11.1.2008 | 14:48
Kirkjulegt brúðkaup
Fyrir skömmu var ég boðinn til brúðkaups.Sem áhugamaður um merkingu orða tók ég eftir því að verðandi brúður og brúðgumi notuðu í boðskortinu orðið brúðkaup yfir hjónavígsluathöfnina og veisluna sem boðið var til. Orðið brúðkaup á rætur sínar að rekja til þeirra tíma þegar það tíðkaðist að þátttakendur í brúðkaupinu fylgdu brúðinni til hins nýja heimilis hennar eftir að húna hafði verið keypt af brúðgumanum. Ef hún hafði hins vegar verið gefinn var talað um giftingu. En eins og fljótt kom í ljós var verið að bjóða mér til hjónavígsluathafnar sem fram átti að fara í einni af mótmælendakirkjum landsins og í eign Evangelísku Lútersku Þjóðkirkjunnar.
Ég mætti tímanlega og var vísað til sætis af sérstökum sætaverði. Konur tóku sér sæti vinstra megin kirkjugólfsins en karlar hægra megin. Ég varð svolítið undrandi á þessari tilhögun því þetta minnti óneitanlega á þá kynskiptingu sem tíðkast enn í samkunduhúsum gyðinga en hefur reyndar verið upptekinn meðal sumra púrítanaískra kristinna trúarsafnaða. Hugmyndin bak við þessa ráðstöfun er sú að konur séu skör lægra settar (vinstra megin) í augum almættisins og ekki sé tilhlýðilegt að þær hafi sig í frammi á meðan kalmennirnir eiga samneyti við Guð sinn. Einnig blandaðist sú hugmynd inn í málið að ótilhlýðilegt væri fyrir kvenmenn og karlmenn að deila saman rými þegar hugur allra skyldi beinast að bænagjörðinni og óþarfi því að bjóða hættunni heim á því að hugur þeirra reikaði annað með því að setja bæði kynin saman. Þar sem ég vissi að bæði brúður né brúðgumi voru allt annað en höll undir kynjamismunun af hverskonar tagi þótti mér þetta undarleg ráðstöfun.
Brúðguminn stóð ásamt tveimur svaramönnum uppréttur hægra megin við gráturnar, karla megin, ásamt tveimur svaramönnum og kinkaði kolli til gestanna þegar þeir komu inn. Brátt fylltist kirkjan. Loks settust þeir brúðguminn og svaramennirnir niður og prestur einn snaraði sér inn fyrir gráturnar og settist síðan í stól vinstra megin. Allir voru hljóðir sem gröfin. Nú var beðið í 10 mínútur en þá opnuðust dyrnar og unnusta bróður brúðarinnar verðandi kom gangandi inn. Allir snéru sér við og fylgdust síðan af andakt með henni taka sér sæti framarlega í kirkjunni. Það var beðið svolítið lengur og þá heyrðust kiljudyrnar opnast aftur og inn gekk móðir brúðarinnar. Hún lallaði sér í rólegheitum eftir kirkjugólfinu og fékk sér líka sæti framarlega í kirkjunni. Loks heyrðist ómur frá litlum kirkjuklukkum sem gaf til kynna að athöfnin væri loks að hefjast fyrir alvöru og presturinn stóð upp og gaf bendingu um að allir ættu að standa upp eins og hann. Kirkjudyrnar opnuðust og orgeltónar brúðarmarsins ómuðu ofan af kirkjuloftinu. Inn eftir gólfinu komu svo brúðurin og faðir hennar gangandi í takt við marsinn. Brúðurin var klædd í hvítan brúðarkjól með löngum slóða en engu slöri. Hvíti brúðarkjóllinn er tákn hreinleika og skýrlífis og langi slóðinn tákn velmegunar og ríkidæmis, enda aðeins eðalborið fólk sem hafði efni á slíku aukaefni þegar þessi siður varð til. Á eftir brúðinni og föður hennar kom kom ung stúlka, systur brúðarinnar, gangandi og hélt á kornabarni í fanginu. Við hlið hennar gekk lítill drengur sem ég veit ekki hvaðan kom. Ungabarnið var óskilagetið afkvæmi hinna verðandi hjóna. Hinn glæsilegi hvíti brúðarkjóll, sem brúðurin klæddist varð skyndilega í huga mér að ósvífnu háði og merkingarlausu tildri. Mér tókst með harðfylgi að bæla þær hugsanir niður jafnhraðan og þær spruttu fram. Þegar brúðurin kom upp að grátunum mætti henni brúðguminn og faðirinn fékk það hlutverk að breiða sem best úr kjólslóðanum svo dóttirin liti út sem lögulegust aftanfrá. Með bakið í kirkjugesti hófst nú vígslan.
Presturinn sem ég vissi að var ættingi brúðarinnar hóf mál sitt á því að segja að nú hefði verið gott að hafa GSM síma við höndina, því þá hefði brúðurin getað látið vita af seinkun athafnarinnar. Síðan sagði hann einhverja sögu af sjálfum sér sem fór bæði ofan garðs og neðan hjá mér en átti víst að vera einhverskonar brandari fyrir innanbúðarmenn. Um þetta leiti snaraðist svartklæddur púki með firnastóra myndavél upp á altarispallinn. Á meðan að presturinn spurði hjónaefnin hvort þau vildu eiga hvort annað myndaði púkinn í gríð og erg frá öllum hliðum. Hann náði á filmu nákvæmlega augnablikunum þegar að þau sögðu já og athygli allra beindist að sjálfsögðu eingöngu að þessum iðandi púka sem þaut fram og aftur um pallinn til að safna heimildum um þessa stóru stund. Þegar að hjónin höfðu játast hvort öðru og sett upp hringa sína fyrir framan prestinn sem var þarna sem sérlegur fulltrúi Guðs (og þar með höfðu hjónin játast líka frammi fyrir Guði) veitti hann brúðgumanum heimild til að kyssa brúðina. Nokkrum fannst af einhverjum ástæðum viðurkvæmilegt að flissa og gerðu það óspart við þessi orð. Eftir kossinn veitti presturinn viðstöddum hina postullegu kveðju og snéri sér síðan að krossinum en brúðhjónin lögðust með hnén á gráturnar til þess að biðja fyrir sér.
Til hliðar í kirkjunni stigu fram fimm piltar og hófu að syngja. Lagið var gamalt dægurlag með afar væmnum texta og miklu af dúadiddi. Á meðan að piltarnir sungu lágu brúðhjónin á bæn og presturinn tilbað fyrir framan krossinn. Allann tímann hélt svarti púkinn áfram að dokimentera atburðina. En það voru greinilega ekki allir sem treystu kauða til þessa hlutverks að fullu og höfðu því til vara komið með sínar eigin myndavélar sem þeir klikkuðu af óspart á meðan athöfnin stóð yfir. Ljósblossarnir gengu um alla kirkjuna, suð í linsum sem drógust fram og aftur bergmálaði á milli veggjanna. Þegar að strákarnir voru búnir með lagið og presturinn og brúðhjónin voru búin með bænirnar sínar stigu brúðhjónin á fætur og presturinn snéri sér við. Piltarnir fimm sungu svo annað popplag í sama stíl og hið fyrra fyrir brúðhjónin sem brostu sætt til allra á meðan presturinn skoðaði á sér neglurnar að baki þeim. Þegar drengirnir luku laginu bað presturinn alla viðstadda að fara með faðir vorið sem var og gert. Eftir það gengu brúðhjónin út og hersingin sem hafði fylgt þeim á eftir.
Mikið var þetta nú hátíðlegt.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:40 | Facebook
Athugasemdir
Brúðkaup alltaf heillandi.
Halla Rut , 11.1.2008 kl. 15:38
Brúðkaup (sigh) yndislegt alveg maður er svo bjartsýnn þegar maður sér fólk gifta sig allt er eitthvað svo "í lagi"..
Linda, 15.1.2008 kl. 20:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.