Ævintýrasápan Blákló

KongurinnEinu sinni í landi þar sem sólin aldrei sest á sumrum og sést aldrei á vetrum, bjuggu kóngur og drottning í ríki sínu. Landið var samt fagurt og frítt og nefnt Bláland. Konungurinn sem nefndur var Víðir hafði  í fyrstu þótt vitur og áræðinn stjórnandi. Hann sagðist setja frelsi þegna sinna í fyrirrúm og afnam þess vegna mörg þeirra laga sem ríkt höfðu í landinu fyrir hans daga. Varð hann af þessum ástæðum vinsæll nokkuð meðal alþýðunnar en þó meir meðal lénsherra hans sem notuðu rýmri löggjöf konungs hvað þeir gátu til að fylla fjárhirslur sínar af gulli.

Illi ugiSnemma á valdatíma sínum varð konungur samt fyrir því óláni að þiggja ráð af voldugum erlendum galdramanni sem sagðist geta kennt honum að búa til gull. Kvaðst galdramaðurinn vera fús til þess að skilja eftir lærling sinn hjá konungi, ef hann fengi í staðinn afnot af helli einum í suðurhluta landsins, þegar hann þyrfti á að halda. Konungur gekk að þessu en Þegar hann tók í hönd galdramannsins til að handsala samningnum, visnaði á honum hægri höndin og blánaði síðan upp. Bláminn gekk aldrei til baka og fékk konungur af því viðurnefnið Blákló og var aldrei kallaður annað eftir það .

Lærlingur galdramannsins tók sér bólfestu í höll konungs þar sem hann dandalaðist um á stuttum buxum og hló að öllu sem konungur sagði. Mærði hann konung á alla lund við hvert tækifæri og átti yfirleitt greiðan aðgang að eyra hans.

gold-coins-imagesÍ miðju ríkinu var tjörn ein full af gullfiskum. Þeir sem bjuggu löndin næst tjörninni höfðu um aldir haft rétt til að fanga fiskinn og selja til útlanda þar sem eftirspurnin var all-nokkur. Konungur hafði af þessu miklar tekjur þar sem skattur var greiddur af hverjum fiski sem veiddur var og seldur. Samkvæmt lögum landsins átti konungur þó tjörnina og allan fiskinn í henni.

Fljótlega eftir komuna til hallarinnar kom lærlingurinn að tali við konung og spurði hvort hann vildi ekki læra að búa til Gullkvörn. Konungi leist vel á það. Lærlingurinn benti honum þá á að hægt væri að koma því þannig fyrir með einni tilskipun að allir sem veiddu úr tjörninni góðu, gætu veðsett óveidda gullfiska og aukið þannig verðmæti þess sem í tjörninni synti og fengið borgað fyrir fiskinn löngu áður en hann væri veiddur. Það mundi stórauka skatttekjur strax og gera gullfiskatjörnina að einskonar gullkvörn þar sem engin gæti sagt fyrir hvað væri í raun óveitt úr henni. Konungi fannst þetta heillaráð og gaf út tilskipun tafarlaust þess efnis að nú væri heimilt fyrir veiðimenn og óðalsbændur að veðsetja allan óveiddan fisk. Í hvert sinn sem óveiddi aflinn var veðsettur í botn, lýsti konungur því yfir að meiri fiskur væri í tjörninni sem síðan var umsvifalaust veðsettur.

BláklóÍ kjölfarið á þessu braski brast á mikil velsæld í landinu og eftir höfðinu dansa limirnir. Allir sem eitthvað áttu veðsettu eigur sínar og keyptu fyrir það aðrar eignir sem þeir síðan veðsettu aftur. Þeir lýstu því yfir að í fyrirtækjum og eignum væri mikil falin eign sem hægt var síðan að veðsetja. Hirslur konungs tútnuðu út af skattagulli sem hann vissi ekki einu sinni að væri til í landinu. Konungur var svo ánægður með ráð lærlingsins að hann gerði hann að skólastjóra í stærsta skóla landsins þar sem hann átti að kenna öllum að mala gull.

Drottning Bláklóar hét Remba og átti ættir sínar að rekja til óðalsbænda á landinu sem margir hverjir bjuggu við tjörnina góðu. Sumir þeirra höfðu því efnast vel á tilskipunum konungs. Sá hængur var á hjónabandi þeirra Rembu að hún hafði þá náttúru að skreppa saman og verða smávaxnari eftir því sem á sambúð þeirra leið. Konungur sem hafði verið stoltur af bústinni og rjóðri brúður sinni, þótti þetta skiljanlega nokkur hneisa, en bar samt skömm sína í hljóði. Voru samfarir þeirra hjóna, þrátt fyrir þetta, eftir föngum góðar.  Saman eignuðust  Blákló og Remba einn son sem þau nefndu Atgeir. Þegar fram liðu stundir og Atgeir kominn til manns bauðst konungur til að gefa Atgeiri eftir völd sín og konungsdæmi allt, um leið og hann fyndi sér heppilegt kvonfang.

fílabeinsturninnÞannig hagaði til í höllu konungs að upp úr miðjum hallargarðinum reis turn mikill úr hvítu fílabeini. Turninn var afar hár og trónaði hátt yfir höllina og efst úr honum mátti sjá yfir megnið af lendum konungs. Konungur lét lærðustu menn ríkisins hafast við í turninum og á hverjum morgni fundaði hann með þeim og lét þá segja sér hvað þeir höfðu séð frá turninum daginn áður.

Dag einn bárust konungi þær fréttir úr nærliggjandi konungsdæmi að drottningin sem ríkti yfir því hefði eftir langa einveru, ákveðið að taka sér eiginmann. Kallaði konungur þá á son sinn Atgeir og sagði að ef honum tækist á ná ástum þessarar drottningar mundi hann þegar í stað gefa honum ríki sitt. Sjálfur mundi hann setjast að í fílbeinsturninum og gerast einn af ráðgjöfunum hans. Sagðist Blákló  jafnframt ætla að skilja við Rembu drottningu sína, því hún væri hvort eð er orðin gagnslaus til alls vegna smæðar sinnar.  Atgeir sem leist afar vel á þessa ráðagerð lét söðla hest sinn og hélt tafarlaust á fund drottningar til að biðja hennar. Segir ekki af ferðum hans fyrr en hann snéri aftur til ríkis föður síns nú í fríðu föruneyti tilvonandi drottningar sinnar. Með hinni nýju drottningu komu til hirðarinnar margir smásveinar og guttar sem ætlað var það hlutverk að hafa ofan af fyrir þeim hjónum með leikjum og skemmtan.

Nokkrum dögum síðar fór brúðkaup þerra fram með mikilli viðhöfn og gekk nú allt eftir sem Blákló hafði ráðgert. Hann lét Atgeiri eftir konungríkið, skildi við Rembu drottningu sem nú var orðin svo lítil að hún sást varla. Henni var vísað úr höllinni svo hún átti þann kost einan að fara á vergang. Sjálfur settist Blákló að í fílabeinsturninum og sá svo um að fátt gerðist í Blálandi án þess að hann kæmi þar ekki að með einhverjum hætti.

Í nokkur ár virtist allt leika í lyndi í konungsríki Atgeirs og drottningar hans. Viðskipti blómstruðu og þeir sem voru ríkir urðu ríkari. Lénsherrarnir og óðalsbændurnir sem léku nú lausum hala færðu sig smá saman upp á skaftið og tóku að láni allt sem hægt var að fá lánað af gulli í landinu gegn loforði um himinháa vexti. Þeim tókst jafnvel að fá almenning í nærliggjandi löndum til að lána sér gull á sömu forsendum. Upp í fílbeinsturninum fylgdist gamli kóngurinn Blákló með öllu og brosti í kampinn. Atgeir og drottningin hans böðuðu sig í velgengninni og lærlingurinn skrifaði lærðar greinar um gullgerðarlist í skólanum.

art_CreditCrunch9En þá gerðist sá leiðinda-atburður að skyndilega varð allsherjar þurrð á lánsfé. Fregnir bárust af því að einn af göldrum galdramannsins volduga sem gamli kóngurinn Blákló hafði á sínum tíma átt viðskipti við, hafði farið úrskeiðis með hræðilegum afleiðingum og að allt hagkerfi heimsins rambaði á heljarþröm af þeim sökum. Allir sem áttu gull inni hjá braskþegnum Blálands vildu fá það aftur refjalaust og einhverra hluta vegna var ekki til neitt gull í landinu. Illar tungur hermdu að því hefði verið komið fyrir í fjárhirslum fjarlægra landa af þeim lénsherrunum og óðalsbændunum sem viðskiptunum stjórnuðu. Þegar að Blákló varð ljóst hvernig komið var, hljóp hann út á svalirnar efst á turninum og hrópaði út yfir borg og bý; Blálendingar munu aldrei borga! Þegar að konungar nágrannaþjóðanna heyrðu af þessum orðum gamla kóngsins héldu þeir að hann væri orðinn ær og létu þeir greipar sópa um allar eignir Blálendinga hvar sem í þær náðist í sínum löndum.

Atgeir sem hafði látið sig dreyma um mikla upphefð meðal þjóðarinnar og jafnvel annarra þjóða, bað föður sinn Blákló að hafa samband hið snarasta við galdramanninn volduga og biðja hann ásjár. Galdramaðurinn sagðist ekki geta hjálpað og bað Blákló að skila því til Atgeirs að hann þyrfti ekki lengur á hellinum í suðurhluta Blálands að halda og hann hefði hvort eð er aldrei haft neina þörf fyrir hann.

Atgeir lét nú boð út ganga að hann mundi þiggja hjálp hvaðan sem hún kæmi en enginn varð til að svara bónum hans nema fáeinir fjarskyldir ættingjar sem enn áttu smávegis af gulli af því að þeir bjuggu einangraðir úti á smáeyju undan ströndum Blálands.

Þegar að alvara málsins varð lýðum ljós á Blálandi hóf hann að safnast saman í hallargarðinum til að mótmæla ástandinu. Sumir voru jafnvel svo djarfir að þeir heimtuðu að Blákló færi úr turninum því hann hefði átt að sjá þetta allt fyrir. Blákló lýsti því yfir á móti að hann hefði oft minnst á það við Atgeir son sinn að ýmiss teikn væru á lofti um að ástandið í landinu væri ótryggt.

Loks þegar fokið virtist í flest skjól fyrir Atgeiri og Blálendingum greip Atgeir til örþrifaráða. Hann bað Blákló að hafa samband við Þurs einn sem bjó í miklu bergi vestan við landið og sagt var að ekki vissi aura sinna tal. Það væri nú eitt til ráðs að biðja þursinn um lán til að greiða þeim konungum sem nú hreinlega hótuðu styrjöld ef landið borgaði ekki skuldir sínar.

Blákló fór tregur á fund þursins sem lét líklega og sagðist mundi gjarnan vilja hjálpa. Í staðinn fyrir aðstoðina vildi hann fá allan arð sem gullfiskatjörnin góða mundi gefa af sér næstu hundrað árin.

Blákló sagði það illa gerlegt þar sem þjóðin hefði það eitt að lifa af sem tjörnin gæfi af sér. "Ég skal líka lána ykkur fyrir því" sagði þursinn "og það vil ég fá borgað með arðinum að lindinni í þar næstu 100 ár." Þetta þóttu Blákló ofurkostir en þar sem hann var orðinn gamall og vissi að hann sjálfur mundi aldrei þurfa líða skort, samþykkti hann lántökuna. 

Þegar hér er komið í sögu, gekk mikil hátíð í garð á Blálandi og líkt og siður er á þeirri árlegu hátíð tóku flestir sér orlof frá amstri öllu. Mótmælendurnir hurfu úr hallargarðinum, ráðgjafarnir lögðust undir sæng til að hugsa málið og Atgeir ásamt föður sínum og drottningu ákváðu að gefa út yfirlýsingu um að það ætti að reka nokkra af skósveinum drottningar vegna þess hve illa þeir stóðu sig í þrengingunum.

Framhald á næsta ári.

Köttur út í mýri

setti upp á sig stýri

úti er ævintýri.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hef alltaf gaman af góðum sögum,sérstaklega sögum sem enda vel vona að þessi sé að þeirri gerðinni. Fékk samt þá ónótatilfinningu að ég lifði í henni miðri?..

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 15:42

2 identicon

Sæll.

Margt er þér til lista lagt

logar úr penna þínum.

Túi því sem hér er sagt

í "bláum" sögum þínum.

Ætíð gaman að fylgjast með þér.

Hafðu það sem best.

Þinn " gamli" Rúnar Hart.

Hart (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 18:19

3 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Þegar þetta er sett upp í ævintýr sér maður en frekar fáránleikann....takk

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 15.12.2008 kl. 19:44

4 Smámynd: IGG

IGG , 15.12.2008 kl. 20:54

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábær uppsetning á sögu aldarinnar........hlakka ekki til að lesa framhaldið

Sigrún Jónsdóttir, 15.12.2008 kl. 21:42

6 identicon

Nú veri ég hvað spennandi hrollvekja er.

Þú vilt lesa meira, en þorir að ekki.

Vonandi að þetta hafi bara allt verið vondur draumur þegar upp verður staðið ...

... eigum við að hafa það?

Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 23:45

7 identicon

úúúúúúú....ég er skíthrædd en get samt ekki beðið eftir framhaldinu af þessu frábæra hryllingsævintýri sem hljómar óþægilega kunnuglega :)

kær kveðja

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 09:14

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hallgerður; þú ert tilfinninganæmari en ég gerði mér grein fyrir ;)

Rúnar; Frábært að heyra frá þér. Kíktu endilega við sem oftast.

Hrafnhildur,Igg og Sigrún, takk fyrir innlitið.

Davíð og Guðbjörg; Já, nú kann sagan að dökkna eftir áramótin en hún skrifar sig sjálf..ÚÚÚHH ósjálfráð skrift......

Svanur Gísli Þorkelsson, 16.12.2008 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband