12.7.2008 | 01:09
Ólafsvíkur-Kalli og ástin
Fyrir margt löngu dvaldist ég í nokkra mánuði á Neskaupstað. Ég fékk vinnu í SÚN og var svo "heppinn" að fá pláss í aðgerðar-genginu eins og það var kallað. Aðgerðar-gengið var saman sett (fyrir utan mig) af almestu harðjöxlum sem ég hef nokkru sinni fyrir hitt á ævinni. Þeir gátu staðið við og slægt fisk í 12-16 tíma hvern dag og aðeins nærst þann tíma á svörtu kaffi og matarkexi sem þeir skelltu í sig í reykpásunum.
Ég var á hrakólum með húsnæði og einn úr gengnu bauð mér að leigja með sér herbergi ekki langt frá skemmunum þar sem gert var að. Ég þáði það og þannig atvikaðist að ég gerðist herbergisfélagi Karls Guðmundssonar eða Ólfasvíkur-Kalla eins og hann var oft kallaður. Karl var án efa einn þekktasti slarkari sem Ísland hefur af sér alið og um svaðilfarir hans er að nokkru fjallað í bók Jónasar Árnasonar um Kristófer kadet í hernum "Syndin er lævís og lipur".
Nú vildi þannig til að ég hafði lesið bókina en samt kom ég Karli ekki fyrir mig til að byrja með og þekkti ekki manninn sem hafði blásið lífið í hálfdrukknaða völsku-rottu eftir að hafa bjargað henni úr ísilagðri höfninni í Helsingi í Finnlandi eða bjargað lífi arabísks auðkýfings og þegið að launum fulla höll af Gini. Okkur kom ágætlega saman mér og Kalla, ekki hvað síst eftir að hann frétti að að faðir minn væri líka Ólsari. Karl sem var að rembast við að vera edrú þótt hann væri afar illa haldinn af langvarandi Alkóhólisma, sá um matargerðina. en ég um þvotta og þrif. Hann eldaði slatta af sveskjugraut og plokkfiski sem síðan var haft í alla mata á meðan entist. Þegar þraut, eldaði Kalli nýjan skammt. Þetta gekk í nær þrjá mánuði, allt haustið 1971 og fram á aðventuna.
Um miðjan Desember kom ónefnd fleyta úr siglingu frá Bretlandi hlaðin varningi. Brátt flaut allt í víni og bjór og aðgerðargengið leystist upp. Kalli sem hafði þá verið þurr í fjóra mánuði kolféll og varð fljótt svo veikur að hann gat ekki staðið í fæturna. Hann lagðist því í fleti sitt og drakk þar. Ég hjálpaði honum af og til á salernið og bar honum mat en þess á milli var hann oftast í einskonar deleríum móki. Við hliðina á rúmi hans var kassi af Vodka sem hratt gekk á. Stundum um nætur vaknað Karl upp og vildi þá ræða trúmál og heimsspeki. Hann var ágætlega lesinn en hafði komið sér upp heimatilbúnum frösum um öll mál sem hann mælti fram og þá voru málin afgreidd að hann hálfu.
Eina nóttina lá ég í rúmi mínu og las. Allt í einu reis Karl upp við dogg og sagði fyrirvaralaust og ákveðið;" Ástin er skítalykt". Ég var aðeins sautján ára og ekki í stöðu til að andmæla þessari speki mikið. "heldurðu það" svaraði ég en hugsaði jafnframt með mér að líklega hefði Kalli farið illa út úr samskiptum sínum við konur um ævina. "Nei ég veit það," hélt Kalli áfram. "Það er ekki fyrr en þú þolir skítalyktina af konu að þú getur sagt að þú elskir hana." bætti hann svo við og teygði sig eftir flösku, tók af henni gúlsopa, lagðist svo niður aftur og var brátt farinn að hrjóta. Hann skildi mig eftir með þessa lífsspeki sem hefur verið að pirra mig síðan.
Meginflokkur: Spaugilegt | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:11 | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg færsla! Lít á Neskaupstað eftir nokkra daga og skoða harðjaxlana á staðnum, ef þeir eru þá ekki löngu útdauðir eins og allt annað sem er séríslenskt!
Kreppumaður, 12.7.2008 kl. 01:30
Er að uppgötva bloggsíðuna þína, mikið um skemmtileg skrif, takk fyrir það! Gaman að lesa þessa frásögn frá Neskaupstað.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 12.7.2008 kl. 09:22
Flott færsla..
Gulli litli, 12.7.2008 kl. 10:29
Kreppumaður; Bið að heylsa á Norðfjörð.
Guðný Anna; Takk sömuleiðis og vertu velkomin.
Gulli; Takk líka :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.7.2008 kl. 11:12
Minnir mig á garpa tvo sem um tíma höfðu verið vaktmenn á hjúkrunarheimili og voru að skeggræða um lífið og tilveruna og þá lífsspeki sem þeir höfðu tileinkað sér á hjúkrunarheimilinu. Man þetta nú ekki allt en margt af því var áhugavert og sérstakt, m.a. það að maður ræki ekki við af tilfinningu nema fyrir bestu vini sína.
Sigurður Hreiðar, 12.7.2008 kl. 11:24
Sigurður Hreiðar; Það er nú málið að stundum erum við þeim verst sem við unum mest :)
Kjarri; Þakka þér. Ég hef oft velt þessu fyrir mér líka, hvort fólk sem fer verst út úr drykkju sé okkar hæfileikaríkasta og um leið viðkvæmasta fólk.
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.7.2008 kl. 16:18
Var það ekki Ólafsvíkur-Kalli sem Jón kadet sagði að hefði bjargað rottunni með blástursaðferð í Grikklandi?
Einar Þór Strand, 12.7.2008 kl. 17:52
Fín saga sem kemur sellunum í gang. Takk
Marta Gunnarsdóttir, 12.7.2008 kl. 17:55
Einar; Man ekki hvað Jón sagði, en Sjálfur sagði Kalli að það hefði verið í Helsingi eins og kemur fram í frásögn minni :)
Marta; Sömuleiðis :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.7.2008 kl. 18:02
Svanur, takk fyrir skemmtilega lesningu.
egvania, 12.7.2008 kl. 19:25
Hæ Svanur! Mikið var ég glöð að rekast á bloggið þitt, langt síðan við höfum heyrst og sést...ég er komin aftur á Selfoss g er að öllum líkindum að fara að vinna á Suðurland FM 96.3 enda sjaldan liðið betur í nokkru starfi en í þáttagerð á útvarpinu þínu i denn! Vona að þú hafir það sem best;o)
Guðrún Halla (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 21:09
Takk fyrir innlitið Ásgerður.
Sæl Guðrún Halla. Já sannarlega langt síðan. Those were the days.....Sendu mér email við tækifæri ef þú mátt vera að :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.7.2008 kl. 21:55
Annars held ég að ég sé að verða eins og Ólafsvíkur-Kalli, nema ekki jafn drykkfeldur, en með hausinn fullann af heimskulegri speki, sérstaklega í sambandi við konur!
Kreppumaður, 12.7.2008 kl. 22:49
Sæll. Ég var að rekast á síðuna þína og finnst mér hún afar áhugaverð . Ég hef heyrt nokkuð rætt um Ólafsvíkur-Kalla en hann mun hafa verið náskyldur manni sem ég þekkti náið í nokkur ár. Einhvernvegin finnst mér eins og Kalli hafi aldrei kynnst ástinni eins og hún getur verið best samanber ummæli hans um að umbera daunilla konu. Held að það sem sagt er um alka og gæði þeirra sé ótrúlega ótrúlegt og eigi allt aðrar skýringar. Hætti mér ekki út í þá umræðu hér en takk fyrir frábærlega skemmtilegan pistil. ps. held að hausinn á Kalla hafi frekar verið tómur en ekki fullur af speki sbr. síðasta innlegg kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 13.7.2008 kl. 20:29
Sæl Kolbrún og þakka þér innlitið og hlý orð.
Það sem sagt er um alka hér er mest lítið og ekki verið að alhæfa neitt, alla vega ekki af minni hálfu.
Ég hef verið í sambandi við dótturson Kalla (eða öllu heldur hann við mig) og hann sendi mér mynd af honum sem ég ætla að nota í næstu færslu um karlinn.
Ég hvet þig til að leggja orð í belg og halda ekki aftur af þér :)
kv,
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.7.2008 kl. 20:47
Takk fyrir það Svarnur. Ég er reyndar vönust því :) kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 13.7.2008 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.