19.9.2009 | 13:48
Bloggarar að blogga um blogg
Upp á síðkastið hefur borið meira á því en venjulega hvað bloggarar moggabloggsins eru uppteknir af sjálfum sér. Segja má að margir þeirra hafi síðustu daga tekið upp svo kallaðan Sæmundarhátt á sínum bloggum. Ástæða þess kann að vera, a.m.k. að hluta, að einhver bankamaður og annar pólitíkus kvörtuðu hástöfum fyrir skömmu við fjölmiðla landsins undan bloggurum, hvað þeir væru dómharðir og ósanngjarnir.
Strax eftir þau ummæli fóru málsmetandi bloggarar á kreik til að meta þetta enda bloggarar kannski upp með sér að skrif þeirra hefðu svona mikil áhrif en vildu jafnframt kryfja til mergjar hvort þeir sem blogguðu undir fullu nafni væru marktækari en þeir sem gerðu það ekki.
Í framhaldi af þeirri naflaskoðun birtist einhver úttekt á því í DV hverjir væru verstu og bestu bloggarar landsins. Um þá úttekt birtu a.m.k, tveir bloggarar umfjöllun og mynduðust um leið við að gera einhverja könnun á því meðal lesenda sinna hvort þeir væru þessum listum sammála eða ekki. Þar kom m.a. fram sú skoðun að sum blogg væru ekki blogg heldur heimilda-utanumhald. Í framhaldi af því birtu bloggarar sem nefndir voru til sögunnar í DV, blogg um sig og sín blogg og hvort þau væru blogg eða ekki.
Þá brast á sú nýlunda á fyrir stuttu að bloggari sem var nýhættur að blogga hóf annað blogg og helgaði tvö fyrstu bloggin bloggara sem ekki bloggar undir nafni.
Nú hef ég í þessu bloggi ekki nefnt nein nöfn, en þeir bloggarar sem lesa blogg annarra bloggara að einhverju marki vita nákvæmlega við hverja ég á. Er ekki tími til kominn að bloggarar hætti nú þessu bloggarabloggi og snúi sér að því að blogga um annað? Það mætti nefnilega halda að það sé hlaupinn einhver gúrka í bloggara landsins sem auðvitað er fjarri lagi. Það er bara þannig stundum að það sem er tungunni tamast er hjartanu kærast.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 13:46 | Facebook
Athugasemdir
Ég er alveg orðin bloggringluð eftir að lesa þetta :)
Heiða B. Heiðars, 19.9.2009 kl. 14:14
Þetta voru 3. og 4. blogg, ekki tvö fyrstu ;)
Kristinn Theódórsson, 19.9.2009 kl. 14:21
Ég er bara orðinn eins og Heiða alveg bloggruglaður og gleymdi alveg trúleysingjakirkjunni og Siðmenntarpistlinum Kristinn. So Sorry
Svanur Gísli Þorkelsson, 19.9.2009 kl. 14:29
Nokkuð dottinn í gúrkuna Svanur?
Jenný Stefanía Jensdóttir, 19.9.2009 kl. 17:04
Ha ha ha . hmmm
hilmar jónsson, 19.9.2009 kl. 17:48
Mikið er ég nú sammála þér Svanur, um þessa bloggara sem eru svo uppteknir af sjálfum sér, að það hálfa væri helming of mikið...eða þannig
Svo eru reyndar hér nokkrir bloggarar sem virðast vera með hreina bloggdrullu. Eiga það til að setja inn allt að 20 pistla á dag.
Man sérstaklega eftir einum sem hefur mest sett in 22 pistla, og allt eru þetta pistlar ef pistla skal kalla 5 línu pistlar ( það er meðaltalið hjá honum)
Hver er tilgangurinn með slíku, jú að ná sem mestu raitings.
Og með þennan lista sem þú nefnir, man reyndar ekki hvort þú hafir verið á þeim. En að mínu mati ættir þú að vera á lista yfir bestu bloggarana, engin vafi á því.
Takk fyrir skemmtilega og fræðandi pistla.
brahim, 19.9.2009 kl. 18:06
Ég var að bíða eftir að einhver hefði orð á þessu Jenný mín :)
Einmitt Hilmar ...eða ég held það :=)
brahim; Fréttahaukar bloggsins sem þurfa ekki einu sinni að skrifa fréttirnar eru ómetanlegir og þar af leiðandi óborganlegir....Takk fyrir sömuleiðis.
Svanur Gísli Þorkelsson, 19.9.2009 kl. 19:43
Aldrei heyrt um Sæmundarhátt fyrr. Hverjir eru það sem kalla þesskonar blogg Sæmundarhátt?
Annars vil ég benda á að hér tekur þú þetta á æðra stig með að bogga um bloggara sem blogga úm blogg.
Búmmerang!
Jón Steinar Ragnarsson, 20.9.2009 kl. 04:10
Sæmundur er einn þeirra sem ég les alltaf. Einu sinni sá ég hann vitna til Sæmundarháttar á sínu bloggi og þaðan hef ég þetta.
En alveg hárrétt athugað, þetta er búmmerangblogg
Svanur Gísli Þorkelsson, 20.9.2009 kl. 12:22
Nú er ég ekki alveg viss hvort ég eigi að móðgast eða ekki fyrir hönd Sæmundar, bloggvinar míns.
Þarf aðeins að hugsa málið...
Kama Sutra, 20.9.2009 kl. 18:27
Nei þú þarft sko ekki að móðgast fyrir hans hönd, við erum mátar ég og Sæmi. Hann bloggar reglulega um sitt blogg og annarra og mér finnst alveg nóg að lesa þær pælingar til að vita svona nokkurn veginn hvað klukkan slær. Þess vegna kenni ég þannig pælingar við hann.
Svanur Gísli Þorkelsson, 20.9.2009 kl. 19:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.