Fúll á móti er megin inntak íslenskra stjórnmála

3594288051_84b65510b1Eva Joly er fræg og flott og greinilega mun klárari en flestir okkar Frónbúa. Á dögunum fékk hún birta eftir sig sömu greinina í dagblöðum margra landa samtímis. Það gera ekki aðrir en snillingar, poppkóngar og kvikmyndastjörnur. Í henni talar hún m.a. um Ísland og segir frá því sem altalað hefur verið og margrætt hér heima í marga mánuði en engin hefur haft dug í sér til að koma á framfæri við erlendu pressuna, að ekki sé minnst á viðsemjendur okkar í Icesave-deilunni.

Þetta framtak finnst mörgum gott hjá Evu nema kannski Hrannari þeim sem hjálpar Jóhönnu forsetráðsmaddömu. Hann var fúll af því að Eva var eitthvað að hnýta í fráganginn á Icesave-samningunum þar sem greinilega er verið að kúga litlu þjóðina í norðri til að borga miklu meira en hún á á borga. Svo urðu margir aðrir fúlir út í Hrannar fyrir að vera svona fúll, sérstaklega þeir sem eru í stjórnarandstöðu og telja það heilaga skyldu sína að vera fúlir út í allt og alla sem viðkemur stjórninni.  

Það verður æ erfiðar að skilja þolgæði þeirra sem enn reyna að elta ólar við flokkspólitíkina. Að manni sækir samtímis hlátur og grátur við lestur eða hlustun á það sem þeir hafa að segja. Já, hlátur, vegna þess hve kjánalegir þeir eru við að kasta að hver öðrum pólitískum drullukökum, grát vegna þess hve mikilvægt er fyrir land og þjóð að ná samstöðu og einingu í þeim erfiðu málum sem fyrir liggja að leysa.Flest einkennist það af gamaldags hnútakasti, úreltum  flokkadráttum og dýrkun á flokkum og fyrirmönnum þeirra.

- Og svo láta þeir eins og ekkert annað betra sé til og að þjóðinni sé nauðugur einn kostur að sætta sig við þetta fár.- Þeir slá allar tillögur um Þjóðstjórn eða neyðarstjórn beint út af borðinu, vegna þess að hagmunir flokkanna koma fyrst.  Fjölskyldutengsl og  efnahagsleg krosstengsl eru svo samofin í flokkunum að hagmunir eins flokks og þjóðarinnar allrar geta aldrei farið saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr.  Þjóðstjórn eða neyðarstjórn er að ég held eini möguleikinn í stöðunni sem við erum í, í dag. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.8.2009 kl. 02:36

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Svanur,

Grátlegast er að drullukökubakarar skuli ekki fatta um hvað baráttan snýst.

Hún snýst ekki um þau; baráttan er háð af þeim sem skaffa þeim hveitið, sykurinn og lyftiduftið í baksturinn.

Þegar ég lék mér að drullukökubakstri í kjallaratröppunum í reykvískri verkamannablokk, skreytti ég alltaf mínar drullukökur með sóleyjum til að gera þær meira aðlaðandi fyrir "kúnnana" sem borguðu með steinum.

Fullorðnir drullukökubakarar eru ekki að skilja þjóðarhjartað sem slær öflugt og sterkt sem aldrei fyrr, en þeir vilja samt setja í það gangráð.

Þoli ekki pólitíska heimskingja! En tárin eru enn of dýrmæt til að fella þau fyrir slíkan aumingjaskap.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 4.8.2009 kl. 04:02

3 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Skil ekki hvað fólk er hrifið af því að Eva Joly skuli dirfast að tala fyrir hönd þjóðarinnar um heim allan um mál sem hún greinilega hefur ekkert vit á.  Hún talar niður til okkar sem þjóðar.  Viljum við láta vorkenna okkur og gera út á það hvað ,, við erum lítil og smá"?. Eva er góð í sínu fagi í því sem hún var ráðin til: Best hún haldi sig við það. Steingrímur og hans ráðuneyti ráða ágætlega við þetta mál sem búið er að samþykkja og hann tók við af Sjálfstæðisflokki og endurbætti. 

Seðlabankinn er búinn að gefa út skýrslu um þetta mál þar sem niðurstaðan er sú að við ráðum vel við þessar skuldbindingar. Þar eru 100 manns búnir að kafa í þetta mál.   Hvers vegna á frekar að taka mál á andstæðingum stjórnarinnar og þeirra áróðursmeisturum sem aðeins vilja fella ríkisstjórnina?.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 4.8.2009 kl. 10:26

4 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Með fullri virðingu fyrir Evu Joly og hennar þarfa hlutverk að halda utanum pólitíska og lagalega uppgjörið við bankahrunið þá hefur hún hlaupið á sig fyrir hönd okkar sem þjóðar í vesenis veseni. Get samþykkt allt sem Þórdís hefur um málið að segja hér að ofan. Vanmetakenndin sem þessi orðræða Evu kyndir undir er bara til tjóns.

Gísli Ingvarsson, 4.8.2009 kl. 13:30

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þjóðstjórn merkir stjórna allra flokka á þing án neinnar stjórnarandstöðu. Í reynd merkir það að megin stoð lýðræðis sé aflögð um skemmri eða lengri tíma.

Ábyrg stjórnarandstað er grundvallarstoð lýðræðisins og allt sem skilur að einræði og lýðræði.

Þjóðstjórnum er aðeins komið á í lýðræðissamfélögum ef það ríkir stríðsástand sem skapar þær aðstæður að ómögulegt er að starfandi sé upplýst stjórnarandstaða, þ.e. ekki er hægt að ræða helstu mál og viðfangsefni fyrir opnum tjöldum hvorki almennt eða útí hörgul.

Óábyrg  stjórnarandstaða sem vinnur skemmdarverk í stað þess að stunda ábyrga gagnrýni og tryggja að mál séu rædd og könnuð frá öllum hliðum er auðvitað bæði stórskaðleg og dýrkeypt þjóðinni en svarið því slíku ábyrgðaleysi er ekki að bjóða stjórnarandstöðunni að leggja alla stjórnarandstöðu niður og þeim sjálfum persónulega sæti við kjötkatlana án aðhalds og eftirlits stjórnarandstöðu.

AUðvitað er það það sem Sjálfstæðisflokkur vill þar sem hann veit að honum yrði ekki sætt í öðruvísi stjórn, en honum má ekki takast að afleggja lýðræðið til að komast að völdum.

Helgi Jóhann Hauksson, 4.8.2009 kl. 13:40

6 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sjónarmið Þórdísar og Gísla; virkja tárakirtla og tár eru felld. 

Jenný Stefanía Jensdóttir, 4.8.2009 kl. 14:56

7 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Mér sýnist Joly ekki síst vera að gagnrýna alþjóðlega fjármálakerfið og að það sé vitlaust gefið, kalla á gjörbreyttan hugsunarhátt. Bankakerfið sem jarðarbúar búa við er arðránsystem og svikamylla eins og flestir eru farnir að átta sig á og skýrist með hverjum deginum, almenningi ætlað síðan að borga fyrir endureisn kerfis sem rænir hann purkunarlaust síðan, um leið tryggjum við að afkomenda okkar bíða sömu dapurlegu örlög sem skuldaþræla, þeirra verður streðið um langt skeið, þökk sé sundurlyndi(sem alið er á) okkar og dugleysi til að varpa af sér oki arðráns og misnotkun fárra á völdum og áhrifum.

Georg P Sveinbjörnsson, 4.8.2009 kl. 15:15

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sá skilningur að stjórnarandstaða sé "grundvallarstoð lýðræðisins" eins og Helgi Jóhann segir, er hluti af víðtækum misskilningi á hvað lýðræði er. Stjórnarandstaða er afbökun á þeim skilningi að allir kosnir fulltrúar sé bundnir af samvisku sinni og beri að sýna ábyrgð í öllum málum, sama hver ber þau fram.

Það lýðræði sem við búum við er fulltrúalýðræði  þar sem fulltrúarnir hafa skipað sér í hagsmunalið frekar en að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Það eru til fjöldi annarra útfærslna á lýðræði þar sem flokkadrættir og hagmunapot eru ekki nein forsenda þess. 

Þjóðstjórn er mynduð með stuðningi allra þeirra kosnu fulltrúa (þingmanna og kvenna) sem eru tilbúnir að fórna hagsmunum flokks og flokksforingja fyrir hagsmuni heildarinnar. Svo einfalt er það. Þetta sjá Jóna Kolbrún og Jenný Stefanía í hendi sér. (takk fyrir skemmtilegar líkingar Jenný)

Stríð eða neyðarástand er enginn forasenda þjóðstjórnar og þótt svo væri, eru aðstæður í samfélaginu slíkar að auðvelt væri að réttlæta slíka stjórnarmyndun.

Evu Joly er fullkomlega heimilt að tjá sig um það sem hún vill, þótt hún sé samtímis í einhverju verkefni fyrir ríkisstjórn Íslands. Hún notar Ísland sem dæmi í grein sinni sem fjallar um spillta stjórnarhætti og ónýtt verðmætamat almennt í heiminum, eins og Georg P bendir á.

Ekkert kemur fram í grein Evu og varðar Ísland beint, sem ekki hefur verið margsungið hér á blogginu og í fjölmiðlum landsins almennt. - Það eru um það deildar meiningar hvort Ísland hafi efni á að greiða Icesave og það eru líka deildar meiningar um hvað það sé "að hafa efni á." Gísli og Þórdís lesa greinilega skrif Evu með flokkspólitískum gleraugum og ef grein mín hefur einhvern boðskap er hann sá að slík gleraugu séu illa til þess fallin að gefa rétta mynd af þessum málum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 4.8.2009 kl. 16:33

9 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Að stjórnmálmenn takist á um mál á þingi fyrir opnum tjöldum er upplýsandi fyrir samfélgið og því grunnstoð lýðræðis hver sem hvatinn að baka er. Ef þú getur bent mér á fulltrúalýðræði sem hefur virkað án stjórnarandstöðu skal ég fús kynna mér það í þaula. Eftir minni bestu vitneskju er ekki til neitt dæmi þess, þó t.d. seinni heimsstyrjöldin hafi um sinn gert það nauðsynlegt í sumum löndum til að hægt væri að leyna öllum upplýsingum og „óvinurinn“ gæti ekki nýtt sér hina lýðræðislegu umræðu til upplýsingaöflunar.

Helgi Jóhann Hauksson, 4.8.2009 kl. 17:44

10 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Að auki er samræðan og átökin virkasta leiðin til að draga fram upplýsingar og sjónarhorn sem skipta máli á leiðinni að finna bestu lausn.

Helgi Jóhann Hauksson, 4.8.2009 kl. 17:47

11 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Helgi og þakka þér athugasemdirnar.

Ég er síður en svo að halda því fram að umræða eigi ekki að fara fram á þinginu. Ég legg hinsvegar til að umræðan verði færð meira í átt til samráðs. Í dag fer umræðan þannig fram að þingmenn reyna allt hvað þeir geta til að sannfæra aðra þingmenn um að það sem þeir segja sé það eina rétta og ef þeir tilheyra meirihlutanum þurfa þeir ekki einu sinni að hafa áhyggjur af því að sannfæra neinn, málið er þegar komið í höfn í krafti meiri hlutans. Minni hlutinn hefur ekkert að segja og allt það sjónarspil sem sett er svið um "upplýsandi umræðu" er í raun pólitísk refskák.

Mín hugmynd um lýðræði byggir á því að frambjóðendur standa ekki á listum heldur bjóða sig fram sem einstaklingar. Alþingi á að stunda  alvöru samráð, þar sem tilgangurinn er að finna sannleikann frekar en einhverjar málamiðlanir og að einfaldur meirihluti á að ráða för eftir að búið er að fullvissa sig um að allar upplýsingar sem málið varða séu fram komnar og hvaða grundvallarreglur lúta að þeim.

Slíkt lýðræði er ekki til enn í heiminum en það er ekki ómögulegt að búa það til. Eitt er víst að ef ekki verður breytt um aðferð, mun útkoman ætíð verða sú sama.

Þú skrifar "

Að auki er samræðan og átökin virkasta leiðin til að draga fram upplýsingar og sjónarhorn sem skipta máli á leiðinni að finna bestu lausn.

Ég get alveg tekið undir þetta en finnst flokkspólitíkin og sundrungin sem hún skapar skemma of mikið fyrir.

Svanur Gísli Þorkelsson, 5.8.2009 kl. 02:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband