Kahlil Gibran og Bahai trúin

 Kraftur hans kom úr einhverri uppsprettu andlegs lífs, annars væri hann ekki svona yfirþyrmandi, en fegurð og tign orðanna sem hann klæddi kraftinn, komu frá honum sjálfum.                                                                                              Claude Bragdon 

___________________________________________________________________

 image015  Kahlil Gibran

Kahlil Gibran var fæddur í borginni Bsharri í Lebanon árið 1883. Strax í æsku var ljóst að hann bjó yfir miklum listrænum hæfileikum. Hann málaði og teiknaði og margar bóka hans eru myndskreyttar af honum sjálfum. Þegar hann var tólf ára fluttist hann ásamt foreldrum sínum til Boston borgar í Bandaríkjunum þar sem þau settust að. Tveimur árum síðar snéri hann aftur til Mið-Austurlanda og lauk þar grunnskólagöngu. Hugur hans hneigðist æ meir til lista og því ákvað hann að fara til Parísar og nema þar við hinn fræga listaskóla Ecole des Beaux Arts m.a. undir leiðsögn hins kunna franska myndhöggvara Auguste Rodin. Árið 1904 snéri Kahlil Gibran aftur til Bandaríkjanna. Hann hóf þá vinskap við Mary Haskell skólastýru í Boston sem hann skrifaði mörg einlæg og rómantísk bréf. Bréfin voru seinna gefin út árið 1972 í bókinni Spámaðurinn dáði; Ástarbréf Kahlil Gibran og Mary Haskel og einkadagbækur hennar. Fyrstu bækur Kahlil Gibran bera þess merki að hann er upptekinn af heimalandi sínu og stöðu sinni sem útlaga frá því. Bæði “Álfar Dalsins” (1910 ) og síðar “Brotnir vængir” og “Uppreisn andans” eru smásögusöfn. Í hverri sögu er aðal-sögupersónan ungur maður sem gerir uppreisn gegn lebanísku yfirstéttinni og kirkjunni. 

___________________________________________________________________

image003 New York 1912

Árið 1912 fluttist Kahlil búferlum til New York. Tveimur árum síðar þegar að heimstyrjöldin fyrri skall á, var tekið eftir skáldinu sem orti um landið sem þá þjáðist af hungursneyð. Margir urðu til að benda á að í skrifum hans væri að finna andlegan sannleika sem ekki væri beint tengdur trúarbrögðum. Víst er að skáldið átti í erfiðleikum að fóta sig meðal hefðbundinna trúarsöfnuða, því þrátt fyrir að hann játti kristna trú var hann bannfærður af Kristnu Maroníta kirkjunni í New York. Jafnframt sem Kahlil skrifaði, málaði hann og teiknaði af ákafa.  Fyrstu ljóð hans komu út árið 1914 á arabísku og voru þýdd mörgum árum seinna og gefin út í bók undir nafninu “Tár og bros”. Gagnrýnendur voru á einu máli um að í þeim væri samt að finna fleiri tár en bros. Fyrsta ritverk hans sem bæði var ritað og gefið út á ensku “Brjálæðingurinn; Dæmisögur hans og ljóð” (1918 ) Í New York bjó Kahlil Gibran á 51 West 10th street í Greenwich Village. Á þeim tíma og fram eftir öldinni þótti enginn listamaður í borginni nema að hann byggi í “þorpinu” eins og það var kallað.  Beint á móti Gibran að 48 West deildu tvær listakonur með sér húsnæði.Þær hétu Daisy Pumpelly Smythe og Juliet Thompson. Juliet sem þegar var orðin viðurkenndur málari var dóttir Ambrose White Thompson sem verið hafði góðvinur Abrahams Lincolns forseta.Til marks um hversu mikils hún var metin sem listamaður hafði hún eitt sinn verið fenginn til að mála Woodrow Wilson forseta Bandaríkjanna, þann sem átti stóran þátt í að stofna Þjóðabandalagið. Juliett hafði verið meðal nokkurra ungra listamanna sem Laura Clifford Barney bauð að koma til Parísar eftir aldamótin 1900 til frekari listnáms. Í París kynntist hún May Bolles, fyrsta bahaíanum í Evrópu. Hún hreifst af kenningum trúarinnar og gerðist bahai. Árið 1911 sótti hún heim ´Abdu´l-Bahá til landsins helga og reit um þá heimsókn sérlega hrífandi dagbók. Hús þeirra Juliet og Daisy var vinsæll samkomustaður bæði hárra sem lágra í listamannahverfinu. Meðal þeirra sem dvöldu þar um tíma, var Dimitri Marianoff, fyrrum tengdasonur Albert Einstein, sem dundaði sér við að skrifa þar bók um Bahá´í trúna. Kahlil Gibran varð einnig tíður gestur á heimilinu. Fjölmörgum árum seinna,  árið 1943, rifjaði Juliett upp í góðra vina hópi heima hjá sér, kynni sín af Kahlil Gibrran.

_______________________________________________________________

image007    Jula Thompson     image010  48 West.

Meðal þeirra sem á hlýddu var frægur bahai kennari, Marzieh Gail. Marzieh skrifaði niður frásögn Juliet og þaðan er fengin eftirfarandi lýsing á skáldinu. “Hann var hvorki fátækur né ríkur,-einhvers staðar mitt á milli. Hann vann hjá einhverju Araba fréttablaði og hafði nægan tíma til að mála og skrifa. Hann var ágætur til heilsunnar á yngri árum, en hræðilega mæddur á þeim síðari, vegna krabbameins. Hann lést fjörutíu og níu ára. Hann vissi að líf hans endaði of snemma. Teikningarnar hans voru fallegri en málverkin. Þau voru mjög misturkennd, glötuð – dulræn en glötuð. Mjög skáldleg. Sýrlendingur kom með hann að finna mig – man ekki nafn hans. Khalil sagði alltaf að ég væri fyrsti vinur hans í New York. Við urðum mjög góðir vinir, og allar bækur hans, Brjálæðinginn, Forverann, Manssoninn, Spámanninn, heyrði ég í handritabúningi. Hann færði mér alltaf bækurnar sínar. Mér líkaði best við Spámanninn”  “Hvernig Gibran kynntist Bahá´í málstaðnum fyrst, ég skal segja ykkur nákvæmlega frá því hvernig það gerðist. Ég sagði honum frá málstaðnum strax og hann hlustaði. Síðan náði hann einhvers staðar í rit Bahá´u´lláh á arabísku. Hann sagði að þau væru frábærustu bókmenntir sem ritaðar hefðu verið, og að Bahá´u´lláh hefði jafnvel fundið upp ný orð. Það væri ekki til nein arabíska sem kæmi nálægt arabísku Bahá´u´lláh.En síðan eignaðist Meistari Khalil fylgjendur. Hann sagði mér að hann tilheyrði hinum upplýstu á persnesku. Stundum reis hann á fætur og sagði, til hvers þurfum við  opinberanda Guðs. Hvert okkar getur komist í beint samband við Guð. Ég er í beinu sambandi við Guð. –Hann gekk um í vestrænum fötum, með mikið svart hár,- krullað. “Hann var kominn af gamalli sýrlenskri fjölskyldu, Afi hans var einn af biskupunum. Ég held að hann hafi alltaf verið Grísk-kristinn. Ég sá Armenna og Sýrlendinga kyssa hendur hans og kalla hann meistara. Það var einkar slæmt fyrir Khalil. Hann átti sér hundruð fylgjenda.” ...”Hann var ástafanginn af vinkonu minni – en hann bara elskaði mig og ég elskaði hann – það var ekki “sú” tegund ástar. Hann var ekki elskhugi. Hann var ekki sú tegund manns. “Hann hafði háa og viðkvæma rödd og var nánast feiminn í framkomu, þar til að út úr honum braust þrumandi ræða.Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa honum, nema að segja að hann var lifandi eftirmynd Charlie Chaplin. Ég sagði það stundum við hann. Það gerði hann hræðilega reiðan....” 

______________________________________________________________

image013 Ábdu´l-Bahá (Meistarinn) sonur Bahá´u´lláh opinberanda Bahá´i trúarinnar

 Þegar að Ábdu´l-Bahá kom til New York í nóvember árið 1912, heimsótti hann Juliet oft og hélt m.a. heima hjá henni fjölsóttan fyrirlestur.  Margir sóttust eftir að eiga með Ábdu´l-Bahá einkafundi. Þar á meðal Khalil Gibran.  “Tíminn leið. Ég sagði honum að Meistarinn væri væntanlegur. Hann spurði hvort ég gæti fengið Meistarann til að sitja fyrir hjá sér. Meistarinn gaf honum tíma kl: 6:30 einn morguninn. Hann teiknaði einstakt höfuð – Það leit ekkert út eins og Meistarinn, - mjög ólíkt. Mikill þróttur samt í öxlunum. Mikill ljómi í ásýndinni. Þetta var ekki andlitsmynd af Meistaranum, heldur verk mikils listamanns. Ég álít hann vera mikinn listamann.”  

Barbara Young segir í bók sinni “þessi maður frá Lebanon” að Gibran hafi sagt að nóttina fyrir komu ´Abdu´l-Bahá til vinnustofu hans, hafi honum ekki komið dúr á auga, því hann hefi vitað að ef hann sofnaði hefði hann hvorki haft auga né hendi til að vinna verkið. Juliet segir frá hvernig Gibran heillaðist af Meistaranum.

 “ Hann (Gibran) var mjög nægjusamur og hófsamur í einkalífi sínu. Hann hafði aldrei hitt meistarann fyrr, en þetta var upphafið að vinskap þeirra. Hann einfaldlega tilbað Meistarann. Hann var með honum hvenær sem hann mátti. Hann kom oft hingað til að sjá hann. Í Boston var hann oft með Meistaranum. En allt það er sem í þoku, það er svo langt síðan. Hann sagði mér samt tvær sögur sem finnast óborganlegar. Eitt sinn í Boston fóru þeir saman út að aka Meistarinn og Gibran. Allt í einu spurði ´Abdu´l-Bahá; hversvegna byggja þeir hús með flötum þökum? Þegar að Khalil svaraði ekki strax, svaraði Meistarinn sjálfum sé; “Vegna þess að þeir eru sjálfir hvelfingalausir”.  Öðru sinni var Khalil með Meistaranum, þegar að tvær ungar konur gengu í bæinn. Þetta voru einhverjar tískudrósir og þær spurðu mjög fánýtra spurninga. Ein þeirra vildi fá að vita hvort hún mundi giftast aftur. Meistarinn gekk óþreyjufullur um gólf, dæsandi og ranghvolfandi í sér augunum. Þegar að konurnar fóru varð honum að orði ,”gullhúðað skarn.”   Meistarinn hélt á braut og Khalil settist við skriftir á bókum sínum. En hann talaði oft um hann mjög vinsamlega og af ást. En hann gat samt ekki viðurkennt að hann sjálfur þyrfti á millilið að halda. Hann vildi sjálfur beint samband. 

_________________________________________________

Á öðrum stað í frásögn sinni segir Juliett frá áliti sínu á þeim áhrifum sem skáldverk Gibrans urðu fyrir vegna kynna sinna af Bahái málstaðnum. 

 image005 Vinnustafa Gibrans. 

image014 Teikning af Meistaranum eftir Gibran

“Ég held að það hafi ekki verið nein tengsl á milli ´Abdu´l-Bahá og “Spámannsins”. En hann sagði mér að hann hefði skrifað “Mannssoninn” undir áhrifum frá ´Abdu´l-Bahá frá upphafi til enda. Hann ætlaði að skrifa aðra bók með ´Abdu´l-Bahá sem aðalpersónu og þar mundu allir samtímamenn hans taka til máls. Hann dó áður en hann fékk skrifað bókina. Hann staðhæfði að ´Abdu´l-Bahá hefði haft áhrif á “Mannssoninn.” “Hann skrifaði bækur sínar í vinnustofunni hinumegin götunnar. Hann var vanur að hringja og biðja mig um að koma og hlusta á kaflana eftir að hann hafði lokið þeim”.

_______________________________________________________________

 

 

 Kunnasta verk hans “Spámaðurinn” kom út árið 1923. Sjálfur sagði Gibran um bókina. “Frá þeirri stundu er ég fyrst orti þessi ljóð á Líbanonsfjalli, hafa þau fylgt mér hvert sem ég hef farið. Ég lá yfir að fága handritið árum saman til að vera viss um að hvert orð væri það besta sem ég hefði upp á að bjóða.”  Bókin var sú fyrsta af þremur sem saman áttu að mynda eina heild. Sumir töldu að bókin ætti fyrirmynd í “þannig mælti Zaraþústra” eftir Nietzsche og aðrir í “Söng um sjálfan mig” eftir Walt Whitman. En þrátt fyrir einhverja ágalla er bókin langvinsælasta bók Gibrans og hefur verið þýdd á meira en 20 tungumál. Seinna eftir dauða Gibran komu hinar tvær bækurnar út “Garður spámannsins” og “Dauði spámannsins”  

Á meðan Ábdu´l-Bahá var í Banaríkjunum var gerð um hann stutt kvikmynd. Myndin var á sínum tíma sýnd víðsvegar á meðal bahaianna í vesturheimi. Kahlil Gibran fór að sjá myndina í fylgd Juliett og var jafnfram beðinn um að segja nokkur orð við lok hennar.

 “Hann sat við hlið mína á fremsta bekk og sá Meistarann lifna við fyrir augum sínum í þessari mynd. Og hann byrjaði að gráta. Við höfðum beðið hann um að segja nokkur orð þetta kvöld. Þegar að kom að honum að tala, náði hann stjórn á sér, stökk upp á sviðið og þá, drottinn minn, hágrátandi fyrir framan alla hrópaði hann; Ég lýsi því yfir að Ábdu´l-Bahá er opinberandi Guðs fyrir þennan dag...Þetta var nú ekki alveg rétt hjá honum, en samt. Hann hélt svo áfram að gráta og sagði ekki stakt orð meir. Hann komst niður af sviðinu og settist við hlið mér og grét og grét og grét. Að sjá myndina, færði hann til baka. Hann tók hendi mína og sagði “ þú hefur opnað dyr fyrir mig í kvöld, og síðan flýði hann mannfagnaðinn.Ég heyrði ekkert um málið eftir þetta. Hann minntist aldrei á það.

____________________________________________________________

image002   K. Gibran    image011 Teikning af Meistaranum eftir Gibran.

 Árið 1928 kom út síðasta bókin sem hann skrifaði “Jesús, manssonurinn, orð hans og gjörðir, eins og þær voru skráðar og sagðar af þeim sem þekktu hann.”  Þann 10 Apríl 1931 lést Khalil Gibran, 48 ára að aldri, á sjúkrahúsi í New York. Banamein hans var krabbamein í lifur. Hann var grafinn í heimaborg sinni Bsharri í Lebanon, en síðan fluttur til Mar Sarkis klaustursins þar sem hann nú hvílir í helli sem lagaður hefur verið til, svo að hann líkist Marroníta kirkju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband