Í ísnum

 Fyrir nokkrum árum fundust á vesturströnd Grænlands tvær álftir, saman frosnar í jöklinum. Rannsóknir leiddu í ljós að álftaparið hafði frosið til dauða fyrir meira en 20.000 árum. Á leið þeirra yfir Atlantshafið frá Norður Ameríku til Evrópu, virðist annar vængur kvenfuglsins hafa laskast svo þau urðu að nauðlenda á Grænlandsjökli. Álftirnar voru svo vel varðveittar að hamir þeirra voru stoppaðir upp og eru nú til sýnis í náttúrugripasafninu í Kulusukk.  

Einþáttungur

Persónur:

Hann

Hún

Ókunnur maður.

Karlmannsrödd. 

Sviðið er afar þröngur íshellir einhverstaðar á Grænlandsjökli. Upp úr snjónum fyrir ofan hellinn sést í brak úr lítilli flugvél.  

 

Hann Mér er kalt 

Hún Já. Það er komið að því. Við erum að deyja 

Hann Eins og það sé einhver afsökun. Maður er alla ævina að deyja, en það þýðir ekki að manni eigi alltaf að vera svona skít kalt. 

Hún Mikið ertu heimskur. 

Hann Þú ert bara búin að missa móðinn. 

Hún Ég sem hélt að þú værir raunsæismaðurinn. 

Hann Á maður ekki að fyllast einhverri ró þegar að dauðinn horfir í augun á manni.  

Hún Nei, það gerist ekki fyrr en maður horfir óhræddur til baka. 

Hann Ertu þá að stara í glyrnurnar á honum núna. 

Hún (Brosir) Já ætli það ekki. Allavega er ég ákaflega róleg. 

Hann Fari það í helvíti. Djöfull er kalt. Eigum við ekki að syngja eitthvað. 

Hún Ég get ekki sungið meira. 

Hann (Byrjar að blístra en getur það ekki) Geturðu þá ekki komið nær. 

Hún Til hvers. 

Hann Reyna að halda á hvert öðru hita. 

Hún Er það ekki fullreynt. Nei. Ég er tilbúin held ég. 

Hann Þú varst alltaf tilbúin, nema þegar að ég var tilbúinn. Þá varstu annað hvort farinn eða hreint ekki byrjuð að hafa þig til. 

Hún Já og allt það. Við erum búin að fara svo oft yfir þetta. Það er ekkert eftir ósagt. 

Þögn 

Hann Á hvað ertu að horfa 

Hún Bara á snjóinn...snjókornin. 

Hann Þau eru allt of mörg greinilega. Eru þau ekki öll eins. 

Hún (Hlær) Eins! Þú gekkst í skóla var það ekki. Last bækur.   

Hann Jú mikið rétt. Bækur og blöð, allt um frost og snjó. 

Hún Æ góði láttu ekki svona. Það vita allir að engin tvö snjókorn eru eins. 

Hann Og það sérð þú núna alveg greinilega er það ekki. 

Hún Ég sé að þetta er búið. 

Hann Er ekkert sem skiptir máli lengur. 

Hún Það sem skiptir máli, kemur okkur ekki lengur við. 

Hann Þú ert sem sé búin að gefast upp. 

Hún Þetta er ekki einu sinni spurning um uppgjöf, heldur að horfast í augu við það sem er. 

Hann Er þér ekki lengur kalt. 

Hún Auðvitað er mér kalt. Sérðu ekki að ég er að deyja úr kulda. 

Hann Er ekki sagt að hugurinn sé það fyrsta sem fer. 

Hún Það er svo margt sem er sagt. 

Hann Mér finnst ég aldrei hafa hugsað skýrar. 

Hún Það er örugglega merki þess að hugurinn er að fara. 

Hann Sem þýðir að allt þetta getur bara blekking. 

Hún Ég er þreytt. Ég vil ekki að tala meira. 

(Það heyrist marra í snjónum) 

Hann Hvað er þetta? 

Hún Hvað? 

Hann Þetta hljóð 

Hún Hvaða hljóð, ég heyri bara í vindinum. 

Hann Nei, ég heyrði eitthvað. 

Hún Hugurinn er að fara eins og ég sagði. 

Mannsrödd (Í fjarlægð) Halló, er einhver þarna. 

Hann Heyrðir þú þetta ekk? 

Hún (Hrópar af veikum mætti) Halló, við eru hér. 

Hann(Hrópar líka) Heyrirðu í okkur. Halló. 

Mannsrödd (Nálgast) Halló, er einhver hér. 

Hún (Hrópar hærra) Halló, Halló. 

Hann(Hrópar hásri röddu) Við eru hér. 

Mannsrödd (Röddin fjarlægist) Halló er einhver hérna. Halló. Halló  

Hann Við erum hér. Ekki fara. Hér. (Reynir að standa á fætur) 

Hún Ha. Hall. (Röddin brestur) 

Hann (Byrjar að kjökra) 

Þögn 

Hún Er hann farinn 

Hann (Í gegnum kjökrið) Hvað veit ég um það. 

Hún Af hverju grætur þú?

Hann Ég er ekkert að gráta. Ég var að reyna að kalla. (Reynir aftur að kalla) Halló! 

Hún Hann er farinn 

Hann Heyrðir þú ekki örugglega í honum líka. 

Hún Hvaða máli skiptir það núna. 

Hann Þetta var ekki nein ímyndun hjá mér. 

Hún Og hvaða máli skiptir það. 

Hann (Reiður) Þú ert ekki dauð enn. Það er svona hugsunarháttur sem drepur okkur. 

Hún Hvað erum við eiginlega búin að vera hérna lengi? 

Hann (Lítur á úrið sitt) Það er kominn sjötti. 

Hún Sjötti.... Manstu þarna þegar að þú sofnaðir og þegar þú vaknaðir aftur hélstu að þig væri að dreyma. 

Hann Já, hvenær var það, í gær. 

Hún Manstu hvað þú varst hræddur. 

Hann Hræddur. Hvenær. 

Hún Nú þegar þú vaknaðir og hélst að þig væri að dreyma. 

Hann Ég var ekki hræddur, bara dáldið skelkaður. Það er svo vont þegar maður veitt ekki muninn á svefni og vöku. 

Hún Jæja skelkaður þá. En þú varst nálægt því að örvænta. 

Hann Einmitt. Örvænta, Það hlýtur að hafa verið þarna rétt á eftir að þú öskraðir þig hása. Það var nú ekki gáfulegt. 

Hún Ég var að reyna að láta vita af okkur. 

Hann Já þegar vitað var að enginn var nálægur til að heyra í okkur. Þú varst bara hrædd. Viðurkenndu það bara. 

(Þögn) 

Hún Ég, ég , nenni þessu ekki lengur. 

Hann Viltu ekki koma til mín. 

Hún Var raunverulega einhver þarna uppi áðan.   

Hann Nei það held ég ekki. Við erum grafin í fönn einhvers staðar langt upp á Grænlandsjökli. 

Hún En heyrðum við ekki örugglega bæði það sama. 

Hann Hvað heyrðir þú. 

Hún Mann hrópa Halló. Er einhver þarna. 

Hann Ég held að ég hafi bara heyrt einhvern hrópa Halló. 

Hún En ef þetta er eitthvað rugl, þá er það ansi svipað hjá okkur báðum og svo gerðist það líka samtímis. 

Hann Ég trúi bara ekki að við höfum verið svona nálægt því að bjargast. 

Hún Stundum er lífið lygilegt. 

Hann Djöfull ertu æðrulaus yfir þessu kona. Kannski vorum bara hársbreidd frá því að bjargast. 

Hún Já, kannski. 

Hann Viltu gera mér greiða. 

Hún Ég nenni ekki að færa þér kaffi elskan. 

Hann Aaaaa, vorum við ekki búin að ákveða að tala ekki meira um mat. 

Hún Kaffi er ekki matur. Hvað viltu annars að ég geri fyrir þig. 

Hann Viltu ekki koma. Ég held að ég vilji sofna. 

Hún Þú ert að deyja. 

Hann Ég ætla bara að sofa svo lítið. 

Hún Þá ætla ég að sofa líka.

(Þau hjúfra sig upp að hvert öðru og sofna) (Sviðið myrkvast en birtir svo strax aftur. Við hlið þeirra hjóna liggur ókunnur maður, glaðvakandi. 

Hann (Opnar augun fyrst og trúir þeim varla) Hva, hver ert þú? (Maðurinn segir ekkert en brosir breitt) Hvaðan komst þú, hvernig komstu? (Teygir sig og snertir manninn, sprettur svo til þegar að hann finnur að hann er raunverulegur og hrópar.) Hver ertu? 

Hún (Vaknar upp við hrópið) Hvað, hver er þetta? Er hann raunverulegur? 

Maður Us suss, ekki vera hrædd. Hvað hafið þið svo sem að hræðast. 

Hann Eru fleiri á leiðinni. 

Maður Nei, ég er einn. 

Hún Ertu kominn til að bjarga okkur. 

Maður Já, til að bjarga ykkur. (Hlær) 

Hann Ertu á einhverju farartæki sem getur tekið okkur öll. 

Maður Nei. Ekki beint. 

Hún Nú, hvernig komstu þá.  

Maður Ég kom eins og vindurinn og smaug svo í gegnum snjóinn líkt og frostið. 

Hann Nú þú ert sem sé bara sameiginleg ofskynjun. 

Hún Eða kannski er hann dauðinn. 

Hann Dauðinn er ekki persóna. 

Hún Jæja þá persónugerfingur hans. 

Hann Erum við sem sagt dáin. 

Maður Nei, ekki alveg, en við dauðans dyr. 

Hún Ertu sem sagt kominn til að taka okkur héðan. 

Maður Nei, það ætla ég ekki að gera. 

Hann Hvað þá 

Maður Hvert ætti ég svo sem að taka ykkur.  

Hann Nú, þangað sem dáið fólk fer. 

Maður Það fer ekki neitt. 

Hún Ertu að segja að eftir að við deyjum verðum við áfram hérna. 

Maður Það má segja að ég sé að segja það já. 

Hann Mér er hætt að vera kalt. 

Hún Já ég veit, en samt. 

Hann Ertu þá bara að látra okkur vita að við séum að deyja. Við vissum það nú fyrir. 

Maður Nei þið bara hélduð það. Nú eftir að ég kom vitið þið það fyrir víst. 

Hún Ég var alveg viss. 

Maður Jæja þá er komið að þessu 

Hann (Hlægjandi) Hverju,að deyja.  

Maður  

Hún Mér finnst ég vera meira lifandi en nokkru sinni eftir að við lentum hérna. Bara hress. 

Hann Ég líka. Svefninn hefur endurnært okkur. 

Maður Þetta er í bara dauða-tifinningin sem er að koma yfir ykkur. Dauðateygjurnar eins og sumir kalla það. 

Hann Það getur bara ekki verið, ég er svo fjári hress.  

Hún Ef þetta er að deyja, er það ekki svo slæmt. 

Maður Þetta er að deyja. 

(Þögn og rýmið utan um þau hverfur) 

Hann Erum við dáin.  

Maður  

Hann (Hlær) Þetta er nú bara fyndið. 

Hún Ég ætla að prufa að klípa mig. Ef ég er dáin get ég ekki fundið til, er það. (Klípur sig, finnur ekkert, klípur sig aftur og svo hann) Finnur þú eitthvað. 

Hann Þetta er nú ekkert að marka. Við erum svo dofin af kulda að við finnum ekkert fyrir svona smá klípum. 

Hún Einmitt. Og ef við erum dáin, hvað ert þú að hangsa hér. Er ekki nóg af fólki að deyja þessa stundina sem þú átt að vera að sinna. 

Maður Ég er að fara. Ætlaði bara að vera viss um að þið væruð búin að átta ykkur. 

Hann Átta okkur. Á hverju eigum við að átta okkur. 

Maður Á að þið séuð dáin. 

Hún Bíddu nú við. Það er eitthvað í gangi hérna sem ég ekki skil. Við erum sem sagt dáin, en finnst við vera lifandi eða hvað. 

Maður Þið eruð dáin. 

Hann Auðvitað. Erum við sem sagt núna í lífinu eftir dauðann. 

Maður Já. 

Hún Og hvar er þá þarna eh, himnaríki. 

Maður (Hlægjandi) Afsakið, en ég fer alltaf að hlægja þegar fólk spyr að þessu. 

Hann Hvað er svona hlægilegt, erum við kannski ekki nógu góð fyrir himnaríki. 

Maður Heldurðu að þú sért á leiðinni til helvítis kannski (Hlær meira) 

Hann Af hverju ertu þá að hlægja 

Hún Heldurðu að við séum einhverjir kjánar. 

Maður (Stendur upp og gengur rólega af sviðinu) Nei, nei, þið misskiljið þetta eins og flestir. Þið eruð ekki að fara neitt, ekki á neinn stað. Finnið þið ekki hvað allt er,,, segjum óraunverulegt. Eins og í draumi.. 

Hún Er okkur sem sagt að dreyma. 

Maður Nei skynjun ykkar er eins og í draumi en þið eruð dáin.

(Þau horfa bæði á eftir manninum um stund)

Hún (Byrjar að hlægja og stendur upp og gengur af sviðinu) Veistu, ég held að ég nenni ekki að hanga lengur hér. 

Hann (Stendur upp og fer á eftir henni) Bíddu, bíddu ég er að koma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Meira hvað það gladdi mig að lesa þetta...flott verk og ég gerði líka þessa fínu  leikmynd...í huganum auðvitað

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 26.11.2008 kl. 13:55

2 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Ég er mikið að pæla í því þessa dagana, hvort ég sé friðsamur spennufíkill eða spennufíkinn friðarsinni.   Ef dauðinn er svarið við lífinu, verður þá ekki lífið að vera svarið við dauðanum.  Draumur, veruleiki, dauði, líf. 

Líf.........YES.....Já takk

Ég stefni á Kulusukk næsta sumar og skoða þessar Álftir. Kærustupar dauðans. Eru þær örugglega dauðar ?  Ég er nefnilega skíthræddur við fyrirbæri sem rísa upp frá dauðum...scares the shit out of me.  20.000 ár eru fljót að líða...hvernig ætli tímanum sjálfum skyldi annars líða, líður honum vel eða illa ?  Hver er summan af þessu sjónarspili öllu ?  Takk fyrir greinina Svanur og lifðu heill.

Máni Ragnar Svansson, 26.11.2008 kl. 22:28

3 Smámynd: Bjarni Harðarson

góður - ég var alltaf að hugsa um álftirnar en samt líka okkur öll

Bjarni Harðarson, 26.11.2008 kl. 23:14

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Kæra Hrafnhildur, þú mundir vera sú fyrsta sem ég leitaði til með sviðsgerð ef það væri einhver von um að fá þetta á fjalirnar. Takk fyrir þitt innlegg.

Máni minn Ragnar: Þú leggur hér inn athugasemd sem skákar pistlinum (einþáttungnum) í mörgu og kemur kjarna málsins til skila í örfáum setningum. Þakka þér.

Bjarni Harðar; Kannski eru álftirnar bara við öll. Þakka athugasemdina kæri vin.

Svanur Gísli Þorkelsson, 27.11.2008 kl. 01:28

5 identicon

Reglulega gott, takk fyrir. En gaman þætti mér að vita hvernig strendur Grænlands litu út fyrir 20,000 árum, var ekki heitt á Grænlandi þá ?

Kv. Kristján 

Kristjan (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 02:03

6 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

takk fyrir þetta

Hólmdís Hjartardóttir, 27.11.2008 kl. 09:43

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Kristján og takk fyrir innlitið. Fyrir 20.000 árum var Grænland eins og norðurhvelið allt í greipum ísaldar sem ekki tók enda fyrr en fyrir ca. 12000 árum.

Takk fyrir innlitið Hólmdís.

Svanur Gísli Þorkelsson, 27.11.2008 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband