1.9.2009 | 03:13
Auglýst eftir "Nýja Íslandi"
Núverandi stjórnvöldum er tíðrætt um að þeirra helsta verkefni sé að "moka flórinn" eftir langvarandi óstjórn fyrri ríkisstjórna og "slökkva eldanna" sem ógna þjóðarskútunni og kveiktir voru af hálfri þjóðinni, miðað við öll krosstengslin sem eru að koma upp úr kafinu.
Að bjarga því sem bjargað verður er auðvitað göfugt verkefni og þarft. Fram að þessu hefur verið nóg að gera við að fá það samþykkt að flórinn og eldarnir verði yfirleitt meðhöndlaðir á einhvern hátt. Orkan og tíminn sem farið hafa í þetta verk fram að þessu hafa ekki skilið eftir mikið til að sinna öðrum og ekki síður brýnni málum. Það sem um ræðir er stefnumótun fyrir nýja þjóðarsátt og viðreisnarsýnar fyrir þjóðina.
Því miður sér ekki enn fyrir endann á björgunarstarfinu og ef fer sem horfir, munu stjórnmálflokkarnir halda áfram að nálgast lausnirnar sem ákveðið verður að beita, út frá sínum þröngu flokkspólitísku hagsmunum.
Áður en gengið var til kosninga fyrr á árinu, voru margir vongóðir um að mikilla endurbóta í þjóðfélaginu væri að vænta. Þannig töluðu stjórnmálamenn þá og almenningur talaði um "Nýja Ísland" og nýja sýn sem sameina mundi þjóðina í að endurreisa efnahagslíf hennar á réttlátari grunni. Þessi sýn, hafi hún nokkru sinni verið til í huga stjórnmálamanna, hefur horfið í þoku flokkspólitískra þræta og sundurlyndi.
Agnar Kristján Þorsteinsson (AK-72) skrifaði fyrir skemmstu afar góða grein sem hann nefnir "Hugleiðingar Ísþræls".
Í niðurlagi greinarinnar setur höfundar fram kröfur sem bergmála vel þær hugmyndirnar um betra og réttlátara samfélag sem svo mikið var haldið á lofti fyrir kosningar og kominn er tími til að minna kröftuglega á aftur því þær virðast hafa gleymst fljótlega eftir að stjórnmálaflokkunum var aftur gefið umboð til að stökkva niður í kunnuglegar skotgrafir sínar í meðhöndlun allra mála. Kröfur Agnars eru m.a. sem hér segir;
Ég krefst þess og tel það algjört skilyrði, að hér verði myndað nýr samfélagssáttmáli eða hið Nýja Ísland og það verði ekki andvana fætt eða kæft í þinghúsinu eftir að róast í samfélaginu. Það skal verða stjórnlagaþing, það skal verða ný stjórnarskrá skrifuð af almenningi og fyrir þjóðina alla.
Ég krefst þess að þingmenn, ráðherrar og stjórnsýslan öll verði látin gangast undir strangar siðareglur sem hafi hagsmuni almennings að leiðarljósi og að Alþingi verði ekki lengur skúffufyrirtæki valdaætta, viðskiptablokka, auðmanna eða Viðskiptaráðs heldur Alþingi verði fyrir alla borgara landsins.
Ég krefst þess að það verði tryggt með lögum að siðferði verði látið ríkja í viðskiptum og þrengt verði að því frelsi sem orsakaði hrunið, frelsinu til að mega vera siðblindur og iðka slíkt í viðskiptum og hörð viðurlög verði sett við brotum þar.
Og að lokum krefst ég þess, að hér rísi upp réttlátt samfélag, gott samfélag sem ég get og vil búa í, samfélag þar sem maður getur horft framan í spegilinn og sagt:Ég þraukaði, ég barðist og ég uppskar samfélag vonar, virðingar og sáttar öllum til handa. Ef það gengur eftir og þetta haft að leiðarljósi, þá er ég tilbúinn til þess að þrauka þorrann. Ef ekki þá er bara eitt sem hægt er að segja:
Guð blessi Ísland, ég er farinn!
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Mannréttindi, Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Get tekið undir hvert orð í þessu niðurlagi. Og í rauninni er þetta svo mikið grundvallaratriði að við almenningur eigum að ganga fram fyrir skjöldu og krefjast þess að þetta verði sett í gang nú þegar. Biðin er á enda og aðgerða krafist.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.9.2009 kl. 08:13
bla bla bla. Þetta endalausa aumingja væl í steingrími J um að hann sé alltaf að vinna upp eftir aðra er orðið frekar þreytt.
hann ætti kannski að segja okkur hvernig stjórnin klúðraði útflutningstekjum upp á líklega 20-30 milljarða í vor með vitlausri skiptingu á makrílkvóta. Ekki var hann að elta gömul mál þar.
Ekki var hann beint að elta gömul mál með því að sækja það fast að samþykkja Icesave ábyrgðirnar? Ef það hefði gengið eftir væri þjóðin 400 milljörðum fátækari. Það náðist að stoppa hann af. Ekki skrifast þau mistök fjármálaráðherrans á neitt annað en vitleysuna í honum sjálfum.
hvað með esb aðildina? Ekki getur hann klínt þeim svikum við sína kjósendur upp á aðra en hann sjálfan?
Hvað með þetta Magma Orku mál? Hann hafði marga mánuði til að gera eitthvað í því máli, en þegar allt var að renna út, þá vaknaði nátttröllið steingrímur j.
Mistökin sem hafa verið gerð að undanförnu hafa verið þess eðlis, að ekki hefur þurft neina aðra til að aðstoða ríkisstjórnina við þau, hún hefur verið fullkomlega fullfær um að stofna til þeirra sjálf, og án utanaðkomandi aðstoðar.
Árinni kennir illur ræðari. Steingrímur er fjármálaráðherra á erfiðum tíma. það var Friðrik Sophusson líka á árunum 1991-1995. Ekki heyrði maður hann mikið tala um ruglið í Ólafi Ragnari á undan signt og heilagt, þó ástæða hefði nú verið til. Það var ekki svo, heldur var bara gengið til verks, og verkefnin leyst þegar þau þurfti að leysa. núna er hins vegar öllum málum ýtt á undan sér þangað til allt er í óefni komið, og þá er bara kennt þeim um sem sátu í ríkisstjórn á árum áður.
Aumt.
joi (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 17:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.