20.1.2009 | 10:50
Óþekkti uppreisnarmaðurinn
Sögulegir atburðir gerast enn með óvæntum hætti, þótt það sé ótvíræð viðleitni í gangi til að reyna að stjórna framvindu þeirra eða jafnvel búa þá til. Atburðir eins og þeir sem eiga sér stað í Bandaríkjunum í dag, eiga sér langan aðdraganda og eru vandlega undirbúnir.
Á komandi árum munu fjölmiðlar væntanlega sýna okkur aftur og aftur þegar B.H. Obama flytur ræðu sína og sver þess að gæta Bandaríkjanna sem fertugasti og fjórði forseti þeirra. Setningar úr ræðu hans munu eflaust verða fleygar líkt og er um klausurnar úr ræðum forsetana í hvers fótspor Obama reynir að feta, J.F. Kennedy og Abrahams Lincolns.
J.F. notaði reyndar slangur af tilvitnunum frá Lincoln þegar hann sór embættiseiða sína og ég yrði ekki hissa þótt Obama gerði það sama. Í dag svellur ættjarðarástin í Bandaríkjunum og heimurinn eignast "bestu síðustu vonina á jörðu".
En þær fréttamyndir sem mestu áhrifin hafa eru þó þær sem segja sögu sem er miklu lengri og umfangsmeiri enn nokkur sviðsett uppákoma getur fangað.
Meðal þeirra fréttamynda síðustu aldar eru t.d. upptakan og ljósmyndirnar sem teknar voru af unga manninum á torgi hins himneska friðar (Tiananmen) sem teknar voru þann 5. júní 1989.
Enginn veit enn með fullri vissu nafn þessa unga manns en hann hefur verið þekktur þau tæpu tuttugu ár sem liðin eru frá atburðinum; "óþekkti uppreisnarmaðurinn" og hann og myndirnar urðu heimsfrægar á einni nóttu. Þær hafa síðan verið taldar meðal mikilvægustu og áhrifamestu fréttamynda aldarinnar og voru t.d. valdar í þann hóp af bandaríska tímaritinu Time.
Einn síns liðs með innkaupapoka í hvorri hendi stöðvar hann röð af skriðdrekum sem sendir voru til að leysa upp fjöldamótmælin sem staðið höfðu í fáeina daga á torginu. Á myndbandinu sést að skriðdrekarnir reyna að aka framhjá honum en hann heldur þeim...einsamall. Að lokum stekkur hann upp á einn drekann og virðist eiga orðaskipti við áhöfn hans. Að lokum stekkur hann af skriðdrekanum og hverfur í fjöldann. Síðan hefur ekkert til hans spurst þrátt fyrir nákvæmar eftirgrennslanir fréttahauka frá ýmsum löndum.
Einn þerra sem varð vitni að atburðinum; fréttamaðurinn Charlie Cole, fullyrðir að maðurinn hafi verið tekinn af öryggisvörðum Kínversku stjórnarinnar og líklega verið tekinn af lífi. Bruce Herschensohn, fyrrum sérlegur aðstoðarmaður forseta Bandaríkjanna í stjórn Richards Nixons segir að hann hafi verið skotinn af aftökusveit 14 dögum eftir að atburðurinn á Tiananmen átti sér stað. Hinsvegar segir Jan Wong í bók sinni Red China Blues: My Long March from Mao to Now að maðurinn sé enn á lífi í felum einhversstaðar í Kína.
Árið 1990 tók hin kunna Bandaríska fréttakona Barbara Walters viðtal við Jiang Zemin sem þá var aðalritari kínverska Kommúnistaflokksins. Hún spurði hann um örlög óþekkta uppreisnarmannsins. Zemen svaraði að mestu á ensku.
BARBARA WALTERS, ABC News: Hvað varð um unga manninn?
JIANG ZEMIN: Ég held þesi ungi maður kannski ekki vera drepinn af skriðdrekanum.
BARBARA WALTERS: Nei, en handtókuð þið hann? Við heyrðum að hann hefði verið handtekin og tekinn af lífi.
JIANG ZEMIN: [Í gegn um túlk] Jæja, ég get ekki staðfest hvort þessi ungi maður sem þú nefnir hafi verið handtekinn eða ekki.
BARBARA WALTERS: Veistu hvað varð um hann?
JIANG ZEMIN: En ég held aldrei drepinn.
BARBARA WALTERS: Heldurðu að hann hafi aldrei verið drepinn.
JIANG ZEMIN: Ég held aldrei drepinn.
BARBARA WALTERS: Aldrei drepinn.
Jiang Zemin varð síðar forseti Kína og kom til Íslands í opinbera heimsókn ásamt fríðu föruneyti í júní 2002. Hann kom því þá til leiðar að fjöldi manns sem tilheyrði hreyfingunni Falun Gong var fangelsaður á Íslandi eða meinað að koma til landsins. Þá var gulklætt fólk fjarlægt úr sjónmáli hans hvar sem hann fór um landið. (Gulur er litur Falun Gong hreyfingarinnar)
Engin tilraun var gerð til að spyrjast fyrir um "óþekkta uppreisnarmanninn" af íslenskum stjórnvöldum, enda þeim annt um að styrkja viðskiptasambönd sín í Kína í upphafi útrásarinnar miklu.
Þeir sem vilja rifja frekar upp atburðina á torgi hins himneska friðar fyrir tæpum 20 árum geta horft á þetta 10. mín. myndband sem fjallar um atburðina og er með ensku tali.
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkar: Mannréttindi, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:57 | Facebook
Athugasemdir
Næst þegar ég fer í Bónus þá stekk ég fram fyrir næsta bitlingajeppa og stend fyrir framan hann með bónuspoka að vopni. Lifi byltingin.
Rut Sumarliðadóttir, 20.1.2009 kl. 11:35
Ég er reynda hættur að lát sjá mig með bónuspoka í hönd. En hver hefur sína trú.
Offari, 20.1.2009 kl. 12:04
Agara gagara verðir velta vítiskúlu sinni...
Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2009 kl. 12:30
.... seinna lendir hún ef til vill á ástinni minni.
Ég datt niður í umræðu. Það er hægt t.d. þegar manni bregður við eigin rökum. Jú, þeim, að ef forsetafrúin er af ríkum gyðingaættum og þeir styðja sína, .... Þá væri Ólafur nafni minn þar með - að styðja eitt, en tala annað. .... og svo vaknaði ég í myrkrinu í morgun og áttaði mig. Það er Þorri.
olisig (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 01:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.