Víngarður Guðs í Ísrael

Karmel-1894Í norður Ísrael teygir sig eftir ströndinni fjallgarður sem nefndur er Karmelfjall. Í norðurhlíðum þess rís borgin Haífa sem er þriðja stærsta borg Ísraelríkis. Borgin er oft sögð sú dýrasta í Ísrael þar sem margir af auðugustu borgurum landsins búa í henni. Eða eins og leigubílstjórinn sem ók mér eitt sinn frá Tel Aviv til Haifa orðaði það; "Borgin er ein af Pé-borgunum. Í Jerúsalem biður þú (Pray), í Tel Aviv leikur þú þér (Play) en í Haifa borgar þú (pay)."

Í Haífa búa bæði Arabar og Gyðingar eða um 270.000 manns og henni hafa ráðið yfir tíðina fyrir utan Gyðinga og forfeður þeirra, Byzantíumveldið, Arabar,Krossfarar, Ottómansveldið, Egyptar og Bretar.

Fjallgarðurinn sem er um 40 km langur er ekki ýkja hár eða rúmlega fimm hundruð metrar þar sem hann er hæstur. Víða við rætur fjallsins hafa fundist minjar um forn þorp og í þeim leifar af frumstæðum þrúgupressum. Heiti fjallsins Karmel þýðir reyndar á hebresku "Víngarður Guðs".

Í fjallinu eru  margir hellar sem einnig bera þess merki að hafa verið notaðir í langan tíma sem íverustaðir manna og húsdýra.

NEANDERReyndar fullyrða fornleyfafræðingar að á fjallinu sé að finna mannvistarleifar sem beri vitni um að þar hafi verið elsta og lengsta samfellda byggð manna í heiminum.

Árið 1931 fann Prófessor Dorothy Annie Elizabeth Garrod bein Neanderdals-konu sem nefnd var Tabun I og er talin meðal merkustu fornleyfafunda á síðustu öld. Bein hennar þóttu sanna að Neanderdals-menn og nútímamaðurinn hafi búið samtímis á sama stað um nokkur þúsund ára bil. Elstu minjarnar í fjallinu eru taldar allt að 600.000 ára gamlar.

Fjallinu tengjast fjölmargir sögulegir atburðir og trúarlegt mikilvægi þess er slíkt að haft er eftir sjálfum Pýþagórusi að "fjallið sé helgast allra fjalla og mörgum sé að því meinaður aðgangur."

YeshuaMountSamkvæmt annarri Konungabók Gamla Testamentisins átti  Elísa (hinn sköllótti) að hafa hraðað sér til Karmelfjalls eftir að hann hafði valdið dauða 42 ungra drengja sem gert höfðu grín að hárleysi hans.

Margar heimildir geta þess að fjallið hafi í aldanna rás verið vinsæll felustaður fyrir flóttamenn, einsetumenn og trúarhópa sem sóttust eftir einangrun. Eru í því sambandi nefndir bæði Essenar og Nazarear (ekki samt hinir frumkristnu).

Í Gyðingdómi, Kristni og Íslam er spámaðurinn Elía sagður hafa haft aðsetur í helli á fjallinu. Þótt ekkert sé að finna í helgiritunum sjálfum um hvar sá hellir er nákvæmlega staðsettur, hefur honum verð fundin staður sem er kyrfilega merktur í dag og kallaður hellir Elía. (Sjá mynd)  

Hellir ElíaElía á að hafa reist Guði altari og árið 1958 fannst á þessum slóðum einskonar altari sem núna er kallað altari Elía þar sem Guð brenndi upp til agna fórn Elía og sannaði þannig fyrir 450 Baal dýrkendum að Guð  hans væri máttugri en þeirra. Íslamískar hefðir staðsetja þennan stað þar sem heitir El-Maharrakah sem þýðir brennan.

Á tólftu öld var stofnuð á fjallinu kaþólsk trúarregla sem nefndi sig Karmelíta. Sofnandi hennar sem nefndur er Berthold var annað hvort pílagrímur eða krossfari og lést árið 1185. Reglan var stofnuð á þeim stað þar sem hellir Elía var sagður vera og er staðsettur (kannski ekki fyrir tilviljun) þar sem hæst ber og best er útsýnið yfir fjallið og nærliggjandi héruð.

Í arfsögnum Karmelíta er getið um einsetumenn sem voru Gyðingar og hafi búið á fjallinu frá tímum Elísa og Elía. Í stofnskrá reglunnar sem er dagsett 1281 er talað um "presta og spámenn, Gyðinga og Kristna sem lifðu lofsamlegu lífi í heilagri afneitun við lind Elísa."

400px-Pietro_Novelli_Our_Lady_of_Carmel_and_SaintsSkömmu eftir stofnun reglunnar var sett á fót klaustur á fjallinu og það helgað Maríu Kristsmóður í ímynd stella maris eða "hafstjörnunnar". Klaustrið var byggt á þeim stað sem áður er getið og kallað El-Maharrakah af múslímum.

Á meðan krossferðunum stóð skipti byggingin oft um hæstráðendur og varð að mosku þegar múslímar réðu, en klaustri eða kirkju þegar kristnir menn réðu henni. Árið 1799 var henni breytt í sjúkrahús fyrir laskaða hermenn úr röðum hers Napóleons sem reyndi að leggja undir sig svæðið. Hún var að lokum jöfnuð við jörðu 1821 af landstjóra Ottómans-veldissins í Damaskus.

Karmelítareglan safnaði fyrir nýrri byggingu og reisti hana við hellinn sem nú er þekktur sem Hellir Elía.

Árið 1861 voru stofnuð í Þýskalandi samtök sem tóku sér nafnið Tempelgesellschaft. Meðlimir þeirra voru kallaðir Templarar og samkvæmt kenningum forkólfanna Christoph Hoffman og Georg David Hardegg var æðsta þrá þeirra að þjóna konungsríki Guðs á Jörðu. Þeir álitu Krist ekki vera eiginlegan son Guðs en miklu frekar fyrirmynd. Þeir voru sannfærðir að endurkoma Krists væri í nánd og drógu þær ályktanir eftir vísbendingum og spádómum Biblíunnar að hann mundi birtast á eða í námunda við Karmelfjall.HaifaColony

1886 kom til Haifa allstór hópur þýskra Templara og settist þar í einskonar nýlendu. Enn má sjá hús þeirra og við Ben Gurion breiðstræti í Haífa þar sem þau standa með sín rauðu þök og byggð úr steini samkvæmt Evrópskri byggingarhefð. Yfir gluggum og dyrum margra þeirra eru yfirskriftir á þýsku; Þ.á.m. "Herrann er nálægur".

Haifa_GermanTemplararnir reyndu að breiða úr sér í Landinu Helga og stofnuðu nýlendur við Jaffa og í Jerúsalem. Eftir að heimstyrjöldin síðari skall á voru Templararnir  allir reknir úr landi eða fluttir til Ástralíu af Bretum sem þá réðu Palestínu. Árið 1962 greiddu Ísraelstjórn þeim 54 miljónir þýskra marka í skaðabætur fyrir þær eignir og landsvæði sem höfðu áður tilheyrt þeim og nú voru þjóðnýttar.

Í fyrri heimstyrjöldinni var háð orrusta í hlíðum Karmelfjalls sem átti eftir að skipta sköpum í stríðinu. Hún er nefnd  "Orrustan við Megiddo" en þar áttust við Bretar undir stjórn Allenby Hershöfðingja og hermenn Ottómans veldisins sem ráðið höfðu landsvæðinu í nokkrar aldir. 320px-Light_horse_walers

Jezreel dalurinnsem gengur inn í fjallið þar sem orrustan var háð, hafði oft áður verið vettvangur átaka og frægust þeirra var upprunalega Megiddo orrustan sem var háð milli herja Egypta og Kananíta á 15. öld fyrir Krist. Þá hafði einnig herjum Júdeu og Egyptum lostið þarna saman árið 609 FK.

armage1Dalurinn er einnig sagður  í Opinberunarbókinni vera sá staður þar sem herir "dýrsins" safnast saman fyrir orrustuna sem nefnd er Armageddon.

 

 

Heimsmiðstöð bahá'í trúarinnar er einnig staðsett á Karmelfjalli. Kemur það til af sögulegum ástæðum. Heimsmiðstöðin bæði stjórnfarsleg og andleg miðstöð bahá'í heimsins og einnig eru tveir helgustu staðir bahá'í trúarinnar, grafhýsi Bábsins og Bahá'u'lláh, staðsettir í grenndinni. Í heimsmiðstöð bahá'ía starfa að jafnaði um 700 sjálfboðaliðar á hverjum tíma sem allir koma víðsvegar að úr heiminum.

Í stuttu máli eru sögulegu forsendurnar fyrir veru heimsmiðstöðvarinnar á Karmelfjalli þessar;

y140aÞann 23. maí árið 1844 í borginni Shíráz í Persíu tilkynnti ungur maður, þekktur sem Bábinn, að boðberi Guðs, sem allar þjóðir jarðarinnar höfðu vænst, kæmi innan skamms. Titillinn Bábinn merkir „Hliðið“. Þó að hann væri sjálfur flytjandi sjálfstæðrar opinberunar frá Guði, lýsti Bábinn því yfir að tilgangur hans væri að undirbúa mannkynið fyrir þennan mikla atburð.

Skjótar og villimannlegar ofsóknir, sem voru runnar undan rifjum hinnar valdamiklu múslimsku klerkastéttar, fylgdu í kjölfar þessarar yfirlýsingar. Bábinn var handtekinn, húðstrýktur, fangelsaður og loks tekinn af lífi 9. júlí árið 1850 á almenningstorgi í Tabrízborg. Um það bil 20.000 fylgjendur hans týndu lífinu í hverju blóðbaðinu á fætur öðru um alla Persíu.

Líkamsleifar Bábsins voru jarðsettar í hlíðum Karmelfjalls samkvæmt fyrirskipunum Bahá’u’lláh, Helgidómurinn er umlukinn fallegum görðum og þaðan sér út á Haífaflóann.

y220Bahá’u’lláh var fæddur árið 1817 inn í aðalsfjölskyldu í Persíu. Fjölskylda hans gat rakið ættir sínar aftur til konunga frá stórveldistímum Persíu. Hún var mjög auðug og átti miklar eignir. Bahá’u’lláh var þess vegna boðin staða við hirðina, en hann hafnaði henni. Hann varð kunnur fyrir örlæti sitt og manngæsku, sem ávann honum mikillar hylli meðal landsmanna sinna.

Bahá’u’lláh glataði fljótlega þessari forréttindastöðu, eftir að hann lýsti yfir stuðningi sínum við boðskap Bábsins. Bahá’u’lláh lenti inn í holskeflu ofbeldis, sem hvolfdist yfir Bábíana eftir aftöku Bábsins. Hann missti ekki einungis öll sín veraldlegu auðæfi, heldur var hann fangelsaður, pyntaður og rekinn í útlegð hvað eftir annað. Hann var fyrst gerður útlægur til Bagdad, þar sem hann lýsti því yfir, árið 1863, að hann væri hinn fyrirheitni sem Bábinn hafði gefið fyrirheit um. Frá Bagdað var Bahá’u’lláh sendur til Konstantínópel, til Adríanópel og að lokum til ‘Akká í Landinu helga, en þangað kom hann sem fangi árið 1868.

shrine-bahaullah-entranceFrá Adríanópel, og síðar frá ‘Akká, skrifaði Bahá’u’lláh fjöld bréfa til þjóðhöfðingja heimsins á þeim tíma. Þessi bréf eru meðal merkustu heimilda í trúarbragðasögunni. Í þeim er kunngert að eining mannkyns muni komast á innan tíðar og alheimssiðmenning líta dagsins ljós.

Konungar, keisarar og forsetar nítjándu aldar voru kvaddir saman til að jafna ágreiningsmál sín, minnka vopnabúnað sinn og helga krafta sína málefnum alheimsfriðar.

Bahá’u’lláh andaðist í Bahjí, rétt fyrir norðan ‘Akká og við rætur Karmelfjalls og er grafinn þar. Kenningar hans höfðu þá þegar breiðst út fyrir Mið-Austurlönd og helgidómur hans er núna miðdepill þess heimssamfélags sem þessar kenningar hafa fætt af sér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Hélt að elstu mannabein hefðu fundist í Eþiópíu? fróðlegt eins og alltaf.

Rut Sumarliðadóttir, 5.1.2009 kl. 12:27

2 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Svanur minn takk fyrir þetta, gaman að fá þetta beint í æð af moggabloggi. Ég las einmitt um daginn opinberun Bahá´u´lláh en á ennþá eftir að fara til Haifa, það er hins vegar á dagskránni.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 5.1.2009 kl. 12:28

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir áhugaverðan pistil.

Magnús Sigurðsson, 5.1.2009 kl. 14:17

4 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

alveg frábær lesning, takk fyrir það. ég hef einmitt í dag bloggað um sögu ísrael og palestínu en út frá allt annar hlið. það er spennandi að lesa um Báhá og þeirra tengingu, sem ég hef aldrei heyrt um.

Takk enn og aftur er gera mig fróðari á jákvæðan hátt en áður

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 5.1.2009 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband