Hrafninn, tilvalin miðnæturlesning

Megin efni þessa bloggs er einskonar formáli að hljóðritun á þýðingu Jochums Magnúsar Eggertssonar á ljóði Edgars Allans Poe, The Raven (Hrafninn) . Ég hef lengi haft áhuga á lífi og störfum Jochums og haft það í huga að gera því einver skil hér á blogginu. Þegar mér barst þessi hljóðritun í hendur frá náskyldum ættingja hans fyrir stuttu, stóðst ég ekki lengur mátið og birti hana hér. Skrif Jochums um launhelgar og leynda sögu Íslands munu því bíða enn um sinn, enda of langt mál til að gera skil í þessari færslu.

HrafnMargar þjóðsögur og frásagnir af hröfnum eru kunnar, svo ekki sé minnst á fjölda vísna, ljóða og söngtexta.

Hrafninn er fugl Hrafna-Flóka og landnáms Íslands. Hann er jafnframt fugl Óðins en Huginn og Muninn voru tákn visku og spádómsgáfu.

Það er sagt að hrafnar haldi hrafnaþing tvisvar á ári, vor og haust, og að þeir semji sín á milli á vorþingum hvort þeir skuli vera óþekkir eða þægir.

Sagt er að þeir sem skilji hrafnamál séu gáfaðri en aðrir. Einnig að ef hrafn hoppi hingað og þangað uppi á húsum, skipti um hljóð og krunki upp í loftið, hristi vængina og yppti fiðrinu, boði það að einhver maður sé að drukkna.

Vel þekkt er að flug hrafna boði annaðhvort feigð eða fararheill, eftir því í hvaða átt þeir fljúga yfir mann.

Það þótti ekki gott að heyra krunkið í hröfnum um nætur við bóndabæi. Það var vegna þess að þá hélt fólk að það væru draugar. Þeir voru kallaðir nátthrafnar.

Krummi er sagður bæði stríðinn og hrekkjóttur. Hann er mikill spádómsfugl og hans er víða getið í hverskyns göldrum. Hrafnsgall og heili hrafnsins þykja t.d. nauðsynleg bætiefni í marga galdra, svo sem til að gera mann ósýnilegan.

Þekkt er sú sögn frá Tower of London að meðan hrafnar lifi þar muni enginn erlendur innrásarher ná að vinna England.

Hrafninn kemur oft fyrir í bókmenntum sem boðberi válegra tíðinda. Sem dæmi má nefna kvæðið Hrafninn eftir Edgar Allan Poe, leikritið Óþelló eftir William Shakespeare og í skáldsöguna Hobbitinn eftir J. R. R. Tolkien.

Edgar Allan PoeHrafninn er nafn á söguljóði eftir Edgar Allan Poe sem kom fyrst út 29. janúar árið 1845 í dagblaðinu New York Evening Mirror. Kvæðið fjallar um hrafn sem heimsækir mann sem syrgir ástkonu sína. Maðurinn er ljóðmælandi en hrafninn, sem fær sér sæti á brjóstmynd af Aþenu, krunkar „Nevermore“ í lok hvers erindis.

Edgar Allan Poe orti Hrafninn veturinn 1843. Meðan hann var að yrkja kvæðið, bjó hann ásamt konu sinni og tengdamóður við sult og seyru. Hann fór með kvæðið til ýmsa ritstjóra, en enginn þeirra hafði lyst á að kaupa það til birtingar. Einn af ritstjórunum sem hann talaði við, Godey að nafni, sagði:

Kvæðið kæri ég mig ekki um, en hérna eru 15 dollarar, sem þér getið keypt yður mat fyrir.

Á endanum tókst Poe að selja Hrafninn fyrir 10 dollara og þótti geipihátt verð. Hann var nú, eftir allt, sem á undan var gengið, búinn að glata trúnni á ágæti kvæðisins og það til þeirra muna, að hann setti dulnefnið Quarles undir það í stað nafns síns. En aldrei hefur nokkuð kvæði vakið aðra eins athygli á svo skömmum tíma. Allur hinn enskumælandi heimur las það með hrifningu. Gekkst Poe þá að sjálfsögðu við faðerni kvæðisins, og eftir það var nafn hans prentað undir því.

Til eru að minnsta kosti fjórar þýðingar kvæðisins á íslensku. Sú sem er langþekktust er þýðing Einars Benediktssonar sem kom út á prenti 1892, en einnig eru til þýðingar kvæðisins eftir Matthías Jochumsson, Þorstein frá Hamri og Jochum Eggertsson.    Heimildir; Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þýðing Jochums Magnúsar Eggertssonar var tekin upp fyrir upp fyrir Ríkisútvarpið 1949 í tilefni þess að hundrað ár voru þá liðin frá fæðingu Poes. Ljóðið var þó ekki flutt á þeim tíma. Þýðingin birtist svo í heftinu Jólagjöfin, sem var útgáfa Jochums sjálfs. Í upplestri sínum fer Jochum á kostum svo unun er á að hlíða. Jochum var fæddur á Skógum í Þorskafirði 1896 og lést 1966. Hann var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar.

Paul Gustave DoréMargir hafa orðið til að teikna myndir við ljóð Poes og a.m.k. ein kvikmynd er byggð á efniviði ljóðsins. Frægastar eru þó myndskreytingar Paul Gustave Doré (janúar 6, 1832 - janúar 23, 1883), sem var franskborinn listamaður fæddur í  Strassborg. Hann gerðist bókskreytingamaður og gerði myndir fyrir bækur þekktra skálda eins og  Rabelais, Balzac og Dante. Árið 1853, var hann beðin um að myndskreyta verk Lord Byron. Skömmu fyrir dauða hans tók hann að sér að gera myndir við Hrafninn ljóð Edgars. Hann sagðist byggja myndirnar á "leyndadómi dauðans og ímyndunum óhuggandi sálar". Hann lést aðeins 51. árs að aldri og var þá að ljúka myndunum fyrir Hrafninn.

Ég hef tekið mér það bessaleyfi að setja saman upplestur Jochums og myndir Pauls. Túlkun þeirra á ljóði Poes er greinilega mjög ólík en samt fellur íslenski textinn að myndunum. Ég legg til að þið gefið ykkur góðan tíma til að njóta þessa magnaða upplesturs Jochums.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

quoth the raven nevermore

Þetta var lesið í MA  í den og ég var hrifin

Hólmdís Hjartardóttir, 17.1.2009 kl. 20:51

2 identicon

Glæsileg færsla um Hrafninn hans Poes. Gaman að lesa svona alvöru blogg um bókmenntir. Þú veist auðvitað um hinar þýðingarnar? ég er mikill aðdáandi Poes, allar götur síðan í MA. Þakka fyrir þetta. Kær kveðja.

Hrafn Andrés Harðarson (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 23:23

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þakka þér það Hrafn. Ekki nóg að þú berir nafnið Hrafn heldur berð þú einnig  hrafn á hendi. Það á vel við að þú sért Poes aðdáandi.

Annars er mér er bara kunnugt um þær þýðingar sem ég get um; 

  Til eru að minnsta kosti fjórar þýðingar kvæðisins á íslensku. Sú sem er langþekktust er þýðing Einars Benediktssonar sem kom út á prenti 1892, en einnig eru til þýðingar kvæðisins eftir Matthías Jochumsson, Þorstein frá Hamri og Jochum Eggertsson.  

Ég hef reyndar aldrei lesið þá eftir Þorstein, en mun reyna að bæta úr því sem fyrst.

Hólmdís; Ætli að þetta sé ekki einhver þekktasti "frasi" úr ljóðabókmenntunum?

Svanur Gísli Þorkelsson, 17.1.2009 kl. 23:38

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Hrafninn er fugla gáfaðastur.. flottur fugl.. en því miður með gáfuð dýr og suma menn þá eru vinsældirnar ekki í samræmi við IQ-ið :)

góð ámynning um raven eftir Poe. hef ekki lesið það í áratug eða meir..  

Óskar Þorkelsson, 17.1.2009 kl. 23:55

5 identicon

Komdu sæll og blessaður Svanur.  Ég er nýlega uppgötvað pislana þína sem að mínu mati eru gullfallegir og ákaflega fræðandi.  Ég man vel eftir ljóði Poes, en hef líklega aldrei séð þessa þýðingu sem þú segir frá, en ætla nú að bæta um og hafa upp á.  Ég átti því láni að fagna sem barn að eiga föður sem var ákaflega mikill bókaunnandi og þýddi fyrir mig ljóð Poes upp úr lítilli blárri bók sem í voru ljóð ýmsra úrvaldsskálda, ljóðið hafði mikil áhrif á mig.  Ég hef alltaf haldið mikið uppá Krumma og ósjaldan lesið sögur um hann fyrir nemendur mína.  Það varð ósjálfrátt hefð hjá mér í minni kennaratíð að lesa kvæði Jóhannesar úr Kötlum fyrir yngri nemendur mína og það brást aldrei að árinu seinna var ég beðin um að endurtaka lesninguna. Sjálf bjó ég við það lán sem barn að móðir mín las þetta kvæði fyrir mig og varð æfinlega að fara með mér út á aðfangadagskvöld og gefa Krumma í skaflinn, það brást svo aldrei að jafnan var skaflinn tómur mæsta morgun.  Mig grunar nú hálft í hvoru að þar hafi móðir mín sjálf verið að verki til að gleðja stúlkuna sína.  Mig langar til að benda þér á geisladisk (asnalegt nafn á lítilli hljómplötu finnst mér)  sem ber nafnið Gömul ljósmynd og eru lögin eftir aldeilis bráðgott tónskáld sem menntaður sem slíkur, hann heitir Baldvin Tryggvason.   Á plötunni er m.a, gullfallegt lag sem heitir KRUMMI og er textinn alkunnur, eftir Davíð Stefánsson, að mínu mati ætti enginn Krumma og tónlistarunnandi að láta þessa plötu fram hjá sér fara.  Auk þessa lags eru þarna margar stórgóðar tónsmíðar margar hverjar við bráðsmellin ljóð Þórarins Eldjárns. Fyrir löngu síðan heimsóttir þú mig og hughreystir sem best þú kunnir. fyrir það vil ég nú þakka þér þó seint sé.  Gangi þér allt í haginn og í öllum bænum haltu áfram að skrifa, með vinsemd og kærri kveðju, Dana Jóhannsdóttir.

Dana Kristín Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband