52 mönnum bjargað um borð í íslenskt skip úr sökkvandi kafbát

svanurfinnalndsforsetiÉg starfaði í Vestmannaeyjum um árabil við leiðsögn hjá Ferðaþjónustu Páls Helgasonar. Til Eyja komu m.a. margir þýskir hópar, mikið eldra fólk sem komið var á eftirlaun. Þrátt fyrir undrin öll sem Eyjarnar hafa upp á að bjóða, komust Þjóðverjarnir mest við að heyra söguna af því þegar Skaftfellingur VE-33 bjargaði 52 mönnum af áhöfn þýsks kafbáts 19. ágúst árið 1942. Skipið var þá gert út af Helga Benediktssyni föður Páls, en sjálfur var Páll meistari í að segja söguna þannig að ekki var þurr hvarmur í rútunni þegar komið var að flaki skipsins þar sem það stóð í gamla slippnum Í Eyjum. Á vefsíðunni Heimaslóð er að finna greinagóða lýsingu af þessum atburðum og fer hún hér á eftir í tilefni dagsins að sjálfsögðu.

SkaftfellingurAðfaranótt 19. ágúst árið 1942, rétt eftir miðnætti, hélt Skaftfellingur úr höfn í eina af sínum fjölmörgu ferðum til Fleetwood, að þessu sinni með farm af ísfiski. Páll Þorbjörnsson, skipstjóri, og Andrés Gestsson, háseti, áttu vakt aðfaranótt 20. ágúst. Mikil bræla var og austanátt þegar bandarísk sjóflugvél flaug yfir Skaftfelling í tvígang, rétt fyrir kl. fjögur að morgni, og gaf þeim morse-merki. Andrés varð var við merkið og lét skipstjórann vita, en ekki tókst þeim að ráða úr skilaboðunum. Þeir sáu aftur á móti mjög fljótlega að eitthvað var í sjónum framundan. Þeir töldu fyrst að um björgunarbát með segl væri að ræða, en svo sáu þeir að fyrirbærið virtist stinga sér í ölduna líkt og skip gera - eða kafbátar. Enda var sú raunin að um þýskan kafbát var að ræða. Skipverjar kafbátsins voru þá á þilfari hans, og veifuðu þeir til Skaftfellings með rauðum fána. Aðrir skipverjar voru ræstir, fokkan (lítið segl) var dregin niður og íslenskur fáni dreginn að húni. Fyrstur upp á dekk af þeim sem voru á frívakt, var fyrsti vélstjóri skipsins, Jóhann Bjarnason, en Páll skipaði honum að hlaða byssurnar. Skaftfellingur var búinn þremur vopnum: 5 skota riffli og 90 skota vélbyssu, auk skammbyssu sem skipstjórinn hafði.

Þegar skipverjum Skaftfellings varð ljóst að skotið hafði verið á kafbátinn, þannig að hann gat ekki kafað og hann orðinn verulega laskaður, þá fóru þeir að huga að því að bjarga skipverjum, sem voru milli vonar og ótta, um borð í Skaftfelling. Reynt var fyrst að slaka til þeirra björgunarfleka sem átti að geta borið 10-12 manns, en flekinn slitnaði frá Skaftfellingi. Á meðan þeir reyndu að finna nýja leið til þess að ná Þjóðverjunum um borð byrjuðu þeir að stinga sér í sjóinn og synda að Skaftfellingi. Aðstæður við björgunina breyttust þá á svipstundu, og menn kepptust við að hífa Þjóðverjana um borð. Reynt var í fyrstu að leita á mönnum og afvopna þá ef með þyrfti en eftir því sem leið á björgunina varð það erfiðara.

Skipherra kafbátsins var síðastur um borð í Skaftfelling, en hann og tveir aðrir sökktu kafbátnum áður en þeir fóru frá borði, svo að hann endaði ekki í óvinahöndum. 52 skipverjum var bjargað um borð í Skaftfelling, en sögum ber ekki saman um, hvort um borð hafi upphaflega verið 54 eða 60. Samkvæmt skipaskrá kafbátsins voru sextíu menn um borð, en samkvæmt vélstjóra þýska kafbátsins, Reinhart Beier, voru eingöngu tveir sem lokuðust inni í skipinu þegar það sökk. Vandast málið enn frekar þegar athugað er að samkvæmt frásögn Andrésar Gestssonar var að minnsta kosti einn maður gestkomandi í kafbátnum:

[...] Ég man eftir því að annar þeirra var flugmaður sem kafbátsmenn höfðu bjargað. [...]

Samkvæmt skráningum voru þeir tveir sem létust, Kurt Seifert og Karl Thiele.

Þjóðverjunum var komið um borð í tvo breska tundurspilla sem stöðvuðu Skaftfelling á för sinni. Þjóðverjarnir voru fluttir til Reykjavíkur og þeir hafðir þar í kanadískum fangabúðum um hríð.

U-464

Unterseeboot 464Kafbáturinn sem sökk þessa nótt, 20. ágúst 1942, var þýskur U-kafbátur (Underseeboot) af gerð XIV, nefndur U-464. Eingöngu tíu slíkir kafbátar voru smíðaðir, en þeir fengu viðurnefnið mjólkurkýr (milchkuh). Þeirra hlutverk var að flytja hergögn og vistir til kafbáta af gerð VII og IX. Fyrsta mjólkurkýrin var U-459, en U-464 var án efa sú skammlífasta. Bygging á bátnum hófst þann 18. mars 1941 og var sjósetningin þann 30. apríl 1942. Skipstjóri bátsins var kapteinleutenant Otto Harms.

U-464 fór tvær ferðir á sinni tíð, en fyrri ferðin, sem stóð frá 30. apríl 1942 til 1. ágúst 1942, var æfingaferð með 4. flotadeildinni, sem var æfingafloti fyrir kafbáta. Seinni ferðin hófst þann 1. ágúst 1942 og stóð til 20. ágúst, þegar sjóflugvél af Catalina-gerð frá bandarísku VP-73 flughersveitinni varpaði fimm djúpsprengjum á hann. Djúpsprengjurnar löskuðu skipið að ofanverðu þannig að það gat ekki kafað, en þó hefði skipið átt að geta siglt áfram á um 8 sjómílna hraða (hann komst upphaflega á um 10 sjómílna hraða).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

52. er raðtala, lesin sem "fimmtugasti og annar".  Ég held að það væri þægilegra að lesa þennan fróðlega pistil ef þú tækir punktinn í burt.

Jens (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 11:39

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Góð ábending Jens. Takk fyrir hana.

Svanur Gísli Þorkelsson, 7.6.2009 kl. 11:45

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Fínn pistill og vel tímasettur núna.

Sigurður Hreiðar, 7.6.2009 kl. 12:17

4 Smámynd: Einar Steinsson

Það sem eftir er af Skaftfellingi stendur núna inni í gamla pakkhúsi Kaupfélagsins í Vík.

Einar Steinsson, 7.6.2009 kl. 17:29

5 identicon

Góð saga.

EE elle (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 00:49

6 identicon

Nei, merkileg saga.  Hitt kom e-ð vitlaust út.

EE elle (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 00:51

7 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Svanur. hvort það sé einhverstaðar á prenti þá Fékk Páll skipsstjóri gefins silfur kross frá Flugmanninum sem U báturinn bjargaði. Bróðir Páls þ.e. Björn sem ég sendi grein þína sagði að hann (Páll) hefði seinna tínt honum. Kannski er hann fundin aftur.? þetta eru merkilegar heimildir.

Valdimar Samúelsson, 8.6.2009 kl. 15:37

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Valdimar og þakka þér athugasemdina sem og ykkur hinum.

Nú veit ég ekki um þetta með krossinn en ég hef heyrt að þegar að þýsku fangarnir yfirgáfu Skaftfelling launuðu þeir áhöf hans björgun sína með að taka af sér allt fémætt og gefa það henni, þar eð þeir vissu að það mundi af þeim tekið hvor eð er í fangabúðunum. Hvort þetta er satt, veit ég ekki, en Páll Helga hafði þetta ávalt fyrir endann á sögunni og það var ekki að spyrja að því að fullharðnaðir karlmenn fóru að hágráta.

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.6.2009 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband