Svanir á Avon á

Í gegnum miðja borgina Bath á Englandi rennur áin Avon. Avon þýðir reyndar "á" á keltnesku en líklega voru það Rómverjar sem festu þetta heiti við ána í sessi og það er í sjálfu sér auðvelt að ímynda sér hvernig það gerðist. Bókstaflega þýðir fyrirsögnin því; Svanir á á á.

SkurðabáturÞar sem ég bý svo til á árbakkanum eru gönguferðir mínar oftast meðfram ánni. Áin er lygn og í henni er að finna fjölda skipastiga sem gera skurðabátum mögulegt að sigla um hana. Skurðabátar þessir sem áður fyrr voru helstu vöruflutningatæki þessa svæðis, eru nokkuð vinsælir sem fastabústaðir og liggja því summir hverjir bundnir við bakkann allt árið.

Fyrir nokkrum vikum veitti ég athygli svanapari sem var í óða önn að byggja sér hreiður við árbakkann, spölkorn frá íbúðinni minni.

Í heiðrið verpti frúin fimm eggjum. Nokkrum dögum seinna missti hún eitt þeirra út fyrir hreiðrið og það festist milli greinanna sem þau höfðu hrúgað saman til að vera undirstöður hreiðursins.

Home livingroom 018Þrátt fyrir mikið bras og óteljandi tilraunir tókst þeim hjónum ekki að bjarga egginu upp í hreiðrið aftur.  En fjögur egg eru eftir og nú bíð ég, eins og þau væntanlega líka, spenntur eftir að þau klekist út en það getur tekið allt að einn og hálfan mánuð er mér sagt.

Eins og svana er siður, svamlar karlfuglinn í kringum hreiðrið og sest sjálfur á eggin þegar frúin þarf að bregða sér frá. Ég smellti þessum myndum af frúnni í dag. Hún var allt of upptekin við að snyrta sig og veitti mér litla athygli. Aldrei þessu vant var karlinn hvergi nærri. Vona að ekkert alvarlegt hafi komið upp á.

Home livingroom 020Home livingroom 019


Eru sjálfsvíg "smitandi" ?

Lucy Gordon ein efnilegasta leikkona Breta framdi sjálfsvíg um nótt eina fyrir nokkrum dögum. Lucy bjó ásamt kærastanum sínum í leiguíbúð í París og það var hann sem fann hana þegar hann vaknaði um morguninn hangandi í reipi sem hún hafði bundið utan um bjálka í loftinu. Lucy var lucygordonfourfeathersint28 ára þegar dún dó, jafngömul og mótleikari hennar í kvikmyndinni "Fjórar fjaðrir"(2002) Heath Ledger þegar hann lést, einnig á válegan hátt,  í búð sinni í New York á síðasta ári.

Lucy hafði nýlokið við að leika  kvikmyndinni Serge Gainsbourg, vie héroïque, sem er um ævi og starf franska tónlistarmannsins Serge Gainsbourg. Þar fór hún þar með hlutverk hinnar bresku ástkonu Serge, Jane Birkin. (Frægasta lag hans er án efa "Je t'aime... moi non plus," 1969,  þar sem Serge og Jane stynja saman eins og í ástaratlotum en lagið var upphaflega tekið upp með Brigitte Bardot.)

heathLedgerSvipað og hjá Heath Ledger var ferill Lucy rétt að byrja. Eftir farsælan feril sem fyrirsæta hóf hún að leika í kvikmyndum. Árið 2007 lék hún fréttakonuna í Spiderman og 2008 fór hún með stórt hlutverk í hinni stórgóðu mynd Frost.

Samkvæmt heimildum frá foreldrum og vinum, virtist allt leika í lyndi hjá Lucy. Skýringar á framferði hennar liggja ekki á lausu. Það eina sem komið hefur fram er að nýlega fékk hún slæmar fréttir að heiman. Vinur hennar hafði framið sjálfsvíg. Vangaveltur fólks ganga út á hvort þessar fréttir hafi haft svona mikil á hrif á Lucy að hún hafi ákveðið að taka sitt eigið líf.

Læknar og sáfræðingar hafa lengi haldið því fram að sjálfsvíg geti verið "smitandi", sérstaklega á meðal ungs fólks. Mikið er til af dæmum um að ungmenni fremji sjálfsvíg í "öldum" og oft verði fréttir af sjálfsvígum til að aðrir herma eftir.

werther_color-798085Þetta er alls ekki nýtt fyrirbrigði. Þvert á móti er þetta kallað "Werther heilkennið" eftir skáldsögu Goethe  Die Leiden des jungen Werther  (Sorgir hins unga Werther) sem kom út árið 1774. Í kjölfarið bókarinnar áttu sér stað fjöldi sjálfsvíga meðal ungmenna í Evrópu og í sumum löndum var bókin bönnuð til að vernda hina viðkvæmu.

Miðað við rannsóknir sem hafa verið gerðar í Bandaríkjunum er tvisvar til fjórum sinnum meiri hætta á að unglingar á aldrinum 15-19 ára verði fyrir smitáhrifum af fréttum um sjálfsvíg. Þá er það einkum athyglisvert að sumar kannanir hafa getað sýnt fram á tengsl milli þess hversu oft fréttir eru sagðar af sjálfsvígum og tíðni sjálfsvíga í kjölfarið. Til dæmis kom í ljós þegar að frægur aðili Austurríki framdi sjálfsvíg með  skotvopni og um það var fjallað ýtarlega í slúðurblaði einu, mátti rekja sjálfsvígsölduna sem á eftir fylgdi til sömu slóða og dreifing blaðsins var sem mest. 

Þá er einnig ljóst að sjálfsvíg þekktra einstaklinga er fjórtán sinnum líklegra til að verða til þess að aðrir hermi eftir en þegar óþekktir einstaklingar eiga í hlut. 

Þrátt fyrir að sjálfsvígsöldur meðal unglinga fái yfirleitt meiri umfjöllun en önnur sjálfsvíg, eru þau tiltölulega lítill hluti af heildarmyndinni. Fjárhagslegar aðstæður, aldur og heilsa eiga mun meiri þátt en eftirherma eða "smit".

Á Vesturlöndum hefur t.d. sjálfsvíg ungra manna farið hraðfækkandi frá 1970 og er á það bent að almenn velmegun  eigi sinn þátt í því. Það sama er að segja um sjálfvíg kvenfólks, þótt munurinn sé minni.


Hvað á að gera við bólgið sjálf?

117073917_51375f15be"Það sem við óttumst mest er ekki að við séum ófullkomin. Það sem við óttumst mest er að við séum óendanlega voldug. Það er ljósið í okkur, ekki myrkrið, sem við hræðumst mest. Við spyrjum sjálf okkur að því;"hvers vegna ætti ég að vera snjöll, fögur, hæfileikarík og fræg?" Spurningin ætti frekar að vera, "hvers vegna ekki ég." Þú ert barn Guðs. Að látast vera lítilfjörlegur þjónar ekki  heiminum. Það er ekkert göfugt við að skreppa saman svo fólk finni ekki fyrir óöryggi í nálægð þinni. Við vorum fædd til að opinbera dýrð Guðs sem er innra með okkur. Hún býr ekki aðeins í sumum okkar, heldur öllum. Þegar þú lætur eigið ljós skína gefur þú ómeðvitað öðru fólki leyfi til að gera slíkt hið sama. Þegar við losnum við eigin ótta, frelsar nærvera okkar sjálfkrafa aðra."

Monarch_butterfly_7Ég rakst á þessa tilvitnun á fésbókarsíðu frænku minnar, reyndar á ensku, en ákvað að snara henni og birta hana hér á blogginu til gamans og fróðleiks. Tilvitnun kemur frá Marianne Williamson sem er bandarískur rithöfundur og predikari í svo kallaðri Einingarkirkju sem var stofnuð í Bandaríkjunum á síðari hluta 19. aldar. Meira um hana að finna hér fyrir áhugasama.

Það sem vakti áhuga minn við efni þessarar tilvitnunar er að hún fjallar um sjálfsmynd okkar. Flestum þykir mont og sjálfhælni leiðinlegir persónueiginleikar en samt finnum við öll fyrir kenndum sem hæglega geta orðið að grobbi og monti sé þeim ekki rétt stýrt. Marianne bendir þarna á frábæra leið til að horfa á okkur sjálf í þessu tilliti. Sjálfupphafningartilfinningin er tempruð með þeim tilgangi að vera öðrum hvatnig.


Bob Dylan "The words are a stolen"

bob_dylan_narrowweb__300x479,0Þegar að Bob Dylan var 16 ára  (1957) sendi hann ljóð sem hann sagði vera eftir sjálfan sig til birtingar í blaði sem gefið var út af sumarbúðum fyrir drengi. ( Herzl Camp in Webster,Wis) 

Ljóðið heitir  "Little Buddy” og hefur oft verið tekið sem dæmi um snilli Dylans sem skálds, jafnvel á unga aldri. Frumritið af ljóðinu á að selja í næstu viku á uppboði og er vonast til að fyrir það fáist allt að 10.000 dollarar en það eru Herzl sumarbúðirnar sem eiga frumritið.

hank1rNú hefur komið í ljós að "ljóðið" er að mestu leiti sönglagatexti eftir kanadíska sveitalagasöngvarann Hank Snow sem hann gaf út á plötu 11 árum áður en Dylan sendi inn "ljóðið sitt" til Lisu Heilicher sem þá var 16 ára og ritstjóri búðablaðsins. (Lisa varðveitti frumritið í 50 ár og lét það búðunum eftir nýlega til að afla því fé.)

Hér getur að líta "ljóð Dylans" og svo texta Hanks (d.1999) til samanburðar .

"Little Buddy” 

eftir Dylan

Broken hearted and so sad
Big blue eyes all covered with tears
Was a picture of sorrow to see

Kneeling close to the side
Of his pal and only pride
A little lad, these words he told me

He was such a lovely doggy
And to me he was such fun
But today as we played by the way

A drunken man got mad at him
Because he barked in joy
He beat him and he’s dying here today

Will you call the doctor please
And tell him if he comes right now
He’ll save my precious doggy here he lay

Then he left the fluffy head
But his little dog was dead
Just a shiver and he slowly passed away

He didn’t know his dog had died
So I told him as he cried
Come with me son we’ll get that doctor right away

But when I returned
He had his little pal upon his knee
And the teardrops, they were blinding his big blue eyes

Your too late sir my doggy’s dead
And no one can save him now
But I’ll meet my precious buddy up in the sky

By a tiny narrow grave
Where the willows sadly wave
Are the words so clear you’re sure to find

Little Buddy Rest In Peace
God Will Watch You Thru The Years
Cause I Told You In My Dreams That You
Were Mine

 

Little Buddy

eftir Hank Snow


Broken hearted and so sad, golden curls all wet with tears,
'twas a picture of sorrow to see.
Kneeling close to the side of his pal and only pride,
A little lad these words he told me.

He was such a lovely doggie and to me he was such fun,
but today as we played by the way
A drunken man got mad at him because he barked in joy,
He beat him and he's dying here today.

Will you call the doctor please and tell him if he comes right now,
he'll save my precious doggie 'cause I'll pray.
Then he stroked the fluffy head but his little pal was dead,
Just a shiver and he slowly passed away.


He didn't know his dog had died, so I told him as he cried
"Come with me son we'll get that doctor right away"
"But I can't leave him here alone, I must get my doggie home
So while you're gone I'll kneel beside him, sir and I'll pray."

But when I returned he had his little pal upon his knee
And the teardrops they were blinding his big blue eyes,
"You're too late, sir my doggie's dead and no help can save him now
But I'll meet my precious Buddy up in the sky."

By a tiny narrow grave, where the willows sadly wave,
are these words on a shingle of pine:
"Little Buddy rest in peace, God will watch you thru' the years,
'Cause I told Him in my prayers that you were mine."

 


Ísland í 4. sæti

image001Íslenskar þingkonur komu saman til að fagna því að fleiri konur sitja nú á alþingi en nokkru sinni fyrr. Konur sitja í 27 af 63. þingstólum sem er 42.9% af heildafjöldanum. Þegar listinn yfir hlutfall fjölda kvenna á löggjafaraþingum landa heimsins er skoðaður sést að hinn góði árangur kvenna í síðustu kosningum lyfti Íslandi upp í fjórða sæti.

Efst á þeim lista trónir Afríkulandið Rúanda þar sem rúmar tíu milljónir manns búa. Landið sem er einna þekktast fyrir skelfileg þjóðarmorð sem áttu sér stað þar 1994 var fyrsta þjóðin í heiminum sem konur voru kosnar í meiri hluta á löggjafarsamkundu þjóðlands.

Í Rúanda sitja konur í 45 af 80 sætum þingsins sem er hlutfallslega 56.3%

ime_7441Í öðru sæti eru grannar okkar og frændur Svíar. Á Sænska þinginu sitja 164 konur en alls er fjöldi þingsæta 349. Hlutfall kvenna er því 47%

Í þriðja sæti er Kúba. Þar eru þingsæti alls 614 en konur sitja í 265 þeirra sem er hlutfallslega 43.2%

Það vakti athygli mína að Bretland er í 58. sæti á listanum, en þar er hlutfall kvenna á þingi aðeins 19.5%.

Bandaríkin eru enn neðar, eða í 70. sæti með 16.8%.

Þeir sem vilja rýna enn frekar í þennan merka lista, geta gert það HÉR

 


Aðvörun

Þegar ég verð gömul kona mun ég klæðast fjólubláu
við rauðan hatt sem ekki passar og fer mér ekki.
Og ég mun eyða lífeyrinum í koníak og sumarhanska.
Og satín sandala og segja að engir peningar séu til fyrir smjöri.
Ég ætla að setjast niður á gangstéttina þegar ég er þreytt
og háma í mig sýnishorn í búðum og hringja viðvörunarbjöllum
og renna prikinu mínu eftir grindverkinu
og bæta mér upp hversu stillt ég var í æsku.
Ég ætla út í rigninguna á inniskónum
og tína blóm úr görðum annars fólks
og læra að hrækja.

Þú getur klætt þig í hræðileg pils og fitnað meira
og þú getur borðað þrjú pund af pylsum í einu
eða bara brauð og súra gúrku í viku
og safnað pennum og blýöntum, glasamottum og hlutum í boxum. 

En núna verðum við að klæðast fatnaði sem heldur okkur þurrum
og borga leiguna og ekki bölva úti á götu
og setja börnunum gott fordæmi.
Við verðum að bjóða vinafólki í mat og lesa blöð.

En kannski ætti ég að æva mig dálítið núna?
Svo fólk sem þekkir mig sjokkerist ekki og undrist
Þegar ég allt í einu verð gömul og byrja að klæðast fjólubláu.


Jenny Joseph

jenny_josephJenny Joseph (f. 1932) er ensk skáldkona. Ljóðið hennar "Aðvörun" sem ég tók mér það bessaleyfi að snúa á íslensku og birta hér að ofan, (ekki af tilefnislausu) var árið 1996 kosið vinsælasta ljóðið sem samið hefur verið eftir seinni heimsstyrjöldina í Bretlandi. Fyrir kosningunni stóð BBC.

Ljóðið hefur haft mikil áhrif á konur um allan heim og í Bandaríkjunum var t.d. stofnaður Rauðhatta-klúbbur kvenna sem koma saman til að drekka te í fjólubláum kjólum og með rauða hatta.  

Hugmyndin að Rauðhattaklúbbnum kviknaði þegar Sue Ellen las ljóðið „Warning" eftir Jenny Joseph sem segir frá eldri konu sem klæðist fjólubláum fötum og ber rauðan hatt. Ljóðið hreif Sue Ellen svo að hún ákvað að gefa vinkonu sinni ljóðið ásamt rauðum hatti í afmælisgjöf. Vinkonan varð einnig svo hrifin að hún gaf fleirum sömu gjöf og svona hélt þetta áfram. Einn daginn ákveður þessi hópur að hittast í fullum skrúða, það er að segja í fjólubláum fötum sem passa alls ekki við rauða hattinn og það varð ekki aftur snúið. Rauðhattaklúbburinn varð til. 

Sue Ellen Cooper stofnaði Rauðhattaklúbbinn árið 1998 og í dag eru Rauðhettir í Bandaríkjunum og Kanada að nálgast hálfa milljón og klúbburinn er byrjaður að skjóta rótum í Evrópu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.


Hefur ekki baðað sig í 35 ár

Kailash_Kalau_SinghHann heitir  Kailash ‘Kalau’ Singh og er frá litlu þorpi skammt frá hinni "helgu borg" Varanasi á Indlandi. Hann er 63. ára og faðir sjö dætra. Hann hefur ekki þvegið sér eða baðað sig í 35 ár vegna þess að honum langar til að eignast son. (Af þessari nýlegu mynd að dæma er hér kannski komin góð aðferð til að halda sér ungum. Singh lítur ekki út eins og 63 ára gamall maður)

Madhusudan, einn af nágrönnum Singh, segir að sjáandi nokkur hafi mælt svo fyrir um að ef Singh baðaði sig ekki, mundi honum auðnast að geta sveinbarn með konu sinni.

younggirlsMargir Indverjar óttast um afkomu sína ef þeir eignast ekki syni til að sjá fyrir þeim í ellinni. Greiða verður heimamund með stúlkum þegar þær giftast og allt sem þær vinna sér inn, rennur til fjölskyldu bónda þeirra. Stúlkubörn eru því álitin byrði frekar en blessun.

Í 35 ár hefur herra Singh ekki baðað sig, en þrátt fyrir þessa einlægu viðleitni hefur hún ekki borið árangur. Herra Singh á enn engan son.

Óhreinlætið hefur verið honum dýrkeypt. Fyrrum átti hann matvöruverslun en fór á hausinn með hana þegar kúnnarnir hættu að koma vegna þess hversu illa hann lyktaði. Í dag vinnur hann sem daglaunamaður á ökrunum í kringum þorpið þar sem hann býr. Fjölskylda hans hefur líka útskúfað honum fyrir að vilja ekki undirgangast hefðbundin böð í ánni Ganges, jafnvel ekki eftir dauða bróður hans fyrir fimm árum.

Þótt nágranni Singh segi að svona sé sagan, segist hann sjálfur ekki muna hvernig óhreinlætiseiðurinn er til kominn. Stundum segist hann gera þetta í þágu þjóðarinnar. "Ég mun enda eið minn þegar öll vandmál þjóðarinnar hafa verið leyst" er haft eftir herra Singh.

2749296559_f386b365c3Þótt Singh neiti að baða sig upp úr vatni eða þvo sér, iðkar hann eldböð. Eldbað fer þannig fram að hann stendur á einum fæti nálægt litlum eldkesti, reykir maríjúana og fer með bænir til drottins Shiva. Hann segir að eldsböð séu alveg jafn góð og vatnsböð því eldurinn drepi allar bakteríur og veirur.

Herra Singh þrífur að sjálfsögðu heldur ekki tennur sínar.

Miðað við ástandið á honum er í sjálfu sér ekki undravert að hann hafi ekki eignast sveinbarn. Það sem er undravert er að hann hafi yfirleitt getið af sér börn.


Hvernig vinkona á móðir að vera dóttur sinni?

1316901660_9e65407e9bHversu mjög hafa ekki hefðbundin tengsl mæðra við dætur sínar raskast í nútíma samfélagi þar sem æskudýrkun eru hin nýju trúarbrögð. Þau trúarbrögð eru kennd í fjölmörgum drasl-sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, tímaritum og dagblöðum þar er hin fullkomna kvenlega ímynd birtist sem ungt og magurt kynferðislegt rándýr.

Það er ekki nóg að ungar stúlkur hljóti varnalegan sálarkaða af þessum heilaþvotti því mikill fjöldi mæðra ungra stúlkna hefur tekið trúna og fórna þar með þörfum dætra sinna fyrir það sem þær skynja sem sínar eigin þarfir. Þær virðast trúa því að æsku-elexírinn sé raunverulega til og að ekkert standi á móti því að þær taki hann inn í hvaða formi sem þeim þóknast.

article-1183868-04FAF579000005DC-958_196x661article-1183868-04FAF8F2000005DC-95_196x661article-1183868-04FAF8FA000005DC-891_196x661Bótoxaðar í framan eins og hrædd harðsoðin egg og í g-streng sem þær eiga í erfiðleikum með að finna þegar þær afklæðast eða fara á salernið, reyna þær að herma eftir öllu  sem er ungt.

Þetta eru konurnar sem segjast vera "bestu vinkonur" dætra sinna og "deila öllu með þeim."  - Ekki af því að dæturnar séu sérstaklega andlega bráðþroska, heldur vegna þess að mæðurnar virðast þurfa að sanna fyrir sér og öðrum að þær hafi sjálfar hætt að þroskast og séu enn 17 ára inn í sér.

Klæðaburður þeirra og farðanotkun bendir  til að þær hafi ekki áttað sig á að hverju aldurskeiði tilheyrir ákveðin stíll. Ég er ekki endilega að tala um Bridget Jones naríur, heldur að klæðnaðurinn sé í einhverju samhengi við aldur og vaxtarlag. Þær hafa heldur ekki áttað sig á því að hverju aldurskeiði fylgir ákveðið hlutverk sem er nauðsynlegt að rækja til að samfélagið lendi ekki í upplausn.

article-1183868-04FAF929000005DC-425_196x653article-1183868-04FAF91E000005DC-107_196x653article-1183868-04FAF943000005DC-996_196x653Stúlkur þurfa fyrirmyndir, sallarólegar mæður og frænkur sem geta hlustað, talað af reynslu og sýnt þeim stuðning án þess að vera með stöðugan samanburð í gangi.

Mæður verða að skilja að þeirra æskufegurð og blómatími er liðinn.  Og jafnvel þótt þær séu einhleypar og eigi eitt eða tvö hjónabönd að baki, ættu þær í samræðum sínum við dætur sínar að forðast klisjur eins og; "Já, gvuð ég veit, þetta er alveg eins hjá mér. Karlmenn...þeir gera mann brjálaðan"

Rétt eins og unglingsárin séu ekki nógu erfið fyrir stúlkur nú til dags, án þess að þurfa að horfa á miðaldra mömmur sínar á yfirvofandi breytingarskeiði, reyna að haga sér og tala við þær eins og eldri systur þeirra frekar en mæður og leiðbeinendur.

Mér finnst það hafa færst mikið í vöxt síðustu ár að konur vilja hvorki horfast í augu við aldurskeið sín eða þau hlutverk sem þeim fylgja. Í staðin reyna þær eins og vampírur að sjúga blóð hinna ungu til að halda sér gangandi. Og þetta er því miður smitandi. Ungar stúlkur sem gjarnan skrifa til kvennadálkahöfunda greina í auknum mæli frá þeim óskum sínum að vilja helst aðeins ala af sér stúlkubörn svo þær geti eignast vinkonur til lífstíðar. 


Harry Potter og leyndarmál batnandi efnahags

daniel+radcliffe_855_18495499_0_0_7004955_300Ekki hafa allir þurft að lúta í gras fyrir kræklóttri krumlu kreppunnar og sumum vegnar betur nú en nokkru sinni fyrr. Svo er um hinn 19 ára gamla Daniel Radcliffe, þann sem leikur hinn magnaða og göldrótta Harry Potter. Á síðasta ári óx auður hans um 10 milljónir punda sem gerði hann að auðugasta táningi Bretlands og í 12 sæti yfir auðugustu ungmenni landsins þegar miðað er við þá sem eru 30 ára eða yngri. Áætlaður auður Daniels er í dag um 30 millj. punda og mun að líkindum verða yfir 70 millj. þegar að sjöunda og síðusta Harry Potter kvikmyndin kemur út. Daníel er ríkari en prinsarnir þeir; William og Harry sem hvor um sig eiga 28 millj. punda.

emma+watsonEmma Watson, einn af mótleikurum Daníels, þ.e. sú sem leikur Hermione Granger, í kvikmyndaútgáfunni af verkum JK Rawling, er sögð eiga 12 millj. punda og kemst þannig einnig á blað yfir 100 ríkustu ungmenni landsins.

Sjálf þurfti Rawling að sjá á bak talsvert mörgum af sínum milljónum, því auður hennar skrapp saman heil 11% og féll úr 560 millj. pundum niður í 499.

sport-graphics-2007_710052aFlestir á listanum yfir 100 ríkustu ungmennin hafa erft peningana sína og það eru aðeins tveir ungir menn sem sjálfir hafa aflað sér meira fé en Daníel. Þeir eru Formúlu l ökuþórinn Jenson Button og hrakfallabálkurinn og framherji Newcastle, Michael Owen, hvor um sig talinn eiga 40 millj. punda.

Á síðasta ári féll tala Billjónera á Bretlandi úr 75 niðrí 43. Það hlýtir að hafa verið skelfilegt fyrir þetta fólk að horfa á eftir öllum þessum billjónum, hvert sem þær fóru nú allar.

LakshmiMittalPA_228x329Sá sem tapaði mest af peningum af öllum í Bretlandi er auðjöfurinn Lakshmi Mittal. Hann tapaði 17 billjónum punda og nú á hann aðeins 10.8 billjónir eftir. Hann er samt áfram ríkastur allra Breta.

Roman Abrahamovich tapaði líka talverðu og innstæðan hans féll frá 11,7 billjónum í 7. Hann er annar ríkasti maður Bretlands.

Bæði Lakshmi og Roman voru auðvitað ekki fæddir Bretar en það var sá sem er þriðji ríkasti maður landsins, Hertoginn af Westminster sem á í fasteignum 6.5 billjónir. Hann erfði jafnframt mest af sínum auði.

Nokkrir af auðugustu mönnum landsins töpuðu ekki, heldur græddist talvert fé í kreppunni.

money+eatin+apeÁ meðal þeirra er Sir Kevin Morrison, fyrrverandi yfirmaður Morrisson verslanakeðjunnar. Hann græddi 11% á árinu og á núna 1,6 billjón punda. Þá jók Mohamed al Fayed, eigandi Harrods auð sinn um 17% og á í hólfinu sínu 650 millj. En hlutfallslega græddu þau Peter og Denise Coates, eigendur net-veðmálsíðunnar BET356, mest allra.  Peningarnir þeirra jukust um þriðjung og þau eiga nú 400 millur í pundum.

PS. Að lokum þetta, margur verður af aurum api og það er auðveldara fyrir kameldýr að komast í gegnum nálarauga en fyrir ríkan mann að komast til himnaríkis, að maður tali ekki um ríkan apa.


Elur sitt fyrsta barn 66 ára gömul

adeneyÞessi kona heitir Elizabeth Adeney. Hún er sextíu og sex ára, einstæð og eins og sést á þessari nýlegu mynd, kasólétt. Elizabeth sem er ógift og vinnur sem millistjórnandi í stóru fyrirtæki í Lidgate í Suffolk, mun ala barn sitt (son segja heimildir)  í næstu viku ef allt fer eftir áætlun, aðeins fáeinum vikum fyrir 67. afmælisdag sinn. Elizabeth verður þá elsta kona sem alið hefur barn í Bretlandi.

" Það skiptir mig engu máli hvort ég verði elsta mamman í landinu. Það er ekki líkamlegur aldur sem skiptir máli, heldur hvernig mér líður inn í mér. Stundum finnst mér é sé 39 ára og stundum eins og ég sé 56." er haft eftir hinni fráskildu og fram að þessu barnlausu Elizabeth.

" Ég er fullkomlega fær um að sjá um mig sjálf þótt ég ég sé einstæð og eigi enga nákomna að. Það hef ég gert í mörg ár. Þetta verður bara ég og barnið mitt. Ég veit að það er fullt af fólki sem ekki mun skilja þetta, en mér er sama"

Elizabeth varð ófrísk eftir að hún hafði gengist undir gervifrjóvgun í Úkraínu. Í Bretlandi er konum yfirleitt neitað um slíka meðferð er þær eru eldri en fimmtugar.


Smáfólkinu í Afríku nauðgað.... aftur

African_Pigmies_CNE-v1-p58-BÍ mörgum Afríkulöndum er að finna ættbálka smávaxins fólks sem kalla sjálfa sig ýmsum nöfnum eins og Aka, Baka, Mbuti og Twa. Hver þessara ættbálka er samsettur af ættflokkum sem einnig bera sérstök heiti. Að auki eru til á hinum mörgu Afríkumálum ýmis nöfn yfir þetta smáfólk á meðal hverra hæstu karlmenn verða aldrei hærri en 150 cm. Þá búa ættbálkar smáfólks í Taílandi, Malasíu, á Indónesíu, á Filippseyjum, á Papúa Nýju Geníu, í Brasilíu og í Bólivíu og bera þeir allir sérstök heiti, rétt eins og við köllum okkur Íslendinga.  

Vesturlandabúar þ.á.m. Íslendingar, kjósa enn að kalla þetta fólk Pygmýja sem er komið úr grísku og fyrir utan að vera sú stærðaeining sem lýsir fjarlægðinni á milli olnboga og hnúa er nafn á einhverjum dvergum sem bjuggu í Eþíópíu og/eða á Indlandi og fornskáldið Hómer lýsir fyrstur manna.

Sjálfu finnst smávaxna fólkinu þetta orð óviðeigandi og vilja láta kalla sig því nafni sem það nefnir sig sjálft. 

Að kalla smáfólkið Pygmýja, er ekki ósvipað því þegar fáfrótt fólk talar um Grænlendinga sem Eskimóa.

Eins og tugir annarra netmiðla, flytur Mbl.is um þessar mundir fréttir  af hópi smáfólks  í Austur-Kongó, sem er af Aka ættbálknum og býr í þorpinu Kisa í Walikalen. MBL.is  kallar þá Pygmýja. Smáfólk þetta, sem annað,  kemst ekki oft í heimsfréttirnar og t.d. var lítið sem ekkert um það fjallað þegar að styrjöldin í Kongó stóð sem hæst og pyntingar, nauðganir og fjöldamorð á Aka og Baka fólkinu, voru daglegt brauð. Heimurinn kærði sig kollóttann þótt einhverjir "villimenn" dræpu aðra "villimenn" í Kongó.

pygmies-754018Nú gerðist það fyrir nokkrum vikum að einhverjir hjátrúarfullir og fáfróðir villimenn, sem starfa fyrir ríkjandi stjórnvöld í Kongó, réðust einu sinni enn á smáfólkið. Í þetta sinn í þeim eina tilgangi að nauðga gömlum konum og kornabörnum í þorpinu og síðan höfðingjanum sjálfum. Hluti þessarar "manndómsvígslu" var að gera skömm höfðingjans sem mesta og því var hinum nauðgað að konu sinni og öðrum þorpsbúum ásjáandi.

Nú er allur heimurinn orðin vitni að skömm hans og þetta þykir góður fréttamatur og fullboðlegt í dag, þótt þetta hafi gerst og komið fyrst fram fyrir nokkrum vikum.

 Einhver gerði sér grein fyrir því að það sem þykja mundi fréttnæmt væri að villimennirnir trúðu því, eftir því sem sagt er, að þeir mundu hljóta við þessi voðaverk "yfirnáttúrlega krafta". Sá hluti sögunnar varð að fyrirsögn fréttarinnar.

aka_fatherFlestar þær greinar sem ég hef séð um málið, (þær skipta tugum)  eru nánast algjörlega eins, orðrétt uppétnar eftir hverjum þeim sem fyrstur skrifaði fréttina um þessi gömlu tíðindi.

Engin þeirra gerir minnstu tilraun til að skýra baksvið þessarar fréttar eða kynna fyrst og fremst fyrir okkur þolendurnar voðaverkanna sem í henni er lýst.  Gerendur slíkra óhæfuverka eiga hvort eð er svipaða sögu að baki, hverrar þjóðar sem þeir kunna að vera.

Og Engin greinin getur þess t.d. að þessum sérstaka ættbálki tilheyrir fólk sem í er að finna elstu mannlegu litningana. Þeir eru því elsta "gerð" mannvera sem til er í heiminum. Það var frá sömu slóðum og eru og hafa verið hefðbundin heimkynni þeirra, að lítill hópur fólks tók sig upp fyrir ca. 200.000 árum og hélt norður á bóginn. Af honum er mannkynið komið.

Aka fólkið er enn á einskonar millistigi jarðræktar og safnarastigs. Það neytir 63 mismunandi tegunda jurta, 20 skordýrategunda, hunangs frá 8 mismunandi tegundum býflugna og kjöts af 28 tegundum dýra.

DR_Congo_pygmy_familyÞess er heldur ekki getið að feður af Aka ættbálknum, verja meiri tíma með afkvæmum sínum en nokkrir aðrir feður í heiminum. Börn þeirra eru innan seilingar þeirra 47% af deginum og þeim hefur verið lýst sem bestu feðrum í heimi. Þeir taka upp börn sín, knúsa þau og leika við þau, fimm sinnum oftar en aðrir feður í hinum ýmsu samfélagsgerðum heimsins. Það er álitið að ástæða þess sé hin sterku bönd sem eru á milli eiginmanns og eiginkonu í samfélgi þeirrra. 

Alla daga hjálpast hjónin að við veiðar, fæðusöfnun og  eldamennsku og deila auk þess frítíma sínum með hvort öðru. Það eru sterk samsvörun milli þess tíma sem hjónin verja saman og þess tíma sem karlmaðurinn ver til að veita  börnum sínum umhyggju.


Næstu 100 dagar / Nýtt upphaf eða Waterloo

Franklin_Roosevelt_signing_declaration_of_war_against_Japan_December_1941Íslenska ríkisstjórnin nýja boðar 100 daga aðgerðaráætlun.  Hún fetar þannig í fótspor Franklins Delano Roosevelt sem varð forseti Bandaríkjanna 4. mars 1933. Roosevelt einsetti sér að leggja drögin að því sem hann kallaði "The new deal" á fyrstu hundrað dögum sínum sem forseti.

Fyrstu aðgerðir Roosevelt til að endurreisa efnahag Bandaríkjanna fólu í sér að fá þingið til að samþykkja 15 meiriháttar lagabreytingar, sem var fylgt eftir af 15 ávörpum , 10 útvarpsræðum, fréttafundum sem haldnir voru tvisvar í viku, þ.e.  eftir hvern ríkisstjórnarfund. Hann kallaði einnig saman alþjóðlega ráðstefnu um efnahag heimsins, og setti fram stefnu sína í utarríkismálum sem innanlands. 

napoleon-addressesÞegar kemur að stjórnmálsögu heimsins, koma samt aðrir 100 dagar frekar upp í hugann en 100 fyrstu valdadagar Roosevelts forseta.

Dagarnir sem liðu frá því að Napóleon snéri aftur frá útlegðinni á Elbu 20. mars 1815 og þangað til Lúðvík fjórtándi settist aftur í valdstól í Frakklandi, 8. júlí sama ár, voru nákvæmlega 100 dagar og eru oft kallaðir 100 dagar Napóleons. 

Þeir dagar voru ölagaríkustu dagar Napóleons og að segja má allrar Evrópu á þeim tíma. Á þessu tímabili tók ein orrustan við af annarri hjá Napóleon og herjum hans sem enduðu við Waterloo þar sem endir var loks bundinn á valdaferil hans að fullu og öllu.

c_users_lenovo_pictures_moggablogg_steingrimur_og_johanna_sig_785091Mér segir svo hugur að íslenska ríkisstjórninni leiki hugur á að vekja með landmönnum svipaðar tilfinningar og bæði Napóleon og Roosevelt gerðu í brjóstum sinna landa þótt endirinn á 100 daga aðgerðaráætlunum þeirra geti varla verið ólíkari.

En það á eftir að koma í ljós hvort Jóhönnu og Steingrími tekst að gefa íslendingum sitt "nýja upphaf" eða hvort þau stýra þjóðinni til sér-íslensks Waterloo.


Þóra Janette Scott

Rocky_HorrorUpphafslagið í söngleiknum The Rocky Horror Show heitir Science Fiction/Double Feature og er óður til B kvikmyndanna um skrímsli og óvættir ýmsar sem voru afar vinsælar á árunum 1950-1970. Í texta lagsins er að finna ýmsar skýrskotannir til löngu gleymdra kvikmynda þar á meðal The Day of the Triffids.

Kvikmyndin fjallar um stórhættulega plöntu sem lítur úr svipað og spergill og eru kölluð Triffid. Plantan getur slitið sig upp og gengið um,  stungið bráð sína með eitruðum göddum og tjáð öðrum Triffidum hugsannir sínar.

Í texta Science Fiction/Double Feature segir m.a:

"And I got really hot
When I saw Janette Scott
Fight a triffid that spits poison and kills."

triffidsusdvd1Nýlega sá ég gamla kvikmynd sem heitir School for Scoundrels or How to Win Without Actually Cheating!  (1960) Leikkonan sem fór með eitt aðalhlutverkið myndinni vakti athygli mína, fyrir það hversu óhefðbundið útlit hennar var miðað við aðrar breskar kvikmyndaleikkonur á þessum tíma. Ef hún hefði verið amerísk, hefði málið verið auðskýrt, en hún var bresk en samt afar aðlaðandi. (Ekki að breskar konur geti ekki verið aðlaðandi, en fegurð þeirra felst meira í hvernig gallar þeirra koma saman frekar en fullkomið útlit.) Við nánari athugun var þarna komin Þóra Janette Scott, sú sama Janette og minnst er á í textanum úr Rocky Horror.

Janette var fædd 1938 og var dóttir tveggja all-vel þekktra breskra leikara Jimmy Scott og Þóru Hird. Hún hóf að leika ung að árum og skrifaði sjálfsævisögu sína aðeins 14 ára gömul. Það þóttu mikil tíðindi á þeim tíma enda þótt það þyki ekkert tiltökumál í dag að frægir unglingar og börn gefi út sjálfsævisögu sína. Margir eru meira að segja á bindi tvö þegar þeir eru rétt 14 ára.

Það er kannski ekki hægt að segja að kvikmundaferill Janette hafi verið mjög glæstur en hún lék alls í fimmtán myndum.

  • frostscott64No Highway in the Sky (1951)
  • The Good Companions (1957)
  • Happy is the Bride (1957)
  • The Devil's Disciple (1959)
  • The Lady Is a Square (1959)
  • School for Scoundrels (1960)
  • Double Bunk (1961)
  • The Day of the Triffids (1962)
  • Paranoiac (1963)
  • Siege of the Saxons (1963)
  • The Old Dark House (1963)
  • The Beauty Jungle (1964)
  • Crack in the World (1965)
  • Bikini Paradise (1967)
  • How to Lose Friends & Alienate People (2008)

Flestar að þessum kvikmyndum eru ekki mikið þekktar í dag en í sumum þeirra léku helstu stórleikarar þeirra tíma eins og í mundinni The Devils Disciples þar sem Janette lék á móti Kirk Douglas, Burt Lancaster og Laurence Olivier.

janette%20scottEins og sést á þessum lista hætti hún að leika upp úr 1967. Frá 1959-1965 var hún gift Jackie Rae, Kanadískum tónlistarmanni. Ári eftir skilnaðinn við Rae, Janette hinum kunna jass-tónlistarmanni Mel Torméog átti með honum tvö börn. Annað þeirra er söngarinn James Tormé. Janette skildi við Mel árið 1977 og giftist núverandi eiginmanni sínum William Rademaekers árið 1981.

Því miður er fátt að finna um hagi Janette eftir að hún hætti að leika. Kannski hún hefði átt að bíða með ævisöguna aðeins lengur.

Engar myndir er að finna af henni á netinu eftir að hún hætti að leika 1967, ekki einu sinni í tengslum við kvikmyndina How to Lose Friends & Alienate People sem var gerð á síðasta ári. En eins og sést af meðfylgjandi myndum hafði Jennet svo sannarlega útlitið og útgeislunina með sér.


Lögmál Lavers

HafmeyJames Laver (1899-1975) hét maður sem lagði fyrir sig ritstörf og sagnfræði, aðallega í Bretlandi. Sérsvið hans var tíska og fatnaður. Hann átti mikinn þátt í að gera rannsóknir á búningum og klæðnaði í aldanna rás að virtri fræðigrein.

Í merkustu bók hans; In Taste and Fashion setti hann  fram kenningu um hvernig almenningur bregst við tískufatnaði. Kenning hans er stundum kölluð lögmál Lavers og er einhvern veginn svona;

 

Tískufatnaður er álitinn;

Ósæmilegur, tíu árum áður en tími hans er kominn

Skammarlegur,  fimm árum áður,

Vogaður, einu ári áður

Flottur ----------------------------

Vafasamur, einu ári síðar

Hræðilegur,  10 árum síðar

Fáránlegur, 20 árum síðar

Skemmtilegur, 30 árum síðar

Sérstakur, 50 árum síðar

Heillandi, 70 árum síðar

Rómantískur, 100 árum síðar

Fallegur, 150 árum síðar


Wall Street nornin

greenÁrið 1998 safnaði bandaríska tímaritið American Heritage Magazine saman nöfnum 40 auðugustu Bandaríkjamanna fyrr og síðar miðað við gengi dollarans það sama ár. 39 karlmenn voru á þeim lista og aðeins ein kona. Enn í dag er hún talin auðugasta konan sem Bandaríkin  hafa alið. Hún hét Hetty Green og þegar hún lést árið 1916 voru auðævi hennar metin á rúmar 100 milljónir dala. (17 billjónir á núvirði bandaríkjadollara)

 Hetty Green var mjög fræg á sínum tíma, ekki fyrir auðævi sín, heldur fádæma nísku.

Hetty varð auðug á afar hefðbundin hátt, þ.e. hún erfiði mikið fé. Faðir hennar sem bjó í New Bedford í Massachusetts varð ríkur á hvalveiðum og þegar Hetty Howland Robinson fæddist árið 1834 var hann þegar orðin þekktur kaupsýslummaður. Hetty fékk snemma áhuga á fjrámálum  og lærði að stauta á læri föður síns sex ára að aldri, þegar hann las kaupsýslutíðindin. 13 ára hóf hún að færa bókhald föður síns og fjárfesti laun sín á verbréfamarkaðinum. Í öllum fjárfestingum sínum fór hún afar varlega og kom sér í því efni upp vinnureglum sem hún fylgdi allt til dauðadags.

Í "villta vestrinu" varð til málsháttur sem sagði; "Þegar að staðreyndir verða að goðsögn, prentaðu þá goðsögnina". Sögurnar af nísku Hetty voru frægar um öll Bandaríkin á sínum tíma. Sagt var að þegar hún varð 21. árs hafi hún neitað að tendra kertin á afmæliskökunni sinni. Daginn eftir afmælisdaginn tók hún kertin og skilaði þeim aftur í verslunina þar sem þau höfðu verið keypt og fékk þau endurgreidd.

Þegar að faðir hennar dó, erfði Hetty eina milljón dollar eftir hann og aðrar fjórar sem bundnar voru í sérstökum sjóði. Tveimur vikum eftir dauða föður hennar, lést auðug frænka hennar sem lofað hafði Hetty að hún mundi arfleiða hana að tveimur milljónum dollara. Þegar á daginn kom að frænkan hafði aðeins ánafnað Hetty 65.000 dollurum í erfðarskrá sinni, reiddi Hetty fram aðra erfðaskrá sem var handrituð af henni sjálfri. Hetty uppástóð að gamla konan hefði fengið hana til að rita nýja erfðaskrá skömmu áður en hún lést og þá ánafnað Hetty allan auð sinn. Það tók Hetty fimm ára baráttu fyrir dómstólum landsins að fá þessa nýju erfðarskrá viðurkennda en það gekk að lokum.

hetty%20greenHetty grunaði alla þá sem sóttust eftir að giftast henni að ágirnast auð hennar meira en hana sjálfa og því festi hún ekki ráð sitt fyrr en hún var orðin 33 ára. Hún giftist Edward Henry Green sem einnig var kaupsýslumaður. Hetty var öllu glúrnari í viðskiptum en Edward og þegar að hún neyddist til að borga fyrir hann skuld, losaði hún sig við skuldina og eiginmanninn í leiðinni.

Þegar að Ned sonur hennar var 14 ára, lenti hann í slysi á snjósleða. Annar fótleggur hans hrökk úr liðnum en móðir hans neitaði að leggja drenginn inn á sjúkrahús. Í staðinn reyndi hún að lækna hann sjálf og leita til læknisstofa sem veittu frýja þjónustu. Að lokum fór svo að drep hljóp í fótinn og taka varð hann af við hné.

225px-HettyGreen001aDóttir hennar Sylvía, bjó með móður sinni fram að þrítugu. Öllum vonbiðlum var hafnað þar sem Hetty þótti engin nógu góður fyrir dóttur sína.

Þegar hún loks leyfði ráðhag dóttur sinnar og Matthew Astor Wilks sem giftu sig 1909, lét Hetty Matthew skrifa undir kaupmála þar sem hann afsalaði sér öllu tilkalli til auðæva Sylvíu, þótt hann væri sjálfur ekki beint bláfátækur þar sem eignir hans voru metna á meira en 2. milljónir dala.

Hetty var skuldseig með eindæmum og greiddi aldrei reikninga án þess að röfla yfir þeim. Oftast enduðu ógreiddir reikningar á hendur henni í lögfræðiinnheimtu.

Sagt er að eitt sinn hafi hún eytt hálfri nóttu í að leita að tveggja senta frímerki.

Eftir að fyrrum eiginmaður hennar lést árið 1902, flutti hún frá heimabæ hans í Belloes Falls í Vermont til Hoboken í New Jersey, til að ver nær kauphöllinni í New York borg. Hún klæddist alltaf svörtu og fór á fund við kaupsýslumenn og bankastjóra á hverjum degi. Klæðnaður hennar og sérviska urðu til ess að hún var uppnefnd Wall Street nornin.

hettygreenAllt sem Hetty tók sér fyrir hendur virtist enn auka á munmælasögurnar sem af henni fóru. Hún bjó í herbergiskytru sem hún leigði og eyddi aðeins um 5 dollurum á viku til lífsviðurværis.

Hún gerði oft langan hlykk á leið sína til að kaupa brotið kex í heildsölu. Hún klæddist sama kjólnum dag eftir dag uns hann lak í sundur á saumunum. Þegar hún komst ekki lengur hjá að þvo flíkina, skipaði hún svo fyrir að hún skyldi aðeins þvegin að neðan þar sem hún skítugust.

Hádegisverður hennar var hafragrautur sem hitaður var á ofninum í skrifstofu hennar í Seaboard National Bank þar sem hún vildi ekki greiða leigu fyrir sér húsnæði.  Eini munaðurinn sem hún leyfði sér tengdist hundinum hennar, sem borðaði miklu betri mat en Hetty sjálf.

Oft leituðu borgaryfirvöld í New York til Hetty til að fá lán svo borgin gæti staðið í skilum. Í þrengingunum 1907 lánaði hún borginni 1.1 milljón dollara og fékk greitt í skammtímavíxlum.

Í elli þjáðist Hetty af slæmu kviðsliti en neitaði sér um læknisaðgerð sem kostaði hefði hana 150 dollara. Hún fékk slag oftar en einu sinni og var bundin við hjólastól síðustu ár ævi sinnar.

Hún óttaðist að henni yrði rænt og lét rúlla sér krókaleiðir til að forðast þá sem hún hélt að væru á eftir sér. Hún hélt því fram á gamalsaldri að eitrað hefði verið fyrir föður hennar og frænku.

Þegar að Hetty dó árið 1916, þá 81 árs, rann allur hennar auður til tveggja barna hennar, Ned og Sylvíu sem ekki tileinkuðu sér sama lífsmáta og móðir þeirra og eyddu fé sínu frjálslega og af gjafmildi.


Wabi-sabi

370525901_e003441123Wabi-sabi er Japanskt hugtak og tjáir tærustu fagurfræðilegu skynjun Japana. Hugtakið á rætur sínar að rekja til Búddískra kenninga um þrjú einkenni lífsins; forgengileika, ófullnægju og sjálfsleysi.

Það er notað um  allar tegundir myndlistar, nytjalist, arkitektúr og landslagshönnun. Wabi-sabi er fegurð hins ófullkomna og forgengilega, þess gallaða og ókláraða. Það er fegurð hins auðmjúka og auvirðilega og um leið hins óhefðbundna og einfalda. 

wabisabi_bathroom_alEf þú spyrð Japani hvað Wabi-Sabi sé, verður þeim oft fátt um svör. Allir Japanir vita hvað það er, en finna ekki orðin til að lýsa því. Orðin tvö hafa mismunandi merkingu þegar þau eru notuð í sitt hvoru lagi.

Sumir vesturlandabúar hafa sett wabi-sabi á bekk með hinni kunnu kínversku Feng shui speki, en þótt hugtökin skarist að nokkru þar sem bæði hafa víðtæka skírskotanir, er hugmyndafræðin að baki þeim ólík.

Orðin wabi og sabi eru bæði notuð sér í daglegu tali. Þau eru aðeins notuð saman þegar fagurfræði ber á góma. Sabi er oftar notað um efnislega listræna hluti, ekki um hugmyndir eða ritverk.

 

Black_Raku_Tea_BowlWabi tjáir fullkomna fegurð sem hefur rétta tegund ágalla, rétt eins eðlilegt munstrið sem sjá má á handgerðri leirskál en ekki í verksmiðju framleiddri skál með fullkomlega skínandi sléttri áferð og er sálarlaus framleiðsla vélar. Gott dæmi um það sem kallað er wabískur hlutur eru stífpóleraðir svartir herklossar sem á hefur fallið ryk þegar þeir voru notaðir við skrúðgöngu. Margir japanskir dýrir vasar eru gljáandi og kolsvartir með grárri rykslikju. 

Sabi er sú tegund fegurðar sem aldurinn ber með sér, eins og patína á gamalli bronsstyttu. Sabishii er í daglegu tali notað yfir eitthvað sorglegt, eins og t.d. sorglegan endi í kvikmyndum. En orðið yfir ryð er líka borið fram sabi.


Næst tekur til máls hæstvirt þriðja þingkona Reykjavíkurkjördæmis norður, Illugi Gunnarsson

11427032872r0O5KEf að mæðraveldi (matriarchy) hefði verið við lýði á Íslandi, mundu þá karlmenn sem kosnir væru til þings á öld jafnréttis og jafnræðis, láta sér lynda að vera kallaðir "þingkonur".

Og mundu þeir karlmenn sem eftir langa jafnréttisbaráttu næðu þeim árangri að setjast í ríkisstjórn, vera ánægðir með að vera titlaðir "ráðfrúr"?

Stjórnsýslutitlum á Íslandi fylgja kyngreiningar. Uppbygging tungumálssins gerir ráð fyrir því, ólíkt sem gerist t.d. í ensku.  En hvers vegna er þá ekki almennt talað um þingkonur og ráðfrúr? Þingkona á þingi er kölluð "hæstvirtur þingmaður" aldrei hæstvirt þingkona. Hvers vegna ekki? Reglum tungumálsins er þarna varpað fyrir róða í krafti misréttis.

Eitt sinn var sú tíð að eingöngu konur gengdu starfi flugfreyja og/eða flugþerna. Um leið og karlmenn fóru að sinna þeim störfum tóku þeir upp starfsheitið flugþjónn. Það kom ekki til greina fyrir þá að vera kallaðir þernur eða freyjur.

Eins er með hjúkrunarmenn sem áður voru kallaðir hjúkrunarfræðingar.

hejabHér áður fyrr voru konur sem stýrðu búi kallaðar bústýrur. En um leið og þær eru settar við stjórn á fyrirtækjum verða þær forstjórar, ekki forstýrur. Hvaða karlmaður mundi una því, ef saga okkar hefði verið á aðra lund, að vera kallaður forstýra eða bankastýra.

Á áttunda áratugnum var gerð gagnskör að því að laga málrænt og hugrænt umhverfi okkar að kynjajafnrétti. Við vöndumst meira að segja á að kalla forsetann okkar frú. - Síðan þá hefur greinilega verið slakað á klónni og eiginlega verður maður ekki einu sinni var við jafnréttisumræðuna lengur.

Hvers vegna? Sá spyr sem ekki veit.


Martröð Darwins

darwins_nightmareÞað er langt síðan ég hef séð aðra eins hrollvekju og þessa kvikmynd sem fór algjörlega fram hjá mér á sínum tíma. Það er eins og sjálfur Dante hafi verið með í að skapa umgjörðina fyrir þessa kvikmynd sem er frá árinu 2004 og er frönsk-belgísk-austurrísk heimildarmynd um fiskveiðar og fiskverkun við Viktoríuvatn í Tansaníu.

Hún lýsir með viðtölum við innfædda fiskimenn, frystihúsaeigendur, hórur og flugmenn, sem búa í Mwanza, hvernig ferskvatnsfiskinum Nílar-Karfa var sleppt í vatnið fyrir nokkrum ártugum og hvernig  hann er á góðri leið með að eta upp allt lífríki vatnsins.

Karfnn getur orðið allt að 200 kg. þungur en um 50 tonnum af fullunnum karfa-flökum er flogið til annarra landa daglega á meðan innfæddir hafa hvorki í sig eða á.

Fiskurinn er of dýr til að borða hann.

Kvikmyndina má sjá í fullri lengd með því að smella á myndina hér til vinstri. Ég hvet alla sem þetta lesa að horfa á hana, ef þeir hafa ekki séð hana nú þegar.

 

Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna og hefur auk þess hlotið mörg verðlaun á kvikmyndahátíðum víða um heim. Frekari upplýsingar um myndina á ensku, má finna hér.

Í umfjöllun sinni um myndina sem var sýnd á kvikmyndahátíð í Gautaborg 2005, skrifar Ari Allansson;Lates_niloticus_2

Martröð Darwins gerist á bökkum Viktoríuvatns, sem er næst stærsta stöðuvatn í heimi og á Níl upptök sín þar.  Myndin segir frá því hvernig á sjötta áratugnum, einn maður, með eina fötu fulla af fisktegund sem ekki fannst í vatninu áður, hellti úr fötunni í vatnið, og sjá, ný fisktegund fannst í Viktoríuvatni.  Þessa fisktegund, Nile Perch (Nílarkarfi), sem er auðvelt að veiða og gefur af sér mikið kjöt, étur aðrar fisktegundir svo heilu stofnarnir hafa horfið úr vatninu.  Vistkerfi Viktoríuvatns hefur veikst til muna og nú er svo komið að menn óttast um framtíða lífríki þess.  Á meðan  innfæddir deyja úr hungri og af alnæmi á bökkunum, lítil börn sniffa lím og sofa á götunum, eru risavaxnar flutningaflugvélarnar að flytja Nílarkarfa til Evrópu, þar sem fiskurinn er seldur dýru verði.  Og ekki nóg með það, heldur þegar flugvélarnar snúa aftur, hafa þær meðferðis vopn, svo að fólkið í Tanzaníu geti murrkað lífið úr hvort öðru, þar að segja þeir sem lifa af hungursneyð og alnæmi.  Myndin er næsta martraðarlík og maður skammast sín næstum fyrir að búa og hafa alist upp í vestrænu landi. Sérstaklega í senu þar sem sendiherrar Sameinuðu þjóðanna og fulltrúar World Bank, sitja á málþingi í Tanzaníu og tala um hvað vel hafi gengið að koma á efnahagskerfi í landinu. Vei sé þeim sem heldur að nýlendustefnan og arðránið í þriðja heiminum sé liðið undir lok. 

Ég þakka Ingó kærlega fyrir þessa ábendingu


Grísa-Ólympíuleikarnirnir í hættu vegna svínaflensunnar?

pig_olympics_2sfwAuðvitað óttast maður að svína-flensan komi til með að hafa áhrif á  grísa-ólympíuleikana sem halda á í ár í St. Louis í Bandaríkjunum. (Ekki rugla saman við Nag-grísa leikana frægu)

Síðast voru leikarnir haldnir 2006 í Rússlandi og þar áður 2005 í Kína.

Á síðustu leikum tóku þátt 12 grísir frá sjö löndum og þá var keppt í grísakapphlaupi, grísakappsundi og grísabolta. Reglur grísaboltans eru afar áþekkar og þær sem notast er við í mennskum fótbolta.

Um hálsinn á hverju grís er bundinn númeraður smekkur og síðan er það rekið inn á leikvanginn, venjulega rýtandi.

98687774_6bd77b4905Sigursælustu grísirnir í Moskvu voru Mykola frá Úkraníu, Nelson frá Suður-Afríku og heimagrísinn Kiostik.

Fyrst var keppt í stuttu hlaupi en þá voru grísirnir reknir áfram af húsbændum sínum sem pískuðu þá áfram.

Þá tók við Grísaboltinn. Skipt var í tvö lið, fimm grísir í hvoru liði og þeir eltust við bolta sem ataður var lýsi. 

Grísasundið var ný keppnisgrein á síðustu leikum, en þá var reynt að fá  grísina til að synda frá einum enda til annars í lítilli laug. Þeir höfðu samt meiri áhuga á að snefsnast utan í hvor öðrum og flækja sig í böndunum sem skildu að brautirnar í lauginni.

Pig swimming

Alexei Sharshkov, sem er varaforseti íþróttagrísa sambandsins sem telur innan sinna vébanda um hundrað grísaeigendur, fullvissaði áhorfendur um að engin grísanna mundi verða etin í bráð. Ætlunin væri að nota þá til undaneldis til að framleiða fleiri afburða keppnisgrísi.

"Hvernig er hægt að borða keppenda sem er frægur um allan heim" sagði hann í viðtali.


Sagan í hausnum

Hausmyndin mín er máluð af tveimur kínverskum listamönnum og gerð í stíl ítalskra endurreisnarmálara. Á henni er a finna 100 frægar persónur úr mannkynssögunni auk listamannanna sjálfra. Til skamms tíma var hausmyndin á blogginu mínu mín tekin innan úr þessari mynd en sett inn í fullri stærð fyrir viku. 

Með því að smella á myndina hér fyrir neðan og síðan aftur á myndina sem þá birtist, færðu upp stækkaða mynd þar sem öll smáatriði koma greinilega fram. Þú getur athugað hversu margar persónur þú telur þig þekkja á myndinni.

Ef þær eru færri en 20 er komin tími til að þú rifjir lítillega upp mannkynssöguna. Ef Þú kannast við 20-60 ertu gjaldgengur í hvaða spurningakeppni sem er og ef þú þekkir 61-100 ertu snillingur. Ef þú þekkir nöfn allra þeirra 102 andlita sem á verkinu sjást ertu annar þeirra sem málaðir verkið.

famous_people

Þegar þú ert búin að spreyta þig á kunnáttu þinni getur þú fengið allar upplýsingar um hverjar þessar persónur eru, með því að færa bendilinn yfir andlit þeirra á myndinni sem er að finna HÉR


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband