6.12.2008 | 01:07
Glöggt er gests augað, mótmæli án markmiðs?
Fyrir rúmri viku hlustaði ég á útvarpsþátt á BBC sem fjallaði um ástandið á Íslandi. Fréttamaður fór um götur Reykjavíkur með hljóðnemann og tók viðtöl þar sem fólk lýsti áhyggjum sínum og sumir hverjir reiði yfir gangi mála á landinu bláa.
Margir báru sig illa en fleiri virtust nálgast málin af miklu æðruleysi. Fréttamaðurinn mætti á mótmælafund í miðbænum og tók upp frekar lágvær mótmælahrópin. Það sem virtist koma honum mest á óvart var hversu friðsamlega öll mótmæli gengu fyrir sig, þrátt fyrir talsverðan fjölda mótmælenda og mjög sýnilega viðveru lögreglu sem yfirleitt virkar eins og bensín á eld á æsta mótmælendur. Engir brotnir eða útbrenndir búðargluggar eða áflog milli mótmælenda og löggæslunnar eins og títt er í borgum annarra Evrópulanda þegar íbúar þeirra taka sig til við að mótmæla einhverju, jafnvel þótt tilefnið sé miklu minna en Íslendingar hafa til þess um þessar mundir.
Honum var einnig tíðrætt um hversu pólitísk samtök landsins, verkalýðshreyfingar og neytendasamtök tæki lítinn sem engan sýnilegan þátt í mótmælunum. Stjórnmálamönnum væri nánast bönnuð formleg aðkoma að þeim og þau væru leidd af þjóðlagasöngvara. Hann sagði það vera einsdæmi að 7000 mótmælendur söfnuðust saman um hverja helgi sem hefðu það eitt sameiginlegt að vera óánægðir með gang mála í landinu. Hann sagðist sjá að svona mótmælafundir gætu þjónað þeim tilgangi að virka sem ventill fyrir uppsafnaða óánægju og reiði, en án skilgreinds markmiðs og ákveðinna krafa, þjónuðu mótmælin jafnvel betur en nokkru öðru, þörfum þeirra sem þeim er beint gegn.
Þótt ég sé stoltur að tilheyra þjóð sem seint verður espuð til ofbeldisverka og hefur að mestu lifað í friði í rúm 700 ár, sá ég samt hvað fréttamaðurinn breski var að fara.
Í ljósi síðustu kannanna sem sýna að VG eru með 32% fylgi virðist sem þorri íslendinga segi eitt en geri allt annað.
Segjum t.d. að krafan sem flestir mótmælendur eru sammála um sé; að ríkjandi stjórn eigi að fara frá. Ef svo er, hvers vegna mæta þá ekki þessar tugþúsundir sem núna styðja VG í mótmælin?
Ef að krafan er að koma seðlabankastjórnaum frá, (sem 90% þjóðarinnar vilja samkvæmt skoðanakönnunum) hvers vegna mæta þau ekki öll (þ.e. þau af 90% sem eiga heimangengt) í mótmælin?
Það mætti halda að allir séu ekki alveg þar sem þeir eru séðir þegar kemur að því að túlka skoðanir sínar og tilfinningar yfir í einhverskonar verk, jafnvel þótt þær séu ekki veigameiri en að mæta á mótmælafund.
Jafnvel þótt annað hvert blogg á blog.is og rúmlega það, sé gremjukast út í og úthrópun þeirra sem rústuðu fjárhag þjóðarinnar, fer fáum sögum af raunverlegum lausnum á vandamálunum. Og auðvitað er það ekki hlutverk fjölmiðlafólks að gera það heldur, enda skemmta valdhafar sér konunglega við á hverjum degi að snúa út úr fyrir því og tala niður til þess.
Ég hef grun um að þrátt fyrir óánægjufylgið við VG um þessar mundir sé engin raunveruleg samstaða um það með þjóðinni að VG sé til þess fallið að stýra henni í gegnum heimskreppuna sem núna vofir yfir og hefur alls ekki skollið á með fullum þunga enn. Spurningin er því sú, hverjir geta og vilja takast á við það vandaverk.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Vefurinn, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:54 | Facebook
Athugasemdir
Var þetta BBC 4, Svanur? Manstu dagsetninguna?
Athyglisverð lesning, annars.
Lára Hanna Einarsdóttir, 6.12.2008 kl. 01:36
Það sem við þurfum á Íslandi er alger endurnýjun á stjórnmálamönnum. Ég mæti á flest mótmæli........en vil ekki stjórnarandstöðuna
Hólmdís Hjartardóttir, 6.12.2008 kl. 01:40
Heill og sæll; gamli góði spjallvinur, Svanur Gísli, líka sem aðrir skrifarar og lesendur !
Ég hefi; margsinnis, hvatt til stofnunar ráða- og byltingarnefnda alþýðunnar; á þjóðernisgrundvelli, og án sleikjuháttar, við þýzka ESB samsullið; á minni síðu, Svanur, og alveg má ljóst vera, að góðar artir Harðar Torfasonar, og hans slektis, með Laugardaga mótmælunum, einum og sér, duga ekki til, að koma glæpalýðnum, frá völdum.
Íslendingar verða; eigi þeir, að komast af, hér á Fróni, sem og afkomendur allir, að vígbúast, og taka stjórnarstofnanir herskildi, og koma hinum raunverulega skríl, frá völdum. Að öðrum kosti; er búsetu sjálfhætt hér, og,, vel á minnst, fólk á ekki, að láta einhverjar blaðurskjóður, hjá Íbúðalánasjóði, eða bönkunum hræða sig, eða hóta, með einhverjum helvítis afarkostum, þótt svo fólk, sem búið er, að troða í svaðið, skili húslyklunum, meðal annars, áður en af landi brott sé farið.
Hefi þetta ei lengra; um hríð.
Með baráttukveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 01:42
Sæll Svanur og þakka þér pistilinn.
Ég hitti tvo fréttamenn frá BBC og var í viðtali hjá þeim ásamt Jóni Baldvini Hannibalssyni. Þeir ræddu töluvert mótmælin og fannst þau heldur bragðdauf, svona af mótmælum að vera. Þeir sögðust hvergi sjá brotnar rúður eða önnur skemmdaverk og veltu fyrir sér hvort það þýddi að fólki væri raunverulega ekki heitt í hamsi.
Bresku fréttamennirnir miða við alþjóðlegan mótmælakúltúr og finnst ekki mikið koma til íslensku útgáfunnar.
Páll Vilhjálmsson, 6.12.2008 kl. 10:52
Takk Svanur, við erum seinþreytt til vandræða íslendingar og það hefði kannski mátt koma fram að við mótmælum yfirleitt ekki og miðað við það er kraftaverka að svo margir mæti sem raun ber vitni.
Held líka að ástæðan fyrir því að fólk bendir frekar í reiði á ástandið en ekki á lausnir sé vegna þess að fólk veit í raun og veru ekki hvernig við erum stödd. Ekki ráðmenn heldur, fyrst þarf að fá allt upp á borðið og þá er hægt að leita lausna.
Rut Sumarliðadóttir, 6.12.2008 kl. 12:25
Ástæðurnar fyrir því að allt þetta fólk mætir ekki á mótmælafundina eru:
-Þótt fólk sé áhyggjufullt og óánægt er það ekki ennþá orðið nóðu reitt til að nenna að standa upp úr Lazyboy stólnum. Þetta fólk mun mæta þegar öllum kortum hefur verið lokað og það á ekki fyrir mat.
-Það hefur ekki þótt kúl að mæta á mótmælafundi hingað til og það er ennþá dálítið feimnismál að láta spyrða sig við hernaðarandstæðinga, stóriðjuandstæðinga og Vinstri græna.
-Margir eru enn ekki búnir að horfast í augu við stöðuna eins og hún er og halda dauðahaldi í þá trú að þetta muni 'reddast'. Vilja því ekki eyða orkunni í mótmælafundi.
-Það er hundleiðinlegt að standa úti í skítakulda og Íslendingar eru sérhlífnir.
-Það þjónar engum tilgangi að mæta á mótmæli sem ráðamenn verða lítið varir við og skaða þá ekki á nokkurn hátt.
-Við höfum margra áratuga reynslu af því að ræðuhöld og skiltaburður skila engum árangri.
-Þótt fólk sé óánægt er ekki þar með sagt að það hafi lausnir. Ef heilaskurðlæknir sem ætti að fjarlægja æxli úr heilanum á þér, mynd þess í stað fjarlægja heiladingulinn, myndi ég krefjast þess að hann yrði rekinn. Það merkir ekki að ég telji mig réttu manneskjuna til að útnefna þann sem ætti að taka við af honum, hvað þá að ég ætli að halda námskeið í heilaskurðlækningum.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 13:10
Lára Hanna; Þetta var á BBC 4 sl. laugardag en var endurflutt frá BBC Worl Service. Sá flutningur fór að ég held fram viku fyrr.
Hólmdís; Nokkuð í samræmi við það sem ég segi í greininni :)
Óskar Helgi; Róttækar aðgerðir á borð við þær sem þú boðar þurfa líka einhverja skipuleggjendur og leiðtoga. Fram að þessu hafa ekki komið neinir sem boðið hafa sig fram til þeirra verka.
Páll; Trúlega sami þátturinn. Ég tók ekki eftir nöfnum viðmælenda blaðamannsins.
Rut: Trúlega rétt að fólk sé enn að átta sig á hvað gerðist í raun og veru. Það er erfitt að sjá til í öllu rykinu sem þyrlað er upp.
Sæll Grétar. Gaman að heyra frá þér. Sérfræðingarnir eru því miður ekki til hvað þá apparatið til að skipa þá í stjórn. Hvarvetna í heiminum hafa hagfræðingar lagst undir feld til að finna viðeignandi lausnir á kreppunni sem er yfirvofandi. Allar lausnir þeirra fram að þessu gera ráð fyrir áframhaldandi kerfi og virka því eins og plástrar á líkama sem er alþakin kaunum af því að blóðið er sýkt. Þín tillaga felur í raun í sér að leggja niður núverandi stjórnarhætti og taka upp þjóðstjórn sem í væri blanda af pólitíkusum og fagmenntuðu fólki, hugmynd sem núverandi valdhafar hafa hafnað.
Þakka öllum góðar athugasemdir
Svanur Gísli Þorkelsson, 6.12.2008 kl. 14:31
Ég held að greining þín Eva sé hárrétt.
Svanur Gísli Þorkelsson, 6.12.2008 kl. 14:33
EN Grétar. Tímabundin vaxtastýring, lækkanir og hækkanir eru einn plásturinn í viðbót. Hér í Bretlandi eru vextir núna 3,5% en samt lána bankarnir ekki neitt og allir halda að sér höndum. Þeir hafa þegið peninga af ríkinu sem þeir nota til að styrkja eigið fjármagn en allt kemur fyrir ekki. Fyrirtæki fara hér á hausinn í umvörpum og atvinnuleysi eykst stöðugt líkt og á Íslandi. Ríkisstjórnin er ráðþrota hér sem annarsstaðar en það eru ekki meira en tvær vikur síðan að Gordon Brown á fundi stórþjóðanna í New York með fulltingi nóbelsverðlaunahafans í hagfræði, sögðu bresku aðferðina vera einmitt það sem allir ættu að gera.
Vaxtahækkun á Íslandi er tilkomin vegna þess að hún er sögð eina leiðin fyrir Bankana til að standa skil á þeim erlendum lánum sem tekin voru á dögunum til að greiða skuldir þeirra við einkaaðila sem þeir skulduðu. (Icesave) Hvaðan ættu peningasrnir annars að koma úr því að það var fallist á það á annaðborð að standa skil á þeim?
Ég er alveg sammála þér með upplýsingaflæðið sem hefur ekkert verið um málin. En það kemur ekki til af góðu. Hvað hefur t.d. viðskiptaráðherra að segja um það sem gerst hefur í Seðlabankanum, batteríinu sem á að stýra fjármagninu, þegar hann hefur ekki talað við bankastjórnina í næstum heilt ár. Og hvað á seðlabankastjóri að segja um málin þegar honum er augljóslega mest í mun að nota þau völd sem hann hefur í pólitískum tilgangi og valdabrölti sínu til frekari framdráttar. Þögnin er þeim öllum besti vinurinn.
Þess vegna eru lágvær og hofstillt mótmæli á borð við þau sem farið hafa fram til þessa, ekki vænleg til að mola steininn, þótt stöðug séu.
Svanur Gísli Þorkelsson, 6.12.2008 kl. 15:55
Grétar. Hvaða árangur, nákvæmlega, hafa þessi friðsömu mótmæli borið?
Bilun, er að halda áfram að gera það sama en vænta samt nýrrar niðurstöðu.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 17:56
Hver hefur lagt til ofbeldisaðgerðir? Ég hef bara ekki heyrt þá tillögu frá einum einasta manni ennþá og ennþá hefur enginn beitt ofbeldi í mótmælum nema lögreglan en samt sem áður leikur bloggheimur á reiðiskjálfi yfir ofbeldisfullum mótmælendum.
Gaman væri að vita hvaðan Grétar fær þá hugmynd að rök og áróður skili sér til valdhafa. Hvar hefur það gerst og hvenær?
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 18:27
Ég held að margir eru í afneitun og gerir sér ekki grein fyrir alvara málsins.
Ég hef mætt 9 sinnum á Austurvöll og geri það ekki minnst fyrir hönd þeirra sem enn eru ófæddir íslendingar.
Heidi Strand, 6.12.2008 kl. 20:50
Á leið minni á útifundinn í dag gekk ég í nálægð við par á miðjum aldri á gangi í miðbænum. Ég heyrði hana segja hlægjandi "nú halda allir að við séum á leið að mótmæla" - nokkru seinna gekk ég framhjá þeim á tali við annan mann sem spurði hvort þau væru á leið í mótmælin. "Nei - nei - við erum á leið á bókasafnið" sögðu þau bæði. Mér fannst þessi viðbrögð skondin - eins og þeim væri mjög í mun að enginn héldi að þau væru að mótmæla einu né neinu. Sennilega er fjöldi manns þannig þenkjandi að það sé einhver minnkun í að láta sjá að þau eru líka hrædd og reið eins og pöpullinn.
Halldóra Halldórsdóttir, 6.12.2008 kl. 21:00
Páll, bresku fréttamennirnir geta bara étið skítinn úr Gordon Brown, einn langann brúnann. Við erum engar tuskudúkkur erlendra fréttamanna.
Hver voru úrslit síðustu kosninga ? Sjálfstæðisflokkurinn stærstur og núverandi forsætisráðherra formaður þess flokks og Seðlastjórinn ónefnanlegi fyrrverandi formaður þess flokks. Trukkabílstjórarnir og þögli meirihlutinn úr þeim flokki getur bara mótmælt fyrir utan rétt hús, Valhöll, þeytt hornin og haldið flokksskírteinum á lofti eða eiga kannski aðrir að liggja í valnum en þeir sem raunverulega eiga að berast á banaspjótum. Formaður aftursóknar er á Kanarí og flokkurinn hruninn. Samfylking: Stríð eða friður ? Hálfstæðisfylking: Stríð eða friður ? Dauðinn hefur allavega barið að dyrum og nú er kátt í höllinni eða hvað ?Máni Ragnar Svansson, 7.12.2008 kl. 00:12
Sæll Svanur, færslurnar þínar eru ætíð góðar, takk fyrir. Ég skautaði yfir athugasemdirnar og Eva hefur mikið til síns máls í sinni fyrstu athugasemd. Aftur á móti skulum við ekki vanmeta þróun mála. Á Íslandi í dag á sér stað mikil pólitísk gerjun. Fólk sem lét mata sig úr flatskjáum er farið að rífa kjaft. Margar nýjar hreyfingar hafa sprottið upp. Fyrir utan hinar fjárhagslegu hörmungar sem við göngum í gegnum eru þessir tímar á Íslandi mjög spennandi. Venjulegt fólk er farið að ræða hugtök eins og lýðræði, vald og fleira. Ég óttast þó að stutt sé í að franska aðferðin verði notuð á íslandi við mótmæli, mótmælin hingað til hafi bara verið forleikur.
Gunnar Skúli Ármannsson, 7.12.2008 kl. 00:14
Íslendingar eru fleiri er Reykvíkingar. Óreykvískir Íslendingar hafa ekki alltaf hæg heimatökin í að komast á fundina. Það tekur svo og svo marga klukutíma að komast á milli, fram og til baka. Það þarf ekki að þýða það að þeir sitji á sínum feita rassi í lazy-boy :) Sá tími mun koma að hinir lötu utanbæjarmenn koma og láta í sér heyra.
Skemmtilegur pistill að vanda. :)
Rúna Guðfinnsdóttir, 7.12.2008 kl. 01:00
Það er rétt Grétar að ég mun aldrei hvetja til ofbeldis af neinu tagi en ég er heldur ekkert sérstaklega gefinn fyrir að kvaka út í geiminn án þess að verk fylgi. Eins og ég segi í grein minni, ef það er t.d. krafa 90% íslendinga að Davíð Oddsson segi af sér, af hverju hefur ekki farið í gang undirskriftarlisti til að skora á hann að segja af sér eða til að skora á Geir að víkja honum úr starfi. Þó slíkur undirskriftalisti fengi aðeins helming 90% væri hann plagg sem hvorki Geir eða Davíð gætu sniðgengið. Markvissar aðgerðir eru allt annað en ofbeldi. Rétt eins og Ghandi forðum gekk til hafs til að búa til salt sem var ólöglegt samkvæmt breskum lögum og sýndi þannig borgaralega óhlýðni og á hinn bóginn þegar hann fór í hungursvelti til að reyna að stöðva ofbeldið á milli hindúa og múslima á Indlandi, ætti fólk sem er alvara í að knýja fram breytingar að taka hann til fyrirmyndar. Gjörðir tala hærra en orð.
Annars hefur Heidi nokkuð til síns máls með afneitunina sem er í gangi. Það staðfestir saga Halldóru. Þakka ykkar athugasemdirnar báðum tveim.
Máni minn Sveinsson; Ég veit að það er oft erfitt að sitja undir sleggjudómum erlendra aðila, bæði blaðamanna og almennings, en stundum ratast kjöftugum satt í munn.
Gunnar Skúli; Það er örugglega vona margra að nákvæmlega það sem þú lýsir sé í raun að gerast. Hvað kemur út úr þessu erfiðu fæðingarhríðum er enn ekki ljóst og mun varla verða ljóst fyrr en nokkru eftir að kreppan skellur á með fullum þunga. Mér koma í huga orð Ho Chi Ming þegar hann var á sínum tíma spurður um hver hann héldi að áhrif frönsku byltingarinnar væri á heiminn, svaraði hann; "Það er of snemmt að segja nokkuð til um það."
Svanur Gísli Þorkelsson, 7.12.2008 kl. 01:07
Ég hef alltaf sagt, Ekki láta afdankaðan yfirhomma Íslands segja ykkur fyrir verkum, það er ekki nóg að standa gapandi út í loftið og öskra burt með Davíð. Það VERÐUR AÐ GERA EITTHVAÐ RÓTTÆKT. Látum orð yfirhomma Íslands, " takið upp ruslið, ekki henda eggjum, verið góð, ekki gera neitt, hreinsið upp eftir ykkur. EKKI VERA OKKAR ORÐ: GERUM EITTHVAÐ R'OTTÆKT, EITTHVAÐ SEM SVÍÐUR UNDAN. STÖNDUM SAMAN GEGN SPILLINGUNNI: HENDUM RUSLINU ÚT:
Kv. Kristján
Kristján Helgason (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 02:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.