18.10.2008 | 19:37
Músin sem öskraði
Atburðir síðustu vikna gefa ærna ástæðu til að líta til baka yfir samskipti Íslendinga og Breta í gegnum tíðina. Hvernig hefur Íslandi farnast í þeim samskiptum? Bretar telja núna yfir 60.000.000 og ráða yfir fimmta stærsta efnahagskerfi heimsins. Bretaveldi var voldugasta heimsveldi veraldar þegar að Ísland var eitt fámennasta og fátækasta ríki heimsins.
Tilraunir Gordons Browns til að gera úr Íslandi það sem Falklandseyjar gerðu fyrir Margréti Thatcher á sínum tíma þegar pólitískum ferli hennar virtist vera lokið, eru núna að koma aftan að honum og eftir að hafa beitt fyrirtæki landsins ákvæðum hryðjuverkalaga, hefur hann þurft að lýsa yfir stuðningi við Ísland sem einn af leiðtogum Esb.
Nokkri punktar úr sögunni.
Allt frá landnámi Íslands hafa samskipti þjóðanna verið hálfgerður leikur kattarins að músinni þar sem Bretar hafa gert sitt besta til að fanga þjóðina með gylliboðum um hagnað og verslun í bland við valdsbeitingu þegar annað hefur ekki dugað. Stundum hafa þeir komið færandi hendi en ætíð gætt þess að taka til baka í það minnsta ekki minna en þeir komu með.
Samskipti þjóðanna á 15. öld sem við köllum stundum Ensku öldina,bera þessu glöggt vitni. Bretar blönduðu sér þá óspart í innanríkismál Íslands og reyndu eftir föngum að ná hér varanlegum yfirráðum, enda girntust þeir auðug fiskimiðin, fálkann og brennisteininn. Þeir sáu samtímis ekkert athugavert við að ræna íslenskum börnum og hneppa þau í ánauð á Englandi eins og gerðist árið 1429 þegar fimm íslenskir drengir og fjórar stúlkur voru seldar í þrældóm til Bristol og áttu aldrei afturkvæmt til landsins. Sama ár voru 11 íslensk börn flutt nauðug til Lynn á Englandi sem þá var nokkuð stór markaðsbær. Svo vildi til að Jón Gerreksson, þá biskup í Skálholti, var staddur í Lynn og þegar hann komst á snoðir um þjóðerni barnanna lét hann senda þau aftur heim.
Ásókn Englendinga á íslandsmið á þessum tíma lauk í raun ekki fyrr en Ítalinn Giovanni Caboto, betur þekktur sem John Cabot, tókst, með viðkomu á Íslandi, að finna hin auðugu fiskimið Nýfundnalands árið 1497 og varð síðan fyrsti Evrópubúinn til að stíga fæti á meginland Ameríku eftir að Íslendingarnir höfðu hætt við að nema landið nokkrum öldum áður.
Davíð Oddson segir um framhaldið í ræðu einni er hann flutti við opnun nýs fiskimarkaðar í Hull 2001;
"Enska öldin var okkur Íslendingum um margt hagstæð því verslun með fisk og vistir við Englendinga þótti ábatasöm. Englendingar sátu reyndar ekki einir að fiskveiðunum við Ísland, þeir kepptu við hina þýsku Hansakaupmenn og Dani og fullyrða má að þessi samkeppni hafi komið Íslendingum mjög til góða. Þá jafnt sem nú gilti að heiðarleg samkeppni bætir allan hag. En með tilkomu einokunarverslunar Dana á Íslandi við upphaf sautjándu aldar voru Íslendingar sviptir ávinningnum af þessum viðskiptum, þótt vitað sé að margur maðurinn hafi stolist til að eiga viðskipti við Englendingana í trássi við einokunina og þannig létt sér lífsbaráttuna.
En þrátt fyrir verslunarbann héldu veiðar Englendinga við Íslandsstrendur áfram og fiskur veiddur þar var áfram á boðstólunum hér í Englandi. Það var því eðlilegt þegar við Íslendingar hófum sjálfir fiskveiðar í stórum stíl að Bretland yrði okkar helsta markaðssvæði, bæði fyrir frystan fisk og ferskan. Á stríðsárunum nam útflutningur á ferskum fiski til Bretlands allt að 140 þúsund tonnum á ári og höfðu báðar þjóðirnar mikinn hag af þeim viðskipum. Úr þessum viðskiptum dró þegar þjóðirnar áttu í deilum um fiskveiðiréttindi við Ísland og tók nærri fyrir þau bæði á sjötta og áttunda áratugnum."
Íslendingar og Bretar áttu umtalsverð samskipti á öldunum fram undir fyrra stríð. Íslendingar stunduðu verslun við breska sjómenn í blóra við einokunarlögin og seinna var á tímabili t.d. talvert selt af fé á fæti til Bretlands. Þegar að farið er yfir söguna kemur í ljós að Íslendingar eiga ýmislegt smálegt Bretum að þakka.
Íslenska hundinum bjargað.
Þegar að íslenski hundurinn var að verða útdauður á landinu var kyninu bjargað frá aldauða af breskum náunga sem hét Mark Watson. Hann ferðaðist mikið um landið um 1930 og sá þá allnokkuð af íslenskum hundum út um sveitir. Í kringum 1950 voru íslenskir hundar svo að segja horfnir nema á afskekktum stöðum, s.s. í Breiðdal á Austurlandi þar sem 90% hundanna sýndu enn öll einkenni kynsins. Ljóst er að á þessum tíma var kynið í mikilli útrýmingarhættu. Watson ákvað að flytja nokkra hunda og tíkur til Kaliforníu og rækta kynið svo það yrði ekki aldauða. Yfirdýralæknir, Páll A. Pálsson, aðstoðaði hann við útflutninginn. Fljótlega eftir að hundarnir komu til Kaliforníu kom upp hundapest og drápust sumir hundanna. Þeir sem lifðu eignuðust afkvæmi og virtust ekki hafa blandast öðrum kynjum. Watson fluttist seinna til Englands og tók hundana með sér og lét halda ræktuninni áfram.
Ísland hersetið af Bretum
Föstudaginn 10. maí 1940 vöknuðu Íslendingar við vondan draum, það var verið að hertaka Ísland. Herskip sigldu að höfninni, flugvélar sveimuðu yfir landinu og 2000 breskir landgönguliðar stigu á land.
Árið 1940 voru Íslendingar um 120 þúsund talsins, þar af bjuggu um 40 þúsund manns í Reykjavík. Talið er að um 25 þúsund breskir hermenn hafi verið í landinu þegar mest var árið 1941 og hafði stærsti hluti liðsins bækistöðvar í Reykjavík og nágrenni. Með komu hersins tók bæjarlífið stakkaskiptum. Bretar stóðu fyrir ýmsum framkvæmdum; þeir lögðu meðal annars flugvöll í Vatnsmýrinni og braggahverfi risu af grunni. Veitti Bretavinnan" fjölmörgum Íslendingum atvinnu, en mikið atvinnuleysi hafði ríkt í landinu. Yfirleitt var sambúð hermanna og landsmanna friðsamleg, þótt af og til kæmi til árekstra. Einna helst þótti mönnum skemmtanalíf bæjarins breytast til verri vegar og átti lögreglan í Reykjavík stundum fullt í fangi með að halda uppi lögum og reglu.
Tjallinn fer
Hinn 7. júlí 1941 tóku Bandaríkin að sér hervernd Íslands samkvæmt samningi Bandaríkjamanna og Breta við ríkistjórn landsins. Í kjölfar komu bandarískra herdeilda tóku Bretar að flytja landher á brott, þar sem hermanna var þörf í baráttunni við Öxulveldin annars staðar. Bandaríkin voru hins vegar enn ekki orðin aðilar að styrjöldinni, en tóku upp frá þessu vaxandi þátt í átökunum á Atlantshafi við hlið Breta.
Þorskastríðin
Íslendingar háðu þrjú "þorskastríð" við Breta á síðustu öld og unnu þau öll. Þegar að mest greindi á milli þjóðanna varð deilan svo alvarleg að íslensk stjórnvöld ákváðu að slíta stjórnmálasambandi við Breta og kölluðu sendiherra sinn í London heim og vísuðu breska sendiherranum í Reykjavík úr landi. Eins og áður hótuðu Íslendingar einnig því að segja sig úr Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO). Sögðu menn það til lítils að vera í varnarbandalagi sem kæmi ekki til aðstoðar þegar landið væri undir erlendri árás.
Um þorskastríðin og útfærslu landhelginnar er frábæra samantekt að finna á síðu Landhelgisgæslunnar.
Ég læt þessa stuttu samantekt nægja að sinni þótt stiklað sé á stóru en vona að hún færi okkur heim sanninn um að það dugar ekki alltaf að vera stóri og sterki aðilinn þegar að samskiptum þjóða kemur, til að fá vilja sínum framgengt. Ég var því hissa á viðbrögðum forsætisráðherra Breta á dögunum, því hann hlýtur að hafa verið ljóst eins og öðrum sem eru komnir til vits og ára, að Bretland hefur jafnan farið halloka þegar kemur að ágreiningi við Ísland.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Menning og listir, Viðskipti og fjármál, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:44 | Facebook
Athugasemdir
flottur pistill hjá þér Svanur.. jón Gerrekson sá eflaust eftir því góðmennskubragði sínu að senda íslensku piltana heim til íslands úr ánauð... því þeir höfðu verið seldir af fjölskyldum sínum í þrældóm og voru úrskurðair dauðir... endurkoma þeirra varð því ævarandi skömm viðkomandi gfjölskyldna og því urðu drengirnir allir og jón að bæta fyrir með lífi sínu...
En.. Bretar munu einnig fara halloka í þetta sinn !!
Óskar Þorkelsson, 18.10.2008 kl. 20:15
Það er ekki hægt að ætlast til að sá breski, Brúni, átti sig á því, að Bretar geta aldrei
sigrað okkur eða brotið okkur niður, því siðblindir sjá aldrei bjálkann í eigin auga
Kv. K.H.
Kristjan (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 20:17
Svo hundurinn á Bretum líf sitt að þakka? Það vissi ég ekki.
En Bretar gerðu það sama á 15. öld og núna, að ræna Íslandi öllu fémætu. Kirkjur voru þá yfirleitt viðkomu staðir þeirra en núna eru það bankarnir. Enda krónan okkar guð...
Takk fyrir skemmtilegan pistil. Ég vildi að fleiri blogguðu á jafn agaðan og fræðandi hátt og þú. Þá væru svona idjótar eins og ég ekki að vaða upp með heimskulegan húmor.
Kreppumaður, 18.10.2008 kl. 21:08
Góð samantekt, takk fyrir þetta.
Greta Björg Úlfsdóttir, 18.10.2008 kl. 22:02
Ákaflega fræðandi. Eins og alltaf.
Pabbi gamli var í bretavinnunni í Kaldaðanesi. Hann hefur alltaf sagt að sá tími hafi verið góður og hann bar hlýjan hug til þeirra tjalla sem þarna voru.
Hann á bók sem breskur hermaður gaf honum. Sá var frá "Stoke on trent". Hann skrifaði nafnið sitt í bókina. Hann var fæddur 1921. Það væri gama að vita hvort þú gætir fundið út hvort sá er enn á lífi. Ég fer á morgun að hitta pabba og ég ætla að senda þér nafnið á hermanninum.
Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 23:14
Nú í desember n.k. er ætlunin að breskir hermenn taki að sér loftvarnir Íslands. Það er mikil kaldhæðni að þeir sem kalla okkur hryðjuverkamenn eigi að passa það að þeir sem að helst vilja rétta okkur hjálparhönd komi ekki of nálægt landinu með sínar flugvélar . Með réttu ættum við alfarið að afþakka breskar herflugvélar hingað til lands. Segja þeim að halda sig heima.
Aðalsteinn Baldursson, 19.10.2008 kl. 00:58
Tek undir með Aðalsteini......annars takk fyrir fróðleik
Hólmdís Hjartardóttir, 19.10.2008 kl. 01:59
Takk fyrir fróðleikinn.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.10.2008 kl. 02:05
Það hlýtur að vera hægt að semja um að einhverjir aðrir taki þetta að sér, að minnsta kosti í þetta sinn meðan ástandið er svona viðkvæmt, en kannski er það erfitt með svo stuttum fyrirvara, þar sem þetta er allt skipulagt langt fram í tímann.
Eins og Geir Haarde benti réttilega á þá erum það við Íslendingar sem förum fram á þessar varnir. Með réttu ættum við að geta haft eitthvað um það að segja hverjir koma hingað? Vonandi eru þeir að fara ofan í saumana á þessu, kallarnair.
Greta Björg Úlfsdóttir, 19.10.2008 kl. 03:42
Sæll Svanur
Þessir tveir síðustu pistlar þínir eru snilld! (eins og allir hinir reyndar). Margt kemur uppí hugann varðandi samskipti íslendinga og breta......frægasta mannrán íslandsögunnar - og hæsta lausnargjald sem greitt hefur verið....borg í nágrenni við þig sem heitir eftir íslenskum bóndasyni....og fleira. Allt er þetta efni í greinar sem tengja þessar þjóðir saman í sögunni. Gunnar á Hlíðarenda herjaði á Bretland sem og Njálssynir, Kári Sölmundarson og fleiri frægir....
þakka þér fróðleikinn
sigurvin (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 04:17
Takk fyrir það. Áframsendi á Jarp.
Rut Sumarliðadóttir, 19.10.2008 kl. 10:16
Þakk þér fyrir enn eina góða samantekt, Svanur. Álit mitt á Jóni Gerreksyni var ekki mótað, en alltaf með dökkum blæ. Hér koma fram heldur betur jákvæðar upplýsingar um hann, auk frétta af glæpaverkum Íslendinga er seldu börn sín og drápu síðan, ef upplýsingar Óskars Þorkelssonar hér að ofan eru réttar - sem þær trúlegast eru.
H G, 19.10.2008 kl. 11:10
Þú gleymir aðalmanninum JÖRUNDI HUNDADAGAKONUNGI
Brynjar Jóhannsson, 19.10.2008 kl. 13:13
hann var Danskur Brylli :)
Óskar Þorkelsson, 19.10.2008 kl. 13:36
Takk.
Jenný Anna Baldursdóttir, 19.10.2008 kl. 17:11
Takk fyrir mig
Sigrún Jónsdóttir, 20.10.2008 kl. 00:48
Fínn pistill hjá þér, Svanurg, eins og oftast. En þrátt fyrir allt höfum við oftast verið Bretum góðir, eins og t.d. hún tengdamóðir mín heitin sem prjónaði sokka og jafnvel peysur og gaf Bretaræflunum sem voru að drepast úr kulda og vanbúnaði í braggahverfi á Kjalarnesi á stríðsárunum; hún gat ekki horft upp á þessa vesalings drengi með kuldaherkjur í kinnunum, sagði hún, og þykjusturiffla tálgaða úr spýtu af því það voru ekki til nóg hergögn handa innrásarliðinu hér.
Sigurður Hreiðar, 20.10.2008 kl. 14:44
Ég þakka allar athugasemdirnar og góðar undirtektir.
Það verður að vera svolítil satýra í bland Kreppi minn, þess vegna les ég bloggið þitt alltaf.
Davíð, endilega sendu mér nafnið.
Þú þekkir þessa sögu sé ég Óskar. Góð viðbót :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 20.10.2008 kl. 19:51
Ertu að segja að líf mitt sé eitthvað háð? Ég sem puða við að reyna að verða að manni svo ég geti einbeitt mér að ókláruðum verkum? Nú fer ég að svitna.
Kreppumaður, 20.10.2008 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.