31.7.2008 | 00:09
Pólitísk innræting og skandall í Bakarabrekkunni
Sumarið 1969 líður mér seint úr minni. Þetta var sumarið áður en ég fór að Núpi í Dýrafirði, þegar ég var enn fullur af hugmyndum (sumir mundu segja ranghugmyndum) um heiminn og hvernig hann ætti ekki að vera, enda bara 15 ára. Hugmyndirnar voru mest á vinstri vængnum viðurkenni ég, jafnvel svolítið til vinstri við hann, svona eftir á að líta. Alla vega var ég fljótur að þefa uppi félagsskap þar sem slíkar hugmyndir voru taldar til fyrirmyndar.
Í félagi við Jóhann Geirdal, fór ég að taka rútuna frá Keflavík til Reykjavíkur, eins oft og ég gat til að fara á fundi í bakhúsi á Laugarveginum þar sem Æskulýðsfylkingin (Fylkingin) var til húsa. Þarna kynntist ég fólki sem mér var sagt að væru helstu boðberar frelsis og réttlætis á Íslandi, Þ.á.m. Rósku, Ragnari (seinna skjálfta) og að sjálfsögðu Birnu Þórðar.
Það fór vel á með okkur og ég var sendur heim með lesefni eftir hvern fund. Ég paufaðist í gegn um Hegel, Marx og Engels og las þess á milli Lilju sem allir vildu kveðið hafa.
Það voru miklar aðgerðir í vændum því stórmenni á vegum Bandaríkjastórnar var að koma til landsins í tengslum við varnarsamning þeirra og Íslendinga. Í Bakarabrekkunni átti að efna til mótmæla og æfingar á leikþáttum sem þar stóð til að sýna voru í fullum gangi.
Mér var falið mikilvægt hlutverk í þessum aðgerðum. Strax og ákveðnum leikþætti sem Birna lék í og leikstýrði, var lokið, átti ég að setja plötuspilara í gang. Á spilaranum var plata þar sem kínverskur alþýðukór flutti Internationalinn að sjálfsögðu á kínversku.
Allt gekk þetta snurðulaust fyrir sig, þar til komið var fram í mitt lag. Þá sé ég hvar bæði Róska og Birna koma hlaupandi í átt til mín þar sem ég stóð keikur yfir grammófóninum með allt í botni. Á svip þeirra og látbragði mátti ráða að eitthvað væri ekki í lagi.
Róska þreif í arminn á fóninum og hvessti á mig glyrnurnar. Helvítis fíflið þitt...gastu ekki sett hana á réttan hraða....Svo komu fleiri blótsyrði sem ég ætla ekki að hafa eftir hér. Mér varð nú ljóst hvar mér hafði orðið á.
Ég talaði vitaskuld ekki kínversku þá, frekar enn í dag og í eyrum mínum hljómaði lagið ósköp áþekkt eða jafnvel eins á 78 snúnings hraða og það gerði á 45 snúnings hraða. Platan var sem sagt gerð fyrir 45 en ég hafði fóninn stilltan á 78.
Ég segi það enn, að Róska hefði bara átt að leyfa laginu að spila út. Það hefði enginn fattað mistökin ef hún hefði bara verið róleg. Kínverskur alþýðukór að syngja á kínversku internationalinn eða "Njallann" eins og við kölluðum hann, hljómar eiginlega bara betur á 78 snúningum en 45. Takturinn er hraðari og kínverskan hljómar bara kínverskari ef eitthvað er.
Eftirmálar þessa atviks urðu þeir að ég var "rekinn" úr Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins næsta dag og hætti að taka rútuna frá Keflavík til Reykjavíkur í tíma og ótíma til að mæta á einhverja fundi.
Ég vona að ykkur lesendum góðum sé sama þótt ég laumi að, af og til, þessum smásögum úr eigin ranni. Þessi minningabrot koma svona eitt og eitt upp í hugann af og til við leitina að góðu bloggefni.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Menning og listir, Spaugilegt, Tónlist | Facebook
Athugasemdir
þú ert hafsjór og ekkert annad....og hafdu þad...
Gulli litli, 31.7.2008 kl. 00:13
Ég hefði nú bara fagnað því að vera rekinn úr svona félagsskap sem er bara gott mál. Skemmtileg grein.
Skattborgari, 31.7.2008 kl. 00:22
Skemmtileg lesning Svanur
Ég var líka á Núpi í dýrafirði.. 78 og 9 minnir mig.. var ekkert farinn að spá í pólitík þá.. gerðist pólitískur seinna meir en.. er ópólitískur í dag að mestu...
Óskar Þorkelsson, 31.7.2008 kl. 00:32
HA ha hahaha....Svanur þú ert óborganlegur
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 31.7.2008 kl. 00:59
Svanur. Þér er svo sannarlega fyrirgefið það að koma með persónulegar sögur á milli þess sem þú dælir í okkur annarri visku.
Bestu kveðjur frá Eyjum.
Aðalsteinn Baldursson, 31.7.2008 kl. 02:35
Helvítis töggur í Rósku og Birnu.
Var sjálf í Alþýðubandalaginu þar til það gaf upp öndina.
Hm....
Jenný Anna Baldursdóttir, 31.7.2008 kl. 08:35
Skemmtilegt minningarbrot
Sigrún Jónsdóttir, 31.7.2008 kl. 09:02
Þér er fyrirgefið og rúmlega það, skemmtilegur lestur
kveðja
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 09:47
Gaman að þessum pistlum hjá þér. Er von á "pistlabók"? Hefur greinilega efni í fínt rit.
En "sniðugt" að hafa verið rekinn fyrir það eitt að stilla grammófón á vitlausan hraða.
Snorri Bergz, 31.7.2008 kl. 10:18
Gulli, Hippó, Skatti og Hrafnhildur, Guðlaug og Guðbjörg; Þakka ykkur öllum góðar og uppörvandi athugasemdir.
Jenný, einhvern veginn grunaði mig það :)
Ekki er nú neitt svoleiðis beint í smíðum Snorri. Þetta mjatlast hér niður og er þá allavega til annarsstaðar en bara í hausnum á mér. En ég er þakklátur fyrir að einhverjir hafa gaman að því að lesa þetta.
Sigrún og Óskar; Það ýmiss að minnast, ekki hvað síst frá Núpi Þar sem bæði Arngrímur Jónsson og Bjarni Pálsson "stjórar" koma við sögu. Eða þá Eyjar Aðalsteinn, það væri nú til að æra óstöðugan að rifja upp allt sem þar kom upp á .
Svanur Gísli Þorkelsson, 31.7.2008 kl. 11:07
Mjög skemmtileg saga minni að þú hafir sagt mér hana áður. Samt gaman að lesa hana hér.
Heinvern vegin sé ég þetta alveg fyrir mér. En ljótt fannst mér að reka þig úr félaginu.
Ingó (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 11:28
Sæll Ingó. Nú er ég á fullu að reyna að átta mig á hvaða Ingó þú ert :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 31.7.2008 kl. 11:39
Hefði ekkert á móti að heyra aðeins af minningum þínum frá Núpi Svanur minn, ég hef orðið vör við það að minningarnar þaðan eru ekki eins, þótt fólk hafi verið þar samtíða.
Sigrún Jónsdóttir, 31.7.2008 kl. 11:42
gaman að þessu
Hólmdís Hjartardóttir, 31.7.2008 kl. 11:43
Sparkaði Birna ekki í sköfnlunginn á þér?
Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 22:44
HE HE, Nei, en ég er viss um að ef hún hefði reynt hefði það ekki verið við sköflunginn......
Svanur Gísli Þorkelsson, 31.7.2008 kl. 23:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.