18.3.2009 | 02:41
Eftirlegukindin Ísland
Hún er heit umræðan þessa dagana um hvort Íslandi sé betur sett innan eða utan Evrópubandalagsins. Ein er hlið á því máli sem sjaldan sést rædd, enda hagsmunapólitíkin í forsæti eins og vanalega. -
Þegar við lítum yfir farin veg mannkynsins síðast liðin 10 þúsund ár má greinilega sjá að menningarleg þróun okkar krefst stöðugt stærri samfélagsheilda. Ef stiklað er á stóru í þessari söguskoðun sjáum við að fjölskyldan óx af hirðingastiginu og varð að ættbálki sem gat með samvinnu ræktað landið. Ættbálkarnir mynduðu með sér borgríki þar sem iðnaður og verslun varð til. Borgríkin mynduðu með sér bandlög sem urðu að lokum að þjóðum. Nú streitast þjóðirnar til við að mynda með sér þjóðabandalög sem að lokum munu sameinast í einu alþjóðlegu ríkjasambandi. Hinar umfangsmiklu breytingar á högum og háttum manna þegar að þeir hættu að reiða sig á veiði og því sem þeir gátu safnað og fóru að rækta jörðina marka svo mikil tímamót að áhrifamestu rit heimsins eins og Biblían, hefjast á frásögninni af þeim.
Lífsafkoma fólks heimsins og lífsgæði þess á hverju stigi, valt og veltur ætíð á að hvaða marki það var tilbúið til að tileinka sér þau sjónarmið sem gerðu þeim kleift að taka þátt í þessari framvindu menningarlegrar og samfélagslegrar þróunar. Eftirlegukindurnar og þeir sem heltust úr lestinni, stöðnuðu og tíndust.
Það kann vel að vera að Ísland geti streist á móti þessari, að því er virðist, ómótstæðilegu tilhneigingu sögu-framvindunnar í einhver ár í viðbót, en þeir geta ekki vonast til að stöðva þróunina. Fyrr eða seinna verða þeir að semja sig inn í þjóðabandalagið eins og aðrar þjóðir eða gerast ein af eftirlegukindunum og lúta þá örlögum þeirra.
Sú heimskreppa sem læsir nú klónum um mannkynið á eftir að herða takið til muna enda er hún aðeins byrjunin á miklum samfélagslegum hamförum á borð við þær sem áttu sér stað þegar að mannkynið sagði skilið við hirðingjalífs-stíl sinn og tók upp fasta búsetu og jarðrækt. Að auki er hún uppgjör við helstefnu blindrar efnishyggju sem einhverjir gáfu réttnefnið "frjálshyggja" því undir henni er öllum allt leyfilegt. Hugmyndafræðilega er hún ímynd fjárhagslegs Darwinisma.
Næstu skref í samfélagsþróun mannkynsins verða tekin þrátt fyrir tregðu þess til að stíga þau. Í því sambandi er sannarlega um líf eða dauða að tefla. Það er t.d. fyrirsjáanlegt að á næstu áratugum verður tekin upp alheimsleg minnt og staðlað efnahagskerfi sem tryggir fólki sömu laun fyrir sömu vinni hvar sem það er í heiminum. Samtímis verða auðlindir heimsins álitnar tilheyra mannkyninu öllu frekar en einstaka þjóðum enda er vistkerfi hans svo samfléttuð að ómögulegt er þegar að réttlæta tilkall einnar þjóðar til nýtingu þeirra umfram aðrar.
Ísland sem er svo ríkt af varningi sem í framtíðinni munu skipta mesta máli fyrir afkomu mannkynsins, vatni og orku, ætti að vera í fararoddi þeirra þjóða sem vilja deila með heiminum auðlindum sínum, í stað þess að draga á eftir fæturna eins og staðan er í dag.
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:44 | Facebook
Athugasemdir
Þetta minnir mann, Svanur Gísli, á trú Marxista á "hina óhjákvæmilegu framvindu sögunnar", hið "járnharða lögmál" efnishyggjulegrar söguskoðunar.
Ofurtrúin á "samrunaferlið" og sameiningarþróun í æ stærri heildir hefur riðið hér húsum síðasta áratuginn. Hún birtist í sameiningu sveitarfélaga, sem einmitt naut í verulegum mæli stýringar marxista í félagsmálaráðuneytinu.
Hún birtist einnig í sameiningarþróun fyrirtækja: nýjar og "hagkvæmari" heildir áttu að leysa smærri einingar af hólmi, ekkert var fyrir alvöru fínt og vert þess að fjárfesta í, ef ekki stórfyrirtækin, sem höfðu svo mikinn styrk og þrótt til útrásar og enn meiri landvinninga. Allt reyndist það ein allherjar-spilaborg, og skaðinn varð þeim mun meiri sem fleiri fyrirtæki höfðu verið keypt eða véluð inn í þessa auðhringa. Og það var ekkert lát á frekari stefnu í þessa átt fram undir það síðasta – sá, sem nú hefur mestan metnaðinn til að verða formaður stærsta stjórnmálaflokksins, vildi t.d. láta innlima eða öllu heldur leggja Íbúðalánasjóð undir stóru bankana. Menn eru harla fegnir, að honum (BB jr.) og Illuga þingmanni vannst ekki tími tl að koma þessu í framkvæmd með því að beita áhrifum sínum á Alþingi.
Og svo er það Evrópubandalagið, sem margir vilja ólmir að við Íslendingar verðum partur af, ein lítil tönn í 1670 sinnum stærra tannhjóli. Hvílík sæla! Það vill reyndar svo til, að tannhjólið stóra er að ryðga nokkurn veginn fast: hagvöxtur hefur stefnt eindregið að því að staðna þar síðustu áratugi (sjá efst á vefsíðu Gunnars Rögnvaldssonar).
Prófessor Ragnar Frisch, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, skrifaði (áður en farið var að kalla bandalagið Evrópusambandið): "Efnahagsbandalagið er og verður þröngsýn Evrópuhyggja. Sameinuðu þjóðirnar og Norðurlönd – eins og þau hafa hagað sér hingað til – eru fulltrúar sannrar alþjóðahyggju."
Þetta ritaði hann með hliðsjón af þróunarhjálp Norðurlanda annars vegar og Evrópubandalagsins hins vegar.
Landbúnaðarstefna EBé (ESB) var grundvölluð á sérhyggju, ekki alþjóðahyggju. Um hana ritaði Frisch, þegar þessi landbúnaðarstefna var að fá á sig fast form:
"Hana á [þ.e. stendur til að] samræma, og landbúnaður bandalagsins á að komast á hagkvæmari grundvöll. Til þess þarf fé, og það hyggst bandalagið fá með því að leggja álitlegan toll á búvöru frá löndum utan bandalagsins. Þar á að slá tvær flugur í einu höggi. Landbúnaður innan bandalagsins verður samkeppnishæfari, og um leið stendur landbúnaður utan bandalagsins verr að vígi í samkeppni." (Aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu er óhyggileg og hættuleg, þýðandi dr. Björn Stefánsson, s. 27.)
Það er með hliðsjón af þessu, sem ég vek athygli þína, Svanur, á eftirfarandi ummælum leiðtoga í þriðja heiminum:
"Efnahagsbandalagið verður miklu áhrifameira tæki til að halda þróunarlöndunum í skefjum en nokkurt nýlenduveldi hefur nokkru sinni haft ráð á." – Nehru, forseti Indlands (faðir Indiru Gandhi, móður Rajavs Gandhi).
"Efnahagsbandalagið er tæki til að halda óbreyttu ástandi meðal ríkra þjóða og fátækra." – Nkrumah, Ghana.
"Með Efnahagsbandalaginu eru gömlu nýlenduveldin að reyna að ná aftur tökum á ríkjunum í Afríku" – og: "Okkur er bezt borgið með því að skipta við Evrópuríki utan Efnahagsbandalagsins." – Tom Mboya, Kenýa.
Þeir vissu, fyrir hönd þjóða sinna, hvað til þeirra friðar heyrði.
Jón Valur Jensson, 18.3.2009 kl. 04:05
Smá sögu frásögn af Bretum og Evrópusambandinu.
„It is demonstrably unjust. It is politically indefensible: I cannot play Sister Bountiful to the Community while my own electorate are being asked to forego improvements in the fields of health, education, welfare and the rest.“
Þetta sagði Margaret Thatcher 18 október 1979. Þá voru bretar í miklum erfiðleikum með efnahag sinn og gengið á pundinu lækkaði mikið á þessum tíma.
Bretar voru að borga 20% af tekjum Evrópusambandsins og fékk til baka 9% af þessum tekjum.
Árið 1980 kúgaði Thatcher 760 milljón punda út úr sambandinu.
Það sem bjargaði efnahg Breta og pundinu. Þeir fundu olíu í norður sjó.
þá er bara að vona og biðja að íslendingar finni olíu.
Heimild: kathleen Burk. The british isles since 1945. Oxford university press. 2003. bls 170-173.
Ingo (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 11:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.