24.7.2008 | 07:07
Tillögur til umbóta fyrir Alþingi og úrelt flokkakerfi landsmanna
Oft hef ég velt fyrir mér gagnsleysi flokkapólitíkur og þessari endalausu vitleysu sem skapast af því að stjórnmálflokkar skiptast á um að vera með eða á móti hvor öðrum, eftir því hverjum tekst að komast í stjórn og hverjum ekki. Stjórn og stjórnarandstaða er ríkjandi stjórnarform í flestum lýðræðislöndum heims og mér finnast slíkir stjórnarhættir vera úreltir og sóun á kröftum þeirra sem vilja vinna samfélaginu heilt en eru hindraðir í því vegna flokkadrátta og pólitísks rígs.
Það væri miklu heilladrýgra fyrir samfélagið að taka upp almennt samráð. Því miður hefur orðið samráð fengið á sig nokkuð slæma merkingu upp á síðkastið hér á landi og er einkum notað um ólöglegt athæfi olíufélaga og gírugra verðbréfabraskara. Það samráð sem ég á við er ákveðin leið eða aðferð til að meðhöndla mál, ná niðurstöðu um þau og sátt um framkvæmd þeirra.
Ef að til dæmis að einstaklingar væru kosnir til þings hér á landi, frekar en flokkar, mundu þingmenn geta tileinkað sér þessa aðferð sem ég er viss um að yrði samfélaginu til mikilla bóta. Þess má geta að hægt er að nota þessar meginreglur samráðs á öllum sviðum þjóðfélagsins, í hjónaböndum og fjölskyldum, félögum og félagasamböndum hverskonar. Allstaðar þar sem tvær eða fleiri skoðanir kunna að koma fram. Kjarninn í samráði er að stuðla að samkomulagi á þann hátt að sameina sjónarmið í stað þess að láta þau valda sundrungu. Það hvetur til ólíkra skoðana, en vinnur gegn valdabrölti sem er svo algengt í þeim kerfum sem annast ákvarðanatöku og við þekkjum best. Reyndar má líta svo á að þar sem skoðununum lýstur saman myndast oft neisti sannleikans. Grundvallarmarkmið samráðs er einmitt að finna sannleikan, í stað stöðugra málmiðlanna eða hrossakaupa.
Hér kemur samráðsleiðin brotin niður í fjóra megin punkta;
- Upplýsingum skal safna eins víða og framast er unnt og leita eftir ólíkum sjónarmiðum. Þetta getur falið í sér að leita álits sérfræðinga - svo sem lögfræðinga, lækna eða vísindamanna. En líka getur þetta þýtt að leitað sé upplýsinga utan hefðbundinna sérgreina, eða að reynt sé að gaumgæfa skoðanir einstaklinga í samfélaginu sem eiga sér ólíkan bakgrunn. Mikilvægt er að málsaðilar samþykki að allar fáanlegar upplýsingar liggi fyrir áður en lengra er haldið.
- Meðan á umræðum stendur, verða þátttakendur að leitast við að vera eins opinskáir og hreinskilnir og mögulegt er, en sýna samtímis fullan áhuga á skoðunum annarra. Persónulegar árásir, úrslitakostir eða fordómafullar staðhæfingar skal forðast.
- Þegar hugmynd er fram komin,verður hún með það sama eign hópsins. Þó að þessi staðhæfing virðist einföld, þá er þetta þó ef til vill djúptækasta regla samráðs, því að með þessari reglu hætta allar hugmyndir að vera eign einstaklings, hóps eða stuðningsflokks. Þegar þessari reglu er fylgt, eru þær hugmyndir, sem fram koma, af einlægri löngun til að þjóna í mótsögn við hugmyndir sem fram eru bornar af persónulegri metorðagirnd eða flokkadráttum.
- Hópurinn leitar eftir samhljóða samþykki, en hægt er að taka meiri hluta ákvörðun til þess að fá fram niðurstöðu og taka ákvörðun. Mikilvægt viðhorf til þessarar grunnreglu er sá skilningur að þegar ákvörðun hefur verið tekin, þá er öllum í hópnum skylt að standa í einingu um þá ákvörðun - án tillits til hverjir studdu hana.
Í þessum skilningi getur ekki verið um að ræða neitt minnihluta álit eða viðhorf andstöðunnar. Ef ákvörðun er röng kemur það í ljós í framkvæmdinni - en þó því aðeins að hópurinn, sem ákvörðunina tók, og reyndar samfélagið í heild, standi heilshugar að baki henni.
Fylgið við eininguna tryggir að ef ákvörðun eða áætlun gengur ekki upp, þá er vandinn fólginn í hugmyndinni sjálfri,en ekki í skorti á stuðningi frá samfélaginu eða þrákelnislegu andófi andstæðinga.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Menntun og skóli, Viðskipti og fjármál, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 07:22 | Facebook
Athugasemdir
Ég sé að þú ert gegnheill lýðræðissinni - og bjartsýnn á mannkynið.
Vissulega hefur orðið þróun til hins betra á mörgum sviðum, en græðgin kemur snemma til leiks og þá verður erfitt að koma þínu kerfi í gagnið.
Ég hef staðið í félagsmálastappi og reynt að starfa á lýðræðislegum grunni. En það eru ekki allir með það á hreinu hvað lýðtæði er í rauninni. Þetta setti ég saman til einföldunar fyrir þá sem ekki virtust hafa þetta á hreinu.
Hvað er lýðræði?
Lýðræði er annarsvegar tiltekin stjórnskipan, hinsvegar er lýðræði aðferð eða tæki til að taka bindandi ákvörðun.
Hverjar eru leikreglur lýðræðislegra ákvörðunar – kjarna lýðræðisins?
Rætt er um fjögur skilyrði lýðræðilegs ferlis, þ.e. lýðræðislegra ákvörðunar:
1) Bindandi ákvarðanir skulu einungis teknar af þeim sem eiga hagsmuna að gæta.
2) Allir sem málið varðar skulu hafa sömu tækifæri til að leggja sínar skoðanir á vogaskálarnar, bæði skoðanir um hvaða kosti valið eigi að standa um og hvers vegna skuli velja einn kost frekar en annan.
3) Allir þeir sem málið varðar skulu hafa jöfn tækifæri til að meta þá kosti sem kosið er um með tilliti til eigin hagsmuna og verðmætamats.
4) Á lokastigi skal vægi atkvæða vera jafnt.
Hjálmtýr V Heiðdal, 24.7.2008 kl. 08:32
Lýðræðið er stjórntæki sem er notað hérna á Íslandi til að gefa fólkinu í landinu tækifæri til að velja sér einstaklinga sem þeir treysta.
En þannig er mál með vexti að almeningur er ekki í neinum tengslum við þessa einstaklninga, allavega finn ég ekki fyrir þessum tengslum.
Oft hef ég á tilfiningunni að þeir sem eru kosnir á þing hafi ekki áhuga á því sem þjóðin vill. Margir af þessum einstaklingum eru þarna til þess að þjóna sínum eigin hagsmunum og valdabrölti.
Ingó (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 10:51
Ég myndi gjarnan vilja kjósa einstaklinga en ekki flokka til þings.
Sigrún Jónsdóttir, 24.7.2008 kl. 11:47
Mér finnst að í það minnsta ættu bæjar- og sveitastjórnarkosningar eingöngu að snúast um einstaklinga en ekki flokka. Það er nú einu sinni svo að í öllum þessum flokkum má finna einstaklinga sem að maður telur sig geta treyst og einnig einstaklinga sem manni finnst vera bölvaðir bjálfar og ættu ekki að koma nálægt pólitík.
Aðalsteinn Baldursson, 24.7.2008 kl. 13:53
Þó vissulega séu hugmyndir þínar um víðtæka umræðu og ákvarðanir í samfélaginu um mikilvæg mál þá vara ég stórlega við þeirri hugmynd að "kjósa einstaklinga, ekki flokka". Slíkt er stórhættulegt. Í raun er verið að taka þar upp "bandarískt" kerfi, þar sem einungis auðmenn eða þeir sem selja sig stórfyrirtækjum hafa efni á því að fara í framboð. Þegar þú kýst flokk þá veist þú að hverju þú ert að ganga. Þú kýst þá sem fara næst þínum lífskoðunum. Þegar þú kýst einstaklinga þá hefur þú litla hugmynd um hvað þeir muni gera. Eru þeir búnir að selja sig hagsmunaaðilum? Hvernig ríkisstjórn munu þeir styðja? Flokkakerfið er einfaldlega einn helsti hornsteinn lýðræðisins, þar safnast saman fólk með svipaðar lífsskoðanir og ég get þá kosið þá sem samrýmast mínum best.
Guðmundur Auðunsson, 24.7.2008 kl. 14:05
Tek undir hvert orð Svanur, hef notað samráð í 25 ár með góðum árangri...
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 24.7.2008 kl. 14:31
Hjálmtýr; Mér sýnist við vera á sömu línu hvað skilgreininguna á lýðræðinu varðar. Alla vega get ég tekið undir alla fjóra liðina sem þú tilgreinir.
Sæll Guðmundur.
Allar þær hættur sem þú segir einstaklingsframboð hafa í för með sér eru hættur sem flokkakerfið, í Bretlandi, á Íslandi og í USA er þegar ofurselt. Í USA er flokkakerfi, þótt sjálfstæð framboð þekkist þar líka. Þess vegna átta ég mig ekki á rökum þínum um að við værum að taka upp bandarískt kerfi.
Í Bretlandi ganga menn kaupum og sölum innan flokkskerfissins og hrossakaupin eru slík að Brown karlinn kemur ekki neinu sem máli skiptir í gegn um sinn eigin flokk án þess að veita fyrirgreiðslu vinstri hægri. Flokksbatteríin eru ekkert smáræði og þurfa mikla peninga til að kosta áróður sinn og heilaþvott fyrir hverjar kosningar í havaða landi sem er. Í Bretalandi selja þeir nafnbætur, í Bandaríkjunum eru þeir undir hælunum á Olíufélögunum og heima á Íslandi hefur sá flokkur sem mest auðmagnið hefur á bak við sig, stjórnað lengst. Mér finnast rök þín gegn einstaklingskosningum ekki halda vatni Guðmundur.
Þú kallar flokkakerfið helsta hornstein lýðræðisins. Ef svo er, þarf að skipta honum út sem fyrst. Það þarf talsvert umstang til að skipta um hornstein, en ef húsið er að fara á hliðina hvort sem er, borgar það sig.
Fólk um allan heim er orðið hundleitt á þessu gamaldags og storknaða flokksræði sem haft hefur skelfilegar afleiðingar heiminn á síðastliðinni öld og við erum enn ekki búin að bíta úr nálinni með. Allir einræðisherrarnir komust til valda í krafti löglegra stjórnmálaflokka þar sem fólk var beygt til að fylgja flokkinum sínum og reglum hans.
Ef þú kýst einstakling þá kýstu þann sem þú þekkir og treystir, svo einfalt er það. Það er ofureinfalt að setja lög sem takmarka það fé sem má eyða í kosningabaráttu. Skilvirkara lýðræði eru verðlaunin og gegnsærri og heiðarlegri stjórnmál mundu verða afleiðingin af einstaklingskjöri.
Svanur Gísli Þorkelsson, 24.7.2008 kl. 16:00
Ég held að maðurinn sé bara of mikið hjarðdýr til að lýðræði virki nokkurntíma. Það eru alltaf sterkustu karakterarnir sem ráða, alveg þar til kemur einhver ríkari og kaupir valdið af honum. Ég held þessvegna að farsælasta leiðin sé sú að sem flestar raddir fái að heyrast og takast á og að miðstýring og leiðtogakerfi sé ekki bundið í kerfið. Flestir eru nógu miklir sökkerar fyrir yfrivaldi fyrir, þótt þeir þurfi ekki líka að klappa með jábræðrum sínum í hvert sinn sem goðið prumpar af því að þeir eru skráðir í flokk.
Ég bind reyndar vonir við internetið í þessu sambandi. Umræða fer nú þegar fram á netinu og því ekki alveg eins þjóðaratkvæðagreiðsla um sem flest mál? Wikipedía virkar. Ég hefði ekki trúað því að óreyndu. Því ekki alveg eins internetlýðræði eins og óritstýrð alfræðiorðabók?
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 16:19
Mér finnst ég skynja að Guðmundur er flokksbundinn maður og ánægður með sinn flokk.
Ef stefnuskrár flokkanna eru stúderaðar er svo sannarlega hægt að finna "samhljóm" með öllum flokkum á Íslandi og samhljóm við alla flokkana af hálfu kjósenda. En þessar "stefnur" falla í gleymsku á milli kosninga ef flokkurinn nær að komast í "meirihluta" stjórnar, hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélagi.
Einstaklingar, sem þarf að standa skil á eigin stefnu og lífsýn er berskjaldaður og getur ekki skýlt sér á bak við "endurskoðaðar" flokkssamþykktir, heldur þurfa þeir að standa og falla með eigin efndum.
Sigrún Jónsdóttir, 24.7.2008 kl. 16:22
Svona Svanur, vertu nú ekki að boða neinn anarkisma. Konur með börn í fanginu eru allt of veikar fyrir slíkri útópíu.
Þó þingbundið lýðræði sé gallað, þá er það skásta stjórnskipulag sem hentar okkur mönnunum þessa öld og kannski næstu aldir.
Samráð eins og rætt er um hér, er að fullu í framkvæmd í sumum ráuneytum eða á stigi framkvæmdavaldsins.
Samráð gengur ekki alltaf á stigi löggjafarvaldsins og allra síst á stigi dómsvaldsins.
Sigurður Rósant, 24.7.2008 kl. 17:56
Í dag er ekki lýðræði á Íslandi. Lýðurinn ræður engu.
Kerfið er þannig að almeningur fær að kjósa á fjögra ára fresti til þess eins að friða almenning. Kerfið er svo njörvað niður að nýjar hugmyndir fá ekki að komast að. Það er einnig vegna fordóma fólksins þar sem að má ekki hreyfa við núverandi valdakerfi. Þeir sem ráða óttast einnig að breytingar verið gerðar á kerfinu því það myndi aðeins þýða atvinnuleysi fyrir þá og almenningur fengi til tilbreytingar að ákveða hvernig væri best að stjórna landinu.
Kveðja Ingó
Ingó (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 11:16
Já, Eva og Ingó. Þið eruð ung og óþolinmóð. Þannig erum við flest fyrstu 40 árin eða svo. Tíminn er lengi að liða og bið eftir breytingum oft óþolandi.
Svo eldast menn. Þá vilja þeir hægja á þessum hraðfara breytingum. Allar breytingar verða pirrandi og koma gamlingjum úr jafnvægi.
20% Dana vilja losna við ákvæði um hámarkshraða ökutækja á þjóðvegum landsins. Er nóg að svona skoðanakönnun leiði vilja fólksins í ljós eða á að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í hvert sinn sem svona tillaga kemur fram?
Hugsið ykkur ef lýðræðið yrði svo fljótt að virka að allar hraðahindranir hyrfu á einni nóttu. Hversu hraðvirkt á lýðræðið að vera?
Sigurður Rósant, 26.7.2008 kl. 19:29
Sigurður Rósant; Ég er ekkert viss um að ef flokkarnir mundu hverfa mundi anarkismi koma í staðinn???
Ég er heldur ekki viss um að lýðræðið mundi bera neinn skaða af því.
Ég er viss um að það gerist ekki á einni nóttu og sjálfsagt ekki fyrr en eftir okkar dag. En eins og BIKO sagði forðum, það er ekkert eins sterkt og hugmynd hvers tími er komin.
Svanur Gísli Þorkelsson, 26.7.2008 kl. 22:56
ég er þeirrar skoðunar að hvort heldur þingmenn eru kosnir beint eða flokkar skipti minnstu máli. hvort um sig hefur kosti og galla.
mér þykir lýðræðishallinn koma mun sterkar fram á annan hátt. skilin milli löggjafavaldsins og framkvæmdavaldsins eru lítil sem engin. flokkar draga sig saman um samstarf í skjóli þingmeirihluta. þingmenn þessara flokka taka síðan sæti í ríkisstjórn og eru á sama tíma starfandi sem þingmenn löggjafasamkundunnar. þannig verður löggjavasamkundan einfaldlega afgreiðsluapparat fyrir framkvæmdavaldið.
þetta þarf að skilja að. eðlilegra væri að þingið réði utanaðkomandi fólk til starfa til framkvæmdavaldsins. sama fyrirkomulag og viðhefst í hlutafélögum, þar sem stjórnin (þingið) er kosin af hluthöfum (kjósendum). stjórnin kýs síðan framkvæmdastjóra, fjármálastjóra og svo framvegis (ríkisstjórn).
það er fáránlegt að ráðherra geti sest í annan stól eftir hádegið til að setja sjálfum sér leikreglur.
Brjánn Guðjónsson, 28.7.2008 kl. 03:04
Þessu er ég algjörlega sammála Brjánn. Takk fyrir góða athugasemd.
Svanur Gísli Þorkelsson, 28.7.2008 kl. 07:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.