Færsluflokkur: Umhverfismál

Hefði Ísland efni á friði?

Björk segir að Íslenskt efnahagslíf myndi fá stóran skell ef álverð í heiminum lækkaði. Ekkert mundi lækka álverð meira en ef minna af áli væri notað til hergagnaframleiðslu. Bestu viðskiptavinir Alcoa og þeir sem hafa borgað þeim mest fyrir álið í gegnum tíðina eru einmitt fyrirtæki í hergagnaiðnaðinum. -

Hvað oft er þeim fleti velt upp í umræðunni um álverin, þ.e. hvort Íslendingar ættu yfirleitt að gera sig háða styrjöldum í heiminum með því að leyfa álrisunum að breyta orku landsins í morðtól. -

 


mbl.is Björk: Magma vinnur með AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar eru lélegir hirðar náttúrunnar

Lundinn á undir högg að sækja í stærstu lundabyggð heimsins, Vestmannaeyjum. Þegar best lét var  fjöldi lunda í og við eyjarnar á sumrin talin vera milli 6 og 8 milljónir. Nú fer hann hríðlækkandi.

Lundin nærist nær eingöngu á loðnu, síld og sandsíli. Ljóst er að við höfum útrýmt bæði loðnu og síld af miðunum í kringum Vestmannaeyjar og ágangur fugla á sandsílastofninn er það mikill að hann dugar ekki til að fæða lundastofninn.

Afleiðingarnar eru að 80% af ungviðinu komist ekki á legg vegna ætisskorts. Þróunin lundastofnsins í Vestmannaeyjum er að taka á sig kunnuglega mynd sem þekkt er frá norður Noregi, Skotlandi og bresku eyjunum fyrir norðan og vestan Skotland þar sem varla sést orðið til Lunda.

Þessi þróun er því miður ekki aðeins bundin við Vestmannaeyjar á Íslandi, heldur allt Suðurland þar sem lundabyggðir á annað borð finnast. Nýlega var ég staddur við Dyrhólaey og sá þá á hálfri klukkusund aðeins til tveggja lunda þrátt fyrir ágætis flugveður.

Þegar að togarar okkar mokuðu upp loðnu og síld, hvarflaði ekki að fólki að það mundi í náinni framtíð hafa svona eyðandi áhrif á aðrar lífverur sem deila með okkur búsetu á þessu landi.

Það er sama hvernig litið er á málin, jafnvægi í náttúrunni er ekki aðeins eftirsóknarvert heldur nauðsynlegt. Því jafnvægi sem ríkti í lífríkinu við Vestmannaeyjar og laðaði að sér lunda í milljónatali, var gróflega og án fyrirhyggju raskað af okkur. Það gerir okkur Íslendinga að lélegum hirðum náttúrunnar.


mbl.is Lundastofn að hrynja í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirbúningur fyrir átökin við Ísland hafinn.

"Démarche" er það skjal kallað sem er formleg diplómatísk yfirlýsing á stefnu, skoðunum og óskum einnar ríkisstjórnar til annarrar eða til fjölþjóðlegra samtaka. Skjalið er afhent formlega til viðeigandi fulltrúa þeirrar ríkisstjórnar eða samtaka sem það er stílað á. - Tilgangur þess er að reyna hafa áhrif á stefnu þeirrar ríkisstjórnar eða mótmæla gjörðum eða stefnu hennar.

Íslensku ríkistjórninni hefur nú borist slíkt skjal sem undirritað er af ríkisstjórnum 26 þjóðlanda, flestum evrópskum, í því skyni að mótmæla hvalveiðum Íslendinga. Sjá frétt.

iceland-whalingHvalveiðar eru yfir höfuð, eins og allir vita, afar umdeildar. Fyrir almenningi í flestum löndum Evrópu er málið mettað tilfinningum og oft eru rök og  vísindalegar niðurstöður að engu hafðar þegar það ber á góma.

Í ljósi erfiðrar fjárhagslegar stöðu Íslands og Icesave samninganna, sem  Gordons Brown vill gera að pólitískri lyftistöng fyrir sig og sinn flokk, þjónar þessi fordæming á hvalveiðum Íslendinga sem liður í að sverta orðstír þeirra og svipta þá samúð almennings. - Næstu vikur og mánuði munu ávirðingarnar eflaust verða fleiri og fjandsamlegri.

Slíkur áróður er nauðsynlegur undanfari harðnandi pólitískra átaka á borð við þau sem framundan eru á milli Gordons og íslensku ríkisstjórnarinnar út af Icesave klúðrinu.

Staða Íslands í samfélagi þjóðanna hefur breyst mikið síðustu ár. Í þorskastríðinu þegar við áttum í deilum við Breta um auðlindir hafsins, var landið mikilvægt NATO og USA frá hernaðarlegu sjónarmiði. Sú staða er nú fyrir bý og ekki lengur hægt að reiða sig á mikilvægi geópólitískrar legu landsins og stuðning USA eða annarra landa við okkur af þeim sökum.

Bæði Bretland og USA eru þekkt fyrri að hunsa alþjóðleg lög í samskiptum sínum við aðrar þjóðir og fara sínu fram eins og þeim sýnist, einkum gegn þjóðum sem lítið mega sín. -


mbl.is 26 þjóðir fordæma hvalveiðar Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Móðir jörð grætur

Tár á tímans hvarmÞessi mynd var tekin í Austfonna jöklinum á eynni Nordaustlandet í Noregi í síðast liðnum júlí mánuði af ljósmyndaranum Michael Nolan. Myndinni hefur ekkert verið breytt og höfundurinn að þessari íshöggmynd er sjálf móðir jörð. 

Tár móður jarðar hafa verið vinsælt yrkisefni ljóðskálda, ekki hvað síst upp á síðkastið þegar í ljós hefur komið hversu mjög er gengið nærri náttúrunni af hendi manna. Segja má að þessi mynd sem er af bráðnun í jöklinum, sé afar ljóðræn og jafnframt táknræn. Móðir jörð grætur örlög sín og okkar, harmar röskun mannsins á jafnvægi náttúrunnar.

Illa gengur að stemma stigu við hitnun jarðarinnar og hver sem hlutur mannsins er í því ferli, eru nú líkur á að það sé orðið of seint að hægja á því hvað þá að koma í veg fyrir það. Á næstu áratugum munu afleiðingar þess fyrir menn og lífríki jarðarinnar yfirleitt verða að fullu ljósar.

 


Ertu sjálfur Alfred inn við beinið?

Hj_rleifsh_f_i_l_p_na'Sumarið er tíminn', söng Bubbi og hafði svo sannarlega rétt fyrir sér. Um leið og ég nálgaðist Reykjavík á föstudags eftir-meðdegi eftir að hafa ekið laufléttan hring í kring um landið (sleppt Vestfjörum að vísu) varð merking þessara orða mér ljós. Það sumar á Íslandi og sumar í íslenskum hugum. Á sumrin gleymast hremmingar vetrarins og allt verður svo bjart og yndislegt.

Frá Hveragerði og inn að Árbæ var stanslaus röð bíla með hústjöld og hjólhýsi í eftirdragi. Þeim sem í bílunum voru leið eflaust ekki ósvipað með umferðina og þeim er sagt að trúa um kreppuna. Þeim er sagt að allir séu hluti af vandmálinu en geti lítið gert sjálfir til að leysa það annað en að bíða þolinmóðir og vona hið besta. 

Allir sem sagt á leið í 'útilegu' eins og hún tíðkast í dag á landinu bláa, eða á ég að segja fjólubláa? Það er meira réttnefni þegar tillit er tekið til hinna víðáttumiklu Lúpínubreiða sem hvarvetna þekja orðið undirlendið. Hún er komin til að græða landið, safna jarðvegi og bægja burtu sóley og fífli sem áður uxu á strjáli í örfoka landinu. Lúpínan hagar sér nefnilega dálítið eins útrásarvíkingur.   

Tjalds_IMG_4276Engin 'kreppumerki' var að sjá á þessum tilkomumikla jeppaflota sem silaðist í austurátt með tjaldvagna og hjólhýsi í eftirdragi og ca. 15.000 kall á tankinum.

Eftir að hafa fylgst með ósköpunum úr fjarlægð, sem yfir landið gengu s.l. mánuði, var fróðlegt að upplifa viðbrögð fólks vítt og breitt um landið frá fyrstu hendi.  Það kom mér reyndar á óvart hversu ólík sjónarmiðin eru.

En samt eiga flestir þrennt sameiginlegt. Það kvarta allir yfir því að upplýsingar berist seint og illa frá stjórnvöldum til almennings. Það kvarta allir yfir því að þeir sem stálu sjóðum landsins skuli ekki refsað og Það kvarta allir yfir því að það finnist hvergi heilræn, hvað þá sameiginleg, sýn á framtíð landsins. 

Ótrúlega margir voru á því að hin marg-umtalaða kreppa væri ekki til nema í fjölmiðlum, mótmælafundum og kannski mest á blogginu. Þeir bentu á líf sitt og þeirra sem þeir þekkja og spurðu; hvað hefur breyst?  -

Aðrir voru þeirrar skoðunnar að kreppan hefði ekki hafist enn fyrir alvöru og fólk muni ekki gera sér ekki grein fyrir því hve alvarlegt ástandið væri fyrr en en skattarnir hækkuðu, launin lækkuðu og vöruverðið færi úr böndunum. En einmitt um það hefur nú náðst sátt meðal pólitíkusanna og sem þegar er búið að undirrita.

alfred_e_neumanÞeir sem eru í ferðamannabransanum kvarta ekkert. Einn hóteleigandinn sagði mér að herbergaverðið hefði lækkað í evrum talið frá því í fyrra. Hann var að byggja, breyta og bæta aðstöðuna hjá sér. Tók lán í svissneskum frönkum og afborganirnar af því láni hafa tvöfaldast á árinu. Samt var hann bjartsýnn. Bankinn hans sagði honum nefnilega að hann væri í A flokki fyrirtækja. Kannski erum við öll Alfred Neuman inn við beinið.

''Þetta  reddast.''

 


Hjátrú er hættuleg náttúrunni

rhino+hornNashyrningar í Simbabve eru að verða útdauðir. Talið er að fjöldi þeirra sé nú aðeins á milli 4-700 dýr. Án róttækra aðgerða munu þeir verða útidauðir í landinu einhvern tíman á næstu fimm árum. Ásókn veiðiþjófa  í nashyrningahorn er haldið uppi af háu verði sem hægt er að fá fyrir hornin bæði í austurlöndum nær og fjær. Einkum eru Það Kínverjar sem ásælast hornin. Í Kína eru þau eru mulin niður í duft sem Kínverjar trúa að geti læknað ýmsa kvilla. Fyrir eitt horn fæst allt að ein milljón króna á svartamarkaðinum í Kína.  

Samkvæmt kínverska sextándu aldar lyfjafræðingnum Li Shi Chen, getur nashyrningshorn læknað snákabit, skyntruflanir, hitasótt, höfuðverki, kartneglur, ælupestir, matareitrun og andsetningu. (Ekki samt kyndeyfð eins og margir halda.)  

poaching-1Til eru allt að þrjú þúsund ára gamlar heimildir um margvíslega notkun nashyrningshorna. Í grískri goðafræði er sagt að þau hafi þá náttúru að geta hreinsað vatn. Í forn-Persíu voru hornin notuð í bikara sem áttu að hafa á eiginleika að geta numið eitur í víni. Sú trú var einnig viðtekin við margar konunglegar hirðar í Evrópu fram á nítjándu öld.

Nashyrningshorn eru aðallega gerð úr keratíni, sem er eitt algengasta efni í heimi. Hár og neglur eru gerðar úr því efni, hófar, skjaldbökuskeljar og fuglsgoggar. Það ætti því að gera alveg sama gagn að naga á sér neglurnar og að gleypa malað nashyrningshorn.

Þessi hjátrú tengd nashyrningshorninu er gott dæmi um hvernig hjátrú og fáfræði í bland við öfgar fátæktar annarsvegar og ríkisdæmis hinsvegar, er náttúrunni hættuleg.

Veiðiþjófar í Simbabve nota mikið kínversk deyfilyf til að fella dýrið. Hljóðlausar loftbyssur eru notaðar til að skjóta því í dýrið svo erfitt er að standa þá að verki. Eftir að hafa höggvið hornin af með exi, skilja þeir nashyrninginn eftir meðvitundarlausan þar sem hann deyr að lokum úr ofhitun. Kjötið af honum er ekki hægt að nýta vegna eitursins í kjötinu.


"Its a little piece of Iceland in my yard"

Svanir og garður 005Fyrir framan hverja íbúð í húsaröðinni þar sem ég bý í borginni Bath á Englandi, eru smá blettir sem íbúunum eru ætlaðir til afnota. Bletturinn fyrir framan íbúðina mína er sá eini sem er ósleginn. Ástæðan er sú að aðeins á þessum litla bletti má sjá blóm sem minna mig á Ísland. Fíflar, biðukollur, sóleyjar og baldursbrár. Ekki að heimþrá kvelji mig neitt sérstaklega, en mér finnst samt gott að geta litið út um gluggann og séð eitthvað afar kunnuglegt. Ég hef tekið eftir því að þessi blóm er hvergi að finna í öðrum húsgörðum hér í kring. En í garðinum mínum dafna þau vel. Jafnvel á túninu sem liggur niður að ánni Avon hinumegin við götuna, sjást þau hvergi. 

Nágrannar mínir halda auðvitað að ég sé bara svona latur að ég nenni ekki að slá blettinn. En þeir sem hafa haft orð á þessu við mig hafa fengið þessa skýringu. "Its a little piece of Iceland in my yard".

Svanir og garður 001Annars hef ég verð dálítið miður mín undafarna daga. Álftaparið sem ég bloggaði um fyrir stuttu lenti greinilega í einhverjum hremmingum með varpið. Fyrir nokkrum dögum kom ég að hreiðrinu og sá að það var autt. Tvö egg lágu út í vatninu, enginn skurn eða neitt í hreiðrinu og hvorugt þeirra hjóna sjáanlegt á ánni.

Maður nokkur sem sá að ég var að skyggnast um eftir þeim, stoppaði mig og sagði að það væri haldið að varpinu hefði verið spillt af einhverjum pörupiltum. Ég tók þessa skýringu trúanlega og syrgði í hljóði mennska ónáttúru.

Í dag gekk ég upp með á og viti menn. Í grennd við hreiðrið sá ég hvar hjónin komu siglandi og ekki var betur séð en að á baki karlsins sætu tveir örsmáir dúnboltar. Hvað sem gerðist tókst frúnni greinilega að klekja út tveimur eggjum, og það var alla vega nóg til að ég tæki gleði mína á ný.


Wabi-sabi

370525901_e003441123Wabi-sabi er Japanskt hugtak og tjáir tærustu fagurfræðilegu skynjun Japana. Hugtakið á rætur sínar að rekja til Búddískra kenninga um þrjú einkenni lífsins; forgengileika, ófullnægju og sjálfsleysi.

Það er notað um  allar tegundir myndlistar, nytjalist, arkitektúr og landslagshönnun. Wabi-sabi er fegurð hins ófullkomna og forgengilega, þess gallaða og ókláraða. Það er fegurð hins auðmjúka og auvirðilega og um leið hins óhefðbundna og einfalda. 

wabisabi_bathroom_alEf þú spyrð Japani hvað Wabi-Sabi sé, verður þeim oft fátt um svör. Allir Japanir vita hvað það er, en finna ekki orðin til að lýsa því. Orðin tvö hafa mismunandi merkingu þegar þau eru notuð í sitt hvoru lagi.

Sumir vesturlandabúar hafa sett wabi-sabi á bekk með hinni kunnu kínversku Feng shui speki, en þótt hugtökin skarist að nokkru þar sem bæði hafa víðtæka skírskotanir, er hugmyndafræðin að baki þeim ólík.

Orðin wabi og sabi eru bæði notuð sér í daglegu tali. Þau eru aðeins notuð saman þegar fagurfræði ber á góma. Sabi er oftar notað um efnislega listræna hluti, ekki um hugmyndir eða ritverk.

 

Black_Raku_Tea_BowlWabi tjáir fullkomna fegurð sem hefur rétta tegund ágalla, rétt eins eðlilegt munstrið sem sjá má á handgerðri leirskál en ekki í verksmiðju framleiddri skál með fullkomlega skínandi sléttri áferð og er sálarlaus framleiðsla vélar. Gott dæmi um það sem kallað er wabískur hlutur eru stífpóleraðir svartir herklossar sem á hefur fallið ryk þegar þeir voru notaðir við skrúðgöngu. Margir japanskir dýrir vasar eru gljáandi og kolsvartir með grárri rykslikju. 

Sabi er sú tegund fegurðar sem aldurinn ber með sér, eins og patína á gamalli bronsstyttu. Sabishii er í daglegu tali notað yfir eitthvað sorglegt, eins og t.d. sorglegan endi í kvikmyndum. En orðið yfir ryð er líka borið fram sabi.


Martröð Darwins

darwins_nightmareÞað er langt síðan ég hef séð aðra eins hrollvekju og þessa kvikmynd sem fór algjörlega fram hjá mér á sínum tíma. Það er eins og sjálfur Dante hafi verið með í að skapa umgjörðina fyrir þessa kvikmynd sem er frá árinu 2004 og er frönsk-belgísk-austurrísk heimildarmynd um fiskveiðar og fiskverkun við Viktoríuvatn í Tansaníu.

Hún lýsir með viðtölum við innfædda fiskimenn, frystihúsaeigendur, hórur og flugmenn, sem búa í Mwanza, hvernig ferskvatnsfiskinum Nílar-Karfa var sleppt í vatnið fyrir nokkrum ártugum og hvernig  hann er á góðri leið með að eta upp allt lífríki vatnsins.

Karfnn getur orðið allt að 200 kg. þungur en um 50 tonnum af fullunnum karfa-flökum er flogið til annarra landa daglega á meðan innfæddir hafa hvorki í sig eða á.

Fiskurinn er of dýr til að borða hann.

Kvikmyndina má sjá í fullri lengd með því að smella á myndina hér til vinstri. Ég hvet alla sem þetta lesa að horfa á hana, ef þeir hafa ekki séð hana nú þegar.

 

Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna og hefur auk þess hlotið mörg verðlaun á kvikmyndahátíðum víða um heim. Frekari upplýsingar um myndina á ensku, má finna hér.

Í umfjöllun sinni um myndina sem var sýnd á kvikmyndahátíð í Gautaborg 2005, skrifar Ari Allansson;Lates_niloticus_2

Martröð Darwins gerist á bökkum Viktoríuvatns, sem er næst stærsta stöðuvatn í heimi og á Níl upptök sín þar.  Myndin segir frá því hvernig á sjötta áratugnum, einn maður, með eina fötu fulla af fisktegund sem ekki fannst í vatninu áður, hellti úr fötunni í vatnið, og sjá, ný fisktegund fannst í Viktoríuvatni.  Þessa fisktegund, Nile Perch (Nílarkarfi), sem er auðvelt að veiða og gefur af sér mikið kjöt, étur aðrar fisktegundir svo heilu stofnarnir hafa horfið úr vatninu.  Vistkerfi Viktoríuvatns hefur veikst til muna og nú er svo komið að menn óttast um framtíða lífríki þess.  Á meðan  innfæddir deyja úr hungri og af alnæmi á bökkunum, lítil börn sniffa lím og sofa á götunum, eru risavaxnar flutningaflugvélarnar að flytja Nílarkarfa til Evrópu, þar sem fiskurinn er seldur dýru verði.  Og ekki nóg með það, heldur þegar flugvélarnar snúa aftur, hafa þær meðferðis vopn, svo að fólkið í Tanzaníu geti murrkað lífið úr hvort öðru, þar að segja þeir sem lifa af hungursneyð og alnæmi.  Myndin er næsta martraðarlík og maður skammast sín næstum fyrir að búa og hafa alist upp í vestrænu landi. Sérstaklega í senu þar sem sendiherrar Sameinuðu þjóðanna og fulltrúar World Bank, sitja á málþingi í Tanzaníu og tala um hvað vel hafi gengið að koma á efnahagskerfi í landinu. Vei sé þeim sem heldur að nýlendustefnan og arðránið í þriðja heiminum sé liðið undir lok. 

Ég þakka Ingó kærlega fyrir þessa ábendingu


Lunda-hundar

OriginalLunda-hundar eru norskt Spitzættað hundakyn sem ræktað var í norður Noregi í mörg hundruð ár, einkum til lundaveiða. Hundarnir voru notaðir til að grafa sig inn í lundaholurnar og ná þar í lundann. Lunda-hundur hefur venjulega sex tær eða auka tá á hverju fæti, sem gerir honum gröftinn inn í lundaholurnar auðveldari og honum skrikar síður fótur á hálum steinum eða í bröttum brekkum. Að auki eru öll liðamót hans afar sveigjanleg sem gerir honum möguleg að troða sér inn í og koma sér aftur út úr mjög þröngum göngum.

Lundehund-labbHann getur beygt sig upp á við og afturábak og hann getur snúið framfótleggjum í 90 gráður. Hann getur lokað uppreistum eyrunum með því að fella þau fram eða aftur. Þegar að Lundaveiðar lögðust af í Noregi og með tilkomu svokallaðs hundaskatts,  minkaði áhugi fyrir Lunda-hunda-haldi uns þar kom að, að tegundin var nánast útdauð.

puffin_underground_PHOTOSHOT_510x286Í kring um aldamótin 1900 voru aðeins fáeinir Lunda-hundar eftir í Mostad í Lófóten. Þegar að heimstyrjöldin síðar skall á, herjaði hundaæði í Værey og nágrenni sem enn tók toll af stofninum. 1963 var svo komið að aðeins 6 Lunda-hundar fundust í heiminum, einn í Værey og fimm á Hamri í norður Noregi. Allir þessir fimm voru sammæðra.

Með afar nákvæmu eftirliti með æxlun þessara eftirlifandi hunda hefur tekist að endurreisa stofninn og nú eru taldir vera á milli 1500 og 2000 Lunda-hundar til í heiminum. Flestir þeirra, 1100 eru í Noregi en a.m.k. 350 í Bandaríkjunum.

Þegar ég vann sem leiðsögumaður í Vestmannaeyjum, minntust norskir ferðamenn stundum á Lunda-hunda, þegar þeim var skýrt frá veiðiaðferðum Eyjamanna. Mér vitanlega hafa hundar aldrei verið notaðir á Íslandi til að grafa út lundann út holum sínum.

Meira hér um þetta sjaldgæfa hundakyn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband