Hverju tapaði Ísland?

iceland2Það sem útilendingar dá í fari íslendinga og það sem erlendir gestir, sem eru svo lánsamir að hafa heimsótt Ísland elska mest, er enn til staðar. Ekkert af því sem gerir okkur að þjóð hefur farið forgörðum í þessu fjármálaroki sem nú gengur yfir, þótt fáeinar skrautfjaðrir hafi fokið. Landið er enn fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar, þjóðin gestrisin, hjálpfús, menntuð og framsækin.

Ekkert af því sem gerir okkur að okkur hvarf, þótt einhverjum óhróðri hafi verið dreift um okkur í útlandinu, til að auka tímabundið hróður pólitíkusar sem stendur höllum fæti í heimalandi sínu. Það er satt að Þjóðin er knésett fjárhagslega en það gildir hér sem annarsstaðar þar sem hildir eru háðir að ekki er spurt að því hversu oft við féllum við heldur hversu oft við stóðum upp aftur.

Hvannadalshnjukur420Við Íslendingar erum og verðum þjóð vegna þess að við eigum okkur sér afar sérstæða menningu, sérstakt tungumál og sérstaka siði, en það sem gefur þessum þáttum raunverulegt gildi er að þeir eiga sér rætur í upphafi búsetu á Íslandi og teygjast óslitið aftur til uppruna þjóðarinnar. Þessi hugmynd myndaði kjarnann í málflutningi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni og til hennar er getum við enn sótt fulltingi þegar að okkur er sótt.

Fyrir einni öld voru Íslendingar fátækasta þjóð Evrópu. Með réttri blöndu af harðfylgi og málamiðlunum náðum við fullu sjálfstæði og komumst eftir það á undarverðum tíma í tölu auðugustu þjóða heimsins. Það sem byggði þann auð er enn í landinu og á því kapítali, mannauðnum, er hægt að byggja aftur.

800px-Thingvellir_Iceland_2005Ég hafna því að íslendingar "hafi sett ofan" þótt því sé haldið fram af þeim hvers gildismat er eingöngu bundið hagfræðitölum, og ég hafna því að íslendingar eigi að fara með veggjum á erlendri grund þótt ókurteisi og fram að þessu dulin öfund sumra útlendinga, gefi til þess ástæðu.

Ég fagna því að neikvæð umfjöllun erlendra fjölmiðla um ísland er í rénum og í stað hennar spyrja þeir að því hvers græðgi var meiri, þeirra sem buðu svo háa ávöxtun að hún hlaut að vera áhættuspil, eða þeirra sem sóttust eftir henni og voru tilbúnir til að taka áhættuna.

Heimurinn er á leið inn í efnahagskreppu. Bankahrunið er aðeins upphafið og í kjölfarið mun fylgja atvinnuleysi og allsherjar samdráttur. Þessi alheimslega kreppa mun krefjast svara við þeirri spurningu hvort óheft auðhyggja sé rétta leiðin fram á veg. Ísland kann að vera betur í stakk búið til að takast á við þá spurningu en flest önnur lönd, vegna þess að nú þekkjum við styrkleika og veikleika þeirrar leiðar, betur en flestir aðrir.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Góður pistill.  Við höfum á heilmiklu að byggja.  Skuldirnar virðast óyfirstíganlega núna....en þannig hefur það verið áður.

Hólmdís Hjartardóttir, 17.10.2008 kl. 19:35

2 Smámynd: Sammý

Heyr, heyr félagi. Alltaf jafn góður penni. Þjóðarstoltið er okkur í blóð borið.

Sammý , 17.10.2008 kl. 19:43

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Svanur, þetta er einn þinn besti pistill! 

Okkur hefur verið sparkað aftur í tímann í efnahagslegu tilliti og enn og aftur erum við orðin ein fátækasta þjóð í Evrópu - mælt í evrum. 

En - þjóðarsálin er seig og á eftir að vinna sig upp úr þessu fjármálafeni - það er að segja ef græðgisliðinu og krúttkynslóðinni verður haldið utan stjórnar  

Kolbrún Hilmars, 17.10.2008 kl. 19:55

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.10.2008 kl. 21:50

5 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Flott hugsun og verulega upplyftandi....

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 17.10.2008 kl. 22:18

6 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir Svanur minn.  Auðvitað mun þjóðin sigrast á þessum erfiðleikum eins og öllum öðrum.  'Eg krosslegg fingur og vona að okkar kynslóð hafi alið ungviðið okkar upp í heiðarleika með umburðarlyndi.......þá verður framtíðin bjartari en nokkurn tíma áður.  Þetta er jú fólkið sem tekur við keflinu.

Sigrún Jónsdóttir, 17.10.2008 kl. 23:50

7 Smámynd: Sigga Hjólína

Góður pistill. Verum þakklát fyrir að vera ekki stríðshrjáð þjóð þriðjaheims ríkis. Eða með heilsugæslukerfi Bandaríkjanna. Að við getum stigið út fyrir hússins dyr og andað að okkur djúpt ofan í lungun.

Sigga Hjólína, 18.10.2008 kl. 01:03

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Frábær pistill, upplífgandi og jákvæður - takk, Svanur. Það eina sem mér finnst vanta er samsömun sálna okkar við náttúru Íslands og hvernig hún endurspeglar íslenska þjóðarkarakterinn - eða öfugt. Íslenska þjóðarsálin er - meðvitað eða ómeðvitað - nátengd náttúrunni, öfgum hennar og endalausum tiktúrum. Við megum aldrei fórna henni á neinu altari - hvað þá selja hana útlendingum með vafasamar fyrirætlanir!

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.10.2008 kl. 01:47

9 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Vel mælt. Takk.

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.10.2008 kl. 01:49

10 identicon

Takk Svanur ! Eftir lestur þessa pistils er ég ennþá stoltari af því 

að vera ÍSLENDINGUR. Haltu áfram á þessari braut, ekki veitir af að stappa stálinu

í hina Íslensku þjóð.

Kv. Kristján 

Kristján Helgason (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 02:09

11 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

STOLT er nefnilega ekki það sama og mont!

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.10.2008 kl. 02:35

12 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Kæra Lára Hanna; Sammála þér og ég reyndi að undirstrika það með myndunum við greinina. Tengsl okkar við náttúru landsins eru sannarlega órjúfanlegur hluti af auðæfum okkar og karakter.

Svanur Gísli Þorkelsson, 18.10.2008 kl. 02:47

13 Smámynd: Sigurður Árnason

Frábær pistill og upplífgandi. Þetta reddast allt saman og við komum sterkari út úr þessari þrekraun. Þetta ástand er jákvætt á margan hátt og vonandi lærum við af þessu og segjum nei við efnishyggjunni og einbeitum okkar að einhverri stefnu sem er mannúðlegri og traustari.

Kveðja Sigurður

Sigurður Árnason, 18.10.2008 kl. 08:06

14 identicon

Takk fyrir góðan og upplífgandi pistil, Þörf áminning !

kveðja

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 09:34

15 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góður pistill Svanur.. Ég hinsvegar mun ekki og hef aldrei skammast mín fyrir að vera íslendingur.. ég hinsvegar skammast mín fyrir þá menn sem hér eiga að vera að stjórna landinu..  því undirlægjuháttur þeirra gagnvart bretum er með ólíkindum..  Þeir hafa gert skaðan mun stærri fyrir þjóðina en þörf var á. 

Óskar Þorkelsson, 18.10.2008 kl. 10:02

16 Smámynd: Jonni

Vel mælt Svanur. Með æðruleysi, þolinmæði og vissunni styrk okkar sem þjóðar vinnum við okkur í gegnum þetta og komum sterkari en nokkru sinni tilbaka. Við getum verið stolt af því að vera íslensk og við skulum sýna heiminum af hverju.

Jonni, 18.10.2008 kl. 12:26

17 Smámynd: Villi Asgeirsson

Frábær pistill. Ég get tekið undir allt sem þú segir. Það sem þú sagðir, að við hefðum meiri möguleika en flestar þjóðir á að byggja upp betra samfélag, tek ég undir. Við megum ekki detta ofan í sama munstrið. Nú er tækifærið til að gera Ísland að landinu sem við viljum að það sé. Við skuldsettum afkomendur okkar, en á móti getum við gefið þeim betra þjóðfélag en það sem við erfðum. Ég setti upp síðuna www.NyjaIsland.is svo að við gætum öll lagt okkar af mörkum. Það getum við skipst á hugmyndum og veitt stjórnvöldum aðhald. Ég vona að sem flestir skrái sig, svo við getum sameinast gegn gamla flokkakerfinu sem var aldrei sanngjarnt og alltaf spillt.

Pennar eins og Svanur eru meira en velkomnir, eins og allir íslendingar. Sjáumst á www.NyjaIsland.is

Villi Asgeirsson, 18.10.2008 kl. 12:41

18 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég er búin að skrifa færslu þar sem ég set fram mínar hugmyndir um hvernig við eigum að fara að því að byggja okkur upp aftur, og ennfremur að standa af okkur fyrirsjáanlegt fárviðri í heiminum öllum: HÉR er tengill á hana, kannski nennir einhver að kíkja á þetta.

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.10.2008 kl. 13:58

19 identicon

Flottur pistill og mjög hvetjandi. Ekki talað niður til fólks. Ég er þó ekki sammála að það hafi verið einhver málamiðlun í sjálfstæðisbaráttu okkar. Gáfum aldrei eftir svo mikið sem þumlung!

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 15:06

20 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég þakka öllum athugasemdirnar og góðar undirtektir.

Svanur Gísli Þorkelsson, 19.10.2008 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband