Síðasta nótt Saddams

 

Bein útsending úr klefa Saddams Husayns nóttina sem hann var tekinn af lífi í lok des. 2006

Tveir stólar standa gengt hver öðrum og fyrir aftan er rúm með brekáni.

Viðstaddir eru Pressman stórnandi þáttarins, Diðrik Gross sálfræðingur og Saddam Husayn fyrrverandi foseti Íraks.

 

Sadam er klæddur í hvíta skyrtu og svartar buxur og í svörtum jakka. Pressman er klæddur í hvítar buxur og svarta skyrtu. Diðrik er klæddur í khakí buxur, skyrtu og í peysu. Hann er með hornspangargleraugu á nefinu.

 Tónlist í upphafi þáttar og þátta-kynning rennur yfir skjáinn sem opnast svo í mynd af klefanum. Við klefadyrnar stendur Diðrik Gross geðlæknir. Saddam biðst fyrir á bænamottu til hliðar. Pressman situr í öðrum stólnum. Tónlistin fjarar út og við sjáum Pressmans í nærmynd.  

 

PRESSMAN

Gott kvöld og velkomin í Pressman. Við hefjum þessa beinu útsendingu frá fangaklefa Saddams Husayns einhversstaðar í Bagdad, á því að fá að sjá myndbrot úr ferli hans sem sýna hvernig hann kom umheiminum fyrir sjónir þegar hann var við völd sem forseti Íraks. Klukkan er nú fjögur um nótt að staðartíma og klukkan sex á að taka Saddam af lífi. Eftir myndbrotin fáum við að kynnast  manninum Sadam,  eins og við höfum aldrei kynnst honum áður. En hér koma myndbrotin frá ferli Saddams.  

 (Á tjaldi eru sýnd myndbrotin. Þau sýna hvað eftir annað myndina af honum þar sem hann stendur á svölum og hleypir af riffli. Undir myndbrotunum er leikin tónlist frá Írak.) 

Þá höfum við séð hvernig Saddam Husayn kom okkur fyrir sjónir á skjánum í gegnum árin. Nú fáum við að kynnast honum í eigin persónu. Saddam hefur fallist á að gangast undir dáleiðslu og leifa mér síðan að taka viðtal við sig. Við höfum fengið til liðs við okkur Diðrik Gross geðlækni frá Munchen (bendir á Diðrik sem hneigir sig lítillega) í Þýskalandi sem er einn fremsti dávaldur í heimi. Hann mun nú dáleiða Saddam og síðan hefjum við viðtalið.

 

SADDAM

(stendur upp af bænateppinu vefur því upp og sest í stólinn gengt Pressmans). DIÐRIK( tekur sér stöðu fyrri framan Saddam)  Leyfðu handleggjunum að hvíla á örmunum og hallaðu þér aftur. Lokaðu augunum og hlustaðu á það sem ég segi.  Þú finnur að þig syfjar, að þig langar að sofna. Svona , já. Nú ertu alveg við að sofna og þú munt ekki vakna aftur fyrr en þú heyrir rödd mína kalla á þig. Og nú ert þú sofnaður. (Höfuð Saddams hallast út á hlið og hann sefur) Hér er maður sem ætlar að spyrja þig spurninga. Á meðan á þeim stendur hagar þú þér eins og þú sért vakandi. (Diðrik gengur frá Saddam og sest á rúmið út við dyrnar og kinkar kolli til Pressmans)  

 

PRESSMAN

Þú veist hver ég er.

 

SADDAM

(vaknar og hegðar sér eðlilega) Já ég veit það.

 

PRESSMAN

Þá veistu að það er ástæðulaust með öllu að ljúga.

 

SADDAM

Ég hef sjaldan haft ástæðu til að ljúga. Ég var einvaldur sérðu til. En ég skil hvað þú átt við

 

PRESSMAN  

Jæja, Ertu þá tilbúinn?

 

SADDAM

Ég er búinn að vera tilbúinn lengi.

 

PRESSMAN

Þú vissir alltaf að svona mundi fara eða hvað?

 

SADDAM

Eftir að þeir drógu mig út úr kofaræksninu og föttuðu hver ég var, vissi ég það.

 

PRESSMAN

Nú, ekki fyrr?

 

SADDAM

Nei, ekki fyrr. Ég lifði í voninni að forlögin yrðu mér hliðholl.

 

PRESSMAN

Ertu forlagatrúar?

 

SADDAM

Forlög felast í því að treysta Guði en binda kameldýrið.

 

PRESSMAN

Við hvað battst þú vonir eftir að þú fórst í felur?

 

SADDAM

Ég átti mína dyggu stuðningsmenn, menn sem trúðu.

 

PRESSMAN

Trúðu hverju?

 

SADDAM

Að þeir mundu deyja ef ég mundi deyja.

 

PRESSMAN

Og nú ertu sama sem dauður.

 

SADDAM

Og þeir líka.

 

PRESSMAN

Hversvegna fórstu ekki úr landi?

 

SADDAM

Fékk hvergi inni. Það voru allir með kúkinn í buxunum af hræðslu við að blanda sér í málin.

 

PRESSMAN

Á myndum sem voru teknar þegar þeir handtóku þig líturðu út fyrir að vera hálfpartinn feginn.

 

SADDAM

Hvernig líta menn út þegar þeir eru hálfpartinn fegnir? Þeir voru búnir að þjarma soldið að mér þegar þeir tóku þessar myndir. Ef að ég leit út fyrir að vera feginn, þá var það vegna þess að ég sá fram á að komast í bað og á almennilegt klósett.

 

PRESSMAN

Þér hefur aldrei dottið í hug að binda endi á líf þitt sjálfur?

 

SADDAM

Það gera bara heiglar. Ég er ekki heigull.

 

PRESSMAN

Svo tóku við yfirheyrslurnar. Hvernig gengu þær fyrir sig?

 

SADDAM

Þetta voru engar yfirheyrslur. Þeir komu nokkrum sinnum og dældu í mig Skópalíni. Svo dundu á mér spurningar um hluti sem ég hafði ekki hugmynd um.

 

PRESSMAN

Hvaða hluti?

 

SADDAM

Hvar menn mínir væru í felum.Hvar peningarnir mínir voru geymdir. Hvort ekki væri eitthvað eftir af efnavopnunum. Bara bull sem engu máli skipti. Hvað er klukkan?

 

PRESSMAN

Ég geng ekki með klukku. Við verðum....

 

SADDAM

(grípur fram í) Eitt sinn átti ég Rólex úr. Reyndar átti ég sjö Rólex úr, en þetta var uppáhaldsúrið mitt.

 

PRESSMAN

Nú, leið tíminn á því eitthvað öðruvísi en á hinum?

 

SADDAM

Já, það var stopp. Það stoppaði daginn eftir að við urðum að semja frið við Íran.

 

PRESSMAN

Hversvegna stoppaði það?

 

SADDAM

Ég veit það ekki. Þá trúði ég að það væri einskonar tákn frá Guði, tákn um að forlögin hefðu gripið í taumana.

 

PRESSMAN

Voru það ekki Sameinuðu þjóðirnar sem gripu í taumana.

 

SADDAM

Uss, sameinuðu þjóðirnar, þeir gúbbar, nei það voru forlög og djöfullinn sem gripu inn í.

 

PRESSMAN

Djöfullinn, áttu við Regan?

 

SADDAM

Ég á við...Regan segirðu? Ég talaði aldrei við Regan. Það var Rumsfield sem talaði fyrir hann.

 

PRESSMAN

Hvernig var Rumsfield ?

  

SADDAM

Rumsfield vildi vera Guð. Hann gaf og hann tók.

 

PRESSMAN

Var þetta ekki bara vegna þess að þú slepptir Alí frænda þínum lausum á Kúrdana?

 

SADDAM

Hvað annað áttum við að gera við allt gasið sem við fengum frá Bandaríkjunum? Það voru allar geymslur orðnar fullar af þessu helvíti.

 

PRESSMAN

Þú varst orðinn örvæntingarfullur, var það ekki.

 

SADDAM

Ég var aldrei í neinum vafa um að við mundum vinna stríðið og í raun og veru unnum við stríðið. Við fengum bara ekki að halda upp á það. Kómeiní var farinn að senda sjö ára gutta út á jarðsprengjusvæðið með lykil af hliðum himnaríkis um hálsinn.  Hvað ætlaði hann að senda þegar þeir voru uppurnir? Konurnar sínar?

 

PRESSMAN  

Það börðust konur í þessu stríði og ekki bara íranskar.

 

SADDAM

Hvað þykist þú vita um konur? Sumar konur eru menn.

 

PRESSMAN

Áttu við karlmenn.

 

SADDAM

Ég á við konur sem ekki eru konur, en líta bara út fyrir að vera það.

 

PRESSMAN

Áttu við kynskiptinga?

 

SADDAM

Ég veit ekki hvort það er rétta orðið. Ég á við karlkonur eins og Kondu Lísu til dæmis.

 

PRESSMAN

En konan þín, hún var ekki maður.

 

SADDAM

Nei, satt segirðu hún var ekki maður. Hún ól mér börnin mín, sem ég fórnaði svo fyrir landið. (Fer að gráta)  

 

PRESSMAN

Er ekki dóttir þín í London? (hættir að gráta) 

 

SADDAM

Hún er ekki dóttir mín. Börnin mín, synir mínir eru dánir, píslavættir, fórn fyrir Írak. (grætur) 

 

PRESSMAN

Var það ekki dóttir þín sem fékk lögfræðingana frá Sýrlandi til að verja þig.

 

SADDAM

(hættir að gráta)Það gat enginn varið mig. Þetta var allt eitt sjónarspil. Enda neitaði ég að taka þátt í þessari vitleysu eins og þú veist. Hvernig er hægt að rétta yfir þjóðhöfðingja sem stjórnarskráinn segir að sé æðsti maður dómstólanna í landinu? Þetta var farsi og ekkert annað.

 

PRESSMAN

Þú þekkir soldið til farsa ekki satt.

 

SADDAM

Hvað áttu við?

 

PRESSMAN

Samdir þú ekki hálfgerðan farsa og gafst hann út sem rómann fyrir nokkrum árum?

 

SADDAM

(glaður) Þú átt við metsölubókina mína. Hefurðu lesið hana?

 

PRESSMAN

Já, ég hef lesið hana.

 

SADDAM

Fannst þér hún ekki bara nokkuð góð?

 

PRESSMAN

Mér leiðast óskaplega ástarvellur með fyrirsjáanlegum persónum, fyrirsjáanlegu plotti og fyrirsjáanlegum endi. En hún sannaði að þú kannt að skálda soldið.

 

SADDAM

Já, ég er skáld. Viltu heyra ljóð eftir mig.

 

PRESSMAN

Æ, nei, ekki ef það er einhver vella.

 

SADDAM

Það er engin vella. Það er um það sem við höfum verið að tala um.

 

PRESSMAN

Jæja þá.

  

PRESSMAN

Ég samdi það á arabísku. Þýðingin hljómar kannski ekki eins vel.

 

PRESSMAN

Vertu ekki með þessar afsakanir, lát heyra.

 

SADDAM

Ég kalla það; Þakka þér kræklótti runni. Orðin eru lögð í munn írösku þjóðarinnar.

(stendur upp og fer með prósann á mjög ýktan  dramatískan hátt)  

Þakka þér kræklótti runni

fyrir að hafa leyst írösku þjóðina úr ánauð Saddams

og hneppt hana í þína eigin.

Það er svo miklu betra

að vera pyntaður og drepinn af útlendingi

heldur en af einhverjum landa sinna.

 

Þakka þér kræklótti runni

fyrir að rústa Írak

svo að þú getir borgað kollegum þínum fyrir

að byggja það upp aftur.

Það er svo miklu betra

að láta útlending eyðileggja heimili sitt

heldur en að þola slíkt af hendi náunga síns.

 

Þakka þér kræklótti runni

fyrir að stela olíunni.

Það er svo miklu betra

að þú stelir henni

heldur en Saddam Husayn.

 

Þakka þér kræklótti runni

fyrir að ljúga að heiminum

að Írak ætti gjöreyðingarvopn.

Það er svo miklu betra

en að Írakar ljúgi til um

að þeim hafi verið eitt.

 

Þakka þér kræklótti runni

fyrir að lýsa því yfir

að þú hafir verið útnefndur af Guði

til að útrýma hinum óguðlegu.

Það er svo miklu betra

en þegar Ben Laden gerir það.

 (stutt þögn og Saddam sest niður) 

Hvernig finnst þér?

 

PRESSMAN

Satt að segja er þetta litlu skárra en bókin þín.

 

SADDAM

Hún varð nú samt metsölubók og ekki bara í Írak heldur líka í Sýrlandi og Kuwait.

 

PRESSMAN

Hún varð metsölubók því allir vissu að hún var eftir þig þrátt fyrir að þú notaðir dulnefni. En af því þú minnist á Kúwait, hvað vakti eiginlega fyrir þér með að ráðast inn í landið.

 

SADDAM

Olía maður, olía. Hvað annað enn olía. Írak er og hefur alltaf verið sjónaspil um olíu. Fyrst var landið búið til vegna olíunnar fyrir norðan, svo var Kúwait hlutað frá Írak vegna olíunnar fyrir sunnan. Nú vilja þeir fá olíuna í miðjunni og til hliðanna.

 

PRESSMAN

Hvað gerðirðu við efna og sýklavopnin þín.

 

SADDAM

(brosir) Áttu við gereyðingarvopnin?

 

PRESSMAN

Já, gereyðingarvopnin.

 

SADDAM

Ég gereyddi þeim.

 

PRESSMAN

Hvenær.

 

SADDAM

Skömmu eftir að Blix kom fyrst í heimsókn. Ég vissi að karlinn mundi finna þau á endanum ef ég leyfði honum að leita.

 

PRESSMAN

Hversvegna trúðu þeir þér ekki?

 

SADDAM

Þeir trúðu mér. Kelly trúði mér, Blix trúði mér, Powell trúði mér, allir trúðu mér. Hvað varð um þá alla? Það skipti bara ekki máli, trúin á olíuna er allri annari trú yfirsterkari.

 

PRESSMAN

Líka hjá þér?

   

SADDAM

Ég trúi á olíuna. Hún á eftir að bjarga Írökum. Eftir að búið er að eyðileggja Írak mun hún bjarga Írökum.

 

PRESSMAN

Verður Írak eyðilagt?

 

SADDAM

Það er augljóst. Kúrdarnir fá norðrið, Shyhidar vestrið og Súníar miðjuna. Allir gera samninga við BP og einhverja í Dick Chany genginu en Írak verður bara til á gömlum kortum.

 

PRESSMAN

Vissirðu að þú mundir aldrei geta haldið Kúwait?

 

SADDAM

Það skipti ekki máli. Ég varð að reyna eitthvað. Djöfullinn var búinn að ná tökum á Sádunum, Sýrlendingum, Pakistönum, Líbanon og jafnvel Gaddafí var farinn að hlusta á hvíslið í honum.

 

PRESSMAN

Voru ekki flestir af þínum mönnum sem féllu í Kuwait með kúlur í bakinu?

 

SADDAM

Það nefnist á hermáli að reka flóttann. Hermennirnir sjálfir kölluðu það að fara heim.

 

PRESSMAN

Hatar þú þá Bush feðga persónulega?

 

SADDAM

Allir kræklóttu runnarnir eru ill tré og ill tré gata ekki borið góða ávexti. Það hefur Andi Guðs talað. Ég hata ill tré hvar sem þau vaxa.

 

PRESSMAN

Þú hefur nú einhverja skemmda ávexti í farteskinu sjálfur.

 

SADDAM

Er ekki að renna upp ljós fyrir þeim sem ekki sáu það áður, að það þurfti meira til en blíðlegt bros til að halda þessu landi saman. Ég studdi engin hryðjuverk, leifði Al-Kaída aldrei að starfa í landinu, gaf þeim aldrei peninga. Skemmdu eplin mín skemmdust þegar ég lét glepjast af smeðjunni í Rumsfield.

 

PRESSMAN

Hvað áttu við?

   

SADDAM

Rumfield lofaði gulli og grænum skógum, ef ég mundi vera þægur og leyfa olíunni að flóa ofaní bandarísk olíuskip undir verði OPEC-ríkjanna.

Þegar OPEC komst að þessu, urðu þeir vitaskuld brjálaðir og hótuðu að draga úr framleiðslunni hjá sér. Ég varð að fylgja þeim til að allt færi ekki í bál og brand því bæði Rússland og Kína keyptu og seldu á OPEC-verðum.

 

PRESSMAN

En hvað með alla peningana sem þú eyddir á sjálfan þig og áttu að renna til fólksins í landinu. Peningana sem komu inn vegna undanþágnanna sem sameinuðu þjóðirnar veittu á olíusölunni til að þú gætir bólusett börnin í landinu, fætt þau og klætt.

 

SADDAM

Hver átti að búa í þessum byggingum sem þeir kalla núna hallir ef ekki ég. Hvernig átti að borga hernum ef  ekki fyrir peningana sem fengust fyrir afurðir landsins. Hvort var verra að leifa meðlimum Bath flokksins að mata krókinn eða spilltum senditíkum sameinuðu þjóðanna? Og þeir sem hafa áhuga á bólusetningu barna ættu að drífa sig til Afríku.

 

PRESSMAN

Það að vandamál eru til staðar annarstaðar í heiminum gefur þér ekki rétt til að kúga fólkið þitt.

 

SADDAM

Hversvegna ekki? Ég var kosinn með miklum meirihluta atkvæða til að stjórna þessu landi. Kræklótti runninn fékk minnihluta atkvæða bandaríku þjóðarinnar en stjórnar henni samt. Hann segir að ég sé vandamál og kúgar fé út úr þinginu til að drepa fólkið sem hann segir að ég kúgi.

 

PRESSMAN

Tókstu persónulega þátt í að pynda óvini þína?

 

SADDAM

Já.

 

PRESSMAN

Hvers vegna? Ertu haldin kvalarlosta?

 

SADDAM

Sá sem ekki hefur séð aðra þjást, sá sem horfir á úr fjarlægð þegar aðrir þjást vegna hans, hefur engan skilning á þjáningu.

 

PRESSMAN

Svo þú naust þess ekki?

 

SADDAM

Ég naut þess að horfa á gamla vestra, ég naut þess að borða ítalskan mat, ég naut þess að sinda og reykja vindla frá Kúpu. Ég naut þess aldrei að yfirheyra slefandi  menn.

 

PRESSMAN

En allt þetta skiptir þig ekki máli lengur.

 

SADDAM

Þegar þeir hengja mig á eftir, byrja vandræðin fyrir alvöru.

 

PRESSMAN

Þín vandræði?

 

SADDAM

Bæði mín og útsendara Satans.

 

PRESSMAN

Svo þú ert ekki búinn að friðmælast við Guð.

 

SADDAM

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega trúaður. Íslam er trú hinna undirgefnu og ég hef aldrei verið undirgefinn. En forlögin fær enginn flúið því, þeir plotta, ég plotta og Guð plottar og hann er besti plottarinn af öllum, eins og skrifað stendur.

 

PRESSMAN

Þú getur vitnað í Kóraninn.

 

SADDAM

Ef þú getur ekki vitnað í Kóraninn skaltu ekki taka þátt í pólitík, alla vega ekki í pólitík mið-austurlanda.

 

PRESSMAN

Þegar ég kom inn varstu að biðjast fyrir.

 

SADDAM

Já, hvað með það?

 

PRESSMAN

Fyrir hverju varstu að biðja?

 

SADDAM

Ég hafði yfir hundraðasta og níunda vers í súru Kýrinnar. Það byrjar svona; Guði tilheyra austrið og vestrið; Hann leiðir hvern sem honum þóknast á hinn beina stíg.

 

PRESSMAN

Svo þú trúir þá ekki að guð Bush sé sami guð og þinn?

 

SADDAM

Guð kræklótta runnans heitir Satan, Guð minn heitir Guð og hann er mikill.

 

PRESSMAN

Nú bregður þú þér í trúargerfið.

 

SADDAM

Heldurðu að það sé of seint. (brosir) 

PRESSMAN

Hvað ætlarðu að segja við öll kúrdísku börnin sem þú lést Alí gasa, þegar þú hittir þau í paradís.

 

SADDAM

Hver segir að þau séu í paradís?

 

PRESSMAN

Þetta voru börn.

 

SADDAM

Þetta voru Kúrdar og þeir studdu Írani.

 

PRESSMAN

Þú hefur sem sé ekkert samviskubit, sérð ekki eftir einu eða neinu?

 

SADDAM

Það sagði ég aldrei.

 

PRESSMAN

Hverju sérðu þá eftir?

 

SADDAM

Að hafa ekki hjálpað Talíbönunum þegar Ben Laden bað mig um það.

 

PRESSMAN

Svo þú hefur þá átt í samskiptum við Alkaída?

 

SADDAM

Nei, Ben Laden hringdi og bað mig um að skaffa honum banka hér í Írak svo hann gæti flutt peninga á milli sem hann átti í Bretlandi.

 

PRESSMAN

Og þú neitaðir.

 

SADDAM

Já, neitaði og sagði honum að biðja bróður sinn sem var í bisnes með kræklóttu runnunum.

 

PRESSMAN

En nú eru Alkaída liðar komnir til Íraks.

 

SADDAM

Ben Laden er blankur. Hann lætur alla borga sjálfa nú til dags og  mest með lífi sínu sýnist mér. Hvað er klukkan orðin.

 

PRESSMAN

Það er enn  tími til stefnu. Hvað með Blair?

 

SADDAM

Hvaða Blair?

 

PRESSMAN

Þú veist við hvern ég á.

 

SADDAM

Ég svaraði bara eins og allir munu svara þessari spurningu eftir tvö ár.

 

PRESSMAN

Hversvegna tók hann þátt í stríðinu gegn þér?

 

SADDAM

Fyrst trúði hann Kondu Lísu, svo trúði hann þeim kræklótta, svo trúði hann BP. Svo trúði hann þvælunni úr CIA og eftir það trúði hann sjálfum sér þangað til enginn trúði honum. Svona er að trúa.

 

PRESSMAN

Hann heldur enn við þá sögu að hann hafi einlæglega trúað því að hann væri að gera rétt.

 

SADDAM

Ég held að gamli frasinn um að leiðin til helvítis sé vörðuð góðum ásetningi eigi ekki eins vel við um nokkurn mann og Blair.

 

PRESSMAN

Talandi um trú. Dagblöðin hér sögðu að þú hafir grátið þegar Talíbanarnir sprengdu í loft upp fornu Búddha stytturnar í Afganistan. Er það satt?

 

SADDAM

 Já, það er satt. Ég grét af hlátri af þessum vitleysingum. Þeir sprengdu þær aldrei í loft upp, heldur tróðust með nokkrar stórskotaliðsbyssur út í eyðimörkina og skutu á stytturnar þangað til þeir urðu skotfæralausir. Þeir stórskemmdu stytturnar en þær standa enn.

 

PRESSMAN

Berðu þá enga virðingu fyrir trú annarra?

 

SADDAM

Utanríkisráðherrann minn var kristinn. Það dugði honum nú lítið annarsstaðar en hjá mér.

  

PRESSMAN

Hvernig heldurðu að sagan eigi eftir að dæma þig?

 

SADDAM

Það fer vitaskuld eftir því hver segir hana. Annars er mér sama um söguna, mér leiddist hún í skóla og svo þegar ég fór að búa hana til sjálfur, sá ég að CNN var alltaf á undan mér að segja hana.

 

PRESSMAN

Hvar varstu þegar veröldin horfði á Bagdad í beinni standa í ljósum logum?

 

SADDAM

Í skotbyrgi undir höllinni að horfa á CNN.

 

PRESSMAN

Varstu hræddur.

 

SADDAM

Já já, dauðhræddur við að einhver spreng mundi hitta CNN myndavélina og ég gæti ekki fylgst með hvað var að gerast.

 

PRESSMAN

þú ert alltaf að snúa út úr. Svaraðu nú ærlega, varstu hræddur þegar sprengjurnar dundu á borginni.

 

SADDAM

Nei, ég var ekki hræddur, alla vega ekki við að deyja.

 

PRESSMAN

Ertu ekki hræddur við að deyja núna?

 

SADDAM

Eftir smá tíma verð ég hengdur. Þegar þeir koma að ná í mig verð ég skelkaður. Svo sprauta þeir mig fullan af lyfjum til að allt fari nú vel fram og svoleiðis verður það. Ég efast um að ég finni fyrir hræðslu, fullur upp að augum af morfíni.

 

PRESSMAN

Það fer að líða að lokum þessa viðtals.  Er eitthvað sem þú vildir segja í viðbót við það sem komið er?

 

SADDAM

Bara þetta: Kæri Íslendingar. Þrátt fyrir að hafa aldrei farið með vopnum gegn annarri þjóð í ellefu hundruð ára sögu ykkar ákváðu Halldór og Davíð að styðja runnarengluna í Bandaríkjunum í að ráðast á land mitt og þjóð. Þetta gerðu þeir þótt það lægi fyrir að yfir áttatíu prósent af íslensku þjóðinni væru á móti innrás í Írak. Þótt þeir séu báðir komnir úr umferð í stjórnmálum lands ykkar, er það ósk mín að þið styðjið hvorugan þeirra í næstkomandi forsetkosningum sem mér skilst að séu eftir tvö ár. Annar þeirra mun örugglega sækjast eftir að verða kosinn en ég er viss um að alla vega áttatíu prósent af þjóðinni finnst hann ekki eiga slíka upphefð skilið.

 

PRESSMAN

Og við látum þá lokið þessari beinu útsendingu frá fangelsisklefa Saddam Husayns. Góða nótt.  (kinkar kolli til áhorfenda, stendur upp og tekur í hönd Saddams. Tónlist og tiltlar renna yfir skjáinn. Útsendingu lýkur. Pressman  snýr sér að Diðrik sem kemur til hans) Er ekki best að vekja hann upp núna?

 

DIÐRIK

(snýr sér að Saddam) Lokaðu augunum.(Saddam lokar augunum) Ég ætla að telja upp að þremu og þegar ég nefni hana vaknarðu aftur. Einn, tveir, þrír. (höfuð Saddams fellur út á aðra hliðina og hann fer í enn dýpra dá)   

PRESSMAN

Er þetta eðlilegt?

 

DIÐRIK

Nei, það er eitthvað að gerast. Hann á að vera vaknaður. Saddam, heyriðu í mér.

 

SADDAM

(höfuð hans heldur áfram að vera út á hlið og rödd hans er orðin skræk) Já, ég heyri.

 

DIÐRIK

Þú verður...

 

SADDAM

(sprettur á fætur og lætur eins og hann sé skemmtikraftur á sviði)  Komið þið sæl og vansæl líka, því hér eru allir velkomnir og sumir rétt ókomnir að ég sé. Ha.  En eftir þeim getum við ekki beðið, því okkur liggur á. Sögu höfum við að segja og sögusviðið er þetta svið, því óneitanlega stend ég á sviði. En  þessu sviði ætla ég að breyta í annað svið, stærra og meira. Allt verður að vera stærra og meira en það sem raunveruleikinn gefur til kynna svo að hann hverfi í skuggann og sýndarveruleikinn lifni við. Þangað ætlum við að flýja um stund. Ég leyfi mér að kynna fyrir ykkur aðalpersónurnar og vona að þið hagið ykkur á viðeigandi hátt, takið þeim vel, klappið, hlægið og grátið á réttum stöðum. Annað væri óviðeigandi. (hann þagnar og fellur svo í stíl sinn aftur og sefur)

 

PRESSMAN

Hvað var þetta nú?

 

DIÐRIK:

Ég veit það ekki. Hann er greinilega að upplifa sig sem aðra persónu. (snýr sér að Saddam) Hvað sérðu? Hvað sérðu nú?

SADDAM

(hvíslandi. Hann heldur stöðugt höndunum frá sér með fingurna hálf krepptar eins og hann finni fyrir miklum sársauka. ) F-fólk.

DIÐRIK:

(bandar hendinni í átt til Pressmans sem að set á rúmið og horfir á.) Hvað heitir þú?


SADDAM

(öndunin verður áköf og óviðráðanleg og heldur þannig áfram): Ég
er.....að nálgast.....átjánda ár mitt.

DIÐRIK

Hvert er eiginnafn þitt. Hvað á ég að kalla þig?

SADDAM

Ég er herra minn dóttir móður Waterhouse.

DIÐRIK

Hvar áttu heima?

 

SADDAM

Hadfald.

DIÐRIK

Hvert er eiginnafn þitt, hvað á ég að kalla þig?

SADDAM

Ég heiti Joan

DIÐRIK

Ert þú gyft?

SADDAM

Nei.

DIÐRIK

Fara margir drengir á fjörurnar við þig?

SADDAM:

(Sár og kaldhæðnislegur hlátur.)

DIÐRIK:

Hvað hlægir þig?

SADDAM:

( ekkert svar)


DIÐRIK

Hvað ertu að gera nákvæmlega þessa stundina?

SADDAM

Ég stend í réttinum.

DIÐRIK

Hvað ertu að gera þar?


SADDAM

(hinn ókennilegi andardráttur eykst og verður óbærilegur.)

DIÐRIK

( reynir að sefa Saddam.) Við skulum hjálpa þér ef við getum.Við skulum ná í fleiri verjendur.

SADDAM

Það er of seint.



DIÐRIK

Hvað er of seint? Hversvegna ertu þarna?



SADDAM

Það er móðir mín, herra.


DIÐRIK

Já og hvað um móðir þína?


SADDAM

( spýtir illgirnislega fram í herbergið, og Pressmans bregður)

PRESSMAN

Hvað er eiginlega að gerast?

 

DIÐRIK

Hann hefur auðsjáanlega fallið í mjög djúpt dá og er að endurlifa minningar sem ég veit ekki hvaðan koma. Ég er að reyna að komast að því.

 

PRESSMAN

Þú skalt reyna að hraða þér. Við fengum aðeins leyfi fyrir útsendingunni.

 

DIÐRIK

Hvað um móðir þina Joan? Hversvegna ertu í réttinum?

SADDAM

( í  nær óheyranlegu hvísli) Það er henni að kenna að ég er hér.

DIÐRIK

Hvað segirðu?


SADDAM:

Það er hennar vegn..... sem ég


DIÐRIK

Hvað gerði hún? Og hvað ert þú ásökuð fyrir?


SADDAM:

Galdra. ( Hann  kastar orðinu villimannslega fram og andardráttur
hans dregur fram í herbergið allan hrylling þeirra tíma þegar dauðinn var
eina refsingin hæfileg þeim sem þá iðju stunduðu).


DIÐRIK

Ertu norn?



SADDAM

 Nei...nei... (hann missir andann af hryllingi)

DIÐRIK

Stundar móðir þín galdra?


SADDAM

Herra minn...hún heyrir öll.....til hinna gömlu trúar, herra minn,,,,,
en ekki ég...

DIÐRIK

Hverrar trúar ert þú?


SADDAM:

 ( svo lágt að varla heyrist) Ekki hennar....


DIÐRIK: Hvaða ár er núna, Joan, á hvaða ári erum við?


SADDAM.

Það er okkar herrans.... ár fimmtán hundruð og...

DIÐRIK

Og?

SADDAM

Fimmtíu.....

DIÐRIK:

Hvaða dómi ertu fyrir?


SADDAM:

( muldrar) Sex

DIÐRIK:

Ha ?

SADDAM

Fimmtíuog sex.


DIÐRIK

Hvaða rétti ert þú mætt fyrir?


SADDAM

Chelmsford

DIÐRIK

Chelmsford? Og hver er dómari?


SADDAM

Southcote.


DIÐRIK

Ef við þekkjum hann munum við reyna að ná til hans.

SADDAM

Bastarður.

 

PRESSMAN

Veistu nokkuð hvað hann er að tala um.

 

DIÐRIK
Nafnið Chelmsford kemur kunnuglega fyrir eyru í sambandi við
galdraofsóknir í Bretlandi á sextándu öld. Og það er eins og mig minni að þegar augun í nöfnin Waterhouse og Chelmsford hafi komið við sögu í réttarhöldum á þeim tíma.  

 

PRESSMAN

Hvernig veist þú svona mikið um galdraofsóknir

 

DIÐRIK

Ég las Para-sækólógíu og galdrar koma þar við sögu. Mig minnir að það hafi verið
réttað vegnað galdraákæru á hendur átján ára gamalli Joan Waterhouse og móður hennar Agnesar í Chelmsford á sextándu öld. Þetta eru fræg réttarhöld. Þær voru frá Essex, nánar tiltekið þorpinu Hatfield Peverell og  dómari réttarhaldsins var úr röðum lögmanna drottningar, John Southcote.

DIÐRIK:

(heldur  áfram að spyrja Saddam.)  Með þér í stúkunni er einhver annar. Hvað heitir sú persóna?

SADDAM

Francis.

 

DIÐRIK

(kinkar kolli til Pressmans)Þekkir þú séra Tómas Cole?

SADDAM

Hann talaði of mikið.

DIÐRIK

(hvíslar að Pressmans)Þetta var merkileg fullyrðing, því þessa séra Cole var getið í frásögninni
fyrir orðfimi í framburði sínum. Hver spurði spurninganna?

  

SADDAM

Meistari Gerard,..... lögmaður drottningar.

DIÐRIK

Þetta var einnig kórrétt. Lögmaður Drottningar var enginn annar en
dómsmálaráðherran sjálfur, Gilbert Gerhard.

DIÐRIK

Hversvegna halda þeir að þú sért galdranorn?

SADDAM

Það er Agnes.


DIÐRIK

Agnes, hver er Agnes?

SADDAM

Barnið lýgur.


DIÐRIK

Hversu gömul er Agnes?


SADDAM:

(eftir stutta stund, tuldrandi) Tel hana vera tólf.

DIÐRIK

Þekkir þú hana? Hvert er eftirnafn hennar?

SADDAM

Brown, Agnes Brown.


DIÐRIK

Hvað sagði barnið Agnes, að þú hafir gert?

SADDAM

Hún sagði..... Hún lýgur.


DIÐRIK

Hvað sagði hún að þú hafir gert?


SADDAM

Að ég hafi hrætt hana með svörtum hundi.


DIÐRIK

Hversvegna segir hún það?

 

SADDAM

Hún lýgur.....

DIÐRIK

Hversvegna lýgur hún?


SADDAM

Ég veit ekki hví....móðir mín á svartan hund. Hún á svarta
hundinn....ekki ég.....

DIÐRIK

Er móðir þín norn?

SADDAM

Já.

DIÐRIK
(gengur frá Saddam og tekur um arm Pressmans) Þetta er allt rétt. Í máli Joan Waterhouse var aðalvitnið illa þokkuð tólf ára stelpa sem nefnd var Agnes Brown. Dag einn er móðir hennar var að heiman, var sagt að Joan hefði komið til Agnesar og beðið hana um brauð og ost. Þegar bón hennar var hafnað, fór Joan heim og
sótti undan rúmi móður sinnar skepnu eina sem nefnd var Sathan, sem tók á sig mynd svarts hunds, til að hræða Agnesi og elta hana. Samkvæmt ákærunni á hendur Elísabetu Franssich og Móður Waterhouse, notuðu þær hinn sama Sathan í kattar og froskmyndum til ýmissa óhæfuverka. Agnes móðir Joan var fundin sek um galdra og hengd innan þriggja daga. Joan og Elísabet voru sýknaðar, en nokkrum árum seinna var réttað í Máli Elísabetar aftur og hún
þá sek fundin. 

(snýr sér aftur að Saddam) Hvers vegna heldur þú höndunum á þennan hátt?

SADDAM

Þær eru brenndar.


DIÐRIK

Brenndu þeir á þér hendurnar?

SADDAM

 Mmmmh..(auðsjáanlega að upplifa þjáninguna aftur) Það er
járnstöngin......

DIÐRIK

(við Pressmans) Hún þarna að tala um þolraunina að gangast undir dóm eldsins, þegar
hinum ákærða var gert að grípa um glóandi járnstöng.  Varstu pyntuð?

SADDAM

Mmmmmm

 

DIÐRIK

Hvernig varstu pyntuð?

SADDAM

 Nálar og.....

DIÐRIK

Nálar til að finna nornablettinn? Fundu þeir hann?

SADDAM

Nei, herra.

DIÐRIK

Fundu þeir nornablett?


SADDAM

Ég hef engan nornablett....af mér hefur enginn ári sogið.

 

PRESSMAN

(Kíkir taugaóstyrkur í gegn um lítinn glugga á klefanum.) Geturðu ekki farið að ljúka þessu. Þeir hljóta að fara að koma til að reka okkur út hvað úr hverju.

 

DIÐRIK

 þetta er allt mjög skiljanlegt með hliðsjón af siðum sextándu aldar. Hver norn átti að hafa á líkama sínum blett sem var sérstaklega næmur fyrir sársauka. Því voru nornir berháttaðar, rakaðar og stungnar um allan líkamann í leit að slíkum bletti. Samtímis var svipast um eftir auka geirvörtu, þar sem púkar gátu nært sig.

 

PRESSMAN

Já já, þetta er allt saman mjög merkilegt, en við verðum að ljúka þessu sem fyrst. Geturðu ekki vakið hann. Ekki viljum við að hann gangi dáleiddur í henginguna.

 

DIÐRIK

Jæja þá. (lýtur á klukku sína) Það er rétt við verðum að klára þetta. Joan heyriðu í mér?

 

SADDAM

 

DIÐRIK

Ég vil fá að tala við Saddam.

 

SADDAM

(Reisir sig upp og talar eðlilega) Hér er ég.

 

DIÐRIK

Þegar ég tel nefni töluna þrjá, vil ég að þú vaknir. Skilurðu það?

 

SADDAM

 

DIÐRIK

Einn, tveir, þrír.

 

PRESSMAN

(rétir Saddam höndina) Ég vildi bara þakka þér fyrir viðtalið, það var mjög fróðlegt.

 

SADDAM

(þeir takast í hendur) Þakka þér sömuleiðis. Það fór kannski út í aðra sálma en við bjuggumst við.

 

DIÐRIK

Mannstu eftir öllu sem gerðist.

 

SADDAM

Já, öllu sem okkur fór á milli.

 

DIÐRIK

Hefur þú orðið fyrir svona reynslu áður.

 

SADDAM

Ég sá þetta með auga hugans.

 (dyr klefans orpnast upp á gátt og inn koma verðir sem byrja að taka saman myndavélarnar og  fara með stólana út ) 

 

DIÐRIK

Vetu sæll. Það er leitt að við höfum ekki tækifæri til að kafa nánar ofaní þetta.

 

SADDAM

Það finnst mér ekki.

 

(Þeir Pressman og Diðrik hraða sér  út og Saddam sest á rúm sitt og horfir í gaupnir sér)

 

.


Endir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessaður Svanur .

 Það er alltaf gaman að lesa eftir þig !!

Hvað hefurðu verið Bahai lengi, ég er kristinn enn mér finnst það ekki alveg passa mér !

          Von um skjót svör Kveðja Guðrún

Guðrún (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 00:31

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Guðrún og takk fyrir innlitið.

Það er orðið ansi langt síðan ég gerðist Bahai eða 36 ár. Sem Bahai er ég líka kristinn í þeirri merkingu að ég viðurkenni Krist og opinberun hans sem Guðlega í eðli sínu.

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 31.12.2007 kl. 03:13

3 identicon

Blessaður.

Hvar er best að fá uppl um trúnna ??

Kveðja Guðrún

Guðrún (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 16:26

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Andlegt þjóðarráð bahá'ía á Íslandi
Heimilisfang:
Öldugötu 2
101 Reykjavík

Póstfang:
Pósthólf 536
121 Reykjavík

Skrifstofa og bóksala eru opin sem hér segir: Frá kl. 13:15 - 17:00 mánudaga og miðvikudaga og frá 12:30 - 17:00 þriðjudaga, fimmtudaga og föstudaga.

Sími: 567-0344
Netfang: nsa@bahai.is

Svanur Gísli Þorkelsson, 6.1.2008 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband