Landið bláa

1_fullsizeAf fréttum, bloggi og fáeinum símtölum er ljóst að vargöld ríkir á Íslandi. 300.000 manns æða um í hamslausri bræði yfir því að blekkingavefurinn (matrixið þeirra) hefur verið rofinn.

Samsæriskenningar um "Falið vald" og "Zeitgeist" kynda undir gremjunni og fólk talar fullum fetum með krepta hnefa um byltingu og uppreisn.

Kannski er fólk enn of reitt til þess að hugleiðing af þessu tagi komi að nokkru gagni.

Í hverri viku koma eftir undarlegum leiðum fram upplýsingar sem auka enn á reiðina og staðfesta það sem allir vita innst inni að það er sama hversu oft fatan er látin síga í bruninn, alltaf kemur upp sama fúla vatnið.

Einhverjir líta í kring um sig og vonast eftir því að lausnarinn komið stígandi niður á skýjum himins, bjargvætturinn sem öllu reddar og vissulega eru margir til kallaðir. Vonabíar og jaðar-spámennirnir stíga fram hver af öðrum og heimta hárri röddu hver í kapp við annan að blekkingarmeistararnir verði dregnir fyrir rétt og vonast sjálfsagt eftir því að einhver muni eftir háreysti þeirra þegar frá líður og velji þá til að stjórna skútunni ef og þegar hún losnar af strandstað.

Spurningarnar hrannast upp en þeir sem hafa svörin gefa ekki viðtöl. Og ef fyrir tilviljun næst í skottið á einum þeirra, vefst þeim ekki tunga um tönn við að útskýra hvernig allt sé í eins góðum höndum og hægt er að búast við undir svona kringumstæðum og að þeir séu í óða önn að búa til nýjan vef sem komist í gagnið innan skamms. Þeir haga sér eins og sannir blekkingarmeistarar og fyllast sjálfsvorkunn og særðri réttlætiskennd til skiptis en passa sig á því að láta samtryggingakerfið, sem er þeirra á meðal, ekki klikka.

Allar fögru falskenningarnar um "sjálfstætt líf" auðmagnsins eru allt í einu afsannaðar og í ljós hefur komið að á bak við tjöldin hafa það alltaf verið "bara menn" sem réðu ferðinni. Bankar og fjármálstofnanir eru mannlegar stofnanir, gerðar til að þjóna manninum og stjórnað af mönnum. Samt lætur fólk enn eins og þessi Mammonsmusteri séu fjöregg þjóðarinnar. Þegar allt kemur til alls er tilgangur Banka aðeins að halda bókhald. Þeir framleiða sjálfir ekki neitt nema tölur.

BankerREX_228x341Á meðan pólitíkusarnir vinna ósvinnuna sína, reyna fyrir sér hér og hvar með að fá lán til að allir geti látið um sinn að lífið geti haldið áfram eins og það var, koma sigurvegararnir, þeir sem voru búnir að koma eignum sínum fyrir í útlandinu, sterkir til leiks. Þeir hafa nú tíma til að taka sér formlega sæti í stjórn fyrirtækja sinna í útlöndum því Landið Bláa, nú blátt af heift og blóðleysi, gnægtabrunnurinn sem ól þá og gaf þeim allt, er þurrausin og draumalandið orðið að martraðarskeri.

Allar góðar góðar sjálfshjálparbækur benda fólki á að þegar að erfiðleikar steðja að sé best að mæta því með því að byggja á styrkleikunum. Eins og stendur, velta Íslendingar sér aðallega upp úr veikleikum sínum. 

En hverjir eru styrkleikar þjóðarinnar? Það hefur alla tíð verið ljóst að fái íslendingar til þess tækifæri, er þeim fátt auðveldara en að afla peninga. Veikleikin er m.a. að þeir eru fljótir að eyða þeim.

En þessi styrkleiki er enn fyrir hendi og tækifærin eru enn til staðar.

Enn er varmi í jörðinni, orka í fallvötnunum, fiskur í sjónum, vit í kollum og ferðamenn sem vilja heimsækja landið. Efnislega eru tækifærin enn sannarlega öll til staðar.

Og andlega er þjóðin alveg á sama stigi og fyrir hrunið. Það er vandamálið. Hún heldur enn að hamingjan sé fólgin í því sem Bankarnir áttu að varðveita og er þess vegna afar annt um að hamingjuræningjarnir verði látnir gjalda fyrir rán sitt.

Hinir eiginlegu styrkleikar þjóðarinnar ættu að felast í karakter hennar. Til að endurreisa efnahagslíf þjóðarinnar á öðrum grunni en þeim gamla sem pólitíkusarnir eru nú í óða önn að reyna, þarf að koma til ný sýn á tilgang þessa alls. Það er greinilegt að þau siðferðilegu viðmið sem þjóðin reyndi að notast við, koma ekki lengur að gagni, ef þau hafa þá nokkru sinni gert það. Við erum að tala um að venda okkar kvæði í kross.

Þeir eiginleikar sem ekki eru mikils metnir í "heimi fjármagnsins" verður nú að setja á oddinn í samskiptum fólks. Það er ekki eins og okkur séu þeir alls ókunnugir, því vel flestum okkar voru þeir innrættir í æsku. Einhvern veginn virtust þessir eiginleikar samt hverfa þegar komið var inn á samskipti fólks á sviði stjórn- og fjármála. 

2530Sam_Frodo_Mt_Doom_HLÞessir eiginleikar eru m.a. hjálpsemi, miskunnsemi, samkennd, auðmýkt, ósérhlífni, fórnfýsi, virðing, traust, þolinmæði og fordómaleysi. Taki hver og einn upp með sjálfum sér meðvitaða rækt á þessum eiginleikum munu samskipti fólks breytast á stuttum tíma.

Bankar og ríkisstofnanir ættu að ganga á undan með góðu fordæmi og hafa þessa eiginleika að leiðarljósi í störfum sínum um ókomna framtíð. Við sjálf ættum að tileinka okkur þá og innleiða í öll samskipti okkar á milli.

Eiginleikar "gamla Íslands", græðgi, samkeppni, öfund, óbilgirni, lævísi, flokkadrættir, klíkuskapur og miskunnarleysi, verða upprættir að sjálfu sér með upptöku hinna nýju sjónarmiða.

Eflaust munu einhverjir sakna eiginleikans "réttlætis" úr þessari upptalningu. Staðan er sú að til að skapa réttlæti þarf að vera sameiginleg sýn á hvað réttlæti er. Hún er ekki til staðar nú, en hún mun myndast eftir því sem okkur tekst betur að móta með okkur nýtt siðferði byggt á hinum jákvæðu eignleikum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Logason

Mikið er gaman að lesa jafn góðan pistill og þennan

hafðu þökk fyrir

Kristján Logason, 4.11.2008 kl. 17:33

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þú gleymdir fyrirgefningunni Svanur minn.  Það er frekar djúpt á henni hjá mér

Sigrún Jónsdóttir, 4.11.2008 kl. 17:36

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Svanur, þú ert alveg ótrúlegur bjartsýnismaður! 

Allir þeir eiginleikar manna sem þú telur upp, bæði neikvæðir og jákvæðir  eru "inherent" í okkur öllum.  Mér finnst með tilliti til mannkynssögunnar að þeir jákvæðu blómstri ef vel gengur en hinir neikvæðu í þrengingum.

Spyrjum að leikslokum; vonum hið besta en verum viðbúin hinu versta... 

Kolbrún Hilmars, 4.11.2008 kl. 17:51

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Glæsipistill, kærar þakkir!

Lára Hanna Einarsdóttir, 4.11.2008 kl. 17:55

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Kolbrún; Eins og einhver sagði þá hafa bjartsýnisfólk og svartsýnisfólk nokkurn veginn jafn oft rétt fyrir sér, en það er meira gaman hjá bjartsýnisfólkiðnu. "Inherent" segir þú og á vissan hátt fellst ég á það. En sé það rétt að örlæti sé inherent eiginleiki þá er græðgi aðeins skortur á örlæti, stærilæti skortur á auðmýkt o.s.f.r. Það sem hefur raunveru eða substance er jákvæði eiginleikinn. Það neikvæða, líkt og myrkrið er ekkert og hverfur um leið og ljósið er kveikt.

Var þetta ekki rosalega jákvætt hjá mér:)

Sigrún; Mikið rétt með fyrirgefninguna, en hún felur í sér ákveðinn dóm um sekt og þess vegna setti ég miskunnsemi í staðinn :)

Takk fyrir innlitið og athugasemdina Kristján :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 4.11.2008 kl. 18:08

6 Smámynd: Brattur

... hjálpsemi, samkennd, virðingu... og alla hina góðu eiginleika sem þú nefnir þarf einmitt hver og einn að rækta núna... en ég held það geti verið erfitt hjá mörgum þar sem reiðin er mikil... en vonandi hugsum við öll betur um hvort annað hér eftir... og uppskerum heilbrigðari hugsun en hingað til hefur viðgengist...

Brattur, 4.11.2008 kl. 19:58

7 identicon

Kæri Svanur, við hverju er að búast þegar heil þjóð eða mikill meirihluti hennar byggir alla sína sjálfsmynd á bílnum sínum eða öðrum sýnilegum hlutum, fatamerkjum og einhverslags "flottræfilshætti".

Að viðhalda virðingu sinni með eignum og/eða hlutum, helst að aðrir öfundi þig pínu, sem gerir það aftur að verkum að sá hinn sami þarf að gera betur (sýna meira)  eignir bera vitni um vissan "standard" eða stöðu og það hefur verið séríslenskt þjóðarböl að viðhalda "standardinum" með skuldum.

Íslendingar töpuðu ekki í raun ekki svo miklum peningum, þeir bara juku við skuldinrnar þar sem eignin var oft ekkert annað  lán, auðvitað töpuðu sumir peningum sem var heiðarlega unnir fyrir s.s. alvöru sparnaði, geri mér alveg grein fyrir því og það er mjög sorglegt, en þeir eru fáir í hlutfalli við hina sem voru með lífið og flottheitin að láni og juku í raun bara við skuldirnar.

En íslendingar töpuðu fyrst og fremst sjálfsmyndinni, því ef við erum ekki bestir, fallegastir og flottastir í heimi, hverjir erum við þá ?

Kveðja,

Katala (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 21:22

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Mjög sammála þér Katala. Þakka þér Einari og Bratta góðar athugasemdir.

Svanur Gísli Þorkelsson, 4.11.2008 kl. 21:54

9 identicon

Takk, takk!

kveðja

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 22:14

10 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Heldurðu að við séum ekki búin að tapa ærunni?

Hólmdís Hjartardóttir, 4.11.2008 kl. 23:39

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Allt eru þetta ávextir óttans. Bæði í aðdraganda þess hvernig fór og hvernig brugðist er við nú.  Óttinn er móðir græðginnar, reiðinnar, vantraustsins, hatursins og alls þess sem neikvætt er í okkar tilvist.  Fátt ber því að óttast meir en óttann sjálfann eins og spakur maður sagði.

Réttlæti er afstætt. Það er rétt. Það sem skortir í jöfnuna er traust. Ekki er líklegt að það eigi auðvelt uppdráttar. Þjóðfélag sem byggir á trausti er réttlátt samfélag og laust við ótta.  Kannski er það bara draumur.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.11.2008 kl. 01:29

12 Smámynd: Villi Asgeirsson

Flottur pistill. Tek undir hvert orð.

Villi Asgeirsson, 5.11.2008 kl. 12:42

13 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Sólskríkjan mín situr þarna á sama steini
og hlær við sínum hjartans vini,
honum Svani Gísla Þorkelssyni.

Máni Ragnar Svansson, 5.11.2008 kl. 14:04

14 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sömuleiðis Guðbjörg.

Jón Steinar; Þú mælir líkt og svo svo margir aðrir stórir hugsuðir fornra og vorra tíma; I have a dream......

Takk fyrir það Villi  :)

Máni; enn á skáldlegu nótunum sem er vel:)

Svanur Gísli Þorkelsson, 6.11.2008 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband