Andadansinn og Undað Hné

Eftir 1890 þegar að ljóst var að hvíta manninum hafði tekist að sölsa undir sig lendur Indíána í Norður Ameríku fyrir fullt og allt, flæma þá sjálfa frá lendum sínum í sérlendur eða hreint út drepa þá, varð til skammvinn andspyrnuhreyfing meðal Indíána, einskonar dauðkippur menningar þeirra sem var í þann mund að hverfa. Hreyfingin var kölluð Andadans. (Ghost Dance) Upphafsmaður Andadansins hét Wovoka og var af ættbálki Paiuta Indíána. Hann fékk einhverskonar vitrun eða köllun sem hann birti Indíánaþjóðum samnkomnum á þjóðamóti í Nevada í eftirfarandi bréfi.

Nevada, Ágúst 1891

Þegar þið komið heim verðið þið að dansa stanslaust í fimm daga. Dansið í fjórar nætur og að morgni fimmta dag baðið ykkur í ánni og yfirgefið síðan heimili ykkar. Allir verða að gera það sama.

ghst-dncÉg Jack Wilson (Nafn sem hvítir gáfu Wovoka) elska ykkur öll og hjarta mitt er fullt af gleði vegna gjafanna sem þið gáfuð mér.  Þegar þið komið heim mun ég gefa ykkur góð ský sem mun láta ykkur líða vel. Ég mun gefa ykkur góðan anda og ég mun gefa ykkur góðan farða. Ég vil að þið komið til baka eftir þrjá mánuði, einhverjir frá hverjum ættbálki. Þetta árið mun verða talsverður snjór og einhver rigning. Í haust mun verða slík rigning að annað eins hefur aldrei sést.

Afi segir; þegar að vinir þínir deyja, máttu ekki gráta. Þú mátt ekki meiða nokkurn mann eða gera nokkrum mein. Gerið ætíð rétt. Ég mun gefa ykkur fullnægju í lífinu. Þessi ungi maður á góðan föður og góða móður.

Segið ekki hvíta fólkinu frá þessu. Kristur gengur nú á jörðinni. Hann kom líkt og ský. Hinir dauðu hafa risið. Ég veit ekki hvenær þeir verða hér, kannski í haust eða með vorinu. Þegar tíminn kemur munu verða meiri veikindi og allir verða ungir aftur.

Ekki neita að vinna fyrir hina hvítu og ekki valda neinum vandræðum á meðan þú dvelur á meðal þeirra. Þegar jörðina skekur, óttastu ekki. Hún mun ekki skaða þig.

Ég vil að þið dansið á sex vikna fresti. Gjörið ykkur glaðan dag, dansið og gjörið mat svo allir megi matast. Baðið ykkur síðan í vatni. Þetta er allt. Þið munuð fá góð orð frá mér einhvern tíman aftur. Ekki ljúga.

Wovoka.

ghostdance2Þegar að þessi boðskapur fór að breiðast út breyttist hann fljótlega í meðförum Indíána og ekki hvað síst á meðal hvítra. Útkoman var sú að Wokova var álitin boða endalok heimsins, jörðin mundi farast og ný jörð rísa úr sæ ekki ólíkt því sem lýst er í hinni íslensku Völuspá. Hvíti maðurinn mundi farsat undir fimm mannhæða háu aurflóði og Indíánarnir mundu erfa jörðina. Buffalóarnir og Antilópurnar mundu snúa aftur og forgengnir forfeður þeirra mundu ganga jörðin aftur sem yrði frí af sjúkdómum, sulti og ofbeldi. Paradís á jörð eins og margir kristnir sáu hana, nema að í henni voru engir kristnir, aðeins Indíánar.

Sagt var að sýn Wovoka hefði birst honum þegar sólmyrkvi gekk yfir landið og jafnframt þjáðist hann af mikilliNAW5 hitasótt. Til þess að þessi heimsendi gæti átt sér stað yrðu Indíánar að hreinsa sig af öllu illu, (sérstaklega alkahóli hvíta mannsins) og iðka heiðarleika og frið á milli sín sjálfra innbyrðis og líka gagnvart hvíta manninum.

Þeir sem stjórnuðu sérlendum Indíána vítt og breitt um Bandaríkin stóð ógn af þessum nýfundna eldmóð Indíána. Þrátt fyrir að boðskapur Indíána dansins hafi verið að grunni til friðsamlegur sáu þeir hann sem "villtan og brjálaðan" og kvöddu til hermenn til verndar landnemum í grennd við sérlendurnar. Þegar að Sitjandi Uxi einn af virtustu leiðtogum Indíána og mikil stríðshetja gerðist andadansari, leist hernum ekki á blikuna. Þegar þeir reyndu að handtaka Sitjandi Uxa, nokkru eftir að hann hafði tekið þátt í sínum fyrsta andadans, veitti hann mótspyrnu og var drepinn umsvifalaust. Fylgjendur hans flýðu til  Pine Ridge Sérlendunnar undir þaðan sem þeir vörðust hernum undirstjórn Stóra Fótar höfðingja. Þar voru þeir handteknir og færðir til Undaðs Hnés.

danceDaginn eftir komuna þangað eða 29. Desember 1890 fyrirskipaði herinn að Indíánar skyldu afhenda öll vopn sín til eyðileggingar. Guli Fugl græðari hvatti til andspyrnu og sagði að skyrtur andadans-manna væru nú orðnar skotheldar. Svarti Sléttuhundur og menn hans trúðu þessu og neituðu að afhenda vopn sín. Hleyptu þeir af riffli í gáleysi sem varð til þess að riddaraliðið hóf skothríð á Indíánabúðirnar. Á skömmum tíma feldu þeir 250 Indíána, þar á meðal fjölda kvenna og barna.

Tveimur vikum eftir fjöldamorðin við Undað Hné gáfust allir andadansarar sem eftir voru upp fyrir hernum. Flestir Indíánar sáu þá andadansinn sem síðustu tilraun sína til að bjarga menningu sinni og frelsi. Í dag eru kenningar Afa gamla Wovoka, varðveittar meðal Peyote Indíána.

Þessu greinarkorni fylgja nokkrar myndir, bæði málverk eða teikningar af því hvernig hvíti maðurinn ímyndaði  andadansinn og svo ljósmyndir sem sýna hvernig hann fór fram í raun og veru.

Ég rifjaði upp þessa atburði þegar ég horfði á tónleika Bjarkar og Sigurrósar (á netinu) og fannst allt í einu einu að ég skildi vonlausa stöðu náttúrusinna gagnvart auðvaldi og efnishyggju.

 HomelandSecurity1492


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skattborgari

Skemmtileg lesning Svanur. Virkilega góð grein hjá þér,

Skattborgari, 30.6.2008 kl. 01:53

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Undað hné, þetta finnst mér ekki vera íslenska.  Ég veit að vísu að und, er sár.  En undað hné?  Hét þetta ekki eitthvað annað á íslensku?  Mér finnst þetta bara hljóma illa.    Þetta er samt skemmtilegur og fróðlegur pistill.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 30.6.2008 kl. 02:37

3 Smámynd: Aðalsteinn Baldursson

Undað hné er nú samt rétt hjá honum. Sagan "Heygðu mitt hjarta við undað hné" er íslenska þýðingin á sögunni "Bury my heart at Wounded Knee" eftir Dorris Alexander "Dee" Brown.

Aðalsteinn Baldursson, 30.6.2008 kl. 05:39

4 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Frábær grein hjá þér...

En ég vona að barátta okkar sé ekki til einskins

Ég vona að fólk vakni til meðvitundar - eyðileggingin er svo ör núna, bara það að Norðurpóllinn verði hugsanlega íslaus í ár er mikið áhyggjuefni, sér í lagi gagnvart þeirri dýraflóru sem þar býr. Stöðugt er gert lítið úr þeim röddum sem reyna að sporna við þessari sjálfseyðingaráráttu manneskjunnar en á endanum verðum við öll að endurskoða hvernig við háttum lífi okkar, annars verða lífsgæði komandi kynslóða afar léleg og svíðandi sektarkennd mun þjaka þá sem ekkert gerðu nema að horfa undan vandanum sem að okkur steðjar - mannkynið verður hreinlega að fara að hugsa til langframa og hætta að leysa vandamál með skammtímalausnum.

Birgitta Jónsdóttir, 30.6.2008 kl. 06:16

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Birgitta: Andadansinn er sagnfræðilegt minnismerki um tapaða málstaði. Baráttan gegn loftslagsbreytingunum og gróðurhúsaáhrifunum er orðið að miklum bisness þar sem Karbon kvótar ganga kaupum og sölum. Litla Ísland sem er "hreinasta" land í heimi treystir sér ekki til að fara eftir alþjóðlegum sáttmálum og hver getur sagt við Kína og Indland, þið eigið ekki rétt á að lifa við sama standard og við.

Ég er einn af dönsurunum sem dansa með Sigurrós og Björk rétt eins og þú væntanlega.

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.6.2008 kl. 10:05

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Skatti og Guðlaug takk fyrir innlitið.

Jóna; Aðalsteinn sagði það sem ég hefði sagt:)

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.6.2008 kl. 10:07

7 Smámynd: Eydís Hentze Pétursdóttir

Þú ert hér með uppáhalds bloggarinn minn.

Eydís Hentze Pétursdóttir, 30.6.2008 kl. 10:45

8 identicon

Ég sá mjög fína mynd um þessa atburði nýlega sem hét "Bury my heart at wounded knee".

Væntanlega þá byggð á ofangreindi sögu Dorris Alexander Brown.

Mæli með henni.

Jesús Kristur (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 10:46

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir það Eydís og vertu ávalt velkomin.

JK, rámar í þessa heimildarmynd. Er hún ekki gömul?

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.6.2008 kl. 20:29

10 Smámynd: Aðalsteinn Baldursson

Myndin er ekki gömul Svanur. Gerð var sjónvarpsmynd í fyrra.

Aðalsteinn Baldursson, 30.6.2008 kl. 21:35

11 identicon

Það sem aðalsteinn sagði.

Þetta er ekki heimildarmynd, hún er leikin og var gerð í fyrra.

Fékk slatta af Emmy verðlaunum.

Jesús Kristur (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 22:02

12 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir þetta drengir. Verð mér út um ræmuna á DVD ef hægt er.

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.6.2008 kl. 22:14

13 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Já dansa skal ég inn í eilífðina ef þess er þörf. Þrátt fyrir að fallast stundum hendur yfir skammsýni og græðgi þeirra sem beina spjótum sínum að þeim sem stíga dansinn, þá verð ég að minna mig á með reglulegu millibili að það eru til manneskjur sem sjá hlutina í samhengi og alltaf ánægjulegt að finna fleiri slíka. Þú ert einn af þeim. Takk fyrir að vera til:)

Birgitta Jónsdóttir, 1.7.2008 kl. 07:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband