Ólíkt hafast þjóðirnar að

Ég er eflaust að bera í bakkafullan lækinn með að skrifa eitthvað um veðurfarið hér í Bretlandi um þessar mundir. Sjaldan eða aldrei kemur betur í ljós munurinn á samfélaginu heima og hér en þegar borin eru saman viðbrögð fólks við snjókomu. Mestur snjór á suðvestur og suður Englandi í 12 ár segja fjölmiðlar. (Á íslandi mundi þetta vera kölluð föl.)

Snjór í BathHér í Bath eru tveir þrír sentímetrar af jafnföllnum snjó og þess vegna hefur skólum verið lokað, bílar sitja fastir, fólk kemst ekki til vinnu, og allt mannlíf gengur úr skorðum.

Fjölmiðlar keppast um að segja fólki að halda sig heima við og ef það hugsi sér til hreyfings að láta vita um ferðir sínar, taka með sér skjólfatnað og heita drykki á brúsum. Hitastigið er í kringum tvö stig!

Bæjar og borgaryfirvöld hafa keppst við að bera á götur og vegi salt og sand og nú er svo komið að allar byrgðir af þeirri ágátu blöndu eru uppurnar.

Stjórnmálamenn kvarta yfir að veðrið komi til með að kosta þjóðarbúið miljarði og aðrir benda á að það sé bara gott að bankamennirnir komist ekki til vinnu til að eyða meira af þeim aurum sem stjórnvöld hafa ausið í bankanna upp á síðkastið. Enn aðrir benda á að fólk eigi bara að slappa af og njóta veðursins og hins sjaldséða snjós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

HAHAHA!!  Þetta er ekki ósvipað hér í Svíaríki - menn dæsa og kvarta þessi ósköp yfir vetrinum og rjúka til Tælands og Kanarí í fússi.  Smásnjór, blankalogn og örfáar gráður í mínus.  Eða eins og maðurinn minn er vanur að segja við Svíana - "Hér eru tvær tegundir af veðri:  "Bra" og "Jättebra"!  Sumir vita ekki hvað þeir hafa það gott.

Aðalheiður Haraldsdóttir, 6.2.2009 kl. 18:52

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Með svona lagað skiptir mestu máli hvað fólk hefur vanist. Í löndum þar sem snjóar sjaldan og lítið þegar snjóar á annað borð er ekki hægt að búast við að fólk bregðist við eins og í löndum þar sem oft snjóar og mikið. Reyndar er Ísland ekki snjóþungt land, allra síst á suðurlandi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.2.2009 kl. 21:09

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Svanur minn, nú ferð þú bara í bissnes og selur snjódekk

Sigrún Jónsdóttir, 7.2.2009 kl. 00:01

4 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Ég hef verið að fylgjast með þessum fréttum á sky og BBC, þetta væri ekkert vandamál hjá Bretanum ef þeir væru á vetrardekkjum, (að vísu er ekki hægt að setja vetrardekk á lestarnar) en það er rétt hjá þér þeir gera mikið úr þessu í fréttum. Þarna kemur viðskiptahugmynd, seljum Bretanum þekkingu okkar í þessum málum, sendum Breska bæjarstarfsmenn til Íslands í nám í ófærð.

Sigurveig Eysteins, 7.2.2009 kl. 10:48

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Það er svo sem engin furða að þeir aki ekki á snjódekkjum þegar það snjóar ekki svona nema á 12 ára fresti :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 7.2.2009 kl. 13:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband