17.10.2009 | 14:57
Hvar er Umbarumbamba?
1966 kom út hljómplatan Umbarumbamba með Hljómum frá Keflavík. Platan kom einnig út í Bretlandi og nefndi hljómsveitin sig þar Thor´s Hammer. Sú plata mun nú vera verðmætasta safnplata sem íslenskir hljómlistarmenn hafa staðið að. Jafnframt létu Hljómar gera kvikmynd sem einnig bar nafnið Umbarumbamba með undirtitlinum; Sveitaball. Myndin fjallaði um sveitaball, slagsmál og fyllerí, og verður að teljast afskaplega frumstæð í alla staði.
Hún var gerð af Reyni Oddsyni, þeim sama og seinna (1977) gerði kvikmyndina Morðsaga. Reynir stýrði verkinu og bar hitann og þungann af vinnslunni. Hljómar greiddu stærsta hluta kostnaðarins, rúmlega hálfa milljón og fóru upptökurnar fram um sumarið og haustið ´65. Upphaflega átti myndin að vera hálftíma löng en hún endaði sem 13 mínútna stuttmynd.
Umbarumbamba var aðeins sýnd í tvo daga sem aukamynd í Austurbæjarbíói. Eftir það var hún send út á land og var sýnd í kvikmynda- og samkomuhúsum sem aðalmynd á eftir klukkutíma langri aukamynd sem ég man ekki lengur hver var. Samt þótti enginn maður með mönnum sem ekki hafði séð hana. Kvikmyndir bresku Bítlanna A Hard Day's Night (1964) og Help (1965) sátu fastar í unglingum landsins, enda sáu þær margir ótal sinnum, og nú var komið íslensku Bítlunum.
Ég sá myndina þegar hún var fyrst sýnd í Félagsbíói í Keflavík og verð að viðurkenna að mér þótti lítið til hennar koma. Fyrir það fyrsta var hún allt of stutt. Hljómgæðin voru döpur og samtölin stirðbusaleg. Þá saknaði maður Engilberts á trommunum en í hans stað var kominn Pétur Östlund sem lék með Hljómum í stuttan tíma um það leiti sem myndin var tekin upp. En auðvitað lét ég á engu bera. Það hefði verið algjör goðgá í Keflavík á þeim tíma að gagnrýna eitthvað sem kom frá Hljómum.
Í dag er myndin eflaust ómetaneg heimild sem marga mun fýsa að sjá aftur. Þar sem knöpp peningaráð réðu því að aðeins var gerð eitt sýningareintak af myndinni, fór þetta eina eintak mjög illa, rispaðist og skemmdist þegar það var sýnt vítt og breitt um landið.
Eftir að sýningum lauk á myndinni hvarf hún sporlaust og sú flökkusaga gekk um að hún hefði hreinlega týnst eða eyðilagst. Löngu síðar kom í ljós að leikstjórinn Reynir Oddson hafði tekið hana til varðveislu.
Eflaust vakir enn fyrir Reyni að koma kvikmyndinni í sýningarhæft ástand og vona ég að svo verði sem fyrst.
Meginflokkur: Kvikmyndir | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir, Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:27 | Facebook
Athugasemdir
Ég kaupi stundum breskt músíkblað sem heitir Record Collection. Í árlegri samantekt þess blaðs yfir eftirsóttustu sjaldgæfu plötur var lengi vel Thor´s Hammers ofarlega á lista. Mig minnir að gangverð hafi verið komið í nokkur hundruð þúsund kall. Annars er fall íslensku krónunnar farið að rugla mig í ríminu.
Hinsvegar hefur platan fengið mjög góða dóma í breskum blöðum eftir að hún kom út á disk. Ég held að ég fari ekki rangt með að síðast þegar ég las um sölu á henni í breskum blöðum hafi talan verið 70.000. Ég þori ekki alveg að standa við þá tölu því talan 50.000 eintök bankar einnig á dyr. Hvort sem er þá man ég glöggt þegar talan 20.000 eintök var gefin upp nánast strax eftir að platan kom út á disk og ég átti samtal við Rúnar Júlíusson sem kannaðist við þá tölu.
Jens Guð, 18.10.2009 kl. 03:31
Ég get ekkert frætt þig um myndinna en varðandi Thor’s Hammer plötuna þá minnir mig að endurútgáfan hafi verið ansi vönduð, kom í hús þar sem að hún var til á sínum tíma svona um svipað leyti og hún kom út 2001 eða svo. Það var góður bæklingur með og svo framvegis. Þetta virtist gæðaendurútgáfa.
Eyjólfur Ármannsson
Hér smá um þetta
http://www.allmusic.com/cg/amg.dll?p=amg&sql=10:kvfpxqt0ldae
Big Fats Slim, 18.10.2009 kl. 12:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.