Íslensk gengi og glæpaklíkur

gengiGengi og glæpaklíkur eru ekki ný fyrirbrigði í mannkynssögunni. Þegar gengi og glæpaklíkur ber almennt á góma, er oftast átt við fræg nútíma glæpafélög eins og ítölsku Mafíufjölskyldurnar, suður amerísku eiturlyfjahringina, götugengi stórborganna eða mótorhjólagengi eins og Vítisenglanna.

Ef við lítum aftar í söguna má finna alveg jafn illræmd glæpaklíkur eins og launmorðingjaklíku múslíma þá er kölluðu sig Assassina, Indversku Fautana, (Thugs) hina kínversku Triad klíku og hin japönsku Yakuza samtök.

Sem betur fer hefur lítið kveðið af skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi fram að þessu og kemur þar líklega til smæð þjóðarinnar. Glæpaleynifélög þrífast illa þar sem allir eru með nefið ofaní hvers manns koppi, eða hvað? 

Nú hefur greinilega grafið um sig í þjóðfélaginu ein gerð að gengi, kannski sú sem verst er að eiga við, vegna þess að hún skýlir sér á bak við það sem á yfirborðinu sýnist vera nauðsynleg og lögleg starfsemi. Þetta gengi flokkast undir þá gerð gengja sem nefnast "viðskiptagengi" (Corporate gangs)  og er best þekkt undir nafninu "Útrásarvíkingarnir".

Eftir að þjóðin hafði horft á auð sinn busla í kringum landið í 1000 ár og ekki átt nógu stóra báta til að nálgast hann eða fanga, fékk íslenski draumurinn loks tækifæri. Á undraverðum tíma og með mikilli harðýðgi komst íslenska þjóðin sem lengi var talin fátækasta þjóð í Evrópu í tölu ríkustu og mestu velferðarþjóða heimsins. Samtímis varð fólk hennar það fegursta, sterkasta og gáfaðasta og hamingjusamasta í heiminum.

Á enn skjótari tíma náðu "Útrásarvíkingarnir" að kippa undan þjóðinni fótunum þannig að nú sýnist íslenski draumurinn tálsýn ein.

businessmenGengið byrjaði að myndast snemma á tíunda áratug síðustu aldar og var grundvallað á afnámi reglna um fjármálastofnanir hérlendis sem rímuðu vel við hina svo kölluðu frjálshyggju-stefnu stjórnvalda.

Aðferðin sem þeir notuðu var ekki sérlega frumleg eða sú sama og peningaþvættisstjórar stóru glæpaklíknanna í heiminum nota til þess að koma illa fengnum peningum í umferð. Munurinn á "Útrásarvíkingunum" og eiturlyfja-barónunum er sá að í stað þess að selja eiturlyf  svindluðu  þeir fyrrnefndu féð út úr saklausum borgurum í útlöndum með loforðum um háa vexti. 

Þeir keyptu sér þrjá banka og mynduðu um þá eignarhaldsfélög. Þeir létu bankana stofna innlánssjóði og tóku síðan það fé sem í þá streymdi "að láni" og létu síðan renna í gegnum svikamillu sem þeir byggðu upp samhliða. Þeir komust fljótt í þá stöðu sem óneitanlega minnir um margt á þá aðstöðu sem bandaríska Mafían var í þann mund að komast í á Kúpu rétt fyrir byltinguna þar og lýst er svo vel í bók Mario Puzo um Guðföðurinn. Draumur þeirra var að ná undir sig heilu landi þar sem þeir gátu starfað óáreittir og notað fjármálstofnanir þess til að láta illa fenginn auð sinn streyma eftir.

Eigendur (Útrásarvíkingarnir) eignarhaldsfélaga bankanna stofnuðu önnur félög sem síðan stofnuðu enn önnur rekstrarfélög sem síðan keyptu eignir og fyrirtæki víðs vegar um heiminn. Þannig kom gengið sér upp svikamillu með bankana á öðrum endanum sem saug til sín sparifé ógrandvarra viðskiptavina og sem gat um leið ávaxtað peningana sem komu inn frá fyrirtækjunum sem keypt höfðu verið á hinum endanum fyrir innlánsféð. Allt gekk þetta eins og smurð vél enda í samræmi við stefnu stjórnvalda. Að auki þáðu margir sem tengdir voru stórvöldum lífviðurværi sitt og bitlinga af bönkunum og systurfélögum þeirra.

Þegar allt komst upp í haust um leið og lausaféþurrð varð í bönkunum enda búið að "lána" allt fé þeirra á fyrrgreindan hátt, lýstu Útrásarvíkingarnir bankana sína og eignarhaldsfélögin einfaldlega gjaldþrota en héldu að sjálfsögðu öllum öðrum eignum sínum og fyrirtækjum sem þeir höfðu keypt sig inn í með "lánsfénu."

Þá kom í ljós að saman við féð sem gengið hafði í gegn um svikamilluna var blandað svo til allt rekstrarfé íslenska ríkisins. Það hafði verið látið streyma í gegn um bankana og notað á svipaðan hátt og annað innlánsfé þeirra.

vikingsUm þessar mundir leitar ríkisstjórnin logandi ljósi að einhverjum sem vill lána þeim aura til að borga aftur þeim sem fé var svindlað út úr og til að ekki komi til rekstrarstöðvunar þeirra sjálfra. Hún segir að það sé mikilvægast fyrir þjóðina að halda ró sinni og standa saman og vera ekki að eyða orku í að leita að einhverjum sökudólgum núna. -

En hvað gekk þessari fámennu klíku til. Flestir þeirra voru búnir að koma ár sinni fjárhagslega ágætlega fyrir borð, áður en þeir rottuðu sig saman til þessara óhæfuverka. -

Þegar litið er til rannsókna sem gerðar hafa verið á meðlimum annarra glæpagengja kemur í ljós að það sem  raunverulega knýr meðlimi þeirra er eftirfarandi:

Leit að ást, lífsstoðum og aga.

Þörf til að tilheyra og helga sig einhverju.

Þörfin fyrir viðurkenningu og vald

Félagsskapur, þjálfun, spenna og athafnasemi.

Leit að sjálfsvirðingu og aðdáun

Leit að viðurkenningu

Þörfin fyrir öryggi og vernd

Fjölskylduhefðir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Takk fyrir góðan pistil.

Já, það er áhugavert að velta fyrir sér hvað mönnum gangi til með slíkri auðsöfnun. Ekki var það mjög sjálfsöruggur maður sem kom í Kastljósinu í gærkvöldi, og var helst á honum að heyra að þetta hefði allt gerst vegna þess hversu heimskur og skilningssljór hann hefði verið, auk þess sem engir vildu lána honum lengur.

Greta Björg Úlfsdóttir, 14.11.2008 kl. 13:43

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Einn þessara útrásarvíkinga sagði í útvarpsviðtali í gær "Það á enginn að vasast í mitt veski" og bar fyrir sig bankaleynd.

Merkileg fullyrðing með tilliti til þess að almenningur þarf ekki bara að opna veskin sín, heldur verða veskin sjálf væntanlega seld á nauðungaruppboði líka.

Kolbrún Hilmars, 14.11.2008 kl. 18:09

3 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Alveg hárrétt, vel að orði komist. Þetta er náttúrulega bara Mafía, en aumkvunarvrðir eru þeir samt. Í raun ekkert annað en hræddir og fávísir sveitadrengir, sem eru búnir að skíta langt upp á bak,... á sér ..... og okkur hinum líka.

B-)

Börkur Hrólfsson, 14.11.2008 kl. 19:15

4 identicon

Ágæt úttekt að öðru leyti en því að niðurlagið er óttaleg þvæla. Þessi atriði sem þú telur upp sem drifkraft glæpagengja er nákvæmlega það sama og knýr allt fólk, hvort heldur er til dáða eða ódáða.

Ætli vonin um auð og völd sé ekki heldur nærtækari skýring. Það skiptir nefnilega litlu þótt bófarnir hafi komið ár sinni fyrir borð áður en þeir hófu útrás, því tilgangurinn er ekki sá að ná endum saman, heldur lifa þeir í veröld þar sem meira er aldrei nóg.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 01:52

5 identicon

Og neinei, þeir eru hvorki hræddir né fávísir og langt frá því að vera aumkunarverðir. Þvert á móti vita þeir vel að þeir munu komast upp með sinn skíthælshátt, vegna þess að almenningur er of hræddur, fávís og aumkunarverður til að taka lögin og réttlætið í sínar hendur.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 01:58

6 Smámynd: Skattborgari

Virkilega góð og áhugaverð grein hjá þér.

Það er eitt sem að fólk verður að hafa í huga og það er að fyritækin eru ekkert annað en fólkið sem stjórnar þeim. Maðurinn er grimmasta rándýr jarðarinnar sem beitir oft á tíðum öllum brögðum til að ná sínu fram. Þess vegna verður að vera virkt eftilit með fyritækjum sem geta valdið þjóðinni skaða eða öðrum fyrirtækjum.

Kveðja Skattborgari.

Skattborgari, 15.11.2008 kl. 21:22

7 identicon

Sæll Svanur !Þú gleymdir einni sem að er ekki síður hættuleg, og kannski sú hættulegasta og illræmdasta. Það er sú vietnamska, ég hef séð blaðagreinar þar sem starfsaðferðum hennar er lýst, ásamt myndum og það get ég sagt að þær lýsingar og myndir eru ekki við hæfi viðkvæmra sálna. Sjálfur hef ég lent í íslenska armi þessarrar svokölluðu mafíu, þegar ég var framkvæmdarstjóri kínversks veitingahúss í Reykjavík. Nótt eftir nótt sat ég heima hjá mér vopnaður haglabyssu og fleiri vopnum eftir hótanir frá litlum vietnömum sem kröfðust verndarfjár. Lögreglan var í nokkrar vikur með gæzlu fyrir framan íbúð mína. Svo alvarlegt þótti henni þetta mál. Samkvæmt mínum heimildum er Víetnamska mafian vön að SKERA fyrst og spyrja svo. (það getur verið helvíti vont,að ég tali ekki um alltof seint.)

Kristján Helgason (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 00:27

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Kristján, þó þetta sé hræðileg lýsing er samt gott að heyra að íslensk lögreglan hafi tekið hótanirnar alvarlega og brugðist við.

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.11.2008 kl. 09:01

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

það er rétt Kristján, ég taldi ekki upp hinar fjölmörgu glæpaklíkur mismunandi landa, þ.á.m. þá frá Vietnam. Auðvitað hefur heyrst að gengi frá löndum innflytjenda til Íslands hafi gert tilraunir til að ná fótfestu í landinu en, aftur vegna smæðar þjóðarinnar, tekist illa að halda starfseminni leynilegri. Kannski er þetta að breytast, alla vega hljómar saga þín heldur skuggalega. Tek svo undir með Gretu.

Svanur Gísli Þorkelsson, 18.11.2008 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband