð höfuð eingöngu. En það er jú önnur saga.

 

BARBARA

Verst hvað vafist hefur fyrir mörgum að finna þessi svör. Allavega mér. Eða kannski eru spurningarnar rangar?

 

HANN

Það er rétt að mörgum gengur illa, ekki að finna svörin, heldur að sætta sig við þau. Flestir vilja að sannleikurinn sé einhver annar en hann í raun og veru er.

 

BARBARA

(Lítur á hann full efasemda) Og kraftaverk maður. Þú hlýtur að geta framkvæmt þau að vild. Enginn loddaraskapur eða ódýr trikk. Engar hálfkaraðar útvarpsmiðils-skyggnilýsingar. Allir eru jú í uppnámi út af einhverju, allir hafa áhyggjur og alla verkjar einhvers staðar. Þú getur látið verkin tala er það ekki?

 

HANN

Það er nefnilega málið að þau duga heldur ekki til. Hvað til dæmis gætir þú hugsað þér að taka sem óræka sönnun fyrir því að ég sé sá sem ég segist vera?

 

BARBARA

Ef þú værir það raunverulega, þá þyrfti ég ekki að segja það.

 

HANN

Ég var samt að vona að þú kveiktir á strax og við hófum samtal okkar.

  

BARBARA

Mér fannst nú þetta svona frekar almennt orðað hjá þér áðan. Lífið og tilveran, skór og rósir, stóra málið.

 

HANN

Það var ekki hægt að orða þetta á nákvæmari hátt svona til að byrja með.

 

BARBARA

Að sjálfsögðu ekki. Annars áttirðu á hættu að þurfa útskýra annað en það sem sést á yfirborðinu. Að staðhæfa hið augljósa er svo auðvelt. En það fer lítið fyrir alvöru svörum hjá þér.

 

HANN

Svörin veitast þeim sem eru einlægir.

 

BARBARA

En það vill bara þannig til að ég hef ekki verið að biðja um nein svör.

 

HANN

(Hikandi) Það var ekki að bænheyra þig.

 

BARBARA

Nú jæja, þá einhvern sem ég þekki þó ég geti ekki ímyndað mér hver það ætti að vera.

 

HANN

Nei, það er varla hægt að segja það.

 

BARBARA

Nú, hvern þá?

 

HANN

Son þinn.

 

BARBARA

Þarna ókstu langt út af loddarinn þinn. Ég á engan son. Og nú held ég að nóg sé komið, vertu sæll hver sem þú ert og gangi þér betur með næsta fórnarlamb. (Stendur upp og skundar burtu) 

HANN

Þú áttir son þótt þú hafir ákveðið að fæða hann ekki.

 

BARBARA

(Snarstansar og snýr við) Hver ertu eiginlega?

 

HANN

Þú veist hver ég er. „Ekki neitt“ er það ekki? Annars er ég best skilgreindur sem sendisveinn þótt það hljómi hátíðlega.

  

BARBARA

Þú ætlast sem sagt til að ég trúi þeirri vitleysu?

  

HANN

En hvað er ég þá?

 

BARBARA

Þú ert allavega eitthvað verulega skrýtinn. Engir skór og engir vængir.

Þú segir að það hafi verið drengur?

 

HANN

Já.

 

BARBARA

Á ég þá eftir að brenna í einhverju helvíti fyrir það líka?

 

HANN

Ekki öðru en því sem þú brennur í núna.

 

BARBARA

(Verður klökk) Hvað vissi ég, nítján ára. Hann sagðist elska mig.

 

HANN

Þú treystir honum. Trúðir honum.

 

BARBARA

Hann sagði að þetta væri ekki neitt og það var satt. Aðgerðin var lítið mál.

 

HANN

Einmitt, ekki neitt.

  (Þögn) (Þau setjast bæði á bekkinn aftur. BARBARA leggur rósina aftur á milli þeirra og þurrkar tár úr augunum) 

BARBARA

Gott og vel. Mér líður akkúrat núna eins og ég sé á fyrsta stefnumótinu þegar maður verður að staldra nægilega lengi við til að átta sig á því hvort maður geti hugsað sér að hitta náungann aftur.

 

HANN

Þú getur verið viss um að við eigum eftir að hittast aftur.

 

BARBARA

Ha, þú þykist sem sagt vita lengra en nef þitt nær.

  

HANN

Einmitt. Það er stóra málið.

 

BARBARA

Jæja komdu þá með það, hvað er þetta stóra mál sem þú kliðar stöðugt á.

 

HANN

Að þekkja tilgang sinn. Sjáðu nú til. Tilgangur allra hluta býr í eðli þeirra. Ef þú þekkir eðli þeirra þekkir þú tilganginn.

 

BARBARA

(Örg) Hvert ertu tengdur eiginlega? Í einhverja guðfræðilega orðsifjabók?

 

HANN

Vertu bara róleg. Þetta er ekki svo erfitt að skilja. Eðli hluta er ákvarðað af eiginleikum þeirra. Tökum sem dæmi þennan bekk sem við sitjum á. Svo að hægt sé að skilgreina hann sem bekk þarf hann að hafa alla eiginleika bekkjar og sem slíkur er eðli hans að vera þannig að hægt sé fyrir fólk að sitja á honum. Ef þessi bekkur hefði vitsmuni mundi hann vera hamingjusamur núna því hann væri að uppfylla tilgang sinn samkvæmt eðli sínu.

 

BARBARA

Já ég sé, við sitjum sem sagt á hamingjusömum bekk.

 

HANN

Það má segja það. En þú ert ekki bekkur.

 

BARBARA

Þakka þér fyrir að taka eftir því. Oftast líður mér nú samt þannig.

 

HANN

Já vegna þess að þú hefur ekki eins og margir náð að uppfylla tilgang þinn. Í raun og veru ertu sál sem hefur líkama, um stundarsakir allavega. Í sálinni búa frumhvatir sem allir menn finna til en vita flestir ekki til hvers á að nota. Þegar allt kemur til alls má segja að þessar andlegu frumhvatir séu aðeins tvær. Að þekkja og tilbiðja.

 

BARBARA

Reyndar hef ég aldrei tilbeðið neitt eða neinn um ævina.

 

HANN

Ekki það nei. Manstu hvað þú vildir líkjast mömmu þinni þegar þú varst lítil? Manstu hvað þú dáðir kvikmyndaleikarana, og popp- og íþróttastjörnurnar þegar þú varst unglingur? Seinna reyndir þú að helga þig manninum þínum, eða öllu heldur mönnunum þínum. Einbýlishúsunum og bílunum, allt þetta sem þú eyddir tíma þínum ósínkt í að halda hreinu og fáguðu. Meira segja á hnjánum.

 

BARBARA

Þú getur nú varla kallað svona hversdagsverk tilbeiðslu.

 

HANN

Hvað var það annað en tilbeiðsla? Sönn tilbeiðsla er ekki bara falin í orðum sem beint er til einhvers sem fólk dýrkar, heldur í gjörðum og þjónustu við það.

 

BARBARA

Ég þekki fullt af fólki sem aldrei hugsar neitt um þessa hluti. Það bara vaknar á morgnana, fer í vinnuna, græðir peninga, borðar, hlær, elur upp börnin sín og deyr, reyndar sumt löngu áður en það gefur upp andann.

 

HANN

Það má líka nota skiptilykil fyrir hamar með ágætum árangri. Og það er satt að sumir reyna að fullnægja sínum andlegu frumþörfum með því að tilbiðja efnið, helga sig því og tileinka sér það. Þeir eyða ævinni í að raða saman ánægjustundum í lífinu og kalla það hamingju. Þú hefur reynsluna af því ekki satt.

 

BARBARA

Hinir dauðu grafa hina dauðu, var það ekki einhvernvegin svoleiðis?

  

HANN

Og núna þrátt fyrir allt, finnurðu enn fyrir þörfinni að tilheyra og að tileinka þig einhverju. Þörfin að tilheyra, líkjast og tileinka sig, er ekkert annað en birting þarfarinnar til að tilbiðja. Henni er ekki alltaf beint á réttar brautir, en hún er þarna.

 (Þögn) 

BARBARA

(Leggur frá sér rósina aftur á bekkinn) En hvað með ástina? Þú hefur ekkert minnst á hana. Hvar kemur hún inn í myndina?

 

HANN

(Tekur upp rósina og lætur BARBÖRU hafa hana aftur) Að elska er að þekkja. Að þekkja er að helga sig því og tileinka sér það sem maður þekkir. Þannig er ástin hluti af tilbeiðslunni. Þetta er snákurinn sem bítur í halann á sér.

 

BARBARA

„Ekki neitt“! Ég held mig langi til að gefa þér nafn eftir allt saman. Ég ætla að kalla þig Guttorm.

 

(Þögn)

 

HANN

Er Myndin eitthvað að skýrast?

   

BARBARA

Satt að segja er ég enn að reyna að átta mig á hvar ég er stödd í veraldarsnák sem gleypir sjálfan sig.

 

HANN

(Stendur upp og gerir sig líklegan til að hverfa á braut). Þú ert samt að átta þig á stóra málinu. Hver eiginleg staða þín er í alheiminum.

 

BARBARA

Staða? Er ég ekki bara miðaldra kona á hamingjusömum bekk í almenningsgarði á spjalli við engil um miðja nótt?

 

HANN

Stundum er stóra málið falið í einu orði.

 

BARBARA

Eitt galdraorð og allt fellur í rétta stafi. Bara að það væri svona einfalt. En lát heyra, endilega, lausnarorðið. Mig grunar samt að það eigi eftir að geta af sér fleiri.

 

Hann

Þjónn.

  

BARBARA

Þjónn?

 

HANN

Staða þín er staða þjónsins. Þú ert sköpuð og sérstaklega hönnuð ef svo má að orði komast, til að vera þjónn og ekkert annað. Mennirnir eru haldnir þeirri firru að þér séu skapaðir til að ríkja, ríkja yfir umhverfi sínu og meðbræðrum sínum. Algjörlega andstætt tilgangi sínum reynir maðurinn að brjóta undir sig það sem ekki tilheyrir honum og getur aldrei tilheyrt honum, mannshjartað. Í því býr hið sanna vald og vald tilheyrir ekki manninum.

 

BARBARA

Þjónn?

 

HANN

Staða þjónsins er æðsta staða sem manninum getur nokkurn tíma hlotnast. Svo einfalt er það nú. Hlær og skellir saman höndunum)

 

BARBARA

Svo ég hef þá alla tíð verið nokkuð nálægt þessu. Ég man ekki eftir tíma í lífi mínu þar sem ég hef verið í öðru hlutverki en hlutverki þjónsins.

 

HANN

Það skiptir máli hverjum þú þjónar og hvernig.

 (Þögn) 

BARBARA

Og hvað gerist svo?

 

HANN

Það breytist ekki margt alveg strax, nema kannski skilningur þinn. Hann hefur breyst ekki satt.

 

BARBARA

(Hlægjandi)Nýr himinn og ný jörð.

 

HANN

Það sem þú gerir, gerir þú í ljósi þess sem þú veist. Nýr skilningur kallar fram breytingar smám saman. Þær byrja með því að þú gerir það sem gera þarf næst, fullviss í huga og hjarta að þér er ekki ætlað að gera neitt annað.

 

BARBARA

Heyrðu, er þetta kannski það sem kallað er að fá köllun? Næst, hvað kemur næst?

 

HANN

Fékkstu þér að borða í kvöld?

 

BARBARA

Reyndar, hvað kemur það málinu við?

 

HANN

Ertu búin að þvo upp?

 

BARBARA

Nei, ég var alls ekki í formi til þess.

 

HANN

Næst er að þvo upp og ganga frá eftir kvöldmatinn heima hjá þér.

 

BARBARA

Þvo upp?

 

HANN

Já, ef allir myndu þvo upp eftir að þeir eru búnir að borða væri heimurinn miklu betri. Þó að hamingjan sé reist á andlegri hegðun verður þú að feta hinn andlega stíg með praktískum fótum. Andleg hegðun felur í sér sjálfsnægju hvert sem hlutverk okkar er í lífinu.

 

BARBARA

Og eftir allt þetta er niðurstaðan að ég á eftir að vaska upp.

 

HANN

(Gengur út af sviðinu) Já, reyndar og koma rósinni í vatn. (Hlær með sjálfum sér) Guttormur!

 

BARBARA

(Lokar augunum og stingur höndunum í vasana á kápu sinni. Stutt stund líður þar til hún opnar augun aftur. Á meðan heyrast raddir fortíðarinnar sem smámsaman dofna og nýjar raddir yfirgnæfa þær en þagna síðan)

  

NÝJAR RADDIR

Bergmál af tali HANS.

 (Hún opnar augun og stendur upp, tekur hendur úr vösum og tómt pilluglas dettur á gólfið. Hún tekur upp pilluglasið, horfir á það undrandi og svo í kringum sig. Gengur síðan burtu.) Endir

Stóra stundin í Kína nálgast

_44903092_5cef25ee-b192-40fa-8a22-a36d569d4f55Þá segja Kínverjar allt til reiðu fyrir opnunarhátíðina í dag og sjaldan eða aldrei hefur slíkur öryggisviðbúnaður sést.

100,000  auka lögregluliðar eru búnir að taka sér stöðu víðsvegar um Bejiing borg og flugvöllum í borginni verður lokað á meðan hátíðin sjálf fer fram.

Á opnunarhátíðinni koma fram um 10.000 manns og billjón sjónvarpsáhorfendur munu fylgjast með henni í beinni útsendingu.

Þrátt fyrir það er mengunarstigið í borginni aðal áhyggjuefnið. Fáir bílar fara nú um borgina og í þessum töluðu orðum hefur mengunin minkað talvert frá því sem var í gær.  Þeir sem eru á ferli virðast allir tengjast leikunum á einhvern hátt. Þoka hvílir yfir borginni og a.m.k. einn talmaður leikanna lét hafa eftir sér að hann hefði áhyggjur af því að hún mundi trufla hátíðina.

Opnunarhátíðin mun vera byggð á 5000 ára sögu Kína og er undir stjórn  kvikmyndaleikstjórnas  Zhang Yimou.

Jacques Rogge, formaður Alþjóðlegu Ólympíunefndarinnar ver með kjafti og klóm þá ákvörðun að halda leikana í Kína og segir að hann vonist til að ´þeir hjálpi til að "Kína skilji heiminn og heimurinn Kína. "

Pollution graph
 


Hvers virði eru kennarar, svona eftir á að hyggja?

Ef að við viljum sjá og skilja hvort við höfum þroskast eitthvað eftir að við erum orðin fullorðin, ( það er ekkert sjálfgefið að þroski fylgi ára og hrukkufjölda) ættum við að bera saman afstöðu okkar til kennaranna okkar, eins og hún var þegar þeir kenndu okkur og hvernig hún er núna þegar við óskum þess eins að við hefðum verið betri nemendur.

image004Ef þú sérð núna að kennarar eru mikilvægasta starfstétt í heimi á eftir bændum, er þér ekki alls varnað. Ef þú skilur að Þeir einir kunna að láta bókvitið í askana og án þeirra yrði heimurinn aftur miðaldadimmur og án yls, ertu að nálgast þann skilning á kennurum sem eðlilegur getur talist.

Ef þú hvorki sérð eða skilur þetta, skaltu ekki hafa hátt og láta sem ekkert sé. Þetta kemur kannski.

Ég skrifa þessar laufléttu hugrenningar vegna þess að einn af kennurunum mínum kom í heimsókn á bloggsíðuna mína í kvöld.

Mér varð hugsað til hlutskiptis þeirra sem í raun eru ábyrgir fyrir því hvernig við hugsum. Kennararnir mínir komu og fóru, gerðu það sem þeim var falið að gera án þess að ég þakkaði þeim neitt fyrir það sérstaklega. Þeir voru flestir í mínum augum óvinurinn sem stöðugt reyndu að fá þig til að gera það sem þig langaði ekki að gera. Bara að ég hefði farið eftir þeim, en ekki mér. -

Gylfi Guðmundsson var íslenskukennarinn minn í tvo vetur í Gagnfræðaskóla Keflavíkur fyrir margt löngu og ég á honum margt að þakka. Fyrir utan að vera frábær kennari eins og ferill hans ber vitni um, sagði hann mér fyrstur frá Stapadrauginum, útskýrði fyrir mér falið gildi ljóðagerðar, gerði íslensk orð spennandi og felldi mig ekki í málfræði þrátt fyrir slælegan árangur minn á prófunum. Takk fyrir það allt Gylfi. 


Ólympíuleikar í skugga mengunnar og mannréttindabrota

r234713_942681Það rétt svo logar á Ólympíukyndlinum fyrir mengun, þar sem hlaupið er með hann eftir   Kínamúrnum sem er að hálfu hulinn mistri. "Ekki mengun" segja talsmenn kínversku Ólympíunefndarinnar, heldur þoka. Þrátt fyrir það sýna mengunarmælar allt upp í sjö sinnum meiri mengun en æskileg er.

Kyndilinn hefur dregið að sér mótmæli nánast hvar sem hann hefur farið umheimsálfurnar fimm fram að þessu og sjálfur Bush lét hafa eftir sér í gær all-sterka gagnrýni á Kína vegna mannréttindamála.

Hann tiltók sérstaklega fanga sem eru í haldi vegna mannréttindabaráttu og trúar sinnar. 

Kína svaraði með því að segja að í undirbúningi hafi þeir haft að leiðarljósi að setja "fólkið í fyrirrúm", hvað sem þeir meina með því.

Að öðru leiti er þetta helst að frétta af Ólympíuleika- málum

  • Fleiri en 40 íþróttamenn hafa undirritað bréf sem gagnrýnir Kína og fer fram  á "friðsama lausn" á málum Tíbet.
  • Suður og norður Kórea  munu ekki ganga saman inn á leikvanginn á opnunarhátíðinni eins og þær gerðu á síðustu ólympíuleikum.
  • Bandarískur hópur sem vaktar róttækar vefsíður segir að kínverskir íslamistar hafi sett  á Uighur mælandi síðu, myndband sem sýni sprengingu yfir Ólympíuleikvanginum í Bejiing.
  • Hópar Tíbeta hafa staðið fyrir miklum mótmælum í Indlandi, Tíbet og Nepal á aðfarardegi leikanna.
  • Kína hefur valið körfuboltaleikmanninn Yao Ming til að vera fánaberi á opnunarhátíðinni.

Sneypuför Mugabe á Ólympíuleikana

mugabe-crazyForseti ZIMBABWE  Robert Mugabe, hefur samkvæmt nýjustu fréttum snúið aftur til Zimbabwe, en hann var á leið til að vera viðstaddur opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Bejiing. Honum var snúið heim aftur þar sem hann var staddur í Hong Kong, þar sem hinum var tilkynnt af kínverskum yfirvöldum að honum væri ekki boðið að taka þátt í hátíðinni. Mugabe hélt því til baka í gær og sagðist þurfa að sinna mikilvægum innanlands málum.

Þetta var afar snjallt af Kínverjum sem hafa verið sakaðir um að vera bestu vinir Mugabe og sent honum óspart vopn og vistir fyrir herinn hans. Svo eru þeir líka að hjálpa honum að "þróa" landið og eiginlega halda honum, tindátum og pótintátum hans uppi. Nú  verða þeir ekki sakaðir um að hýsa "einræðisherrann" og þeir forða öllum öðrum frá að þurfa að hitta hann. Sá fundur hefði nefnilega getað orðið all vandræðalegur. Alla vega eru Þeir Bush og Óli save í bili frá því að þurfa að heilsa Mugabe, nú skítuga barninu  í Afríku sandkassanum.

PS. Svo ætti einhver af ráðgjöfum Mugabe að láta hann vita að það er ekkert rosalega snjallt svona pólitískt séð og í ljósi mannkynssögunnar að safna svona yfirvarar-skeggi.

 

 


Leikkonan eilífa...

bacalllauren_bacallHún hefur þegar leikið í um 130 kvikmyndum um ævina. Undanfarin 10 ár hefur hún leikið í a.m.k. einni kvikmynd árlega og nú er verið að leggja síðustu hönd á næstu kvikmynd hennar Wide blue Yonder.

Hún var fædd 16. Sept. árið 1924 í New York og gefið nafnið Betty Joan Perske. Hún var aðeins 19 ára þegar hún fékk fyrsta hlutverkið sitt og það var aðalhlutverk á móti mesta karlkyns kvikmyndastjörnu þess tíma;  Humfrey Bogart. Myndin hét; To have and to have not og árið var 1944 og hún hafði tekið sér nýtt nafn, Lauren Bacall.

svmarriage11Hún er þektust fyrir film noir myndirnar; The Big Sleep (1946) og Dark Passage (1947) og sem grín-myndina  How to Marry a Millionaire.(1953)   

Árið 1981 var hún valin Kona ársins í USA en  kunnust er hún samt fyrir að vera eiginkona Humfrey Bogarts sem hún giftist 1945 og lék síðan á móti honum í fjölda kvikmynda.

Eftir að hafa hjúkrað Bogie sem barðist við krabba, á banalegunni, lét hún hafa þetta eftir sér;  "Ég setti feril minn á bakhelluna þegar ég giftist Bogie. Þegar hann lést kaus ég að yfirgefa Kaliforníu, því þá var lífi mínu lokið".   -   Þetta var árið 1957.

Lista yfir kvikmyndir hennar er að finna hér.

Og helstu atriði ævi hennar er að finna hér.


 


María Magdalena, hin sanna kvennhetja Kristindómsins

Yavlenie2Margt hefur verið ritað um dagana um Maríu Magdalenu, helsta kvenlærisvein Krists. En þótt að hún sé skrifuð fyrir Guðspjalli sjálf og það sé um margt merkilegt, hlaut það ekki náð fyrri augum valnefndarinnar forðum og var úthýst úr safnritinu sem við  þekkjum sem Biblíuna.

Til skamms tíma, eða allt frá því að Gregoríus páfi hélt því fram í frægri ræðu sinni árið 591 að hún væri "Sú sem Lúkas kallar hina syndugu konu og Jóhannes kallar Maríu úr Betaníu, trúum vér að sé sú María sem sjö djöflum var kastað úr, samkvæmt Markúsi", hefur það verið viðtekin venja að segja Maríurnar þrjár, sem talað er um í guðsspjöllunum, einu og sömu konuna. Þessi ímynd hennar varð til þess að um aldir var hún útmáluð sem vændiskona og ásamt Evu , holdgerfingur losta og lasta konunnar.

Í raun er hvergi minnst á í guðspjöllunum að María Madgalena (frá Magdölum) og hinar Maríurnar séu ein og sama persónan. Hún var ein þeirra kvenna sem fylgdu Jesús til Jerúsalem eftir að hann hafði rekið úr þeim illa anda og var viðstödd krossfestingu hans.

Maria%20Magdalena%20FoixEftir krossfestinguna var Kristur lagður grafhelli Jósefs frá Armaþíu og það var María Magdalena  ásamt móður Krists, sem koma að  gröf hans og uppgötvað að lík hans var horfið. Hún fer og segir Símoni Pétri og Jóhannesi lærisveinum Krists frá þessu og saman fara þau að gröfinni til að fullvissa sig um að hún sé tóm. Greinilega yfirbuguð af sorg situr hún eftir við gröfina og verður fyrsta manneskjan til að uppgötva að Kristur er upprisinn. Kristur bannar henni að snerta sig en biður hana að fara og segja fylgjendum sínum að hann muni hverfa til Föður síns og þeirra og Guðs síns og þeirra.

Nú eru margir sem trúa því að upprisa Krists skipti miklu máli fyrir hinn kristna mann og ekki vill ég draga neitt úr því. En að sá atburður sé hápunkturinn í sögu kristninnar finnst mér villandi söguskýring. Kristur var ekki fyrstur til að stíga upp frá dauðum. Sjálfur reisti hann Lasarus frá dauðum og ekki var hann fyrstur til að vera numinn upp til himna, því það var Jónas líka. Mikilvægi þessa atburða verða meiri þegar hugað er að því sem á eftir fer.

Það var María Magdalena sem Kristur greinilega kaus að veita fyrstri allra þá sýn að Kristni væri ætlað annað og meira en að lognast út af eftir dauða sinn. Fyrir það eitt ætti staða hennar innan kristni að vera mikilvæg. Henni er falið það hlutverk að endurreisa kristindóminn sjálfan upp frá dauðum. Eftir að hafa grátið við dyr grafarinnar birtist henni sýn. Hún fer frá gröfinni fullviss þess að dauði Krists marki ekki endalok eins og hann gerði í hugum annarra lærisveina Krists sem ráfuðu um ráðvilltir eftir krossfestinguna, heldur nýtt upphaf.

mary_penitent_titianEftir að boð Maríu Magdalenu um að Kristur sé ekki dáinn breiðast út, koma lærisveinarnir saman og ákveða að hefja útbreiðslu kristinnar með því að kenna hanna vítt og breitt um heiminn. Undur og stórmerki gerast á þeim fundi, m.a. uppgötva þeir að þeir geta talað framandi mállýskur til að koma boðskapnum til skila jafnvel í  framandi löndum. Upprisa kristinnar varð að staðreynd og það var Maríu Magdalenu að þakka. Hún var valin af Kristi til þessa hlutverks og er vel að nafnbótinni Postuli postulanna komin.

Einkennilegt að síðan hefur verið reynt að gera lítið úr og mannorð hennar svert á marga lund, sérstakelga úr predikunarstólum patríarkanna. Þegar að loks gangskör var gerð að því að hreinsa mannorð Maríu Magdalenu og veita henni verðugan sess á meðal dyggra lærisveina Krist, hafa sprottið upp tilhæfulausar getgátur um að hún hafi verið lagskona Krists eða jafnvel eiginkona.

Ég veit ekki hvaða árátta þetta er að vilja gera Maríu Magdalenu að einhverju öðru en hún var, en mig grunar að enn ráði hugmyndafræði patríarkanna ferðinni, þar sem konan getur ekki ein og sjálf staðið jafnfætis eða hvað þá framar karlmanninum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband