13.9.2009 | 01:04
Frá fjölmennri hreyfingu til fámenns stjórnmálaflokks
þegar að búsáhaldabyltingin stóð sem hæst og hugurinn á Austurvelli var sem mestur, myndaðist eins og í draumi fögur hugsjón um að það mætti ef til vill nota þessa orku sem fór í pottaglamrið til að búa til Nýtt Ísland. Þegar boðað var til kosninga eftir að þáverandi stjórnarliðar höfðu gefist upp fyrir herópinu "Vanhæf ríkisstjórn" komu þeir framtaksömustu sér saman um að koma einhverjum röddum úr hópi hinna hrópandi borgara á þing. Slagorðið varð "þjóðin á þing".
Lauslega skipulagðri kosningaherferð var hrundið af stað þar sem markmiðið var að fá sem flesta til að trúa því að nokkrar háværar raddir inn á þingi gætu áorkað því að koma þurfandi heimilum landsins til aðstoðar og kallað fram umbætur í stjórnskipan með kröfu um stjórnlagaþing. Nægilega margir trúðu á þessa hugsjón til að fá fjóra þingmenn kjörna. - Um leið og þing hófst og sýnt varð að málin sem fyrir lágu mundu verða einhver þau erfiðustu sem nokkurt íslenskt þing hefur þurft að takast á við, kom í ljós hversu illa undirbúin þessi litli þingflokkur háværra radda út í samfélaginu var.
Örvænting þeirra og ákafi varð til þess að þau reyndu gamalkunnugar brellur úr pólitíkinni, þ.e. að reyna að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Þrír af fjórum þingmönnum reyndu sem sagt fyrir sér í hefðbundnum hrossakaupum en varð fljótlega ljóst að þau höfðu gert mistök og báðust afsökunar. En það var of seint, skaðinn varð skeður.
Einn þingmaðurinn yfirgaf þinghópinn og restin missti traust fjölmargra sem höfðu kosið þau í von um að þau mundu verða upphaf nýrra hátta og siða á alþingi.
Upp frá þessu varð ljóst að sá tiltölulega þröngi hópur sem unnið hafði hörðum höndum að því að koma röddunum á þing, var að springa í frumeindir sínar. Formaðurinn sagði af sér og fjöldi góðra en vonsvikinna manna fylgdi frumkvæði hans. Að auki æxluðust mál þannig að þingmennirnir áttu erfitt með, enda önnum kafnir, að hafa gott jarðsamband við þá sem enn vildu starfa sem "bakland" þeirra.
Þingmaðurinn sem yfirgaf þingmannahópinn snéri baki við öllu saman og fór/fer sína leið sem engin veit hver er. Slitrurnar af "hreyfingunni" ákvað að kalla saman landsfund og reyna að koma einhverju skikki á málin. Á þeim fundi tókust á tvær megin fylkingar.
Önnur fylgdi þingmönnunum að máli og vildi fyrst og fremst að hreyfingin héldi áfram að vera hreyfing, lausbundin og stefnulítil þar sem samviska og persóna þingmannanna réðu hvað þau hrópuðu á hinu háa alþingi. Hin hópurinn vildi umfram allt gera hreyfinguna að einskonar stjórnmálaflokki þar sem þingmenn væru fyrst og fremst málpípur vel grundvallaðra stefnumála sem samþykkt væru af sem flestum meðlimum hreyfingarinnar.
Skemmst er frá því að segja að þeir sem vildu gera hreyfinguna að stjórnmálaflokki urðu ofan á. Færri en 100 manns greiddu um þetta atkvæði. Eftir að ljóst varð að þingmennirnir þrír sem þó sóttu fundinn fengu ekki fylgi við sínar tillögur, gengu þeir skjótt af fundi og tóku ekki þátt í dagskráliðum hans eftir það. Á þeim mátti skilja að óvíst væri hvort þeir mundu í framtíðinni kenna sig við þennan nýja stjórnmálaflokk.
Af þessu stutta yfirliti þar sem hlaupið er á hundavaði yfir gang mála frá aðdraganda að stofnun Borgarahreyfingarinnar fram á daginn í dag, verður samt greinilega séð hversu hrikalega mörg mistök hafa verið gerð á tiltölulega stuttum tíma. -
Það er algjört vafamál hvort sá kjarni sem mögulega kann að vera viljugur til að starfa í þessum nýja stjórnmálaflokki, hefur nokkuð af þeirri hugsjón eða áherslumálum í stefnuskrá sinni sem fengu þúsundir Íslendinga til að gefa hreyfingunni atkvæði sitt fyrir nokkrum mánuðum.
Til eru lærð rit um hvernig stofna megi, skipuleggja og stjórna nýjum stjórnmálaöflum. Segja má að hver einasta af grunvallarreglum slíkrar hugsjónavinnu, hafi verið brotinn í hinni stuttu sögu Borgarahreyfingarinnar.
Eina vonin fyrir Borgarhreyfinguna var hið óvenjulega ákvæði stefnuskrár hennar að ef svo færi að ljóst yrði að markmiðum hennar yrði ekki náð, eða svo vel færi að þau næðust, mundi hreyfingin leggja sig og þingflokk sinn niður.
Tilefnið til að efna þetta ákvæði var ærið og tækifærið var nýliðinn landsfundur. Þá hefði kjarninn í hreyfingunni og þingmenn getað a.m.k. staðið við eitthvað af því sem lagt var upp með. En í staðinn er gerð tilraun til að halda áfram, ég leyfi mér að fullyrða, vonlausri baráttu til að mynda stjórnmálaflokk sem sprottinn er upp úr missætti, sundrungu, brotnum loforðum og vantrausti þeirra sem ákafast börðu pottana á Austurvelli fyrir nokkrum mánuðum.
Þessi tilraun mun skilja eftir sig blendnar tilfinningar í okkar litla samfélagi. Sem Íslendingur sem að mestu fylgdist með málum úr fjarlægð, þótti mér mikilsvert að sjá að til var fólk í landinu sem tilbúið var að leggja á sig ómælda vinnu til að berjast fyrir hugsjónum sem flestir vildu gjarnan sjá verða að veruleika en trúðu bara ekki að hægt væri að koma í kring. Það versta sem getur gerst er að þeir sem vildu breytingar, kölluðu sig hása eftir nýju Íslandi og lögðu allt að veði, missi trúna á að Raddir fólksins fái í raun nokkru breytt. Staðreyndin er nefnilega sú, að þeir sem eru svo vitlausir að halda að þeir geti breytt heiminum, eru þeir einu sem gera það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góð samantekt hjá þér, fjarlægðin hjálpar líklega til að leggja kalt mat á málin. Tilfinningarnar eru stundum að þvælast fyrir manni annars.
Hvað sem framtíðin ber í skauti sér fyrir hreyfinguna vil ég trúa að hugsjónin og umræðan um kjarna hennar hafi vakið einhverja til umhugsunar. Grunnhugsunin sem kemur fram í stefnuskránni um aukið lýðræði, meira gegnsæi og minni spillingu hefur a.m.k. að einhverju leyti endurómað í umræðunni. Ennþá er þó þöggun, valdhroki og spilling grasserandi hér, stundum falið, stundum grímulaust. Hlutir breytast víst ekki á einni nóttu. En það má alltaf vona.
Solveig (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 01:57
Svanur já það sést þarna víða að skrifað er úr fjarlægð ! sértaklega "skapandi" lýsing þín af Landsfundi
en þarna var um grundvallar hugmynda ágreininng að ræða ! og þú veist vel ef þú mannst mínar rætur að ég berst gegn RÍKJANDI stjórnkerfi ! og mun aldrei taka þátt í "en einum flokknum" ÞJÓÐINN Á ÞING (sem nú er rofið vegna sveitastjórnaákvæðis sem var samþykkt) var minn draumur um að breyta INNANFRÁ í stað blóðugrar valdabyltingar þar sem enginn er sigurvegari en aflsmunur ræður úrslitum !
en nú hefur Hreyfinginn breyst í en einn flokkinn ! reyndar með ríkri áherslu á grasrót ! en valdastrúktúrinn er kominn í "miðstjórnar átt" ! og svoleiðis mun ég alltaf hafna ! það er einn eigandi að BH og það er ALMENNINNGUR allur ! þeir 14.000 kjósendur sem treystu Hreyfingunni fyrir sínu athvæði vegna þess að ÞAU trúðu að ekki væri um "einn annan flokkinn" að ræða ! heldur Hreyfingu sem berðist gegn RÍKJANDI STJÓRNKERFI með sinni fyrirgreiðslu og spillingu !
LIFI BYLTINGINN skuldaskil hafa orðið, og allavegna er ég FRJÁLS
Grétar Eir (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 11:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.