Illgjarn hrekkjalómur eða græskulaus prakkari

assholesHvenær verða hrekkjóttir að hrekkjusvínum og hvenær fá hrekklausir ofsóknarbrjálæði? Það er vandlifað í henni veröld og meðalvegurinn vinsæli vandfundinn. Mikill munur er samt á græskulausum grikkum og ósvífnum og oft skaðlegum hrekkjum þar sem blekkingum er beitt til að valda öðrum skaða. 

Fyrir stjórnmálamönnum eru þess mörk hvað óskýrust. Þeir meta allt á þann veg að það sem er andstæðingnum til minnkunar, er það þeim sjálfum til framdráttar. Nýlegt dæmi um þetta er meðhöndlun Þingsins á Icesave málinu og yfirlýsingar flokksforingjanna eftir afgreiðslu málsins. Þeir töldu fráleitt á meðan verið var að fjalla um málið að það gæti fellt stjórnina. En eftir að hafa knúið fram einhverjar málmyndabreytingar, halda þeir því fram að ef ekki verði fallist á breytingarnar, sé eðlilegt að stjórnin fari frá.

abstract_artÉg velti líka fyrir mér hversu langt er hægt að ganga í stríðni og hrekkjum án þess að særa fólk eða meiða. Sem dæmi, væri viðeigandi að gefa þetta rándýra abstrakt málverk, þeldökkum vini mínum.

Ófáir telja sér það til tekna að vera dálítið hrekkjóttir og sjaldan heyrir maður fólk sperra eyrun jafn mikið og þegar góð hrekkjasaga er sögð af hróðugum prakkara. - Vel skipulögð prakkarastrik eru meðal vinsælasta myndefnisins á youtube og sjónvarpsþættirnir "Falin myndavél" eru auðvitað ekkert annað en hrekkjaveisla.

Sumir frægir leikarar eru frægir hrekkjalómar. Þeir hafa unun af því að koma fram í viðtalsþáttum og segja frá hrekkjunum og hlægja dátt með þáttastjórnandanum að öllu saman.

 George Clooney er orðlagður hrekkjalómur og hefur oft reynt að segja frá hrekkjum sínum í sjónvarpinu. Ég hef tekið eftir því að grikkurinn virðist ekki vera eins hlægilegur fyrir áhorfendur, oftast aðeins fáeinir sem reka upp hlátursrokur, leikaranum og þáttastórandanum til samlætis. "You had to be there"!.

Woman_riding_turtle_at_Mon_ReposÍ bók sinni The Compleat Practical Joker eftir H.Allen Smith segir hann frá mörgum kunnum prökkurum. Einn þeirra var málarinn Valdo Peirs sem bjó í París í byrjun tuttugustu aldar. Dag einn gaf hann nágrannakonu sinni litla skjaldböku að gjöf. Konan dekraði við skjaldbökuna og þótti mjög vænt um hana.  Nokkrum dögum seinna sætti Valdi færis og skipti á litlu skjaldbökunni fyrir aðra nokkru stærri. Þetta gerði hann nokkrum sinnum uns konan var komin með allstóra skjaldböku í hús sitt sem hún sýndi nágrönnum sínum afar stolt. Þá snéri Valdo ferlinum við þannig að skjaldbaka konunnar fór stöðugt minnkandi. Þetta olli nágrannakonunni skiljalega miklum áhyggjum og hugarangri en Valdo skemmti sér við að segja frá angist hennar.

Kanntu góða hrekkjasögu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Eftirlætis hrekkjalómurinn minn er alltaf de Vere Cole. Nú veit ég ekki hversu margir kannast við nafnið í dag, en hann var frægur á sínum tíma.

Eitt sinn boðaði hann komu Abyssiníukeisara umborð i herskipið Dreadnought, en "keisarinn" var vinur de Vere Cole í dulargervi, tveir skólafélagar hans léku ættarhöfðingjana Ras el Mendax og Ras el Sabiana, abyssiníska prinsessan var leikin af rithöfundinum Virginiu Woolf, bróðir hennar lék túlk, og sjálfur lék de Vere Cole "Hr. Herbert Cholmondelay", fulltrúa sendiráðsins. Vel var tekið á móti gestunum tignu, túlkurinn sá um að "þýða" lýsingar aðmíralsins á kostum skipsins, og sá síðarnefndi var síðan sæmdur "stórriddarakrossi Abyssiníu". 

De Vere Cole ljóstraði síðan sjálfur upp um hrekkinn, en yfirmönnum flotans var ekki skemmt og ætluðu að stefna hrekkjalómunum, en hættu við - enda vildu þeir ekki ganga gegn almenningsálitinu.

Eitt sinn átti forsætisráðherrann, Ramsey MacDonald átti að halda ræðu fyrir hóp verkalýðsforingja en de Vere Cole kom því svo fyrir að leigubílstjórinn sem ók honum "villtist" á leið á fundinn. Hann hélt svo sjálfur ræðu, dulbúinn sem MacDonald, en sú ræða var aðeins breytt. Hann lýsti því yfir að erfitt ástand efnahagsmála væri að kenna of háum launum, of stuttum vinnutíma og of litlum gróða fyrirtækja...

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 1.9.2009 kl. 10:02

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Tinna, takk fyrir þetta. Ég var búinn að steingleyma de Vere Cole og öllum flottu hrekkjunum hans. Þetta var því fín viðbót.

Svanur Gísli Þorkelsson, 1.9.2009 kl. 20:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband