Aðvörun

Þegar ég verð gömul kona mun ég klæðast fjólubláu
við rauðan hatt sem ekki passar og fer mér ekki.
Og ég mun eyða lífeyrinum í koníak og sumarhanska.
Og satín sandala og segja að engir peningar séu til fyrir smjöri.
Ég ætla að setjast niður á gangstéttina þegar ég er þreytt
og háma í mig sýnishorn í búðum og hringja viðvörunarbjöllum
og renna prikinu mínu eftir grindverkinu
og bæta mér upp hversu stillt ég var í æsku.
Ég ætla út í rigninguna á inniskónum
og tína blóm úr görðum annars fólks
og læra að hrækja.

Þú getur klætt þig í hræðileg pils og fitnað meira
og þú getur borðað þrjú pund af pylsum í einu
eða bara brauð og súra gúrku í viku
og safnað pennum og blýöntum, glasamottum og hlutum í boxum. 

En núna verðum við að klæðast fatnaði sem heldur okkur þurrum
og borga leiguna og ekki bölva úti á götu
og setja börnunum gott fordæmi.
Við verðum að bjóða vinafólki í mat og lesa blöð.

En kannski ætti ég að æva mig dálítið núna?
Svo fólk sem þekkir mig sjokkerist ekki og undrist
Þegar ég allt í einu verð gömul og byrja að klæðast fjólubláu.


Jenny Joseph

jenny_josephJenny Joseph (f. 1932) er ensk skáldkona. Ljóðið hennar "Aðvörun" sem ég tók mér það bessaleyfi að snúa á íslensku og birta hér að ofan, (ekki af tilefnislausu) var árið 1996 kosið vinsælasta ljóðið sem samið hefur verið eftir seinni heimsstyrjöldina í Bretlandi. Fyrir kosningunni stóð BBC.

Ljóðið hefur haft mikil áhrif á konur um allan heim og í Bandaríkjunum var t.d. stofnaður Rauðhatta-klúbbur kvenna sem koma saman til að drekka te í fjólubláum kjólum og með rauða hatta.  

Hugmyndin að Rauðhattaklúbbnum kviknaði þegar Sue Ellen las ljóðið „Warning" eftir Jenny Joseph sem segir frá eldri konu sem klæðist fjólubláum fötum og ber rauðan hatt. Ljóðið hreif Sue Ellen svo að hún ákvað að gefa vinkonu sinni ljóðið ásamt rauðum hatti í afmælisgjöf. Vinkonan varð einnig svo hrifin að hún gaf fleirum sömu gjöf og svona hélt þetta áfram. Einn daginn ákveður þessi hópur að hittast í fullum skrúða, það er að segja í fjólubláum fötum sem passa alls ekki við rauða hattinn og það varð ekki aftur snúið. Rauðhattaklúbburinn varð til. 

Sue Ellen Cooper stofnaði Rauðhattaklúbbinn árið 1998 og í dag eru Rauðhettir í Bandaríkjunum og Kanada að nálgast hálfa milljón og klúbburinn er byrjaður að skjóta rótum í Evrópu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er ljómandi gott.

oliagustar (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 13:13

2 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Svona ætla ég líka að verða þegar ég er orðin gömul. Semsagt eftir korter. Hef reyndar heyrt af þessum konum, vissi ekki að ljóðið væri uppsprettan.

Rut Sumarliðadóttir, 21.5.2009 kl. 13:37

3 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sé þessar flottu konur oft á veitingastöðum, sem þær halda þessi  teboð sín.

Hugsa gott til glóðarinnar, .......... þegar ég verð gömul!

Jenný Stefanía Jensdóttir, 21.5.2009 kl. 13:39

4 Smámynd: Eygló

Dýrðlegt!

Eygló, 21.5.2009 kl. 15:26

5 identicon

Ég líka,verði ég gömul..

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 17:49

6 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

hvað með mig? ég verð aldrei gömul. í mesta lagi gamall.

er þetta ekki kynjamisrétti?

Brjánn Guðjónsson, 21.5.2009 kl. 22:38

7 identicon

Ég vissi ekki að rautt og fjólublátt passar ekki saman. Ég er einmitt að leita að fjólubláum skóm og veski til að nota við rauða kjólinn minn, en ég á engan hatt. Ég hlýt að vera orðin gömul kona.

gp (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband