Piparúði

cayenneÝmislegt bendir til þess að chilies pipar-tegundir hafi verið ræktaðar frá örófi alda. Indíánar í Mexikó þekktu og ræktuðu ýmsar tegundir þess fyrir 5500 árum, þ.á.m. chiltecpin, jalapeño, ancho, papriku, serrano og  cayenne pipar. Ekki hafa fundist nein gögn sem benda til þess að þeir hafi notað þessar sterku kryddjurtir til líkamsmeiðinga líkt og gert er í dag í mörgum löndum.

Þó að ekki sé ýkja langt síðan að byrjað var að nota piparúða er notkun rauðs Chili-pipars vel þekkt úr mannkynssögunni sem vopn bæði frá Indlandi og Kína. Kínverjar og ekki síst stríðsmenn þeirra fundu upp ýmsar leiðir til að nota kryddjurtina til sjálfsvarnar og í hernaði. Meðal þeirra var að mala þurrkaðan pipar og vefja hann hrísgrjónapappír sem síðan var kastað í andlit óvinarins.

Meðal hinna frægu japönsku Ninja herliða var þessi aðferð vel þekkt til að gera óvininn óvirkan um stund. Á Tukagawa-veldis-tímabilinu í Japan notuðu lögregluliðar svokallaða Metsubishi kassa en í þeim var komið fyrir fínmöluðum Chili-pipar sem blásið var í augu þeirra sem gerðust sekir um glæpi.

Á 14. og 15. öld þegar að þrælasala var algeng á vesturlöndum, komust þrælasalar upp á lag með að nota kryddið til að fanga þræla í Afríku. En það var einnig notað á sama tíma sem vopn og var vinsælt við pyndingar þræla og glæpamanna.

Hvernig beita á úðanumÞað var ekki fyrr en á níunda áratug síðustu aldar að farið var að nota piparinn í formi úða.

Bannað er að nota piparúða í stríði samkvæmt I.5 grein alþjóðlega sáttmálans um efnavopn sem undirritaður var árið 1993 og varð að alþjóðlegum lögum 29. Apríl 1997.  Sáttmálin er viðauki við hinn svo kallaða Genfar sáttmála sem hefur verið í gildi frá því 1925.

Þrátt fyrir þessi ákvæði er piparúði löglegt sjálfsvarnarvopn fyrir almenning í mörgum löndum heims og hluti að búnaði lögreglumanna.

Á Íslandi er piparúði notaður af  lögreglu en ólöglegt er fyrir almenning að bera eða beita slíku vopni.

Auðveldasta leiðin til að forðast áhrif piparúða er að setja upp vel þétt skíðagleraugu og vefja klút fyrir aðra hluta andlits síns.


Góðar húsreglur

PortloeÉg var nýlega á ferð um Cornwall og borðaði hádegismat á krá sem hefur verið starfrækt óslitið frá því snemma á átjándu öld.

 Kráin stendur í þorpinu Portloe og er nú úr alfaraleið en var áður samkomustaður smyglara, vegamanna og sjó og námumanna þar um slóðir í 300 ár eða meir.

Á skilti í anddyrinu voru letraðar húsreglur krárinnar sem voru dagsettar árið 1786 og hljóðuðu svona;

Enga þjófa, fakíra, rudda eða farandsala.

Enga skuggalega skálka og iðjuleysingja eða flóbitna flækinga.

Bannað er að skella á rass kvenna eða kitla þær. Bannað er að slá krepptum hnefa á borðin eða skella niður á þau könnum.

Engir hundar eru leyfðir í eldhúsinu né hanaat hvar sem er í húsakynnunum.

Byssuhólka, framhlaðninga, kylfur, rýtinga og sverð skal afhenda gestgjafa til varðveislu á meðan að dvöl eigenda þeirra á kránni stendur.

Rúm yfir nótt 1. Skildingur

Hirðing og hýsing hests 4. Pence.


Ljósið frá Palestínu

baby Mohammed al-BoraiÁ sama tíma og kristnir menn einbeina sér að ljósinu sem kviknaði í  Betlehem fyrir 2000 árum, reyna Gyðingar enn og aftur að láta 3000 ára gamalt fyrirheit um endurreisn og endurheimtingu landa sinna, verða að veruleika.

Ljósið sem skín frá Landinu helga um þessar mundir, kemur eins og oft áður af leiftrunum frá sprengiflaugunum þegar þær springa beggja vegna uppsteyptrar víglínunnar á milli systurþjóðanna sem Palestínu byggja.    

Hermenn Ísrael svara árásum borgaralegra hermanna Palestínuaraba sem búa við þröngan kost á Gaza ströndinni, "sjálfstæðri" sérlendu sem samt er enn algjörlega háð Ísrael með helstu lífsnauðsynjar og aðgengi að landinu yfirleitt. 

Af öllum þeim átökum sem eiga sér stað í heiminum, eru þessi átök þau fáránlegustu og ekkert magn af gulli, reykelsi eða mirru á jólum fær breitt yfir það.  Í hlut eiga tvær siðmenntaðar þjóðir sem eiga afar vel menntaða einstaklinga og búa auk þess báðar að fornri frægð. Það er næsta víst að þessi ófriður er ekki hefðbundinni vanþekkingu og villimennsku að kenna.

Allir fremstu stjórnvitringar heimsins frá miðbiki síðustu aldar til okkar tíma, hafa reynt að skakka þann ljóta leik sem þjóðirnar stunda og sem oftast er nefndur "Palestínudeilan",  án árangurs. Það rennir sterkum rökum undir þá skoðun að vandinn sé ekki stjórnfarslegur eða pólitískur.

Í margar aldir bjuggu Palestínu-Gyðingar í ágætri sambúð við Palestínu-múslíma og þrátt fyrir augljósan mismun í trúarbrögðum þeirra nefna þeir Guð sinn sama nafni og eigna honum sömu eiginleika. Deilurnar eru því ekki af trúarlegum orsökum.

En ef það er ekki vanþekking, ekki pólitík og ekki trúarbrögð sem valda því að flest börn, átta ára og yngri á Gaza svæðinu eru svo taugaveikluð að þau pissa stöðugt undir á nóttum, hvað er það þá?

Hvað er það sem fær Palestínumenn til að vilja helst granda Ísraelsríki og Ísraela til að vilja helst ýta Palestínumönnum út í sjó í eitt skipti fyrir öll?

Hvað er það sem fær báðar þjóðir til að viðurkenna að hvorutveggja er óhugsandi um leið og þeir umla "Já, en..." við öllum samþykktum alþjóðasamfélagsins um þeirra mál.

Börn á GazaÞað er aðeins einn möguleiki eftir.

Ekkert afl getur fengið fólk til að berast á banaspjótum í jafn tilgangslausu stríði og Palestínudeilan er, nema ein; FORDÓMAR.

Ég er ekki að meina einhverja fyrirfram úthugsaða niðurstöðu, heldur brennandi tilfinningu sem þú finnur fyrir í maganum í hvert sinn sem einhver minnist á óvinin, hvoru megin veggjanna sem þú býrð. 

Þessi tilfinning eitrar alla  hugsun og mettar allar aðrar tilfinningar gremju og reiði. Þessi tegund fordóma er fyrst og fremst tilfinningalegur rússíbani sem endar í gjörðum sem engin maður sem stendur utan við vítahringinn skilur.

Ástæðan fyrir því að engin lausn hefur fundist á þessari deilu er að enginn vill horfast í augu við þennan tilfinningalega harðstjóra sem krefst blóðs fyrir blóð og lífs fyrir líf. Enginn vill viðurkenna að sálir beggja þessara þjóða eru sjúkar og þær þarf að lækna til að einkenni þessa andlega sjúkdóms hverfi. Að uppræta fordóma af þessu tagi er afar erfitt, en það er hreinlega ekki hægt á meðan enginn viðurkennir tilvisst þeirra.

Og á meðan við það stendur,  munu jól og áramót koma og fara,  Íranar munu halda áfram að senda borgaralegum hermönnum Palestínu flaugar og Ísraelar munu halda áfram að gera stjórnstöðvar þeirra að dufti. Almenningur mun halda áfram að bölva, biðjast fyrir og deyja, börnin munu halda áfram að pissa undir og deyja og hermennirnir munu halda áfram að vera geðþekkir herramenn á góðri stundu eða borgaralega klæddir hermenn með andlitsgrímur og þannig munu þeir halda áfram að drepa og deyja.


Hjátrú eða skynsemi

Undir stiganum Að ganga undir stiga hefur lengi þótt ógæfumerki. Mér var kennt þetta ungum að árum, en án viðhlítandi skýringa.

Auðvitað má segja að það sé á vissan hátt skynsamlegt að forðast allar undirstigagöngur því verið getur að eitthvað falli óvart ofan úr stiganum, eins og málningardós eða tól sem sá sem er í stiganum er að nota. Þess vegna hika margir við þegar þeir koma að stiga sem stendur upp við vegg.

En hjátrúin er samt ekki komin til af þessum hversdagslegu ástæðum heldur trúarlegum. Sú var tíðin að þríhyrningur var í hinum kristna heimi ávalt talin tákn hinnar heilögu þrenningar, föður, sonar og heilags anda. Stigi sem stendur upp við vegg myndar augljóslega þríhyrning. Að rjúfa þríhyrningin með því að ganga í gegn um hann þótti mikil vanvirðing við þrenninguna og boðaði því viðkomandi ógæfu.

Það sem mér var ekki kennt var hvernig hægt var að komast undan óláninu ef svo illa tókst til að þú gekkst undir uppreistan stiga. En til þess eru ráð og hér koma þau.

1. Hræktu þrisvar sinnum í gegnum eitthvert þrepa stigans.

Krosslagðir fingur2. Hræktu á skó þinn og haltu áfram að ganga en þú mátt ekki líta á skóinn fyrr en hrákinn hefur þornað á honum.

3. Gakktu aftur á bak í gegn um stigann aftur og óskaðu þér um leið að engin ólukka megi henda þig.

4. Krosslegðu fingurna (löngutöng yfir vísifingur) þangað til að þú sérð hund.

Ef einhver undrast mátt hrákans í þessum mótgaldri, þá ber að minnast þess að Kristur sjálfur notaði hráka til að gera hræru sem hann notaði til að lækna blindu.

Að lokum, speki dagsins:

Ég get staðist allt nema freistingarnar

Oscar Wilde

 


Af kjölturökkum og frönskum flóm

kekkarjomiEftir sólrík Jól suður í Cornwall þar sem rjómi með smjörkekkjum er snæddur á jólum, ásamt hnausþykkum og dísætum ávaxtajólakökum, er ég kominn aftur heim og rétt að huga aðeins að blogginu aftur.

Ég þakka öllum þeim sem sendu mér jólakveðjur og sendi þeim bestu hátíðarkveðjur til baka.

Ég skemmti mér vel yfir jóladagana við lestur bókar sem fjallar um uppruna hugtaka, flestra enskra, en sum hver þó þekkt annarsstaðar, jafnvel á Íslandi.

Ég fann í bókinni og staldraði við skemmtilega umfjöllun um kjölturakka. (á ensku lapdog) Oft er talað um einhvern sem dekrað er við sem sem kjölturakka og einnig um þá sem láta stjórnast af öðrum þ.e. eru algjörlega í vasa einhvers.

En eins og oft áður fylgdi böggull skammrifi og það var ekki tekið út þrautalaust að vera kjölturakki.

Lady_with_a_Lapdog_(Lavinia_Fontana)Á miðöldum voru flær og lýs algengar óværur, svo algengar að háir jafnt sem láir þurftu að sætta sig óþægindin sem óværunni fylgdi. Hefðarfrúr margar áttu þá "kjölturakka", þ.e. einhverja tegund af smáhundi sem þær létu liggja í kjöltu sinni og jafnvel á nöktum lærum sínum. Óværan, sem  geðjaðist betur að blóði húsdýra en manna, hraðaði sér þá yfir í feld rakkans og seinna þegar hann var settur út, tók hann lýsnar og flærnar með sér.

floÞá er getið um þann einkennilega sið heldri manna í Frakklandi á sautjándu öld að ganga með um hálsinn í örlitlu búri, fló sem hann hafði fengið hjá ástmey sinni eða heitmey. Ól viðkomandi óværuna á blóði sínu með því að þrýsta smágjörðu búrinu að brjósti sér svo flóin næði að sjúga hann og blandast þannig blóðhans blóði ástmögur sinnar.


Sagan af Jósef litla.

Fyrir skömmu birti ég jólasögu fyrir unglinga og nú er komið að börnunum. Sagan er skrifuð fyrir tvær litlar tátur á sínum tíma, en kannski hafa fleiri gaman að henni.

Ysta gistihúsið í bænum iðaði af mannlífi.  Ekki bara af kaupmönnum á leið til Jerúsalem, heldur fjölmörgum gestum sem flestir sögðust hafa búið í Betlehem í eina tíð eða aðra.

Það var komið kvöld og Jósef litli sat á tröppunum sem lágu upp á þak hússins og horfði á móður sína bera fram hvert fatið af öðru hlaðið ólífum, döðlum og brauði sem hvarf jafn hraðan ofaní glorsoltna ferðalangana. Í forgarðinum fyrir utan biðu eiginkonurnar í þéttum hóp ásamt börnum sínum og skröfuðu saman. Þær voru nýrisnar upp frá bænum og biðu nú þess óþreyjufullar að eiginmenn þeirra lykju sér af svo að þær gætu líka satt hungur sitt. Börnin stóðu álút og þreytt og einstaka kjökraði um leið og það togaði í yfirhöfn móður sinnar. Jósef hafði aldrei séð jafnmargt fólk á ferðinni fyrr og hann hafði heyrt pabba sinn segja að það ætti að vera í lögum að telja skyldi fólk á hverju ári því þá mundi hann ekki þurfa að kvarta yfir nokkrum sköpuðum hlut. Jósef skildi varla hvað pabbi hans átti við enda aðeins átta ára gamall. En svo hafði málið skýrst talsvert þegar að hann heyrði einn af ferðamönnunum hneykslast á keisaranum í Róm sem hét víst Ágústus og þeirri áráttu hans að vilja vita nákvæmlega hvað margir byggju í heiminum. "Hann gerir þetta bara til að vita betur hve mikið hann getur látið ónytjunginn Heródes skattleggja þjóðina" heyrði hann gestinn segja. Jósef hafði oft heyrt minnst á þennan Heródes. Hann var konungur Gyðinga, en mamma hans hafði samt sagt að Heródes gæti varla verið sannur konungur fyrst hann léti keisarann í Róm ráða yfir sér. Jósef horfði hugfanginn á allt fólkið og velti því fyrir sér hvort hann sjálfur ætti nokkurn tíma eftir að ferðast til ókunnugra staða.

Þegar að leið á kvöldið færðist smá saman ró yfir litla gistiheimilið og gesti þess. Eftir að konurnar og börnin höfðu borðað gekk hver og einn til sinnar úthlutuðu hvílu og matsalurinn var orðinn að risastórri flatsæng þar sem a.m.k. fjórar fjölskyldur sváfu. Jóel faðir Jósefs hafði gott lag á því að koma öllum fyrir og fáir kvörtuðu yfir þrengslunum. Til að nýta allt gistirými til fullnustu hafði hann búið um Jósef litla og móður hans upp á þaki gistihússins. Sjálfur sagðist hann ætla að sofa út við dyr forgarðsins því þannig kæmist enginn hvorki inn né út án þess að hann yrði þess var. Jósef fannst þetta svo spennandi að hann gat varla sofnað.

Stjörnubjartur himininn og svöl kvöldgolan hafði örvandi áhrif á hann. Móðir hans var aftur á móti varla lögst útaf þegar að hún var byrjuð að hrjóta. Jósef horfði upp í himininn og reyndi eftir megni að telja allar stjörnurnar sem hann sá. Allt í einu virtist honum sem ein stjarnan hreyfði sig. Út við sjóndeildarhringinn sá hann hvar ein af stjörnunum virtist sigla hraðbyri í áttina að honum. Gapandi af undrun stóð Jósef á fætur og horfði í forundran á það sem í fyrstu virtist aðeins lítill ljósdepill, verða að skínandi bjartri stjörnu sem honum fannst stöðugt nálgast. Hann var í þann mund að fara að vekja móður sína til að sýna henni þetta merkilega fyrirbæri og leita hjá henni skýringa þegar að hann heyrði að bankað var á dyr forgarðsins. Hann fylgdist með föður sínum rísa úr fletinu við dyrnar og opna. Inn í forgarðinn komu tvær manneskjur, kona sitjandi á asna og maður sem teymdi undir henni. Tal þeirra barst vel í kvöldkyrrðinni til hans;

"Afsakið hversu seint við erum á ferðinni, en við erum búin að leita okkur að gistingu í allt kvöld. Öll gistihús í bænum eru sögð full og þið eruð okkar seinasta von." Sagði maðurinn "Við erum komin alla leið frá Júdeu til að láta skrásetja okkur því hér er ég fæddur."

Jósef horfði á föður sinn klóra sér í höfðinu og  horfa vandræðalega á gestina. Skyndilega var eins og hann tæki ákvörðun, byrsti sig og setti hendurnar á mjaðmir sér eins og hann gerði alltaf þegar hann var að þrefa við kaupmennina um vöruverð á markaðstorginu.

"Heitmey þín segirðu, svo þið eruð ekki gift" spurði hann svo með þjósti.

"Hún er heitmey mín" endurtók maðurinn.

"Ja sveiattan" hrópaði faðir hans, "ekki skal mig undra þó ykkur hafi verið vísað á dyr alls staðar annarstaðar. Hvernig dirfist þú að ferðast um með þessa konu í þessu líka ástandi."

Faðir hans benti nú með vandlætingarsvip á konuna sem sat á asnanum. Jósef horfði á konuna og reyndi að gera sér grein fyrir hvað pabbi hans meinti. Hann sá ekkert óeðlilegt við hana annað en hún var svolítið feit.

"Nei" hélt faðir hans áfram, "þið fáið enga gistingu hér". Hann veifaði höndunum og pataði þangað til að gestirnir snéru aftur út um hliðið og lokaði því að baki þeirra.

Jósef fyldist með þeim þar sem hann stóð á þakinu og sá hvar þau stöldruðu við og maðurinn horfði í kringum sig. Konan virtist segja eitthvað við hann og skyndilega snéru þau aftur við og héldu í átt að fjárhúsinu sem byggt hafði verið utaná lítinn helli í fjallshlíðinni skammt frá gistihúsinu. Jósef sá hvar maðurinn leiddi asnann inn í fjárhúsið og skömmu seinna hvar ljósglætu, greinilega frá litlum olíulampa, lagði frá útihúsunum.  Jósef velti því fyrir sér hvort hann ætti að fara niður og vekja pabba sinn sem búinn var að hreiðra um sig aftur við forgarðsdyrnar, og segja honum að hinir óvelkomnu gestir væru búnir að koma sér fyrir í fjárhúsinu.

 Hann var svo til búinn að ákveða að gera það þegar að hann tók eftir því að stjarnan sem hann hafði séð hreyfast skömmu áður í áttina að sér, var nú komin á fleygiferð og stefndi rakleiðis að honum fannst í átt að sér. Hræðsluópið sem var á leið úr barka hans stoppaði í kokinu á honum því allt í einu staðnæmdist stjarnan, beint fyrir ofan fjárhúsin. Þó að Jósef væri aðeins átta ára og hefði aldrei gengið í skóla vissi hann að svona höguðu stjörnur sér ekki. Ósjálfrátt fylltist hann eftirvæntingu og óseðjandi forvitni og hann vissi að ekkert skipti máli annað en það að komast niður af þakinu og upp að fjárhúsinu því þar væru að gerast undur og stórmerki.

Hann læddist nú niður stigann, niður í dagstofuna, tipplaði á milli  umlandi gestanna sem  sváfu þar á gólfinu og smeygði sér inn í eldhúsið. Á eldhúsinu var lítill gluggi sem Jósef hafði oft leikið sér að að smjúga í gegnum. Það gerði hann því léttilega og áður en varði var hann kominn að fjárhúsinu. Hann var í þann mund að gægjast innfyrir, á milli gysinna viðarborðanna sem húsið var byggt úr, þegar að hann heyrði mannamál. Jósef snéri sér við og sá sér til mikillar undrunar hvar grillti í nokkra menn sem  komu hlaupandi niður fjallshlíðina í myrkrinu. Þeir báru langa stafi og af því vissi Jósef að þeir voru fjárhirðar.

Jósef var viss um að þeir væru þarna komnir til að reka konuna og manninn út úr fjárhúsunum. Þeir höfðu örugglega séð til ferða þeirra og hugsuðu þeim nú þegjandi þörfina. En þegar þeir komu nær sá hann að fjárhirðarnir voru alls ekki reiðir. Þeir voru brosandi og í stað þess að ryðjast inn í fjárhúsið, stóðu þeir eins og varðmenn við hrörlegar dyrnar og töluðust við í hljóði. Þeir virtust engu skeyta um Jósef sem þó var viss um að þeir hefðu séð sig.

Jósef snéri sér því aftur við og kíkti í gegnum rifuna. Í daufri skímunni frá litlum lampa sá hann hvar konan lá á bakinu og maðurinn bograði yfir henni með uppbrettar ermar. Á maganum á konunni var hvítur klútur. Kaldur sviti spratt út á enni Jósefs því honum sýndist maðurinn vera að gera eitthvað hræðilegt og andlit konunnar bar vott um að henni leið ekki vel. Ópið sem staðnæmst hafði í kokinu á honum nokkru fyrr var í þann mund að losna þegar að ennþá fleiri undur og stórmerki gerðust. Í eini svipan hélt maðurinn á barni. Barnið byrjaði að kjökra en þagnaði þegar það var lagt ofaná magann á konunni og hún vafði það í dúkinn sem lá ofaná henni. Gleðisvipur lék nú um andlit konunnar og maðurinn horfði hreykinn á bæði barn og móður. Þegar að hjarðsveinarnir heyrðu barnsgrátinn greip um sig á meðal þeirra mikill fögnuður. Þeir dönsuðu við hvern annan og hlógu. Brátt steig maðurinn út úr fjárhúsinu og bauð þeim að koma inn. Þeir stigu inn í fjárhúsið lotningarfullir og alvarlegir eins og þeir væru að fara inn í bænahús og Jósef sá hvar þeir krupu við jötuna þar sem konan hafði lagt barnið.

Jósef fylgdist með öllu þessu opin eygður og reyndi að átta sig á því sem var að gerast. En hann gat bara ekki fundið neinar  sennilegar  skýringar á öllu því sem hann hafði séð. Eins og til að rugla hann enn frekar í ríminu fannst honum nú sem hann heyrði bjölluhljóm. Augun ætluðu bókstaflega út úr höfðinu á honum þegar að út úr myrkrinu birtust þrír úlfaldar hver með sína bjöllu um hálsinn.

Reyndar hafði Jósef oft séð úlfalda áður, en aldrei hafði hann séð jafn tígulega búna menn eins og þá sem á baki þessum úlföldum riðu. Jósef varð samstundis ljóst að þetta hlutu að vera ákaflega tignir menn, jafnvel konungar. Um leið og þeir komu að fjárhúsinu létu þeir dýrin leggjast á framfæturna og stigu af baki. Hver um sig tók upp úr farangri sínum einhvern hlut sem var vafinn í dýrindis efni og síðan héldu þeir einn á eftir öðrum inn í fjárhúsið.

Í gegnum rifuna á fjárhúsinu sá Jósef hvar fjárhirðarnir viku fyrir mönnunum þremur sem krupu í þögulli lotningu fyrir framan jötuna og lögðu hlutina sem þeir höfðu tekið með sér til fóta barnsins. Eftir nokkra stund stóðu þeir upp og mæltu nokkur orð til konunnar á máli sem Jósef skildi ekki. Því næst komu þeir út og stigu á bak farskjótum sínum og riðu aftur út í myrkrið.

Jósef stóð agndofa og horfði á eftir þeim. Fljótlega komu fjárhirðarnir líka út og hurfu á braut upp fjallið þaðan sem þeir komu. Stjarnan sem skinið hafði skært yfir höfðum þeirra á, meðan að öllu þessu fór fram dofnaði smásaman og varð ein af óteljandi ljósdeplum á síðnæturhimninum.

Jósef var þess fullviss að eitthvað afar merkilegt var að gerast.  Myndi einhver nokkurn tíma geta skýrt öll þessi fyrirbæri fyrir honum. Mundu pabbi hans og mamma trúa einu orði af þessu öllu saman ef hann segði þeim frá því sem fyrir augu hans hafði borið? Jósef sá í gegnum rifuna að maðurinn og konan voru strax farin að búa sig til brottfarar. Mundi hann einhvern tíma komast að því hver þau væru. Og hvað með þetta barn sem Jósef var nú réttilega búinn að álykta að hann hefði séð fæðast. Mundi hann nokkurn tíma heyra frá því aftur.

Jósef snéri sér við og ákvað að halda aftur heim áður enn allir vöknuðu. Hann var varla búin að taka fyrsta skrefið þegar hann heyrði konuna inni í fjárhúsunum segja skýrt og greinilega: 

"Jósef minn, geturðu aðeins komið hérna".  

Jósef stirðnaði upp. Gat verið að konan hafi vitað af honum allan tímann og ekki bara vitað af honum heldur einnig hvað hann héti? Átti hann að svara.

"Jósef, ertu sofnaður" heyrði hann konuna segja aftur.

Hann var í þann mund að svara þegar að hann heyrði manninn segja:

"Nei María mín ég er ekki sofnaður, ég er bara að horfa á barnið og velta fyrir mér hvað við eigum að nefna hann".  

"Hann á að heita Jesús" svaraði konan.

Jósef litla var létt. Nei þau vissu ekkert af honum hugsaði hann. Eins og fætur toguðu hljóp hann til baka að litla gistihúsinu og áður en varði var hann kominn undir brekánið við hlið móður sinna upp á þakinu. Þegar að Jósef vaknaði seint um morguninn var hann ekki viss um hvort atburðir næturinnar hefðu í raun og veru gerst eða hvort hann hafði dreymt þá. Bæði móðir hans og faðir voru svo upptekin við að sinna gestunum sem margir voru á förum, að Jósef fann hvergi tækifæri til að segja þeim neitt um það sem hann taldi sig hafa séð.

Í raun var hann heldur ekki viss hvort hann ætti að segja þeim neitt. Hver mundi trúa að hann hefði séð stjörnu koma fljúgandi og staðnæmast fyrir ofan fjárhúsið, að hann hefði séð fjárhirða dansa af kæti um miðja nótt, að hann hefði séð konu fæða barn og mann taka á móti því, og hver mundi trúa að hann hefði séð þrjá konunga ríðandi á úlföldum koma með gjafir handa barninu. Nei, líklegast var best að þegja. Og svo var þetta kannski bara allt draumur.

Jósef greip brauðhleif úr eldhúsinu og hélt út á götuna fyrir framan litla gistihúsið. Fjöldi fólks streymdi hjá í báðar áttir. Hann settist niður við vatnsbrunninn skammt frá og horfði á iðandi mannfjöldann. Mitt í fjöldanum sá hann þá kunnuglega sjón.  Maður kom gangandi í áttina að honum, leiðandi asna og á asnanum sat kona sem hélt á reyfabarni. Jósef stóð upp og beið þar til þau voru komin alveg upp að honum. Jú ekki var um að villast, þetta voru þau. Brosandi gekk hann að konunni sem nú hafði greinilega komið auga á hann líka. Jósef rétti henni brauðhleifinn sinn þegjandi án þess þó að vita hversvegna. Konan tók brauðhleifinn og kinkaði til hans kolli. Og eins og fyrir tilviljun snéri hún barninu í fangi sér þannig að Jósef horfði nú beint í andlit þess. Um leið opnaði barnið augun og  geislandi bros þess leið Jósef aldrei úr minni.


Gervi-framtíð

Árið 2005 var haldin mikil sögusýning í Ameríska náttúrugripasafninu þar sem afrek Charles Darwins voru tíunduð og gerð góð skil. Dagbækur og áhöld Darwins voru þarna til sýnis en merkilegastur sýningargripa þótti skjaldbaka ein, sem höfð var í búri við útganginn á sýningunni.

galapagos-tortoiseSkjaldbakan  hafði verið flutt frá Galapagos eyjum sérstaklega fyrir sýninguna og það sem merkilegt þótti við hana var að hún var svo gömul að hún var nýfædd þegar að Darwin var á eyjunum við rannsóknir sínar.

Fjölmörg skólabörn sóttu sýninguna og af öllum sýningargripunum þótti þeim mest koma til skjaldbökunnar.

Í ljós kom að flest þeirra ályktuðu að skjaldbakan væri ekki ekta skjaldbaka heldur róbót. Skjaldbakan hreyfði sig lítið og þegar þeim var sagt að skjaldbakan væri raunverulega ekta eldgömul skjaldbaka, lýstu þau yfir furðu sinni. Hvers vegna að flytja gamla skjaldböku alla þessa leið til að loka hana inn í búri þar sem hún hreyfði sig lítið sem ekkert, þegar að líkan eða róbót hefði dugað jafn vel eða betur?

Aðalatriðið í sambandi við skjaldbökuna virtist gjörsamlega fara fram hjá þeim, eða að skjaldbakan hafði verið á lífi á sömu slóðum og Darwin gerði frumrannsóknir sínar sem leiddu til þess að ein mikilvægasta vísindalega kenning allra tíma, var sett fram.  

Það sem hreifir við mér í þessu sambandi er að það eru greinilega að alast upp kynslóðir víða í heiminum þar sem ekki skiptir máli hvort hlutirnir eru ekta eða gervi, svo fremi sem þeir komi að sama gagni. Hvers virði er að eitthvað sé lifandi ef eitthvað dautt  getur þjónað sama tilgangi?  

paro-robotic-healing-seal-1Þetta leiðir hugann að því hvernig í auknum mæli farið er að nota róbóta til að vera gæludýr fyrir gamalmenni og börn. Frægastur þessara róbóta er eflaust Paro, einskonar stóreygður selur sem bregst við augnahreyfingum eiganda síns og hvernig hann strýkur á vélselnum feldinn. Augnaráð vélselsins getur verið angurvært, samúðarfullt eða fullt óvissu. Um hann getur farið hrollur eða velsældar hrísl.  Náið samband við róbótana myndast auðveldlega og bæði börn og gamalmenni nota orðið ást yfir tilfinningar sínar gagnvart róbótunum.

Spurningin er hvað sú ást er sem byggist á einhliða tilfinningalífi og endurspeglun þess í vélrænum hlut.

simoneÍ kvikmyndinni Simone þar sem Al Pacino leikur kvikmyndastjóra sem er gefið forrit sem býr til svo eðlilega sýndarveruleika-persónur að ekki er hægt að sjá muninn á þeim og alvöru leikurum, er spunnið út frá sýndarveruleika-þemanu á all-sannfærandi hátt. Í myndinni tekst Al jafnvel að plata þúsundir sem koma til að sjá leikkonuna sem hann skapaði halda tónleika, þannig að allir halda að hún sé raunveruleg manneskja af holdi og blóði. Til þess beitir Al þrívíddatækni líkt og notuð er í Star Wars og fleiri kvikmyndummyndum við fjarskipti, sem reyndar er komin á það stig að það sem var vísindaskáldskapur í kvikmyndinni er orðið raunverulegt í dag. 

Betales VirtualMeð þessari tækni munu ýmsir draumar rætast sem áður voru óhugsanlegir. Það væri t.d. hægt að efna til hljómleika með Bítlunum þar sem þeir spiluðu sem þrívíddarpersónur. Mundi það breyta nokkru fyrir alla þá sem áttu þann draum heitastan að sjá þá spila saman einu sinni enn, og svo aftur og aftur og ....? 


Ævintýrasápan Blákló

KongurinnEinu sinni í landi þar sem sólin aldrei sest á sumrum og sést aldrei á vetrum, bjuggu kóngur og drottning í ríki sínu. Landið var samt fagurt og frítt og nefnt Bláland. Konungurinn sem nefndur var Víðir hafði  í fyrstu þótt vitur og áræðinn stjórnandi. Hann sagðist setja frelsi þegna sinna í fyrirrúm og afnam þess vegna mörg þeirra laga sem ríkt höfðu í landinu fyrir hans daga. Varð hann af þessum ástæðum vinsæll nokkuð meðal alþýðunnar en þó meir meðal lénsherra hans sem notuðu rýmri löggjöf konungs hvað þeir gátu til að fylla fjárhirslur sínar af gulli.

Illi ugiSnemma á valdatíma sínum varð konungur samt fyrir því óláni að þiggja ráð af voldugum erlendum galdramanni sem sagðist geta kennt honum að búa til gull. Kvaðst galdramaðurinn vera fús til þess að skilja eftir lærling sinn hjá konungi, ef hann fengi í staðinn afnot af helli einum í suðurhluta landsins, þegar hann þyrfti á að halda. Konungur gekk að þessu en Þegar hann tók í hönd galdramannsins til að handsala samningnum, visnaði á honum hægri höndin og blánaði síðan upp. Bláminn gekk aldrei til baka og fékk konungur af því viðurnefnið Blákló og var aldrei kallaður annað eftir það .

Lærlingur galdramannsins tók sér bólfestu í höll konungs þar sem hann dandalaðist um á stuttum buxum og hló að öllu sem konungur sagði. Mærði hann konung á alla lund við hvert tækifæri og átti yfirleitt greiðan aðgang að eyra hans.

gold-coins-imagesÍ miðju ríkinu var tjörn ein full af gullfiskum. Þeir sem bjuggu löndin næst tjörninni höfðu um aldir haft rétt til að fanga fiskinn og selja til útlanda þar sem eftirspurnin var all-nokkur. Konungur hafði af þessu miklar tekjur þar sem skattur var greiddur af hverjum fiski sem veiddur var og seldur. Samkvæmt lögum landsins átti konungur þó tjörnina og allan fiskinn í henni.

Fljótlega eftir komuna til hallarinnar kom lærlingurinn að tali við konung og spurði hvort hann vildi ekki læra að búa til Gullkvörn. Konungi leist vel á það. Lærlingurinn benti honum þá á að hægt væri að koma því þannig fyrir með einni tilskipun að allir sem veiddu úr tjörninni góðu, gætu veðsett óveidda gullfiska og aukið þannig verðmæti þess sem í tjörninni synti og fengið borgað fyrir fiskinn löngu áður en hann væri veiddur. Það mundi stórauka skatttekjur strax og gera gullfiskatjörnina að einskonar gullkvörn þar sem engin gæti sagt fyrir hvað væri í raun óveitt úr henni. Konungi fannst þetta heillaráð og gaf út tilskipun tafarlaust þess efnis að nú væri heimilt fyrir veiðimenn og óðalsbændur að veðsetja allan óveiddan fisk. Í hvert sinn sem óveiddi aflinn var veðsettur í botn, lýsti konungur því yfir að meiri fiskur væri í tjörninni sem síðan var umsvifalaust veðsettur.

BláklóÍ kjölfarið á þessu braski brast á mikil velsæld í landinu og eftir höfðinu dansa limirnir. Allir sem eitthvað áttu veðsettu eigur sínar og keyptu fyrir það aðrar eignir sem þeir síðan veðsettu aftur. Þeir lýstu því yfir að í fyrirtækjum og eignum væri mikil falin eign sem hægt var síðan að veðsetja. Hirslur konungs tútnuðu út af skattagulli sem hann vissi ekki einu sinni að væri til í landinu. Konungur var svo ánægður með ráð lærlingsins að hann gerði hann að skólastjóra í stærsta skóla landsins þar sem hann átti að kenna öllum að mala gull.

Drottning Bláklóar hét Remba og átti ættir sínar að rekja til óðalsbænda á landinu sem margir hverjir bjuggu við tjörnina góðu. Sumir þeirra höfðu því efnast vel á tilskipunum konungs. Sá hængur var á hjónabandi þeirra Rembu að hún hafði þá náttúru að skreppa saman og verða smávaxnari eftir því sem á sambúð þeirra leið. Konungur sem hafði verið stoltur af bústinni og rjóðri brúður sinni, þótti þetta skiljanlega nokkur hneisa, en bar samt skömm sína í hljóði. Voru samfarir þeirra hjóna, þrátt fyrir þetta, eftir föngum góðar.  Saman eignuðust  Blákló og Remba einn son sem þau nefndu Atgeir. Þegar fram liðu stundir og Atgeir kominn til manns bauðst konungur til að gefa Atgeiri eftir völd sín og konungsdæmi allt, um leið og hann fyndi sér heppilegt kvonfang.

fílabeinsturninnÞannig hagaði til í höllu konungs að upp úr miðjum hallargarðinum reis turn mikill úr hvítu fílabeini. Turninn var afar hár og trónaði hátt yfir höllina og efst úr honum mátti sjá yfir megnið af lendum konungs. Konungur lét lærðustu menn ríkisins hafast við í turninum og á hverjum morgni fundaði hann með þeim og lét þá segja sér hvað þeir höfðu séð frá turninum daginn áður.

Dag einn bárust konungi þær fréttir úr nærliggjandi konungsdæmi að drottningin sem ríkti yfir því hefði eftir langa einveru, ákveðið að taka sér eiginmann. Kallaði konungur þá á son sinn Atgeir og sagði að ef honum tækist á ná ástum þessarar drottningar mundi hann þegar í stað gefa honum ríki sitt. Sjálfur mundi hann setjast að í fílbeinsturninum og gerast einn af ráðgjöfunum hans. Sagðist Blákló  jafnframt ætla að skilja við Rembu drottningu sína, því hún væri hvort eð er orðin gagnslaus til alls vegna smæðar sinnar.  Atgeir sem leist afar vel á þessa ráðagerð lét söðla hest sinn og hélt tafarlaust á fund drottningar til að biðja hennar. Segir ekki af ferðum hans fyrr en hann snéri aftur til ríkis föður síns nú í fríðu föruneyti tilvonandi drottningar sinnar. Með hinni nýju drottningu komu til hirðarinnar margir smásveinar og guttar sem ætlað var það hlutverk að hafa ofan af fyrir þeim hjónum með leikjum og skemmtan.

Nokkrum dögum síðar fór brúðkaup þerra fram með mikilli viðhöfn og gekk nú allt eftir sem Blákló hafði ráðgert. Hann lét Atgeiri eftir konungríkið, skildi við Rembu drottningu sem nú var orðin svo lítil að hún sást varla. Henni var vísað úr höllinni svo hún átti þann kost einan að fara á vergang. Sjálfur settist Blákló að í fílabeinsturninum og sá svo um að fátt gerðist í Blálandi án þess að hann kæmi þar ekki að með einhverjum hætti.

Í nokkur ár virtist allt leika í lyndi í konungsríki Atgeirs og drottningar hans. Viðskipti blómstruðu og þeir sem voru ríkir urðu ríkari. Lénsherrarnir og óðalsbændurnir sem léku nú lausum hala færðu sig smá saman upp á skaftið og tóku að láni allt sem hægt var að fá lánað af gulli í landinu gegn loforði um himinháa vexti. Þeim tókst jafnvel að fá almenning í nærliggjandi löndum til að lána sér gull á sömu forsendum. Upp í fílbeinsturninum fylgdist gamli kóngurinn Blákló með öllu og brosti í kampinn. Atgeir og drottningin hans böðuðu sig í velgengninni og lærlingurinn skrifaði lærðar greinar um gullgerðarlist í skólanum.

art_CreditCrunch9En þá gerðist sá leiðinda-atburður að skyndilega varð allsherjar þurrð á lánsfé. Fregnir bárust af því að einn af göldrum galdramannsins volduga sem gamli kóngurinn Blákló hafði á sínum tíma átt viðskipti við, hafði farið úrskeiðis með hræðilegum afleiðingum og að allt hagkerfi heimsins rambaði á heljarþröm af þeim sökum. Allir sem áttu gull inni hjá braskþegnum Blálands vildu fá það aftur refjalaust og einhverra hluta vegna var ekki til neitt gull í landinu. Illar tungur hermdu að því hefði verið komið fyrir í fjárhirslum fjarlægra landa af þeim lénsherrunum og óðalsbændunum sem viðskiptunum stjórnuðu. Þegar að Blákló varð ljóst hvernig komið var, hljóp hann út á svalirnar efst á turninum og hrópaði út yfir borg og bý; Blálendingar munu aldrei borga! Þegar að konungar nágrannaþjóðanna heyrðu af þessum orðum gamla kóngsins héldu þeir að hann væri orðinn ær og létu þeir greipar sópa um allar eignir Blálendinga hvar sem í þær náðist í sínum löndum.

Atgeir sem hafði látið sig dreyma um mikla upphefð meðal þjóðarinnar og jafnvel annarra þjóða, bað föður sinn Blákló að hafa samband hið snarasta við galdramanninn volduga og biðja hann ásjár. Galdramaðurinn sagðist ekki geta hjálpað og bað Blákló að skila því til Atgeirs að hann þyrfti ekki lengur á hellinum í suðurhluta Blálands að halda og hann hefði hvort eð er aldrei haft neina þörf fyrir hann.

Atgeir lét nú boð út ganga að hann mundi þiggja hjálp hvaðan sem hún kæmi en enginn varð til að svara bónum hans nema fáeinir fjarskyldir ættingjar sem enn áttu smávegis af gulli af því að þeir bjuggu einangraðir úti á smáeyju undan ströndum Blálands.

Þegar að alvara málsins varð lýðum ljós á Blálandi hóf hann að safnast saman í hallargarðinum til að mótmæla ástandinu. Sumir voru jafnvel svo djarfir að þeir heimtuðu að Blákló færi úr turninum því hann hefði átt að sjá þetta allt fyrir. Blákló lýsti því yfir á móti að hann hefði oft minnst á það við Atgeir son sinn að ýmiss teikn væru á lofti um að ástandið í landinu væri ótryggt.

Loks þegar fokið virtist í flest skjól fyrir Atgeiri og Blálendingum greip Atgeir til örþrifaráða. Hann bað Blákló að hafa samband við Þurs einn sem bjó í miklu bergi vestan við landið og sagt var að ekki vissi aura sinna tal. Það væri nú eitt til ráðs að biðja þursinn um lán til að greiða þeim konungum sem nú hreinlega hótuðu styrjöld ef landið borgaði ekki skuldir sínar.

Blákló fór tregur á fund þursins sem lét líklega og sagðist mundi gjarnan vilja hjálpa. Í staðinn fyrir aðstoðina vildi hann fá allan arð sem gullfiskatjörnin góða mundi gefa af sér næstu hundrað árin.

Blákló sagði það illa gerlegt þar sem þjóðin hefði það eitt að lifa af sem tjörnin gæfi af sér. "Ég skal líka lána ykkur fyrir því" sagði þursinn "og það vil ég fá borgað með arðinum að lindinni í þar næstu 100 ár." Þetta þóttu Blákló ofurkostir en þar sem hann var orðinn gamall og vissi að hann sjálfur mundi aldrei þurfa líða skort, samþykkti hann lántökuna. 

Þegar hér er komið í sögu, gekk mikil hátíð í garð á Blálandi og líkt og siður er á þeirri árlegu hátíð tóku flestir sér orlof frá amstri öllu. Mótmælendurnir hurfu úr hallargarðinum, ráðgjafarnir lögðust undir sæng til að hugsa málið og Atgeir ásamt föður sínum og drottningu ákváðu að gefa út yfirlýsingu um að það ætti að reka nokkra af skósveinum drottningar vegna þess hve illa þeir stóðu sig í þrengingunum.

Framhald á næsta ári.

Köttur út í mýri

setti upp á sig stýri

úti er ævintýri.

 

 

 

 


Skókast í Írak

arabic2bMeðal Araba er skókast tákn um mikla vanvirðu. Á sínum tíma þegar að styttan af Saddam Hussein var rifinn af stalli árið 2003 í Bagdad, sýndu Írakar vanvirðingu sína og vanþóknun með því að kasta skónum sínum í fallna styttuna.

Skókast er forn leið til að sýna vanþóknun sína í mið-austurlöndum og kann að eiga rætur sínar að rekja til Gamla testamentisins þar sem segir frá óvinum Júda í Sálmunum 60:10 ; Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

Skórinn er auðvitað tákn fyrir lægst setta hluta líkamans (fætur) og þegar skó er kastað að einhverjum á arabískum menningarsvæðum táknar táknar það að sá sem að er kastað sé auvirðilegur. Á þeim svæðum er einnig mikil vanvirða að sýna sólana á skó sínum, eins og með því að setja fæturna upp á borð.

bush shoeÍ dag var skó kastað að George W. Bush forseta bandaríkjanna þar sem hann var á blaðamannafundi ásamt forsætisráðherra Íraks. Bush sýndi hversu liðugur hann er við að bregða sér undan skeytum og skórnir sem hann sagði að hefðu verið númer 10 snertu hann ekki.

Í afgreiðslugólfinu á  Aal-Rashid Hótelinu í Badgdad hefur verið lögð stór mósaík andlitsmynd af George Bush og þar neyðast allir gestir til að ganga á ásjónu hans. Þetta var auðvitað gert í háðungarskini við forsetann.


Fjögur spakmæli

Í hvert sinn sem ég heyri spakmæli af einhverju tagi, velti ég því fyrir mér í hvaða samhengi það var fyrst sagt og hvernig það varð síðan fleygt. Það fylgir nefnilega ekki alltaf sögunni en getur jafnvel breytt merkingunni algjörlega. Í enskri tungu eru flest spakmæli eftir rithöfunda og fer William Shakespeare þar fremstur í flokki.

Sum spakmæla hans og orðatiltæki eru orðin svo rótgróin tungunni að margir gera sér ekki grein fyrir að um "spakmæli" er að ræða þegar þeir nota það.  Mark Twain er líklega fremsti spakmælahöfundur Bandaríkjanna en spakmæli hans eru nánast auðþekkjanleg á húmornum. Eins er um breska rithöfundinn Oscar Wilde sem skipar annað sæti spakmælahöfunda af bresku bergi. 

Hér að neðan eru fjögur spakmæli og lesendur geta spreytt sig á, ef þeir vilja, að giska á hverjir séu höfundar þeirra;

"Hugsunin verður að orðum. Orðin verða að verkum. Verkin verða að vana. Vanin mótar manngerð þína. Gættu því vel að hugsun þinni. Láttu hana spretta af ást sem er fædd af umhyggju fyrir öllum verum." 

"Hvert okkar er einvængja engill. Við getum ekki flogið án þess að umfaðma einhvern."

"Ást fær ekki jörðina til að ferðast um geiminn. Ást er það sem gerir ferðlagið þess virði að fara í það." 

"Ástin líkt og fljótið mun finna sér nýjan farveg í hvert sinn sem hún mætir fyrirstöðu."


Gagnrýni óskast

Fyrir sex mánuðum heyrði ég Tom Corneill syngja og spila í fyrsta sinn. Hann var meðal sex annarra flytjenda á einskonar popp/þjóðalaga-kvöldi sem ég lét tilleiðast að sækja. Á meðal þeirra laga sem hann flutti var lagið "I go to pieces" sem hann hafði þá nýlokið við að semja og er mjög persónulegt en Tom er ungur upprennandi listamaður hér í Bath.  Eftir að hann hafði lokið spilamennskunni þetta kvöld, gaf ég mig á tal við hann og þannig hófst samvinna okkar.

Hér að neðan er myndbandið af I go to pieces sem verður formlega flutt í fyrsta sinn á Laugardag Í Chapel Art Centre hér í Bath ásamt lögunum af hljómdisk með sama nafni. Mig langar með birtingu og frumflutningi þessa lags og myndbands hér að kanna aðeins viðbrögðin hjá ykkur lesendur góðir og biðja ykkur gera mér og Tom þann greiða að vera ósparir á gagnrýni eða lof á myndbandið, lagið og flutninginn, þ.e. að segja nákvæmlega það sem ykkur finnst. Með fyrirfram þökkum.

 


Hvít Jól

Oft hafa verið gerðar kannanir á hvaða jólalag heimsbyggðinni hugnast best og oftar en ekki hefur lagið "White Christmas" (Hvít Jól) vermt efsta sætið. Það er því ekki að furða að höfundur þess Irving Berlin hafi verið upp með sér eftir að hafa lokið við samningu lagsins þar sem hann sat við sundlaugina í  Arizona Biltmore Resort and Spa í Phoenix, Arizona árið 1940.

Sagan segir að daginn eftir hafi hann komið askvaðandi inn á skrifstofu sína mjög uppveðraður og hrópað á ritarann sinn; "Gríptu pennann þinn og taktu niður þetta lag. Ég hef lokið við að semja besta lag sem ég hef nokkru sinni samið - svei mér þá, ég hef samið besta lag sem nokkru sinni hefur verið samið".

Í fyrstu útgáfunni af texta lagsins gerði Berlin grín að gervijólatrjám og íburði Los Angeles búa við jólahaldið en breytti svo textanum síðar en hann hljómar svona:

I'm dreaming of a white Christmas
Just like the ones I used to know
Where the treetops glisten and children listen
To hear sleighbells in the snow

I'm dreaming of a white Christmas
With every Christmas card I write
May your days be merry and bright
And may all your Christmases be white

May your days be merry and bright
And may all your Christmases be white

 

"Hvít Jól" var fyrst sungið af Bing Crosby árið 1942 í söngva-kvikmyndinni "Hollyday Inn."  Reyndar syngur hann dúett með leikkonunni Marjorie Reynolds en rödd Marjorie var skipt út fyrir rödd söngkonunnar Mörthu Mears.

Sú útgáfa sem vinsælust er af laginu í flutningi Bings er samt ekki úr kvikmyndinni eða sú sem hann tók upp árið 1942. Sú upptaka skemmdist af mikilli notkun og árið 1947 var Bing kvaddur Til Decca hljóðritunarinnar og látinn syngja lagið upp á nýtt með upphaflegu bakröddunum og sömu hljómsveit og áður þ.e. Trotter Orchestra and the Darby Singers.

Sjálfur var Crosby ekkert skerstaklega ánægður með útkomuna og fór háðslegum orðum um hana; "a jackdaw with a cleft palate could have sung it successfully."

Árið 1954 var lagið valið sem titillag kvikmyndarinnar "White Christmas" með Bing Crosby, Danny Kaye, Rosemary Clooney og Veru-Ellen. Þrátt fyrir að svipa mjög til fyrri myndarinnar "Holliday Inn" varð hún mun vinsælli og er í dag sýnd á flestum sjónvarpsstöðvum á Jólum.

Hljómplata Crosbys "White Christmas" er talin mest selda plata allra tíma en lagið hefur að auki verð gefið út á fjölda annarra hljómplata og gert skil af ókunnum fjölda listamanna.

 


 


Jólasaga fyrir unglinga

Það var fátt meira gaman þegar ég var ungur drengur en að halda jól með fjölskyldunni minni. Spenningurinn var stundum yfirþyrmandi. Jólafötin, jólaskórnir, jólamaturinn, jólatréð og bara allt var frábært.  En svo gerðist það, ég er ekki alveg viss hvenær eða hvernig, en að jólin hættu að vera....ja,  það sem þau höfðu verið. Ekkert virtist passa lengur, jólasálmarnir voru leiðinlegir, jólamessan óþolandi, Jólamaturinn svo "same old" og gjafirnar ekki nógu dýrar, allir eitthvað svo stressaðir og, og .....ég var orðin unglingur. Allt virtist vera miðað við yngstu krakkana (ég á 7 yngri systkini), ekkert fyrir unglinginn. Uhu.

Ég settist niður og reyndi að skrifa sögu fyrir unglinga. Hún var í þróun í nokkur ár og fékk sitt endanlega form einhvern tíman um 1990. Þegar ég las hana aftur um daginn þótti mér hún bera þess merki að vera samin á þremur áratugum. Hér er hún og hún heitir þrátt fyrir allt afar þjóðlegu nafni, eða;

Kerti og Spil

 

Það var aðfangadagur jóla. Húsið nötraði af urri frá ryksugu og hrærivéla-mótorum í bland við jólasálmana í útvarpinu. Þeir félagarnir Benni og Einsi sátu inni í herbergi Benna og hámuðu í sig Mackintosh og reyktu. Benni hafði stolið stórri dollu af þessu gómsæta gúmmulaði, frá mömmu sinni, fyrr um morguninn, úr skápnum í þvottahúsinu sem var úttroðinn af allskyns niðursuðudósum og sælgæti sem faðir hans hafði komið með heim úr síðustu siglingu. Samkvæmt mömmu Benna átti allt sem í skápnum var að borðast á jólunum. Alla vega var það viðkvæðið, þegar Benni bað um
eitthvað úr skápnum. Jæja jólin voru hvort eð er svo til komin, hugsaði Benni um leið og hann stakk dolluni inn á sig og laumaðist með hana inn í herbergið. Skömmu síðar birtist svo Einsi. Heima hjá honum var allt á öðrum endanum, og ástandið öllu verra en venjulega því allir gríslingarnir, bræður hans og systur voru inni og létu eins og sérþjálfaðir terroristar um alla íbúðina á meðan mamma hans reyndi án árangurs að hirða upp eftir þau draslið. Einsi var því dauðfeginn að komast yfir til Benna, sem átti sitt eigið herbergi þar sem þeir gátu reykt í friði og spjallað saman. Einsi og Benni voru vinir, og höfðu lagt lag sitt saman frá því að þeir mundu eftir sér. Fyrstu árin áttu þeir heima í sömu blokk, en svo fluttu foreldrar Benna í einbýlishús og nú þegar þeir voru komnir vel á fimmtánda ár duldist hvorugum hversu mikill munur var í raun og veru á högum þeirra, þó þeir mættu ekki hvor af öðrum sjá í öllum frístundum. Ef þeir hefðu verið að hittast núna í fyrsta sinn hefðu þeir áreiðanlega ekki orðið eins góðir vinir og raunin var á. Á meðan að foreldrar Einsa bjuggu enn við ómegð og fátækt í lítilli blokkaríbúð, höfðu foreldrar Benna efnast. Þau höfðu efni á því að senda einkason sinn í einkaskóla samtímis því að Einsi gekk í sinn hverfisskóla. Benni fékk úthlutað vasapeninga vikulega, Einsi átti aldrei aur. Samt var smekkur þeirra í klæðaburði og tónlist áþekkur, því báðir voru þeir eins pönkaðir og þeir þorðu að vera án þess að eiga það á hættu að gert væri að þeim gys. Þeir hlustuðu báðir aðeins á þungarokk og gáfu skít í allt sem hét hipphopp, house eða rapp. Reyndar var það stórfurðulegt, þegar tillit er tekið til þess hve ákaft þeir reyndu að árétta sjálfstæði sitt með klæðaburði sínum og töktum, hversu ákaflega líkir þeir voru öðrum unglingum á sama reki.

En þarna sátu þeir sem sagt, með gúlana fulla af gotti og reyktu úr Camel pakkanum hans Einars. Þrátt fyrir öll blankheitin, æxluðust mál einhvernvegin alltaf á þann veg að það var Einsi sem alltaf átti fyrir sígarettum. Báðir voru þeir orðnir of gamlir, eða of cool, til að sýna óþreyju eftir að jólahátíðin gengi í garð. Báðir búnir að tapa hinni barnslegu eftirvæntingu, sem bundin er við góðan mat , falleg ný föt,og
fjölmarga litskrúðuga pakka sem komið er fyrir undir upplýstu jólatré. "Veistu hvað þú færð frá þeim gömlu?" spurði Einsi um leið og hann lokaði Sippónum og reyndi um leið að gera hringi. "Blessaður, það verður eitthvað ferlega ömurlegt eins og venjulega. Einhver helvítis jogginggalli eða eitthvað álíka hálfvitalegt" svaraði Benni. "Ég þoli ekki mjúka pakka" sagði Einsi. "Á öllum jólum sem ég man, hef ég ekki fengið annað en ógeðslega mjúka pakka, nema þegar ég fékk smokka-pakkann frá þér í fyrra."
"Þeir hafa nú kannski orðið mjúkir á endanum" svaraði Benni og glotti. Einsi fattaði ekki brandarann strax, en svo fór hann allt í einu að hlægja, þessum einkennilega hlátri sem mútur á byrjunarstigi valda, hann hljómar eins og verið sé að starta Skóda í fimmtán stiga gaddi. Þeir héldu áfram að masa um ömurlegar jólagjafir sem þeir höfðu fengið í gegnum árin og gerðu að þeim óspart grín. Tíminn leið, Mackintosh dósin tæmdist og sígarettu reykurinn varð þéttari í herberginu. Klukkan var farin að ganga sex þegar allt í einu var bankað á herbergishurðina og hún síðan opnuð. Í gættinni birtist andlit móður Benna . "Benni minn, ætlarðu ekki að fara að klæða þig fyrir matinn? Þarf Einar ekki að fara að tygja
sig heim? Voðaleg reykingafýla er þetta. Opnið nú glugga strákar." Svo steig hún inn í herbergið og byrjaði að bjástra við að opna gluggann sjálf. Einsi greip leðurjakkann sinn og stóð á fætur. "Ég sé þig á morgun, hringdu í mig í kvöld og segðu mér hvað þú fékkst." Svo drap hann í sígarettunni, krumpaði tóman pakkann og henti honum í barmafullan öskubakkann. Aldrei þessu vant, fylgdi Benni vini sínum nú til dyra, og horfði um stund á eftir honum út í létta snjódrífuna. Helvíti, hugsaði hann með sér, ég gleymdi að kaupa handa honum jólagjöf, jæja ég geri það bara seinna. Aðfangadagskvöld gekk í garð á heimili Benna með kalkúnilm og grenilykt um allt húsið, jólamessu á sjónvarpsskerminum , uppljómaða stofu og veglega skreytt jólatré í henni miðri, sem samt varla sást í fyrir pakkahrúgu sem bókstaflega flaut út um allt stofugólfið. Þegar búið var að troða því næst ósnertum kalkúninum inn í ísskáp ásamt
megninu af fjölbreyttu beðlæti. og setja óhreina diska og föt í uppþvottavélina, réðust Benni og foreldrar hans á pakkahrúguna. Þau rifu upp pakkana einn af öðrum og stöfluðu innihaldi þeirra við hlið sér. Móðirin hafði orð á því að þau þyrftu að hraða sér, því von væri á foreldrum hennar í stutta heimsókn ásamt honum Þórði móðurbróður hennar, sem dúkkað hafði skyndilega upp á heimili gömlu hjónanna og gert sig líklegan til að dveljast hjá þeim um jólin. Benni hafði aldrei hitt þennan Þórð,
aðeins heyrt af honum einhverjar furðu sögur sagðar í hvíslingum. Benni velti því fyrir sér hversvegna fólk talaði alltaf í hvíslingum þegar það ræddi um fólk sem var veikt eða skrítið. "Hann er svo undarlegur í háttum hann Þórður" heyrði Benni móður sína eitt sinn hvísla," að ég held að engin kona hafi þýðst hann".
 
Benni var í óða önn að flytja góssið sem hann fékk í jólagjöf úr stofunni inn í herbergið sitt, þegar að dyrabjallan glumdi. Benni fór til dyra en varð svo að hörfa aftur inn í forstofuna því gangurinn fyllist af jólapökkum sem móðir hans og faðir hófu strax að ferja inn í stofuna. "Gleðileg jól öll," söng amma hans og svo tóku við faðmlög og varalitur á báðar kinnar. Aðeins Þórður stóð í fordyrinu, án þess að segja orð og beið eftir því að sér yrði boðið inn. Hann var teinréttur örugglega tveggja metra hár, með brúnan flókahatt á höfði og í síðum brúnum frakka. Benni kinkaði til hans kolli og forðaði sér svo aftur inn í stofuna. Hann beið eftir að masandi fólkið kæmi á eftir honum en það gerðist ekki í bráð. Aðeins Þórður birtist í stofudyrunum. Benni gaut til hans augunum og velti því fyrir sér hvort maðurinn væri vangefinn eða bara undarlegur. Þórður sem hvorki hafði farið úr frakkanum eða skónum né tekið af sér hattinn. Hann stóð bara og starði um stund á Benna. Benni tók eftir því hvernig snjórinn á skóm Þórðar bráðnaði og lak ofan í þykkt ullarteppið á stofunni. "Hann er stórskrýtinn hugsaði Benni. "Þú munt vera Benedikt" sagði Þórður allt í einu. Benni hrökk næstum því í kút. Rödd Þórðar var svo rám og djúp að hún minnti Benna helst á röddina í Axel Rose þegar hann spilaði plöturnar hans hægt aftur á bak í leit að földum skilaboðum. "Já ég er Benni" svaraði hann svo. " Ég heiti Þórður Sumarliðason og er bróðir hennar ömmu þinnar, komdu sæll Benedikt" rumdi í kallinum um leið og hann steig inn í stofuna í átt að Benna með útrétta hendi. Benni sem ætlaði að fara að heilsa Þórði þrátt fyrir að honum væri brugðið, kippti að sér hendinni ósjálfrátt þegar hann sá hendi Þórðar. Hún var náhvít og þakin einhverju ókennilegu hreistri. Þórður tók auðvitað eftir viðbrögðum Benna, því hann dró að sér höndina og settist um leið niður á stól við hlið hans tók niður hattinn og sagði. "Fyrirgefðu, ég gleymi alltaf þessu árans exemi, en það er víst ekki smitandi". Benni horfði forviða á Þórð, því undan hattinum kom í ljós þykkt grátt og sítt hár sem bundið var í tagl í hnakkanum. "Þetta er sannarlega furðulegur fýr" hugsaði Benni en þorði ekki að segja neitt. Ómurinn frá samræðum ömmu hans og afa við foreldra hans barst nú fram af ganginum og að herbergi Benna. Ömmunni var víst nóg boðið við að sjá kjaftfullan öskubakkann á borðinu í herbergi hans, því hún kom nú ásamt hinum býsnandi inn í stofuna. Um leið og hún birtist stóð Þórður á fætur og sagði með dunandi hárri röddu sem fékk alla til að þagna. " Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil. Sú var nú tíðin að það þóttu ágætar gjafir. Nú þykja ekkert gjafir nema þær séu tugþúsunda virði, gerðar úr plasti og hægt sé að stinga þeim í samband. Aldrei hafa jólin verið eins vel upplýst og á heimilunum nú til dags og samt hefur aldrei fyrr ríkt á þeim jafn mikið myrkur og nú."Þegar Þórður þagnaði, settist hann aftur niður og horfði spekingslega út í loftið. Eldra fólkið starði á hann agndofa eins og það væri að bíða eftir einhverju meiru, en ekkert kom. Benni heyrði svo afa sinn pískra eitthvað um að nú væri sér nóg boðið og ömmu sína þagga niður í honum og hefja síðan aftur taut sitt um óhollustu reykinga.


Benni ákvað að hringja í Einsa og brá sér í símann. Ásta elsta systir Einsa svaraði.
Halló.
Hæ Ásta, er Einsi heima spurði Benni.
Í símanum varð vandræðaleg þögn.
Þetta er Benni, má ég tala við Einsa ítrekaði Benni.
Heyrðu Benni, veistu ekki hvað kom fyrir, veistu ekki að Einar er á spítala? svaraði Ásta.
Á spítala, hváði Benni vantrúaður. Hvað er hann að gera á spítala?
Hann lenti undir bíl á leiðinni frá þér. Læknarnir segja að hann sé með brotinn hrygg, þeir segja að.....
Hvaða helvítis lygi er þetta í þér Ásta, leyfðu mér að tala við Einsa eða þú skalt hafa verra af, nördið þitt, hrópaði Benni í síman.
Ég er að segja þér alveg satt, heyrði hann Ástu segja sem var nú byrjuð að vola. Mamma og pappi eru bæði á sjúkrahúsinu og ég er ein hérna heima
með krakkana. Ég skal biðja mömmu um að hringja í þig þegar þau koma heim.
Bless.
Benni lagði tólið á og horfði stjarfur fram fyrir sig. Án þess að segja orðvið masandi fólkið í stofunni fór hann inn í herbergið sitt, rótaði í öskubakkanum þar til hann fann stóran stubb sem hann kveikti síðan í. Hann tók ekki eftir Þórði sem hafði staðið upp úr stól sínum og komið á eftir honum. Í annarri hendinni hélt Þórður á litlum pakka sem vafin var inn í brúnan umbúðapappír. Þennan pakka lagði Þórður á borðið í herbergi Benna og sagði svo um leið og hann fór út.

Handa þér drengur minn, handa þér.
Benni horfði orðlaus á eftir Þórði og brátt heyrði hann ömmu sína og Afakveðja. Brátt voru þau á braut og Þórður með þeim. Nokkrum mínútum síðar kom mamma hans inn til hans.

Þú varst ekki mikið að kveðja afa þinn og ömmu, eða þakka þeim fyrir allar gjafirnar, lét hún móðinn mása. Svo rak hún augun í pakkan á skrifborðinu og spurði.

Hvaða pakki er þetta, ekki kom Þórður með þetta?
Benni leit upp og svaraði: Mamma, Einsi lenti í bílslysi í kvöld þegar hann fór frá okkur. Hann liggur á sjúkrahúsi. Ásta sagði að hann væri með brotinn hrygg.
Hvað segirðu barn, með brotinn hrygg. Þetta er hræðilegt, að lenda í bílslysi á sjálfum jólunum. Það á ekki af þessari fjölskyldu að ganga,
eitt eftir annað, hvílíkt ólán.

Meira heyrði Benni ekki af því sem móðir hans sagði, því síminn hringdi og hann þaut upp til að svara honum. Í símanum var móðir Einsa sem með mæðulegri röddu staðfesti allt sem Ásta hafði sagt honum, og upplýsti jafnframt að Einsi væri á gjörgæslu og berðist nú fyrir lífi sínu. Að símtalinu loknu fór Benni aftur inn til sín og læsti að sér. Hann lét nýja geisladiskinn á geislaspilarann sinn og lagðist upp í rúmið sitt. Einhvern tímann seint um nóttina sofnaði hann loksins og svaf langt fram á jóladag. Þegar hann vaknaði aftur var gjöfin frá Þórði gamla það fyrsta sem hann rak augun í. Hann reis upp við dogg og teygði sig eftir pakkanum og reif hann upp. Í ljós kom hvítur kertisstúfur og gamall og lúinn
spilastokkur. Hann brosti með sjálfum sér að þessum einföldu munum, en mundi svo eftir Einsa og hentist á fætur og í símann. Það var móðir Einsa sem svaraði.

Nei, ekkert nýtt að frétta, nema að myndataka staðfesti að hann væri mænuskaddaður og að hann lægi enn á gjörgæslu.

Benni lagði á og fór inn í eldhús til að fá sér Chereeos. Foreldrar hans voru ekki heima, líklega farin til kirkju. Hann kveikti á sjónvarpinu, en slökkti fljótt á því aftur. Honum datt í hug að hringja í einhverja félaga sína en kom sér ekki til þess. Loks ákvað hann að reyna að taka til í herberginu sínu og
koma einhverju af nýja dótinu sem hann hafði fengið í jólagjöf, fyrir. En honum varð ekkert úr verki, svo hann settist niður á gólfið, reif upp spilastokkinn sem hann hafði fengið frá Þórði og ætlaði að fara leggja þennan eina kapal sem hann kunni. Um leið og hann náði spila-stokknum úr, kom í ljós samanbrotið bréf. Hann fletti bréfinu í sundur og las. Hann las bréfið þrisvar yfir áður en hann áttaði sig á innihaldi þess, þó það væri ritað með skýrri skrift. Þegar hann loks skildi bréfið, lá við að
hann færi að skellihlæja. Hvílíkt bull. Þessi Þórður var sko alveg snargeggjaður ef hann hélt að einhver tæki þessa vitleysu alvarlega. Samt greip hann bréfið aftur sem hann hafði krumpað saman í vantrú, og las það í fjórða sinn.
Kæri Benedikt.
Ég veit að þér þykir eflaust lítið til gjafar minnar koma í samanburði við allar hinar sem ég er vissum að þú færð. Samt er hún í höndum þess sem með hana kann að fara ómetanlega verðmæt. Bæði kertið og spilin eru æfa forn og þeim fylgir undra náttúra sem ég kann ekki að skýra. Ég get aðeins sagt
þér hvernig hún virkar. Náttúra kertisins er sú að hver sem horfir í loga þess, læknast af öllum sjúkleika hversu alvarlegur sem hann kann að vera. Spilin eru þess eðlis að ef þú leggur þau í hring fyrir einhvern, eða með einhvern í huga, segja þau nákvæmlega til um æfi þess hins sama. Þeir
annmarkar eru á ofureðli beggja að þau er aðeins hægt að nota einu sinni á hálfrar aldar fresti. Um þessar mundir eru rúmlega fimmtíu ár síðan gripirnir voru notaðir síðast. Þá sá ég fyrir í spilunum framtíð mína og hver átti að fá þessa gripi næst og hvenær.

Vertu sæll Benedikt.
Þórður Sumarliðason.

Þrátt fyrir hversu fáránlegt innihald bréfsins virtist Benna, fann hann hjá sér ómótstæðilega löngun til að sannreyna það. Ef til vill voru það kringumstæðurnar. Var það algjör tilviljun að hann fékk þessa gjöf
nákvæmlega þegar hann þurfti svo sannarlega á henni að halda, ef að allt reyndist rétt sem karlinn hafði skrifað. Úr huga hans hvarf aldrei hugsunin um að á sjúkrahúsi lá besti vinur hans fyrir dauðanum. Svo hafði Þórður verið svo dularfullur. Hvað um það hugsaði Benni, það var svo
sem nógu auðvelt að sannreyna spilin. Hann hugsaði málið augnablik, tók svo ákvörðun og lagði spilin í stóran hring á gólfið. Hann var varla búinn að sleppa síðasta spilinu, þegar sitthvað fór að gerast og svo hratt að hann varð að hafa sig allan við til að geta fylgst með. Á einhvern
undursamlegan hátt lyftust spilin frá gólfinu og í hverju spili sá Benni svipmynd úr lífi Einsa. Hann sá hvernig móðir Einsa rembdist við að koma honum í heiminn, hvernig hann skreið um skítugt eldhúsgólfið í blokkinni heima hjá sér, hvernig hann át sand úr sandkössum dagheimilisins, skítugur
og með hor í nefinu. Hann fylgdist með hvernig Einsi stækkaði og hvar hann hljóp um göturnar klæddur í föt af systkinum sínum, stundum jafnvel af Ástu, og loks sá hann sjálfan sig kynnast Einsa í barnaskóla. Benna varð allt í einu ljóst hversu mikið Einsi þurfti að hafa fyrir hlutum sem honum
sjálfum þóttu auðveldir. Hann sá að Einsi byrjaði snemma að stela peningum, hvar sem hann gat, til þess að endrum og eins þóttst geta splæst, og hvernig hann smá saman sætti sig við að hafa minna úr að moða en flestir kunningjar hans, að ekki sé minnst á Benna sjálfan. Að lokum sá hann Einsa
hlaupa út frá sér kvöldið áður, of seinan til að taka strætó, of blankan til að taka leigubíl, of stoltan til að biðja um að sér yrði ekið. Hann sá Einsa hverfa undir grænan upphækkaðan Cheroky jeppa og hvernig sippóinn hans þeyttist inn í húsgarð hinumegin við götuna og hverfa þar í skafl.
Síðasta spilið sýndi aðeins gráa móðu. Svo féllu spilin niður á gólfið í eina hrúgu.
Benni sat á gólfinu og nötraði allur af geðshræringu. Hann var lengi að jafna sig, en varð á sama tíma ljóst hvað hann varð að gera. Eftir nokkra stund klæddi hann sig í flýti, stakk kertinu í vasann á leðurjakkanum og hraðaði sér út. Það var jóladagur og enga strætisvagna að fá. Benni hljóp við fót og
stefndi í átt að Borgarsjúkrahúsinu. Móður og másandi hratt hann upp hurðinni á bráðamóttökunni. Bak við öryggisglerjað afgreiðsluborð sat sloppklædd kona sem mændi á hann ósamúðarfullum augum. Benni reyndi að útskýra í fljótheitum að hann þyrfti nauðsynlega að hitta vin sinn sem lægi
fyrir dauðanum á gjörgæsludeild og hann ætlaði að hjálpa honum. Afgreiðslukonan blikkaði bara augunum og hristi höfuðið. Nei, það kom ekki til greina að hún hleypti honum inn þangað sem Benni lá. Jafnvel foreldrar drengsins sagði hún höfðu aðeins fengið að líta til hans augnablik
í fylgd með lækni. Benna varð fljótt ljóst að þessari kjellu yrði ekki haggað. Hann var í þann mund að yfirgefa móttökuna, þegar að maður í hvítum slopp birtist fyrir innan afgreiðsluborðið og sagði eitthvað við afgreiðslukonuna sem Benni heyrði ekki vegna öryggisglersins. Eitthvað í
fari mannsins fannst honum samt kunnuglegt. Hann sá afgreiðslustúlkuna kinka kolli til mannsins, og kalla síðan til hans. "Heyrðu þarna drengur, læknirinn segir að það sé óhætt að þú komir inn fyrir
í nokkrar mínútur." Svo þrýsti hún á hnapp sem staðsettur var úr sjónmáli og dyrnar að bráðadeildinni opnuðust. Benni var ekki lengi að skjótast inn fyrir þar sem hann bjóst við að hitta lækninn. En hann var hvergi sjáanlegur. Benni hafði tekið eftir því á töflu í anddyrinu að gjörgæslan var á annarri
hæð sjúkrahússins. Í stað þess að bíða eftir lækninum ákvað hann að halda þangað á eigin spýtur. Hann fann fljótt stiga sem lá upp á aðra hæð og síðan dyr sem á stóð Gjörgæsla. Benni flengdi upp dyrunum og skaust inn á gjörgæsluganginn, beint í flasið á holdugri hjúkrunarkonu sem riðaði við
og hefði eflaust dottið á afturendann ef Benni hefði ekki náð að grípa hana. "Hvað ert þú að vilja hér ungi maður," spurði hjúkkan og togaði niður sloppinn sem eitthvað hafði aflagast við áreksturinn. Benna kom ekkert til hugar sem hljómað gæti sennilega í eyrum hjúkkunnar svo hann lét reyna á
hálfan sannleikann. Hann fálmaði eftir kertisstúfnum og sýndi hjúkkunni og sagði. " Það eru jól, og vinur minn liggur hér fyrir dauðanum. Hann lenti í bílslysi í gær og ég verð að fá að hitta hann. Ég ætla að kveikja á þessu kerti fyrir hann og..." Konan brosti nú við Benna og sagði svo góðlátlega. Jæja góði, fylgdu mér þá og ég skal sýna þér hvar hann liggur. Konan gekk rösklega inn ganginn og Benni á eftir. Innan nokkurra sekúndna stóð Benni við rúm vinar síns, þar sem hann lá með lokuð augun og andaði óreglulega. "Kveiktu þá á kertinu vinur" sagði hjúkkan, og svo skulum við bara koma. Ég skal svo líta eftir því. " En hann verður að sjá logann svaraði Benni svolítið annars hugar en áttaði sig svo og bætti við. "Ég á við að mér finnst eins og hann viti af mér hérna en geti bara ekki opnað augun hjálparlaust. Getur þú ekki fengið hann til að opna þau, þó ekki væri nema augnablik" Hjúkkan virtist klökkna
við viðkvæmi Benna, því nú teygði hún sig yfir Einar og opnaði augnalok hans með þumlunum. Samtímis kveikti Benni á kertinu. Kertisloginn flökti og Benni tók eftir því hvernig hann speglaðist dauflega í sjáöldrum Einsa. "Jæja, þá er þessu lokið" sagði hjúkkan og gerði sig líklega til að fara.
Hún lagði höndina á öxl Benna eins og til að stýra honum út. "Má ég ekki sitja stundarkorn hérna einsamall við hlið hans" Konan kinkaði kolli, og fór út. Benni settist niður á stól sem stól við
hliðina á rúminu og hugsaði með sér. Þannig var þetta þá, aðeins spilin virkuðu, kertið var greinilega gagnlaust. En svo tók hann eftir því að Einsi hreyfði fæturna. Benni stóð upp og
leit framan í vin sinn. Einsi opnaði augun, leit á Benna og sagði: "Hvar er ég". Það tók Benna aðeins nokkur augnablik að útskýra í stórum dráttum fyrir Einsa hvað hafði gerst, á meðan Einsi starði á hann gapandi. Þegar Benni þagnaði, leit Einsi í kring um sig og spurði. "Hvar eru fötin mín. " Svo
stökk hann á fætur og fór að leita að þeim. Auðvitað voru engin föt í herberginu, svo þeir ákváðu að fara fram á gang. Fyrir þeim vakti fyrst og fremst að komast út, án þess að þurfa að útskýra hvað gerst hafði. Það var alltof ótrúlegt hvort sem var, og læknarnir mundu örugglega vilja halda
Einsa á sjúkrahúsinu öll jólin, bara til að rannsaka hvað gæti hafa gerst. Einar var bara klæddur í þunnan slopp sem opin var að aftan. Þeir komust klakklaust út af gjörgæsludeildinni og voru í þann mund að leggja af stað niður stigann, þegar stór brúnn frakki kom svífandi niður stigaopið. Benni
leit upp fyrir sig og sá hvar maðurinn í hvíta sloppnum sem hann hafði séð niðri í móttökunni nokkru fyrr, stóð fyrir ofan þá og brosti. Svo snéri hann sér við og Benni sá í hendingu að hann var með sítt grátt hár, bundið í tagl í hnakkanum.


Einsi var ekki seinn að koma sér í frakkann á hlaupunum. Áður en varði voru þeir komnir niður á fyrstu hæð og þeir stefndu beint á dyr sem merktar voru Neyðarútgangur. Þeir spyrntu hurðinni upp og hlupu út í snjóinn sem þyrlaðist upp undan fótum þeirra. "Hvert erum við að fara, ég drepst úr kulda á löppunum ef ég fæ ekki skó" hrópaði Einsi móður af hlaupunum. " Eigum við ekki bara að koma heim til mín," hrópaði Benni á móti," við getum spilað póker ef þú nennir, ég fékk þessi fínu spil í jólagjöf".

 


Hvar eru allar geimverurunar?

Steve_BikoMér þykir gaman að tala og hugsa um hugmyndir. Auðvitað er til fjöldi fólks sem getur sagt það sama, en samt verð ég alltaf uppveðraður þegar ég hitti persónur sem leggja sig meira eftir því að ræða eða jafnvel skrifa um hugmyndir frekar en atburði og fólk eins og þorri fólks gerir.

Ég er að sjálfsögðu meðvitaður um að ekki eru allar hugmyndir þess virði að hugarorku sé eytt á þær, einnig að margar hverjar eru ekki tímabærar þótt áhugaverðar séu. En það sem gerir hugmyndapælingarnar þess virði að leggjast í þær er að af og til rekstu á hugmyndir hvers tími er kominn. Og í orðum hins merka manns Stephen Bantu Biko frá Suðurafríku, sem lést í fangelsi á dögum aðskilnaðarstefnunnar þar í landi, er "Ekkert eins máttugt og hugmynd hvers tími er kominn."

Nú er ég ekki að halda því fram að neðanritað falli sérstaklega undir þann flokk hugmynda, en eitt er víst að margir ræða þetta sín á milli.

Enrico_Fermi_1943-49Sú hugmynd sem mig langar að tjá mig um að þessu sinni er stundum kölluð Fermi mótsögnin. Hún er kennd við Ítalann Enrico Fermi sem hlaut Nóbelverðlaunin fyrir 1938 fyrri störf sín í þágu eðlisfræðinnar og lagði m.a. mikið af mörkum til þróunar skammtafræðinnar.

Fermi sat ásamt vinum sínum, sumarið 1940 og ræddi við þá líkurnar á lífi á öðrum hnöttum í alheiminum. Út frá þeim staðreyndum að í Vetrarbrautinni einni eru 100 milljónir fastastjarna og að líf þróaðist tiltölulega snemma og stöðuglega hér á jörðinni, þótti þeim líklegt að viti bornar verur ættu að hafa þróast fyrir löngu á öðrum hnöttum og gætu hæglega hafa lagt undir sig nærliggjandi sólkerfi á nokkrum milljónum ára. Þeir ályktuðu sem svo að viti bornar lífverur ættu að vera frekar algengar í stjörnuþokunni. Fermi hlustaði þolinmóður á þessar pælingar og spurði svo; hvar eru þá allir?

Í fimmtíu ár hafa mennirnir skimað himnanna með öflugum sjónaukum og hlustunargræjum og ekki fundið nein staðfest ummerki um ójarðneskt vitsmunalíf. Hvers vegna?

alien_playing_poolÍ fljótu bragði mætti ætla að svörin við þessari spurningu geti verið mörg, en mér virðast aðeins þrír möguleikar koma til greina

Fyrsta tilgátan er; alheimurinn er svo gríðarlega stór að líkurnar á að við finnum merki um líf eru hverfandi jafnvel þótt við hlustum og skimum í mörg hundruð ár.

Þetta getur vissulega verið rétt, en þá er vitmunalíf ekki eins algengt og félagar Fermi vildu vera láta.

Önnur tilgáta er að vitmunaverurnar feli sig fyrir jarðarbúum, annað hvort af því að þeir vilja ekki hafa áhrif á "eðlilega framþróun" siðmenningar okkar eða að þeir álíta okkur svo vanþróaða og hættulega að það sé ekki þess virði að skipta sér af okkur.

Þesssi tilgáta gerir ráð fyrir slíkri ofurtækni að hún er næstum óhugsandi. Að fela útvarpsbylgjur og aðra geislun, ummerki sem gefa til kynna þróaða siðmenningu,  er nánast útilokað.

Þriðja tilgátan og jafnframt sú kaldhæðnislegasta er sótt í ákveðna túlkun á okkar eigin siðmenningu og er reyndar sú hugmynd sem varð kveikjan af þessum pistli. 

Skömmu fyrir aldamótin 1900 og allt fram eftir tuttugustu öldinni einkenndust uppfinningar mannkynsins af viðfangsefnum raunheima. Bílar, flugvélar, rafmagnsljós, ryksugur, ísskápar, brjóstahöld og rennilásar. En árið 2008 einkennast flestar uppfinningar af sýndarveruleika. Topp tíu eigendur nýrra einkaleyfa eru IBM, Matsuhita, Canon, Hewlett-Packard, Micron Tecnology, Samsung, Intel, Hitachi, Toshiba og Sony. - Ekki Boeing, Toyota eða Wonderbra.

1Hér á jörðinni eiga viðskipti sér ekki lengur stað í raunveruleikanum heldur í sýndarveruleika eins og íslendingar hafa orðið illþyrmilega varir við á síðustu mánuðum.

Þótt vísindin bjóði fólki upp á fleiri möguleika en áður til að viðhalda líkamlegu þreki og fegurð er eftirsóknin í sýndarheima útlits,  förðun, lýtaaðgerðir og fitusog,  meiri en í þrekhjólin.

Og svo er miklu auðveldara að tína sér í "Friends" í sjónvarpinu en að afla sér raunverulegra vina.

Getur verið að flestar framandi siðmenningar hafi farið sömu leið? Getur verið að þær taki sýndarheima fram yfir raunveruleikann og séu uppteknir við að spila úber-tölvuleiki þar sem þeir leggja undir sig alheiminn eins og við gerum með Star Wars.

Endanleg útkoma slíkrar siðmenningar er auðvitað að það er setið á sama stað og samt verið að ferðast.

Þessi tilgáta felur í sér þá niðurstöðu að allir vitsmunir leiði þróunarfræðilega á endanum til þess að fullnægja sér á sem auðveldastan hátt og að hermiheimar og sýndarveruleiki séu mun auðveldari viðfangs en raunveruleikinn.


Rúnar Júlíusson - Kveðja

Það þekktu allir Rúnar í Keflavík, ekki bara í sjón, heldur af viðkynnum. Hann var og verður í hugum landsmanna um einhverja ókomna tíð, holdgerfingur alls þess sem var og er Keflvískt. Hann talað Keflvísku, hafði Keflvíska útlitið, Keflvíska kúlið eins og það er kallað í dag eftir að "töffið" varð eitthvað súrt og hann hafði Keflvísku taktanna í tónlistinni. Er nokkur furða þótt hann hafi verið fúll þegar að nafninu á bæjarfélaginu var breytt í Reykjanesbær. Myndirnar tala.......og texti lagsins.


Hvernig Íslendingar refsa sjálfum sér eftir bankahrunið?

Ég veit eftir að hafa starfað að staðaldri í nokkur ár við ferðamennsku og jafnframt dvalist langdvölum erlendis að oft líta útlendingar landið og landann skrýtnum augum. Margt af því sem okkur finnst sjálfsagt og eðlilegt í fari okkar, lítt merkilegt eða eftirtektavert, finnst þeim undur og stórmerki. Við gefum gjarna lítið fyrir túlkun þeirra á íslenskri þjóðarsál, enda oft klisjukennd og grunn. En af og til ratast þeim satt orð á munn og gefa okkur innsýn í okkur sjálf sem við höfum einhverra hluta vegna ekki horfst í augu við af sjálfsdáðum.

 
Í viðtali við Íslending (Ísleif Friðriksson) í ríkisútvarpi Breta; BBC, kom fram á dögunum að Íslendingar sæktust meira í köld sjóböð eftir hrun íslenska bankakerfisins en áður.
Sannur ÍslendingurÍ myrkri og kulda mæta nú rúmlega 100 manns tvo daga í viku til að skella sér út í 3,5 gráðu sjóinn þar sem áður rétt um 30 manns vandi komur sínar fyrir hrunið. Gert er að því skóna í viðtalinu að þessi sérstaka grein norrænnar sjálfpíslaráráttu hafi aldrei verið vinsælli en nú. 

Sjálfur sagði Ísleifur að hann héldi að fólk væri orðið svo þreytt á jakkafataliðinu að það kæmi til sjóbaðanna til þess að geta umgengist hvert annað án þeirra. (Jakkafatanna)

Aðförum fólks við sjóböðin var svo lýst á eftirfararandi hátt; Þú kemur á baðfötunum einum á ísköldu dimmu kveldi, safnar hugrekki í nokkrar mínútur í grunnri heitri laug við bryggjuna, hleypur síðan um 100 metra að sjónum og stingur þér í hann öskrandi.

Fréttamaðurinn kom einnig við hjá Rauða kross Íslands þar sem viðmælandi hans segir honum að sú hugmynd að Ísland hafi talist fimmta auðugasta ríki veraldar sé nú brandari. 150 manns standi nú og bíði eftir að verða úthlutað brauði, kartöflum, smjöri og mjólk. Meðal þeirra séu einstæðar mæður sem nýlega hafa misst vinnuna og eftirlaunafólk sem missti allan sinn sparnað á einni nóttu við hrun bankanna.

"Ég get ekki ímyndað mér hvernig veturinn verður" er haft eftir 44 ára öryrkja hvers bætur hafa verið skornar niður við nögl. " Ég þekki fólk sem hafa fengið taugaáfall. Íslendingar eru mjög þreyttir á þessu ástandi."

Fréttamaðurinn lýsir einnig hvernig þrátt fyrir þetta, hafi gjörðir óhæfra stjórnenda og örfárra gráðugra bankastarfsmanna, ekki orðið til þess að æsa fólk til mikilla mótmæla eða borgaralegrar óhlýðni. 60% þjóðarinnar býr á Reykjavíkursvæðinu en aðeins 2% þeirra mæta á skipulögð mótmæli.

Íslenska stoltiðHins vegar sjáist annarsstaðar hvernig sprungurnar í samfélaginu eru smá saman að gliðna undir rólegu yfirborðinu. Lögreglan sér merki um aukið heimilisofbeldi og ofbeldi tengdu aukinni áfengsneyslu. Kvennaathvarfið segist sjá verulega aukningu meðal þeirra kvenna sem sækjast eftir viðtölum og ráðgjöf að sögn Sigþrúðar Gunnarsdóttur. Hún setur það í beint samband við efnahagsástandið.

Af lýsingum fréttamannsins er svo að sjá að meiri hluti Íslendinga bregðist við þrengingunum með því að byrgja innra með sér reiði sína og vanþóknun.

Það hefur svo sem lengi loðað við okkur Íslendinga að bregðast þannig við persónulegu mótlæti, en um félagslegt óréttlæti, sem sannarlega er eins stærsta ástæða bankahrunsins, höfum við gjarnan getað tjáð okkur og oft knúið fram umbætur með beinskeyttum aðgerðum. Allt bendir því til að fjölmargir íslendingar í sínum innsta ranni líti ekki á ástandið sem afleiðingar félagslegs óréttlætis, heldur sem svo að það sé jafnvel sök þeirra sjálfra hversu illa er komið og bregðist því við í samræmi við það.


 


Glöggt er gests augað, mótmæli án markmiðs?

BBCFyrir rúmri viku hlustaði ég á útvarpsþátt á BBC sem fjallaði um ástandið á Íslandi. Fréttamaður fór um götur Reykjavíkur með hljóðnemann og tók viðtöl þar sem fólk lýsti áhyggjum sínum og sumir hverjir reiði yfir gangi mála á landinu bláa.

Margir báru sig illa en fleiri virtust nálgast málin af miklu æðruleysi. Fréttamaðurinn mætti á mótmælafund í miðbænum og tók upp frekar lágvær mótmælahrópin. Það sem virtist koma honum mest á óvart var hversu friðsamlega öll mótmæli gengu fyrir sig, þrátt fyrir talsverðan fjölda mótmælenda og mjög sýnilega viðveru lögreglu sem yfirleitt virkar eins og bensín á eld á æsta mótmælendur. Engir brotnir eða útbrenndir búðargluggar eða áflog milli mótmælenda og löggæslunnar eins og títt er í borgum annarra Evrópulanda þegar íbúar þeirra taka sig til við að mótmæla einhverju, jafnvel þótt tilefnið sé miklu minna en Íslendingar hafa til þess um þessar mundir.

Hörður TorfasonHonum var einnig tíðrætt um hversu pólitísk samtök landsins, verkalýðshreyfingar og neytendasamtök tæki lítinn sem engan sýnilegan þátt í mótmælunum. Stjórnmálamönnum væri nánast bönnuð formleg aðkoma að þeim og þau væru leidd af þjóðlagasöngvara. Hann sagði það vera einsdæmi að 7000 mótmælendur söfnuðust saman um hverja helgi sem hefðu það eitt sameiginlegt að vera óánægðir með gang mála í landinu. Hann sagðist sjá að svona mótmælafundir gætu þjónað þeim tilgangi að virka sem ventill fyrir uppsafnaða óánægju og reiði, en án skilgreinds markmiðs og ákveðinna krafa, þjónuðu mótmælin jafnvel betur en nokkru öðru, þörfum þeirra sem þeim er beint gegn.

Þótt ég sé stoltur að tilheyra þjóð sem seint verður espuð til ofbeldisverka og hefur að mestu lifað í friði í rúm 700 ár, sá ég samt hvað fréttamaðurinn breski var að fara.

ÁtökÍ ljósi síðustu kannanna sem sýna að VG eru með 32% fylgi virðist sem þorri íslendinga segi eitt en geri allt annað.

Segjum t.d. að krafan sem flestir mótmælendur eru sammála um sé; að ríkjandi stjórn eigi að fara frá. Ef svo er, hvers vegna mæta þá ekki þessar tugþúsundir sem núna styðja VG í mótmælin?

Ef að krafan er að koma seðlabankastjórnaum frá,  (sem 90% þjóðarinnar vilja samkvæmt skoðanakönnunum)  hvers vegna mæta þau ekki öll (þ.e. þau af 90% sem eiga heimangengt) í mótmælin?

Það mætti halda að allir séu ekki alveg þar sem þeir eru séðir þegar kemur að því að túlka skoðanir sínar og tilfinningar yfir í einhverskonar verk, jafnvel þótt þær séu ekki veigameiri en að mæta á mótmælafund.

Jafnvel þótt annað hvert blogg á blog.is og rúmlega það, sé gremjukast út í og úthrópun þeirra sem rústuðu fjárhag þjóðarinnar, fer fáum sögum af raunverlegum lausnum á vandamálunum. Og auðvitað er það ekki hlutverk fjölmiðlafólks að gera það heldur, enda skemmta valdhafar sér konunglega við á hverjum degi að snúa út úr fyrir því og tala niður til þess.  

Ég hef grun um að þrátt fyrir óánægjufylgið við VG um þessar mundir sé engin raunveruleg samstaða um það með þjóðinni að VG sé til þess fallið að stýra henni í gegnum heimskreppuna sem núna vofir yfir og hefur alls ekki skollið á með fullum þunga enn. Spurningin er því sú, hverjir geta og vilja takast á við það vandaverk. 


Smá aðventu-jólablogg

Musteri SaturnusarEins og allir vita eru jólin haldin til að minnast fæðingar Jesú Krists. Flestir vita líka að ekki er vitað hvenær ársins nákvæmlega Kristur fæddist. Þess er hvergi getið í Nýja testamentinu né í öðrum heimildum. Talið er að frumkristnir hafi ekki haldið upp á fæðingardag frelsarans með nokkrum hætti. Hinsvegar voru í ýmsum löndum á þeim tíma er Kristni var að breiðast út, haldnar hátíðir í desember og í janúar sem áttu uppruna sinn að rekja til ýmissa fornra trúarbragða austurlanda. Þeirra stærst og útbreiddust var án efa sólstöðuhátíðin 25. des. sem Rómverjar héldu upp á og kölluðu Saturnalíu og var haldin til heiðurs Satúrnusi, landbúnaðarguði þeirra.

Reyndar bera sólstöður á vetri að meðaltali upp á 21. des, en samt sem áður náðu hátíðarhöldin í sambandi við daginn hápunkti sínum þann 25 des. Sólstöður eru þegar sól er lengst í norður eða suður frá miðbaug og dagurinn þá annaðhvort stystur eða lengstur. Á vetrarsólstöðum er dagurinn stystur á norðurhveli. Rómverjar til forna, gerðu 25. des að þjóðhátíðardegi sínum og kölluðu hann fæðingardag hinnar ósigrandi sólar. Var þá mikið um dýrðir, sungið dansað og drukkið, ekki ósvipað og við gerum nú á jólum.

Á sama tíma var líka haldin hátíð í bæ sem var kölluð Juvenalaía. Hún var fyrst og fremst tileinkuð ungviði Rómverja, börnunum. Þriðja hátíðin sem einkum efri stéttar Rómverjar héldu upp á á þessari mestu hátíðaönn ársins, var afmælisdagur guðsins Mithra sem var sólguð og barnguð, var fæddur af steini þann 25. des.

Júlíus l PáfiEkki er ólíklegt að kirkjufeðurnir hafi á fjórðu öld komið sér saman um að yfirtaka hin fornu blót og gera þau að kristilegum hátíðum og auka þannig líkurnar á að fólk tæki kristna trú. Alla vega var það Júlíus páfi fyrsti sem ákvað að þann 25. des skyldi haldinn hátíðlegur fæðingardagur frelsarans. Þetta reyndist snjallræði fyrir kirkjuna því Kristur hafði þá hvort eð er tekið á sig nokkuð svipaða mynd og þeir Guðir höfðu, sem hinir heiðnu tilbáðu. Fyrst voru jólin kölluð "fæðingarhátíð" en ekki Kristsmessa og sem slík bárust þau skjótt um álfur. Árið 432 var fæðingarhátíðin upptekin í Egyptalandi og til Englands barst hún í lok sjöttu aldar.

Norrænir menn héldu einnig sína vetrarsólstöðuhátíð og blótuðu þá bæði Þór og Óðin og héldu miklar veislur sem kenndar voru við jólagleði. Á tímabili var hátíðin bönnuð af hinu kirkjulega valdi vegna óspekta og ofáts sem á henni viðgekkst. Í lok áttundu aldar var farið að kenna hina fornu blótahátíð Jólanna á Norðurlöndum við Kristsmessu en gamla nafnið Jól fékk að halda sér.

jolahafurMargir þeirra siða sem enn eru í heiðri hafðir í jólahaldi norrænna manna má rekja beint til blótanna til forna. Nægir í því sambandi að nefna jólahafurinn sem útbúin er úr stráum bæði í Svíþjóð og Noregi sem sérstakt jólatákn. Þá er í raun verið að gera eftirmynd af hafri Þórs. Í meðförum geitarfárra Íslendinga varð hafurinn að ketti, eða hinum íslenska jólavargi, jólakettinum.

Segja má að jólin hafi í þau rétt 1500 ár sem um þau getur í heimildum verið í stöðugri þróun. Á stundum lagðist hið kirkjulega vald gegn þeim og reyndi að banna þau, en á öðrum tímum hafa þau notið fylgis þess jafnt sem allrar alþýðu. Jólum er fagnað á mismunandi vegu í hverju landi og jólasiðir margir og mismunandi.

Bæði gríska og rússneska rétttrúnaðarkirkjan halda upp á fæðingarhátíð Krists 13 dögum eftir 25. desember eða 7. Janúar og halda sig þannig við gamla Júlíanska dagatalið.

jolakotturÍslendingar halda einir þjóða upp á jól í 13 daga og fara þannig beggja bil og halda í heiðri að hluta til siðum þeirra sem fara eftir gamla Júlíansaka dagatalinu og því sem flestar vestrænar þjóðir nota, hinu Gregoríska. En eins og fólk rekur eflaust minni til var það Gregoríus Páfi þrettándi, sem bjó til þrettándann okkar með því að gera leiðréttingu á Júlíanska dagtalinu þann 24. febrúar árið 1582 og færði árið fram um 13 daga.

Jólasveinninn

Eitt helstamerki þess nú til dags um að jólin séu að nálgast, er að sjá jólasveina á stjái. Margt hefur verið um jólasveininn sagt og fjallað síðustu áratugina, en fæst af því sannleikanum samkvæmt.  Heilu kvikmyndirnar hafa verið framleiddar og sýningar uppfærðar þar sem persóna hans hefur verið notuð á frekar óprúttinn hátt. Fyrirtæki sem eygja sér gróðamöguleika með því að bendla nafn sitt við hans, gera það óhikað og eigna mér þá ýmissa eiginleika sem í raun eru honum framandi og alls-óskildir.Gríla með Leppalúða og Jólakötturinn

Segja má að Íslendingar sjálfir hafi gengið hvað lengst í því að rugla fólk í ríminu, því hér á landi er Jólasveinninn ekki einn heldur fjöldi ómennskra óknyttadrengja sem hafast við á fjöllum og eru getnir af tröllum.

(Tröll hafa ætíð í mínum huga verið tákn hins lægra eðlis og hins dýrslega í fari mannsins, þó það sé nánast orðið hól að segja manninn dýrslegan á þessum síðustu og verstu tímum þegar maðurinn hagar sér oft miklu ver en dýr mundi nokkru sinni haga sér.)

En svo við byrjum á byrjuninni þá var hinn eini sanni jólasveinn, eða öllu heldur upphaflega fyrirmynd hans, fæddur 6. desember í gríska þorpinu Patra í litlu Asíu, snemma á fjórðu öld og nefndur Nikulás. Foreldrar hans voru Kristnir og faðirinn efnaður kaupmaður þar um slóðir. Allt frá fæðingu er sagt að hann hafi borið af öðrum börnum í kristilegu hátterni og sú saga sögð af honum að þegar hann var skilinn frá móður sinni eftir fæðingu hans, hafi hann staðið upp í vöggunni og lofað Guð. 

Boyana_AngelSem ungabarn er sagt að hann hafi  neitað að sjúga brjóst móður minnar á föstudögum þegar öllum sannkristnum mönnum var ætlað að fasta. Strax sem unglingi þótti honum miður að sjá fátækt meðbræðra sinna og bera það saman við ríkidæmi föður síns. Hann tók að gefa fátækum af auði og erfðafé sínu eins og ég mátti. Langfrægast þessara góðverka var þegar honum var sagt frá manni einum sem bjó ekki langt frá borginni og var svo fátækur að sýnt þótti að dætur hans þrjár sem orðnar voru gjafvaxta, myndu fljótlega neyðast til að vinna fyrir sér á götum borgarinnar, þar sem honum mundi aldrei verða mögulegt að reyða fram það fé sem nauðsynlegt var í þá tíð að gefa í heimamund með dætrum sínum, til að gifta þær og tryggja þeim þannig heiðvirða framtíð. Faðir Nikulásar hafði skilið eftir sig talsvert fé sem Nikulás reyndi eftir megni að ráðstafa til fátækra. Meðal muna í fórum hans voru þrír afar verðmætir gullknettir.Hann tók því til ráðs að laumast að húsi fátæka mannsins og dætra hans þriggja, þrjár nætur í röð og skildi í hvert sinn eftir einn gullknattanna. Hann gerði þetta á laun til að særa ekki stolt mannsins né gera dætur hans skuldbundnar sér. Þannig varð fátæka manninum kleift að gefa dætur sínar ásamt góðum heimamundi í sæmandi hjónaband.

Þrátt fyrir launungina komst samt þessi saga í hámæli og löngu seinna eftir að Nikulás hafði verið sæmdur nafnbótinni dýrlingur, gerðu veðlánarar hann að verndardýrlingi sínum og hnettina þrjá að merki sínu. Þess vegna má sjá enn í dag þrjá knetti hanga fyrir utan búðir veðlánara í flestum löndum heims, þar sem þeir þrífast á annað borð.

596px-Gentile_da_Fabriano_063Snemma á ævinni ákvað Nikulás að gerast þjónn Guðs og helga sig útbreiðslu trúar hans. Hann var m.a.  viðstaddur  í Níkeu árið 325 þegar Konstantínus keisari safnaði saman öllum helstu kennimönnum kristinnar trúar til að samræma kenningar kirkjunnar.

Konstantín átti kristna móður, sem hét Helena en sjálfur var hann ekki viss hvoru megin hann stóð, Krists eða heiðinna goða. Það var hann sem gerði sunnudag að hvíldardegi kristinna manna árið 321 en þeir höfðu haldið laugardaginn helgan fram að því.

Seinna átti Nikulás við hann nokkur samskipti því hann fór stundum með ofríki gegn þegnum sínum.

 Einu sinni hneppti hann í fangelsi þrjá unga prinsa sem ekkert höfðu sér til sakar unnið annað enn að vera af tignum ættum. Gekk Nikulás þá fram fyrir skjöldu og fékk þá með fortölum lausa. Reyndar hélt Konstantín því fram seinna að Nikulás hefði komið til hans í draumi og beðið drengjunum vægðar og aðeins eftir það, hefði hann ákveðið að láta þá lausa.  Vegna þessa atviks og annarra var Nikulás þegar fram liðu stundir gerður að verndardýrlingi barna og kórdrengja. 

Heilagur Nikulás BiskupNikulás gekk undir biskups-vígslu og skömmu eftir þann atburð varð uppskerubrestur í umdæmi hans. Hann fékk þá því framgengt að kaupskip nokkur sem voru á leið til Alexandríu hlaðin matvælum, lönduðu þeim í Myru heimaborg sinni. Hann lofaði  skipstjórum skipanna því að þeim yrði endurgoldið þegar þeir kæmu til Alexandríu af biskupinum þar. Allt gekk þetta eftir eins og Nikulás hafði fyrir sagt. Af þessum sökum varð ankerið eitt af táknum hans, því sjómenn urðu einnig til að ákalla nafn hans þegar erfiðleikar steðjuðu að þeim.

Sjómenn í hafnarborginni Bari á Ítalíu voru svo sannfærðir um mátt hans til að halda yfir þeim hlífðarskildi í stormi og stórsjó að þeir létu færa jarðneskar leifar líkama hans frá Myru, heimabæ hans, þar sem þær höfðu verið jarðsettar, til borgarinnar Bari. Þetta gerðist árið 1089. Um leið og þeir fluttu beinin, létu þeir smyrja þau með ilmolíum. Þannig gerðist það að þegar þau voru flutt í land í Bari fann fólk af þeim góða lykt. Af þessum sökum var hann nokkru seinna gerður að verndardýrlingi þeirra sem fást við ilmvatna og ilmefna gerð.

Í margar aldir var Heilagur Nikulás í hugum flestra Evrópubúa aðeins einn af fjölmörgum dýrlingum sem  ákallaðir voru í neyð. Hollendingar sem voru miklir sjófarar og kaupmenn voru hvað duglegastir við að halda nafni Nikulásar á lofti.

Faðir KristmessaEnglendingar urðu samt fyrstir til að farið var að tengja Nikulás fæðingarhátíð Jesús Krists. Kom það til af því hversu nálægt fæðingardagur hans, sem gjarnan var mynnst af börnum og sjófarandi kaupmönnum, var upphafi aðventunnar að kristmessu. Þar var farið að kalla hann faðir Kristsmessu snemma á 19. öld.

Með Hollenskum innflytjendum barst Nikulásar dýrkunin til Bandaríkjanna og í upphafi þessarar aldar var farið að teikna hann á kort og auglýsingar í þeirri mynd sem flesti Þekka hann í dag. Í dag er hann þekktur undir nokkrum nöfnum eins og Santa Claus,  Saint Nicholas, Father Christmas. Kris Kringle eða bara "Santa".

Rauði liturinn á Kápunni hans er auðvitað litur fórnarinnar en klæðnaðurinn, rauð hvít brydduð húfan, rauður stakkur stakkurinn með giltum hnöppum og hvítum skinnbryddingum, svart leður belti með gylltri sylgju,  rauðar buxur og svört stígvéli,  hefur þróast smá saman.st-claus

(þó hef ég óljósan grun um að hann hafi einnig verið valin af því að fyrirtækið sem fyrst varð til þess að nota ímynd hans í áróðri sínum, hafði einmitt valið þennan lit í vörumerki sitt.)

Fljótlega spunnust upp sögur í Bandaríkjunum um allt annan uppruna Nikulásar en raunin var á. Það er alls ekki víst a hinum upprunalega Nikulási hefði geðjast  að hugmyndinni um að búa í stórri smíðaskemmu á norðurpólnum við að smíða gjafir með aðstoð fjölda álfættaðra hjálparsveina. Eða þá að eitt af hlutverkum hans væri að rækta hreindýrategund sem getur flogið.

Jólatré

JólatréUm uppruna jólatrésins er flest á huldu, en talið er að rætur þess liggi í einhverskonar trjádýrkun djúpt í mannkynssögunni. Í Róm og víðar skreyttu menn til dæmis í fornöld hús sín um nýárið með grænum trjágreinum eða gáfu þær hver öðrum, og átti það að boða gæfu. Mistilteinninn í Englandi var afsprengi sömu hugsunar.

Einnig er til fjöldinn allur af goðsögum og sögnum, þar sem alheimstré er látið tákna heiminn. Það ber ýmis nöfn, eftir því hvaðan vitneskjan er runnin, en alltaf er það sama uppi á teningnum: kenningin um „miðjuna“. Eitt þessara trjáa er Askur Yggdrasils, úr trúarbrögðum norrænna manna, og annað er Lífsins tré í Eden.


Í jólaskapi eftir Árna Björnsson eru eftirfarandi upplýsingar um jólatréð að finna.

Jólatréð eins og við þekkjum það er ekki mjög gamalt í  heiminum.
Elstu heimildir um skreytt tré í heimahúsum á jólum er frá Suður Þýskalandi á 16. Öld en ekki eru nema tvö hundruð ár síðan síðan farið var að festa kerti á þessi grenitré. Allra fyrstu jólatré munu hafa sést á íslandi í kringum 1850, en þó helst hjá dönskum eða danskmenntuðum fjölskyldum. Algeng urðu þau ekki , fyrr en komið var fram yfir síðustu aldamót.Það er mjög skiljanlegt, af hverju siðurinn festi ekki fyrr rætur á Íslandi. Hér var víðast hvar engin grenitré að hafa, og flestar aðrar vörutegundir hefur þótt nauðsynlegra að flytja inn. Auk þess tók sigling  oft svo langan tíma , að örðugt hefði  reynst að halda þeim lifandi. Þetta gerðu þó sum félög til þess að halda jótrésskemmtanir fyrir börn , og milli 1890 – 1900 má sjá auglýst bæði jólatré og jólatrésskraut. Fyrir meira en hundrað árum hafa menn sumstaðar byrjað á því að búa til gervijólatré.

Gamalt íslensk JólatréVar þá tekinn mjór staur , sívalur eða strendur, og festur á stöðugan fót. Á staurinn voru negldar  álmur eða boraðar holur í hann og álmunum stungið í. Þær voru lengstar neðst, en styttust upp eftir og stóðu á misvíxl. Þær voru hafðar flatar í endann, og á honum stóðu kertin. Venjulega var staurinn málaður grænn eða hvítur og vafið um hann sígrænu lyngi. Síðan voru mislitir pokar hengdir á álmurnar og eitthvert sælgæti sett í þá. Þessi heimatilbúnu jólatré voru mest notuð , þar til fyrir nokkrum áratugum, þegar farið var að flytja grenitré inn í stórum stíl. Á síðustu árum hafa svo íslensk  jólatré komið á markaðinn í æ ríkari mæli 

Jólatréð hefur í heila öld verið eitt helsta tákn jólanna um heim allan. Það er þó tiltölulega nýtt af nálinni í núverandi mynd. Talið er að jólatré hafi borist til norðurlanda skömmu eftir 1800. Árið 1862 nefnir Jón Árnason sögu um reynitré og brunnu ljós á greinum þess alla jólanótt sem slokknuðu ekki hversu mjög sem vindur blés.

Venjulegt jólatréÁrið 1952 fékk Reykjavík í fyrsta sinn stórt jólatré að gjöf frá Ósló. Var það sett upp á Austurvelli, og hefur sú venja haldist síðan. Í fyrstu var jafnan kveikt á trénu síðasta sunnudag fyrir jól, en sú dagsetning færðist framar eftir því sem almennur jólaundirbúningur hófst fyrr. Síðan hafa margar erlendar borgir sent vinabæjum sínum á Íslandi jólatré.

Fyrstu auglýsingar um innflutt jólatré birtust þegar árið 1896 en þau tóku samt ekki að seljast í stórum stíl fyrr en eftir 1940.

 


Fleira smálegt

links

"Það sem gerir þig ánægða(n), það er fjársjóður þinn. Þar sem fjársjóður þinn er þar er hjarta þitt. Þar sem hjarta þitt er þar er hamingja þín."  

Heilagur Ágústínus (354-430)

The naked Icelanders

"Þegar þú öðlast persónuleika, þarftu ekki á nektinni að halda".

Mae West, (1892-1980 Bandarísk leikkona)

149syllabus9crystal2

Sveitin er staður sálarinnar, borgin er staður líkamans.

(Bahai ritningargrein)

yogazo0

Aleinn með sjálfum mér

Trén beygja sig til að gæla við mig

Skugginn faðmar hjarta mitt

Candy Polgar

a279_Hallgrimur

Trúarbrögð mín eru einföld. Það er engin þörf á hofum, engin þörf fyrir flókna heimsspeki. Hugur okkar og hjarta er hofið; heimspekin er velvilji. Dalai Lama


Porsche 550 Spyder og James Dean

James_DeanÁsamt því að leika í frábærum kvikmyndum eins og Rebel Without a Cause, East of Eden og Giant stundaði James Dean kappakstur. Á meðan hann var að leika í  Rebel Without a Cause eignaðist hann bifreið af gerðinni Porsche 550 Spyder.

Bifreiðin var ein af 90 slíkum sem framleiddar voru og var merkt tölunni 130. Bifreiðin var með tveimur hvítum röndum að aftan og var kölluð "litli bastarðurinn" ("Little Bastard") .

Sagan segir að viku fyrir slysið þar sem James Dean lést, hafi hann hitt hinn góðkunna breska leikara Alec Guinness. Alec hafði orð á því við James að sér þætti bíllinn "varasamur" og sagði síðan; "Ef þú ferð upp í þennan bíl finnst þú dauður innan viku". Þessi orð áttu eftir að rætast Því James Dean lést í hræðilegu bílsslysi þann 30. September 1955.

Hann var á leið á Porschinum sínum til að taka þátt í kappakstri ásamt viðgerðarmanni sínum Rolf Wutherich. Skömmu áður en slysið varð var hann stöðvaður af lögreglunni og sektaður fyrir að aka á 65 mílna hraða þar sem leifður hámarkshraði var 55 mílur.

JamesDeanCarDean ók sem leið liggur eftir fylkisvegi 46 í Cholame í Kaliforníu. Á móti honum kom akandi á 1950 modeli af Ford Tudor, Donald Turnupseed nemi í skóla ekki langt frá. Donald ók yfir á akreinina sem Dean ók á þar sem vegurinn skiptist og lenti beint framan á Porschinum. Dean virðist hafa lifað af áreksturinn en lést á leiðinni í sjúkrabílnum sem flutti hann á sjúkrahúsið í Paso Robles.

Wutherich sem lifði af slysið sagði að síðustu orð Deans hafi verið "Þessi gaur hlýtur að stoppa,... Hann sér okkur."

Porschinn var í köku en lánleysi hans endaði ekki þarna. Þegar að brakið var dregið af slysstað og á verkstæði, féll vélin úr bílnum ofaná vélvirkja og mölbraut á honum báða fótleggina.

Vélin var nokkru síðar seld lækni sem setti hana í kappakstursbíl sem hann átti. Læknirinn dó skömmu seinna í slysi á kappakstursbraut þar sem hann keppti á bílnum með Porschvélinni. Í sama kappakstri lést annar ökuþór sem ók bifreið sem í hafði verið sett drifskaftið úr bíl James Dean.

james-dean-car-crash-07Seinna þegar að Porsche James Dean var að lokum endurbyggður, brann verkstæðið þar sem endurbyggingin fór fram, til grunna.

Seinna þegar bílinn var á sýningu í Sacramento, féll hann af stokkunum sem honum hafði verið komið fyrir á og fyrir hinum varð unglingur sem mjaðmagrindarbrotnaði.

Nokkru seinna var bíllin til sýnis í Oregon. Honum var komið fyrir aftaná öðrum bíl sem flutti hann á sýningarstaðinn. Þá vildi ekki betur til en svo að hann rann ofan af flutningsbílnum og lenti inn í miðri verslun.

Að endingu datt bifreiðin í sundur í 11 hluta þar sem hún sat á stálbitum en hún var þá til sýnis í Los Angeles.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband