Hryðjuverk, Olía, trúarofstæki, hver er forsagan?

 World_war_one_web_allianceÞegar við skoðum þetta kort af skiptingu Ottóman-veldisins eftir heimstyrjöldina fyrri, þegar að sigurvegararnir settust niður og hlutuðu það sundur og skiptu upp á milli sín, kemur í ljós að Ottóman-veldið hafði innan sinna landamæra auðugustu olíulindir heimsins. Olía er það sem skipt hefur mestu máli fyrir hagkerfi heimsins á 20. öldinni og gerir enn.

Einnig rennur upp fyrir manni þegar gluggað er í kortið að það hljóti að vera samhengi á milli hryðjuverka öfgamanna íslam og hernáms landa þeirra af vestrænum þjóðum.  

Samt er því ákaft neitað af foringjum núverandi hernámsherja. Af þeim er helst að skilja að fundamentalismi og stríðshyggja múslíma séu eina ástæðan fyrir því að vesturlönd séu álitnar kúgarar og herraþjóðirnar af múslímum.  Sum þessara landa eru enn að berjast fyrir sjálfstæði sínu. Sú barátta elur af sér þjóðernishyggju. Margar þjóðirnar gera ekki mun á þjóðernishyggju og ástundun Íslam. Hryðjuverk eru bein afleiðing.

Bæði Ítalía og Frakkland voru búin að taka sér bita af veldinu nokkru fyrr og nú tóku Bretar sér það sem eftir var. Hér er ekkert minnst á það sem var að gerast sunnan Sahara í Afríku. Eins og með margt annað erum við enn að bíta út nálinni með aðfarir sigurvegara fyrri heimstyrjaldarinnar gagnvart þjóðum hinna sigruðu.

(Klikkið á kortið til að sjá það í stækkaðri mynd)

ottoman_empire

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ari Björn Sigurðsson

100% sammála þér, við skulum ekki gleyma sögunni. Arabaríkin voru tekin í rassgatið í París 1919, og nú sitjum við uppi með afleiðingarnar

Ari Björn Sigurðsson, 18.6.2008 kl. 11:27

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir fróðleikinn, enn og aftur.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.6.2008 kl. 12:48

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já já, almenningi á Vesturlöndum er færð opinberlega svo einföld mynd af svæðinu þar austur... að maður skilur ekki hvernig það er eiginlega hægt.

Eg veit ekki... stundum dettur mér í hug að fólk á vesturlöndum geri sér alveg grein fyrir þessu undir niðri, meðvitað eða ómeðvitað, þe. að til að viðhalda velsæld þurfi þeir áframhaldandi aðgang að næringu (olíu)

Það er bara ekki hægt að horfast í augu við það opinberlega að valdi og yfirgangi hefur verið beitt til að áframhalda næringarstreyminu og helst auka það...og því eru kokkaðar upp allskyns tálmyndir og villjljós til að breiða yfir nístandi sannleikann.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.6.2008 kl. 13:28

4 Smámynd: Skattborgari

Sterkasti aðilinn hefur oft mest að segja og fáir þora að mótmæla honum.

Vesturlönd voru sterkari og fengu sínu fram með styrk sínum. Nú þurfum við að sætta okkur við afleiðinganar.

Áhugaverð grein eins og venjulega Svanur 

Skattborgari, 18.6.2008 kl. 20:20

5 Smámynd: Sigurður Rósant

Persar hafa aldrei þolað Vesturlönd eftir að þeim datt í hug lýðræði og málfrelsi um 500 árum fyrir Krist.

Baráttan við múslíma í dag er einungis framhald af þeirri heift sem byrjaði milli þeirra sem vilja lýðræði og málfrelsi annars vegar og þeirra sem vilja einræði og skoðanakúgun hins vegar um 500 árum fyrir Krist. Olían kom ekki til sögunnar fyrr en á síðustu öld, svo það er full mikil einföldun að þrástaglast á vægi hennar í þessu endalausa stríði.

Svo eru múslimir alveg brjálaðir út í okkur Vesturlandabúa í hvert sinn sem Ólympíuleikar nálgast. Þola ekki siðinn sem Hitler myndaði í kringum hlaupin með Ólympíueldinn, en hann minnir á sigur Grikkja yfir Persum þarna við stofnun fyrsta lýðræðis jarðarbúa á 5. öld fyrir Krist.

En hvaða olía var það á þessum tímum, Svanur sem barist var um?

Sigurður Rósant, 18.6.2008 kl. 23:09

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hvers vegna börðust Persar svona einarðlega gegn herjum múslíma Sigurður Rósant ef þeir voru svona hallir undir einræði og skoðannakúgun?

Telur þú að heimurinn og hagkerfi hans sé óbreytt frá því að Persar og Grykkir börðust um skattpeninga borgríkjanna í Þrasíu og Mekadóníu og yfirráð yfir landi og hafi, skattheimta og tollar, voru aðal aulindir og tekjulind konunganna?

Saudi Arabía er skattlaust land. Olían borgar allt. Mestu beinu og óbeinu skattar vestrænna ríkja koma af olíu og iðnaði henni tengdri eins og bíla, flug og skipaiðnaði.

Þú talar um ólympíu eldinn eins og hann og það mál skipti einhverju máli.

Svanur Gísli Þorkelsson, 19.6.2008 kl. 01:05

7 Smámynd: Sigurður Rósant

Hér sérðu hvað stjórnendum múslimaþjóða er mest þyrnir í augum. Múslimur dæmdur til dauða í Pakistan fyrir guðlast. Nýlega var Dansk-Líbýskur maður dæmdur í 12 ára fangelsi í Líbýu fyrir að boða frelsi, lýðræði og gagnrýna stjórnvöld.

Hlaup með Ólympíueldinn minnir þessar þjóðir frelsis- og skoðanakúgunar á sigur lýðræðis yfir þeim fyrir 2500 árum. Maraþonhlaupið sömuleiðis. Múslimir hafa tekið upp og blásið nýju hatri í garð lýðræðis eftir að Zaraþústratrú var hætt að virka. Olía spilar að sjálfsögðu inn í en er ekki höfuð orsökin, Svanur.

Sigurður Rósant, 19.6.2008 kl. 07:32

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sigurður Rósant. DrE gerir þetta miklu betur en þú. Hann hleypur á eftir því sem miður fer um allan heim og fólk kennir upp á trú og trúarbrögð.

Ef það er sannfæring þín að fólk miðausturlanda sé á einhvern hátt genískt verra fólk en þú þá það. Það er eina skýringin sem þú skilur eftir sem skýringu á háttalagi þeirra.

Svanur Gísli Þorkelsson, 19.6.2008 kl. 12:17

9 identicon

Langaði bara að droppa inn og benda á þetta:

http://video.google.com/videoplay?docid=-5267640865741878159&q=History+of+oil&ei=3YRaSMHnIKCCiAL9qr3bBA 

Einar Þór (IP-tala skráð) 19.6.2008 kl. 16:11

10 identicon

Svanur segir  "Ef það er sannfæring þín að fólk miðausturlanda sé á einhvern hátt genískt verra fólk en þú þá það. Það er eina skýringin sem þú skilur eftir sem skýringu á háttalagi þeirra."

Hvenig færðu það út Svanur? 

marco (IP-tala skráð) 19.6.2008 kl. 21:49

11 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

marco; Sigurður reit;

Baráttan við múslíma í dag er einungis framhald af þeirri heift sem byrjaði milli þeirra sem vilja lýðræði og málfrelsi annars vegar og þeirra sem vilja einræði og skoðanakúgun hins vegar um 500 árum fyrir Krist

Hvers vegna ættu einhverjum (Grikkjum) að vera í blóð borið að vilja lýðræði og málfrelsi á meðan aðrir (Persar) vilja einræði og skoðanakúgun? Hver er skýringin á þessu ef þetta er ekki genetískt?

Svanur Gísli Þorkelsson, 19.6.2008 kl. 23:10

12 Smámynd: Sigurður Rósant

Heldurðu að það geti verið genetískt að gera öðrum upp skoðanir, Svanur?

Sigurður Rósant, 19.6.2008 kl. 23:16

13 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Svaraðu spurningunum Sigurður í staðinn fyrir að reyna að snúa út úr:

Svanur Gísli Þorkelsson, 19.6.2008 kl. 23:54

14 Smámynd: Sigurður Rósant

Nei, Svanur. Ekki datt mér í hug að þessi hneigð væri genetísk eins og þú vilt endilega túlka mín orð.

En undanfarin ár hefur uppalendum verið innrætt svipuð dæmi og hér koma:

Sýndu barni þínu ofbeldi - og það mun iðka ofbeldi.

Sýndu barni þínu ást - og það mun sýna ást.

Kenndu barni þínu málfrelsi - og það mun virða málfrelsi.

Kenndu barni þínu skoðanakúgun - og það mun stunda skoðanakúgun.

Með öðrum orðum. Ég tel þessa tilhneigingu margra alda gamla. Okkur Vesturlandabúum hefur tekist að tileinka okkur lýðræði og málfrelsi, en eigum enn langt í land með að ná því sem stefnt er að.

Vera má að Persar og aðrar þjóðir sem aðhyllast einræði og skoðanakúgun vilji þetta líka, en fréttir þaðan benda til hins gagnstæða. Pakistanar voru að dæma mann til dauða fyrir guðlast. Líbýumenn voru að dæma Dansk-Líbýskan mann í 12 ára fangelsi fyrir að boða frelsi, lýðræði og gagnrýna stjórnvöld. 56 ára Tyrknesk söngkona Bulent Ersoy er ákærð fyrir að gagnrýna herskyldu og á yfir höfði sér 2ja ára fangelsisdóm. ESB reynir að fá Tyrki til að virða tjáningarfrelsi áður en þeir fá inngöngu.

En hver er skýringin á þessum mun á hugsanagangi? Gæti verið innræting sem er tryggð með trúarkenningum frá ríkistrú Cyrusar mikla sem stofnaði fyrsta Persaveldið 550 fyrir Krist. Síðan umbreytt til hins verra með komu Múhameðs.

Sigurður Rósant, 20.6.2008 kl. 20:44

15 identicon

Múslimum og öðrum málsvörum íslams verður tíðrætt um framlag íslams til vísindanna.  Það er staðreynd að á vissu skeiði miðaldanna varðveittist gömul þekking betur í löndum múslima og einhverri þekkingu var bætt við.  Að þakka íslam þessa hluti er argasta firra og jaðrar við kynþáttafordóma.  Þetta er svipað og að þakka kristindómi þrúnarkenninguna, gyðingdómi afstæðiskenninguna eða seifsdýrkun rit Platóns.

Á öllum tímum hefur leit manna eftir þekkingu lifað og oft á tíðum hafa þeir menn náð bestum árangri á sviði vísinda sem minnstan áhuga hafa haft á trúarbrögðum, þó vissulega séu til mörg dæmi um annað.

Fullkomin hnignun á sviði tækni og vísinda í löndum íslams margar aldir aftur frá okkar tímum hefur tvær meginorsakir.  Innrásir Mongóla og ÍSLAM.  Þessi hnignun leiddi aftur til veiklunar landanna og yfirráða evrópumanna yfir þeim.

Ergo.  Niðurlæging þeirra landa sem játast íslam er vegna íslam.

marco (IP-tala skráð) 20.6.2008 kl. 23:21

16 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

marco; Þú getur ekki lagt að jöfnu nútímann og fortíðina. Bara það hvernig við skilgreinum þekkingu er allt öðruvísi en við gerðum fyrir 300 árum. Vísindaleg nálgun var ekki til sem aðferðafræðilegt  ferli fyrr en á 19. öld. Þú verður að horfa á hvað hrærði heiminn fyrir 1000 árum sem var ekki það sama og gerir það núna. Staðreyndin er að það ríktu í heiminum meiningarsvæði með tilliti til menntunar og lífsgæða.

Í mótun þeirra skiptu trúarbrögð megin máli. Á ákveðnu tímabili  báru lífsgæði manna hæst hjá múslímum á meðan aðrar þjóðir lifðu við sult og seyru, sérstaklega  þær sem stóðu utan áhrifasvæða Íslam. Hvers vegna? Vegna þess að múslímar dáðu þekkinguna hvaðan sem hún kom, á meðan t.d. hinn kristni heimur frábað sér hana.

Þeir men sem tóku að sér að þýða Plató og Aristóteles á Arabísku, gerður það- Guði til dýrðar og vegna þess að Múhameð hvatti í Kóraninum múslíma til að afla sér þekkingar. Þeir sem þróuðu algebruna, læknavísindi, stjörnufræðina, efnafræðina og allar þessar greinar sem seinna voru kynntar evrópskum mönnum í gegnum skólana í Konstantínópel og Kordóvu á Spáni voru jafnframt guðfræðingar.

Menntun og þekking var ekki skilin að í deildir eins og nú tíðkast. Fyrir þeim var að þekkja sköpunarverkið að þekkja Guð, kíkt og við þekkjum smið af handverki hans.

Timjudin breytti heiminum. Hann stokkaði upp þjóðirnar sem hann sigraði og gerði engan mun á trú þeirra. Smá saman urðu Mongólarnir samt að múslímum og byggðu undur og stórvirki.  Hjarðmenning þeirra skrapp saman aftur og varð að því sem enn má finna í Mongólíu. En á meðan endurfæddist  Íslömsk menning á Indlandi og þekkingin flóði inn í Evrópu í formi endurreisnartímans og bjó að lokum til þjóðfélög þar sem Darwniar og Einsteinar urðu til.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.6.2008 kl. 00:40

17 identicon

Ertu þá að segja að íslam sé meira og minna uppspretta allrar þekkingar?

Hvað er það sem valdið hefur því að mjög mörg lönd múslima í dag eru 3. heims ríki?

Hvað veldur því að lönd íslams hafa gjörsamlega staðnað á vísindasviðinu? 

marco (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 00:58

18 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

marco; Íslam er ekki uppspretta allrar þekkingar, heldur tókst Íslam að skapa með fólki þá afstöðu til þekkingar að sóttsat var eftir henni. -

Ástæðan fyrir að hnignun Íslam er að mínu áliti að of mikið af mannakenningum hefur menga "lindina tæru" og hún er núna og hefur verið í rúm 300 ár hálfgerður drullupollur.

Gagnsemi Kóransins til að hafa áhrif á menningu heimsins til góðs í dag, er þverrandi. Það sem hentaði ágætlega til að endurskapa barbarískt hirðingjaþjóðfélag og gera það að sæmilega upplýstir þjóð, dugar illa til að búa til alheimslegt samfélag tæknivæddra manna.  Þau áhrif sem Íslam hafði á sínum tíma á þróun menningar og þekkingu heimsins hafa múslímar fyrirgert og eru gjörsamlega ófærir um að nýta í dag. Þeir tyggja Kóraninn fram og aftur, lesa helst ekki aðrar bækur og eru fyrir bragðið ómenntaðasta fólk jarðarinnar. Þess vegna þrífst líka á meðal þeirra ofsatrú og öfgar sem hægt er að nota í næstum hvaða tilgangi sem er af óprúttnum og oft jafn ófróðum einstaklingum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.6.2008 kl. 01:17

19 identicon

Ég á nú svolítið erfitt með að kyngja lindinni tæru.  En það skiptir kannski ekki öllu máli.

Í ljósi lýsingar þinnar á múslimum í dag og síðustu 300 árin hlýtur að vakna ein spurning.

Er mikill innflutningur múslima til vesturlanda ekki varasamur?

marco (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 01:35

20 identicon

"Ástæðan fyrir að hnignun Íslam er að mínu áliti að of mikið af mannakenningum hefur menga "lindina tæru" og hún er núna og hefur verið í rúm 300 ár hálfgerður drullupollur."

Ég er hræddur um að Osama og félagar eigi auðvelt með að taka undir þessi orð.

Ef maður svelgir "lindina tæru" beint frá uppsprettunni þá er ekki erfitt að réttlæta kvennakúgun, morð og hryðjuverk.

marco (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 01:49

21 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Af fenginni reynslu hér í Bretlandi, er það ekki. Þetta hernaðarbrölt vesturveldanna í Írak og Afganistan, auk ástandsins í Ísrael hefur undanfarin ár verið dágóð ástæða til að ala á tortryggni og ósætti á báða bóga en  í mörgum löndum Evrópu lifa múslímar milljónum saman í sátt og samkyndi við kristna og trúlausa samlanda sína. Þeir múslímar sem hafa gengið menntavegin og ekki eru ærðir af persónulegum missi ættingja í Írak eða Afganistan, hafa orðið stólpar samfélagsins. - Suður Ameríka og Bandaríkin hafa ekki hingað til vilja meina að múslímar séu til vansa í þeirra löndum. (Nema Cat Stevens í USA .En hann samdi nú líka" Peace train" : )

En svo fer spurning þín eftir hvað þú kallar "mikill."?

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.6.2008 kl. 01:55

22 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

marco reit;

Ef maður svelgir "lindina tæru" beint frá uppsprettunni þá er ekki erfitt að réttlæta kvennakúgun, morð og hryðjuverk.

Það er ekki hægt að réttlæta morð og hryðjuverk.

Kynjamisrétti í heiminum öllum var og er því miður enn afar algengt.  Ef þú miðar kenningar Íslam um stöðu kvenna við t.d. kenningar kristni er konum í Íslam leift að skilja en ekki kristnum konum. Ef þú miðar kenningar kóransins við íslensku jafnréttislöggjöfina eins og hún er í dag, er Íslam og Kóraninn 100 árum á eftir samtímanum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.6.2008 kl. 02:03

23 identicon

Enn þykir mér þú bera kíkinn fyrir blinda augað þegar rætt er um kóraninn.

Hvernig í ósköpunum færðu það út að ekki sé hægt að réttlæta morð og hryðjuverk með kóraninum?  Nema að teljir ofbeldi múslima aldrei til morða eða hryðjuverka.

Ef ég man rétt þá eru skilnaðir ekki leyfðir í biblíunni.  Það telst nú varla kynjamisrétti.

Fjölkvæni var ekki leyft á Íslandi fyrir 100 árum t.d.  Kynjamisréttið þá var heldur ekki fengið úr óbreytanlegri viskubók guðs almáttugs.

Ein vísa sem mér finnst lýsa svolítið málflutningi þínum:

Lofarinn ei lastar neitt,

lætur hann ganga bullið.

Finni hann sáðkorn fölgrænt eitt

þá frjótt hann telur drullið.

marco (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 14:45

24 identicon

Það er ekki hægt að neita mikilvægi hinnar Íslömsku menningar í þróun vísindanna.
Stærðfræðingurinn Peter Lu uppgötvaði aö  girih-munstur i Islömskum moskum frá 12 öld eru byggð á stærðfræði sem nútíma stærðfræðingar fyrst uppgötvuðu á seinni hluta síðustu aldar.
 
 
 

Ragnar (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 15:11

25 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Múslímar hafa bæði myrt og drepið en þeim er samt bannað að drepa og myrða í Kóraninum;

  • "And slay not the soul which God has forbidden except for the just cause..." (Koran 17:33)
  • "...If anyone killed a person not in retaliation for murder or to spread mischief in the land, it would be as if he killed the whole of mankind. And if anyone saved a life, it would be as if he saved the whole of mankind" (Surah Al-Maaida 5:32)
  • "Fight for the sake of Allah those that fight against you, but do not attack them first. Allah does not love the aggressors." (Koran 2:190)
  • "…when it is said to them; 'Make not mischief on the Earth', they say; 'We are only peace makers'. Indeed they are the ones who make mischief, but they perceive it not" (Surah Al-Baqarah 2:11-12)
  •  Varðandi jafnréttið þá var alsiða að konur voru gefnar mönnum sem þær vildu ekki eiga. Í Kristindómi var skilnaður ekki leyfður. Undir Íslam gátu konur fengið skilnað. Það var hluti af réttindum þeirra. Um fullt jafnrétti var samt ekki að ræða.

    Fjölkvæni er allt annað mál. Meðal Araba var fjölkvæni til framdráttar konum þar sem hjónabandið veitti þeim vernd og stöðu í þjóðfélaginu. En annarsstaðar var það aðeins merki um réttindaleysi og kvenna og merki um hversu lítils þær voru metnar. Samkvæmt Íslam var ekki leyfilegt að eiga fleiri en fjórar konur og aðeins ef þú gast tryggt að allar konurnar nytu jafnra réttinda og aðbúnaðar.

    Takk fyrir vísuna þótt hún sé afar illa kveðin marco. Það er alltaf stutt í skensið hjá þér en það er auðvitað þitt mál og kannki jafnvel hjartans mál.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.6.2008 kl. 15:37

26 identicon

Ragnar.  Þetta er athyglisvert.  Þetta tiltekna dæmi um áhrif íslamskra stærðfræðinga á þekkingu mannkyns er þó varla mjög gott.  Þarna er um þekkingu að ræða sem glataðist og var enduruppgötvuð mikið seinna.  Áhrifin eru því engin.

Hin þunga, kalda hönd íslams hamlaði listamönnum þess að komast til þroska við gerð m.a. mannamynda.  Þetta leiddi til þess að listamenn hins íslamska heims neyddust til að fara að dútla með munstur.  Nokkur hundruð ár af slíku hljóta að leiða til árangurs.  Kannski er ástæða þess að vísindamenn fundu þessa hluti svona seint út, að menn höfðu meiri áhuga á öðru en bróderingum á vesturlöndum.

marco (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 15:53

27 identicon

Svanur.  Það væri auðvelt að "slögga" þig með öðrum versum úr kóraninum, en ég bara nenni því ekki.

Vísan er að sjálfsögðu afbökun á mikið betri vísu eftir Stephan G. að mig minnir.  Hún er ekki "illa kveðin" að ég tel.  Rétt að forminu til og snýr orginalnum á hvolf ásamt með að súmmera málflutning þinn upp.  Líklega besti textinn á síðunni. 

 Æ, þarna tók skensið sig upp.

marco (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 16:03

28 identicon

Úbbs.  Ég afbakaði Steingrím Thorsteinson, ekki Steppa G.

marco (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 16:06

29 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

marco; Steingrímur er víst ekki það eina sem verður fyrir barðinu á þér þessa dagana góurinn. Afbökun hverskonar eru þínar ær og kýr og þú vílar ekki fyrir þér að reyna að enduryrkja þjóðskáldin. Dárapiltur atarna.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.6.2008 kl. 22:43

30 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ragnar: Þakka þér þessar krækjur. Þær eru góður stuðningur við það sem  reynt var að útskýra.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.6.2008 kl. 22:46

31 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Gegnheil og áhugaverð grein Svanur.

Georg P Sveinbjörnsson, 23.6.2008 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband