21.6.2008 | 15:08
Flökkusögur, kannt þú eina slíka eða fleiri?
Allir kannast núorðið við flökkusögur sem er þýðing á orðunum "urban legends". Þær eru svo margar og mismunandi en hafa samt allar eitt sameiginlegt, þær eru tilbúningur. Í grein sem ég rakst um flökkusögur á Múrnum er þeim lýst svona;
"Líklega er það einmitt fjöldi þessara frásagna sem gerir það að verkum að þær rata svo sjaldan í fréttatíma. Jafnvel trúgjarnasti sumarstarfsmaður getur borið kennsl á þær sem flökkusögur ýktar eða upplognar frásagnir sem skjóta aftur og aftur upp kollinum. Og þótt fréttamönnum finnist gaman að segja krassandi sögur þá vilja þeir fæstir fara með algjört fleipur, þrátt fyrir allt."
Allt frá unglingsárum safnaði ég slíkum sögum og hafði gaman af að bera mismunandi útgáfur af sömu sögunni saman. Þegar að Aðalstöðin sáluga var upp á sitt besta, bauð Helgi Pé Ríó maður mér eitt sinn að koma til sín í síðdegisþátt sinn til að spjalla um fyrirbærið og fá fólk til að hringja inn og segja flökkusögur, sér í lagi íslenskar.
Undirtektirnar voru slíkar að þessi eini þáttur varð að þremur. Nokkrum árum seinna var gefin út bók um flökkusögur sem byggði á rannsókn sem gerðar voru fyrir BA ritgerð og mig minnir að hafi heitið Kötturinn í örbylgjuofninum. Þegar ég sá í bókinni saman komnar margar af þeim sögum sem ég átti í fórum mínum, dvínaði söfnunargleðin dálítið. Málið var afgreitt að mér fannst þá. En það er víst eðli flökkusagna að stöðugt verða nýjar til og þær gömlu breytast í meðförum.
Ekki alls fyrir löngu heyrði ég nýja útgáfu af kattarsögunni og það vakti áhuga minn að nýju. hef því ákveðið að sjá hvort ekki er að finna nýjar sögur manna á meðal og nota til þess þetta blogg.
Mig langar til að skora á alla sem hafa heyrt nýlegar (eða gamlar í nýjum búningi) að deila þeim hér og nú með mér og þeim sem þetta blogg kunna að lesa.
Útgáfan af kattarsögunni sem ég heyrði síðast er eitthvað á þessa leið; Sagt er að gömul kona hafi vanið sig á að þurrka köttinn sinn í bakaraofninn sínum eftir að hún hafi baðað hann. Sonur hennar gaf henni örbylgjuofn á níunda áratugnum sem hún reyndi að nota til sama brúks og bakaraofninn. Hún á svo að hafa farið í mál við framleiðandann og unnið því að ekki stóð ,,setjið ekki kött í örbylgjuofninn á umbúðunum.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkar: Menning og listir, Spaugilegt, Vinir og fjölskylda | Breytt 22.6.2008 kl. 15:21 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er afar spennandi og skemmtilegt. Svona flökkusögur eru stórskemmtilegt fyrirbæri. Í gamla daga voru það álfa og draugasögur en með nútímanum komu örbylgjuofnasögurnar..
Gulli litli, 21.6.2008 kl. 16:09
Það var maður í usa sem keypti sér nýjan húsbíl fór svo á hraðbrautina. Hann var búinn að keyra aðeins og langaði í kaffi þannig að hann setti cruise kontrolið á. Fór svo aftur í bílinn að hita kaffi bílinn fór auðvitað útaf á meðan. Hann fór í mál við framleiðadan og fékk nýjan húsbíl og miljón dólara af því að það stóð ekki í handbókinni að það mætti ekki fara úr bílstjórasætinu á ferð.
Skattborgari, 21.6.2008 kl. 16:21
Æi ég heyrði eina þræl góða um daginn, en gleymdi henni um leið. Það er svona með mig, man ekkert stundinni lengur, ekki bestu brandarana, ekki bestu flökkusöguna. Damn að ég muni ekki þessa mögnuðu sem ég heyrði um daginn.
En hér kemur ein frá áttunda áratugnum, þegar allir voru með jukkur á heimilinum til skrauts. Í einni heyrðist hviss og og konan fór að athuga með jurtina en þá var búsett á kvikindinu risastór tarantúla.
Þetta varð til þess að engar jukkur voru keyptar á mitt heimili.
Flökkusagan getur nefnilega verið öflug Svanur minn. Hehe.
Jenný Anna Baldursdóttir, 21.6.2008 kl. 16:45
Skatti; Einmitt svona sögur sem eru með sama þema en breyttum atburðum eru svo áhugaverðar.
Jenný; Er ekki jukku-sagan mildari útgáfa af sögunni um bóluna á enni stelpunnar sem hún fékk í sumarfríinu. Svo sprakk bólan þegar hún kom heim og fullt af litlum köngulóm hlupu niður andlit hennar....
Gulli; þú verður að senda mér sögu ef þú rekst á einhverja :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 21.6.2008 kl. 23:18
Já Guðlaug, þetta er ekta flökkusaga. Stóra rottan í barnavagninum eða klósettinu. Takk fyrir þetta
Svanur Gísli Þorkelsson, 22.6.2008 kl. 00:37
Sæll Svanur, hef heyrt kóngulóarsöguna þannig að það var kona sem fór á sólarströnd og dvaldi þar um tíma. Tek fram að þetta átti að vera Sænsk kona, þegar heim kom fór hún á hárgreiðslustofu í lagningu. þetta var á þeim tíma þegar hár var túberað og notaðar greiður úr stáli með pinnaskafti. Hárgreiðslukonan rekur haldið á greiðunni í bólguhnút á enni konunnar og út skríða urmull af kóngulóarbörnum.
Síðan var sagan um fólkið í Reykjavík sem var að fara til útlanda og var að fara í flug. Konan sem átti að gæta barnsins var of sein og þannig að þau skildu það eftir í hopprólu því konan var á leiðinni. Konan átti að hafa lent í bílslysi og dáið og þegar fólkið kom heim fundu þau barnið látið í rólunni. Leið hræðilega illa yfir þessari sögu. Las hana seinna í norskri bók og þá átti þetta að hafa gerst í Noregi. Síðar kom í ljós að þetta er flökkusaga og lifir enn.
Man ekki í bili söguna sem dóttir mín sagði mér um daginn en þar var á ferðinni flökkusaga komin í nýjan búning.
kveðja
Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir, 22.6.2008 kl. 01:07
Rottan í vesturbænum . . .
í þeim bæjarhluta gamla Seltjarnarneshrepps (nú Rvík) bjuggum við hjón í kjallaraholu þegar frumburður okkar fæddist. Létum hann sofa í vagni í brunninum utan um kjallaratröppurnar. Dag einn er ég var einn heima heyrði ég eitthvert skraml utan dyra og leit út. Úti í horni framan við dyrnar og neðan við sjálfar tröppurnar var stór, ferköntuð niðurfallsrist -- og nú lék hún öll á reiðiskjálfi, iðaði og lyftist. Þegar ég gætti betur að var rotta að reyna að lyfta henni upp og komast upp!
Ég varð mér úti um eitthvert farg og lagði ofan á ristina, sótti síðan vatnsfötu og hellti yfir kvikindið sem við það stakk sér ofan í rörið og hvarf. Og ég man ekki betur en við höfum áfram leyft barninu að sofa úti í góða loftinu (í Reykjavík!) en alltaf eftir þetta haft farg ofan á ristinni.
Svo rottur í vesturbænum -- á svefnstað ungbarna -- eru ekki bara flökkusaga!
Sigurður Hreiðar, 22.6.2008 kl. 09:32
flökkusögur eru vægast sagt athyglisverðar, snilld að þú hafir safnað þeim.
halkatla, 22.6.2008 kl. 09:52
Ásta S; Takk fyrir þetta. Þetta með túberinguna og pinnaskaftið er snilld. Slysasögur geta verið svo svæsnar að maður þorir varla að segja þær.
Svanur Gísli Þorkelsson, 22.6.2008 kl. 10:36
Sigurður Hreiðar; Þakka þér kærlega. Þín saga sýnir kannski í hnotskurn hvernig flökkusögur verða til. Þær spila á ótta okkar og stundum staðfestan ótta.
Anna Karen; Takk fyrir innlitið :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 22.6.2008 kl. 10:39
Blessaður
Heyrði eina góða um daginn.
Fjölskylda frá Selfossi fór í sólarfrí til einhvers Asíu-lands. Á hótelinu var auglýst að hægt væri að kaupa sér nudd. Pabbinn og strákurinn; kominn hátt á tvítugs aldurinn ákváðu að prufa. Þeim voru boðnar nokkrar nudd aðferðir og báðir völdu "Oil-Massage". Þeir voru síða leiddir inn í sitt hvort herbergið og segir nú frá upplifun stráksins.
Fáklædd kona skipaði stráknum að afklæðast með öllu og byrjaði að rjóðra olíu á strákinn allan. Síðan byrjaði hún nuddið og endaði á að nudda helgasta staðinn svo að ekki var hægt að stoppa fyrr en ákveðnu hámarki var náð.
Strákurinn fór að svo búnu fram þar sem hann mætti sótrauðum föður sínum sem hvíslar að stráknum: "Þú nefnir þetta ekkert við hana mömmu þína."
Þessi saga á sér framhald sem er þannig:
Mamman spurði þá feðga hvernig nuddið hefði verið og feðgarnir létu þokklega vel af því. Daginn eftir segist mamman vera að hugsa um að fá sér nudd. Og strákurinn segist ætla með henni. Maman velur sér "Stone-Massage". Og strákurinn segir ákveðinn þegar hann er spurður hvernig nudd hann vilji:
Oil-Massage!!!
Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 22.6.2008 kl. 23:09
Sæll Davíð. Þrátt fyrir að sagan sé Selfissk hef ég ekki heyrt hana fyrr. Þakka þér :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 23.6.2008 kl. 01:38
Fyrir nokkru las ég viðvörun inni á dýra-spjallvef þess efnis að fólk ætti að fara í heimsókn til þeirra sem óskuðu eftir að taka að sér kettlinga - og rannsaka heimili vel. Það væri nefnilega svo algengt að kettlingarnir enduðu sem fæða ólöglegra "gælusnáka"!
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 24.6.2008 kl. 21:26
ÚÚÚÚH Tinna, þessi er góð og ný. Ekki heyrt hana fyrr. Takk kærlega
Svanur Gísli Þorkelsson, 24.6.2008 kl. 21:33
Þegar ég var krakki, á áttunda ártugnum, þá töluðu eldri krakkarnir um afar hættulega klíku sem hafðist við í Öskjuhlíðinni. Það voru svaðalegar lýsingar á klíkunni, sem ég man ekki lengur, en foringinn var víst með svipu. Ég veit ekki hversu útbreidd þessi saga var, en ég var allavegana skíthræddur þegar ég fór í Öskjuhlíðina.
Helgi Þór (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 12:45
Takk Helgi fyrir þetta. Gengjasögur eru afar kunnar og alraf gott að heyra nýjar útgáfur. Svipan er ný :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 27.6.2008 kl. 14:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.