11.9.2008 | 23:52
Bretar flytja sorpið sitt til Indlands
Ég get ekki orða bundist eftir að hafa lesið þessa frétt. Vissulega eru þær margar fréttirnar sem verðskulda fyllilega að um þær sé fjallað og rætt, en stundum sér maður umfjallanir sem eru svo lýsandi fyrir ríkjandi afstöðu fólks og þar af leiðandi ástand mála, að þær virka eins og vekjaraklukka á fullu. -
Um aldir þótti það vel verjanleg póltík fyrir vestrænar þjóðir að sölsa undir sig lönd í Afríku og Asíu og sjúga úr þeim merginn hvort sem hann var í mynd ódýrs vinnuafls eða auðlinda. Þegar vesturlönd flest hypjuðu sig loks á brott og skildu eftir sig íbúanna ómenntaða og nánast á því steinaldrastigi sem þeir voru á þegar nýlendan varð til, hófst barátta þeirra við að komast inn í tuttugustu öldina.
Frá miðbiki síðustu aldar hafa þessar þjóðir barist í bökkum við styrjaldir og hungursneyðar og mörgum hefur ekki enn tekist að komast af stigi þróunarríkja. Vesturveldin hafa fundið sér margar leiðir til að viðhalda áhrifum sínum á þessum svæðum, sérstaklega þar sem olía hefur fundist í jörðu. Indland hefur á síðast liðnum þrjátíu árum þrátt fyrir mikla fátækt stigið stór skref fram á við og orðið eitt af hinum nýju efnahagslegu undrum í heiminum.
Þess vegna er það sérstaklega sláandi þegar það spyrst út að fyrrverandi nýlenduherrar standa nú í því að flytja sorp sitt alla leið til Indlands þar sem það er notað í uppfyllingu. Það er alls ekki svo að Indland skorti uppfyllingarefni eða jarðveg. Það er einfaldlega ódýrara fyrir Breta að sigla bresku sorpi til Indlands. Fyrir utan það að vera lýsandi fyrir það gildismat sem stjórnar flestum aðgerðum stjórnavalda á vesturlöndum, sé ég í þessu mikla kaldhæðni og minnir óneitanlega á gamlan brandarann um hámark ósvífninnar. Þú kúkar á tröppurnar hjá náunga þínum og hringir svo dyrabjöllunni til að biðja hann um salernispappír.
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er alveg ótrúlegt að heyra 2008.....
Gulli litli, 12.9.2008 kl. 01:36
þetta er hrikalegt
Hólmdís Hjartardóttir, 12.9.2008 kl. 01:42
Þetta er virkilega dapurlegt.
Aðalsteinn Baldursson, 12.9.2008 kl. 02:46
Manni verður ómótt - takk fyrir enn eina upplýsandi samantektina.
Birgitta Jónsdóttir, 12.9.2008 kl. 07:17
Vá og svo er verið að vísa í myrkar miðaldir. Algjör óþarfi við erum að upplifar þær as we speak.
Jenný Anna Baldursdóttir, 12.9.2008 kl. 08:42
Fuss og svei, mannaþefur í helli mínum. Ekki gott að heyra að gömlu nýlenduherrarnir séu við sama heygarðhornið,
Rut Sumarliðadóttir, 12.9.2008 kl. 11:23
Já, merkilegt nokk. Svo flytja Danir inn tilhöggna kantsteina frá Indlandi í stað þess að fá þá frá Svíþjóð eð Bornholm eins og áður fyrr.
Það er ódýrara að kaupa þá frá Indlandi segja þeir.
Skynsamleg vöruskipti.
Sigurður Rósant, 12.9.2008 kl. 21:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.