29.1.2009 | 22:09
Af hremmingum íslensks sendiherra
Eitt sinn var ungum manni boðin sendiherrastaða í Frakklandi. Hann þáði þá upphefð með þökkum og flutti með fjölskyldu sína til Parísar og tók upp aðsetur í stóru og flottu einbýlishúsi sem utanríkisráðuneytið átti.
Ungi maðurinn átti konu og tvær litlar stúlkur. Fljótlega eftir að hann tók við embættinu byrjuðu Íslendingar í allskonar "mikilvægum" erindagjörðum að heimsækja hann og oftar en ekki drógust þeir fundir á langinn og enduðu oftar en ekki með að dregin var fram einhver tegund af frönsku víni sem þarna voru svo ódýr og góð og skálað var fyrri landinu og þjóðinni sem kúrði heima á klakanum.
Eftir nokkra mánuði af stöðugum gestakomum og löngum kvöldum þar sem smakkað var á wiskey og líkjörum þegar að franska vínið þraut, var fjölskylda unga sendiherrans orðin dauðuppgefin á ástandinu.
Hann hafði lofað dætrum sínum að fljótlega eftir komuna til Frakklands mundi hann taka þær í ökuferð og fara með þær í stærsta og frægasta dýragarð í Evrópu, þar sem dýr víða úr heiminum gengu um frjáls á gríðarstóru afgirtu landsvæði sem hægt var að aka um og skoða dýrin.
Vegna veisluhaldanna hafði lítið orðið af efndum.
Snemma einn Laugardag komu dæturnar að máli við föður sinn og tóku af honum eindregið loforð um að morguninn eftir mundu þau stíga upp í flotta svarta sendiráðsbílinn sem reyndar enn hafði ekki gefist tími til að merkja sendiráðinu og aka út fyrir París og heimsækja dýragarðinn.
Það sama kvöld komu nokkrir digrir íslendingar í heimsókn og fyrr en varði var slegið upp veislu. Seint um nóttina gekk ungi sendiherrann til hvílu og fannst hann rétt hafa lagt höfuðið á koddann þegar tvær litlar dömur byrjuðu að toga hann út úr rúminu. Pabbi, pabbi, komdu, þú lofaðir manstu...
Hann vissi að honum var engrar undankomu auðið, dreif sig því í sturtu og innan klukkustundar voru þau öll lögð af stað, hann með frúnna í framsætinu og dæturnar tvær í aftursætinu. Af og til hnusaði eiginkonan út í loftið, opnaði gluggann og veiddi loks tyggigúmmí upp úr handtöskunni sem hún lét bónda sinn hafa.
Eftir einnar klukkustundar akstur komu þau að dýragarðinum. Þau óku inn í hann eftir að hafa greitt aðgangsgjaldið og lituðust um. Við veginn stóðu skilti sem lýstu þeim dýrum sem helst var að vænta að sjá á hverjum stað og á öllum þeirra stóðu varnaðarorð um að ekki mætti að stöðva bílinn nema í stuttan tíma í senn, ávalt bæri að vera með bílrúðurnar uppskrúfaðar og stranglega væri bannað að gefa dýrunum einhverja fæðu.
Fyrst sáu þau strút hlaupa með ofsahraða yfir veginn fyrir framan bílinn og það varð til þess að ákveðið var að aka löturhægt. Stúlkurnar komu þvínæst auga á hlébarða en hann var of langt í burtu til að hann sæist vel. Allt í einu óku þau fram á þrjá gíraffa sem stóðu þétt upp við veginn og hreyfðu sig ekki þótt bifreiðinni væri ekið alveg upp af þeim. Ungi sendiherrann stöðvaði bifreiðina og öll virtu þau fyrir sér tignarleg dýrin nokkra stund sem stundum teigðu hálsa sína í átt að rúðum bílsins eins og þeir byggjust við að fá eitthvað góðgæti úr þeirri átt. -
Rafmagnsvindur voru á bílrúðunum og áður en sendiherrahjónin fengu nokkuð við gert, hafði önnur stúlknanna rennt niður rúðunni á annarri afturhurðinni. Samstundis skaut einn gíraffinn höfðinu inn um gluggann. Litlu stúlkurnar æptu af hræðslu þegar að löng tunga Gíraffans leitaði fyrir sér að einhverju matarkyns inn í bílnum. Um leið og telpurnar æptu eins og himinn og jörð væru á enda komin, greip skelfing um sig í framsætunum líka.
Móðurinn fann takkann sem stýrði rúðunum fram í bílnum og ýtti á hann þannig að rúðan halaðist upp til hálfs og herti þannig að hálsi gíraffans. Um leið ók sendiherrann af stað og neyddi þannig gíraffagreyið til að hlaupa meðfram bílnum þar sem hann sat fastur í glugganum. Brátt tók grænt slý að renna frá vitum gíraffans sem lyktaði eins og blanda af súrheyi og hænsnaskít.
Ópunum í aftursætinu linnti síst þegar stór gusa af slýinu gekk upp úr gíraffanum og yfir telpurnar. Sendiherrann snarstansaði bílinn en aðeins þá gerði hann sér gein fyrir að gíraffinn var enn fastur við bifreiðina. Hann ýtti aftur á rúðuhnappinn og gíraffinn tók á stökk tafsandi og frísandi á braut.
Ástandið í bílnum var vægast sagt skelfilegt. Telpurnar voluðu í aftursætu útbíaðar í grænu slýi sem ferlegan fnyk lagði af. Frúin reyndi hvað hún gat til að þurrka framan úr þeim með klút sem hún hafði fundið í hanskahólfinu og nú heltist þynnkan af fullum krafti yfir sendiherrann.
Sendiherrann ákvað að það væri ekki stemming fyrir frekari dvöl í dýragarðinum og hraðaði sér út úr honum. Þegar út á hraðbrautina kom var ljóst að það þurfti að stoppa sem fyrst og reyna að hreinsa stúlkurnar betur og bílsætin því bíllinn lyktaði eins og flór. Brátt komu þau að bensínstöð þar sem þau stönsuðu og tóku til óspilltra málanna við að hreinsa það sem hreinsast gat. En lyktin var svo megn að á endanum ákváðu þau að fækka fötum og setja þau í ruslapoka sem síðan fór í skottið.
Þegar þau héldu af stað aftur, sátu telpurnar á gammósíunum og undirbolum, frúin á brjóstahaldinu einu að ofan og sendiherrann sjálfur á nærbuxunum.
Þau höfðu ekki ekið nema stuttan spöl þegar að sendiherrann sér í bakspeglinum hvar lögreglubíll með blikkandi ljósum er kominn upp að honum. Hann vék bílnum út í vegkantinn og beið rólegur eftir að lögregluþjónarnir stigu út. Annar þeirra gekk beint að bílnum og benti sendiherranum að stíga út úr sínum bíl. Sendiherrann talaði ágætlega frönsku og taldi víst að hann mundi getað spjarað sig gagnvart lögreglumönnunum. En hann hafði áhyggjur af því að hann kynni að vera undir áhrifum ennþá.
Hvað get ég gert fyrir ykkur, spurði hann hæverskur og sté út úr bílnum og reyndi að brosa.
Við sáum að þegar þér ókuð út frá Bensínstöðinni þá gáfuð þér ekki stefnuljós, svaraði sá sem nær var.
Það kann vel að vera, ég var eitthvað stressaður að komast heim, svaraði sendiherrann.
Lögreglumaðurinn fitjaði upp á nefið. Hm, það er mjög sterk lykt af yður. Hafið þér verið að drekka, spurði hann svo.
Ha, nei, ekki drekka, sko, nei, ekki síðan í gærkveldi.
Lögreglumennirnir litu hvor á annan. Já einmitt það, svaraði svo annar þeirra. Væri þér sama þótt þú kæmir með okkur snöggvast inn í lögreglubílinn.
Ja, ég er nú með fjölskylduna með mér og svo er ég sko sendiherra og nýt ákveðinnar friðhelgi sem slíkur,svaraði sendiherrann og lagði höndina á brjóst sér eins og hann væri að þreifa eftir veski sínu sem hann bar venjulega í jakkavasanaum. Æ, sagði hann svo, ég setti jakkann í skottið, sko í plastpokann skiljiði.
Lögreglumennirnir skimuðu inn í bílinn þar sem telpurnar sátu skjálfandi og sendiherrafrúin reyndi að halda veskinu fyrir brjóstum sér.
En það er alveg satt að ég er sendiherra frá Íslandi hélt sendiherrann áfram, og, og þetta með lyktina, ég get alveg skýrt hana. Það var sko þannig að við stoppuðum bílinn og þá rak Gíraffi inn hausinn og ældi yfir okkur öll, sko og þaðan er lyktin komin. Svo fórum við öll úr fötunum á bensínstöðinni.
Lögreglumennirnir litu aftur hvor á annan og virtust allt í einu taka ákvörðun. Gjörið svo vel að stíga frá bílnum sagði annar þeirra skipandi röddu og lagði um leið hönd á skammbyssuna sem hann bar við mitti sér. Leggist á hnén og setjið hendurnar fyrir aftan bak.
Sendiherrann rak upp hláturroku...sko, ég er að segja sannleikann, það var gíraffi sem ældi á okkur og þess vegna er passinn minn í skottinu..
Ekkert múður, niður á hnén.........Um leið og hann lagðist á hnén fann hann handjárnin smellast um úlnliði hans.
Viku síðar fékk ungi sendiherrann ákærubréf frá lögreglunni. Hann var sakaður um ölvun við akstur.
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkar: Dægurmál, Spaugilegt, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:33 | Facebook
Athugasemdir
Þeir hafa verið misjafnir þessir sendiherrar enda margir ráðnir útá pólitík í gegnum tíðina.
Þetta hefur verið virkilega góð auglýsing fyrir landið og látið okkur líta út sem siðmenntaða þjóð enda eiga sendiherrar að sýna gott fordæm og þetta er gott dæmi um það.
Ég mæli með að þessi sendiherra ef hann er það enn verði settur sem ráðherra enda eru þeir allir vanhæfir eða kannski Seðlabankann.
Hannes, 30.1.2009 kl. 01:18
Góð saga.
Arinbjörn Kúld, 30.1.2009 kl. 01:28
Hvar var bílstjórinn ?
Hildur Helga Sigurðardóttir, 30.1.2009 kl. 07:25
Jamm. góð saga.
Jón Halldór Guðmundsson, 30.1.2009 kl. 12:23
Þetta kennir manni að sannleikurinn er oft svo ótúrlega lygilegur... gaman að lesa þessa sögu, takk fyrir mig.
Brattur, 30.1.2009 kl. 19:45
Sagan er auðvitað uppspuni frá byrjun til enda en hún gæti í fáránleika sínum hafa verið sönn.
Þakka athugsemdirnar :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 30.1.2009 kl. 20:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.